Hæstiréttur íslands

Mál nr. 41/1999


Lykilorð

  • Fuglaveiði
  • Landamerki
  • Eignarréttur


                                                                                                                 

Fimmtudaginn 6. maí 1999.

Nr. 41/1999.

Ákæruvaldið

(Bogi Nilsson ríkissaksóknari)

gegn

Stefáni Örvari Hjaltasyni og

Einari Einarssyni Sigurðssyni

(Ólafur Sigurgeirsson hrl.)

Fuglaveiðar. Landamerki. Eignarréttur.

S og E voru ákærðir fyrir að hafa verið við rjúpnaveiðar án leyfis landeiganda. Landsvæðið sem um var að ræða var í um 500 metra hæð og var einkum notað til sumarbeitar. Þar sem engum gögnum var til að dreifa um að land þetta hefði verið numið í öndverðu eða hvernig það hefði síðar orðið undirorpið beinum eignarrétti landeigandans voru ákærði sýknaðir, enda þótti þinglýst landamerkjabréf jarðarinnar frá 1884 ekki nægilega styrk heimild um eignarhald hans að umræddu landsvæði.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu að fengnu áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar 11. janúar 1999 í samræmi við yfirlýsingar ákærðu um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing ákærðu verði þyngd, en ákvæði héraðsdóms um upptöku veiðifangs staðfest.

Ákærðu krefjast sýknu af kröfum ákæruvaldsins.

I.

Ákærðu er gefið að sök að hafa brotið gegn ákvæði 2. mgr. 8. gr. laga nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum með því að hafa verið við rjúpnaveiðar 29. október 1997 án leyfis landeigenda „austan í 500 metra háu felli norður af Sauðafellsmúlum, í landi Sandfellshaga I og II, Öxarfjarðarhreppi ...”, eins og í ákæru segir. Í málinu liggur fyrir landamerkjabréf fyrir Sandfellshaga, sem var lesið á manntalsþingi 25. júní 1884. Óumdeilt er hvar ákærðu voru við veiðar umrætt sinn og að það hafi verið innan merkja jarðarinnar samkvæmt nefndu bréfi. Var þetta nánar tiltekið á hálendi á Öxarfjarðarheiði, tæpum þremur kílómetrum frá eystri mörkum Sandfellshaga I og II, en rúmum ellefu kílómetrum frá bæjarhúsum, sem eru nærri vestur mörkum jarðarinnar.

Af hálfu ákæruvalds er á því byggt að ákærðu hafi verið óheimil veiði á þessum stað, enda njóti landeigendur einkaréttar til dýraveiða á landareign sinni, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 64/1994. Samkvæmt 1. gr. laganna sé landareign í þessum skilningi jörð eða annað landsvæði, sem sé háð beinum eignarrétti einstaklings eða lögaðila. Í ljósi lögskýringargagna verði að skýra þetta hugtak með tilliti til fyrirmæla, sem áður voru í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 33/1966 um fuglaveiðar og fuglafriðun, um að landamerki jarðar hverrar skyldu ráða fuglaveiðum á landi, þótt þetta sé ekki tekið fram í núgildandi lögum. Landamerki Sandfellshaga I og II samkvæmt áðurnefndu þinglýstu landamerkjabréfi séu ekki umdeild. Hafi ákærðu því unnið til refsingar með háttsemi sinni.

Ákærðu reisa kröfur sínar á því að ekkert hafi komið fram í málinu, sem sanni að veiðislóð þeirra á Öxarfjarðarheiði sé háð fullkomnum eignarrétti. Veiðin hafi því verið þeim heimil samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 64/1994.

II.

Eins og greinir í héraðsdómi er því lýst í Landnámu að Einarr Þorgeirsson hafi helgað sér allt land í Öxarfirði austan Jökulsár. Því er og lýst að Ketill Þistill hafi numið Þistilfjörð milli Hundsness og Sauðaness. Um nánari mörk landsvæðanna, sem voru numin samkvæmt þessu, mun ekki njóta við heimilda.

Í lýsingu umboðsjarða Munkaþverárklausturs í Skinnastaðahreppi 1. maí 1878 sagði meðal annars eftirfarandi um Sandfellshaga: „Heiðarland mikið fylgir jörðinni og er það líka að blása upp. Beitiland þarf einnig á stundum að fá að á vetrum. Þess má geta að skilríki eigna jörðinni Klifshaga 2ja mánaða selstöðu á landareigninni í svokölluðu Mýrarseli ...“. Mýrarsel mun vera nærri austurmörkum jarðarinnar eins og þeim er lýst í fyrrnefndu landamerkjabréfi, sem er annars elsta gagnið í málinu um land hennar. Á því svæði munu á síðustu öld hafa verið reist þrjú nýbýli. Meðal þeirra var Melur, þar sem aðeins mun hafa verið búið um eins árs skeið frá 1861 til 1862. Það nýbýli mun hafa verið innan merkja Sandfellshaga, svo sem þeim er lýst í landamerkjabréfinu. Engin gögn hafa verið lögð fram um að eigendur Sandfellshaga hafi heimilað að það nýbýli yrði reist eða að þeim hafi verið afsalað land þess þegar byggð lagðist þar af.

Verulegur hluti landsins á Öxarfjarðarheiði, sem telst til Sandfellshaga samkvæmt landamerkjabréfi jarðarinnar, er í 300 til 500 metra hæð yfir sjávarmáli. Í gögnum málsins er því lýst að land þetta sé að mestu nýtt til sumarbeitar fyrir sauðfé. Hafi eigendur annarra jarða nýtt landið á þennan hátt til jafns við eigendur Sandfellshaga án þess að leita til þess sérstakra heimilda. Þeir síðastnefndu hafi jafnframt nýtt landið til berja, grasa og rjúpnaveiða, svo og eigendur annarra jarða með heimild þeirra. Frá Sandfellshaga hafi landið að austanverðu einnig verið áður fyrr nýtt til slægna að einhverju leyti.

Fyrir héraðsdómi greindi Sigurður Jónsson, sem var bóndi að Sandfellshaga frá um 1940 til 1967, frá því að heiðarland hafi lítillega verið nýtt þaðan til vetrarbeitar ef tíð var góð, stundum allt til jóla. Heiðin hafi verið eitt leitarsvæði og fjallskil sameiginleg. Hann lýsti heiðinni sem afrétti, en staðnum, þar sem skil heimalands og afréttarlands hafi verið, á svæði, sem ráðið verður af gögnum málsins að sé um þremur kílómetrum austan við bæjarhús Sandfellshaga. Grímur Jónsson, bóndi á Klifshaga, sem er jörð vestan við Sandfellshaga, sagði á sama hátt fyrir héraðsdómi frá fjallskilum og mörkum heimalands síðarnefndu jarðarinnar og afréttarlands.

III.

Landsvæðið, þar sem ákærðu voru við rjúpnaveiðar 29. október 1997, er sem áður segir í um 500 metra hæð yfir sjávarmáli. Af ljósmyndum, sem liggja fyrir í málinu, verður ráðið að land sé þar lítt gróið. Ekkert hefur komið fram um að land þetta hafi í öndverðu verið numið eða hvernig það geti annars hafa orðið háð beinum eignarrétti. Heimildir um eignarhald Sandfellshaga yfir landinu eru í reynd ekki aðrar en landamerkjabréfið, sem var þinglýst 25. júní 1884, enda verður ekki ráðið með vissu af því, sem segir í fyrrnefndri lýsingu umboðsjarða Munkaþverárklausturs frá árinu 1878, að land á Öxarfjarðarheiði hafi þá verið talið eignarland jarðarinnar. Fyrrnefndar upplýsingar um nýtingu landsins og fjallskil styðja ekki að það sé háð beinum eignarrétti.

Ekki eru efni til að fallast á þá lögskýringu ákæruvalds að heimildir um landamerki jarðar geti einar nægt til þess að almenningi séu vegna ákvæðis 2. mgr. 8. gr. laga nr. 64/1994 óheimilar fuglaveiðar á landi án sérstaks leyfis, algerlega óháð því hvort aðrar heimildir styðji að það sé háð beinum eignarrétti. Þegar litið er til þess, sem að framan greinir um heimildir fyrir eignarrétti að landinu þar sem ákærðu voru við veiðar umrætt sinn, verður að telja slíkan vafa vera um að stofnast hafi að lögum til beins eignarréttar eigenda Sandfellshaga yfir því að sýkna verður ákærðu af kröfum ákæruvaldsins í málinu, sbr. 45. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

Eftir þessum úrslitum málsins verður allur sakarkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti lagður á ríkissjóð, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærðu, Stefán Örvar Hjaltason og Einar Einarsson Sigurðsson, eru sýknir af kröfum ákæruvaldsins.

Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu í héraði og fyrir Hæstarétti, Ólafs Sigurgeirssonar hæstaréttarlögmanns, samtals 225.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 14. desember 1998.

Mál þetta, sem dómtekið var þann 3. nóvember sl. að lokinni aðalmeðferð, var höfðað með ákæruskjali lögreglustjórans á Húsavík, útgefnu 12 maí 1998 á hendur Stefáni Örvari Hjaltasyni, kt. 250842-3689, Vogsholti 7, Raufarhöfn og Einari E. Sigurðssyni, kt. 130267-3789, Vogsholti 12, Raufarhöfn;

„…fyrir veiðilagabrot með því að hafa hinn 29. október 1997 verið á rjúpnaveiðum austan í 500 metra háu felli norður af Sauðafellsmúlum, í landi Sandfellshaga I og II, Öxarfjarðarhreppi, staðsetning samkvæmt GPS N. 66 07 020 – W. 16 08 585, án leyfis landeiganda.

Telst þetta varða við 2. mgr. 8. gr., sbr. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 64, 1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar.“

Með framhaldsákæru útgefinni 29. júní 1998, var þess krafist af hálfu lögreglustjórans á Húsavík að ákærða Stefáni Örvari yrði gert að sæta upptöku á 22 rjúpum og ákærða Einari á 29 rjúpum og var vísað til 3. mgr. 19. gr. laga nr. 64/1994.

Við aðalmeðferð málsins krafðist saksóknari hæfilegra saksóknarlauna.

Ákærðu hafa haldið uppi vörnum og krafðist skipaður verjandi þeirra Ólafur Sigurgeirsson, héraðsdómslögmaður, að þeir yrðu sýknaðir af kröfum ákæruvalds og að málskostnaður, þ.m.t. hæfileg málsvarnarlaun, greiddist úr ríkissjóði.

I.

Málavextir.

1. Fyrir dómi hafa ákærðu, Stefán Örvar og Einar E. Sigurðsson, skýlaust játað að hafa verið við rjúpnaveiðar austan í 500 metra háu felli norður af Sauðafellsmúlum á Öxarfjarðarheiði hinn 29. október 1997, líkt og lýst er í ákæruskjali, en veiðisvæðið er einnig nefnt Þverfell af staðkunnugum.

Fyrir liggur í málinu að ábúendur og þinglýstir eigendur að Sandfellshaga I og II kærðu veiðar ákærðu og að lögregla hafði afskipti af þeim nefndan dag og tók veiðifang þeirra í sínar vörslur.

Af hálfu ákæruvalds er á því byggt að ákærðu hafi brotið gegn 2. mgr. 8. gr. laga nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum með því að hafa skotið rjúpur í landi Sandfellshaga án leyfis landeiganda. Samkvæmt nefndu lagaákvæði er landeiganda einum heimil fuglaveiði á landareign sinni nema lög mæli öðru vísi fyrir. Samkvæmt orðskýringu í 1. gr. laganna er landareign í þessum skilningi jörð eða annað landsvæði, sem háð er beinum eignarrétti.

Af hálfu ákærðu er vísað til 1. mgr. 8. gr. nefndra laga en þar er kveðið á um að öllum íslenskum ríkisborgurum og erlendum ríkisborgurum með lögheimili hér á landi sé heimil fuglaveiði í almenningum og á afréttum utan landareignar lögbýla enda geti enginn sannað eignarrétt sinn til þeirra.

2. Samkvæmt Landnámu nam Einarr, sonur Þórdísar Torf-Einars jarls og Þorgeirs Klaufa, Öxarfjörð, austan Jökulsár. Þá nam Ketill Þistill Þistilfjörð milli Hundsness og Sauðaness. Vísbendingar um mörk nefndra landsvæða eða einstakra lögbýla verða ekki dregnar af Landnámu.

Af gögnum sem lögð hafa verið fyrir dóminn af hálfu ákæruvalds verður ráðið að Sandfellshagi hafi fyrr á öldum líkt, og fleiri jarðir í Öxarfirði, verið umboðsjörð Munkaþverárklausturs, sbr. Ferðabók Eggerts og Bjarna frá 1703, jarðamat frá 1849 og umboðslýsingu frá 1878. Fyrir liggur og virðingargjörð jarðarinnar frá árinu 1906, sem gerð var samkvæmt lögskipan frá 20. október 1905, en þar segir þar m.a.:

„Bærinn í Sandfellshaga stendur við Öxarfjarðarheiði og byrja heiðarbrekkurnar rétt ofan við bæinn. Land jarðarinnar takmarkast á þrjár hliðar af jörðunum: Þverá að norðan, Klifshaga að vestan og sunnan af landi eyðijarðanna Leifstaða og Skeggjastaða (eyðijarðar frá Klifshaga). Frá suðri til norðurs er breidd Sandfellshagalands um 6-700 faðmar þar sem bærinn stendur, frá honum og vestur að Klifshagalandamerkjum eru rúmir 200 faðmar, en austan til heiðarinnar verður þessi landtunga, er jörðinni fylgir um 2 ½ míla, er hún nokkru breiðari á parti en mjókkar aftur er austar dregur. Hefir því jörðin mjög lítið land til beitar að vetrarlagi, því bæði er landið sem næst liggur mjög lítið, og svo kemur það oft fyrir að strax á haustin, eða þegar harðnar veðrátta, leggur snjóþunga undir hlíðarhallann, svo að beit missist þá þegar.“ „Lítið engi er í landi jarðarinnar. Það sem helst má nefna er engjablettur á heiðinni, austur við landamerki sem mætti fá um 40 hesta af annað hvort ár, er hey þaðan lítil en ekki óholl ef það verkast vel. Líka hefir ábúandinn getað slegið fáeina hesta af svonefndum „fimmungi“ og lyngi við og við í heiðarhöllunum, og er það hey lélegt fóður og sinumikið.“

Í ritsafni Þingeyinga frá árinu 1959 í kaflanum „Lýsing Þingeyjarsýslu“ er landsháttum í Sandfellshaga lýst þannig:

„Bærinn er stutt norðvestur af Sandfelli, norðan við Skeggjastaðaá. Er hann næsti bær við Öxarfjarðarheiði.“ „Frá Sandfellshaga hallar landinu jafnt uppá heiðina. Þar eru ásar nokkuð blásnir að ofan, einkum sunnan við ána, en annars grösugar hlíðar, vaxnar kjarri á stöku stað. Heiðarland er mikið og gott, en heimahagar á láglendi til vetrarbeitar eru litlir. Tún eru grasgefin og hallar vel mót suðvestri. Útengi er ekkert í heimahögum. Skammt frá eyðibýlinu Mel á heiðinni heitir Mýrarsel. Þangað mun hafa verið selför frá Sandfellshaga í fyrri daga, og heyjað hefur verið þar oft fram á síðustu ár.“

3. Í landamerkjalýsingu fyrir Sandfellshaga frá 16. janúar 1883, sem þinglesin var á manntalsþingi 25. júní 1884 er merkjum jarðarinnar lýst svofellt:

„Að sunnan milli Klifshaga, Leifsstaða, Hafrafellstfungu og Sandfellshaga. Úr Skeggjastaðaárkrók og þaðan beina stefnu í Jónsvörðu, þaðan beint í Sjónarhól og síðan beint í Arnarþúfu, svo í Fjórðungshól og þaðan í vörðu í Langás austur í Búrfellsheiði.

Að austan: Úr vörðu í Langás í Djúpá og eftir henni í gil, sem liggur milli Djúpárbotna og Mýrarsels og þaðan í vörðu við Ormarsá.

Að norðan: Úr vörðunni við Ormarsá og beina línu vestur í Kálfhól og þaðan í Vörðuhól, og síðan í Sandskarðið í jarðbakkanum í Skeggjastaðakrók.“

Undir ofangreinda merkjalýsingu rituðu samþykki sitt eigendur og umboðsmenn aðliggjandi jarða, að norðan, vestan og sunnan, þ.e. Leifsstaða, Klifshaga, Þverár og Hafrafellstungu. Undir rekstri þessa máls voru framangreind merki dregin á kort í stærðarhlutföllunum 1:50.000 og árituðu núverandi jarðeigendur um að merkin væru ágreiningslaus. Þá er á kortinu áritun oddvita Svalbarðshrepps í Þistilfirði um að austurmörk landareignarinnar væru ágreiningslaus. Loks er á kortinu merki lögreglu þar sem lögreglumenn höfðu afskipti af ákærðu þann 27. október 1997.

4. Við meðferð málsins var framburður ákærðu samhljóða um að þeir hefðu ekki þekkt landamerki Sandfellshaga, en veiðisvæðinu lýstu þeir þannig að gróður hafi verið upp undir efstu hlíðar Þverfellsins, en þar ofar melar og sandur. Er lýsing ákærðu í samræmi við ljósmyndir lögreglu sem teknar voru á vettvangi þann 29. október 1997. Fyrir dómi hafa ákærðu og viðurkennt að þeir hafi við veiðarnar verið innan óskipts lands Sandfellshaga I og II, ef mið væri tekið af landamerkjalýsingu jarðarinnar frá árinu 1883. Ákærðu hafa á hinn bóginn borið brigður á að landamerkjalýsingin sé næg sönnun fyrir beinum eignarrétti landeigenda með vísan til þess að landssvæðið sé hálendi og því utan landareigna lögbýla. Að auki hafi landamerkjalýsingin frá 1883 ekki verið samþykkt af fyrirsvarsaðilum sem land áttu að austurmerkjum Sandfellshaga.

Við meðferð málsins hafa gefið vitnaskýrslur núverandi ábúendur svo og þinglýstir eigendur Sandfellshaga I og II, þeir Gunnar Björnsson, fæddur 1965, Björn Víkingur Björnsson, fæddur 1968, Björn Benediktsson, fæddur 1930 og Þórarinn Björnsson, fæddur 1933, en einnig Sigurður Jónsson, fæddur 1917, fyrrverandi bóndi. Samkvæmt vætti þeirra eru bæjarhúsin í Sandfellshaga við vesturmörk landareignarinnar, í um 150 m hæð yfir sjávarmáli. Vitnin báru að mörk heimalands og afréttar væru harla óljós, en heiðarlandið kváðust þeir einkum hafa nýtt til sumarbeitar, en einnig kváðust þeir hafa beitt þar á vetrum í góðu árferði. Þá kváðu þeir búfénað frá lögbýlum í nágrenninu einnig hafa haft sumarbeit á heiðinni og vísuðu til þess girðingar hindruðu ekki aðgang að landinu. Þeir kváðu fjallskil og hafa verið sameiginleg með öðrum býlum. Vitnin báru að land jarðarinnar hefði verið nytjað allt að austurmörkum landareignarinnar, t.d. slægjur í Mýrarselsbotnum og grasatekja í Djúpárbotnum, en einnig til rjúpnaveiði, berjatínslu og malarnáms.

Vitnið, Grímur Jónsson, bóndi í Klifshaga, fæddur 1922, bar fyrir dómi að hann hefði á árum áður aðstoðað ábúendur í Sandfellshaga við heyskap í Mýrarselsbotnum. Þá kvaðst hann hafa rekið búfénað sínn til sumarbeitar á heiðarland Sandfellshaga, en ekki haft önnur not af landinu nema með samþykki landeiganda.

Vitnið, Kristján Benediktsson, bóndi að Þverá, fæddur 1917, kvaðst fyrir dómi hafa stundað rjúpnaveiðar í heiðarlandi Sandfellshaga með samþykki landeiganda.

Niðurstaða.

Samkvæmt landamerkjalýsingu Sandfellshaga, sem þinglýst var 25. júní 1884, fylgja merki jarðarinnar að austan Ormarsá, suður um Mýrarselsbotna og Botnagil. Um Botnagil eru vatnaskil milli Ormarsá og Djúpár. Liggja landamerkin síðan suður með Djúpánni um Djúpárbotna og þaðan suðvestur að vörðu yst á Langás, við mót Svalbarðsár. Samkvæmt gögnum málsins eru nefnd landamerki austasta leitarsvæði Öxfirðinga.

Óumdeilt er að ákærðu voru við rjúpnaveiðar í landi Sandfellshaga sé mið tekið af ofangreindum landamerkjum. Var veiðisvæði þeirra nánar tiltekið 2-2,5 km. vestan við nefnd austurmörk landareignarinnar, á landi sem er um 450-500 m. hæð yfir sjávarmáli samkvæmt framlögðum landamerkjakortum. Samkvæmt eigin frásögn ákærðu, sem er í samræmi við önnur gögn, var gróður á veiðisvæðinu nálægt efstu hlíðum. Austan veiðisvæðisins, í Mýrarsels- og Djúpárbotnum, og vestan þess, á svonefndum Urðum, lækkar landið í 300-400 m. Af gögnum málsins er og nægjanlega upplýst að ábúendur í Sandfellshaga hafa frá fornu fari nýtt nefnt landsvæðið við búrekstur sinn, þ.á.m. slægjur, en einnig til grasatekju og berjatínslu, og síðar til malarnáms, auk beitar.

Landamerki Sandfellshaga eru ágreiningslaus, en afmarkast auk þess að austanverðu af glöggum landfræðilegum merkjum. Er og ekkert það komið fram í málinu að landsvæðið sé ekki undirorpið fullkomnum eignarétti. Breytir upprekstrarréttur annarra lögbýla og fjallskil þar engu um.

Voru ákærðu því óheimilar fuglaveiðar á landinu án leyfis landeiganda. Telst því sannað, að ákærðu hafi gerst sekir um þá háttsemi, sem greind er í ákæru og þar réttilega færð til refsiákvæða.

II.

Samkvæmt vottorðum sakaskrár ríkisins hefur ákærði Einar E. Sigurðsson ekki fyrr sætt refsingu, þá hefur sakarferill ákærða Stefáns Örvars ekki áhrif í máli þessu.

Þykir refsing ákærðu hvors um sig hæfilega ákveðin 25.000. kr. sekt til ríkissjóðs og komi 5 daga fangelsi í stað sektarinnar greiði þeir hana ekki innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins.

Samkvæmt þeim lagaákvæðum sem vísað er til í ákæru er fallist á upptöku á veiðifangi ákærða Stefáns Örvars, 22 rjúpum, og veiðifangi ákærða Einars, 29 rjúpum.

Loks ber að dæma ákærðu til að greiða allan kostnað sakarinnar óskipt, þar með talin saksóknarlaun til ríkissjóðs, sem ákveðast 60.000 kr., en málið flutti af hálfu ákæruvalds Snædís Gunnlaugsdóttir, fulltrúi lögreglustjórans á Húsavík og málsvarnarlaun skipaðs verjanda, Ólafs Sigurgeirssonar, héraðsdómslögmanns, sem þykja hæfilega ákveðin 75.000 kr. Við ákvörðun málsvarnarlauna er tekið tillit til þess tíma sem fór í ferðalög verjandans vegna reksturs málsins

Dómsuppkvaðning hefur dregist nokkuð vegna starfsanna dómara.

Dóm þennan kvað upp Ólafur Ólafsson, héraðsdómari.

Dómsorð:

Ákærðu, Stefán Örvar Hjaltason og Einar E. Sigurðsson, greiði hvor um sig 25.000 kr. sekt til ríkissjóðs og komi 5 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins að telja.

Ákærði Stefán Örvar sæti upptöku á 22 rjúpum og ákærði Einar á 29 rjúpum, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.

Ákærðu greiði sakarkostnað óskipt, þar með talin saksóknarlaun til ríkissjóðs 60.000 kr. og málsvarnarlaun skipaðs verjanda, Ólafs Sigurgeirssonar, héraðsdómslögmanns, 75.000 kr.