Hæstiréttur íslands

Mál nr. 674/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Opinber skipti
  • Dánarbú
  • Hjúskapur


Mánudaginn 4. nóvember 2013.

Nr. 674/2013.

B

(Grímur Sigurðsson hrl.)

C og

(Sigurður Ingi Halldórsson hdl.)

D

(Berglind Svavarsdóttir hrl.)

gegn

A

(Sigríður Rut Júlíusdóttir hrl.)

Kærumál. Opinber skipti. Dánarbú. Hjúskapur.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu A um að dánarbú F yrði tekið til opinberra skipta. Börn F töldu A ekki lögerfingja föður síns þar sem þau hafi verið skilin að skiptum og F hafi átt rétt á leyfi til skilnaðar að borði og sæng er hann lést. Í málinu lá fyrir að skilnaðarleyfi hafði ekki verið gefið út við andlát F. Í dómi Hæstaréttar sagði meðal annars að samkvæmt hjúskaparlögum nr. 31/1993 yrði hjúskap annað hvort slitið með ákvörðun stjórnvalds eða dómi að undangenginni málshöfðun samkvæmt XI. kafla laganna. Þar sem sýslumaður hafði ekki gefið út leyfi til skilnaðar að borði og sæng eða dómur gengið um hjúskaparslit F og A hafi þau að lögum enn verið í hjúskap við andlát hans. Samkvæmt því væri A eftirlifandi maki F og þar með lögerfingi hans samkvæmt 4. tölulið 1. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Væri hún því bær til að krefjast opinberra skipta á dánarbúi hans samkvæmt 1. mgr. 38. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 9. október 2013 sem barst Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. september 2013 þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að dánarbú F, sem lést [...] október 2012, verði tekið til opinberra skipta. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðilar krefjast þess að hafnað verði kröfu varnaraðila um opinber skipti á áðurnefndu dánarbúi. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Málsatvikum er skilmerkilega lýst í hinum kærða úrskurði.

Samkvæmt hjúskaparlögum nr. 31/1993 verður hjúskap annað hvort slitið með ákvörðun stjórnvalds eða dómi að undangenginni málshöfðun samkvæmt XV. kafla laganna. Þar sem sýslumaður hafði ekki gefið út leyfi til skilnaðar að borði og sæng eða dómur gengið um slit hjúskapar F og varnaraðila voru þau að lögum enn í hjúskap við andlát hans. Samkvæmt því er varnaraðili eftirlifandi maki F og þar með lögerfingi hans samkvæmt 4. tölulið 1. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Er hún því bær til að krefjast opinberra skipta á dánarbúi hans samkvæmt 1. mgr. 38. gr. laga nr. 20/1991. Þegar af þeirri ástæðu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Sóknaraðilar verða dæmd til að greiða óskipt varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðilar, B, C og D, greiði óskipt varnaraðila, A, 250.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. september 2013.

                Mál þetta, sem barst Héraðsdómi Reykjavíkur með bréfi mótteknu 19. desember 2012, var tekið til úrskurðar 17. september sl.

                Sóknaraðili er A, kt. [...], með lögheimili að [...], Reykjavík.

                Varnaraðilar eru B, kt. [...], [...], [...], C, kt. [...], [...], [...] Reykjavík og D, kt. [...], [...], [...] Reykjavík. Fyrirsvarsmaður D er móðir hans, E, kt. [...].

                Dómkröfur sóknaraðila eru þær að dánarbú F, kt. [...], sem lést [...] október 2012, síðast til heimilis að [...], Reykjavík, verði tekið til opinberra skipta. Jafnframt krefst hún málskostnaðar að teknu tilliti til virðisaukaskatts. Þá krafðist sóknaraðili þess við aðalmeðferð málsins að varnaraðilum yrði gert að greiða álag á málskostnað, sbr. c-lið 1. mgr. og 2. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991.

                Varnaraðilar krefjast þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað og að henni verði gert að greiða þeim, hverju fyrir sig, málskostnað að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

I

                F lést [...] október 2012. Þann [...] [...] 2005 gekk hann í hjónaband með sóknaraðila. Voru þau búsett í Reykjavík og á [...] á sambúðartíma sínum. Þau eignuðust ekki börn saman, en fyrir átti F börnin B, C og D, varnaraðila þessa máls.

                Í kröfu sóknaraðila um opinber skipti eru helstu eignir búsins tilgreindar þannig:

1.    Hlutur í hlutafélaginu G hf., kt. [...].

2.    Hlutur í hlutafélaginu H hf., kt. [...].

3.    Öll húseignin að [...], Reykjavík, fastanúmer [...].

4.    Íbúð að [...], Reykjavík, fastanúmer [...].

5.    Bifreiðin [...].

6.    I, sumarhús að [...], fastanúmer [...].

7.    Innbú að I, þ.m.t. heimilistæki, sjóköttur og tilheyrandi útbúnaður sem slíku tæki fylgir.

8.    Einbýlishús að [...], [...], [...] á [...] ásamt innbúi og [...] bifreið árgerð 1996 sem vistuð er á sama stað.

9.    Innstæður í innlendum bönkum og sparisjóðum, sem og innlend verðbréf og hugsanlegar skuldabréfakröfur.

10.Bátur sem vistaður er á [...] við sumarhúsið I.

11. Innbú að [...], þ.m.t. mörg verðmæt málverk, ný heimilistæki, bókasafn, frímerkjasafn, byssusafn, laxveiðiútbúnaður, leðursófasett, flatskjár, Bang&Olufsen hljómflutningstæki, borð úr hnoturót o.fl.

12. [...] bifreið árgerð 2004 vistuð hjá sóknaraðila á [...].

                Sóknaraðili kvað sér í beiðni sinni ekki vera fullkunnugt um skuldir hins látna utan þess sem getið er í skattframtali 2012.

                Samkvæmt gögnum málsins óskaði F skilnaðar að borði og sæng hjá sýslumanninum í Reykjavík með bréfi 25. júlí 2012. Voru F og sóknaraðili boðuð til fyrirtöku málsins hjá sýslumanni 20. ágúst 2012. Sóknaraðili mætti ekki til fyrirtökunnar og var málinu frestað. Sóknaraðila var send önnur boðun til viðtals 3. september 2012, en hún óskaði þess að fyrirtökunni yrði frestað þar sem hún væri erlendis og var hún boðuð á ný til viðtals 22. október 2012.

                Fjárskiptasamningur var ekki gerður á milli F og sóknaraðila. Í september 2012 óskaði F opinberra skipta til fjárslita milli þeirra sóknaraðila, sbr. 98. gr. laga nr. 20/1991. Var bú þeirra tekið til opinberra skipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 1. október 2012 og var Valborg Þ. Snævarr hæstaréttarlögmaður skipuð skiptastjóri í búinu.

                Þann 2. október 2012 mætti lögmaður F til sýslumannsins í Reykjavík og lagði fram úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um opinber fjárskipti. Bókað var eftir lögmanninum að lögmaður sóknaraðila hefði fullvissað hann, m.a. með tölvuskeyti, um að þegar úrskurður um opinber skipti lægi fyrir myndi lögmaðurinn samþykkja skilnað að borði og sæng fyrir hennar hönd. Málinu var frestað til fyrirtöku með sóknaraðila.

                Á skiptafundi vegna opinberra skipta til fjárslita 4. október 2012 upplýsti lögmaður F að hann hefði látist [...] dögum fyrr. Skilnaðarleyfi hafi ekki verið gefið út fyrir andlátið. Taldi skiptastjóri af þessu leiða að um dánarbú væri að ræða en ekki fjárskipti vegna skilnaðar og væri meðferð málsins því lokið. Í kjölfarið tilkynnti skiptastjóri Héraðsdómi Reykjavíkur um skiptalok.

                Varnaraðilar, B og C, óskuðu þess 11. október 2012 að sýslumaðurinn í Reykjavík gæfi út skilnaðarleyfi sem miðaðist við 2. október 2012, þar sem skilyrði til þess hefðu þá verið uppfyllt. Sýslumaðurinn hafnaði þeirri beiðni með ákvörðun 18. október 2012, þar sem fram kom að ekki hefði tekist að afla afstöðu sóknaraðila og aðilar hefðu því verið í hjúskap þegar eiginmaðurinn hafi látist. Var málinu vísað frá embættinu.

                Þann 23. nóvember 2012 óskuðu allir varnaraðilar endurupptöku á ákvörðun sýslumanns frá 18. október. Var þeirri beiðni hafnað. Varnaraðilar, B og C, kærðu framangreinda ákvörðun til innanríkisráðuneytisins 17. desember 2012. Með úrskurði 6. ágúst 2013 úrskurðaði ráðuneytið að ákvörðun sýslumanns skyldi standa óhögguð.

                Við aðalmeðferð málsins gaf sóknaraðili skýrslu, auk vitnisins Magnúsar Helga Árnasonar héraðsdómslögmanns.

II

         Samkvæmt greinargerð sóknaraðila er krafa hennar reist á 1. mgr. 38. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Telur hún öll skilyrði ákvæðisins uppfyllt; dánarbúið sé óskipt, heimild til einkaskipta hafi ekki verið veitt, sóknaraðili hafi ekki óskað eftir setu í óskiptu búi og sóknaraðili sé erfingi F, eiginmanns hennar, lögum samkvæmt.

         Við andlát F hafi þau verið í hjónabandi sem ekki hafði verið slitið með hjónaskilnaði, ógildingu hjúskapar með dómi eða með skilnaði að borði og sæng. Sóknaraðili sé þar með erfingi Fsem maki hans, sbr. 4. tölulið 1. gr. erfðalaga nr. 8/1962, sem og 26. gr. sömu laga. Sóknaraðili sé sannanlega lögerfingi F, meðal annars samkvæmt opinberum skráningum sýslumannsins í Reykjavík.

                Sóknaraðili telji að til sé erfðaskrá sem F muni hafa samið fyrir andlát sitt, en hún hafi ekki séð hana og hún sé ekki skráð eða varðveitt hjá sýslumanni. Hún telji að erfðaskráin sé í vörslum varnaraðila.

                Í 1. mgr. 38. gr. laga nr. 20/1991 sé kveðið á um skilyrðislausan rétt erfingja til þess að krefjst opinberra skipta, svo lengi sem skiptum hafi ekki verið lokið með veitingu leyfis til setu í óskiptu búi eða vegna eignaleysis búsins. Heimild þessi sé með öllu óháð vilja annarra erfingja. Rétturinn til að krefjast skipta á grundvelli ákvæðisins sé skýr og tvímælalaus. Hann sé heldur ekki háður neinni slíkri forsendu að skiptabeiðandi sýni að fyrra bragði fram á réttmæti arfstilkalls síns heldur sé nægjanlegt að styðja rétt sinn við þá forsendu að skiptabeiðandi sé með réttu erfingi hins látna. Það liggi fyrir í málinu að sóknaraðili sé með réttu erfingi hins látna. Sönnunarbyrði um annað hvíli á varnaraðilum.

                Þá vísi sóknaraðili til sanngirnisraka og eðlis máls hvað kröfu hennar varði. Þótt vilji F kunni á einhverjum tíma að hafa staðið til þess að slíta samvistum við sóknaraðila þá hafi hann aldrei gengið frá slíkum hjúskaparslitum, hann hafi til að mynda ekki lagt fram fjárskiptasamning. F hafi aldrei kynnt sóknaraðila neinar hugmyndir sínar um hugsanleg fjárskipti þeirra í milli, en slíkur fjárskiptasamningur sé forsenda þess að skilnaður að borði og sæng með samkomulagi hjóna sé veittur. Þá hafi sóknaraðili ekki veitt samþykki sitt fyrir skilnaði að borði og sæng hjá sýslumanni til að gefa mætti út skilnaðarleyfi á milli hennar og F. Önnur niðurstaða en sú sem heimili maka erfðarétt, sbr. 26. gr. erfðalaga nr. 8/1962, og rétt til að krefjast opinberra skipta á dánarbúi maka, sbr. 1. mgr. 38. laga nr. 20/1991 um skipti dánarbúa o.fl., sem og 4. tölulið 1. mgr. 1. gr. erfðalaga, væri á skjön við sanngirnisrök sem og brýnt brot gegn 71. og 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944.

                Í þinghaldi í máli þessu 18. janúar 2013 hafi lögmaður varnaraðila mótmælt kröfu sóknaraðila um opinber skipti með vísan til 2. mgr. 38. gr. skiptalaga, samkvæmt bókun í þingbók. Ekki verði séð að það lagaákvæði eigi við enda fjalli það ákvæði um kröfu um dánarbússkipti þegar skiptum sé lokið í búi.

                Sóknaraðili vísi meðal annars til 1. mgr. 38. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. og 4. töluliðar 1. mgr. 1. gr. og 26. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Kröfu um málskostnað styðji sóknaraðili við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sem og 131. gr. laga nr. 20/1991. Krafa um virðisaukaskatt sé byggð á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt með síðari breytingum.

III

                Varnaraðilar reisa kröfu sína á því að sóknaraðila bresti heimild til þess að krefjast opinberra skipta þar sem hún sé ekki lögmætur erfingi hins látna. Sóknaraðili byggi kröfu sína á 1. mgr. 38. gr. laga nr. 20/1991 en samkvæmt henni geti erfingi krafist þess að dánarbú verði tekið til opinberra skipta hafi skiptum ekki verið lokið samkvæmt 25.–27. gr. laganna, hvort sem leyfi hefur áður verið veitt til einkaskipta eða ekki. Af gagnályktun frá þessu ákvæði sé ljóst að aðrir en erfingjar hins látna geti ekki krafist opinberra skipta.

                Varnaraðilar telji að F hafi átt rétt á hjónaskilnaði í síðasta lagi 2. október 2012. Sýslumanni hafi því borið að gefa út skilnaðarleyfi fyrir andlát F. Réttur hans hafi átt sér stoð í 33. og 34. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993, sbr. 71. gr. stjórnarskrárinnar og 4. mgr. 23. gr. laga nr. 10/1979 sem hafi lögfest Alþjóðasamning um borgaraleg og stjórmálaleg réttindi. Rétturinn til að slíta hjúskap komi skýrt fram í 16. gr. mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna. Öll skilyrði til útgáfu leyfisins hafi verið uppfyllt. Ákvörðun sýslumanns um að hafna útgáfu þess hafi byggst á því að ekki hafi tekist að afla afstöðu eiginkonunnar til skilnaðarkröfunnar. Varnaðaraðilar telji afstöðu hennar hins vegar hafa legið fyrir og hún hafi verið samþykk skilnaðinum. Þá hafi opinber skipti til fjárslita milli þeirra verið hafin, en F hafi jafnframt verið búinn að kynna sóknaraðila hugmyndir að fjárslitum í upphafi ársins.

                Afstaða sóknaraðila hafi legið fyrir í tölvuskeyti lögmanns hennar frá 11. september 2012 til lögmanns F þar sem komi fram að sóknaraðili sé alls ekki mótfallin því að aðilar skilji hjónaskilnaði. Við fyrirtöku málsins hjá sýslumanni 2. október 2012 hafi verið bókað eftir lögmanni F að lögmaður sóknaraðila hefði fullvissað sig um að þegar úrskurður um opinber skipti lægi fyrir myndi lögmaðurinn samþykkja skilnað að borði og sæng fyrir hennar hönd. Þá hafi F sagt aðspurður hjá sýslumanni 20. ágúst 2012 að hann teldi sóknaraðila samþykkan útgáfu leyfis til skilnaðar að borði og sæng.

                Sóknaraðili hafi ítrekað verið boðuð til viðtals hjá sýslumanni til þess að greina frá afstöðu sinni. Hún hafi hins vegar ákveðið að nýta ekki þetta tækifæri. Hvergi sé vikið að því formskilyrði í hjúskaparlögum að afstaða til hjónaskilnaðar þurfi að vera gefin berum orðum fyrir sýslumanni. Varnaraðilar telji að sýslumanni hafi þannig borið að leggja framburð F til grundvallar eða í öllu falli rannsaka nánar hvort afstaða sóknaraðila lægi fyrir og hver hún væri. Hafi sýslumaður talið skorta á gögn um afstöðu hennar hafi honum borið að beina tilmælum til F eða lögmanns hans um að afla slíkra gagna.

                Varnaraðilar telji augljóst að sóknaraðili hafi hunsað ítrekaðar boðanir sýslumanns í þeim tilgangi að geta erft F þegar ólæknandi sjúkdómur hans myndi draga hann til dauða. F og sóknaraðili hafi slitið samvistir ekki síðar en um áramót 2011/2012 og áform um hjónaskilnað þeirra hafi legið fyrir lengi. Þegar svo beri undir verði öðru hjóna að vera unnt að fá útgefið skilnaðarleyfi. Það sé óásættanleg niðurstaða að annað hjóna geti með vísvitandi fjarvistum sínum í fyrirtökum hjá sýslumanni þvingað hitt hjóna til að vera í hjúskap. Varnaraðilar telji að þar sem sóknaraðili hafi ekki sinnt ítrekuðum boðunum hafi sýslumanni borið, með vísan til 3. mgr. 127. gr. laga nr. 31/1993, að gefa út skilnaðarleyfi að kröfu F, enda hafi legið fyrir að sóknaraðili væri samþykk því að leita skilnaðar að borði og sæng, auk þess sem opinber skipti á félagsbúi þeirra væru hafin. Ekki skipti máli þótt sóknaraðili sé sögð lögerfingi F samkvæmt opinberum gögnum, enda telji varnaraðilar gögnin röng.

                Kaldhæðnislegt sé að sóknaraðili vísi til sanngirnisraka og eðlis máls til stuðnings kröfu sinni. Þau rök ættu fremur að leiða til þess að kröfu hennar yrði hafnað. Það sé rangt sem fram komi í greinargerð sóknaraðila að F hafi aldrei gengið frá hjúskaparslitum. Varnaraðilar fái ekki með nokkru móti séð hvernig sóknaraðili ætli að byggja rétt á því að hafa ítrekað hunsað boðanir sýslumanns til viðtals, en sóknaraðili haldi því fram að hún hafi ekki veitt samþykki sitt fyrir skilnaði að borði og sæng hjá sýslumanni til að gefa hefði mátt út skilnaðarleyfi. Þvert á móti hefði sóknaraðila verið nær að mæta til viðtals hjá sýslumanni og andmæla fullyrðingu F frá 20. ágúst 2012 um að hún væri samþykk hjónaskilnaði, en endurrit úr þingbók sýslumannsins frá þeim degi hafi fylgt boðun sýslumanns til sóknaraðila og lögmanns hennar 21. ágúst 2012.

                Það hafi verið skýr vilji F að hann og sóknaraðili myndu slíta hjónabandi sínu fyrir andlát hans. Þetta megi sjá af öllum gögnum málsins. Í samræmi við vilja F, meginreglur laga og eðli máls beri að fallast á kröfur varnaraðila.

                Verði ekki fallist á kröfu varnaraðila af framangreindum ástæðum byggi varnaraðilar á því að hafna verði kröfunni þar sem enn sé óleyst úr því hvort skilnaðarleyfi verði gefið út. Varnaraðilar hafi kært ákvörðun sýslumanns frá 18. október 2012 til innanríkisráðuneytisins og hún sé þar enn til meðferðar.

                Varnaraðilar byggi á erfðalögum nr. 8/1962, einkum 33. og 34. gr., stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og Alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Þá sé um málskostnað vísað til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

IV

                Í máli þessu krefst sóknaraðili þess, á grundvelli 1. mgr. 38. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., að dánarbú F, sem lést [...] október 2012, verði tekið til opinberra skipta. Ágreiningslaust er að skilyrði ákvæðisins eru uppfyllt að öðru leyti en því að varnaraðilar, börn F, telja sóknaraðila ekki lögmætan erfingja F þar sem hann hafi átt rétt á hjónaskilnaði ekki síðar en 2. október 2012.

                Fram er komið að F óskaði 25. júlí 2012 skilnaðar að borði og sæng frá sóknaraðila. Úrskurður um opinber skipti á búi þeirra var kveðinn upp 1. október 2012, en F lést [...] [...]. Skiptastjóri í búinu lauk skiptum á 1. skiptafundi þar sem skilnaðarleyfi hafði ekki verið gefið út og hann taldi þess vegna að um dánarbú væri að ræða. Lögmaður F leitaði þegar til sýslumanns daginn eftir úrskurð um opinber skipti og óskaði þess að leyfi til skilnaðar að borði og sæng yrði gefið út. Málinu var hins vegar frestað til fyrirtöku með sóknaraðila, en hún hafði þá verið boðuð til viðtals 22. þess sama mánaðar.

                Varnaraðilar byggja á því að afstaða sóknaraðila til skilnaðarins hafi þegar legið fyrir þann 2. október 2012. Lögmaður F hafi lýst því fyrir sýslumanni að lögmaður sóknaraðila hafi fullvissað sig um, meðal annars með tölvuskeyti, að þegar úrskurður um opinber skipti lægi fyrir myndi lögmaðurinn samþykkja skilnað að borði og sæng fyrir hennar hönd. Þá hafi F lýst því við fyrirtöku málsins 20. ágúst 2012 að hann teldi sóknaraðila samþykka skilnaðinum.

                Samkvæmt 33. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 ber að veita leyfi til skilnaðar að borði og sæng er hjón eru sammála um að leita slíks skilnaðar. Þarf afstaða beggja hjóna að liggja fyrir til þess að sýslumaður geti veitt skilnaðinn, sbr. 1. mgr. 41. gr. laganna. Til þess að sú afstaða liggi fyrir þarf hún að koma frá hjónunum sjálfum eða umboðsmönnum þeirra. Ekki er hægt að leggja framburð annars hjóna eða umboðsmanns þess til grundvallar um afstöðu hins hjónanna. Þá þykir tölvuskeyti lögmanns sóknaraðila til lögmanns F ekki verða túlkað sem samþykki sóknaraðila. Varnaraðilar telja að sýslumanni hafi borið, samkvæmt 3. mgr. 127. gr. sömu laga, að leita gagna um afstöðu sóknaraðila, jafnvel hjá F. Telja verður að sýslumaður hafi uppfyllt þessa skyldu sína með því að boða sóknaraðila til viðtals. Verði annað hjóna ekki við ítrekuðum boðunum til viðtals hefur hitt þann kost að höfða dómsmál til skilnaðar. Verður því talið að skilyrði fyrir útgáfu leyfis til skilnaðar að borði og sæng hafi ekki verið uppfyllt 2. október 2012 og sýslumanni hafi því verið rétt að synja um útgáfu skilnaðarleyfis.

                F lést [...] október 2012. Réttur hans til hjónabands og skilnaðar er persónulegs eðlis og því réttur sem erfist ekki, sbr. 1. mgr. 116. gr. og 120. gr. laga nr. 31/1993. Ekki er hægt að gefa út leyfi til skilnaðar eftir andlát aðila. Samkvæmt 26. gr. erfðalaga nr. 8/1962 fellur erfðaréttur niður við skilnað að borði og sæng. Réttaráhrif skilnaðar að borði og sæng koma fram við útgáfu leyfisbréfs eða uppkvaðningu dóms. Þar sem skilnaðarleyfi hafði ekki verið gefið út við andlát F verður talið að hann hafi verið í hjúskap með sóknaraðila við andlát sitt. Telst sóknaraðili því til lögerfingja hans, samkvæmt 4. tölulið 1. gr. laga nr. 8/1962.

                Varnaraðilar hafa lagt fram erfðaskrá F, dags. 8. maí 2012. Samkvæmt henni er sóknaraðili á meðal erfingja hans. Við framlagningu erfðaskrárinnar lá því ljós fyrir sá skilyrðislausi réttur sem sóknaraðili hefur sem erfingi til þess að krefjast opinberra skipta á dánarbúi F samkvæmt 1. mgr. 38. gr. laga nr. 20/1991. Þykir ekki unnt að líta svo á að um sé að ræða málsástæðu sem sé of seint fram komin.

                Samkvæmt öllu framangreindu teljast skilyrði 1. mgr. 38. gr. laga nr. 20/1991 uppfyllt og verður krafa sóknaraðila um opinber skipti á dánarbúi F tekin til greina.

                Samkvæmt úrslitum málsins og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verður varnaraðilum sameiginlega gert að greiða sóknaraðila málskostnað. Þykir hann hæfilega ákveðinn 450.000 krónur. Ekki þykja alveg nægileg efni til að dæma álag á málskostnað, sbr. 2. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991.

                Barbara Björnsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

                Fallist er á kröfu sóknaraðila, A, um að dánarbú F, kt. [...], sem lést [...]. október 2012, síðast til heimilis að [...] í Reykjavík, verði tekið til opinberra skipta.

                Varnaraðilar, B, C og D, greiði sóknaraðila sameiginlega 450.000 krónur í málskostnað.