Hæstiréttur íslands
Mál nr. 5/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Föstudaginn 8. janúar 2010. |
|
Nr. 5/2010. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu(Jón H. B. Snorrason saksóknari) gegn X (enginn) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95 gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. janúar 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. janúar 2010, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 3. febrúar 2010 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. janúar 2010.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X kt. [...], sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, allt til miðvikudagsins. 4. febrúar nk. kl. 16:00.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að þann 29. desember sl. hafi verið lögð fram kæra forráðamanns A,14 ára ólögráða stúlku, á hendur X fyrir kynferðisbrot gegn henni en meint brot hafi átt sér stað á heimili hans 22. desember sl. Kærði hafi í kjölfarið verið úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Skýrsla hafi verið tekin af A fyrir dómi í gær 5. janúar. Kvaðst hún hafa hitt kærða eftir að hann hafði ítrekað sent henni sms skilaboð og beðið hana um að koma og hitta sig. Hafi hún staðfest að kærði hefði sett fingur í leggöng hennar og haft við hana samræði í endaþarm gegn vilja hennar. Kvaðst hún hafa beðið hann um að hætta en hann hafi haldið áfram þar til foreldrar hennar hafi hringt í hana. A kvaðst hafa greint kærða frá aldri sínum en auk þess hafi þær upplýsingar komið fram á “facebook” og í netfangi hennar.
Kærði hafi alfarið neitað sök og kvaðst ekki kannast við A. Með framburðum vitna og sönnunargögnum í málinu sé þó sýnt að kærði segi ósatt.
Auk þessa máls sé kærði grunaður um eftirfarandi kynferðisbrot framin á árinu 2009:
Mál nr. 007-2009-72067
Þann 20. nóvember sl. hafi verið lögð fram kæra fyrir hönd 16 ára ólögráða stúlku sem kvað kærða hafa brotið kynferðislega gegn sér. Kvaðst stúlkan hafa kynnst kærða á “facebook.” Skýrsla hafi verið tekin af henni í kjölfarið og sé þar að finna sláandi lýsingar á afar grófum kynmökum, m.a. í endaþarm og kynferðisathöfnum sem stúlkan kvaðst hafa verið látin framkvæma gegn vilja sínum. Við skoðun á neyðarmóttöku hafi komið í ljós minniháttar áverkar á andliti og á endaþarmi en hún kvað kærða hafa slegið hana í andlitið af því að hún hafi ekki stunið nógu hátt. Þar komi fram að kærði hefði haft samræði við fleiri ungar stúlkur og vilji verðlauna þær fyrir að vera „duglegar að læra.“
Mál nr. 007-2009-77110
Þann 8. desember sl. hafi verið lögð fram kæra vegna brota gegn 13 ára ólögráða stúlku. Í skýrslu fyrir dómi þann 11. desember sl. hafi hún greint frá því að hún hefði kynnst kærða á “facebook” og hitt hann í kjölfarið. Hann hefði a.m.k þrisvar sinnum haft við hana samræði. Þá kvað hún honum hafa verið kunnugt um aldur sinn sem auk þess kæmi fram á “facebook”. Hafi hún auk þess greint vitnum frá þessu. Fyrir liggi sönnunargögn sem sýni að stúlkan hafi verið í samskiptum við kærða eftir skýrslutökuna. Hafi hún eftir það haft samband við rannsóknarlögreglumann og óskað eftir því að draga framburð sinn tilbaka um að hún hefði haft samræði við kærða. Kærði hefði þá verið yfirheyrður og alfarið neitað sök.
Mál nr. 007-2010-908
Lagt hafi verið hald á tölvu kærða og síma í tengslum við ofangreint mál. Við frumrannsókn hafi fundist margar myndir af ungum hálfnöktum stúlkum. Auk þess hafi fundist hreyfimyndir sem hafi að geyma barnaklám þar sem sjá megi stúlkubörn beitt grófu kynferðisofbeldi, svokölluðu BDSM.
Auk framangreinds standi yfir rannsókn á eftirtöldum málum:
Mál nr. 024-2009-7520 og 024-2009-7518
Fyrir þjófnað og eignarspjöll með því að hafa á tímabilinu laugardaginn 7. nóvember til mánudagsins 9. sl., brotist inn í Hótel KEA og Akureyrarflugvöll og stolið ýmsum verðmætum, m.a. tölvubúnaði, áfengi ofl. Þá hafi hann brotið rúðu í bifreið og farið inn í aðra og reynt að tengja framhjá en án árangurs. Kærði játi þessi brot sín.
Rannsókn eftirtalinna mála sé nú lokið hjá lögreglu:
Mál nr. 007-2007-743
Fyrir þjófnað með því að hafa föstudaginn 28. september 2007, brotist inn í [...], með því að brjóta rúðu í hurð á suðurhlið hússins og stolið sjónvarpi af gerðinni Telefunken, fartölvu, hljómtækjasamstæðu af gerðinni Sony, geisladiskum, fötum, borvél, kúttsög, DVD spilara, myndavél, myndum, rúmteppi, og rúmfötum, samtals að verðmæti kr. 1.092.03. Kærði hafi viðurkennt brotið en borið fyrir sig minnisleysi.
Mál nr. 007-2008-78539
Fyrir gripdeild, með því að hafa miðvikudaginn 29. október 2008, á bensínafgreiðslustöð N1 við Stórahjalla 2 í Kópavogi, dælt eldsneyti að fjárhæð 7.927 krónur á bifreiðina [...] og ekið á brott án þess að greiða fyrir það. Kærði hafi játað brot sitt en kvaðst hafa verið undir áhrifum fíkniefna.
Mál nr. 007-2008-78778
Fyrir gripdeild, með því að hafa fimmtudaginn 30. október 2008, á bensínafgreiðslustöð N1 við Stórahjalla 2 í Kópavogi, dælt eldsneyti að fjárhæð 7.665 krónur á bifreiðina [...] og ekið á brott án þess að greiða fyrir það. Kærði hafi viðurkennt brot sitt en kvaðst hafa verið undir áhrifum fíkniefna.
Mál nr. 007-2009-11932
Fyrir umferðar- og fíkniefnalagabrot, með því að hafa föstudaginn 27. febrúar 2009 ekið bifreiðinni [...], óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (amfetamín í blóði 25 ng/ml), austur Bústaðaveg og inn á bifreiðarplan verslunarinnar Select við Bústaðaveg og með því að hafa haft í vörslum sínum 1,41 g. af amfetamíni sem X framvísaði við handtöku lögreglu. Kærði hafi viðurkennt brot sín en kvaðst hafa verið undir áhrifum fíkniefna.
Mál nr. 007-2009-13293
Fyrir þjófnað, með því að hafa aðfaranótt fimmtudagsins 3. mars 2009, á bifreiðastæði við [...] í Reykjavík, brotist inn í bifreiðina [...], með því að brjóta hliðarrúðu farþegamegin með steini, og stolið svartri skjalatösku. Kærði hafi viðurkennt brot sitt.
Mál nr. 007-2009-15643
Fyrir þjófnað, með því að hafa laugardaginn 14. mars 2009 brotist inn í leiguherbergi að [...] í Reykjavík, með því að brjóta upp hurð, og stolið fartölvu af gerðinni Dell að verðmæti 220.000 krónur.
Einnig fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa sunnudaginn 15. mars 2009, í herbergi í fjölbýlishúsi við [...] í Reykjavík, haft í vörslum sínum 2,11 g. af amfetamíni, sem lögregla hafi fundið við leit. Kærði hafi viðurkennt brot sín en kvaðst hafa verið undir áhrifum lyfja og fíkniefna.
Eins og rakið hafi verið sé rökstuddur grunur um að kærði hafi framið ýmis brot sem varði við almenn hegningarlög, umferðarlög og lög um ávana- og fíkniefni, samtals 11 mál. Rannsókn sjö þeirra sé nú lokið og bíði þau ákæru. Samtals níu mál séu frá árinu 2009 og tengjast flest fíkniefnaneyslu kærða, þar af séu til rannsóknar fyrrnefnd kynferðisbrotamál. Komi þau til kasta lögreglu í árslok 2009 með stuttu millibili og eigi það sammerkt að meintir brotaþolar séu ungar stúlkur undir lögaldri þar af tvær undir kynferðislegum lögaldri. Brot þau varði allt að 16 ára fangelsisrefsingu. Lögreglan líti mál þessi mjög alvarlegum augum enda hafi kærði yfirburði í aldri og þroska fram yfir stúlkurnar. Þá endurspegli það aukinn ásetning kærða að hann láti ekki segjast og hafi ekki liðið nema vika frá því að kærði hafi verið yfirheyrður vegna meints kynferðisbrots gegn ungri stúlku og þar til hann hafði sett sig í samband við þá næstu.
Það efni sem hafi fundist við tölvurannsókn þyki benda til afbrigðilegra kynhvata kærða og augljóst þyki að hann hafi ekki taumhald á þeim. Kunni að vera að fíkniefnaneysla hans hafi þar einhver áhrif. Hafi verið tekin sú ákvörðun að kærði gangist undir sálfræðimat af þessu tilefni.
Kærði leigi herbergi í Reykjavík. Hann sé atvinnulaus en fái einhverja fjárhagsaðstoð frá félagsmálayfirvöldum. Af þeim auðgunarbrotamálum sem rakin hafi verið megi draga þá ályktun að kærði framfleyti sér með afbrotum.
Það sé mat lögreglu að ætla megi að kærði muni halda áfram brotum gangi hann laus á meðan málum hans sé ekki lokið, sbr. c. liður 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2009. Sé þess því krafist að krafan nái fram að ganga.
Eins og rakið hefur verið hefur kærði verið í afbrotum frá árinu 2007 og fram á þetta ár. Hefur hann viðurkennt hluta brotanna sem varða ýmist brot á almennum hegningarlögum, umferðarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni og er rannsókn hluta þeirra lokið og bíða ákæru. Meint kynferðisbrot kærða komu til kasta lögreglu í lok ársins 2009 með stuttu millibili. Þar er um að ræða meint kynferðisbrot gagnvart ungum stúlkum sem eiga að hafa átt sér stað 20. nóvember 2009, 8. desember 2009 og 22. desember 2009. Í kjölfar rannsóknar þessara brota var lagt hald á tölvu kærða og fundust þar margar myndir af ungum hálfnöktum stúlkum auk hreyfimynda með barnaklámi. Verða fyrirliggjandi rannsóknargögn metin svo að fram sé komin rökstuddur grunur um að kærði hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við. Þykir rökstuddur grunur vera fyrir því að kærði hafi framið kynferðisbrot gagnvart 14 ára stúlku hinn 22. desember 2009 þrátt fyrir að þá þegar hefði hann verið kærður fyrir brot gegn tveim örðum ólögráða stúlkum nokkrum dögum áður. Er því fallist á það með lögreglu að hætta sé á að kærði haldi áfram brotum verði hann látinn laus. Þykja því skilyrði c liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 vera uppfyllt og verður krafan tekin til greina eins og hún er framsett og nánar greinir í úrskurðarorði, en ekki þykja efni til að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma en krafist er.
Greta Baldursdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ
Kærði, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 3. febrúar nk. kl. 16:00.