Hæstiréttur íslands
Nr. 2023-127
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Forkaupsréttur
- Viðurkenningarkrafa
- Kaupsamningur
- Einkahlutafélag
- Jörð
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Með beiðni 20. nóvember 2023 leitar Ása Björk Sigurðardóttir Ottesen leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 3. nóvember sama ár í máli nr. 333/2022: Ása Björk Sigurðardóttir Ottesen gegn Snæbirni Sigurðssyni, Björgu Ingvarsdóttur og Efstadalskoti ehf. og til réttargæslu Sigurði Sigurðssyni, Ásmundi Sigurðssyni, Jórunni Sigurðardóttur og Gunnhildi Sigurðardóttur. Gagnaðilar leggjast gegn beiðninni. Réttargæslustefndu hafa ekki látið málið til sín taka.
3. Ágreiningur í máli þessu lýtur að því hvort forkaupsréttur leyfisbeiðanda að hluta jarðarinnar Efsta-Dal 2 í Bláskógabyggð, hafi orðið virkur við yfirfærslu gagnaðilanna Snæbjarnar og Bjargar á eigninni í einkahlutafélagið Efstadalskot í þeirra eigu.
4. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu gagnaðila af kröfum leyfisbeiðanda. Þar var rakið að við skýringu ákvæða um afmörkun og útfærslu forkaupsréttar yrði að horfa til þess að slíkur réttur væri íþyngjandi fyrir eiganda þar sem hann setti hömlur á ráðstöfunarrétt hans. Engum vafa væri undiropið að með forkaupsréttarákvæði í kaupsamningi 19. apríl 1991 hefði faðir leyfisbeiðanda, réttargæslustefndu og gagnaðilans Snæbjarnar, viljað koma því til leiðar að systkini gagnaðilans Snæbjarnar gætu eignast jörðina ef til þess kæmi að hann seldi hana og hún yrði þannig áfram í eigu fjölskyldunnar. Eignaryfirfærsla gagnaðilanna Snæbjarnar og Bjargar á jörðinni inn í félag í þeirra eigu gæti í ljósi þessa ekki leitt til þess að forkaupsréttur leyfisbeiðanda hefði orðið virkur.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi og varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni. Í málinu reyni á það sem nefna megi einskiptis forkaupsrétt, en með því sé átt við að hinn samningsbundni forkaupsréttur frá árinu 1991 sé bundinn við persónu gagnaðilans Snæbjarnar og virkist við sölu hans á jörðinni að hluta eða öllu leyti. Standi dómurinn óraskaður sé forkaupsrétturinn runninn leyfisbeiðanda og systkinum hennar úr greipum fyrir fullt og allt. Þá telur leyfisbeiðandi að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur. Hinum meinta vilja föður systkinanna sé ljáð of mikið vægi við úrlausn málsins og litið fram hjá því grundvallaratriði hvort um sölu hafi verið að ræða í umrætt sinn. Hvergi sé vikið að því í dómi Landsréttar að endurgjald hafi komið fyrir fasteignina þegar eignarréttur að henni var færður til Efstadalskots ehf. en endurgjald sé nauðsynlegur þáttur í því að um sölu hafi verið að ræða.
6. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómurinn sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.