Hæstiréttur íslands
Mál nr. 198/2002
Lykilorð
- Kærumál
- Fjárnám
- Aðfararheimild
- Víxill
|
|
Þriðjudaginn 7. maí 2002. |
|
Nr. 198/2002. |
Íslenska umboðssalan hf. (Erlendur Gíslason hrl.) gegn Kjötumboðinu hf. (Brynjólfur Kjartansson hrl.) |
Kærumál. Fjárnám. Aðfararheimild. Víxilréttur.
Að kröfu K hf. var gert fjárnám í eign Í hf. til fullnustu kröfu samkvæmt fimm víxlum, án undangengins dóms eða sáttar. Fyrir héraðsdómi og Hæstarétti reisti Í hf. kröfu sína um ógildingu fjárnámsins eingöngu á atriðum varðandi lögskiptin að baki þessum víxlum. K hf. gerði í engu athugasemdir við að Í hf. héldi þessum mótbárum fram. Sókn og vörn í málinu snerist þannig eingöngu um kröfur, sem leiða mátti af lögskiptunum að baki víxlunum, en að engu leyti um greiðsluskyldu á grundvelli víxilréttar. Við svo búið brast skilyrði til að K hf. fengi neytt réttarfarshagsræðis til að leita fjárnáms fyrir kröfu sinni í stað þess að höfða um hana einkamál eftir almennum reglum og afla þannig eftir atvikum aðfararhæfs dóms fyrir henni. Var því fallist á kröfu Í hf. um ógildingu fjárnámsins.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. apríl 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. apríl 2002, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að ógilt yrði fjárnám, sem sýslumaðurinn í Reykjavík gerði hjá honum 31. október 2001 samkvæmt beiðni varnaraðila fyrir kröfu að fjárhæð 5.000.000 krónur auk nánar tiltekinna vaxta og kostnaðar. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að fjárnámið verði fellt úr gildi. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.
I.
Samkvæmt gögnum málsins gerði Þríhyrningur hf. kaupsamning 19. september 2000 við Vélar og Þjónustu hf., þar sem fyrrnefnda félagið, sem síðan var sameinað varnaraðila, seldi því síðarnefnda meðal annars tvær fasteignir ásamt lóðarréttindum og tvo vörulyftara, svo og tæki, innanstokksmuni, innréttingar og húsgögn, sem tengdust starfsemi búrekstrardeildar seljandans, viðskiptavild og vörulager. Tekið var fram í samningnum að kaupverð vörulagers væri 10.000.000 krónur, en fyrir aðrar eignir, sem samningurinn tók til, skyldi greiða 25.000.000 krónur. Kaupverð vörulagersins skyldi taka breytingum eftir því, sem verðmæti hans myndi nánar reynast, og jafnframt að teknu tilliti til þess að undanskildar yrðu óseljanlegar vörur. Þegar verðmæti vörulagersins hefði verið staðfest af starfsmönnum kaupandans við vörutalningu átti kaupverð hans að greiðast 25. september 2000, meðal annars með fimm víxlum, hverjum að fjárhæð 1.000.000 krónur, samþykktum til greiðslu af kaupandanum og útgefnum af sóknaraðila. Áttu gjalddagar víxlanna að vera 5. nóvember og 5. desember 2000 og 5. janúar, 5. febrúar og 5. mars 2001. Óumdeilt er að víxlar voru afhentir seljandanum til samræmis við þetta.
Með bréfi 21. júní 2001 tilkynnti kaupandinn seljandanum að hann rifti kaupunum. Bar kaupandinn þar fyrir sig vanefndir seljandans, sem sá fyrrnefndi taldi felast í því í fyrsta lagi að seljandinn hafi vanrækt að létta veðskuldum af fasteignum, sem seldar voru, í öðru lagi að seljandinn hafi ekki gert nánar tilteknar ráðstafanir, sem samið hafi verið um, til þess að kaupandanum myndi nýtast viðskiptavild, sem kaupin tóku til, og í þriðja lagi að annmarki hafi verið á lóðarréttindum, sem hafi átt að fylgja umræddum fasteignum. Krafðist kaupandinn endurgreiðslu kaupverðs, þar á meðal að skilað yrði áðurnefndum víxlum, sem hluti þess var greiddur með. Eftir frekari bréfaskipti og viðræður lýsti seljandinn því yfir með bréfi 27. ágúst 2001 að hann féllist af nánar tilgreindri ástæðu á að kaupunum yrði rift að því er varðaði fasteignirnar, en kaupum yrði hins vegar að öðru leyti haldið uppi á kaupandann, þar á meðal um vörulager, viðskiptavild og tæki. Lýsti seljandinn sig reiðubúinn til að lækka kaupverð samkvæmt samningi þeirra um 13.000.000 krónur af þessum sökum, en tók einnig fram að fyrrnefndir víxlar yrðu innheimtir. Kaupandinn mótmælti þessari afstöðu seljandans með bréfi 6. september 2001 og þá einkum með vísan til þess að þeim síðarnefnda væri ekki fært upp á sitt eindæmi að ákveða að kaupunum yrði rift að hluta en haldið uppi að öðru leyti, enda hafi einn samningur verið gerður um þau í heild.
Að undangenginni greiðsluáskorun samkvæmt 7. gr. laga nr. 90/1989 krafðist varnaraðili þess við sýslumanninn í Reykjavík 24. október 2001 að gert yrði fjárnám hjá sóknaraðila fyrir skuld samkvæmt áðurnefndum fimm víxlum, samtals að höfuðstól 5.000.000 krónur, en að viðbættum áföllnum vöxtum og kostnaði taldi varnaraðili skuldina alls nema 6.281.415 krónum. Sýslumaður tók beiðni varnaraðila um fjárnámið fyrir 29. október 2001. Var þá mætt af hálfu sóknaraðila og mótmæli höfð uppi gegn framgangi gerðarinnar, en þeim hafnaði sýslumaður. Benti þá sóknaraðili á nánar tiltekna fasteign til fjárnáms, en að undangengnum fresti handa varnaraðila til að kanna verðgildi hennar var gerðinni lokið 31. sama mánaðar með því að fjárnám var gert í henni. Sóknaraðili leitaði í framhaldi af þessu úrlausnar Héraðsdóms Reykjavíkur um ógildingu fjárnámsins og var mál þetta þingfest af því tilefni 1. febrúar 2002. Með hinum kærða úrskurði var kröfu sóknaraðila um ógildingu fjárnámsins sem áður segir hafnað.
II.
Varnaraðili leitaði sem fyrr segir fjárnáms hjá sóknaraðila til fullnustu kröfu sinni samkvæmt fimm víxlum án undangengins dóms eða sáttar. Sóknaraðili hefur fyrir héraðsdómi og Hæstarétti reist kröfu sína um ógildingu fjárnámsins eingöngu á atriðum varðandi lögskiptin að baki þessum víxlum og þá öðru fremur því að varnaraðili hafi vanefnt kaupin við Vélar og þjónustu hf., sem hafi af þeim sökum réttilega rift þeim, en fyrir vikið geti varnaraðili ekki krafist greiðslu kaupverðs á grundvelli víxlanna. Varnaraðili hefur í engu gert athugasemdir við að sóknaraðili haldi þessum mótbárum fram gegn kröfu sinni, en telur á hinn bóginn kaupin, sem áður er getið, hafa verið gerð í tvennu lagi, annars vegar um vörulager og hins vegar um önnur fyrrgreind verðmæti. Telur varnaraðili að ekki séu forsendur til að rifta kaupunum um vörulagerinn, en víxlarnir, sem fjárnám var gert fyrir, hafi verið greiðsla í þeim kaupum og eigi hann því réttmæta kröfu samkvæmt þeim.
Samkvæmt 8. tölulið 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989 má gera fjárnám án undangenginnar dómsúrlausnar eða sáttar til fullustu kröfu samkvæmt víxli að því leyti, sem krafist er fullnægju greiðsluskyldu á grundvelli gildandi réttar, sem slíkt skjal veitir. Þótt varnaraðili hafi í öndverðu krafist fjárnáms samkvæmt þeim víxlum, sem áður er getið, hefur sókn og vörn í máli þessu snúist eingöngu um kröfur, sem leiða má af lögskiptunum að baki víxlunum, en að engu leyti um greiðsluskyldu á grundvelli víxilréttar. Við svo búið brestur skilyrði til að varnaraðili fái neytt réttarfarshagsræðis til að leita fjárnáms fyrir kröfu sinni í stað þess að höfða um hana einkamál eftir almennum reglum og afla þannig eftir atvikum aðfararhæfs dóms fyrir henni. Verður því fallist á kröfu sóknaraðila um ógildingu á fjárnámi varnaraðila, eins og í dómsorði greinir.
Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af máli þessu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Ógilt er fjárnám, sem sýslumaðurinn í Reykjavík gerði 31. október 2001 hjá sóknaraðila, Íslensku umboðssölunni hf., að beiðni varnaraðila, Kjötumboðsins hf., fyrir kröfu að fjárhæð 5.000.000 krónur auk vaxta og kostnaðar.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. apríl 2002.
Mál þetta var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 1. febrúar sl.
Sóknaraðili er Íslenska umboðssalan hf., kt. 600970-0469, Seljavegi 2, Reykjavík.
Varnaraðilar er Kjötumboðið hf., kt. 660593-3069, Kirkjusandi v/Laugarnesveg í Reykjavík.
Dómkröfur sóknaraðila eru að fellt verði úr gildi fjárnám sem sýslumaðurinn í Reykjavík gerði í Óseyrarbraut 9-11 hinn 5. nóvember 2001 (sic.) að fjárhæð 6.281.415 kr. [Samkvæmt endurriti úr gerðarbók sýslumannsins í Reykjavík, er lagt var fram af hálfu sóknaraðila í máli þessu, var fjárnámið gert 31. október 2001]. Einnig er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins.
Dómkröfur varnaraðila eru að krafa sóknaraðila verði ekki tekin til greina og að sóknaraðili verði dæmdur til að greiða varnaraðila málskostnað að mati réttarins.
Málavextir eru þessir helstir: Þríhyrningur hf., sem seljandi, en Vélar og þjónusta hf., sem kaupandi, gerðu með sér kaupsamning 19. september 2000. Það sem selja skyldi voru tilteknar fasteignir og tæki, auk vörulagers. Um vörulagerinn segir í kaupsamningi: „Um er að ræða vörulager að kostnaðarvirði kr. 10.000.000.- skv. upplýsingum seljanda. - Kaupverðið er með fyrirvara um að um sé að ræða "kúrant" vörur, þ.e. vörur sem seljanlegar eru og hafa verið keyptar inn á undanförnum tveimur árum. Verðmæti miðast við kostnaðarverð skv. bókhaldsgögnum Þríhyrnings hf."
Í samningi segir um kaupverð og greiðslu þess að kaupverð fasteigna tækja og viðskiptavildar sé 25.000.000 króna sem greiðist með eftirfarandi hætti:
a) Við undirritun kaupsamnings kr. 5.000.000.-. Viðskiptaskuld Þríhyrnings hf. að fjárhæð kr. 4.605.650,00 kemur til frádráttar við útborgun.
b) Með skuldabréfi til 7 ára, verðtryggt með 8% föstum ársvöxtum. Íslenska Umboðssalan hf., kt. 600970-0469 skal vera sjálfskuldarábyrgðaraðili á skuldabréfi þessu. Skuldabréfið skal greiðst upp með 84 afborgunum á eins mánaðar fresti, í fyrsta sinn 25. nóvember 2000. Skuldabréfið skal verðtryggt m.v. vísitölu neysluverðs og skal grunnvísitala þess vera vísitala septembermánaðar 2000. Upphafsdagur samningsvaxta skal vera 20. september 2000.
Þá segir um kaupverð vörulagers að það greiðist með eftirfarandi hætti:
a) Staðgreitt 25. september 5.000.000.- kr., þ.a. skulu kr. 3.000.000,00 greiddar með afhendingu á víxli í eigu kaupanda á seljanda að fjárhæð kr. 3.000.000,00 með gjaldd. 5. október 2000.
b) Kaupandi skal afhenda seljanda hinn 25. september 2000 fimm víxla, hvern um sig að fjárhæð ein milljón króna með gjalddaga 5/11 2000, 5/12 2000, 5/1 2001, 5/2 2001 og 5/3 2001. Íslenska Umboðssalan hf., kt. 600970-0469 skal vera útgefandi víxlanna, en kaupandi samþykkjandi.
c) Eigi síðar en 10. október 2000 skal kaupverð vörulagers endanlega staðreynt. Seljandi og kaupandi skulu hittast af því tilefni. Ef tilefni er til leiðréttingar á kaupverði, þá skal hún fara fram við það tækifæri, og fjárhæð víxlanna með gjalddaga í febrúar og mars 2001 breytt til samræmis við það, hvort sem er til hækkunar eða lækkunar. Seljandi skuldbindur sig til þess að selja ekki víxlana með gjalddaga hinn 5/2 2001 og 5/3 2001 fyrr en frágangi skv. framangreindu er lokið.
Af hálfu sóknaraðila segir að Þríhyrningur hafi sameinast varnaraðila, sem þá hafi heitið Goði hf., en nafni sóknaraðila hafi síðar verið breytt í Kjötumboðið hf. Þá er tekið fram af hálfu sóknaraðila, að sóknaraðili og Vélar og þjónusta séu alfarið í eigu sömu aðila. Hvernig, sem þessu er varið, þykir ljóst, að Íslenska umboðssalan hf. er sóknaðili í þessu máli og gerir kröfu um, að fjárnám Goða hf. hjá Íslensku umboðssölunni hf. í Óseyrarbraut 9-11 í Hafnarfirði, verði fellt úr gildi. Og þá er ljóst að Kjötumboðið hf. hefur tekið til varna í málinu.
Af hálfu sóknaraðila segir að varnaraðili hafi ekki staðið við þær skuldbindingar, sem hann hafi tekið á sig með kaupsamninginum milli Þríhyrnings hf. og Véla og þjónustu hf., og hafi Ólafur Jóhannes Einarsson hdl. f.h. Véla og þjónustu með bréfi 21. júní 2001 lýst því yfir að kaupsamningnum væri rift vegna „stórfelldra vanefnda varnaraðila" og gert kröfu um að þeim víxlum „sem mál þetta snýst um, yrði skilað til Véla og þjónustu."
Af hálfu Goða hf., „áður Þríhyrnings hf." var með bréfi 6. júlí 2001 mótmælt að skilyrði fyrir riftun væru fyrir hendi. En með bréfi 27. ágúst 2001 var af hálfu Goða hf., „áður Þríhyrnings hf." samþykkt riftun Véla og þjónustu hf. á kaupum á fasteignunum að Suðurlandsvegi 4 og 6 á Hellu, en lýst yfir, að haldið yrði upp á Vélar og þjónustu hf. kaupum á vörulager, viðskiptavild og tækjum. Þá segir í bréfinu: „Af sjálfu leiði að innheimtu víxla að höfuðstól kr. 5.000.000,00, samþ. til greiðslu af umbj. þínum en útgefnir af Ísl. umboðssölunni hf. verður haldið áfram."
Með bréfi 6. september 2001 var af hálfu Véla og þjónustu hf. mótmælt að Goði hf. gæti „einhliða valið að fallast á riftun að hluta, en hyggjast halda kaupsamningnum upp á [Vélar og þjónustu hf.] að einhverju leyti." Þá var ítrekuð krafa um afhendingu Goða hf. á víxlum til Véla og þjónustu hf. að höfuðstól 5.000.000 króna.
Af hálfu sóknaraðila er byggt á því að greindum kaupsamningi hafi verið rift á réttmætan hátt. Sóknaraðila beri því ekki að greiða víxla þá sem umdeilt fjárnám er reist á. Af hálfu sóknaraðila er talið að riftun sé ákvöð er bindi móttakanda hennar. Móttakanda sé ekki frjálst að velja að hvaða leyti hann samþykkir eða hafnar henni. Telji sá, sem riftun beinist að, að riftun sé óréttmæt, geti hann farið fram á skaðabætur en ekki krafist efnda á samningi. Augljóst sé að samningurinn frá 19. september 2000 verði ekki klofinn í sundur. Aðfararheimild varnaraðila sé byggð á ákvæðum 8. tl. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989 um aðför og sæti varnir, sem sóknaraðila sé heimilt að hafa uppi gegn kröfu varnaraðila, því ekki takmörkunum samkvæmt 118. gr. laga nr. 91/1991.
Af hálfu varnaraðila er byggt á því að aðilar hafi komið sér saman um riftun á kaupum á fasteignum, ákveðnu lausafé og viðskiptavild enda þótt varnaraðili hefði ekki talið að riftunin væri réttmæt. Umræddir víxlar séu hins vegar greiðsla fyrir vörulager. Ekki hafi verið fallist á af hálfu varnaraðila að þeim hluta samnings aðila, er fjallaði um sölu hans, yrði rift, enda hafi sóknaraðili ekki gert reka að því að skila þessum vörulager.
Niðurstaða: Í kaupsamningi þeim, er hér um ræðir, segir annars vegar að hið selda sé fasteignir, tæki og viðskiptavild og hins vegar vörulager. Þar er greint frá því að kaupverð fasteigna, tækja og viðskiptavildar sé 25.000.000 króna en kaupverð vörulagers sé 10.000.000 króna. Verður ekki af framsetningu og efni samningsins annað ráðið en að hann sé tvískiptur, svo sem haldið er fram af hálfu varnaraðila.
Umdeilt fjárnám Goða hf. er reist á fimm víxlum, sem Vélar og þjónusta hf. samþykktu en Íslenska umboðssalan hf. gaf út. Þessir víxlar eru hluti af greiðslu Véla og þjónustu hf. fyrir umræddan vörulager. Telja verður, að sóknaraðili fái ekki rift gegn andmælum varnaraðila þeim hluta kaupsamnings, er varðar vörulagerinn, enda hefur sóknaraðili ekki borið sig að því að skila þessum vörulager í sama ástandi og magni að öllu verulegu og hann var í, er sóknaraðili tók við honum.
Samkvæmt framangreindu er hafnað kröfu sóknaraðila um að fellt verði úr gildi fjárnám, sem sýslumaðurinn í Reykjavík gerði að kröfu Goða hf. hjá sóknaraðila, Íslensku umboðssölunni hf., í Óseyrarbraut 9-11 í Hafnarfirði til tryggingar kröfu að fjárhæð 6.281.415 krónur.
Rétt er að sóknaraðili greiði varnaraðila 40.000 krónur í málskostnað.
Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ:
Hafnað er kröfu sóknaraðila, Íslensku umboðssölunnar hf., um að fellt verði úr gildi fjárnám, sem sýslumaðurinn í Reykjavík gerði að kröfu Goða hf. hjá sóknaraðila í Óseyrarbraut 9-11 í Hafnarfirði til tryggingar kröfu að fjárhæð 6.281.415 krónur.
Sóknaraðili greiði varnaraðila, Kjötumboðinu hf., 40.000 krónur í málskostnað.