Hæstiréttur íslands

Mál nr. 592/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


         

Miðvikudaginn 14. nóvember 2007.

Nr. 592/2007.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. B. Snorrason, saksóknari)

gegn

X

(Ingimar Ingimarsson hdl.)

 

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr.19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson. 

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. nóvember 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. nóvember 2007, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 19. nóvember 2007 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til vara að hann verði látinn sæta farbanni í stað gæsluvarðhalds. Að því frágengnu krefst hann þess að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

       Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

               Úrskurður Héraðsdóms Reykja­víkur 12. nóvember 2007.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], [heimilisfang], Reykjavík, sæti gæsluvarðhaldi til mánudagsins 19. nóvember nk. kl. 16.00.

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að að morgni laugardagsins 10. nóvember sl., kl. 8:05, hafi lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu borist tilkynning frá hjúkrunarfræðingi á slysadeild Landspítala-Háskólasjúkrahúss í Fossvogi, um að A, kt. [...], hafi leitað aðhlynningar fyrr um morguninn. Hafi henni verið nauðgað af tveimur mönnum í húsasundi í miðbænum. Hún hafi verið með augljósa áverka.

Í kjölfarið hafi þegar verið hafist handa við að rannsaka mál þetta á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga.

Í gærmorgun kl. 11:14, lagði A fram kæru á hendur tveimur mönnum af litháiskum uppruna fyrir nauðgun. Greindi hún svo frá að aðfaranótt laugardagsins hafi hún verið stödd á skemmtistaðnum [...], þar sem dóttir hennar starfar. Tveir menn, sem hún lýsti, hafi komið til hennar og hafi annar þeirra farið að ræða við hana á ensku. Eftir að skemmtistaðnum hafi verið lokað hafi mennirnir gengið með henni upp Laugaveginn. Þau hafi gengið inn í húsasund við gatnamót Laugarvegs og Vitastígs en þar hafi mennirnir ráðist á hana með ofbeldi. Hafi annar þeirra, sem hún nefnir þann stærri,  hrint henni upp á húdd bifreiðar sem í húsasundinu var, þannig að hún féll við. Hann hafi haldið henni upp við bifreiðina og byrjað að slá hana í andlitið, rífa í hár hennar og sveigja höfuð hennar aftur. Á meðan henni var haldið hafi annar þeirra tekið niður um hana buxurnar. Hún hafi barist á móti af öllu afli en mennirnir hafi náð að toga hana niður í mölina. Þar hafi þeir togað buxur hennar niður að ökklum og rifið upp um hana peysu, bol og brjósthaldara. Hafi sá stærri reynt að setja getnaðarlim sinn í leggöng hennar og kvaðst hún muna eftir miklum sársauka. Hinn maðurinn hafi einnig reynt að setja getnaðarlim sinn í leggöng hennar og hafi sá stærri haldið henni fastri með hálstaki á meðan og reynt að troða lim sínum í munn hennar. Sá hafði síðan farið klofvega yfir hana og slegið limnum í andlitið á henni þar til hún hafi neyðst til þess opna munninn. Hann hafi þá troðið honum upp í munn hennar. Hinn maðurinn hafi að þessu búnu sest öfugur yfir hana og sett afturendann upp við andlit hennar. Hann hafi sett lim sinn í munn hennar og sagt við hana á ensku að henni yrði sleppt eftir þrjár mínútur ef hún yrði samvinnuþýð. Kvað hana minna að sá maður hafi fengið sáðlát í munn hennar á meðan höfði hennar var haldið föstu. Mennirnir hafi að þessu loknu sleppt henni lausri. Tók hún fram að þeir hafi hlegið af henni bæði á meðan á þessu stóð og á eftir.

Samkvæmt upplýsingum frá slysadeild var A með rispur á baki og víða á líkamanum, eins og eftir möl eða sand. Sandur og laufblöð hafi verið í hári hennar og fatnaði. Þá hafi hún verið með áverka á kynfærum og sé vísað um það til vottorðs neyðarmóttöku.

Öryggismyndavélar hafi verið á skemmtistaðnum [...] og hafi verið prentaðar út nokkrar myndir þar sem tveir menn, sem komu heim og saman við lýsingu A, yfirgefa staðinn kl. 03:05 aðfaranótt laugardagsins.

Í gærdag kl. 15:25 voru þrír menn handteknir í tengslum við rannsókn máls þessa og er kærði einn þeirra. Einum þeirra var sleppt þegar ljóst hafi verið að hann tengdist ekki máli þessu.

Við yfirheyrslu kærða kvaðst hann ekki kannast við að hafa átt kynmök við A og bar fyrir sig minnisleysi um atburði.

Fram sé kominn rökstuddur grunur um að kærði hafi framið verknað sem varðar allt að 16 ára fangelsisrefsingu. Rannsókn máls þessa sé á frumstigi og sé ljóst að rannsóknarhagsmunir krefjast þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, á meðal annars eftir að yfirheyra sakborninga frekar svo og vitni í málinu. Þá sé ljóst að sakbending mun fara fram. Mál þetta sé því enn á það viðkvæmu stigi að hætt sé við að sakborningur muni torvelda rannsókn málsins gangi hann laus.

Ætlað brot telst varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá verður ekki hjá því litið að um mjög grófa atlögu tveggja manna gegn brotaþola er að ræða, sem framið var á sársaukafullan og meiðandi hátt. Með vísan til framanritaðs, framlagðra gagna og a- liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, er þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Samkvæmt gögnum þessa máls liggur fyrir kæra á hendur varnaraðila, í félagi við Y, um kynferðisbrot.  Samkvæmt kærunni eiga tveir menn að hafa aðfaranótt laugardagsins 10. nóvember sl. þröngvað kæranda til kynferðismaka.  Varnaraðili hefur neitað aðild að málinu, en rannsóknargögn þykja ótvírætt gefa til kynna að varnaraðili sé undir rökstuddum grun um aðild að málinu.  Brot samkvæmt 194. gr. laga nr. 19/1940 getur varðað allt að 16 ára fangelsi.  Með tilliti til rannsóknarhagsmuna eru fyrir hendi skilyrði a liðar 103. gr. laga nr. 19/1991 til að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi.  Samkvæmt því verður varnaraðila gert að sæta gæsluvarðhaldi eins og krafist er og nánar greinir í úrskurðarorði.

Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

                                 Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi til mánudagsins 19. nóvember nk. kl. 16.00.