Hæstiréttur íslands

Mál nr. 714/2017

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum (Alda Hrönn Jóhannsdóttir saksóknarfulltrúi)
gegn
X (Bjarni Hauksson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Útlendingur
  • Vistun á stofnun

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta vistun á sjúkrahúsi eða viðeigandi stofnun, sbr. b. liður 1. mgr. 115. gr. laga nr. 80/2016. og 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir. 

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. nóvember 2017 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 13. nóvember 2017 þar sem varnaraðila var gert að sæta vistun á sjúkrahúsi eða viðeigandi stofnun allt til mánudagsins 20. nóvember 2017 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að honum verði gert að sæta farbanni.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

                                                        

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness, mánudaginn 13. nóvember 2017

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur krafist þess fyrir dóminum í dag að varnaraðila, X fæddum [...], verði með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness gert að sæta vistun á sjúkrahúsi eða viðeigandi stofnun, allt til mánudagsins 20. nóvember 2017 kl. 16:00.

Varnaraðili mótmælir kröfu lögreglustjóra og krefst þess aðallega að kröfunni verði hafnað en til vara að honum verði gert að sæta farbanni.

I

Í greinargerð lögreglustjóra er til þess vísað að varnaraðili hafi komið til landsins 5. nóvember sl. Hann hafi gefið sig fram við tollgæslu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og óskað eftir hæli hér á landi. Varnaraðili hafi verið sendur í móttökumiðstöð fyrir hælisleitendur að [...] þar sem ritaðar hafi verið niður eftir honum upplýsingar og tekin af honum fingraför og ljósmynd. Við uppflettingu í Schengen-gagnagrunni lögreglu hafi komið fram „smellur“ og í ljós komið að varnaraðili sé skráður sem týndur einstaklingur. Við nánari rannsókn hafi jafnframt komið fram upplýsingar frá belgísku lögreglunni og Interpol þar í landi um að varnaraðili hafi í heimildarleysi yfirgefið geðsjúkrahús 21. október sl. þar sem hann hafði verið skyldaður til að dveljast til 15. september 2018 af dómstól í Liege í Belgíu. Samkvæmt upplýsingum frá Interpol í Belgíu þjáist varnaraðili af schizophrenic behavior, paranoia og aggression og þurfi hann lyf alla daga. Er varnaraðili sagður geta verið hættulegur, fái hann ekki meðhöndlun við sjúkdómi sínum. Íslenskum yfirvöldum hafi borist beiðni frá yfirvöldum í Belgíu um að halda varnaraðila í gæsluvarðhaldi þar til frekari ráðstafanir verði gerðar og upplýst verði nánar um ástand hans.

Nánar segir í greinargerð lögreglustjóra að þann 6. nóvember sl. hafi lögreglustjórinn á Suðurnesjum farið með kröfu fyrir Héraðsdóm Reykjaness um að aðilinn yrði settur í gæsluvarðhald og til vara vistaður á viðeigandi stofnun. Hafi héraðsdómur fallist á varakröfuna og úrskurðað að aðilinn skyldi vistaður á viðeigandi stofnun allt til 13. nóvember 2017, kl. 16:00. Aðilinn hafi hins vegar verið vistaður í fangelsinu á Hólmsheiði frá uppkvaðningu úrskurðar þar sem Landspítali háskólasjúkrahús hafi neitað að vista aðilann á grundvelli þess að spítalinn sé ekki „viðeigandi stofnun“ í skilningi 100. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

Lögreglunni á Suðurnesjum hafi nú borist í gegnum alþjóðadeild ríkislögreglustjóra gögn frá yfirvöldum í Frakklandi. Vísast nánar til þeirra gagna. Þá hafa lögreglu jafnframt borist upplýsingar um að foreldrar aðilans hafa verið upplýstir um veru hans hér á landi og hafa þau lýst yfir vilja sínum að fá hann aftur til Belgíu og að þau muni bera kostnað af flutningi hans þangað. Einnig hafa lögreglu borist upplýsingar um þá sjúkrastofnun sem aðilinn var vistaður á í Belgíu og upplýsingar um lækni hans og símanúmer hans sem óskaði eftir að komast í samband við þá sjúkrastofnun þar sem hann dvelur á hér á landi og þann lækni sem annist hann.

Umsókn aðilans um alþjóðlega vernd á Íslandi er til meðferðar hjá Útlendingastofnun en ekki er unnt að flytja aðilann aftur til Belgíu fyrr en sú umsókn hafi verið afgreidd af yfirvöldum hér á landi. Lögregla telji að ætla megi að aðilinn kunni að vera hættulegur sjálfum sér og umhverfi sínu og sé það mat lögreglu að vistun á sjúkrahúsi eða viðeigandi stofnun sé nauðsynlegt með tilliti til hans sjálfs og almannahagsmuna. 

Með vísan til alls framangreinds, b. liðar 115. gr. útlendingalaga nr. 80/2016, sbr. 100. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, telji lögreglustjóri brýna hagsmuni standa til þess að aðilanum verði gert að sæta vistun á sjúkrahúsi eða viðeigandi stofnun á meðan málið sé til meðferðar hjá yfirvöldum, allt til mánudagsins 20. nóvember 2017, kl. 16:00.

II

Samkvæmt b. lið 1. mgr. 115. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga er heimilt að handtaka útlending og færa í gæsluvarðhald ef útlendingur sýnir af sér hegðun sem gefur til kynna að hann ógni allsherjarreglu, öryggi ríkisins eða almannahagsmunum. Í ljósi þeirra upplýsinga sem fyrir liggja um veikindi varnaraðila og strok hans af geðsjúkrahúsi 21. október sl., þar sem honum bar að dvelja samkvæmt boði belgísks dómstóls fram til 15. september 2018, verður á það fallist með lögreglustjóra að skilyrði séu til að gera varnaraðila að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli tilvitnaðs ákvæðis laga um útlendinga. Vegna þess sem fyrir liggur í gögnum málsins um andlegt heilsufar varnaraðila þykir hins vegar rétt að beita heimild 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og mæla fyrir um vistun hans á sjúkrahúsi eða viðeigandi heilbrigðisstofnun.

Úrskurð þennan kveður upp Bogi Hjálmtýsson héraðsdómari.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Varnaraðili, X, fæddur [...], skal sæta vistun á sjúkrahúsið eða viðeigandi stofnun, allt til mánudagsins 20. nóvember nk. kl. 16:00.