Hæstiréttur íslands
Mál nr. 215/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Haldlagning
- Frávísun frá Hæstarétti
|
|
Mánudaginn 2. apríl 2012. |
|
Nr. 215/2012. |
Seðlabanki Íslands (Gizur Bergsteinsson hrl.) gegn X hf. (Helgi Jóhannesson hrl.) |
Kærumál. Haldlagning. Frávísun máls frá Hæstarétti.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem tölvufyrirtækinu A hf. var gert að afhenda S gögn X hf. og tiltekinna tengdra félaga til haldlagningar og afritunar, á grundvelli 4. mgr. 15. gr. e. laga nr. 87/1992 um gjaldeyrismál, sbr. 68., 70. og 74. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Eftir að málið barst Hæstarétti var rétturinn upplýstur um að rannsóknarathafnir þær, sem heimilaðar voru með hinum kærða úrskurði, hefðu þegar farið fram. Var hinum kærða úrskurði því vísað frá Hæstarétti, sbr. 4. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. mars 2012, sem barst Héraðsdómi Reykjavíkur degi síðar og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. mars 2012, þar sem A hf. var gert að afhenda sóknaraðila meðal annars gögn varnaraðila til haldlagningar og afritunar. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með hinum kærða úrskurði var sóknaraðila heimilað að leggja hald á og afrita nánar tiltekin gögn varnaraðila og fleiri félaga. Þegar kæra barst Hæstarétti var þeim rannsóknaraðgerðum, sem heimilaðar voru samkvæmt hinum kærða úrskurði, ekki lokið, en samkvæmt 4. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008 frestar kæra ekki framkvæmd. Greinargerð sóknaraðila barst Hæstarétti 30. mars 2012, innan þess frests sem greinir í 3. mgr. 194. gr. laga nr. 88/2008, en fyrir liggur nú að að rannsóknaraðgerðum lauk 31. mars 2012.
Samkvæmt 3. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 verður úrskurður héraðsdómara ekki kærður til Hæstaréttar ef athöfn, sem kveðið er á um í úrskurðinum, hefur þegar farið fram eða ástand, sem leitt hefur af ákvæðum hans, er þegar um garð gengið. Þá er í 4. mgr. sömu lagagreinar mælt svo fyrir að hafi úrskurður verið kærður og svo fer sem í 3. mgr. segir eftir þann tíma en áður en dómur er felldur í kærumálinu skuli vísa því frá Hæstarétti.
Sú rannsóknarathöfn, sem heimiluð var með hinum kærða úrskurði, hefur þegar farið fram. Verður málinu því vísað frá Hæstarétti.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. mars 2012.
Seðlabanki Íslands hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur heimili með úrskurði að A hf., kt: [...], annars vegar að [...], [...], og hins vegar að [...], [...], verði gert skylt að afhenda Seðlabanka Íslands samkvæmt 15. gr. e. laga nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, sbr. ákvæði 68. gr., 70. gr., 74. gr. og 1. mgr. 75. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, til haldlagningar og afrita öll gögn af sameiginlegum svæðum X hf., kt: [...], og tengdra félaga, heimasvæðum, bókhaldskerfi SAP og öllum tölvupósti, ásamt viðhengjum, sem sendur hefur verið til eða frá netföngum starfsmanna X hf., kt: [...], sem starfsmenn félagsins áttu og/eða notuðu, á tímabilinu frá og með dags. 1. mars 2008 til og með 27. mars 2012.
Þá er þess einnig krafist að A hf. verði gert að afhenda öll gögn sem tengjast umræddum heimasvæðum, bókhaldskerfi SAP, sameiginlegum svæðum og netföngum á áðurnefndu tímabili og geymd eru á öryggisafritum A hf., kt: [...] en Seðlabanki Íslands hefur upplýsingar um að umrædd heimasvæði, bókhaldskerfi SAP, sameiginleg svæði og netföng séu þjónustuð af A hf., kt: [...].
Krafa þessi nær til X hf., kt: [...], ásamt eftirfarandi tengdum félögum:
[...].
Í framlagðri greinargerð kemur fram að Seðlabanki Íslands hafi nú meðal annars til rannsóknar ætluð brot X hf. og tengdra fyrirtækja, svo og nokkurra lykilmanna fyrirtækisins, á lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, og reglum settum á grundvelli þeirra. Rannsóknin miði einkum að því að upplýsa um hvort verð afurða X hf. við útflutning til tengdra aðila sé í samræmi við það sem almennt tíðkist í viðskiptum óskyldra aðila, en slíkt sé áskilið samkvæmt 2. mgr. bráðabirgðaákvæðis II í lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, með síðari breytingum. Gögn gefi til kynna að verð afurða sé miðað við uppgjörsverð til [...] samkvæmt kjarasamningi, að viðbættum áætluðum flutningskostnaði. Hafi Seðlabanki Íslands aflað gagna sem styðji grun um að verð sem þannig sé reiknað út sé talsvert lægra en meðalverð í viðskiptum óskyldra aðila. Jafnframt tengist meint framangreind háttsemi einnig hugsanlegu broti á skilaskyldu erlends gjaldeyris, sbr. 13. gr. l. laga nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, en til að upplýsa um slíkt sé nauðsynlegt að afla gagna um tengd félög X hf., jafnt erlend sem innlend, en grunur leiki á að erlend félög séu í raun starfrækt frá Íslandi og þar með teljist þau innlendir aðilar í skilningi laga nr. 87/1992, um gjaldeyrismál. Hafi Seðlabanki Íslands aflað fjölda gagna sem styðji grun um framangreind brot. Megi þar nefna bréfaskrif X hf. og Verðlagsstofu skiptaverðs, tollskýrslur og upplýsingar um söluverð [...]/[...] á ákveðnu tímabili til skyldra aðila. Einnig hafi verið aflað upplýsinga frá Creditinfo og Companies House.
Í 2. gr. laga nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, komi fram að gjaldeyrisviðskipti vegna inn- og útflutnings vöru og þjónustu skuli vera óheft, svo og fjármagnshreyfingar og gjaldeyrisviðskipti vegna þeirra, nema annað sé ákveðið í lögum. Í 1. mgr. bráðabirgðaákvæðis II laganna segi: „Þrátt fyrir ákvæði 2. gr. skulu greiðslur vegna útflutnings vöru og þjónustu fram til [31. desember 2013] fara fram í erlendum gjaldmiðli.“ Jafnframt komi fram í 2. mgr. sama ákvæðis að fari útflutningsviðskipti fram á milli tengdra aðila skuli þau gerð á grundvelli almennra kjara og venju í viðskiptum óskyldra aðila. Þá segi í 4. mgr. ákvæðisins að brot gegn ákvæðinu varði stjórnvaldssektum og refsingu skv. 15. gr. a d, 16. gr. 16. gr. a og 16. gr. b.
Í 13. gr. l. laga nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, segi: „Öllum erlendum gjaldeyri sem innlendir aðilar eignast, svo sem fyrir seldar vörur og þjónustu, eða með öðrum hætti, skal skilað til fjármálafyrirtækis hér á landi innan þriggja vikna frá því að gjaldeyririnn komst eða gat komist í umráð eiganda eða umboðsmanns hans. Skilaskylda skv. 1. málsl. er uppfyllt þegar erlendur gjaldeyrir er varðveittur á gjaldeyrisreikningi hjá fjármálafyrirtæki hér á landi.“ Í 2. mgr. ákvæðisins segi: „Skilaskylda nær ekki til innlendra aðila sem hafa búsetu erlendis vegna starfs eða náms.“
Allt frá því að Seðlabanki Íslands gaf út fyrstu reglur um gjaldeyrismál, sbr. reglur nr. 1082/2008, sbr. lög nr. 134/2008, þann 28. nóvember 2008, hafi verið kveðið á um skyldu innlendra aðila til að skila öllum erlendum gjaldeyri sem þeir hafi eignast, svo sem fyrir seldar vörur og þjónustu, eða með öðrum hætti, til fjármálafyrirtækis hér á landi. Með lögum nr. 127/2011, um breytingu á lögum um gjaldeyrismál, tollalögum og lögum um Seðlabanka Íslands, hafi áður útgefnar reglur Seðlabanka Íslands, um gjaldeyrismál, settar á grundvelli bráðabirgðaákvæðis I í lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, verið lögfestar. Rétt sé að taka fram að í framangreindum lögum nr. 127/2011 hafi verið gerð sú breyting að skilaskylda innlendra aðila á erlendum gjaldeyri hafi verið lengd úr tveimur vikum í þrjár vikur frá því að gjaldeyririnn hafi komist eða hafi getað komist í umráð eiganda eða umboðsmanns hans, sbr. 3. gr. laganna. Meint brot þeirra aðila sem húsleitarheimildin beinist að gæti því einnig varðað við ákvæði 8. gr. reglna nr. 1082/2008, sbr. 9. gr. reglna nr. 1130/2008, 12. gr. 880/2009 og 12. gr. reglna 370/2010, um gjaldeyrismál.
Framangreind meint brot geti valdið sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, liggi þyngri refsing ekki við broti samkvæmt öðrum lögum, sbr. 16. gr. laga nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, en í 16. gr. laganna segi: „Það varðar sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, liggi þyngri refsing ekki við broti samkvæmt öðrum lögum, að brjóta gegn:
- [...]
- [...]
- [...]
- 13. gr. a 13. gr. n. um bann við fjármagnshreyfingum og gjaldeyrisviðskiptum.
- [...]
Brot gegn lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, og reglum settum á grundvelli þeirra er varði sektum eða fangelsi varði refsingu hvort sem þau séu framin af ásetningi eða gáleysi, sbr. 1. mgr. 16. gr. a. laga um gjaldeyrismál. Þá segi í 3. mgr. sömu greinar: „Tilraun til brots eða hlutdeild í brotum samkvæmt lögum þessum og reglum settum á grundvelli þeirra er refsiverð eftir því sem segir í almennum hegningarlögum.“
Um þá aðila sem krafan beinist gegn, svo og um tengsl þeirra, segir í kröfunni að X hf., kt. [...], sé [...]fyrirtæki sem stundi [...] sem og sölu og útflutning [...]. B ehf., kt. [...], sé umboðsverslun með [...]. Samkvæmt upplýsingum frá Creditinfo Ísland sé framkvæmdastjóri og prókúruhafi X hf. C. C sé jafnframt eigandi 32% hlutafjár í félaginu í gegnum félagið D ehf., kt. [...]. B ehf. sé að öllu leyti í eigu X hf., með heimilisfesti að [...], [...] og stjórnarmaður sé C. C sitji einnig í stjórn eftirfarandi félaga sem öll hafi heimilisfesti að [...], [...]; [...].
E sé stjórnamaður X hf. og eigandi 32,5% hlutafjár í félaginu í eigin nafni. E sitji einnig í stjórn eftirfarandi félaga með heimilisfesti að [...], [...]; [...].
F sé fjármálstjóri X hf. og prókúruhafi þess. F sé auk þess stjórnarmaður í nokkrum fyrirtækjum sem ýmist hafi heimilisfesti að [...], [...] eða [...], [...]. Fyrirtækin sem um ræði séu; B ehf., [...]. F sé framkvæmdastjóri D ehf., [...].
G ehf. fari með 10,7% hlut í X hf. Stjórnarmenn félagsins séu E, C og F en auk þeirra sitji H, búsettur í [...] og bróðir C, í stjórn félagsins. Heimilisfesti G sé að [...], [...], sem sé jafnframt lögheimili C.
Þá er tekið fram að samkvæmt ársreikningi X hf. fyrir árið 2009 eigi félagið alls 17 dótturfélög. Þau séu m.a. eftirfarandi; [...]. Fram kemur einnig að samkvæmt upplýsingum frá Creditinfo Ísland sé framkvæmdastjóri B ehf. I, búsettur í [...]. I sé annar prókúruhafi félagsins. Samkvæmt upplýsingum frá Companies House, bresku fyrirtækjaskránni, sé I stjórnarmaður J sem og C.
Seðlabanki Íslands telur, með vísan til framangreinds og þeirra gagna sem liggi til grundvallar, að þeir aðilar sem til rannsóknar eru séu verulega tengdir og að þær upplýsingar og gögn, sem nauðsynleg séu til frekari rannsókna umræddra ætlaðra brota, sé að finna á skrifstofu aðilanna.
Sem rökstuðning fyrir kröfunni að öðru leyti bendir Seðlabankinn á eftirfarandi: Samkvæmt útflutningsskýrslum sem Seðlabankinn fái afhentar frá Tollstjóra, hafi fyrirtækin X hf. og B ehf. samtals flutt út vörur fyrir tæpa 72 milljarða frá október 2008 til þess dags er beiðni þessi sé rituð. Þetta svari til 3,8% af öllum útflutningi á tímabilinu og 10,6% af öllum [...]útflutningi á tímabilinu. Í samræmi við bráðabirgðaákvæði II í lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál skuli útflutningsviðskipti milli tengdra aðila fara fram á grundvelli almennra kjara og venju í viðskiptum óskyldra aðila. Þessu ákvæði sé ætlað að tryggja að útflytjendur selji ekki á undirverði til skyldra aðila og skili þannig aðeins hluta af raunverulegu söluandvirði til landsins eins og kveðið sé á um í 13. gr. l. sömu laga.
Þegar fyrrgreindar útflutningsskýrslur séu skoðaðar komi fram að X hf. og B ehf. selji vörur til tengdra aðila fyrir upphæð sem nemi 25,4% af heildarupphæð útflutnings fyrirtækjanna. Sé þar um að ræða sölu til annars vegar J, dótturfélags X í [...] og hins vegar K, dótturfélags X í [...].
Þann 20. febrúar 2012 hafi Seðlabankanum borist ábending um að verð, sem X hf. gæfi upp á útflutningsskýrslum [...] sem seldar væru til tengdra aðila, væri annað og lægra en eðlilegt væri í viðskiptum óskyldra aðila. Sú ábending hafi meðal annars falist í bréfi, dagsettu 28. ágúst 2011, til Verðlagsstofu skiptaverðs, sem L undirritar fyrir hönd X hf. Þar segi orðrétt:
„X hefur því gert útflutningsreikning, stílaðan á dótturfélag sitt í [...], með verði sem samanstendur af uppgjörsverði til [...] ásamt flutningskostnaði og öðrum kostnaði sem til fellur við að flytja [...] á ákvörðunarstað erlendis.“
Uppgjörsverð til [...] í þeim tilvikum þegar [...] selji [...] til tengdra aðila sé samningsatriði milli [....] og [...]. Eftir samtöl við aðila sem þekki til telur Seðlabankinn að verðið í þessum samningum endurspegli ekki eðlilegt verð. Á þeim grundvelli hafi verð á ákveðnum [...] verið skoðað yfir 3 mánaða tímabil. Kannað hafi verið verð á útfluttum heilum karfa fyrir október, nóvember og desember 2011. Skoðað hafi verið bæði verð X hf. til tengdra aðila og verð annarra aðila til sinna viðskiptavina. Í október 2011 hafi meðalverð X hf. til tengdra aðila verið 1,65 evra á kíló en verð annarra aðila 2,76 evrur á kíló. Þannig sé almennt verð í október 2011 68% hærra en verð X hf. til tengdra aðila. Í nóvember 2011 hafi meðalverð X hf. til tengdra aðila verið 1,62 evra á kíló en verð annarra aðila 2,08 evra á kíló. Þannig sé almennt verð í nóvember 2011 28% hærra en verð X hf. til tengdra aðila. Í desember 2011 hafi meðalverð X hf. til tengdra aðila verið 1,79 evra á kíló en verð annarra aðila 3,10 evra á kíló. Þannig sé almennt verð í desember 2011 73% hærra en verð X hf. til tengdra aðila.
Auk fyrrgreindrar ábendingar um verðákvarðanir milli tengdra aðila og verulegan mun sem athugun Seðlabankans á verðlagningu X hf. til dótturfyrirtækja hafi leitt í ljós, bendi fleira til þess að X hf., og eftir atvikum dótturfélög hans, hafi gerst brotleg við lög nr. 87/1992, um gjaldeyrismál. Á árunum 2010 og 2011 hafi Seðlabankinn gert almenna athugun á skilaskyldu útflutningsfyrirtækja, þeirra á meðal X hf. Hafi þá meðal annars verið byggt á gögnum úr útflutningsskýrslum, greiðslukerfi erlendra greiðslna (SWIFT) og gögnum frá fyrirtækjunum sjálfum. Niðurstöður þeirrar athugunar hafi í byrjun árs 2012 verið bornar undir sérfræðing í endurskoðun hjá M og hafi ábendingar hans borist Seðlabankanum í byrjun mars 2012. Þar komi fram ábendingar um að nauðsynlegt sé að afla frekari gagna, meðal annars hvernig sala móðurfélagsins skiptist milli viðskiptamanna, hvort móðurfélag eða dótturfélög selji þann erlenda gjaldeyri sem berist til landsins vegna útflutnings, hver umboðslaun til erlendra dótturfélaga séu og hvort þau séu í takt við það sem tíðkist, auk fleiri ábendinga. Frumniðurstöður úr þessari athugun bendi til nokkurs ósamræmis í skilum X hf. á erlendum gjaldeyri og sé þá bæði um að ræða að erlendum gjaldeyri hafi verið skilað utan tilskilins tímafrests og að honum hafi alls ekki verið skilað.
Að mati Seðlabanka Íslands sé óumflýjanlegt að rannsaka ítarlega hversu umfangsmikil meint brot séu. Jafnframt leiki grunur á um annars vegar að raunveruleg framkvæmdastjórn hinna erlendu félaga, M og J, sé á Íslandi og hins vegar að þau félög, sem beiðni þessi lúti að, séu starfrækt sem ein heild.
Um lagarök, kröfunni til stuðnings, er til þess vísað að samkvæmt 4. mgr. 15. gr. e. laga nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, sé Seðlabanka Íslands heimilt að gera sérstakar athuganir og leggja hald á gögn í samræmi við ákvæði laga um meðferð sakamála, enda séu ríkar ástæður til að ætla að einstaklingar og lögaðilar hafi brotið gegn lögunum eða reglum settum á grundvelli þeirra eða ástæða sé til að ætla að athuganir eða aðgerðir Seðlabankans nái að öðrum kosti ekki tilætluðum árangri. Ákvæðum laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, skuli beitt við framkvæmd slíkra aðgerða. Krafa þessi sé því sett fram með vísan í 4. mgr. 15. gr. e. laga nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, sbr. ákvæði 68. gr., 70. gr., og 74. gr. sbr. 1. mgr. 75. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, um meðferð sakamála, sbr. einnig ákvæði 1. mgr. 103. gr. og 104. gr. sömu laga.
-----------------------
Af framanrituðu, sem jafnframt er stutt framlögðum gögnum, er á það fallist að ríkar ástæður séu til að ætla að þeir lögaðilar og einstaklingar sem krafa þessi beinist að, hafi m.a. brotið gegn fyrirmælum laga um skilaskyldu erlends gjaldeyris, en ákvæði þessa efnis er að finna í lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, með síðari breytingum, sem og reglum sem settar hafa verið á grundvelli þeirra. Geta slík brot varðað sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, liggi þyngri refsing ekki við broti samkvæmt öðrum lögum, sbr. 16. gr. laga nr. 87/1992. Miðar krafa Seðlabanka Íslands að því að afla sem gleggstra upplýsinga og gagna, svo unnt sé að taka afstöðu til frekari rannsóknar.
Samkvæmt lokamálslið 4. mgr. 15. gr. e. laga nr. 87/1992 skal beita ákvæðum laga um meðferð sakamála við framkvæmd þeirra aðgerða sem Seðlabankanum eru þar heimilaðar. Þar sem telja verður að augljósir rannsóknarhagsmunir séu hér í húfi, svo og með hliðsjón af því að rannsóknin beinist að broti sem varðað getur fangelsisrefsingu að lögum, fellst dómurinn á að uppfyllt séu skilyrði 68., 70. og 74. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, til þess að verða við kröfunni, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
A hf., kt: [...], [...], [...] og [...], [...], er skylt að afhenda Seðlabanka Íslands, til haldlagningar og afrita öll gögn af sameiginlegum svæðum X hf., kt: [...], og tengdra félaga, heimasvæðum, bókhaldskerfi SAP og öllum tölvupósti, ásamt viðhengjum, sem sendur hefur verið til eða frá netföngum starfsmanna X hf., kt: [...], sem starfsmenn félagsins áttu og/eða notuðu, á tímabilinu frá og með dags. 1. mars 2008 til og með 27. mars 2012.
Þá skal A hf. afhenda öll gögn sem tengjast umræddum heimasvæðum, bókhaldskerfi SAP, sameiginlegum svæðum og netföngum á áðurnefndu tímabili og geymd eru á öryggisafritum A hf., kt: [...].
Krafa þessi nær til X hf., kt: [...], ásamt eftirfarandi tengdum félögum:
[...].