Hæstiréttur íslands

Nr. 2021-316

Orkuveita Reykjavíkur (Jónas A. Aðalsteinsson lögmaður)
gegn
Glitni HoldCo ehf. (Ragnar Björgvinsson)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Gengistrygging
  • Afleiðusamningur
  • Kröfuhafaskipti
  • Ógildi samnings hafnað
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen og Ingveldur Einarsdóttir.

2. Með beiðni 10. desember 2021 leitar Orkuveita Reykjavíkur leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 26. nóvember sama ár í máli nr. 481/2020: Orkuveita Reykjavíkur gegn Glitni HoldCo ehf. á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Gagnaðili höfðaði mál þetta á hendur leyfisbeiðanda til heimtu skuldar að fjárhæð 747.341.624 krónur á grundvelli uppgjörs átta afleiðusamninga sem aðilar gerðu með sér á árunum 2002 til 2008. Fyrir Landsrétti reisti leyfisbeiðandi sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að gagnaðili væri ekki lengur eigandi umræddra fjármálagerninga þar sem hann hefði framselt þá til íslenska ríkisins árið 2015 með samningi við Seðlabanka Íslands um stöðugleikaframlag. Í öðru lagi hefði gagnaðili þegar fengið kröfur sínar greiddar með bótum frá endurskoðunarfyrirtækinu PwC ehf. vegna tjóns sem starfsmenn þess fyrirtækis hefðu valdið gagnaðila í aðdraganda efnahagshrunsins. Í þriðja lagi bæri að ógilda samningana á grundvelli 30. gr., 33. eða 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga meðal annars þar sem gagnaðili hefði með saknæmum hætti leynt því að hafa verið í reynd ógjaldfær þegar þrír af umræddum samningum voru gerðir og því ófær um að efna skyldur sínar samkvæmt þeim. Til stuðnings þeirri kröfu vísaði hann til niðurstöðu matsgerðar dómkvaddra matsmanna. Þá byggði leyfisbeiðandi á því að tölulegur útreikningur á kröfufjárhæð væri rangur. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms þar sem fallist var á kröfur gagnaðila.

4. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrlausn málsins hafi verulegt almennt gildi um túlkun á reglum um framsal kröfuréttinda og tengsl þeirra við reglur einkamálaréttarfars um aðildarskort og aðildarskipti, auk reglna um sönnunarbyrði í einkamálum og áhrif áskorunar samkvæmt 2. mgr. 67. gr. laga nr. 91/1991. Leyfisbeiðandi telur að ósamræmis gæti í dómaframkvæmd Landsréttar hvað fyrrnefnd atriði varðar. Þá sé dómur Landsréttar bersýnilega rangur að efni og formi til. Í þeim efnum vísar hann einkum til þess að sönnunarbyrði hafi ranglega verið lögð á hann um að framsal umræddra krafna leiði til þess að gagnaðili sé ekki eigandi þeirra. Þá hafi skort á að Landsréttur tæki rökstudda afstöðu til allra málsástæðna leyfisbeiðanda og hvergi sé getið þeirra atvika málsins og réttarheimilda sem styðji helstu málsástæðu hans um brotastarfsemi gagnaðila. Af þessum sökum fullnægi dómurinn ekki skilyrðum 1. mgr. 114. gr., sbr. 3. og 4. mgr. 164. gr. laga nr. 91/1991. Loks varði málið sérstaklega mikilvæga fjárhagslega hagsmuni sína.

5. Að virtum gögnum málsins verður hvorki séð að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.