Hæstiréttur íslands

Mál nr. 443/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjármálafyrirtæki
  • Kröfulýsingarfrestur
  • Vanlýsing


                                                                                              

Mánudaginn 18. ágúst 2014.

Nr. 443/2014.

Landesbank Badenrttemberg

(Sigríður Rut Júlíusdóttir hrl.)

gegn

Glitni hf.

(Steinunn Hólm Guðbjartsdóttir hrl.)

Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Kröfulýsingarfrestur. Vanlýsing.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem kröfu L var hafnað og staðfest sú afstaða slitastjórnar G hf. að taka kröfu L ekki inn á kröfuskrá þar sem henni hafði ekki verið lýst fyrir slitastjórn fyrr en eftir að kröfulýsingarfrestur samkvæmt 118. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. rann út. Kom fram í hinum kærða úrskurði að þrátt fyrir að fallast yrði á það með L að kröfuréttindi teldust eign í merkingu stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 1. viðauka mannréttindasáttmálans mætti með skýrri lagaheimild setja eignarréttindum ýmsar takmarkanir án þess að þær yrðu taldar fara gegn ákvæðum 72. gr. stjórnarskrárinnar. Í íslenskri löggjöf sé víða að finna dæmi um lagaákvæði sem leitt geti til missis eignarréttinda eftir tilgreindan tíma sé þeim ekki haldið fram, svosem ákvæði um vanlýsingaráhrif við dánarbús- og gjaldþrotaskipti. Ákvæði 118. gr. laga nr. 21/1991 sé ætlað að ná til allra kröfuhafa í sambærilegri stöðu og hafi markmiðið með setningu þess verið málefnalegt. Það verði því ekki talið í andstöðu við fyrrgreint ákvæði stjórnarskrárinnar.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. júní 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. júní 2014 þar sem kröfum sóknaraðila á hendur varnaraðila var hafnað. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að kröfur hans, samtals að fjárhæð 5.891.668.581 króna, verði viðurkenndar við slit varnaraðila sem almennar kröfur samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst aðallega staðfestingar hins kærða úrskurðar, til vara að kröfum sóknaraðila verði vísað frá dómi, en að því frágengnu að kröfur sóknaraðila verði lækkaðar og dráttarvöxtum hafnað. Í öllum tilvikum krefst hann kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Það athugast að eftir að aðilar lögðu fram greinargerðir fyrir Hæstarétti bárust réttinum svonefndar athugasemdir varnaraðila við greinargerð sóknaraðila. Fyrir þessum skriflega málflutningi er engin heimild og er hann aðfinnsluverður.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Landesbank Badenrttemberg, greiði varnaraðila, Glitni hf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. júní 2014.

I.

Mál þetta, sem þingfest var 11. apríl 2012, var tekið til úrskurðar 8. maí sl. Sóknaraðili er Landesbank Baden-Württemberg, Am Hauptbahnhof 2, Stuttgart, Þýskalandi, en varnaraðili er Glitnir hf., Sóltúni 26, Reykjavík.

Dómkrafa sóknaraðila er að kröfur hans, samtals að fjárhæð 5.891.668.581 króna, verði viðurkenndar sem almennar kröfur samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. við slit varnaraðila. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess aðallega að staðfest verði sú afstaða slitastjórnar varnaraðila, að taka kröfu sóknaraðila ekki inn á kröfuskrá og hafna henni. Til vara krefst varnaraðili þess að fjárkröfum sóknaraðila verði vísað frá dómi, en til þrautavara að kröfufjárhæð sóknaraðila verði lækkuð og dráttarvaxtakröfu hans alfarið hafnað. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar.

II.

Mál þetta lýtur að tveimur innlánum er málsaðilar sömdu um hinn 8. ágúst 2008 að sóknaraðili legði varnaraðila til. Sóknaraðili lagði fyrra lánið, að fjárhæð 14.173.880 evrur, inn hjá varnaraðila hinn 12. sama mánaðar og skyldi það endurgreiðast 12. nóvember sama ár. Skyldi fjárhæðin bera 4,97% ársvexti, eða sem næmi 180.024,02 evrum. Sóknaraðili lagði síðara lánið, að fjárhæð 25.177.611,11 svissneskir frankar, inn hjá varnaraðila 13. ágúst 2008. Skyldi það endurgreiðast 13. nóvember sama ár, ásamt 2,75% ársvöxtum, eða 176.942,66 svissneskum frönkum.

Áður en kom að gjalddaga framangreindra innlána tók Fjármálaeftirlitið yfir vald hluthafafundar í varnaraðila hinn 7. október 2008, vék stjórn hans frá og setti yfir hann skilanefnd á grundvelli 100. gr. a í lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008. Varnaraðila var veitt heimild til greiðslustöðvunar 24. nóvember sama ár. Með lögum nr. 44/2009 var varnaraðili síðan tekinn til slitameðferðar og miðast upphaf slitanna við 22. apríl 2009, þegar lögin öðluðust gildi. Slitastjórn gaf út innköllun til skuldheimtumanna, sem birtist í Lögbirtingablaðinu 26. maí 2009, og lauk kröfulýsingarfresti 26. nóvember sama ár. Samkvæmt 102. gr. laga nr. 161/2002 gilda reglur laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., um meðferð krafna við slitin, sbr. 2. tl. ákvæðis II til bráðabirgða með lögum nr. 44/2009.

Sóknaraðili lýsti framangreindum tveimur kröfum hinn 19. maí 2010 sem almennum kröfum skv. 113. gr. laga nr. 21/1991, samtals að fjárhæð 5.891.668.581 króna. Slitastjórn varnaraðila hafnaði kröfunum með vísan til þess að frestur til að lýsa þeim hefði runnið út 26. nóvember 2009. Kröfunum hefði því verið lýst of seint og væru þær niður fallnar skv. 1. mgr. 118. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðili mótmælti þessari afstöðu slitastjórnarinnar á fundi með slitastjórn varnaraðila sem haldinn var í tilefni þessa 19. júlí 2010. Framhaldsfundur vegna þessa ágreinings var haldinn 9. mars 2012, þegar ljóst þótti að niðurstaða annarra mála yrði ekki ákvarðandi um meðferð krafna sóknaraðila að þessu leyti í slitameðferð varnaraðila. Tilkynnti varnaraðili á fundinum að afstaða hans til þessara krafna sóknaraðila stæði óhögguð. Þar sem sóknaraðili ítrekaði enn fyrri mótmæli við afstöðu varnaraðila ákvað slitastjórn varnaraðila í kjölfarið að beina ágreiningsefninu til úrlausnar héraðsdóms, í samræmi við ákv. 171. gr., sbr. 2. mgr. 120. gr., laga nr. 21/1991.

III.

Við upphaf aðalmeðferðar málsins lýsti sóknaraðili því yfir að hann félli frá þeim málsástæðum í greinargerð sinni sem raktar séu í köflum B og C og lúti að því að kröfum hans hafi verið lýst fyrir upphaf lögformlegrar slitameðferðar varnaraðila og að varnaraðili hafi ekki virt þá skyldu sína að tilkynna sóknaaðila sem þekktum kröfuhafa um slitameðferðina.

Sóknaraðili vísar til þess að afar óvenjulegt sé í evrópskri réttarframkvæmd að skiptastjóri eða slitastjórn hafni kröfu vegna vanlýsingar, enda séu lagaákvæði þar að lútandi mjög óvenjuleg í rétti ríkja Evrópusambandsins. Hafi þróunin á alþjóðavettvangi verið í þá átt að milda eða afnema slík ákvæði um kröfulýsingarfrest. Frá alþjóðlegu sjónarhorni sé það því óvenjulegt, og jafnframt algjörlega ófyrirsjáanlegt fyrir sóknaraðila, að kröfur hans séu virtar að vettugi á þeim grundvelli að þeim hafi verið lýst eftir lok kröfulýsingarfrests, jafnvel þótt varnaraðili hafi vitað að lánin væru útistandandi.

Sóknaraðili byggir kröfur sínar á því að beiting varnaraðila á 118. gr. laga nr. 21/1991 hafi í raun svipt hann stjórnarskrárvörðum eignarréttindum sínum, sbr. 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Telji hann að verði beitt réttri aðferðafræði við úrlausn málsins, í samræmi við dómaframkvæmd Hæstaréttar og Mannréttindadómstóls Evrópu, leiði það til þeirrar niðurstöðu að hin ströngu vanlýsingaráhrif 118. gr. fái ekki staðist ákvæði stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu og að ákvæðinu verði því ekki beitt um kröfu hans.

Bendir sóknaraðili á að hagsmunir hans teljist til eigna sem njóta skuli verndar af framangreindum ákvæðum stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmálans. Hin umdeilda löggjöf og/eða ráðstafanir feli í sér inngrip í þennan eignarrétt og liggi fyrir að inngripið teljist eignarsvipting, eða eignarnám. Verði ekki á það fallist sé ljóst að um sé að ræða almenna takmörkun á notkun eða brot gegn friðhelgi eignarréttarins, sem ekki sé hægt að réttlæta á grundvelli meðalhófsreglunnar. Viðurkenning krafnanna muni ekki á nokkurn hátt tefja slitameðferðina eða leiða til viðbótarkostnaðar þrátt fyrir að þeim hafi verið lýst eftir lok tilgreinds kröfulýsingarfrests. Í ljósi þess að ekkert réttmætt hlutfall sé á milli þeirra aðferða sem beitt sé, það er að neita sóknaraðila um endurheimtur og framselja í raun lögmæt eignarréttindi hans til annarra kröfuhafa varnaraðila, og þess markmiðs sem leitast sé við að uppfylla, það er að tryggja að slitameðferðinni verði lokið án ástæðulauss dráttar og á sem hagkvæmastan hátt, feli ákvörðun varnaraðila í sér óhóflega íhlutun gagnvart grundvallarréttindum sóknaraðila. Þá beri niðurfellingin öll einkenni ólöglegrar eignarsviptingar þar sem kröfuréttindi sóknaraðila séu felld niður og þeim í reynd skipt milli annarra kröfuhafa varnaraðila. Í ljósi alls framangreinds beri að virða þessa íhlutun að vettugi og viðurkenna kröfur sóknaraðila.

IV.

Varnaraðili mótmælir því að vanlýsingarreglan sem fram komi í 118. gr. laga nr. 21/1991, og beiting varnaraðila á henni gagnvart sóknaraðila, brjóti gegn eignarréttindum sóknaraðila, sem varin séu af 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu. Sé í því sambandi vísað til þess að Hæstiréttur hafi þegar kveðið upp úr um það, í dómi sínum í málinu nr. 92/1995, að vanlýsingarreglur sem varði brottfall eignarréttinda brjóti ekki gegn eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Þá hafi fræðimenn litið svo á að löggjafinn hafi heimild til að takmarka eignarrétt með lagasetningu byggi lagareglan á skýrum lagatexta og málaefnalegar ástæður búi að baki.

Á það sé bent að ef ekki giltu um þetta strangar reglur hefði sú hætta verið fyrir hendi að kröfulýsingar drægjust úr hófi fram og tefðu þannig slitameðferðina. Sé varnaraðili ekki í aðstöðu til að meta ástæður hvers kröfuhafa fyrir sig og ákvarða þannig hvaða kröfur teljist falla undir vanlýsingaráhrif 118. gr. Þurfi varnaraðili að fara eftir meginreglu laga nr. 21/1991 um jafnræði kröfuhafa og þar af leiðandi þeim skýra lagaramma sem um kröfulýsingar gildi. Breyti engu í því tilliti hvers konar reglur gildi erlendis að þessu leyti þótt ljóst sé að vanlýsingaráhrif, eins og þau sem kveðið sé á um í tilvitnaðri 118. gr., séu vel þekkt í erlendri löggjöf. Ráða megi af dómi Hæstaréttar í málinu nr. 306/2013 að niðurstaða vegna ágreinings aðila í máli þessu ráðist af íslenskum réttarreglum.

V.

Niðurstaða

Samkvæmt 4. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, svo sem ákvæðinu var breytt með 6. gr. laga nr. 44/2009, gilda ákvæði XVIII. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. um meðferð krafna á hendur fjármálafyrirtæki við slit þess. Þar kemur fram sú meginregla í 118. gr. að krafa falli niður ef henni er ekki lýst áður en kröfulýsingarfrestur líður, en frá þeirri reglu eru undantekningar sem taldar eru í 1. til 6. tölulið greinarinnar. Fram er komið að varnaraðili hafnaði kröfum sóknaraðila við slitameðferð varnaraðila með vísan til vanlýsingaráhrifa tilvitnaðrar 118. gr. Er ekki um það deilt að kröfur sóknaraðila bárust varnaraðila að liðnum auglýstum kröfulýsingarfresti. Hins vegar telur sóknaraðili að viðurkenna beri þær á þeim forsendum að niðurfelling krafnanna brjóti gegn eignarrétti hans sem varinn sé af 72. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. og 1. gr. 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu, enda sé afar óvenjulegt í evrópskri réttarframkvæmd að slitastjórn eða skiptastjóri hafni kröfu vegna vanlýsingar. Sé ljóst að vanlýsingarákvæði laga nr. 21/1991 henti ekki fyrir slitameðferð alþjóðlegs fjármálafyrirtækis, eins og hér um ræði.

Fallist verður á það með sóknaraðila, með hliðsjón t.d. af dómi Hæstaréttar í málinu nr. 340/2011, að kröfuréttindi teljist eign í merkingu stjórnarskrárinnar og 1. viðauka mannréttindasáttmálans. Hins vegar hefur verið litið svo á að með skýrri heimild í lögum megi setja eignarréttindum ýmsar takmarkanir án þess að þær verði taldar fara gegn ákv. 72. gr. stjórnarskrárinnar. Þannig er að finna í íslenskri löggjöf ýmis dæmi um lagaákvæði, s.s. lagaákvæði um fyrningu kröfuréttinda, sem geta leitt til missis eignarréttinda eftir tilgreindan tíma sé þeim ekki haldið fram, og ákvæði um vanlýsingaráhrif við dánarbús- og gjaldþrotaskipti, sem mæla fyrir um brottfall kröfuréttindanna gefi rétthafinn sig ekki fram innan áður auglýsts og lögákveðins frests. Verður ekki talinn leika vafi á að ákvæði 118. gr. laga nr. 21/1991, eins og öðrum ákvæðum þeirra laga, sé ætlað að ná til allra kröfuhafa í sambærilegri stöðu og að markmiðið með setningu þess hafi verið málefnalegt. Þá hefur Hæstiréttur staðfest, með dómi í máli nr. 619/2010, að ákvæði laga nr. 21/1991, um kröfulýsingarfresti og áhrif vanlýsingar, séu sanngjörn og eðlileg og að engin efni séu til að víkja frá þeim á þeim forsendum að þau henti ekki við svo umfangsmikil bússkipti sem raunin sé við slitameðferð bankanna. Loks hefur Hæstiréttur komist að þeirri niðurstöðu, í dómi sínum í máli nr. 92/1995, að ákvæði laga nr. 113/1952, um að ítak félli úr gildi ef því væri ekki lýst innan tilgreinds frests, stangaðist ekki á við áðurgildandi ákv. 67. gr. stjórnarskrárinnar, nú 72. gr. stjórnarskrárinnar.

Með hliðsjón af öllu framangreindu er það niðurstaða dómsins að ákvæði tilvitnaðrar 118. gr. laga nr. 21/1991 brjóti ekki í bága við ákv. 72. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 1. gr. 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu. Samkvæmt því verður að hafna öllum kröfum sóknaraðila í máli þessu.

Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 178. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila málskostnað, sem ákveðst hæfilegur 1.200.000 krónur.

Ásgeir Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Kröfum sóknaraðila, Landesbank Baden-Württemberg, á hendur varnaraðila, Glitni hf., er hafnað.

Sóknaraðili greiði varnaraðila 1.200.000 krónur í málskostnað.