Hæstiréttur íslands

Mál nr. 764/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
  • Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Sunnudaginn 23. desember 2012.

Nr. 764/2012.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Svanhvít Yrsa Árnadóttir hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. og b. liða 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson. 

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. desember 2012, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. desember 2012 þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 3. janúar 2013 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími og að honum verði ekki gert að sæta einangrun meðan á því stendur.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur laugardaginn 22. desember 2012.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði, að X, [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til laugardagsins 5. janúar nk., kl. 11:00. Þá er gerð krafa um að kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur. 

Í greinargerð lögreglu kemur fram að miðvikudaginn 19. desember sl. hafi kærði, ásamt meðkærðu, verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til mánudagsins 24. desember nk. þar sem hann liggi undir grun að hafa framið innbrot á heimili að [...] auk annarra auðgunarbrota, en í bifreiðinni [...] hafi fundist ýmis varningur, m.a. föt og snyrtivörur sem lögregla telji að tengist þjófnaði úr [...] þann 18. desember sl. ([...]) Á dvalarstað kærða að [...] hafi lögregla svo fundið og lagt hald á ætlað þýfi, rafmagnsverkfæri, sem talin séu tengjast innbrotum þann 27. nóvember sl. í [...] ([...]) og [...] ([...]). Þá liggi fyrir upplýsingar um að þann 27. nóvember sl. hafi verið sendur pakki til Póllands sem lögreglu gruni að hafi innihaldið þýfi.
Loks hafi einnig verið lagt hald á ætlað þýfi á dvalarstað meðkærðu að [...]. Vísast að öðru leyti til ofangreinds úrskurðar um nánari málsatvikalýsingu.

Kærði neiti sök og kannist hvorki við að hafa verið á Akureyri né að tengjast málinu með nokkrum hætti. Tilkynnt hafi hins vegar verið um bifreiðina [...] nálægt innbrotsstað við [...] auk þess sem kærði hafi verið skólaus er hann hafi verið handtekinn, en nálægt brotavettvangi hafi fundist skópar sem hafi verið samanburðarhæft við skóför sem hafi fundist á brotavettvangi. Þá virðist einnig sem aðferð við umrætt innbrot svipi mjög til aðferða við önnur óupplýst innbrot í íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu, sbr. mál lögreglu nr. [...] innbrot í [...]. des. [...], [...] sama dag, [...], [...] 10. des. sl.  [...], [...] 11. des [...],  [...], 12. des., [...], [...]-[..], 12. des., [...] [...], [...], 14 des. [...], [...] sama dag [...] , [...]-, [...] 15. des., [...] 16. des. [...]. Í öllum þessum innbrotum hafi töluverðum verðmætum verið stolið, þ.á.m. skartgripum.

Að mati lögreglu sé því nauðsynlegt að taka frekari skýrslur af kærða og meðkærðu, til upplýsa frekar um innbrotið að [...], bera kennsl á haldlagt þýfi og rannsaka frekar ofangreind innbrot, en ljóst sé að þar séu mikil verðmæti í húfi og kærði liggi þar einn undir grun. Þykir því brýnt með hliðsjón af gögnum málsins og sterkum grunsemdum lögreglu að vernda rannsóknarhagsmuni á þessu stigi málsins með því að varna því að kærði gangi laus en veruleg hætta sé talin á að hann torveldi rannsókn málsins með því að hafa áhrif á aðra samseka og eftir atvikum vitni ef hann fær að fara frjáls ferða sinna.

Til rannsóknar í máli þessu sé ætlað brot gegn 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 eða eftir atvikum 254. gr. sömu laga. Brotist hafi verið inn á heimili að [...] og verðmætum munum stolið. Kærði sé undir rökstuddum grun um aðild að málinu samkvæmt rannsókn lögreglu. Kærði hafi áður komið við sögu lögreglu í tengslum við innbrot og ekki útilokað að hann tengist fleiri innbrotum í heimahús á höfuðborgarsvæðinu á undanförnum vikum. Það sé því brýnt og nauðsynlegt með vísan til alls framanritaðs og gagna málsins að öðru leyti að kærði verði með vísan til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88, 2008 gert að sæta gæsluvarðhaldi til laugardagsins 5. janúar nk. kl. 11.00 og til að sæta einangrun samkvæmt b. lið 1. mgr. 99. gr. sömu laga.

Niðurstaða:

                Í ljósi fyrirliggjandi rannsóknargagna er kærði undir rökstuddum grun um aðild að innbroti í heimahús á Akureyri 19. desember sl. ásamt meðkærðu. Þegar kærði var handtekinn fundust vörur í bifreiðinni sem hann var í sem lögregla telur að tengist þjófnaði úr verslun í Skagafirði daginn áður. Á dvalarstað hans fundust einnig munir sem ætlað er að tengist öðrum nánar tilgreindum innbrotum á höfuðborgarsvæðinu 27. nóvember sl. Með hliðsjón af framangreindu er á það fallist að fullnægt sé skilyrði 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við.

                Rannsókn þessara mála stendur yfir. Kærði hefur neitað aðild að þessum brotum bæði fyrir lögreglu og hér fyrir dómi. Auk framangreindra mála hefur lögregla til athugunar hvort kærði kunni að hafa átt þátt í öðrum innbrotum á höfuðborgarsvæðinu að undanförnu. Eins og atvikum er háttað telur dómurinn að ætla megi að kærði muni reyna að torvelda rannsókn framangreindra mála fari hann frjáls ferða sinna t.d. með því að hafa áhrif á samseka eða skjóta undan munum. Því er fallist á að skilyrði a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 sé fullnægt og verður kærða því gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi. Dómurinn telur rétt að marka gæsluvarðhaldinu þann tíma sem greinir í úrskurðarorði. Með hliðsjón af ofangreindu er einnig fallist á að kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.

Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kærði, [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 3. janúar nk. kl. 16:00. Kærði skal látinn vera í einrúmi meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.