Hæstiréttur íslands
Mál nr. 27/2019
Lykilorð
- Ráðningarsamningur
- Kjarasamningur
- Laun
- Frítökuréttur
- Sératkvæði
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason, Greta Baldursdóttir, Karl Axelsson og Viðar Már Matthíasson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 31. maí 2019. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar fyrir Landsrétti og Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Stefndi, sem er frá Tékklandi, er lærður matreiðslumaður. Hann kveðst hafa komið til Íslands á árinu 2006 til þess að starfa hjá tékkneska verktakafyrirtækinu Metrostav a.s., sem var verktaki við Héðinsfjarðargöng. Hann kveður því verki hafa lokið á árinu 2009, en hann hafi kosið að vera áfram hér á landi og finna sér vinnu annars staðar. Hann mun á árinu 2013 hafa starfað sem matreiðslumaður á Hótel Keflavík þegar starfsmaður áfrýjanda, þá verkefnastjóri við Norðfjarðargöng, hafði samband við hann og bauð honum að koma til starfa sem ,,matráður og stjórnandi“ í mötuneyti starfsmanna áfrýjanda við þá jarðgangagerð. Á það féllst stefndi og gerðu hann og verkefnastjórinn fyrir hönd áfrýjanda samkomulag um ráðninguna, en ekki var gerður skriflegur ráðningarsamningur við stefnda þá eða síðar. Ágreiningslaust er að stefndi var ráðinn yfirmatreiðslumaður og stjórnandi mötuneytis starfsmanna við gerð Norðfjarðarganga, en mötuneytið var staðsett á Eskifirði. Á stefnda hvíldi skylda til að hafa til reiðu fyrir starfsmenn morgunmat klukkan sex, morgunkaffi klukkan tíu, hádegismat klukkan tólf, síðdegiskaffi milli klukkan þrjú og fjögur og kvöldmat klukkan sex. Málsaðilar eru sammála um það efni ráðningarsamningsins að stefnda hafi verið í sjálfsvald sett hvernig hann skipulagði viðveru sína á vinnustað, svo fremi sem hann fullnægði framangreindum starfsskyldum, en hann sá einnig um innkaup á mat fyrir mötuneytið.
Auk stefnda var ráðinn starfsmaður í fullt starf honum til aðstoðar, en það var sambúðarkona hans. Ekki er ágreiningur um að hún hafi verið ráðin á tímakaupi. Þótt ekki sé fyllilega upplýst um aðra starfsmenn í mötuneytinu liggur fyrir að samið var við fyrirtæki á Eskifirði um að annast þrif á staðnum, auk þess sem aðrir starfsmenn önnuðust akstur með mat í þeim tilvikum þar sem starfsmenn voru við vinnu fjarri mötuneytinu. Ósannað er á hinn bóginn að aðrir hafi verið ráðnir sérstaklega til þess að aðstoða stefnda.
Stefndi var ekki ráðinn upp á tímakaup, heldur voru umsamin starfskjör hans þau að hann fengi föst mánaðarlaun, 800.000 krónur að meðtöldu orlofi. Laun hans áttu að taka sömu breytingum og launataxtar í kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins annars vegar og Eflingar – stéttarfélags og Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis hins vegar, sem ágreiningslaust er að gilti um starfskjörin að því leyti sem ekki var sérstaklega samið um annað.
Stefndi kveðst við framkvæmd starfans hafa mætt á vinnustað sinn klukkan fimm til hálf sex að morgni og ekki farið endanlega heim fyrr en á tímabilinu klukkan átta til níu á kvöldin. Ómótmælt er að hann hafi mánaðarlega, umfram skyldu, skilað vinnuskýrslum þar sem skráðar voru unnar vinnustundir hans. Ósannað er að áfrýjandi hafi nokkurn tíma gert athugasemdir við vinnuskýrslurnar, en hann telur þær enga þýðingu hafa, enda hafi stefndi ekki verið ráðinn á tímakaup. Stefndi kveðst þó ekki hafa skráð á vinnuskýrslurnar eða tekið tillit til þess að hann hafi stundum farið af vinnustað og heim til sín eftir hádegismat, en hann hafi búið skammt frá mötuneytinu, og komið til baka einni eða tveimur klukkustundum síðar. Stefndi kveðst hafa ferðast saman með sambúðarkonu sinni til og frá vinnustað og þau verið þar samtímis og unnið samhliða.
Stefndi kveðst aldrei hafa kvartað yfir vinnunni eða vinnutilhögun. Hann hafi verið ánægður með launakjörin. Þá kveður hann áfrýjanda aldrei hafa haft afskipti af því hvernig hann hafi skipulagt vinnu sína og aldrei óskað eftir að hann mætti til vinnu áður en hann hafi fengið 11 klukkustunda hvíld. Stefndi hefur ekki haldið því fram í málinu að hann hafi óskað eftir því að fleiri starfsmenn yrðu ráðnir honum til aðstoðar.
Stefndi starfaði hjá áfrýjanda samfellt frá nóvember 2013 og þar til í maí 2016. Hann gerði hvorki á starfstíma sínum né við starfslok athugasemdir um að hann teldi sig vanhaldinn um launagreiðslur eða að áfrýjandi hafi að öðru leyti ekki efnt skyldur sínar samkvæmt ráðningarsamningi þeirra, kjarasamningi eða lögum. Starfsmannastjóri áfrýjanda telur að stefndi hafi fyrst gert athugasemdir um að hann teldi sig eiga inni ógreidda frídaga í október eða nóvember 2016. Fyrir liggur einnig að stefndi sendi starfsmannastjóra áfrýjanda tölvuskeyti 6. febrúar 2017 þar sem hann spurðist fyrir um hvort búið væri að komast að niðurstöðu um rétt hans. Í hinum áfrýjaða dómi er gerð nánari grein fyrir framvindu málsins frá þessum tíma.
II
Stefndi rekur mál þetta til heimtu á 3.358.902 krónum auk dráttarvaxta og reisir kröfu sína á því að tímaskráningar hans á vinnustundum í starfi sem yfirmatreiðslumaður, að teknu tilliti til leiðréttinga sem hann hafi gert á þeim, sýni að áfrýjandi hafi ekki virt ákvæði kjarasamnings um lágmarkshvíld og frítökurétt. Hann hafi því uppi kröfu um að áfrýjandi greiði sér ótekinn frítökurétt í samræmi við kjarasamninginn sem um starfskjörin hafi gilt. Stefndi vísar um rétt sinn til þess að í 1. mgr. 53. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum sé mælt fyrir um að vinnu skuli hagað þannig að á hverjum 24 klukkustundum, reiknað frá byrjun vinnudags, fái starfsmenn að minnsta kosti 11 klukkustunda samfellda hvíld. Með þessu ákvæði sé fullnægt skuldbindingu samkvæmt 3. gr. tilskipunar 93/104/EB um skipulag vinnutíma, en sú tilskipun hafi verið innleidd í íslenskan rétt með ákvæðum kjarasamninga og sé þannig um lágmarkskjör á íslenskum vinnumarkaði að ræða. Vísar stefndi í þessu sambandi til auglýsingar nr. 285/1997 um gildistöku tilskipunar Evrópusambandsins nr. 93/104/EB frá 23. nóvember 1993 um ákveðna þætti er varða skipulag vinnutíma. Þá vísar hann í kjarasamning þann sem gilti um ráðningarsamning sinn, en í grein 2.4 í kjarasamningnum sé fjallað um lágmarkshvíld. Þar sé mælt fyrir um daglegan vinnutíma og hvíldartíma og kveðið á um að starfsmaður skuli fá að minnsta kosti 11 klukkustunda samfellda hvíld. Óheimilt sé að skipuleggja vinnutíma þannig að hann verði umfram 13 klukkustundir. Séu starfsmenn beðnir um að mæta til vinnu áður en 11 klukkustunda hvíld sé náð sé heimilt að fresta hvíldinni og veita síðar, þannig að frítökuréttur, ein og hálf klukkustund, safnist upp fyrir hverja klukkustund sem hvíldin skerðist. Við starfslok skuli ónýttur frítökuréttur starfsmanna gerður upp og teljast hluti ráðningartíma. Stefndi vísar einnig til samnings 30. desember 1996 milli Alþýðusambands Íslands og Vinnuveitendasambands Íslands um ákveðna þætti er varða skipulag vinnutíma. Í 3. grein þess samnings komi einnig fram áðurnefnd regla um tilhögun vinnutíma og 11 klukkustunda samfellda hvíld.
III
Ágreiningslaust er að áfrýjandi greiddi stefnda aldrei fyrir ætlaðan frítökurétt hans, enda taldi áfrýjandi sér það ekki skylt. Stefndi reisir rétt sinn á því að hvað sem öðrum starfskjörum hans hafi liðið eigi hann rétt til þess lágmarkshvíldartíma sem mælt sé fyrir um í áðurnefndum kjarasamningi og reglum er séu skuldbindandi fyrir áfrýjanda. Samkvæmt grein 2.4.4 í kjarasamningnum, sem gilti um starfskjör stefnda, hafi áfrýjandi átt að gera upp með peningum ónýttan frítökurétt stefnda við starfslok. Stefndi heldur því á hinn bóginn ekki fram að hann hafi að teknu tilliti til umsaminna mánaðarlauna notið lakari launakjara í heild sinni en ef þau hefðu í einu og öllu farið eftir kjarasamningnum þar með talið ef hann hefði notið greiðslna fyrir ætlaðan frítökurétt.
Eins og áður greinir er óumdeilt að samið var við stefnda um heildarlaun á mánuði, 800.000 krónur að meðtöldu orlofi, gegn því að hann sæi til þess að matur og millimál yrðu til reiðu á tilgreindum tímum í mötuneyti áfrýjanda á Eskifirði fyrir starfsmenn við jarðgangagerðina. Honum var í sjálfsvald sett hvernig hann skipulagði vinnutíma sinn og hvernig hann samræmdi vinnu sína og vinnu aðstoðarmanns, sem með honum starfaði. Stefndi óskaði ekki eftir frekari aðstoð á starfstíma sínum hjá áfrýjanda og ósannað er að honum hafi ekki verið unnt að skipuleggja vinnu sína og aðstoðarmanns þannig að ekki færi í bága við framangreind ákvæði um hvíldartíma.
Í IX. kafla laga nr. 46/1980 eru ákvæði um hvíldartíma, frídaga og hámarksvinnutíma eins og þeim var breytt með lögum nr. 68/2003, en með breytingalögunum var meðal annars innleidd tilskipunin nr. 93/104/EB frá 23. nóvember 1993, sem áður er getið og almennt er nefnd vinnutímatilskipunin. Tilskipuninni hafði áður verið veitt gildi hér á landi á þann hátt sem lýst er í fyrrnefndri auglýsingu nr. 285/1997. Þar kemur fram að ákveðið hafi verið í samráði við samtök atvinnurekenda og launafólks að hrinda ákvæðum tilskipunarinnar í framkvæmd með kjarasamningum, svo sem tilskipunin heimili. Er í auglýsingunni vísað til þess að tilgreind samtök á vinnumarkaði, meðal annars Vinnuveitendasamband Íslands og Alþýðusamband Íslands hafi undirritað samninga um framkvæmd á efni tilskipunarinnar, en samningur tilgreindra heildarsamtaka sé frá 30. desember 1996. Í IX. kafla laga nr. 46/1980 er meðal annars 53. gr. þeirra um vinnutíma og lágmarkshvíld starfsmanna, sem stefndi reisir mál sitt á. Í 3. tölulið 52. gr. a. í lögunum, sem er í sama kafla, segir á hinn bóginn að ákvæði hans gildi ekki um: ,, ... æðstu stjórnendur eða aðra þá sem ráða vinnutíma sínum sjálfir“. Í 1. mgr. 17. gr. tilskipunar 93/104/EB er sérstaklega heimilað að gera megi slíka undantekningu, sbr. og a. lið málsgreinarinnar. Sömu reglu og mælt er fyrir um í 3. tölulið 52. gr. a., og lýst hefur verið, er að finna í 4. mgr. 1. greinar samningsins 30. desember 1996 milli Alþýðusambands Íslands og Vinnuveitendasambands Íslands sem vísað er til í auglýsingu nr. 285/1997, en báðir málsaðilar vísa til þess samnings. Í 1. mgr. 17. grein samningsins er mælt fyrir um að hann skoðist sem hluti af kjarasamningum aðildarsamtaka og félaga þessara heildarsamtaka. Samkvæmt því og með vísan til 3. töluliðar 52. gr. a. laga nr. 46/1980 verður að skýra ákvæði greinar 2.4 um lágmarkshvíld í kjarsamningi þeim, sem gilti um starfskjör stefnda, þannig að tilgreind ákvæði hans taki ekki til starfsmanna í sömu stöðu og stefndi, sem ráðnir eru fyrir föst mánaðarlaun og ráða vinnutíma sínum og skipulagi vinnunnar sjálfir.
Samkvæmt öllu framansögðu hefur stefndi ekki sýnt fram á að hann eigi rétt til þeirrar greiðslu fyrir uppsafnaðan frítökurétt sem málatilbúnaður hans er reistur á. Verður áfrýjandi þegar af þessari ástæðu sýknaður af kröfu hans.
Rétt er að málskostnaður fyrir Landsrétti og Hæstarétti falli niður.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Suðurverk hf., er sýkn af kröfu stefnda, Viktors Spirk.
Málskostnaður fyrir Landsrétti og Hæstarétti fellur niður.
Sératkvæði
Ólafs Barkar Þorvaldssonar
I
Ég er ekki samþykkur niðurstöðu meirihluta dómenda um að svo hafi háttað til um hagi stefnda að ákvæði 3. töluliðar 52. gr. a. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum skuli ráða því að ekki beri að fara eftir þeim fyrirmælum um lágmarkshvíld starfsmanna sem fram koma í IX. kafla laganna, einkum 53. gr. þeirra.
Tel ég að staðfesta eigi niðurstöðu meirihluta Landsréttar með sérstöku tilliti til eftirfarandi atriða um atvik máls og röksemdir fyrir niðurstöðu.
II
Stefndi, sem er tékkneskur matreiðslumaður, mun hafa verið ráðinn til starfa hjá áfrýjanda, sem er verktakafyrirtæki, til að sjá um mötuneyti starfsmanna við gerð Norðfjarðarganga. Aldrei var gerður skriflegur ráðningarsamningur milli málsaðila og verður því við lýsingu á efni samningssambands þeirra að leita til annarra gagna málsins.
Stefndi kvaðst í skýrslugjöf sinni fyrir héraðsdómi margoft hafa komið óskum um gerð ráðningarsamnings á framfæri við verkstjóra á vinnusvæðinu og bar vitnið Elín Sigríður Arnórsdóttir, fyrrverandi starfsmannastjóri áfrýjanda, að það hafi alltaf staðið til en farist fyrir án þess að stefnda verði um það kennt.
Stefndi var ráðinn til starfa hjá áfrýjanda á fundi sem haldinn var í höfuðstöðvum áfrýjanda en af hálfu áfrýjanda voru viðstaddir fundinn Guðmundur Ólafsson, verkefnastjóri við Norðfjarðargöng og Hálfdán Örn Kristjánsson, skrifstofustjóri hjá áfrýjanda. Sá síðastnefndi gaf ekki skýrslu við meðferð málsins, en aðspurður fyrir héraðsdómi um hvert hafi verið efni ráðningarsamningsins sagði verkefnastjórinn: „Við sömdum um bara föst mánaðarlaun, hann tæki að sér matráður og stjórnandi í mötuneytinu hjá okkur og myndi sjá um það á þessum verkstað.“ Aðspurður frekar um hvort lagt hefði verið fyrir stefnda „að mæta á ákveðnum tíma eða vera ákveðið lengi eða hvernig“ þá svaraði verkefnastjórinn að stefndi hefði tekið að sér þessa „umsjón og þetta verkefni“ og „hann réði alveg sínum tíma sjálfur“ innan þess ramma sem verkefnin mörkuðu. Aðspurður kvað verkefnastjórinn ekki hafa verið farið nánar yfir starfslýsingu með stefnda á fundinum. Í skýrslugjöf sinni fyrir héraðsdómi kom fram hjá stefnda að samið hefði verið um að hann myndi sjá um eldhúsið sem „yfirkokkur“, en um síðastgreint atriði sagði stefndi aðspurður í þýðingu túlks: „Þessi Guðmundur sagði að honum væri alveg sama hvort hann væri í einn klukkutíma eða tuttugu klukkutíma á dag, en hann þarf að sjá um fulla þjónustu, það er það eina sem hann vildi fá.“
Áðurnefndur starfsmannastjóri áfrýjanda kvaðst í skýrslu fyrir héraðsdómi telja að stefndi hefði verið sá eini af starfsmönnum áfrýjanda á svæðinu sem fengið hefði föst mánaðarlaun og að hann hefði mátt „svolítið ráða sínum vinnutíma gegn því að náttúrulega hafa mat á borðum og nóg af honum. Það er mikið atriði í verktakabransanum, sem hann stóð náttúrulega alltaf við að hafa nóg af mat og vel það.“ Vitnið kvaðst ekki telja að morgunmatur hafi endilega þurft að vera á verksviði stefnda. Á hinn bóginn hefði stefndi þurft að vera „tilbúinn með mat þarna stundum bara um tíuleytið sko, fljótlega um tíuleytið þannig að hann þurfti náttúrulega að koma a.m.k. um sjö eða eitthvað svoleiðis til að geta bara haft mat fyrir 50 manns sko.“ Komst vitnið svo að orði að stefndi hefði verið yfirmaður eldhússins en verkefnastjóri hefði þó alltaf verið „yfir öllum verkum“ og væru þeir „ekki standandi yfir fólki til að athuga hvort það mæti á þessari mínútu eða annarri.“
Eins og greinir í atkvæði meirihlutans var samið við stefnda um að hann fengi 800.000 krónur í föst laun á mánuði fyrir störf sín hjá áfrýjanda, eða 726.151 krónu að viðbættum 10,17% í orlof. Þegar við upphaf starfa sinna var stefnda samt sem áður afhent bók frá áfrýjanda með eyðublöðum til útfyllingar um viðveru á vinnustað. Ritaði stefndi jafnóðum á eyðublöðin upplýsingar um vinnustundir sínar fyrir hvern dag og afhenti verkstjórum áfrýjanda mánaðarlega blöð úr bókinni með þessum upplýsingum sem þeir færðu inn í tölvukerfi áfrýjanda. Stefndi vann hjá áfrýjanda samfellt frá nóvember 2013 til maí 2016 og allan starfstíma hans létu verkstjórar áfrýjanda með reglubundnum hætti stefnda í té nýjar bækur með eyðublöðum til útfyllingar og afhendingar. Bæði fyrrverandi starfsmannastjóri og verkefnastjóri áfrýjanda báru fyrir dómi að þau hafi vitað um þetta fyrirkomulag og haft aðgang að tímaskýrslum stefnda, en af hálfu yfirmanna áfrýjanda hafi hvorki verið gerðar athugasemdir við þetta verklag né stefnda tilkynnt að það væri óþarft eins og nú er haldið fram af hálfu áfrýjanda. Sérstaklega aðspurð um hvort ekki hafi verið ástæða til að gera athugasemdir við tímaskráningar stefnda svaraði starfsmannastjórinn: „Sko, það var náttúrulega vitað að hann var ekki að vinna bara fjörutíu tíma vinnuviku sko. Hann var alltaf að vinna, þú veist hann var að vinna á hverjum degi, laugardag líka“.
Starfsmenn áfrýjanda við jarðgangagerðina munu hafa unnið á tólf tíma vöktum allan sólarhringinn. Hófust morgunvaktir klukkan sjö að loknum morgunverði. Eftir tólf vaktir fengu starfsmenn svo frí í átta daga. Sex daga í viku hverri átti stefndi að hafa til reiðu fyrir starfsmenn áfrýjanda morgunverð klukkan sex, morgunkaffi klukkan tíu, hádegisverð klukkan tólf, síðdegiskaffi milli klukkan þrjú og fjögur og kvöldverð klukkan sex. Þá átti stefndi að sjá til þess að matur sem unnt var að hita upp og snarl væri til staðar að næturlagi sem starfsmenn áfrýjanda gætu gengið í. Ekki var gerð krafa af hálfu áfrýjanda um viðveru stefnda eða annars starfsmanns í eldhúsi eða matsal yfir nótt. Jafnframt átti stefndi að annast innkaup í eldhús áfrýjanda og sjá til þess að leirtau væri þvegið. Kvaðst starfsmannastjóri áfrýjanda telja að stefndi hafi þurft að hafa málsverði til reiðu fyrir allt að 50 manns í hvert sinn. Af gögnum málsins verður helst ráðið að mötuneytið hafi þjónað allt að 70 manns, en bæði kvöld- og morgunverður var framreiddur á svipuðum tíma fyrir starfsmenn sem voru að ljúka vakt annars vegar og hins vegar einnig fyrir hina sem þá voru að hefja vakt.
Nokkru eftir að stefndi hóf störf hjá áfrýjanda fékk áfrýjandi Miloslava Sigurgeirsson, sambýliskonu stefnda, til aðstoðar honum í mötuneytinu en hún hafði þá sinnt öðrum störfum hjá áfrýjanda. Ekki voru aðrir ráðnir sérstaklega til starfa í mötuneytinu. Lýsti stefndi því fyrir héraðsdómi að Miloslava hafi veitt honum mikla aðstoð og hjálpað sér við innkaup því hún væri mun betri í íslensku en hann. Fram kom hjá verkefnastjóra áfrýjanda fyrir héraðsdómi að hann teldi að aðrir en sambýliskona stefnda hefði aðstoðað í mötuneytinu og nefndi einnig í þessu sambandi að áfrýjandi hafi verið í viðskiptum við fyrirtæki frá Eskifirði sem annast hefði þrif á skrifstofu, eldhúsi og í mötuneytinu, en þó ekki uppvask á leirtaui. Starfsmannastjóri áfrýjanda bar á hinn bóginn að Miloslava hafi verið „raunverulega aðstoðarmanneskjan“ og er sú lýsing í samræmi við framburð stefnda og Miloslava um það. Ætla má af öðrum gögnum málsins að aðstoð sú sem stefndi og Miloslava nutu hafi verið óveruleg og tilfallandi.
Fram er komið að stefndi og Miloslava mættu venjulega til vinnu er klukkan var að ganga sex að morgni, en Miloslava nefndi að bæði hún og stefndi hefðu mátt bregða sér frá yfir daginn. Stefndi hafi venjulega verið á vinnustaðnum meira og minna allan daginn, en hún tekið sér frekar hlé. Eins og greinir í atkvæði meirihluta dómenda kvaðst stefndi stundum hafa farið af vinnustað og heim til sín eftir hádegismat, en hann hafi búið skammt frá mötuneytinu og komið til baka einni til tveimur klukkustundum síðar, án þess að skrá sérstaklega um það í tímaskýrslur sínar til áfrýjanda. Fram kom, bæði hjá stefnda og Miloslava, að stefndi hafi þá einatt hvílt sig um stund og jafnframt farið í sturtu þar sem ekki hafi verið slík aðstaða fyrir þau á vinnustaðnum. Þá er frá því greint í atkvæði meirihlutans að í málatilbúnaði stefnda sé því ekki haldið fram að hann hafi óskað eftir því að fleiri starfsmenn yrðu ráðnir við vinnu í mötuneytinu.
Sérstaklega spurð um það hvort stefnda hefði á starfstímanum verið boðin meiri aðstoð í eldhúsið en hann fékk sagði starfsmannastjóri áfrýjanda: „Já, við ræddum það svona hvort það væri þörf á því af því að þetta væri náttúrulega rosalega mikil vinna sem þau inntu af hendi sko og hvort að þau þyrftu aðstoð og við ræddum það einhvern tímann og það var ekki talin þörf á því. En svo voru náttúrulega þarna, það voru manneskjur á þessu tímabili nokkrar sem voru að keyra mat yfir í Fannadal og það hefði svo sem alveg verið hægt að skipuleggja hlutina kannski eilítið öðruvísi þannig að þær hefðu unnið, komið þarna meira inn í eldhúsið“, en vitnið sagði ýmislegt hafa spilað inn sem hún fór ekki nánar út í.
Fyrir liggur að áfrýjandi hafði ekki virt rétt Miloslava til frítöku, en gerði upp við hana þann rétt að kröfu hennar við starfslok sem áttu sér stað um líkt leyti og starfslok stefnda, eða að líkindum í apríl 2016. Gerði áfrýjandi raunar ekki heldur skriflegan ráðningarsamning við Miloslava frekar en við stefnda. Kom fram bæði hjá stefnda og Miloslava að þau hefðu ekki vitað af reglum um frítökurétt fyrr en hún hefði fyrir tilviljun fengið af þeim fregnir og látið stefnda vita sem í kjölfarið hafi sett fram sams konar kröfu.
III
Í IX. kafla laga nr. 46/1980 er að finna reglur um hvíldartíma, frídaga og hámarksvinnutíma launþega og eru þær í samræmi við svokallaða vinnutímatilskipun eins og rakið er í ákvæði meirihluta dómenda. Var efni hennar fært í lögin með lögum nr. 68/2003 en fyrir þann tíma hafði tilskipunin verið útfærð í kjarasamningum samtaka aðila vinnumarkaðarins, sbr. meðal annars samning 30. desember 1996 milli Alþýðusambands Íslands og Vinnuveitendasambands Íslands. Þá er með sama hætti kveðið á um þennan rétt og uppgjör hans í kjarasamningi milli Samtaka atvinnulífsins og Eflingar-stéttarfélags og Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis vegna vinnu starfsfólks í veitinga- og gistihúsum og hliðstæðri starfsemi, sem aðilar miða við að starfskjör stefnda hafi byggst á.
Í 1. mgr. 53. gr. laga nr. 46/1980 kemur fram sú regla að vinnutíma skuli haga þannig að á hverjum 24 klukkustundum, reiknað frá byrjun vinnudags, fái starfsmenn að minnsta kosti 11 klukkustunda samfellda hvíld. Eins og áður greinir snýst ágreiningur aðila einkum um hvort stefndi hafi átt að njóta frítökuréttar samkvæmt greininni eða hvort um ráðningarsamband aðila gildi sú undantekning sem fram kemur í 3. tölulið 52. gr. a. laganna. Í þeim tölulið segir að ákvæði IX. kafla laga nr. 46/1980 gildi ekki um „æðstu stjórnendur eða aðra þá sem ráða vinnutíma sínum sjálfir“. Um ákvæði þetta segir í athugasemdum með frumvarpi að lögum nr. 68/2003: „Ákvæði 3. tölul. er byggt á a-lið 1. mgr. 17. gr. vinnutímatilskipunarinnar. Er þar kveðið á um að aðildarríkjum sé heimilt, með tilhlýðilegu tilliti til almennra meginreglna um öryggis- og heilsuvernd starfsmanna, að víkja frá meginreglum tilskipunarinnar þegar lengd vinnutíma verður ekki mæld og/eða fyrir fram ákveðinn. Einnig vegna sérstakra eiginleika umræddra starfa eða ef starfsmenn geta sjálfir ákveðið vinnutímann, einkum ef um er að ræða starfsmenn er gegna stjórnunarstörfum eða annað starfsfólk sem ræður sjálft vinnutíma sínum. Á þessum grundvelli er lagt til að ákvæði kaflans taki ekki tillit til æðstu stjórnenda eða annarra þeirra sem ráða vinnutíma sínum sjálfir. Er hér annars vegar átt við forstjóra og/eða framkvæmdastjóra fyrirtækja sem samkvæmt skipuriti fyrirtækis taka sjálfir ákvarðanir um skipulag vinnutíma starfsmanna en eru stöðu sinnar vegna ekki bundnir af þeim reglum. Hins vegar er átt við þá starfsmenn sem stöðu sinnar vegna innan fyrirtækis ráða vinnutíma sínum sjálfir eða hafa verulegt frjálsræði varðandi skipulagningu vinnunnar, svo sem þá sem vinna störf sín heima við. Þá mundi ákvæðið í mörgum tilvikum eiga við um þá sem starfa hjá fjölskyldufyrirtæki“. Aðrar undantekningar sem taldar eru upp í 52. gr. a. laganna eiga einungis við í afar sérstökum tilvikum svo sem á sviði öryggisstarfsemi, löggæslu og almannavarna, sbr. 4. tölulið, auk þess sem í greininni er vísað til sérstakra reglna sem gilda um aksturs- og hvíldartíma ökumanna sem starfa við flutning á vegum, sbr. 1. tölulið hennar. Þá hefur 2. töluliður greinarinnar verið felldur úr lögunum.
IV
Í 52. gr. laga nr. 46/1980 er vinnutími samkvæmt IX. kafla laganna tiltekinn sá tími sem starfsmaður er við störf, til taks fyrir atvinnurekandann og innir af hendi störf sín og skyldur, en hvíldartími sá tími sem ekki telst til vinnutíma. Þá gildir sú meginregla í vinnurétti að á atvinnurekanda hvílir að skipuleggja vinnu starfsmanna sinna.
Eins og að framan greinir liggur fyrir að ekki var gerður skriflegur ráðningarsamningur með aðilum en á áfrýjanda hvíldi kjarasamningsbundin skylda til þess að gera slíkan samning, sbr. grein 1.13.1 í áðurnefndum kjarasamningi sem um stefnda gilti, sbr. og auglýsingu nr. 503/1997 um gildistöku tilskipunar Evrópusambandsins nr. 91/533/EBE frá 14. október 1991 um skyldu vinnuveitanda að skýra launþegum frá samningsskilmálum eða ráðningarfyrirkomulagi.
Laun og starfskjör sem samið er um í kjarasamningum eru lágmarkskjör, sbr. 1. gr. laga nr. nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Ber atvinnuveitanda að gæta upplýsingaskyldu gagnvart launþegum um helstu ákvæði kjarasamnings. Þannig segir til að mynda í grein 1.13.4 í kjarasamningi, sem sem liggur til grundvallar í málinu, um upplýsingaskyldu vinnuveitanda að í ráðningarsamningi skuli meðal annars að lágmarki koma fram titill, staða, eðli eða tegund starfs sem starfsmaður er ráðinn í eða stutt útlistun á starfinu. Einnig skal tíunda lengd venjulegs vinnudags eða vinnuviku sem og tilvísun til gildandi kjarasamnings og hlutaðeigandi stéttarfélags.
Verður að líta til brots áfrýjanda á lögbundinni skyldu sinni til að gera skriflegan ráðningarsamning við mat á sönnun um hvort upplýst sé að stefndi hafi fengið fullnægjandi upplýsingar um starf sitt er hann réði sig til vinnu hjá áfrýjanda, samið sig sérstaklega með einhverjum hætti undan lögbundnum rétti sínum til frítöku og hvort stefndi hafi í raun ráðið vinnutíma sínum þannig að undantekningarákvæði 3. töluliðar 52. gr. a. laga nr. 46/1980 eigi við. Hvílir sönnunarbyrði um þessi atriði á áfrýjanda sem var í lófa lagið að tilgreina þegar í upphafi ráðningarsambands hvaða réttindi skyldu vera innifalin í föstum launum stefnda og hver ekki.
Ekki skiptir máli við mat á efni samningssambands málsaðila þótt stefndi hafi ekki skráð í vinnuskýrslur sínar eða tekið tillit til þess að hann hafi stundum farið frá vinnustað og heim til sín eftir hádegismat eins og greinir í málavaxtalýsingu meirihlutans. Kvaðst stefndi stundum hafa þurft að gera það eftir að hafa framreitt morgun- og hádegisverð fyrir þann fjölda starfsmanna áfrýjanda sem um ræðir en ekki hafi verið baðaðstaða fyrir hann á vinnustað. Raunar verður ekki önnur ályktun dregin af gögnum málsins en að vinnudagar stefnda hafi verið afar langir, vinnuálag mikið og vinnutími samfelldur í skilningi vinnuréttar. Er einnig ljóst að þótt stefndi hafi samið um heildarlaun á mánuði þá leit hann á sig sem hvern annan starfsmann sem sýna þyrfti viðveru á verkstað og skilaði hann líkt og Miloslava Sigurgeirsson og aðrir starfsmenn vinnutímaskýrslum reglulega allan starfstíma sinn hjá áfrýjanda. Þá afhenti áfrýjandi stefnda eins og áður er rakið einnig reglulega gögn þar um til útfyllingar, færði upplýsingar úr skýrslum stefnda í tölvukerfi sitt og gerði engan reka að því að leiðrétta þennan ætlaða misskilning stefnda á skyldum sínum sem hann nú heldur fram að uppi hafi verið. Er slík framkvæmd síður en svo til marks um að stefndi hafi ráðið eða talið sig ráða vinnutíma sínum sjálfur án eftirlits heldur frekar í þá veru að áfrýjandi hafi í verki fallist á þennan skilning stefnda.
Þótt stefndi hafi annast mötuneyti áfrýjanda sem lærður matreiðslumaður verður að virtum þeim tímaramma sem unnið var eftir í mötuneytinu að ætla að hann hafi þurft að sýna mikla viðveru á vinnustað og samkvæmt framburði fyrrverandi starfsmannastjóra áfrýjanda lotið boðvaldi verkstjóra áfrýjanda að öðru því en sem laut að innkaupum og matargerð. Bera framangreind samskipti hans við verkstjóra varðandi tímaskýrslur þess einnig vitni. Þá verður af framburði starfsmannastjórans ekki séð að stefndi hafi haft ákvörðunarvald um hvort fleiri starfsmenn skyldu ráðnir honum til aðstoðar þrátt fyrir mikið vinnuálag sem fyrirsvarsmönnum áfrýjanda var fullkunnugt um eins og að framan er rakið. Skiptir engu máli í því sambandi hvort stefndi hafi kvartað undan vinnuálagi eða lýst yfir óánægju með launakjör sín eins og greinir í málavaxtalýsingu meirihluta dómenda.
Þegar litið er til umfangs starfs stefnda á vinnustað sem uppfylla þurfti samkvæmt strangri tímatöflu eins og er lýst hér að framan og þeirrar takmörkuðu aðstoðar sem hann naut við starf sitt verður ekki séð að stefndi hafi í raun ráðið vinnutíma sínum sjálfur nema að afar takmörkuðu leyti. Telst stefndi því ekki til slíkra starfsmanna sem stöðu sinnar vegna innan fyrirtækis ráða vinnutíma sínum sjálfir eða hafa verulegt frjálsræði varðandi skipulagningu vinnunnar, svo sem þá sem vinna störf sín heima við, eins og tiltekið er í athugasemdum með 19. gr. laga nr. 68/2003 að kunni að falla undir undantekningarákvæði 52. gr. a. laga nr. 46/1980.
Að öllu framangreindu virtu er ég ekki sammála meirihluta dómenda um að fram sé komið að stefnda hafi verið í sjálfsvald sett hvernig hann skipulagði vinnutíma sinn og hvernig hann samræmdi vinnu sína og vinnu aðstoðarmanns, sem með honum starfaði. Get ég heldur ekki fallist á að líta beri til þess við úrlausn málsins hvort stefndi hafi óskað eftir frekari aðstoð á starfstíma sínum hjá áfrýjanda eða að ósannað sé að honum hafi ekki verið unnt að skipuleggja vinnu sína og aðstoðarmanns þannig að ekki færi í bága við framangreind ákvæði um hvíldartíma.
Samkvæmt öllu framanrituðu hefur áfrýjandi ekki sýnt fram á að undantekningarákvæði 3. töluliðar 52. gr. a. laga nr. 46/1980 skuli gilda um frítökurétt stefnda. Gilda því um þennan rétt hans 1. mgr. 53. gr. laga nr. 46/1980 og ákvæði 2.4.1 í framangreindum kjarasamningi. Bar áfrýjanda að gera upp uppsafnaðan ónýttan frítökurétt stefnda eigi síðar en við starfslok samkvæmt fyrirmælum í 2.4.4 í kjarasamningnum.
Tel ég að staðfesta eigi dóm Landsréttar með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hans. Þá tel ég að fella beri málskostnað fyrir Hæstarétti á áfrýjanda.
Dómur Landsréttar 12. apríl 2019.
Mál þetta dæma landsréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Oddný Mjöll Arnardóttir og Vilhjálmur H. Vilhjálmsson.
Málsmeðferð og dómkröfur aðila
1. Áfrýjandi skaut málinu til Landsréttar 20. júlí 2018. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Reykjaness 6. júlí 2018 í málinu nr. E-658/2017.
2. Áfrýjandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 3.358.902 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 31. maí 2016 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Landsrétti.
3. Stefndi krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Landsrétti.
Málsatvik og sönnunarfærsla
4. Áfrýjandi fluttist hingað til lands frá Tékklandi árið 2011. Hann var ráðinn til starfa hjá stefnda í nóvember 2013 sem matreiðslumaður í mötuneyti hans, en stefndi vann við gerð Norðfjarðarganga. Starfsmenn stefnda unnu á 12 tíma vöktum, frá sjö að morgni til sjö að kvöldi og frá sjö að kvöldi til sjö að morgni.
5. Skriflegur ráðningarsamningur var ekki gerður við áfrýjanda en hann var félagsmaður í Verkalýðs- og sjómannafélagi Keflavíkur og nágrennis. Samkvæmt munnlegum ráðningarsamningi skyldi áfrýjandi upphaflega fá í mánaðarlaun 800.000 krónur og voru orlofsgreiðslur innifaldar í þeirri fjárhæð. Mánaðarlaun tóku kjarasamningsbundnum hækkunum á ráðningartíma hans. Áfrýjandi vann alla daga vikunnar nema sunnudaga. Ágreiningslaust er að sambýliskona áfrýjanda var ráðin honum til aðstoðar í mötuneytinu.
6. Áfrýjandi lét af störfum í maí 2016. Við skýrslugjöf fyrir héraðsdómi kvaðst hann hafa byrjað hvern vinnudag klukkan hálfsex, þar sem í starfsskyldum hans hefði falist að sjá um morgunmat fyrir starfsmenn, sem byrjuðu sína vakt klukkan sjö. Hann hefði auk þess séð um kaffi um tíuleytið, hádegismat, kaffi um þrjúleytið og þá hefði hann einnig séð um kvöldmat fyrir starfsmenn stefnda. Hann kvað Guðmund Ólafsson, sem mun hafa verið titlaður verkefnastjóri stefnda, hafa tjáð sér í upphafi að það væri sama hvort hann ynni einn klukkutíma á dag eða 20, hið eina sem skipti máli væri að áfrýjandi veitti ,,fulla þjónustu“.
7. Þá kvaðst áfrýjandi fyrst hafa frétt af því að hann ætti hugsanlega rétt á því að gerður yrði upp við hann ónýttur frítökuréttur, um einum eða tveimur mánuðum eftir að hann hætti störfum hjá stefnda. Hann kvaðst hafa orðið hissa, þar sem í Tékklandi væri það ekki þannig. Í kjölfar þess hafi hann farið að grennslast fyrir um rétt sinn en fyrirsvarsmenn stefnda hafi tjáð honum að hann ætti engan rétt og það væri ,,hans vandamál að hann hafi ekki vitað af þessu“.
8. Fyrrverandi starfsmannastjóri stefnda bar fyrir héraðsdómi að hún hefði séð tímaskýrslur áfrýjanda. Hún kvaðst fyrst hafa heyrt frá áfrýjanda vegna frítökuréttar haustið 2016, en áður hafi sambýliskona áfrýjanda grennslast fyrir um það fyrir hans hönd. Þá hafi starfsmaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis haft samband við vitnið og sett fram ákveðnar kröfur. Spurð um hvort áfrýjanda hefði verið boðin meiri aðstoð í eldhúsinu en frá sambýliskonu sinni sem einnig starfaði þar kvað vitnið að það hefði verið rætt því að þetta væri ,,rosalega mikil vinna sem þau inntu af hendi … og við ræddum það einhvern tímann og það var ekki talin þörf á því … og það hefði … alveg verið hægt að skipuleggja hlutina kannski eilítið öðruvísi“ þannig að til aðstoðar honum hefði komið mannskapur sem var í öðrum verkefnum.
9. Verkefnastjóri stefnda, sem einnig kom fyrir héraðsdóm, kvað áfrýjanda hafa ráðið sínum vinnutíma sjálfur og getað hagað honum eins og hann vildi. Þó hefðu verið gerðar kröfur um að morgunmatur væri tilbúinn það snemma á morgnana að menn gætu hafið störf klukkan sjö. Spurður um hverjir hefðu unnið með áfrýjanda í mötuneytinu nefndi vitnið sambýliskonu áfrýjanda og kvað fimm til sex aðra hafa starfað þar líka. Hann gat þó ekki gert nánari grein fyrir starfssviði þess fólks en það hefði séð um aðstoð og þrif.
10. Samkvæmt ákvæði 2.4 í kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Eflingar stéttarfélags og Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis, sem ráðningarkjör áfrýjanda byggðust á og fjallar um lágmarkshvíld, skal haga vinnutíma þannig að á hverjum sólarhring skuli starfsmaður fá að minnsta kosti 11 klukkustunda samfellda hvíld. Um frávik og frítökurétt sagði í grein 2.4.2 að þegar starfsmenn væru sérstaklega beðnir um að mæta til vinnu áður en 11 klukkustunda hvíld væri náð, væri þeim heimilt að fresta hvíldinni og yrði hún veitt síðar þannig að frítökuréttur, ein og hálf klukkustund, safnaðist upp fyrir hverja klukkustund sem hvíldin skertist. Heimilt væri að greiða út hálfa klukkustund af frítökuréttinum óskaði starfsmaður þess. Um frítökuréttinn sagði í ákvæði 2.4.4 að uppsafnaður frítökuréttur skyldi koma fram á launaseðli og skyldi ónýttur frítökuréttur gerður upp við starfslok og teljast hluti ráðningartíma.
11. Áfrýjandi skráði vinnutíma sinn á þar til gerð eyðublöð sem stefndi lét honum í té og afhenti yfirmönnum sínum með reglulegu millibili allan ráðningartímann. Var þessi háttur hafður á, þrátt fyrir að ágreiningslaust sé að áfrýjandi hefði samið um föst mánaðarlaun án tillits til vinnutíma.
12. Í málinu eru tölvuskeyti milli áfrýjanda og fyrrum starfsmannastjóra stefnda frá 6. febrúar 2017 til 24. febrúar sama ár. Í tölvupósti 6. febrúar 2017 spurði áfrýjandi hvort einhver niðurstaða hefði fengist varðandi réttindi hans. Í síðasta tölvupósti starfsmannastjórans til áfrýjanda 24. febrúar sama ár kom fram það svar stefnda að hann teldi áfrýjanda ekki eiga tilkall til frítökuréttar. Sama dag skrifaði áfrýjandi starfsmanni hjá Verkalýðs- og sjómannafélagi Keflavíkur og nágrennis og bar upp erindi sitt vegna frítökuréttar. Með bréfi 5. apríl sama ár ritaði lögmaður stéttarfélagsins bréf til stefnda og krafði hann um vangoldinn frítökurétt áfrýjanda.
Niðurstaða
13. Eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi telur áfrýjandi að hann hafi ekki náð lágmarkshvíld samkvæmt 1. mgr. 53. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Hafi af þeim sökum safnast upp frítökuréttur sem hann hafi ekki notið. Hann hafi því átt rétt á greiðslu samkvæmt ákvæði 2.4.2 í kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Eflingar stéttarfélags og Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis er hann lét af störfum.
14. Stefndi byggir á því til stuðnings sýknukröfu sinni að samið hafi verið um heildarlaun áfrýjanda vegna allra þeirra greiðslna sem hann hafi átt rétt á. Þá hafi áfrýjandi sjálfur ráðið því hvernig hann hagaði vinnutíma sínum og skipulagði hann. Hafi áfrýjandi ekki þurft að mæta til vinnu snemma á morgnana til að undirbúa morgunverð, þar sem aðrir starfsmenn hefðu getað annast um það. Að lokum heldur stefndi því fram að áfrýjandi hafi glatað rétti sínum fyrir tómlæti.
15. Hvorki var gerður skriflegur ráðningarsamningur við áfrýjanda né ráðning hans staðfest skriflega en ágreiningslaust er að aðilar sömdu um föst mánaðarlaun. Um ráðningarsamband aðila fór eftir kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Eflingar stéttarfélags og Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis.
16. Þótt áfrýjandi hafi ekki verið sérstaklega kallaður til vinnu áður en 11 klukkustunda lágmarkshvíld á sólarhring var náð, verður ráðið af skýrslum vitna þeirra sem komu fyrir héraðsdóm, þar á meðal verkefnastjóra stefnda, að hann réð vinnutíma sínum ekki sjálfur í þeim skilningi að hann gæti stjórnað því hvenær verk þau sem hann var ráðinn til yrðu innt af hendi. Verður þessi ályktun dregin af því að vinnutími hans markaðist af vaktafyrirkomulagi starfsmanna stefnda, sem unnu á tólf tíma vöktum. Í starfsskyldum áfrýjanda fólst að sjá um alla málsverði hvers vinnudags, frá undirbúningi morgunverðar sem þurfti að vera til reiðu um sexleytið að morgni og til kvöldverðar, sem þurfti að vera tilbúinn fyrir starfsmenn sem luku vakt sinni klukkan sjö að kvöldi.
17. Stefndi fékk reglulega yfirlit um vinnutíma áfrýjanda. Í yfirlitum þessum kemur fram að hann vann mjög langan vinnudag, iðulega frá klukkan fimm eða hálfsex að morgni til hálfníu eða níu að kvöldi. Ekki hefur komið fram í málinu að stefndi hafi gert athugasemdir við áfrýjanda í þá veru að tímaskráning hans endurspeglaði ekki hversu langan vinnudag hann vann. Þá liggur ekki fyrir sönnun þess að aðrir starfsmenn stefnda hafi verið tiltækir til að inna af hendi þá vinnu sem til þurfti svo að áfrýjandi gæti staðið við samning aðila um að veita fulla þjónustu, með matreiðslu frá morgunverði til kvöldverðar. Samkvæmt framangreindu verður lagt til grundvallar að til þess að áfrýjandi gæti fullnægt þeim skyldum sem á honum hvíldu samkvæmt ráðningarsamningi hafi verið óhjákvæmilegt að hann viki reglulega frá daglegum hvíldartíma sínum. Því naut hann ekki þeirrar lágmarkshvíldar sem kveðið er á um í 1. mgr. 53. gr. laga nr. 46/1980 og ákvæði 2.4.1 í kjarasamningi sem gilti um ráðningarsamband aðila, en á því ber stefndi ábyrgð.
18. Áfrýjandi starfaði hjá stefnda í rúm tvö og hálft ár. Að framan er rakið að ekki var gerður við hann skriflegur ráðningarsamningur. Hann er tékkneskur og bar fyrir héraðsdómi að honum hefði ekki verið kunnugt um að við starfslok væri unnt að krefjast greiðslu á ónýttum frítökurétti, fyrr en sambýliskona hans hefði tjáð sér það um það leyti er hann lauk störfum hjá stefnda. Fyrrum starfsmannastjóri stefnda bar fyrir héraðsdómi að áfrýjandi hefði borið upp slíkt erindi við hana í október eða nóvember 2016 en áður hefði sambýliskona áfrýjanda grennslast fyrir um rétt hans þessa efnis. Sama dag og áfrýjanda barst höfnun stefnda á greiðslu ónýtts frítökuréttar, 24. febrúar 2017, sendi hann stéttarfélagi sínu bréf þar sem hann óskaði liðsinnis þess. Hinn 5. apríl sama ár sendi stéttarfélagið stefnda bréf með kröfu um vangoldinn frítökurétt. Mál þetta var síðan höfðað rúmum tveimur mánuðum síðar. Samkvæmt öllu framangreindu hefur áfrýjandi ekki sýnt það tómlæti við gæslu þeirra lágmarkskjara sinna, sem felast í frítökurétti, að hann hafi glatað rétti til að hafa uppi kröfu vegna hans á hendur stefnda.
19. Áfrýjandi lækkaði kröfu sína frá stefnukröfu í héraði og tók þannig tillit til athugasemda er fram komu í greinargerð stefnda í héraði við útreikning og forsendur kröfu áfrýjanda. Að þessu gættu verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjanda 3.358.902 krónur með dráttarvöxtum eins og krafist er.
20. Eftir þessum úrslitum verður stefndi jafnframt dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað á báðum dómstigum eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Stefndi, Suðurverk hf., greiði áfrýjanda, Viktor Spirk, 3.358.902 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 31. maí 2016 til greiðsludags.
Stefndi greiði áfrýjanda 2.000.000 króna í málskostnað í héraði og fyrir Landsrétti.
Sératkvæði
Vilhjálms H. Vilhjálmssonar
21. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms tel ég að staðfesta beri niðurstöðu hans um sýknu stefnda af kröfum áfrýjanda.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 6. júlí 2018.
Mál þetta, sem dómtekið var 31. maí síðastliðinn, er höfðað 21. júní 2017.
Stefnandi er Viktor Spirk, Bakkastíg 7b, Eskifirði.
Stefndi er Suðurverk hf., Hlíðasmára 11, Kópavogi.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru að stefndi greiði honum 3.358.902 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 31. maí 2016 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar.
Stefndi krefst aðallega sýknu, en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar. Í báðum tilvikum krefst stefndi málkostnaðar.
I
Stefnandi, sem er lærður matreiðslumaður, hóf störf hjá stefnda í nóvember 2013, en starfaði áður á Hótel Keflavík og hjá fyrirtækinu Metrostav. Stefnandi var ráðinn hjá stefnda til að sjá um mötuneyti starfsmanna sem unnu við Norðfjarðargöng. Sinnti stefnandi starfinu alla daga vikunnar utan sunnudaga. Ekki var gerður skriflegur ráðningarsamningur við stefnanda. Heldur stefndi því fram að stefnandi hafi samið á þann veg að stefnandi réði sínum vinnutíma sjálfur gegn því að matur væri alltaf til á réttum tíma fyrir starfsmenn stefnda. Stefnandi er félagsmaður í Verkalýðs- og sjómannafélagi Keflavíkur og nágrennis.
Samkvæmt framlögðum launaseðlum stefnanda fékk hann greiddar 800.000 krónur í heildarlaun á mánuði og var orlof innifalið í þeirri upphæð. Stefndi segir stefnanda hafa fengið föst mánaðarlaun gegn því að skila ákveðnu verki sem hafi verið óháð tilteknum tímafjölda og hafi stefnandi því ekki verið ráðinn á tímagjaldi líkt og aðrir starfsmenn stefnda. Þá tóku mánaðarlaun stefnanda kjarasamnings-bundnum hækkunum á ráðningartímanum, en um ráðningarsamband aðila fór eftir kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Eflingar – stéttarfélags og Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis vegna vinnu starfsfólks í veitinga- og gistihúsum og hliðstæðri starfsemi.
Stefnandi skráði vinnutíma sína hjá stefnda í hefti sem hann merkti stefnda. Fékk starfsmannastjóri stefnda afrit því af mánaðarlega. Stefnandi heldur því fram að það hafi verið í verkahring hans að útbúa morgunmat fyrir árrisula starfsmenn stefnda sem hafi þurft að vera tilbúinn klukkan 06:00 á morgnana. Þá hafi stefnandi þurft að starfa alveg þangað til búið var að ganga frá eldhúsinu eftir kvöldverð á kvöldin. Þannig hafi stefnandi jafnan verið mættur til vinnu klukkan 05:00 eða 5:30 á morgnana og unnið oftar en ekki til klukkan 20:30 eða 21:00 á kvöldin.
Stefndi hafnar því að stefnandi hafi verið ráðinn til þess að sjá um morgunverð starfsmanna. Þvert á móti hafi ekki verið nauðsynlegt að stefnandi mætti til að útbúa morgunverð fyrir starfsmenn, enda sé það viðtekin venja að matreiðslumenn sjái ekki um slíkt. Því hafi ekki verið nauðsynlegt fyrir stefnanda að mæta fyrir árrisula starfsmenn stefnda líkt og haldið sé fram. Þá hafi stefnanda ekki verið nauðsynlegt að starfa allt þar til búið var að ganga frá í eldhúsinu eftir kvöldverð. Heldur stefndi því fram að farið hafi verið yfir framangreint verklag með stefnanda sem hafi sagt að fyrirkomulagið gengi upp. Þá hafi stefnanda einnig verið boðið að fá fleiri starfsmenn sér til aðstoðar í eldhúsið en stefnandi hafi ekki kært sig um það. Hafi stefndi því litið svo á að stefnandi næði þar með að sinna vinnu sinni ásamt því að fá 11 klukkustunda samfellda hvíld dag hvern. Stefnanda hætti störfum hjá stefnda í maí 2016.
Eiginkona stefnanda starfaði einnig í sama mötuneyti. Var hún ráðin til starfa á grundvelli tímakaups og mun stefndi hafa óskað eftir því að hún skilaði inn tímaskýrslum vegna vinnu sinnar. Voru þær staðfestar af starfsmanni stefnda og færðar inn í tímaskráningarkerfi ásamt frítökurétti hennar. Laun hennar voru síðan greidd út í samræmi við skráninguna og þá var henni greidd frítaka, eftir kröfu hennar um útgreiðslu, á grundvelli framangreindrar skráningar.
Stefandi leitaði álits hjá stéttarfélagi sínu um ætlaðan frítökurétt og var fullyrt að stefndi hefði brotið gegn kjarasamningsbundnum lágmarksrétti starfsmanns um hvíldartíma. Með tölvubréfi 6. febrúar 2017 spurðist stefnandi fyrir um ætlaðan frítökurétt sinn hjá stefnda. Í svari Elínar Sigríðar Arnórsdóttur, þáverandi starfsmannastjóra stefnda, 24. febrúar 2017 kemur fram að stefnandi hafi verið ráðinn hjá stefnda með umsamin heildarlaun á mánuði. Hafi stefnandi ráðið vinnutíma sínum sjálfur og ekki hafi verið gerð athugasemd við að stefnandi færi af vinnustaðnum eftir hádegi og þá ekki hvenær stefnandi kom til vinnu á morgnana eða hætti störfum á kvöldin.
Með bréfi til stefnda 5. apríl 2017 var þess krafist að vangoldnar greiðslur vegna frítökuréttar fyrir árin 2013-2016 til stefnanda, samtals að fjárhæð 3.403.955 krónur, að meðtöldu 10,17% orlofi, yrðu greiddar innan tveggja vikna. Var kröfunni hafnað af stefnda.
II
Stefnandi kveðst byggja á því að stefndi hafi ekki virt við hann ákvæði kjarasamnings um lágmarkshvíld og uppgjör frítökuréttar. Telji stefnandi að á tímabilinu frá nóvember 2013 til maí 2016 hafi safnast upp frítökuréttur, sem hann hafi áunnið sér án þess að stefndi hafi hlutast til um að stefnandi tæki hann út í fríi. Við starfslok hafi stefnda borið að gera upp ótekinn frítökurétt í samræmi við ákvæði kjarasamnings sem gilti um ráðningarsamband aðila.
Þá bendi stefnandi á að í 1. mgr. 53. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum sé mælt fyrir um að vinnutíma skuli haga þannig að á hverjum 24 klukkustundum, reiknað frá byrjun vinnudags, fái starfsmenn að minnsta kosti 11 klukkustunda samfellda hvíld. Með ákvæðinu sé komið til móts við þjóðréttarlega skuldbindingu samkvæmt 3. gr. tilskipunar nr. 2000/34/EB um skipulag vinnutíma, en sú tilskipun teljist innleidd með ákvæðum kjarasamninga og þannig lágmarkskjör á íslenskum vinnumarkaði, sbr. auglýsingu félagsmálaráðuneytis nr. 285/1997.
Þá hafi gilt um ráðningarsamband aðila kjarasamningur milli Samtaka atvinnulífsins og stéttarfélags stefnanda. Í ákvæði 2.4 í kjarasamningnum sé fjallað um daglegan hvíldartíma en þar segi að vinnutíma skuli haga þannig að á hverjum sólarhring, reiknað frá byrjun vinnudags, skuli starfsmaður fá að minnsta kosti 11 klukkustunda samfellda hvíld. Séu starfsmenn beðnir að mæta til vinnu áður en 11 klst. hvíld sé náð sé heimilt að fresta hvíldinni og veita síðar, þannig að frítökuréttur, 1½ klst. (dagvinna), safnist upp fyrir hverja klukkustund sem hvíldin skerðist. Við starfslok skuli ónýttur frítökuréttur starfsmanns gerður upp og teljast hluti ráðningartíma. Efni ákvæðisins sé í samræmi við samning um ákveðna þætti er varði skipulag vinnutíma milli Alþýðusambands Íslands og Vinnuveitendasambands Íslands, nú Samtaka atvinnulífsins. Í 3. gr. þess samnings segi að vinnutíma skuli haga þannig að á hverjum sólarhring, reiknað frá byrjun vinnudags, fái starfsmaður að minnsta kosti 11 klukkustunda samfellda hvíld.
Af framangreindu sé ljóst að brotið hafi verið gegn rétti starfsmanns til lágmarkshvíldar hjá félaginu, þegar honum hafi verið gert að vinna lengri vaktir en svo að hann gæti náð ellefu klukkustunda samfelldri hvíld á sólarhring og án þess að frítökuréttur safnaðist. Stefnanda hafi aldrei verið greitt dagvinnukaup af frítökurétti svo sem heimild sé til í kjarasamningi. Því sé gerð krafa um það að stefnanda verði greidd vangoldin laun sem nemi ónýttum frítökurétti vegna hvíldartíma við starfslok, sbr. ákvæði 2.4.4 í kjarasamningi.
Rök, sem stefndi tefli fram í tölvupóstsamskiptum við stefnanda um að stefnandi eigi ekki rétt til frítöku vegna þess að gerður hafi verið samningur „um eina heildartölu“ en ekki tímakaup, séu haldlaus. Í fyrsta lagi sé frítökurétturinn almennur lágmarksréttur launþega sem sé ekki bundinn við að mánaðarkaup sé reiknað með einum hætti umfram annan. Atvinnurekendur geti ekki komið sér undan því að virða frítökurétt starfsmanna, sem sé lágmarksréttur samkvæmt lögum og kjarasamningum eins og áður sé rakið, með því einu að semja við þá um heildarlaun á mánuði. Þá bendi stefnandi á að skriflegur ráðningarsamningur hafi aldrei verið gerður milli aðila. Stefnda hafi þó tvímælalaust staðið það nær sem vinnuveitanda að ganga frá slíkum samningi. Stefndi ber því sönnunarbyrðina fyrir því hvernig hafi samist milli aðila, og hallann af því ef aðilum ber ekki saman um samningsatriði.
Stefnandi geri kröfu vegna tímabilsins nóvember 2013 til maí 2016. Krafan miði við að frítökuréttur hafi safnast upp á nefndu tímabili og verið að fullu óuppgerður við starfslok. Fyrirliggjandi tímaskráning vegna vinnu stefnanda sýni svo ekki verði um villst að stefnandi hafi ekki getað notið 11 klukkustunda samfelldrar hvíldar í fleiri skipti á ráðningartímanum. Geri stefnandi nú kröfu til þess að hlutur hans verði réttur með greiðslu launa sem taki mið af ígildi vinnustunda sem þannig hafi orðið til. Séu laun stefnanda á tímabilinu vangoldin sem nemur 3.102.446 krónum vegna þessa, að teknu tilliti til lágmarkslauna samkvæmt ákvæði 1.4 í gildandi kjarasamningi. Stefnandi sundurliðar í stefnu ætlaðan vangoldinn frítökurétt sinn, skipt milli mánaða á ráðningartímabilinu.
Um frekari sundurliðun kröfunnar vísar stefnandi til tímaskráningar hans. Fulltrúi stefnda hafi fengið afhent mánaðarlega afrit af tímaskráningu stefnanda. Stefndi hafi ekki gert athugasemdir við skráningu á vinnutíma stefnanda samkvæmt tímaskráningunni, en hann hafi haft það í höndum sér að skipuleggja starfið og gæta að því að ráða inn starfsmann á móti stefnanda þegar fyrir hafi legið að fyrirkomulag starfsins útilokaði að stefnandi gæti notið lög- og kjarasamningsbundinnar lágmarks-hvíldar. Tilefni til þessa hafi verið þegar í árslok 2013. Vinnuveitandi geti því ekki borið fyrir sig að stefnandi hafi með þessu tekið sér sjálftöku um vinnutíma. Þá liggi fyrir að eiginkona stefnanda, sem hafi starfað með honum í mötuneyti stefnda, hafi fengið frítökurétt greiddan afturvirkt þegar hún hafi vakið máls á erindinu við stefnda, en stefnandi hafði þá þegar látið af störfum hjá stefnda.
Stefnandi krefst greiðslu orlofs á vangoldin laun og byggist sú krafa á 5. kafla fyrrnefnds kjarasamnings og lögum nr. 30/1987 um orlof, sbr. 2. mgr. 7. gr. laganna. Þar segi að reikna beri starfsmanni orlofslaun af heildarlaunum, að lágmarki 10,17%. Samtals nemi krafa stefnanda á hendur stefnda 3.358.902 krónum.
Hvað lagarök varðar vísar stefnandi til meginreglna vinnu-, kröfu- og samningaréttarins um efndir fjárskuldbindinga og að gerða samninga skuli halda, sérstaklega um skyldu vinnuveitanda til að greiða umsamin laun og aðrar greiðslur, samkvæmt gildandi lögum og kjarasamningum. Stefnandi vísar jafnframt til laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks, sérstaklega 1. gr., laga nr. 30/1987 um orlof, aðallega 1., 7. og 8. gr., og laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, aðallega 2. og 53. gr. Þá vísar hann til kjarasamnings Samtaka atvinnulífsins og Eflingar – stéttarfélags og Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis vegna vinnu starfsfólks í veitinga- og gistihúsum og hliðstæðri starfsemi frá 1. maí 2015 með síðari breytingum. Krafa um dráttarvexti styðst við 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Krafa um málskostnað er byggð á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
III
Stefndi kveðst byggja sýknukröfu sína á því að stefnandi eigi ekki frekari kröfu á hendur stefnda. Byggist það á því að launakröfur stefnanda hafi að fullu verið gerðar upp við starfslok hans. Hafi stefnanda verið greitt í samræmi við munnlegan samning aðila og verði stefnda ekki gert að greiða stefnanda meira en það sem um hafi verið samið. Stefndi ítreki í því sambandi að aldrei hafi verið samið um það að stefnandi ynni 16 klukkustunda vinnudag og því síður að stefnandi mætti áður en 11 klukkustunda hvíld hafi náðst. Stefndi mótmæli því að hafa brotið gegn kjarasamningsbundnum lágmarksrétti starfsmanna um hvíldartíma líkt og haldið sé fram.
Þá mótmæli stefndi því að honum verði gert að greiða stefnanda laun, og því síður frítöku, vegna þess tíma sem stefnandi hafi beðið eftir konu sinni, eða mætt til vinnu of snemma, til að samnýta ferð með henni til og frá vinnustaðnum. Loks mótmæli stefndi því að stuðst verði við einhliða skráningu stefnanda um meintan vinnutíma sinn, enda ekkert sem styðji þá skráningu og sé hún því ósönnuð.
Stefndi byggi til vara á því að stefnandi eigi ekki kröfu á stefnda sökum tómlætis. Stefnandi hafi aldrei gert neinar athugasemdir við laun sín, launaseðla eða útreikning á frítökurétti á meðan hann hafi starfað hjá stefnda en stefnandi hafi starfað hjá stefnda í 2½ ár. Þvert á móti hafi stefnandi haldið áfram störfum hjá stefnda án þess að gera nokkrar athugasemdir, hvorki hvað varðaði laun, hvíldartíma né frítökurétt. Þetta hafi stefnandi gert þrátt fyrir að á mánaðarlegum launaseðlum kæmi skýrlega fram að enginn frítökuréttur safnaðist. Eiginkona stefnanda hafi fengið uppgerðan frítökurétt samkvæmt mánaðarlegri tímaskráningu og hefði það eitt átt að gefa stefnanda tilefni til að gera athugasemdir ef hann teldi á annað borð að á sér væri brotið. Stefnandi hafi hins vegar fyrst gert kröfu um meintan frítökurétt ári eftir að hann hafi lokið störfum hjá stefnda.
Þá hafi stefnanda borið að gera strax athugasemdir ef honum hafi ekki reynst unnt að sinna verkefninu, sem hann hafi verið ráðinn til að sinna, innan eðlilegra tímamarka. Hafi slíkt verið raunin, sem stefndi fullyrði ekkert um, hafi stefnanda borið að gera athugasemd við það strax svo að unnt væri að bregðast við. Kveðst stefndi byggja á því að um sé að ræða tómlæti hjá stefnanda við gæslu á meintum rétti sínum sem leiða eigi til sýknu.
Með vísan til framangreindra sjónarmiða telji stefndi ljóst að sýkna beri hann af öllum kröfum stefnanda. Verði ekki fallist á sýknukröfu stefnda þá geri hann þá kröfu til vara að krafa stefnanda verði lækkuð. Verði stefnda þannig aðeins gert að greiða fyrir þann frítökurétt sem stefnandi hafi sannanlega áunnið sér. Þegar færslur stefnanda séu bornar saman við samantekt yfir tímaskráningar stefnanda, sem stefnandi byggi kröfu sína á, komi talsvert misræmi í ljós sem stefndi rekur í greinargerð sinni. Kveður stefndi verulegs ósamræmis gæti á milli færslna stefnanda og samantektar hans yfir tímaskráningar. Þannig beri samantektin, sem krafa hans byggist á, þess merki að tímaskráning stefnanda sé langt umfram raunverulegt vinnuframalag hans. Málatilbúnaður stefnanda sé því verulega vanreifaður að þessu leyti. Geti stefndi eðli málsins samkvæmt ekki krafist tiltekinnar kröfufjárhæðar vegna varakröfu sinnar sökum ófullnægjandi og misvísandi upplýsinga af hálfu stefnanda hvað þetta varði.
Loks mótmæli stefndi upphafstíma dráttarvaxta og krefjist þess að dráttarvextir miðist við dómsuppsögu fari svo að kröfur stefnanda verði teknar til greina að einhverju leyti. Sé vísað til þess sem komið sé fram að aldrei hafi verið samið um að stefnandi ynni allt að 16 klukkustundir og þá hafi stefndi aldrei óskað eftir því að stefnandi mætti til vinnu áður en hann hafi náð 11 klukkustunda samfelldri hvíld. Þá hafi stefndi greitt stefnanda þau laun sem honum hafi borið að greiða mánaðarlega án athugasemda frá stefnanda. Stefndi telji því einsýnt að miða beri upphafstíma dráttarvaxta við dómsuppsögu fari svo að krafa stefnanda verði tekin til greina.
Hvað lagarök varðar vísar stefndi til meginreglna vinnu-, kröfu- og samningaréttar um skuldbindingargildi loforða og skyldu til að efna samninga. Þá er vísað til kjarasamnings Samtaka atvinnulífsins og Eflingar – stéttarfélags og Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis vegna vinnu starfsfólks í veitinga- og gistihúsum og hliðstæðri starfsemi frá 1. maí 2015 með síðari breytingum. Krafa um málskostnað byggist á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
IV
Dómkrafa stefnanda í málinu er byggð á því að stefndi hafi ekki virt ákvæði kjarasamnings um lágmarkshvíld og uppgjör frítökuréttar. Byggir stefnandi á því að á tímabilinu frá nóvember 2013 til maí 2016 hafi safnast upp frítökuréttur sem hann hafi áunnið sér án þess að stefndi hlutaðist til um að hann tæki hann út í fríi. Hafi stefnda borið að gera upp við stefnanda ótekinn frítökurétt í samræmi við ákvæði kjarasamnings sem gilti um ráðningarsamband aðila. Stefndi hafnar þessum sjónarmiðum og vísar til þess að stefnandi eigi ekki frekari kröfur á hendur stefnda, enda hafi launakröfur verið að fullu gerðar upp við stefnanda við starfslok hans.
Í IX. kafla laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, eins og honum var breytt með 19. gr. laga nr. 68/2003, er fjallað um hvíldartíma, frídaga og hámarksvinnutíma. Í 1. mgr. 53. gr. segir að vinnutíma skuli haga þannig að á hverjum 24 klukkustundum, reiknað frá byrjun vinnudags, fái starfsmenn að minnsta kosti 11 klukkustunda samfellda hvíld. Samkvæmt 2. mgr. 53. gr. er samtökum aðila vinnumarkaðarins heimilt að semja um að stytta samfelldan hvíldartíma í allt að átta klukkustundir ef eðli starfs eða sérstakir atvinnuhættir gera frávik nauðsynleg.
Í kjarasamningi milli Samtaka atvinnulífsins og Eflingar – stéttarfélags og Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis, sem stefnandi byggir kröfur sínar á, er kveðið á um lágmarkshvíld. Í grein 2.4.2 segir að lengja megi vinnulotu í allt að 16 klukkustundir við sérstakar aðstæður, þegar bjarga þurfi verðmætum, og skuli þá veita 11 klukkustunda hvíld í beinu framhaldi af vinnunni án skerðingar á rétti til fastra daglauna. Þá segir að í þeim tilvikum að sérstakar aðstæður geri það óhjákvæmilegt að víkja frá daglegum hvíldartíma gildi tilteknar reglur sem koma fram í ákvæðinu. Ekki er þörf á því við úrlausn málsins að rekja þessar reglur nánar að því fráteknu að ef starfsmenn eru sérstaklega beðnir um að mæta til vinnu áður en 11 klukkustunda hvíld er náð er heimilt að fresta hvíldinni og veita síðar, „þannig að frítökuréttur, 1 ½ klst. (dagvinna), safnist upp fyrir hverja klst. sem hvíldin skerðist.“
Um frítökurétt segir sérstaklega í grein 2.4.4 í sama kjarasamningi að uppsafnaður frítökuréttur skuli koma fram á launaseðli og veittur í hálfum og heilum dögum utan annatíma í starfsemi fyrirtækisins í samráði við starfsmenn, enda sé uppsafnaður frítökuréttur að lágmarki fjórar klukkustundir. Skal ónýttur frítökuréttur gerður upp við starfslok og teljast hluti af ráðningartíma.
Í 52. gr. laga nr. 46/1980, með síðari breytingum, er vinnutími skilgreindur sem sá tími sem starfsmaður er við störf, til taks fyrir atvinnurekandann og innir af hendi störf sín og skyldur. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 68/2003, um breytingu á lögum nr. 46/1980, segir að með hugtakinu vinnutími sé átt við virkan vinnutíma. Vinnuhlé þar sem ekki er krafist vinnuframlags, neysluhlé, launaður biðtími og ferðir til og frá vinnustað eða reglubundinni starfsstöð falli ekki undir þessa skilgreiningu á vinnutíma þótt greiðsla komi fyrir, enda sé miðað við virkan vinnutíma en ekki greiddan.
Ágreiningslaust er í máli þessu að stefnandi var ráðinn til starfa hjá stefnda til að hafa umsjón með mötuneyti fyrir starfsmenn stefnda sem unnu við Norðfjarðargöng. Ekki var gerður skriflegur ráðningarsamningur við stefnanda, en samkvæmt framburði hans og vitnisins Guðmundar Ólafssonar, verkefnastjóra stefnda, fékk stefnandi munnlegar upplýsingar um starfið. Í mötuneytinu var morgunverður reiddur fram ásamt hádegisverði og kvöldverði, auk kaffitíma. Fram er komið að stefnandi mætti til vinnu snemma á morgnana, ásamt sambýliskonu sinni, og hætti seint á kvöldin. Þá upplýsti stefnandi, sambýliskona hans og vitnið Elín Sigríður Arnórsdóttir, fyrrverandi starfsmannastjóri stefnda, að stefnandi hefði farið af vinnustaðnum eftir hádegið og var vinnutími hans því ekki endilega samfelldur. Réð stefnandi vinnutíma sínum sjálfur og gat sem yfirmaður í mötuneytinu ráðið hvernig vinnu hans væri háttað. Í framburði stefnanda fyrir dómi kom fram að stefndi hefði aldrei óskað eftir því við hann að hann mætti í vinnuna án þess að fá 11 klukkustunda hvíld. Í sama streng tóku vitnin Elín Sigríður og Guðmundur Ólafsson.
Þrátt fyrir að stefnandi réði sínum vinnutíma og fengi föst mánaðarlaun frá stefnda á starfstímanum skráði hann viðveru sína í mötuneytinu án þess þó að taka tillit til þess þegar hann yfirgaf vinnustaðinn um miðjan dag. Fyrir liggur að stefndi óskaði ekki eftir slíkri tímaskráningu frá stefnanda, sem var óþörf vegna fastra mánaðarlauna stefnanda. Er dómkrafa stefnanda á hendur stefnda reist á einhliða tímaskráningu stefnanda, sem ekki var skráð í launakerfi stefnda samkvæmt framburði vitnisins Elínar Sigríðar Arnórsdóttur.
Stefnandi krefst launa og orlofs vegna „vangoldins frítökuréttar“. Af fyrrgreindum ákvæðum kjarasamnings verður ekki ráðið að greiðsla launa komi í stað hvíldartíma, en til þess er þó takmörkuð heimild í grein 2.4.2 í fyrrnefndum kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Eflingar – stéttarfélags, sem háð er ósk starfsmanns þar um. Ekki verður ráðið af framlögðum launaseðlum stefnanda að hann hafi nokkru sinni áunnið sér frítökurétt, en uppsafnaður frítökuréttur skal koma fram á launaseðli. Stefnandi hóf störf hjá stefnda í nóvember 2013 og lauk störfum í maí 2016. Stefnandi gerði aldrei á því tímabili athugasemdir við útborguð laun eða að ætlaður frítökuréttur væri vantalinn á launaseðli hans. Kveðst stefnandi fyrst eftir starfslok hjá stefnda hafa talið sig hlunnfarinn að þessu leyti. Vísar stefnandi til þess að stefndi hafi ekki virt kjarasamningsbundin réttindi stefnanda og brotið gegn rétti stefnanda til lágmarkshvíldar vegna vinnu stefnanda hjá stefnda. Á þetta verður ekki fallist með stefnanda. Eins og fram er komið fékk stefnandi föst mánaðarlaun sem voru að mati dómsins heildarlaun óháð vinnuframlagi. Réð stefnandi vinnutíma sínum sjálfur og hefur að mati dómsins hvorki sýnt fram á að þörf hafi verið á eins langri viðveru hans í mötuneytinu og hann skráði, né að sýnt hafi verið fram á að stefndi hafi óskað eftir því að hann mætti til vinnu án þess að fá 11 klukkustunda lágmarkshvíld en slík fyrirmæli verður að telja nauðsynleg til að stefnandi gæti notið fráviks og frítökuréttar sem fylgir lengri vinnulotum, sbr. greinar 2.4.1 og 2.4.2 í nefndum kjarasamningi. Þá er eðli frítökuréttar með þeim hætti að starfsmaður getur ekki firrt sig ábyrgð af gæslu slíkra hagsmuna sinna og varpað því eingöngu á vinnuveitanda að virkja slíkan rétt. Það fær ekki staðist. Fyrir liggur að stefnandi flutti til landsins 2011 og starfaði áður sem matreiðslumaður á hóteli og í öðru mötuneyti en hjá stefnda. Var hann því ekki ókunnugur aðstæðum hér á landi. Þá liggur einnig fyrir að stefnanda var falið það verkefni af stefnda að hafa umsjón með mötuneyti þar sem auk hans starfaði sambýliskona hans og fleira starfsfólk ef marka má framburð Guðmundar Ólafssonar, verkefnastjóra stefnda, fyrir dómi, en hann nafngreindi tvær aðrar konur en sambýliskonu stefnanda, sem unnu í mötuneytinu og skiptu með sér vöktum.
Með vísan til þess sem rakið er að framan er það niðurstaða dómsins að sýnt hafi verið fram á það að aðilar hafi samið um föst heildarlaun óháð vinnuframlagi stefnanda. Þá þykir sannað að stefndi hafi aldrei farið þess á leit við stefnanda að hann lengdi vinnulotu sína til að sinna því starfi sem honum var falið. Þrátt fyrir eigin tímaskráningu stefnanda verður hann ekki talinn eiga rétt til frítöku og orlofs með greiðslu peninga frá stefnda eins og krafist er. Einnig er til þess að líta að stefnandi gerði ekki athugasemdir í þá veru að honum bæri réttur til frítöku á starfstíma hans hjá stefnda sem spannar 2½ ár. Það gerði stefnandi fyrst um ári eftir starflok hjá stefnda.
Dómurinn hefur komist að þeirri niðurstöðu að stefnandi hafi ekki átt frítökurétt vegna starfa sinna í þágu stefnda. Þykir þá ekki ástæða til að fjalla um þá málsástæðu stefnda að stefnandi hafi sýnt tómlæti við gæslu hagsmuna sinna í svo langan tíma að hann hafi glatað rétti til að hafa uppi kröfu á hendur stefnda um ætlaðan frítökurétt. Ber samkvæmt þessu að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda. Þrátt fyrir þá niðurstöðu þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.
Jón Höskuldsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan. Fyrir uppkvaðningu dómsins var gætt fyrirmæla 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
D ó m s o r ð:
Stefndi, Suðurverk hf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Viktors Spirk.
Málskostnaður fellur niður.