Hæstiréttur íslands
Mál nr. 588/2012
Lykilorð
- Aðildarskortur
- Fjármálafyrirtæki
- Slit
|
|
Fimmtudaginn 7. mars 2013. |
|
Nr. 588/2012.
|
Óskar Veturliði Sigurðsson (Helgi Sigurðsson hrl.) gegn Landsbankanum hf. (Aðalsteinn E. Jónasson hrl.) |
Aðildarskortur. Fjármálafyrirtæki. Slit.
Ó höfðaði mál gegn L hf. til heimtu skuldar á grundvelli tveggja samninga við LÍ hf., forvera L hf., um stundarviðskipti með gjaldeyri sem fram fóru 8. október 2008, en uppgjörsdagur var 10. október sama ár. Hinn 7. október 2008 tók Fjármálaeftirlitið yfir vald hluthafafundar LÍ hf., vék stjórn hans frá og setti skilanefnd yfir bankann. Þá var eignum og skuldum LÍ hf. ráðstafað til nýs banka, sem síðar varð L hf., með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október sama ár sem breytt var 12. og 19. sama mánaðar. Með vísan til þess að skuldir vegna gjaldmiðlaviðskipta af því tagi sem Ó gerði við LÍ hf. hefðu ekki verið færðar yfir til L hf. við uppskiptingu eigna og skulda bankans í október 2008 staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu héraðsdóms um sýknu L hf. af kröfu Ó vegna aðildarskorts.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 6. september 2012. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 1.209.400 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 10. október 2008 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður fallist á niðurstöðu hans um að málinu verði ekki vísað frá héraðsdómi með því að áfrýjandi hafi, áður en hann höfðaði mál þetta, lýst kröfu við slitameðferð Landsbanka Íslands hf.
II
Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi gerðu áfrýjandi og Landsbanki Íslands hf. með sér tvo svokallaða stundarsamninga 8. október 2008 um viðskipti með gjaldeyri. Samkvæmt viðskiptastaðfestingu um samning nr. 3016751 keypti Landsbanki Íslands hf. 20.000 sterlingspund af stefnanda gegn greiðslu á 4.980.400 krónum, sem jafngilti gengi sterlingspunds gagnvart krónu 249,02. Samkvæmt viðskiptastaðfestingu um samning nr. 3017606 seldi Landsbanki Íslands hf. stefnanda 20.000 sterlingspund gegn greiðslu á 3.771.000 krónum, sem jafngilti gengi sterlingspunds gagnvart krónu 188,55. Samningsdagur var tilgreindur 8. október 2008, en gjalddagi 10. október sama ár.
Samkvæmt heimild í 100 gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki,sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008 tók Fjármálaeftirlitið 7. október 2008 yfir vald hluthafafundar Landsbanka Íslands hf., vék stjórn hans frá og setti skilanefnd yfir bankann. Stofnaður var nýr banki á grunni þess fallna, sem bar nafn eldri bankans en með viðbótinni ,,Nýi“ fremst í nafninu. Sá banki ber nú heiti stefnda.
Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008 var eignum og skuldum Landsbanka Íslands hf. ráðstafað. Hinn 12. október sama ár breytti Fjármálaeftirlitið ákvörðun sinni og enn á ný 19. október sama ár. Í sérstöku skjali sem Fjármálaeftirlitið staðfesti og er frá 14. október 2008 og var endurskoðað 19. sama mánaðar og ber yfirskriftina ,,Forsendur fyrir skiptingu efnahagsreiknings“ kemur fram að Fjármálaeftirlitið hafi tekið saman samræmd viðmið um framsetningu stofnefnahagsreiknings nýs banka, en markmiðið væri að samræma vinnubrögð við yfirfærslu eigna og skulda í nýjan banka og koma með tillögu um áætlað mat en formlegt verðmat eigna og skulda færi fram síðar. Þá sagði í skjalinu að þar væri gerð nánar grein fyrir einstökum liðum opnunarefnahagsreiknings. Í framhaldinu var síðan vikið að því hvaða eignir og skuldir hefðu verið fluttar yfir í nýjan banka. Fyrir liggur yfirlýsing Melrósar Eysteinsdóttur forstöðumanns fjárhagssviðs Landsbanka Íslands hf. 2. maí 2011, sem hún hefur staðfest fyrir dómi, um að samningar þeir, sem mál þetta lýtur að, væru hluti af efnahag Landsbanka Íslands hf. og tilheyrðu honum. Kröfur vegna umræddra samninga hafi ekki verið framseldar stefnda og væri það staðfest í efnahagsreikningi Landsbanka Íslands hf. miðað við 8. október 2008, sem samþykktur hafi verið af bankanum sjálfum og Fjármálaeftirlitinu.
Samkvæmt framangreindu voru skuldir vegna gjaldmiðlaviðskipta af því tagi sem áfrýjandi gerði við Landsbanka Íslands hf., ekki færðar yfir til stefnda við uppskiptingu eigna og skulda bankans í október 2008. Ber því þegar af þeirri ástæðu að staðfesta niðurstöðu hins áfrýjaða dóms, sbr. dóm Hæstaréttar 31. maí 2012 í máli nr. 568/2011.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað er staðfest.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Óskar Veturliði Sigurðsson, greiði stefnda, Landsbankanum hf., 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. júní 2012.
Mál þetta var höfðað 8. mars 2011 og dómtekið 22. maí 2012.
Stefnandi er Óskar Veturliði Sigurðsson, Fífuseli 32, Reykjavík.
Stefndi er NBI hf., Austurstræti 11, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða honum 1.209.400 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 10. október 2008 til greiðsludags. Stefnandi krefst einnig málskostnaðar úr hendi stefnda að skaðlausu auk virðisaukaskatts samkvæmt vinnuskýrslum lögmanna sinna.
Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar að mati dómsins auk virðisaukaskatts.
I.
Stefnandi og Landsbanki Íslands hf., kt. 540291-2259, gerðu 8. október 2008 tvo samninga, svokallaða stundarsamninga, um viðskipti með gjaldeyri. Viðskiptastaðfestingar vegna samninganna eru í kerfum Landsbanka Íslands hf. auðkenndir annars vegar nr. 3016751 og hins vegar nr. 3017606.
Samkvæmt viðskiptastaðfestingu um samning nr. 3016751 keypti Landsbanki Íslands hf. 20.000 sterlingspund (GBP) af stefnanda gegn greiðslu á 4.980.400 krónum, sem jafngildir gengi sterlingspunds gagnvart krónu 249,02. Samkvæmt viðskiptastaðfestingu um samning nr. 3017606 seldi Landsbanki Íslands hf. stefnanda 20.000 sterlingspund gegn greiðslu á 3.771.000 krónum, sem jafngildir gengi sterlingspunds gagnvart krónu 188,55.
Gjalddagi beggja samninganna var 10. október 2008. Samkvæmt viðskiptastaðfestingunum, sem eru samhljóða að þessu leyti, átti Landsbanki Íslands hf. að gera upp viðskipti aðila með millifærslu og skuldfærslu tiltekinna reikninga stefnanda.
Daginn áður en aðilar gerðu samningana, 7. október 2008, neytti Fjármálaeftirlitið heimildar í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að taka yfir vald hluthafafundar í Landsbanka Íslands hf., víkja stjórn hans frá og setja yfir hann skilanefnd. Þann 9. október s.á. tók Fjármálaeftirlitið ákvörðun um ráðstöfun eigna og skulda Landsbanka Íslands hf. til stefnda. Samkvæmt ákvörðuninni tók stefndi við eignum og skuldbindingum Landsbanka Íslands hf., öðrum en þeim sem taldar voru upp í viðauka við ákvörðunina. Sérstaklega var tekið fram í 2. ml. 7. tl. ákvörðunarinnar að stefndi tæki yfir réttindi og skyldur samkvæmt afleiðusamningum. Þann 12. október s.á. ákvað Fjármálaeftirlitið að breyta ákvörðun sinni frá 9. október s.á., þannig að áðurnefndur 2. ml. 7. tl. ákvörðunarinnar var felldur úr gildi. Fjármálaeftirlitið ákvað 19. október s.á. að breyta aftur ákvörðun sinni frá 9. október s.á. Með þessari síðustu ákvörðun var m.a. bætt við 1. tl. ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins frá 9. október 2008 ákvæði um að réttindi og skyldur samkvæmt afleiðusamningum flyttust ekki yfir til stefnda.
Uppgjör milli aðila fór ekki fram á gjalddaga samninganna 10. október 2008. Krafa stefnanda er sú að stefndi verði dæmdur til að greiða honum hagnaðinn sem hafi myndast í viðskiptum aðila (4.980.400 3.771.000 = 1.209.400).
Með bréfi dagsettu 28. október 2009 lýsti stefnandi m.a. sömu kröfu í Landsbanka Íslands hf. í slitameðferð en stefnandi lagði kröfulýsinguna fram við aðalmeðferð að áskorun stefnda.
Aðilar málsins eru ekki á einu máli um hvor þeirra hafi átt frumkvæði að þessum viðskiptum. Stefnandi byggir á því að viðskiptin hafi farið fram að frumkvæði Landsbanka Íslands hf., en stefndi mótmælir því.
II.
Krafa stefnanda er, eins og áður sagði, byggð á fyrrgreindum samningum aðila um stundarviðskipti með gjaldeyri og staðfestingum Landsbanka Íslands hf. á þeim viðskiptum. Stefnandi telur að stefnda beri að greiða stefnanda umrædda skuld í samræmi við meginreglur samninga- og kröfuréttarins um skuldbindingargildi loforða sem og ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins um flutning eigna og skulda Landsbanka Íslands hf. til stefnda.
Stefnandi segir að þegar hann hafi krafið stefnda um greiðslu skuldarinnar hafi stefndi borið því við að samningur stefnanda og Landsbanka Íslands hf. sé afleiðusamningur. Því hafi samningurinn ekki verið fluttur til stefnanda (sic) samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 9. október 2008 eins og þeirri ákvörðun var breytt með ákvörðun eftirlitsins frá 12. október 2008 og síðar með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 19. október 2008. Stefndi hefur að mati stefnanda ekki fært fullnægjandi rök fyrir þeirri afstöðu sinni.
Stefnandi heldur því fram að samningar aðila séu um svokölluð núviðskipti, líkt og staðfestingar nr. 3016751 og 3017606 beri með sér, en slík viðskipti séu stundum nefnd stundarviðskipti (e. spot transaction) og samningar um þau viðskipti stundarsamningar. Núviðskipti séu skilgreind í 15. tl. 2. gr. reglna nr. 834/2003 um reikningsskil lánastofnana og 34. lið 1. mgr. 2. gr. reglna nr. 215/2007 um eiginfjárkröfur og áhættugrunn fjármálafyrirtækja. Núviðskipti samkvæmt framangreindum reglum séu viðskipti sem gerð séu upp eigi síðar en tveimur virkum dögum eftir upphafsdag þeirra. Upphafsdagur, þ.e. samningsdagur, aðila hafi verið 8. október 2008 og hafi bankanum borið að reikningsfæra bankareikninga stefnanda tveimur virkum dögum síðar.
Stefnandi bendir á að viðskiptastaðfestingarnar beri heitið ,,Stundarsamningur á gjaldeyri“ og miðist uppgjör samninganna við stundargengi sterlingspunds gagnvart krónu á samningsdegi en ekki framvirkt gengi. Þá sé ekki um það að ræða að hvor samningsaðila greiði hinum fjárhæð sem taki mið af breytingum á gengi sterlingspunds á mismunandi dögum gagnvart íslenskum krónum eða framvirku vaxtareiknuðu gengi. Augljóslega sé því ekki um að ræða framvirkan samning eða skiptasamning, en slíkir samningar teljist afleiður samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007.
Umræddar staðfestingar á stundarviðskiptum aðila með sterlingspund og krónur falli ekki undir afleiðuhugtak laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007 og beri engin einkenni afleiðna eins og þeim einkennum hafi verið lýst af fræðimönnum. Í fyrsta lagi hefði verið ómögulegt að framselja umræddar staðfestingar enda uppgjörið bundið við persónulega reikninga stefnanda. Í öðru lagi séu samningarnir ekki gerðir upp af viðurkenndum uppgjörsaðila og í þriðja lagi þá hafi samningarnir um stundarviðskipti með gjaldmiðla ekki verið háðir reglulegum veðköllum. Þetta séu einfaldir samningar um núviðskipti með gjaldeyri þar sem einn gjaldeyrir sé seldur gagnvart öðrum en slíkir samningar séu ekki fjármálagerningar í skilningi laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007.
Ljóst sé af framangreindu að kröfu stefnanda um greiðslu 1.209.400 króna sé réttilega beint að stefnda. Skuldin sé til komin vegna óuppgerðra viðskipta sem hafi færst frá Landsbanka Íslands hf. til stefnda 9. október 2008 og þeirri tilfærslu hafi ekki verið breytt eða hún afturkölluð.
Um lagarök vísar stefnandi til meginreglna samninga- og kröfuréttarins um skuldbindingargildi loforða, en reglur þessar eigi sér m.a. stoð í lögum nr. 7/1936, og til ákvæða samninga stefnanda og stefnda um gjaldeyrisviðskipti. Um eðli krafna stefnanda vísar hann til laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 með síðari breytingum sem og ákvarðana Fjármálaeftirlitsins á grundvelli laga nr. 125/2008. Þá vísar stefnandi til laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007, reglna nr. 834/2003 um reikningsskil lánastofnana og reglna um eiginfjárkröfur og áhættugrunn fjármálafyrirtækja nr. 215/2007. Varðandi dráttarvexti vísar stefnandi til III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, þá sérstaklega 1. mgr. 6. gr. Krafa um málskostnað er byggð á 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt af málskostnaði byggist á lögum nr. 50/1988. Lögmönnum sé gert skylt að innheimta virðisaukaskatt af þjónustu sinni, en stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og beri honum því nauðsyn á að fá dóm fyrir skattinum úr hendi stefnda.
III.
Stefndi vísar til þess að samkvæmt kröfuskrá Landsbanka Íslands hf. hafi stefnandi lýst kröfu í bú bankans að fjárhæð 10.405.746 krónur vegna afleiðusamninga og sé krafan nr. 5.664. Eins og áður sagði lagði stefnandi fram kröfulýsinguna að áskorun stefnda. Stefndi heldur því fram að samkvæmt 6. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. hafi kröfulýsing sömu réttaráhrif og ef mál hefði verið höfðað um kröfuna. Í raun hafi stefnandi því sama sakarefnið uppi á hendur Landsbanka Íslands hf. og stefnda sem virðist í andstöðu við 4. mgr. 94. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Stefndi bendir á að krafa stefnanda byggi á tveimur gjaldeyrissamningum sem hann gerði við Landsbanka Íslands hf. 8. október 2008. Engar greiðslur hafi farið fram á uppgjörsdegi og hafi hvorki stefnandi né Landsbanki Íslands hf. efnt samningsskyldur sínar. Stefnandi hafi því ekki orðið fyrir beinu fjárhagstjóni vegna umræddra samninga. Þegar þessir samningar hafi verið gerðir, fyrir stofnun stefnda, hafi stefnandi gert sér ljóst að staða Landsbanka Íslands hf. hafi verið alvarleg og alls óvíst að bankinn gæti staðið við skuldbindingar sínar. Í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 7. október 2008 komi fram að ástæða inngrips eftirlitsins sé að skilyrði 100. gr. a. laga um fjármálafyrirtæki séu uppfyllt, m.a. vegna knýjandi fjárhags- og rekstrarerfiðleika Landsbanka Íslands hf. Þetta hafi verið degi áður en stefnandi hafi ákveðið að gera umrædda gjaldeyrissamninga við bankann. Honum hafi þá þegar mátt vera fulljós staða Landsbanka Íslands og að alls óvíst væri að efndir samninganna gætu átt sér stað.
Þá heldur stefndi því fram að fyrir liggi að umræddir samningar hafi orðið eftir hjá Landsbanka Íslands hf. og því ekki færðir yfir til stefnda við uppskiptingu bankans. Enn fremur telji Landsbanki Íslands hf. samningana vera skuldbindingu sem honum beri að standa skil á. Stefnandi hafi í október 2008 verið upplýstur um að krafa hans samkvæmt umræddum samningum hafi ekki verið færð til stefnda.
Þá bendir stefndi á að í greinargerð Fjármálaeftirlitsins um endurskipulagningu bankakerfisins komi fram að Fjármálaeftirlitið hafi, með aðstoð endurskoðenda frá þremur af fremstu alþjóðlegu endurskoðunarfyrirtækjunum (Deloitte, KPMG og PwC), sett upp stofnefnahagsreikninga til bráðabirgða fyrir hvern hinna nýju banka. Krafa stefnda byggi því aðallega á því að hann hafi ekki haft ákvörðunarvald um hvaða eignir og skuldbindingar hafi verið færðar yfir til hans. Stefndi hafi sem sjálfstætt fjármálafyrirtæki samið við Landsbanka Íslands hf. um endurgjald vegna þeirra eigna og skuldbindinga sem hann hafi yfirtekið á grundvelli þess efnahagsreiknings sem ákveðinn hafi verið. Hafi mistök verið gerð við uppskiptingu bankanna sé ekki hægt að beina kröfum á hendur stefnda heldur beri að beina slíkri kröfu á hendur þeim sem endanlega ábyrgð hafi borið á uppskiptingunni.
Dómkröfu stefnanda sé því ranglega beint að stefnda. Því beri að sýkna stefnda af öllum dómkröfum stefnanda vegna aðildarskorts með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Verði ekki fallist á sýknu vegna aðildarskorts byggir stefndi á því að umræddir gjaldmiðlasamningar séu í eðli sínu afleiðusamningar í skilningi ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins og hafi því ekki átt að flytjast til stefnda. Samningarnir uppfylli hugtakaskilgreiningu á afleiðu þar sem verðmæti þeirra á uppgjörsdegi ráðist af verðþróun undirliggjandi myntar frá samningsdegi til uppgjörsdags. Líta beri á hvern samning sjálfstætt en ljóst sé að stundargengi á samningsdegi sé í raun hið framvirka gengi sem uppgjör miðist við tveimur dögum síðar. Verðþróun undirliggjandi mynta ráði hvort viðskiptin hafi leitt til hagnaðar eða taps aðila á uppgjörsdegi. Það sé ekki skilyrði þess að um afleiðu geti verið að ræða að viðkomandi samningar hafi þau einkenni sem stefnandi vísi til í stefnu. Þá vísar stefndi til skilgreiningar á afleiðu í lögum nr. 33/2003, um verðbréfaviðskipti.
Verði ekki talið að um afleiðusamninga sé að ræða byggir stefndi á því að ekki sé um óuppgerð viðskipti að ræða í skilningi ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins frá 9. október 2008. Við skiptingu bankanna hafi verið skilgreint hvers konar viðskipti teldust óuppgerð en gjaldmiðlasamningar líkt og þeir sem fjallað sé um í þessu máli hafi ekki fallið þar undir. Engir sambærilegir samningar og þeir sem mál þetta lúti að hafi því verið færðir yfir til stefnda. Undir óuppgerð viðskipti hafi aðallega fallið verðbréfaviðskipti þar sem annar aðilinn hefði afhent endurgjald sitt eða skuldbundið sig með óafturkallanlegum hætti gagnvart þriðja aðila til að afhenda það.
Þær ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins sem vísað sé til í stefnu hafi að geyma ítarlega fyrirvara um að Fjármálaeftirlitið geti gert hvers konar breytingar á ákvörðunum. Einnig sé í forsendum fyrir skiptingu efnahagsreiknings Landsbanka Íslands hf., Kaupþings hf. og Glitnis hf. tekið fram að forsendur gætu breyst á meðan vinna við skiptingu efnahags bankanna þriggja standi yfir. Niðurstaðan hafi orðið sú að við skiptingu efnahagsreiknings Landsbanka Íslands hf. hafi gjaldmiðlasamningar ekki verið færðir yfir til stefnda.
Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að stefnandi eigi kröfu á hendur stefnda telur stefndi að stefnandi hafi fyrirgert kröfu sinni vegna tómlætis. Stefnandi hafi fyrst beint kröfu að stefnda rúmum tveimur árum eftir að hann sé upplýstur um að umræddir samningar hafi ekki verið fluttir yfir til stefnda. Stefnandi hafi margoft ítrekað kröfur sínar á hendur Landsbanka Íslands hf. enda hygðist hann skuldajafna kröfunni á móti kröfu þeirri sem stefndi eigi á hendur honum vegna lánssamnings.
Um lagarök vísar stefndi til meginreglna samninga- og kröfuréttar, laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007 og eldri laga um sama efni, laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 og ákvarðana Fjármálaeftirlitsins á grundvelli laga nr. 125/2008. Krafa um málskostnað byggir á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt af málsflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Stefndi sé ekki virðisaukaskattsskyldur og beri honum því nauðsyn að fá dóm fyrir þessum skatti úr hendi stefnanda.
IV.
Í máli þessu hefur stefndi bent á að í raun hafi stefnandi sama sakarefnið uppi á hendur Landsbanka Íslands hf. og stefnda, sbr. 4. mgr. 94. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. einnig 6. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Í 4. mgr. 94. gr. laga nr. 91/1991 er kveðið á um að þegar mál hafi verið þingfest verði dóms ekki krafist um þær kröfur sem séu gerðar í því í öðru máli. Sé dóms krafist þannig um kröfu í öðru máli skuli vísa henni frá dómi. Í 6. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991 segir að kröfulýsingu fyrir skiptastjóra fylgi sömu áhrif og ef mál hefði verið höfðað um kröfuna á þeirri stund sem hún berist honum. Verði fallist á þessa málsástæðu stefnda leiðir það samkvæmt framangreindu til frávísunar málsins án kröfu og ber því að leysa fyrst úr henni.
Samrit af kröfulýsingu stefnanda vegna þessara krafna er meðal gagna málsins. Kröfulýsingin er dagsett 28. október 2009 og móttekin af slitastjórn Landsbanka Íslands hf. 30. sama mánaðar. Þetta mál var höfðað 8. mars 2011. Við munnlegan flutning málsins kom fram hjá lögmanni stefnanda að slitastjórn Landsbanka Íslands hf. hafi frestað að taka afstöðu til kröfu stefnanda.
Samkvæmt 4. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki gilda ákvæði 18. kafla og 5. þáttar laga nr. 21/1991 um meðferð krafna á hendur fjármálafyrirtæki við slit þess. Meðal þeirra ákvæða eru 1. mgr. 116. gr. og 1. mgr. 117. gr., en af þeim leiðir að stefnanda var ekki unnt að höfða mál gegn stefnda og Landsbanka Íslands í einu máli. Fyrrnefnd kröfulýsing stefnanda við slitameðferð Landsbanka Íslands hf. beinist að þeim aðila og snýst um að stefnandi fái hlutdeild í eignum þrotabúsins eftir því sem þær koma til uppgjörs á samþykktum kröfum í búið. Stefndi er á hinn bóginn annar og sjálfstæður lögaðili og mál stefnanda á hendur honum snýst um greiðslu skuldar vegna samninga. Er því ekki um sömu aðila né kröfur í málunum í skilningi 4. mgr. 94. gr. laga nr. 91/1991 að ræða, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands frá 12. janúar sl. í máli nr. 660/2011. Verður málinu því ekki vísað frá dómi á grundvelli 4. mgr. 94. gr. laga nr. 91/1991.
Stefnandi byggir á því að skuldbindingar vegna þeirra samninga sem um er deilt í málinu hafi með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 7. október 2008, eins og henni var breytt með ákvörðunum eftirlitsins 12. október 2008 og 19. október 2008, verið færðar frá Landsbanka Íslands hf. til stefnda og beri stefnda því að standa við samningana. Stefndi telur að skuldbindingar vegna þeirra samninga sem um er deilt í málinu hafi aldrei verið færðar yfir til hans frá Landsbanka Íslands hf. Málinu sé því ranglega beint að stefnda og beri að sýkna hann vegna aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.
Aðilar málsins deila um það hvort samningar þeirra séu afleiður. Stefnandi byggir á því að svo sé ekki, en stefndi telur að samningarnir séu afleiður. Samningar aðila, sem eru samhljóða, bera fyrirsögnina ,,Stundarsamningur um gjaldeyri“. Samningarnir eru gerðir 8. október 2008 og samkvæmt efni þeirra kaupir Landsbanki Íslands hf. af stefnanda tiltekna fjárhæð og selur honum aðra fjárhæð. Samkvæmt samningi með auðkennið 3016751 kaupir Landsbanki Íslands hf. 20.000 sterlingspund af stefnanda en selur honum 4.980.400 krónur. Samkvæmt samningi með auðkennið 3017606 kaupir Landsbanki Íslands hf. 3.771.000 krónur af stefnanda en selur honum 20.000 sterlingspund. Báðir samningarnir eru á gjalddaga 10. október 2008.
Afleiður eru skilgreindar í d- til h-lið 2. tl. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti. Í athugasemdum við 2. gr. frumvarps sem varð að lögum nr. 108/2007 kemur m.a. fram að undir d- til h-liði falli afleiður sem ekki séu framseljanlegar og teljist því ekki til verðbréfa. Uppgjör afleiðusamninga geti ýmis falist í afhendingu á undirliggjandi verðmæti eða í uppgjöri í peningum samkvæmt uppgjörsákvæði sem byggist á breytingu einhvers þáttar á tilteknu tímabili. Við mat á því hvort samningur um uppgjör í undirliggjandi þáttum teljist til afleiðu í skilningi ákvæðisins beri að líta til þess hvort hann hafi fjármálatilgang. Með framvirkum samningi (e. forwards) sé átt við óframseljanlegan samning þar sem kveðið sé á um skyldu samningsaðila til að kaupa eða selja tilekna eign fyrir ákveðið verð á fyrir fram ákveðnum tíma. Uppgjör slíkra samninga geti ýmist falist í afhendingu á undirliggjandi verðmæti eða í fjárhagslegu uppgjöri.
Að mati dómsins eru samningar aðila tvímælalaust framvirkir samningar, eins og þeir eru skilgreindir í tilvitnuðum ummælum í athugasemdum við 2. gr. frumvarps sem varð að lögum nr. 108/2007. Óumdeilt er að umræddir samningar eru ekki framseljanlegir. Þá fela þeir í sér skyldu Landsbanka Íslands hf. til að kaupa tiltekna eign af stefnanda, í þessu tilviki tiltekna fjárhæð, fyrir ákveðið verð á fyrir fram ákveðnum tíma. Uppgjör samninganna gat falist í því að hvor aðili um sig afhenti hinum þau verðmæti sem samningarnir tóku til, eða í fjárhagslegu uppgjöri. Teljast umræddir samningar því vera afleiður, sbr. einnig dóm Hæstaréttar Íslands frá 23. maí 2011 í máli nr. 77/2011.
Samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 7. október 2008, eins og henni var breytt með ákvörðunum eftirlitsins 12. október 2008 og 19. október 2008, tók stefndi ekki yfir afleiðusamninga. Þá kemur fram í bréfi Melrósar Eysteinsdóttur, forstöðumanns fjárhagssviðs Landsbanka Íslands hf., að umræddir samningar séu hluti af efnahag bankans og tilheyri honum. Hún staðfesti þetta fyrir dóminum við aðalmeðferð. Enn fremur að kröfur vegna þessara samninga hafi ekki verið framseldar stefnda. Með vísan til alls þessa er ljóst að stefndi er ekki réttur aðili að málinu og verður hann því sýknaður af öllum kröfum stefnanda samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.
Í samræmi við niðurstöðu málsins og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað sem þykir eftir atvikum og umfangi málsins, þ. á m. með hliðsjón af vinnuskýrslu lögmanna stefnda, hæfilega ákveðinn 500.000 krónur.
Áslaug Björgvinsdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, NBI hf., er sýknaður af kröfum stefnanda, Óskars Veturliða Sigurðssonar.
Stefnandi greiði stefnda 500.000 krónur í málskostnað.