Hæstiréttur íslands

Mál nr. 149/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gerðardómur
  • Varnarþing
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi


                                     

Fimmtudaginn 15. mars 2012.

Nr. 149/2012.

Þrotabú Milestone ehf.

(Grímur Sigurðsson hrl.)

gegn

Blagoj Mehandziski

(Ragnar Baldursson hrl.)

Kærumál. Gerðardómur. Varnarþing. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.

Þrotabú M ehf. höfðaði mál á hendur B til heimtu skuldar samkvæmt skuldabréfi. Héraðsdómur vísaði málinu frá dómi, einkum með vísan til þess að B væri erlendur ríkisborgari sem ekki ætti varnarþing hér á landi og að skuld B ætti rót að rekja til hluthafasamnings þar sem mælt var fyrir um að úr ágreiningi vegna samningsins skyldi leysa fyrir gerðardómi austurríska verslunarráðsins í Vín. Hæstiréttur taldi að þrotabú M ehf. gæti nýtt sér áðurgreint ákvæði hluthafasamningsins ef það kysi svo, en væri ekki skuldbundið til þess. Að öðrum kosti væri þrotabúinu heimilt að höfða málið í þeirri þinghá sem ætti að efna samninginn. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Greta Baldursdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru sem barst héraðsdómi 28. febrúar 2012 og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 6. mars sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. febrúar 2012, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I

Samkvæmt gögnum málsins er forsaga þess sú að hinn 1. júní 2006 var gerður hluthafasamningur milli Top Investment Group B.V. og Alpha-Medical d.o.o annars vegar og stefnda, Vericia Mehandziska, Viktorija Mehandziska og Hristina Mehandziska hins vegar vegna viðskipta með hluti í lyfjakeðjunni Zegin. Í 25. gr. þess samnings segir í íslenskri þýðingu löggilts skjalaþýðanda: „Úr öllum ágreiningi sem rísa kann af þessum samningi eða vegna hans, þ.m.t. (án nokkurra takmarkana) um túlkun, gildi og efnd samningsins skal leysa fyrir gerðardómi austurríska verslunarráðsins í Vín (Austrian Chamber of Commerce Arbitration Court, sem er eini úrlausnaraðilinn) skv. reglum þess dómstóls sem gilda á þeim degi sem krafan er sett fram. Úrlausn málsins skal fara fram í Vín, Austurríki og skal flutningur og meðferð málsins fara fram á ensku. Ákvörðun gerðardóms skal vera fullnaðarákvörðun og binda báða samningsaðila.“ Í viðaukasamningi milli sömu aðila 15. janúar 2007 var í 4. mgr. 2. gr. viðaukans samið um að Top Investment Group B.V. myndi hinn 25. janúar 2007 lána stefnda 1.000.000 evrur til 13 mánaða með tilgreindum vöxtum.

Með skuldabréfi 1. febrúar 2007 viðurkennir varnaraðili að skulda Milestone ehf. 1.000.000 evrur sem greiða skuli með eingreiðslu 1. apríl 2008 með nánar tilgreindum vöxtum. Segir meðal annars í skuldabréfinu að skuldin sé aðfararhæf með beinum hætti gegn skuldaranum án undangengins dóms eða réttarsáttar og að gera megi aðför til fullnustu öllum kröfum sem stafi af skuldabréfinu. Þá segir að ágreiningi sem rísa kunni af skuldinni megi vísa til þess dómstóls sem tilgreindur sé í „25. grein hluthafasamningsins“ í samræmi við reglur XVII. kafla laga nr. 91/1991. Óumdeilt er að þarna er vísað til fyrrgreinds hluthafasamnings 1. júní 2006.

Milestone ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 18. september 2009.

II

Í máli þessu krefur sóknaraðili varnaraðila um greiðslu skuldar samkvæmt skuldabréfi. Þótt ágreiningslaust sé með aðilum að skuldabréfið sé tilkomið vegna þeirra viðskipta sem greinir í fyrrgreindu hluthafasamkomulagi er sérstakt ákvæði í skuldabréfinu um að heimilt sé að vísa ágreiningi varðandi það til þess dómstóls sem greinir í fyrrgreindu ákvæði samkomulagsins. Sóknaraðili getur þannig nýtt sér það ef hann kýs en hann er ekki skuldbundinn til þess. Samkvæmt 1. mgr. 35. gr. laga nr. 91/1991 má sækja mál til efnda á löggerningi í þeirri þinghá þar sem átti að efna hann. Liggur ekki annað fyrir en að greiða hafi átt skuldina samkvæmt skuldabréfinu á varnarþingi kröfuhafans, en samkvæmt gögnum málsins er sóknaraðili með varnarþing í Reykjavík. Er sóknaraðila því heimilt að höfða mál þetta fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Samkvæmt framansögðu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Varnaraðili skal greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.

Varnaraðili, Blagoj Mehandziski, greiði sóknaraðila, þrotabúi Milestone ehf., 200.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. febrúar 2012.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 16. febrúar sl. vegna kröfu stefnda um frávísun málsins, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Þrotabúi Milestone ehf., Borgartúni 26, Reykjavík, á hendur Blagoj Mehandiziski, Lerinska 27-B, Skopje, Makedóníu, með stefnu birtri 17. febrúar 2011.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 1.076.848 EUR auk dráttarvaxta samkvæmt 1. gr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. apríl 2008 til greiðsludags.

Þá er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt mati dómsins.

Dómkröfur stefnda eru þær að málinu verði vísað frá dómi. Jafnframt krefst stefndi þess að stefnanda verði gert að greiða honum málskostnað að mati dómsins.

Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfu stefnda verði hafnað og efnisdómur verði lagður á málið. Er þess og krafist að málskostnaður bíði efnisdóms. Telur stefnandi að engin rök séu til frávísunar, málsókn sé byggð á skuldabréfi.

Málsástæður stefnanda og lagarök

Stefnandi lýsir málavöxtum svo að stefndi hafi gefið út skuldabréf til stefnanda vegna skuldar sem myndast hafði í viðskiptum milli aðila. Höfuðstóll skuldabréfsins sé að fjárhæð 1.000.000 EUR og hafi stefnda borið að greiða hann ásamt vöxtum reiknuðum sem LIBOR + 2,5% þann 1. apríl 2008 samkvæmt skuldabréfinu. Samtalan af því sé stefnufjárhæð málsins, 1.076.848 EUR. Stefndi hafi ekkert greitt inn á skuldina og hafi fjárhæðin öll fallið í gjalddaga 1. apríl 2008. Stefndi hafi ekki sinnt skyldu sinni um greiðslur þrátt fyrir áskorun.

Umkrafið skuldabréf uppfylli öll skilyrði íslenskra laga um skuldabréf. Í bréfinu sé sjálfstæð yfirlýsing skuldara. Yfirlýsingin sé einhliða loforð um greiðslu á tiltekinni fjárhæð. Engin skilyrði séu sett fyrir greiðslu skuldarinnar og bréfið sé framseljanlegt. Skuldabréfið sé gefið út af stefnda og vottað af tveimur vitundarvottum. Stefndi hafi látið í ljós skoðun sína á því að hann hafi greitt skuldabréfið upp en hvorki fært fyrir því nokkur haldbær rök né lagt fram nokkur skjöl því til staðfestingar. Byggi stefndi sýknukröfur eða lækkunarkröfur á þeim málsástæðum að greitt hafi verið inn á skuldabréfið áskilur stefnandi sér allan rétt til að koma að frekari athugasemdum hvað það varðar. Hið rétta sé að skuldabréfið beri ekki með sér að greitt hafi verið nokkuð upp í kröfu þess.

Stefnandi reisir kröfur sínar á almennum reglum samninga- og kröfuréttar um viðskiptabréf, skuldbindingargildi samninga og um efndir fjárskuldbindinga. Dráttarvaxtakröfur séu gerðar á grundvelli III. kafla vaxtalaaga nr. 38/2001. Kröfur um málskostnað styður stefnandi við 1. mgr. 130. gr. gr. laga nr. 91/1991.

Stefndi sé erlendur ríkisborgari og búsettur erlendis. Skuldabréfið lúti hins vegar íslenskum lögum eins og sjá megi á lagatilvísunum í bréfinu. Íslensk lög gildi um lögskiptin og því hafi íslenskir dómstólar lögsögu í málinu, sbr. 16. og 24. gr. laga nr. 91/1991.

Samkvæmt skuldabréfinu sé heimilt að reka málið fyrir dómi samkvæmt 25. gr. hluthafasamkomulags. Samkvæmt þeirri grein sé um að ræða gerðardóm í Austurríki. Af skýru orðalagi skuldabréfsins sé ljóst að um heimild sé að ræða en ekki skyldu. Stefnandi hafi því val um hvort hann leiti réttar síns fyrir gerðardómi eða almennum dómstólum. Stefnandi hyggst í málinu ekki nýta sér þá heimild sem skuldabréfið veitir um beitingu gerðardómsins heldur leita til íslenskra dómstóla til að dæma samkvæmt íslenskum reglum skuldabréfsins.

Samkvæmt meginreglum kröfuréttar beri skuldara að inna greiðslu af hendi á starfstöð kröfuhafa nema annað sé sérstaklega tekið fram. Skuldabréfið beri ekki með sér að skuldarinn skuli leysast undan skyldu sinni á öðrum stað en starfstöð eiganda skuldabréfsins og vísar því stefnandi til 35. gr. laga nr. 91/1991 varðandi varnarþing stefnda.

Málsástæður stefnda vegna frávísunarkröfu

Stefndi byggir á því að samkvæmt 25. gr. í hluthafasamkomulagi hluthafa í Zegin Group hafi verið samið um að öll ágreiningsmál er rísa kynnu í tengslum við samkomulagið skyldu lögð fyrir nánar tiltekinn gerðardóm í Austurríki. Stefnandi hafi ekki verið aðili að þessu samkomulagi en félag í hans eigu, Top Investment Group B.V., sem skráð sé í Hollandi, hafi verið aðili að samkomulaginu. Vegna þess að forsendur um innheimtu tiltekinna krafna, sbr. 4. gr. hluthafasamkomulagsins, höfðu ekki gengið eftir að fullu hafi verið samið um „lán“ Top Investment Group B.V. til stefnda að fjárhæð EUR 1.000.000, sbr. 4. mgr. 2. gr., viðauka við hluthafasamkomulagið.

Eins og viðaukasamningurinn beri með sér hafi í raun átt að vera um einhvers konar tryggingarbréf að ræða er gera átti upp í tengslum við hvernig gengi með innheimtu krafnanna. Þrátt fyrir að „lánið“ væri í órjúfanlegum tengslum við hluthafasamkomulagið hafi verið útbúið skuldabréf það er um ræði í máli þessu, þar sem stefnandi sé sagður kröfuhafi og stefndi skuldari. Það fyrirkomulag sé ekki í samræmi við samkomulagið en ljóst sé að um sama gerning sé að ræða og samið var um í viðaukasamkomulaginu þegar horft sé til þess að í skuldabréfinu sé bein tilvísun til gerðardómsákvæðis hluthafasamkomulagsins auk þess sem fjárhæð og vaxtakjör séu eins og kveðið sé á um í samkomulaginu. Stefnandi hafi aldrei greitt stefnda þá fjárhæð er komi fram í skuldabréfinu. Þannig hafi verið ritað undir skuldabréfið en ekkert lánsfé greitt til stefnda. Stefnandi eigi því ekki, og hafi aldrei átt, lögmæta kröfu á hendur stefnda á grundvelli skuldabréfsins.

Samkvæmt 4. gr. viðaukans hafi viðaukasamningurinn eftir undirritun hans orðið hluti af hluthafasamkomulaginu. Ekki hafi verið samið um breytingar er vörðuðu varnarþing.

Í stefnu sé því haldið fram að með skuldabréfi hafi aðilar breytt skýru ákvæði 25. gr. hluthafasamkomulagsins þannig að í stað þess að skylt væri að leggja mál vegna skuldabréfsins fyrir gerðardóminn í Austurríki væri aðilum það heimilt. Texti skuldabréfsins sé þannig úr garði gerður að ljóst sé að um málamyndagerning sé að ræða. Málsgreinin er stefnandi telji benda til þess að samið sé um að íslensk lög gildi, sé torskilin og samhengislaus, þar sem sagt sé að ágreiningi megi vísa til gerðardómsins í Austurríki „í samræmi við reglur XVII. kafla laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991“. Í ákvæði XVII. kafla laga sé ekkert fjallað um varnarþing heldur flýtimeðferð tiltekinna mála, þannig að ákvæðið sé með öllu óskiljanlegt í ljósi þessarar tilvísunar. Þá hafi stefnandi ekki verið bær til að semja um breytingar á hluthafasamkomulagi sem hann var ekki sjálfur aðili að og því hafi ákvæði um breytingu á ákvæði hluthafasamkomulagsins ekkert gildi. Þá verði að horfa til þess að aðilar að hluthafasamkomulaginu séu sex talsins og verði að ætla að þeir þurfi allir að samþykkja breytingu af þessu tagi. Vísan til 25. gr. hluthafasamkomulagsins hafi þá einu þýðingu að það taki til skuldabréfsins ef upp komi ágreiningur milli aðila og leita þurfi til dómstóla.

Þegar samið hafi verið um varnarþing eða gerðardómsleið eins og gert hafi verið í samningum aðila verði að gera strangar kröfur til skýrleika ákvæða er eigi að fela í sér breytingu á slíkum samningum. Í þessu sambandi bendir stefndi m.a. á reglur 17. gr. laga nr. 68/1995 um Lúganósamninginn um dómsvald og fullnustu dóma í einkamálum, þar sem skýrt sé kveðið á um að ef samið hafi verið um varnarþing verði að gera sérstaklega ríkar kröfur til samninga um breytingar á því, bæði hvað varðar skýrleika og form. Skuldabréfið sé ekki útbúið í formi sem sé í samræmi við venjur er aðilar höfðu komið á sín á milli. Það komi ekki skýrt fram að ætlunin sé að heimila breytingu á varnarþingi og ekki komi skýrt fram að íslensk lög eigi að gilda um viðskiptin. Túlkun stefnanda á þessum atriðum sé í hróplegri andstöðu við hluthafasamkomulagið, þar sem með skýrum hætti sé samið um skyldu til gerðardómsmeðferðar, sbr. 25. gr. hluthafasamkomulags og að ensk lög skuli gilda um viðskipti aðila, sbr. 24. gr. Illa framsett og óskýr ákvæði skuldabréfsins geti því ekki gilt framar skýrum grundvallaratriðum er koma fram í meginsamningum aðila.

Til viðbótar ofangreindum málsástæðum þá sé tilvísun stefnanda til lagaákvæðis 35. gr. laga nr. 91/1991 um varnarþing ekki rétt. Í 5. og 6. mgr. viðaukasamningsins komi skýrt fram að aðilum samningsins beri á tilgreindum tímapunktum að kanna stöðu innheimtumálanna og í kjölfarið skuldajafna gagnvart tryggingunni („láninu“). Ekkert komi fram um greiðslu á starfsstöð stefnanda. Eins og rakið hafi verið liggi ekkert fyrir um að stefnandi eigi yfirhöfuð kröfu á hendur stefnda heldur sé það Top Investment Group B.V. í Hollandi sem eigi kröfu samkvæmt samningnum. Greiðslustaðurinn ætti því að vera í Haag í Hollandi, en ekki á starfsstöð stefnanda á Íslandi. Stefnandi hafi aldrei lánað stefnda neitt, hann eigi engan rétt á greiðslu frá stefnda, hvorki á starfsstöð sinni né annars staðar.

Stefndi eigi ekki varnarþing á Íslandi. Honum sé heimilt samkvæmt ákvæðum 18. gr. laga nr. 68/1995 um Lúganósamninginn um dómsvald og fullnustuvald í einkamálum að sækja dómþing einungis til að mótmæla varnarþingi.

Með vísan til ofangreinds er krafa um frávísun málsins í heild frá dómi ítrekuð.

Stefndi vísar einkum til laga nr. 68/1995 um Lúganósamninginn um dómsvald og fullnustu dóma í einkamálum. Þá vísar hann um varnarþing m.a. til V. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og krafa um málskostnað sé reist á 130. gr. sömu laga.

Niðurstaða

Samkvæmt greindu skuldabréfi viðurkennir stefndi að skulda stefnanda EUR 1.000.000.

Í skuldabréfi þessu segir að skuld þessi sé aðfararhæf með beinum hætti gegn skuldaranum án undangengins dóms eða réttarsáttar skv. 7. tl. 1. mgr. laga nr. 90/1989 um aðför. Gera má aðför til fullnustu öllum kröfum sem stafa af skuldabréfi þessu.

Í skuldabréfinu segir að ágreiningi sem kunni að rísa af þessari skuld megi vísa til þess dómstóls sem tilgreindur er í 25. grein hluthafasamningsins í samræmi við reglur XVII. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Hluthafasamningur sá sem vísað er til er á milli Top Investment Group B.V. og Alpa-Medical d.o.o. annars vegar og Blagoj Mehandiziski, Vericia Mehandiziska, Viktoria Mehandiziska og Hristina Mehandiziska hins vegar. Stefnandi er ekki aðili að þessu samkomulagi, en ágreiningslaust er að félagið Top Investment Group B.V., sem skráð er í Hollandi, sé í eigu hans. Tilvitnuð 25. grein hluthafasamningsins, sem ber yfirskriftina Lögsaga, hljóðar svo í þýðingu löggilts skjalaþýðanda:

Úr öllum ágreiningi sem rísa kann af þessum samningi eða vegna hans, þ.m.t. (án nokkurra takmarkana) um túlkun, gildi og efnd samningsins skal leysa fyrir gerðardómi austurríska verslunarráðsins í Vín (Austrian Chamber of Commerce Arbitration Court, sem er eini úrlausnaraðilinn) skv. reglum þess dómstóls sem gilda á þeim degi sem krafan er sett fram. Úrlausn málsins skal fara fram í Vín, Austurríki og skal flutningur og meðferð málsins fara fram á ensku. Ákvörðun gerðardóms skal vera fullnaðarákvörðun og binda báða samningsaðila.

Í 24. grein er kveðið á um það að um samning aðila fari samkvæmt enskum lögum.

Tilvitnuð ákvæði í íslensk lög í skuldabréfinu, annars vegar að því er aðfararhæfi skuldabréfsins varðar og hins vegar að um málsmeðferð skuli gilda sérreglur XVII. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 leiða ekki sjálfkrafa til þess að íslenskir dómstólar hafi lögsögu í málinu. Stefndi er erlendur ríkisborgari, sem ekki á varnarþing hér á landi, og hvorki er í skuldabréfinu kveðið á um íslenska lögsögu eða samið um varnarþing stefnda hér á landi. Þegar litið er til þess að skuld sú sem hér um ræðir á rót sína að rekja til fyrrgreinds hluthafasamnings og efnda á grundvelli hans verður ekki talið að skilyrði séu til þess að stefnandi geti höfðað mál þetta á hendur stefnda fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur samkvæmt varnarþingsreglu 1. mgr. 35. gr., sbr. 1. mgr. 43. gr. Verður því fallist á kröfu stefnda um frávísun málsins.

Með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað sem ákveðst 250.000 krónur.

Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Máli þessu er vísað frá dómi.

Stefnandi, Þrotabú Milestone ehf., greiði stefnda, Blagoj Mehandiziski, 250.000 krónur í málskostnað.