Hæstiréttur íslands

Mál nr. 60/2002


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Skilorð
  • Miskabætur


Miðvikudaginn 24

 

Miðvikudaginn 24. apríl 2002.

Nr. 60/2002.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Grétari Frey Vésteinssyni

(Gunnar Sólnes hrl.)

 

Líkamsárás. Skilorð. Miskabætur.

G var sakfelldur fyrir líkamsárás samkvæmt 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa slegið Á í andlitið, með þeim afleiðingum að hann hlaut brot á neðri kjálka á tveimur stöðum. Árásin var talin fólskuleg og tilefnislaus. Refsing G þótti hæfilega ákveðin fangelsi í 2 mánuði, en fullnustunni frestað skilorðsbundið. Þá var G og dæmdur til greiðslu bóta.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 24. janúar 2002 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess nú að niðurstaða héraðsdóms um refsingu ákærða verði staðfest. Þess er jafnframt krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða Ármanni Hólm Smárasyni 500.000 krónur í miska- og þjáningabætur, en að öðru leyti verði staðfest ákvæði héraðsdóms um skaðabætur.

Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvalds, en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til meðferðar að nýju.

Ákærði styður varakröfu sína við það að rannsókn málsins hafi verið áfátt og að ekki sé fram komið hvernig Ármann Hólm Smárason hlaut þá áverka, sem ákærða er gefið að sök að vera valdur að. Málið var rannsakað hjá lögreglu og við meðferð þess fyrir dómi voru teknar ítarlegar skýrslur af þeim, sem gátu greint frá atvikum aðfaranótt 4. ágúst 2000. Eru haldlausar þær staðhæfingar ákærða að rannsókn málsins hafi verið ófullnægjandi.

Árás ákærða var fólskuleg og tilefnislaus. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða og ákvörðun refsingar, enda hefur af hálfu ákæruvalds verið fallið frá fyrri kröfu um að refsing verði þyngd.

Samkvæmt læknisfræðilegum gögnum, sem fyrir liggja í málinu, tvíbrotnaði neðri kjálki Ármanns Hólm Smárasonar við þá atlögu, sem hann varð fyrir. Þykir hæfilegt að taka kröfu hans um miskabætur til greina með 200.000 krónum, en niðurstaða héraðsdóms um bætur úr hendi ákærða verður staðfest að öðru leyti.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest. Ákærði skal greiða allan kostnað af áfrýjun málsins, svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákvæði héraðsdóms um refsingu ákærða, Grétars Freys Vésteinssonar, skal vera óraskað.

Ákærði greiði Ármanni Hólm Smárasyni 270.919 krónur.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað. Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Gunnars Sólnes hæstaréttarlögmanns, 100.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 28. desember 2001.

Mál þetta, sem dómtekið var þann 27. desember s.l., er höfðað með ákæruskjali sýslumannsins á Akureyri, útgefnu 27. ágúst 2001, á hendur Grétari Frey Vésteinssyni, kt. 091178-4359, Smárahlíð 16 F, Akureyri, og Birgi Þór Þrastarsyni, kt. 290983-3559, Grænugötu 12, Akureyri;

„fyrir líkamsárás, með því að hafa aðfaranótt föstudagsins 4. ágúst 2000, veist að Ármanni Hólm Smárasyni, kt. 230981-4779 á gangstétt fyrir utan veitinga- og skemmtistaðinn Góða Dátann, Geislagötu 14 á Akureyri og slegið hann margsinnis í andlitið, með þeim afleiðingum að hann hlaut brot á neðri kjálka á tveimur stöðum.

Telst þetta varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20, 1981.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu skaðabóta til handa Ármanni Hólm Smárasyni, kt. 230981-4779, Þórunnarstræti 87, Akureyri, að fjárhæð kr. 835.014,-.“

 

Skipaður verjandi ákærða Grétars Freys, Gunnar Sólnes hæstaréttarlögmaður, hefur fyrir hönd hans aðallega krafist sýknu af refsikröfu ákæruvalds og að skaðbótakröfu Ármanns Hólm Smárasonar verði vísað frá dómi.  Til vara krefst hann þess, að ákærði Grétar Freyr verði dæmdur til vægustu refsingar sem lög heimila og að skaðabótakrafan verði lækkuð.  Þá hefur lögmaðurinn krafist hæfilegra málsvarnarlauna sér til handa.

Skipaður verjandi ákærða Birgis Þórs, Hreinn Pálsson hæstaréttarlögmaður, hefur fyrir hönd hans aðallega krafist sýknu af refsikröfu ákæruvalds og að skaðabótakröfu Ármanns Hólm Smárasonar verði vísað frá dómi.  Til vara krefst hann þess, að ákærði Birgir Þór verði dæmdur til vægustu refsingar sem lög leyfa og að skaðabótakrafan verði stórlega lækkuð.  Þá krefst verjandi hæfilegra málsvarnarlauna.

I.

Samkvæmt frumskýrslu Jóhannesar Sigfússonar, lögregluvarðstjóra, var lögregla aðfaranótt föstudagsins 4. ágúst 2000 á eftirlitsferð í lögreglubifreið í miðbæ Akureyrar.  Er ekið var norður Geislagötu veitti lögregla athygli hópi ungmenna sem hafði frammi háreysti og fyrirgang á gangstéttinni skammt frá skemmtistaðnum Kaffi Akureyri.  Á vettvangi gaf sig fram við lögreglu Ármann Hólm Smárason, blóðugur um munninn og á höndum, og kvaðst vilja kæra líkamsárás.  Var lögreglu bent á tvo aðila sem sagðir voru tengjast málinu, þá Jón Ivan Jónsson Ólafsson og ákærða Birgi Þór.  Var Jón blóðugur um munninn líkt og Ármann Hólm, en engir áverkar sáust á Birgi Þór.  Nefndir þrír aðilar voru færðir í lögreglubifreiðina og þess freistað, að fá upplýsingar um það sem á undan hefði gengið.  Reyndist lögreglu erfitt að fá heilsteypta frásögn af því sem gerst hefði vegna æsings og ölvunar en þó skildist henni að vinur Birgis Þórs, ákærði Grétar Freyr, hefði gengið í skrokk á Ármanni Hólm.  Ber lögregluskýrslan ekki með sér frá hverjum þessar upplýsingar hafi komið.  Því næst ók lögregla Ármanni Hólm og Jóni Ivan á slysadeild.

Samkvæmt framlögðu læknisvottorði Eiríks Sveinssonar, yfirlæknis, sem skoðaði Ármann Hólm Smárason við komu á slysadeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri snemma að morgni 4. ágúst 2000, kom fram á röntgenmyndum sem teknar voru af höfði Ármanns að lokinni almennri skoðun, að neðri kjálki hans var brotinn á tveimur stöðum.  Var Ármann í kjölfarið fluttur á Landspítalann í Fossvogi þar sem gert var að brotunum.

Lögregla tók skýrslur af ákærðu og vitnum í beinu framhaldi af framangreindum atburðum.  Af skýrslunum má ráða að ölvun hafi verið almenn á vettvangi. 

Vitnið Jóhann Ásgrímur Pálsson gaf skýrslu að nýju þann 12. október 2000, að eigin frumkvæði, og dró í land frá fyrri skýrslu hvað varðaði aðild ákærða Grétars að málinu. Þá var skýrsla tekin af vitninu Jóni Benedikt Gíslasyni þann 2. janúar 2001, en fram kemur í skýrslunni að heimili vitnisins væri í Finnlandi.

Bótakrafa Ármanns Hólm Smárasonar í málinu var kynnt fyrir ákærðu 19. og 22. desember 2000. 

II.

Ákærði Grétar Freyr gaf fyrst skýrslu vegna málsins fyrir lögreglu þann 4. ágúst 2000.  Í skýrslunni er eftirfarandi m.a. bókað eftir ákærða:  „Kærði segir að það hafi komið til stympinga milli hans og Ármanns.  Hann segir að annaðhvort Jón eða Ármann, hafi snúið hann niður.  Kærði segist hafa reynt að losa sig.  Hann segist ekki muna hvort hann kýldi eða eitthvað. – Kærði segir að ef hann segi alveg satt þá hafi hann losnað úr hálstakinu og verið einhvernveginn hokinn niður.  Hann hafi sveiflað sér til og slegið hnefanum í annaðhvort Jón eða Ármann. – Kærði er spurður, hvað hann telji að hann hafi slegið Ármann Hólm Smárason mörg högg.  Hann segist ekki vita það.  Hann segist bara hafa slegið frá sér til að reyna að koma sér út úr þessu. – Kærði er spurður, hvar þessi högg hafi komið í Ármann.  Hann segir að þau hafi örugglega komið í skrokkinn á honum og í andlitið.  Hann segir að honum finnist skrítið að þeir skuli vera að kæra hann, fyrir árás á þá, því að þetta hafi verið meira sjálfsvörn en árás.“

Fyrir dómi bar ákærði Grétar Freyr, að hann hafi að kvöldi fimmtudagsins 3. ágúst 2000 farið á skemmtistaðinn Club 13 ásamt unnustu sinni og vini.  Þar hafi hann hitt fyrir bróður Ármanns Hólms Smárasonar sem verið hafi svo ölvaður að ákærði hafi í félagi við aðra stutt hann að Bifreiðastöð Oddeyrar.  Hann hafi svo snúið aftur á Club 13 og þá rekist á Ármann Hólm og sagt honum frá því sem gerst hefði.  Ármann Hólm hafi eitthvað misskilið ákærða og hótað að ráðast á hann.  Aðspurður neitaði ákærði því að hafa verið að ögra Ármanni.  Kvað ákærði ekki hafa komið til átaka og hafi hann fljótlega yfirgefið staðinn og farið yfir á veitinga- og skemmtistaðinn Góða Dátann. 

Á Góða Dátanum hafi ákærði rekist á Ármann á ný og er þeir mættust hafi Ármann Hólm rekið olnbogann viljandi í ákærða.  Það hafi hins vegar ekki komið til átaka milli þeirra.

Síðar þegar ákærði kom út af Góða Dátanum hafi hann séð Ármann Hólm og meðákærða Birgi Þór þar sem þeir hafi staðið á malarplaninu sunnan við skemmtistaðinn og rifist.  Kvaðst ákærði hafa gengið á milli þeirra í þeim tilgangi að skakka leikinn og hafi þá komið til einhverra stympinga, sem endað hafi með því að ákærði var „tekinn niður“, annað hvort af Ármanni Hólm eða Jóni Ivan Jónssyni Ólafssyni, og í kjölfarið hafi verið sparkað, slegið og kýlt í hann.  Ákærði kvaðst hafa slegið frá sér og þannig tekist að losa sig.  Kvaðst hann telja að Jón Ivan hafi orðið fyrir högginu, en ekki Ármann Hólm eins og hann hafi í fyrstu greint frá fyrir lögreglu.  Um ástæðu þessa misræmis bar ákærði, að hann hafi einfaldlega hugsað málið betur og þá komist að þeirri niðurstöðu að höggið/höggin hafi lent á Jóni Ivan.

Eftir að ákærði losnaði úr áðurlýstum tökum kvaðst hann hafa gengið út úr hópnum og farið heim.  Var á ákærða að skilja að þá hafi lögregla ekki verið komin á vettvang.  Kvað ákærði að í raun hafi verið komin í gang hópslagsmál þegar hann yfirgaf vettvang.

Ákærði kvaðst hafa hlotið smávægileg meiðsl í umræddum atgangi.  Hann hafi verið rispaður og marinn á hálsi og þá hafi hann í nokkra daga á eftir fundið fyrir eymslum í síðunni.

Ákærði Birgir Þór var yfirheyrður hjá lögreglu vegna málsins 14. og 23. ágúst og 19. desember 2000.  Lýsti hann ávallt yfir sakleysi sínu og neitaði að hafa slegið Ármann Hólm Smárason umrædda nótt.

Fyrir dómi bar ákærði Birgir Þór, að hann hafi farið út að skemmta sér að kvöldi fimmtudagsins 3. ágúst 2000.  Um nóttina hafi hann hitt Ármann Hólm Smárason efst í tröppunum á veitinga- og skemmtistaðnum Góða Dátanum og hafi komið til rifrildis milli þeirra, sem tengst hafi Ingibjörgu unnustu Ármanns Hóm, en hún hafði áður verið með ákærða.  Í  kjölfarið hafi þeir tekist á og ákærði fallið í gólfið.  Hafi þeir þá verið skildir að.  Bar ákærði að engin hnefahögg hafi farið á milli þeirra í þessum átökum.  Félagi Ármanns Hólm, Jóhann Ásgrímur Pálsson, hafi því næst beðið ákærða að koma út og hafi ákærði gert það.  Þar hafi rifrildi hans og Ármanns Hólm haldið áfram.  Er þeir hafi verið að rífast hafi vinnufélagi hans, ákærði Grétar Freyr, komið að og gengið á milli.  Hafi ákærði þá ákveðið að ganga í burtu og með honum hafi farið vinur hans Jón Benedikt Gíslason, sem í sömu andrá hafi borið að.  Bar ákærði þetta hafi verið það fyrsta sem hann sá af Grétari Frey umrædda nótt.  Aðspurður kvað ákærði Ármann Hólm og Grétar Frey hafa orðið eftir á vettvangi og þar hafi einnig verið vinir Ármanns Hólm, Jón Ivan Jónsson Ólafsson og áðurnefndur Jóhann Ásgrímur, ásamt fleira fólki, sem ákærði gat ekki sagt deili á. 

Í framhaldinu kvaðst ákærði hafa gengið að Hótel Norðurlandi ásamt Jóni Benedikt þar sem hann hafi sótt sér drykk í poka, sem áður hafði verið komið fyrir við hótelið.  Þegar þeir hafi komið til baka hafi þeir séð hvar Grétar Freyr lá í götunni og hafi Ármann Hólm, Jón Ivan og Jóhann Ásgrímur verið að sparka í hann.   Hafi ákærði og Jón Benedikt gengið að og þremenningarnir þá dregið sig í hlé að mestu.  Kvaðst ákærði þá hafa séð, að Ármann Hólm var orðinn blóðugur og hafi hann því tekið hann frá og spjallað við hann.  Að því loknu hafi ákærði gengið áleiðis niður í bæ ásamt Ármanni Hólm og Jóni Ivan.  Örskömmu síðar hafi lögreglubifreið borið að og ákærði verið færður inn í hana.  Er inn var komið hafi Ármann Hólm og Jón Ivan borið það á ákærða, að hann hafi lamið þann fyrrnefnda.

Ákærði kvaðst enga áverka hafa hlotið þetta kvöld og þá hafi ekkert séð á fötum hans.

Aðspurður kvaðst ákærði Birgir Þór ekki kannast við að hafa haft í hótunum við Ármann Hólm og Ingibjörgu Maríu Þórarinsdóttur, unnustu hans, áður en atvikið við Góða Dátann átti sér stað.

III.

Vitnið Ármann Hólm Smárason, fæddur 23. september 1981, kvaðst hafa farið að skemmta sér í miðbæ Akureyrar fimmtudagskvöldið 3. ágúst 2000.  Kvaðst vitnið fyrst hafa farið á skemmtistaðinn Club 13 þar sem það hafi rekist á ákærða Grétar Frey.  Hafi hann reynt að stofna til illinda við vitnið og það því ákveðið að yfirgefa staðinn ásamt félögum sínum.

Af Club 13 hafi leiðin legið á veitinga- og skemmtistaðinn Góða Dátann.  Þar hafi vitnið hitt fyrir ákærða Birgi Þór og hafi komið til stympinga þeirra á milli, en hvorugur slegið til hins.  Dyraverðir hafi gengið á milli og haldið vitninu upp við vegg inni á staðnum meðan Birgi Þór hafi verið vísað út.  Kvað vitnið Birgi Þór hafa hrópað til sín á leiðinni út og hafi það því ákveðið að fara á eftir honum og ræða við hann fyrir utan.  Þegar út var komið hafi vitnið tekið að ræða við Birgi Þór og hafi samræðurnar tengst unnustu vitnisins, sem áður hafði verið í vinfengi við Birgi Þór, en hún hafi verið búin að fá hótanir og niðrandi ummæli frá honum með SMS skilaboðum.  Skyndilega hafi vitnið fengið högg á hægri kjálka frá hlið, vitnið hafi ekki séð hver veitti því höggið en kvaðst telja að það hafi verið ákærði Grétar Freyr.  Síðan hafi höggin dunið á vitninu frá sitt hvorri hliðinni.  Kvaðst vitnið hafa hálfvankast við fyrsta höggið og því geti það ekki borið skýrlega um rás atburða eftir það.  Vitnið kvaðst þó reka minni til að hafa séð glitta í andlit beggja ákærðu í atganginum.  Þá hafi það skynjað að sum högganna komu frá ákærða Grétari Frey.  Sum hafi komið frá vinstri, en ákærði Birgir Þór hafi verið eini maðurinn vinstra megin við ákærða.  Vitnið kvaðst engum vörnum hafa komið við og kannaðist ekki við að hafa tekið neitt á ákærðu eða slegið til þeirra á meðan á atganginum stóð.  Vitnið kvaðst vita til þess að vinur þess, Jón Ivan Jónsson Ólafsson, hafi reynt að koma því til hjálpar.  Aðspurt kvaðst vitnið ekki hafa séð ákærða Grétar Frey liggja í götunni á meðan á atganginum stóð.  Kvaðst vitnið telja að hann hefði ekki fallið í götuna, það væri ósatt að svo hefði verið.

Þegar atganginum lauk kvaðst vitnið hafa náð áttum að einhverju leiti og litið í kringum sig og séð ákærða Birgi Þór vera að hörfa frá, en ákærða Grétar Frey hafi það hvergi séð.  Því næst hafi lögreglubifreið komið á vettvang og kvaðst vitnið hafa gengið beint að honum.  Þegar inn í hann var komið kvaðst vitnið hafa reynt að gefa til kynna að Birgir Þór hefði verið einn árásarmannanna.  Kvaðst vitnið muna að þegar Birgir Þór hafi komið inn í lögreglubifreiðina hafi hann snúið sér að vitninu og sagt:  „Ármann, þú ætlar þó ekki að kæra mig?  Taktu þessu eins og maður.“

Vitnið kvaðst enn ekki hafa náð sér að fullu af kjálkabroti því sem það hlaut umrædda nótt.  Það geti ekki opnað munninn að fullu og finni til ef það opni hann of mikið.  Vitnið kvaðst hafa verið frá vinnu vegna þessara meiðsla sinna.

Vitnið Jón Ivan Jónsson Ólafsson, fæddur 10. nóvember 1980, bar fyrir dómi, að það hafi farið að skemmta sér í miðbæ Akureyrar að kvöldi fimmtudagsins 3. ágúst 2000 ásamt vini sínum Ármanni Hólm Smárasyni og Jóhanni Ásgrími Pálssyni.  Þeir félagarnir hafi fyrst farið á skemmtistaðinn Club 13 og þar rekist á ákærða Grétar Frey.  Hafi komið til rifrildis þar milli Ármanns Hólm og Grétars Freys, en þeim félögunum hafði borist til eyrna að Grétar hefði ráðist á bróður Ármanns.  Ekki hafi hins vegar komið til átaka.

Að loknu rifrildinu við Grétar Frey hafi vitnið ásamt félögum sínum tveimur farið af Club 13 og yfir á veitinga- og skemmtistaðinn Góða Dátann.  Þar hafi þeir rekist á ákærða Birgi Þór og hafi komið til rifrildis milli Birgis og Ármanns Hólm tengt Ingibjörgu unnustu Ármanns, en hún hafi áður verið í tygjum við Birgi.  Rifrildið hafi endað með tuski þeirra í milli, sem dyraverðir meðal annarra hafi stöðvað.  Kvað vitnið engin hnefahögg hafa farið milli Ármanns og Birgis í þessum átökum.

Vitnið kvaðst síðan hafa yfirgefið Góða Dátann ásamt félögum sínum.  Aðspurt kvað vitnið það alls ekki hafa verið ætlun þeirra félaga að stofna til slagsmála fyrir utan skemmtistaðinn.

Fyrir utan staðinn hafi þeir aftur rekist á ákærða Birgi Þór og þeir Ármann Hólm aftur tekið tal saman.  Kvað vitnið fjóra félaga Birgis Þórs hafa staðið þarna álengdar og hafi vitnið staðið fyrir framan þá, en snúið baki í Birgi Þór og Ármann Hólm.  Er vitnið hafi síðan litið yfir öxl sér hafi það séð ákærðu báða halda Ármanni Hólm á milli sín og „hamra“ viðstöðulaust á honum, en Grétar Freyr hafi þá skyndilega verið kominn á vettvang.  Kvað vitnið höggin hafa lent á kjálkum Ármanns Hólm. Vitnið kvaðst hafa rokið í ákærða Grétar Frey og hrint honum frá og hélt vitnið því fram, að ef það hefði ekki stöðvað atganginn hefðu ákærðu hreinlega gengið frá Ármanni Hólm.  Hafi Birgir Þór ekki haft sig meira í frammi eftir að vitnið hrinti Grétari Frey frá.  Vitnið kvað Grétar í kjölfarið hafa veitt því tvö hnefahögg í andlitið, en vitnið hafi ekki svarað þeim höggum heldur ítrekað lýst því yfir að það ætlaði ekki að slást við hann.  Grétar Freyr hafi því næst hlaupið á brott.

Eftir þetta hafi lögreglubifreið komið á staðinn og Ármann Hólm gefið sig fram og lýst því yfir að hann vildi kæra líkamsárás.  Kvað vitnið Birgi Þór hafa fylgt þeim Ármanni Hólm eftir að lögreglubifreiðinni og hafi hann haft á orði við Ármann:  Ætlarðu nokkuð að kæra mig?  Geturðu ekki tekið þessu eins og maður?

Vitnið kvaðst hafa tjáð lögreglu að það þyrfti einnig aðhlynningu á slysadeild svo það gæti fylgt Ármanni Hólm þangað, sem vitnið hafi haft áhyggjur af, en lögregla hafi í fyrstu ætlað að meina vitninu að fylgja honum.  Kvaðst vitnið hafa hlotið áverka vegna hnefahögga ákærða Grétars Freys, en þeir hafi verið óverulegir.

Vitnið Jóhann Ásgrímur Pálsson, fæddur 20. janúar 1981, gaf fyrst skýrslu vegna málsins fyrir lögreglu þann 4. ágúst 2000.  Í skýrslunni er eftirfarandi m.a. bókað eftir vitninu:  „Jóhann segir að þarna úti hafi orðið átök milli Grétars og Ármanns.  Jón hafi eitthvað lítið blandast í átökin.  Hann kveðst ekki hafa séð né muna eftir því að Ármann og Jón hafi ráðist á Grétar eða veitt honum einhverja áverka, með því að taka um háls hans eða á einhvern annan hátt.  Átökin séu aðeins einhverjar hrindingar. – Jóhann segir að átökin endi með því að Grétar berji Ármann tvö föst högg í andlitið.  Hann kveðst ekki muna annað en að Grétar hafi þá bara staðið þarna einn og sér.  Grétar hafi ekki verið að losa sig úr neinum tökum eða svoleiðis, að hann telur. – Jóhann kveðst þó ekki geta lýst höggunum nákvæmlega en telur að Grétar hafi barið Ármann með krepptum hnefa hægri handar.  Það hafi strax farið að blæða úr munni Ármanns og hann hafi átt erfitt með að tala.“

Þann 12. október 2000 gaf Jóhann Ásgrímur Pálsson, að eigin frumkvæði, aðra skýrslu vegna málsins.  Í skýrslunni er eftirfarandi m.a. bókað eftir vitninu:  „Jóhann kveðst kominn til lögreglu að eigin frumkvæði til að breyta fyrri vitnaskýrslu sinni í máli þessu. – Jóhann segir að eftir að hann hafi gefið fyrri skýrsluna hafi hann farið að hugsa betur um málið.  Hann segir að það sem hann hafi séð hafi verið að margir aðilar hafi verið í átökum fyrir utan Dátann. – Jóhann segir að hann hafi ekki þekkt tvo af þessum aðilum.  Hann muni eftir og þekki þá Birgi Þór Þrastarson, Grétar Frey Vésteinsson, Ármann Hólm Smárason og strák sem heiti Jón.  Þessir aðilar hafi verið þarna á vettvangi og í átökum, ásamt þessum tveimur. – Jóhann segir að eftir að hafa hugsað um málið geti hann ekki sagt til um hver barði hvern.  Hann getur ekki fullyrt að Grétar Freyr hafi barið Ármann Hólm, því hann hafi ekki séð hver hafi barið Ármann Hólm.“

Fyrir dómi lýsti vitnið atburðum svo, að umrædda nótt hafi það verið að skemmta sér í miðbæ Akureyrar ásamt Ármanni Hólm Smárasyni og Jóni Ivan Jónssyni Ólafssyni.  Á veitinga- og skemmtistaðnum Góða Dátanum hafi þeir rekist á ákærða Birgi Þór.  Hafi komið til einhverra átaka milli Birgis og Ármanns og þeir fallið í gólfið og veltst þar um.  Var á vitninu að skilja að þessi átök hafi ekki verið stórvægileg og staðið skamma stund.

Fyrir utan Góða Dátann hafi komið til rifrildis að nýju milli Ármanns Hólm og ákærða Birgis Þórs.  Hafi það rifrildi endað þegar Grétar Freyr hafi birst og lamið Ármann Hólm, sem hafi virst vankast við höggið.  Síðan hafi ákærðu báðir ráðist að Ármanni Hólm, sem ekki hafi komið við vörnum.  Tók vitnið fram að það hafi aldrei séð Birgi Þór slá Ármann, en hann hafi þó verið þarna í „bögginu“.  Kvað vitnið fleiri aðila hafa verið á vettvangi, en því var að skilja að þeir hafi lítið sem ekkert komið nálægt þessum atgangi.

Vitnið kvaðst ekki hafa greint rétt frá aðburðum í lögregluskýrslu sem tekin hafi verið þann 12. október 2000.  Vitnið kvað þá skýringu vera á framburði þess við það tækifæri, að ákærði Grétar Freyr, frændi vitnisins, hafi komið að máli við það vegna þessara atburða.  Hafi þeir rætt um það, að: „ ... ég myndi hérna sleppa því að, eða myndi breyta þessu eitthvað aðeins, eða hugsa minn gang sko, en svo hef ég hugsað málið og ég vill náttúrulega að hið rétta komi í ljós.“

Vitnið Sævar Már Árnason, fæddur 20. febrúar 1980, kvaðst aðfaranótt föstudagsins 4. ágúst 2000 hafa verið statt á veitinga- og skemmtistaðnum Góða Dátanum.  Þegar vitnið hafi komið út af staðnum hafi verið nokkur mannsöfnuður fyrir utan og einhver læti, smá stympingar, sem síðan hafi fjarað út og ekki orðið að neinu.  Þetta hafi aðallega verið rifrildi og menn ýtt hver á annan, vitnið hafi engan séð sleginn niður eða nokkuð í þá veru.  Aðspurt kvað vitnið ákærða Grétar Frey hafa tekið þátt í nefndum stympingum og einnig ljóshærðan strák, sem vitnið kvað mögulega heita Jón.  Hafi þeir á ákveðnum tímapunkti staðið eilítið fyrir utan hópinn og hrint hver öðrum og hafi Grétar Freyr veitt þeim ljóshærða eitt högg, sem hann hafi staðið af sér.

Eftir að atgangurinn var yfirstaðinn kvaðst vitnið hafa orðið vart við að þrír aðilar hafi gengið af vettvangi og verið „allir eitthvað voðalega ákveðnir í að gera mál úr þessu við lögguna“.

Fyrir dómi kvaðst vitnið, eftir að hafa litið á Ármann Hólm Smárason, vera nokkuð visst um að hann væri ekki sá ljóshærði strákur, sem hafi umrætt sinn fengið högg frá ákærða Grétari Frey.

Vitnið Haukur Þór Sigurðsson, fæddur 6. júní 1980, bar að það hafi umrædda nótt gengið út af veitinga- og skemmtistaðnum Góða Dátanum ásamt félaga sínum Sævari Má Árnasyni og hafi þrír aðilar verið á undan þeim, Jóhann Ásgrímur Pálsson, Jón Ivan Jónsson Ólafsson og Ármann Hólm Smárason.  Þegar út var komið hafi þeir tekið að rífast við ákærða Birgi Þór og hafi þá fleiri drifið að, þ. á m. ákærða Grétar Frey.  Komið hafi til slagsmála og hafi einhver farið í jörðina, en þetta leystist þó fljótt.  Var á vitninu að skilja að allir framangreindir aðilar hafi tekið þátt í slagsmálunum auk nokkurra annarra, sem vitnið gat ekki sagt nein deili á.

Því næst hafi ákærði Grétar Freyr og Jón Ivan farið eilítið frá hópnum.  Hafi þeir eitthvað tekist að kljást og hafi „létt högg“ verið veitt.  Í framhaldinu hafi lögregla komið á vettvang og leystist hópurinn upp.

Vitnið kvaðst hafa horft á hina lýstu atburði í um 10-15 metra fjarlægð.

Vitnið Jón Benedikt Gíslason, fæddur 31. júlí 1983, kvaðst umrædda nótt hafa verið á veitinga- og skemmtistaðnum Góða Dátanum ásamt ákærða Birgi Þór.  Inni á skemmtistaðnum hafi þeir hitt Ármann Hólm Smárason og hafi Ármann og Birgir tekið tal saman.  Hafi samtal þeirra endað með átökum þeirra á milli og hafi þeir veltst um á gólfi staðarins með hálstak hvor á öðrum.  Í kjölfarið hafi þeim verið vísað út af staðnum.  Aðspurt kvaðst vitnið telja að tvímenningarnir hafi ekkert meiðst í þessum átökum.  Þá kom fram hjá vitninu, að engin hnefahögg hafi farið á milli Ármanns Hólm og Birgis Þórs í átökunum inni á skemmtistaðnum.

Þegar út var komið kvað vitnið Ármann Hólm og Birgi Þór hafa haldið áfram að tala saman.  Ákærða Grétar Frey hafi þá borið að og hafi hann gengið á milli og beðið tvímenningana að róa sig.  Í kjölfarið hafi menn róast og vitnið ásamt ákærða Birgi Þór farið yfir Geislagötuna til að ná í bjór í tösku, sem þeir hafi verið búnir að koma þar fyrir.  Þegar þeir hafi komið til baka hafi verið búinn að myndast hópur manna og hafi ákærði Grétar Freyr legið í jörðinni.  Vitnið og Birgir Þór hafi hlaupið til og reist Grétar við.  Bar vitnið að í gangi hafi verið einhver slagsmál en kvaðst ekki alveg vita hverjir áttu í þeim.  Hins vegar kom fram hjá vitninu að á vettvangi hafi verið ákærðu, vitnið sjálft, Ármann Hólm Smárason, Jón Ivan Jónsson Ólafsson, Jóhann Ásgrímur Pálsson og einhverjir fleiri, sem vitnið gat ekki sagt nein deili á.

Var á vitninu að skilja að mannskapurinn hafi smám saman róast og hafi vitnið þá fljótlega tekið eftir því að Ármann Hólm spýtti blóði, en vitnið kvaðst ekki vita hvernig hann hlaut þau meiðsl.  Því næst hafi vitnið gengið ásamt nokkrum öðrum í átt að Videolandi.  Þá hafi lögreglubifreið komið að og hafi Ármann Hólm farið inn í hana og skömmu síðar hafi ákærði Birgir Þór og Jón Ivan verið beðnir um að koma þangað inn líka.

Vitnið kvaðst hafa verið með ákærða Birgi Þór allan tímann fyrir utan Góða Dátann og fullyrti vitnið að það hafi aldrei séð Birgi slá frá sér.  Aðspurt kvaðst það heldur ekki hafa séð ákærða Grétar Frey slá frá sér.

Vitnið Jóhannes Sigfússon, lögregluvarðstjóri, kvaðst umrædda nótt hafa verið á eftirlitsferð í miðbæ Akureyrar á lögreglubifreið.  Þegar lögregla hafi verið á ferð norður Geislagötu hafi hún orðið vör við hóp af ungu fólki, sem verið hafi á gangstétt rétt norðan skemmtistaðarins Kaffi Akureyri.  Nokkrir aðilar hafi gengið í veg fyrir lögreglubifreiðina og í kjölfarið hafi Ármann Hólm Smárason gefið sig á tal við lögreglu og lýst vilja til að kæra líkamsárás.

Vitnið kvað nokkuð erfitt hafa verið að henda reiður á framburði aðila á vettvangi vegna ölvunar og æsings.  Kvað vitnið lögreglu hafa tekið þrjá aðila inn í lögreglubifreiðina til að reyna að fá einhverja mynd af því sem gerst hefði.  Þessir aðilar hafi verið nefndur Ármann, ákærði Birgir Þór og Jón Ivan Jónsson Ólafsson.

Vitnið kvað Ármann Hólm og Jón Ivan hafa verið blóðuga í andliti, en engin áverkamerki hafi sést á ákærða Birgi Þór.  Að loknu viðtali hafi Birgir Þór farið ferða sinna, en Ármanni Hólm og Jóni Ivan ekið á slysadeild til aðhlynningar.

Auk framangreindra vitna gáfu vitnin Ingibjörg María Þórarinsdóttir, unnusta Ármanns Hólm Smárasonar, og Páll Þorkelsson, lögreglumaður, einnig skýrslu fyrir dómi.  Þykir ekki ástæða til að rekja framburð þeirra sérstaklega.

IV.

Óumdeilt er að til allnokkurs atgangs kom á milli ungra manna utan við skemmtistaðinn Góða Dátann á Akureyri aðfaranótt 4. ágúst 2000 og voru hendur látnar skipta.  Í yfirheyrslum fyrir dómi kom fram, að ölvun var almenn á vettvangi og að mati dómsins bar framburður beggja ákærðu, sem og þeirra vitna er á vettvangi voru, þess nokkur merki.  Þá mátti greina það hjá ákærðu og vitnum við skýrslutökurnar, að viðstaddir skiptust að meginstefnu til í tvo kunningja- eða vinahópa.

Ármann Hólm Smárason kvaðst fyrir dómi ekki geta með vissu borið um hver hafi veitt honum fyrsta höggið, en þó telja að það hafi verið ákærði Grétar Freyr.  Kom fram hjá Ármanni, að við það högg hafi hann vankast og bar framburður hans fyrir dómi þess nokkur merki.  Var þó á Ármanni að skilja að hann hafi, er högg dundu á honum, séð andlit beggja ákærðu í atganginum og þá kvaðst hann hafa skynjað að sum högganna hafi komið frá ákærða Grétari Frey.

Jón Ivan Jónsson Ólafsson var afdráttarlaus í þeim framburði sínum, að báðir ákærðu hafi látið höggin dynja á Ármanni Hólm.  Lýsingar Jóns Ivans á því að um einhliða árás ákærðu á Ármann hafi verið að ræða fá hins vegar takmarkaða stoð hjá öðrum vitnum í málinu, sbr. einkum framburð Sævars Más Árnasonar, Hauks Þórs Sigurðssonar og Jóns Benedikts Gíslasonar, og er framburður Jóns Ivans því að þessu leiti úr takti við frásagnir annarra viðstaddra, þ.m.t. ákærðu, af atburðum.  Enginn þeirra Sævars Más, Hauks Þórs eða Jóns Benedikts kvaðst hafa séð ákærðu slá Ármann Hólm í andlitið.

Jóhann Ásgrímur Pálsson bar fyrir dómi að hann hafi séð ákærða Grétar Frey slá Ármann Hólm Smárason í andlitið umrætt sinn og hafi Ármann virst vankast við höggið.  Síðan hafi ákærðu báðir ráðist að Ármanni, sem ekki hafi komið við vörnum.  Tók Jóhann Ásgrímur fram, að hann hafi ekki séð Birgi Þór slá Ármann, en hann hafi þó verið í „bögginu“.  Fyrir lögreglu gaf Jóhann Ásgrímur tvær misvísandi skýrslur um þátt Grétars Freys í málinu.  Fyrir dómi kom fram, að síðari skýrsluna hafi hann gefið í kjölfar viðræðna við Grétar Frey, sem mun vera frændi vitnisins.  Er það mat dómsins að framangreindu athugðu, og þegar horft er til allrar framkomu Jóhanns Ásgríms fyrir dómi, að lýsingar hans þar á atburðum verði að teljast trúverðugar.

Ákærði Birgir Þór hefur frá upphafi neitað því að hafa slegið Ármann Hólm Smárason umrædda nótt.  Þó svo framburður Jóns Ivans Jónssonar Ólafssonar, og að nokkru framburður Ármanns sjálfs, leiði að því nokkrar líkur, að ákærði hafi aðfaranótt 4. ágúst 2000 slegið Ármann í andlitið, þykja þær líkur hins vegar ekki, gegn staðfastri neitun ákærða, að athuguðum framburði Jóns Benedikts Gíslasonar og þess sem áður hefur verið rakið um framburð Jóhanns Ásgríms Pálssonar, Sævars Más Árnasonar og Hauks Þórs Sigurðssonar, vera svo sterkar, að sekt hans verði hafin yfir skynsamlegan vafa.  Verður því, með vísan til 45. og 46. gr. laga nr. 19, 1991 um meðferð opinberra mála, að sýkna ákærða Birgi Þór af öllum kröfum ákæruvalds í málinu.

Vætti Jóhanns Ásgríms Pálssonar, Jóns Ivan Jónssonar Ólafssonar, og að nokkru Ármanns Hólm Smárasonar, fyrir dómi, sem og framburður ákærða Grétars Freys sjálfs fyrir lögreglu sama dag og atvik máls gerðust, leiðir að því ákveðnar líkur að ákærði hafi aðfaranótt 4. ágúst 2000 slegið Ármann Hólm í andlitið fyrir utan skemmtistaðinn Góða Dátann.  Að mati dómsins eru þær líkur svo sterkar, að ákæruvaldinu hafa tekist að sanna, svo hafið verði yfir skynsamlegan vafa, þrátt fyrir neitun ákærða, að hann hafi á umræddum stað og tíma slegið Ármann Hólm í andlitið.  Eru þeir áverkar Ármanns Hólm Smárasonar, er fram koma í framlögðu vottorði Eiríks Sveinssonar læknis, að mati dómsins, sennileg afleiðing af lýstri háttsemi ákærða Grétars Freys.  Að öllu ofangreindu virtu þykir hann því hafa gerst sekur um líkamsárás og varðar sú háttsemi hans við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20, 1981.

Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins hefur ákærði Grétar Freyr ekki áður sætt refsingu svo  kunnugt sé.  Þykir refsing hans eftir atvikum hæfilega ákveðin fangelsi í 2 mánuði, en fresta skal fullnustu  þeirrar refsingar og skal hún falla niður að liðnum 2 árum frá birtingu dóms þessa, haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22, 1955.

Davíð B. Gíslason, héraðsdómslögmaður, hefur f.h. Ármanns Hólm Smárasonar haft uppi eftirfarandi skaðabótakröfu í málinu, en krafan er dagsett 13. desember 2000:

1.  Miska- og þjáningabætur

kr.500.000

2.  Bætur vegna tannlæknakostnaðar

kr.220.000

3.  Útlagður kostnaður skv. gögnum

kr.30.919

4.  Kostnaður lögmanns ásamt virðisaukaskatti

kr.84.095

Samtals

kr.835.014

Í máli þessu hefur ákærði Birgir Þór verið sýknaður af refsikröfu og kemur ofannefnd bótakrafa því ekki til álita að því er hann varðar, sbr. 3. mgr. 172. gr. laga nr. 19, 1991.  Ákærði Grétar Freyr hefur hins vegar verið sakfelldur fyrir líkamsárás og ber hann því bótaábyrgð gagnvart bótakrefjanda vegna meiðsla hans.

Undir rekstri málsins var bótakrefjanda af hálfu dómsins boðið að skýra kröfugerð sína frekar en gert var með fyrrgreindu bréfi lögmannsins dags. 13. desember 2000, sbr. 5. mgr. 172. gr. laga nr. 19, 1991, en hann kaus að gera það ekki.

Liður 1:  Til stuðnings miskabótakröfu hefur bótakrefjandi m.a. vísað til þess, að kjálkabrot hans hafi verið mjög slæmt.  Hann hafi verið frá vinnu í nokkra daga og átt mjög erfitt vegna eymsla og þjáninga.

Ákærði Grétar Freyr er líkt og áður var rakið bótaskyldur gagnvart bótakrefjanda og þykir um þennan lið mega líta til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50, 1993.  Þykja bætur samkvæmt þessum kröfulið hæfilega ákveðnar kr. 100.000,-.

Liður 2:  Til stuðnings kröfulið þessum hefur bótakrefjandi vísað til vottorða læknanna Eiríks Sveinssonar og Guðmundar Á. Björnsson, en þó sér í lagi til vottorðs og áætlunar Árna Páls Halldórssonar, tannlæknis.

Af ofangreindum gögnum er ljóst, að árás ákærða hafði í för með sér alvarlegar líkamlegar afleiðingar fyrir bótakrefjanda.  Fram kemur í tilvísuðu bréfi dags. 13. desember 2000 og var það áréttað fyrir dómi, að umræddur kröfuliður byggir tölulega alfarið á áætlun Árna Páls Halldórssonar tannlæknis.  Áætlar hann að kostnaður vegna nauðsynlegra tannlæknisaðgerða sé á bilinu kr. 170.000-270.000,-.

Árni Páll Halldórsson nefnir enga ákveðna fjárhæð í vottorði sínu heldur vísar til þess að kostnaður við tannlæknisaðgerðir muni verða á bilinu kr. 170.000-270.000.  Þrátt fyrir áskorun dómara voru ekki lögð fram frekari gögn til stuðnings umræddum kröfulið.  Að þessu athuguðu er það álit dómsins, að tjón bótakrefjanda samkvæmt kröfulið 2 hafi hvorki verið nægjanlega rökstutt né afmarkað.  Þykir því verða að vísa kröfum samkvæmt nefndum lið frá dómi.

Liður 3:  Þessi kröfuliður er studdur afritum reikninga.  Verður ekki annað séð en til þessa kostnaðar hafi verið stofnað með réttu vegna meiðsla bótakrefjanda og verður hann því tekin til greina.

Liður 4:  Eins og áður hefur verið rakið naut bótakrefjandi aðstoðar lögmanns við framsetningu bótakröfu.  Hæfilegt þykir að dæma honum kr. 40.000,- í bætur vegna þessa og er virðisaukaskattur innifalinn í þeirri fjárhæð.

Samkvæmt framansögðu verður ákærði Grétar Freyr dæmdur til að greiða bótakrefjanda kr. 170.919,- í bætur fyrir fjártjón og miska.

Með vísan til ofangreindra málsúrslita ber að leggja allan sakarkostnað að því er varðar þátt Birgis Þórs Þrastarsonar á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans Hreins Pálssonar, hæstaréttarlögmanns, kr. 110.000,- en við ákvörðun málsvarnarlauna hefur verið tekið tillit til þess að Hreinn var skipaður verjandi ákærða Birgis Þórs á rannsóknarstigi og gætti hagsmuna hans er málið var til rannsóknar hjá lögreglu.

Með vísan til málsúrslita skal annar málskostnaður en að ofan greinir greiðast af ákærða Grétari Frey Vésteinssyni, þar á meðal málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Gunnars Sólnes hæstaréttarlögmanns, kr. 110.000,- en við ákvörðun málsvarnarlauna hefur verið tekið tillit til þess að Gunnar var skipaður verjandi ákærða Grétars Freys á rannsóknarstigi og gætti hagsmuna hans er málið var til rannsóknar hjá lögreglu.

Mál þetta var dómtekið eftir munnlegan málflutning hinn 30. október sl.  Vegna starfsanna dómara dróst dómsuppsaga og var málið því endurflutt og dómtekið að nýju þann 27. desember sl.

Dóm þennan kvað upp Ólafur Ólafsson, héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Birgir Þór Þrastarson, er sýknaður af öllum kröfum ákæruvalds í máli þessu.

Ákærði, Grétar Freyr Vésteinsson, sæti fangelsi í 2 mánuði, en fresta skal fullnustu þeirrar refsingar og skal hún falla niður að liðnum 2 árum frá birtingu dóms þessa, haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22, 1955.

Ákærði Grétar Freyr Vésteinsson greiði Ármanni Hólm Smárasyni kr. 170.919,-.

Allur sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda, Hreins Pálssonar hæstaréttarlögmanns, kr. 110.000,-, vegna þáttar Birgis Þórs Þrastarsonar, greiðist úr ríkissjóði.

Annar sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda, Gunnars Sólnes hæstaréttarlögmanns, kr. 110.000,-, skal greiðast af ákærða Grétari Frey Vésteinssyni.