Hæstiréttur íslands
Mál nr. 32/2002
Lykilorð
- Ábyrgð
- Skipstrand.
- Vanreifun
- Frávísun frá héraðsdómi að hluta
|
|
Fimmtudaginn 3. október 2002. |
|
Nr. 32/2002. |
Íslenska ríkið (Skarphéðinn Þórisson hrl.) gegn Standard Steamship Owners´ Protection & Indemnity Association (Europe) Ltd. (Garðar Briem hrl.) |
Ábyrgð. Skipstrand. Vanreifun. Frávísun máls frá héraðsdómi að hluta.
Í krafðist greiðslu úr hendi S vegna kostnaðar sem Í hafði greitt í kjölfar strands flutningaskipsins Víkartinds í mars 1997, en S hafði tekið að sér svokallaða P&I tryggingu vegna rekstrar skipsins. Hafnað var þeim mótbárum S sem reistar voru á því að Í hafi ekki sett fram kröfur innan tímamarka þeirrar ábyrgðaryfirlýsingar sem S hafði undirritað og Í reisti kröfu sína á. Þá var talið að orðalag yfirlýsingarinnar væri víðtækara en svo að hún einskorðaðist við björgunarkostnað í skilningi laga nr. 42/1926 um skipströnd og vogrek, líkt og S hafði haldið fram. Að mati dómsins var kostnaður vegna geymslugjalda af ósóttum farmi sem Eimskipafélagið hafði annast að beiðni sýslumannsins á Hvolsvelli í kjölfar strandsins, talinn vera á ábyrgð S hvort sem litið væri til ákvæða laga nr. 42/1926 eða ábyrgðaryfirlýsingarinnar. Varð því ekki fallist á þá almennu viðbáru S að skuldbinding hans tæki ekki til geymslugjalda. Hins vegar naut ekki við gagna í málinu um geymslutíma hverrar vörusendingar fyrir sig og upplýsingar þótti skorta um hvenær telja hafi mátt tímabært að farga eða leita nauðungarsölu á einstökum sendingum. Að þessu virtu þótti málið að þessu leyti svo vanreifað af hendi Í að kröfu hans um geymslugjöld varð að vísa sjálfkrafa frá héraðsdómi. Krafa Í um endurgreiðslu kostnaðar sem Í hafði greitt Sorpu vegna förgunar skemmdra vörusendinga þótti ekki studd viðhlítandi gögnum og var því sjálfkrafa vísað frá héraðsdómi. Þá var krafa Í um endurgreiðslu á kostnaði sem greiddur hafði verið fyrirtækinu Könnun fyrir „losun gáma og forskoðun“ tekin til greina en starfsmenn fyrirtækisins höfðu verið kallaðir til með vitneskju íslenskra stjórnvalda. Var S ekki talinn hafa sýnt fram á að þau útgjöld Í yrðu ekki talinn eðlilegur kostnaður stjórnvalda vegna strandsins.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir og Arnljótur Björnsson fyrrverandi hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 21. janúar 2002 og krefst þess nú að stefnda verði gert að greiða sér 9.446.981 krónu auk dráttarvaxta samkvæmt vaxtalögum nr. 25/1987 frá 1. maí 2000 til 1. júlí 2001, en frá þeim degi til greiðsludags dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Einnig krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Flutningaskipið Víkartindur, eign Atalanta Schiffahrtsgesellschaft GmbH & Co. í Hamborg, strandaði á leið til Íslands 5. mars 1997 á Háfsfjöru austan Þjórsár. Allar vörur í skipinu voru fluttar á vegum Hf. Eimskipafélags Íslands, sem hafði það til ráðstöfunar í skjóli tímabundins farmsamnings við eiganda þess. Endanlegur ákvörðunarstaður flestra vörusendinga, sem voru um borð í skipinu, mun hafa verið íslensk höfn. Ekki tókst að bjarga skipinu af strandstað og rak mikið brak úr því og farmi þess á land. Svo sem síðar verður nánar vikið að var farmur, sem bjargað var af fjörum og úr skipinu, fluttur til Reykjavíkur.
Stefndi, sem er gagnkvæmt vátryggingafélag skipseigenda, hafði tekið að sér ábyrgðartryggingu (svonefnda Protection & Indemnityvátryggingu) vegna rekstrar skipsins. Eftir strandið kom stefndi fram fyrir hönd skipseiganda gagnvart íslenskum yfirvöldum og Hf. Eimskipafélagi Íslands.
Sýslumaðurinn á Hvolsvelli gerði strax ráðstafanir til að tryggja öryggi skips og farms eftir því sem kostur var. Jafnframt greip hann til annarra aðgerða, sem taldar voru nauðsynlegar vegna strandsins. Samkvæmt greinargerð sýslumanns 10. mars 1997 lá fljótlega fyrir að vátryggjandi skipsins og aðrir, sem hagsmuna áttu að gæta vegna þess og farmsins, hygðust grípa til björgunarráðstafana. Svo sem greinir í héraðsdómi segir í skýrslu sýslumanns að hann hafi óskað þess að „viðkomandi aðilar ábyrgist greiðslu alls kostnaðar sem hljótast mun af björgunaraðgerðum þ.m.t. löggæslukostnaðar, eins og skylt er skv. 2. mgr. 7. gr. laga nr. 42/1926“ um skipströnd og vogrek. Einnig vísaði sýslumaður í skýrslunni til ábyrgðar, sem hvíldi á lögreglustjóra eftir 3. mgr. 7. gr. sömu laga og að farmur og skipið væru að veði til tryggingar öllum kostnaði, er af strandi leiddi, sbr. 20. gr. laganna.
Alllangur tími leið þar til tókst að koma á samningum á grundvelli laga nr. 42/1926 um viðunandi tryggingar og aðgerðir til björgunar. Hinn 9. apríl 1997 undirritaði stefndi ábyrgðaryfirlýsingu til handa sýslumanninum á Hvolsvelli. Í héraðsdómi er rakið aðalefni yfirlýsingarinnar eins og hún hljóðar í þýðingu löggilts skjalaþýðanda. Svo sem fram kemur þar ábyrgðist stefndi gagnvart sýslumanninum á Hvolsvelli að eigandi Víkartinds „virði lagalega skyldu sína til þess að greiða kostnað íslenskra stjórnvalda vegna strands fyrrnefnds skips.“ Í enskri gerð yfirlýsingarinnar er hið síðastnefnda orðað þannig: „guarantee ... the honouring by the owner of ms „Vikartindur“ of its legal duty to pay the costs of Icelandic Authorities caused by the grounding of the above mentioned vessel.“ Síðar í yfirlýsingunni segir að stefndi samþykki að endurgreiða til sýslumannsins kostnað, allt að 30.000.000 krónur, sem nánar tilgreind íslensk stjórnvöld kunna að verða fyrir vegna strandsins og fjarlægingar farms og braks við suðurströnd Íslands. Er krafa áfrýjanda reist á því að hann sé skuldbundinn á grundvelli ábyrgðaryfirlýsingar þessarar. Ágreiningslaust er að enski texti yfirlýsingarinnar sé rétt þýddur á íslensku í öllum atriðum, sem máli skipta.
Áfrýjandi vísar einnig til samnings, sem eigandi Víkartinds gerði við sýslumanninn 30. maí 1997 um björgunaraðgerðir, þar sem meðal annars kemur fram, að þegar farmi og gámum hafi verið bjargað úr skipinu skuli afhenda þá Hf. Eimskipafélagi Íslands til vörslu fyrir hönd sýslumanns og góssið skuli síðan án tafar flutt á athafnasvæði félagins í Reykjavík. Ennfremur segir í samningnum að sýslumaður skuli sjá um samfellda vöktun allan sólarhringinn á strandstað gegn sanngjörnu gjaldi, sem eigandi skipsins greiði. Þá eru í samningnum ákvæði um meðferð farms eftir björgun og skilyrði fyrir því að farmur og gámar verði afhentir eigendum. Loks er kveðið svo á, að ef eigandi farms eða gáma úr skipinu óski ekki afhendingar, skuli góssinu ráðstafað með opinberu uppboði í samræmi við íslensk lög.
II.
Stefndi andmælir kröfum áfrýjanda í fyrsta lagi á þeim grundvelli að ábyrgð samkvæmt yfirlýsingunni 9. apríl 1997 sé fallin niður vegna þess að kröfum hafi ekki verið lýst innan tímamarka hennar.
Um gildistíma ábyrgðarinnar segir svo í yfirlýsingunni: „Við útgáfu yfirlýsingar Hollustuverndar ríkisins að lokið hafi verið, á ásættanlegan hátt og í samræmi við íslensk lög, að fjarlægja brak úr ms Vikartindi, sem borist hefur til strandar á starfssvæði Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, fellur ábyrgð þessi úr gildi, eða eigi síðar en tveimur árum eftir dagsetningu hennar.”
Áfrýjandi byggir á því að allar kröfur hans hafi í síðasta lagi verið settar fram við stefnda 21. desember 1998. Þá ritaði sýslumaðurinn á Hvolsvelli bréf til lögmanns, sem frá upphafi hefur verið umboðsmaður stefnda hér á landi varðandi málefni vegna strands Víkartinds 5. mars 1997. Í bréfinu kemur meðal annars fram að sýslumaður sendir lögmanninum frumrit reiknings Hf. Eimskipafélags Íslands frá 11. nóvember 1998 að fjárhæð 4.707.628 krónur og reiknings Sorpu bs. að fjárhæð 1.226.650 krónur og segist vænta þess að „reikningum þessum verði komið út úr heiminum svo fljótt sem unnt er.“ Telja verður að í þessu orðalagi hafi falist nægilega skýr krafa um greiðslu. Þykir sýslumaður því með bréfinu hafa gert stefnda fullljóst fyrir lok ábyrgðartímans 9. apríl 1999 að hann myndi gera ábyrgðina gildandi.
Einnig bendir áfrýjandi á að reikningi Könnunar ehf. að fjárhæð 1.108.806 krónur, sem var meðal kostnaðar, er áfrýjandi greiddi Hf. Eimskipafélagi Íslands, hafi verið komið á framfæri þegar hinn 19. nóvember 1997. Reikningur þessi var umdeildur, en umboðsmanni stefnda hér á landi mátti á þessum tíma vera ljóst að sýslumaður taldi að stefnda bæri að greiða reikninginn. Verður síðar gerð nánari grein fyrir efni og tilurð þessa reiknings Könnunar ehf.
Þótt nákvæm greinargerð um kröfur sýslumanns vegna áfrýjanda hafi ekki komið fram fyrr en eftir að stefndi fékk bréfið frá 21. desember 1998 getur það ekki leitt til þess að réttur áfrýjanda falli niður, enda hlaut stefnda að vera kunnugt um að hann yrði krafinn um kostnaðinn á grundvelli ábyrgðaryfirlýsingarinnar frá 9. apríl 1997. Er því hafnað þeim mótbárum stefnda, sem reistar eru á því að áfrýjandi hafi ekki sett kröfur fram í tæka tíð. Ekki er heldur fallist á þau rök stefnda að skýra beri ábyrgðaryfirlýsinguna svo að réttur áfrýjanda til endurgreiðslu sé háður því að sýslumaður hafi lagt út hinn umdeilda kostnað innan tveggja ára gildistíma yfirlýsingarinnar. Að þessu virtu gerist ekki þörf á að taka afstöðu til röksemda varðandi tímamörk, sem tengjast því hvenær hreinsun braks af fjörum lauk.
III.
Höfuðstóll kröfu áfrýjanda að fjárhæð 9.446.981 króna er tvíþættur. Í fyrsta lagi er krafist endurgreiðslu á kostnaði, sem sýslumaðurinn á Hvolsvelli greiddi Hf. Eimskipafélagi Íslands 17. apríl 2000 að fjárhæð 7.708.035 krónur. Í þessari fjárhæð felast bæði geymslugjöld vegna farms, sem félagið annaðist í kjölfar strandsins, en ekki var sóttur af eigendum eða viðtakendum hans og kostnaður vegna losunar gáma og skoðunar á vöru samkvæmt áðurnefndum reikningi Könnunar ehf. Í öðru lagi krefst áfrýjandi endurgreiðslu á 1.738.946 krónum, sem sýslumaðurinn greiddi Sorpu bs. 25. apríl 2000 vegna förgunar skemmdra vörusendinga. Í fjárhæðum þessum eru innifaldir dráttarvextir og innheimtu- og málskostnaður lögmanna Hf. Eimskipafélags Íslands og Sorpu bs. Fyrir Hæstarétti var því lýst yfir að ekki væri tölulegur ágreiningur í málinu.
Stefndi hefur mótmælt kröfum áfrýjanda meðal annars með þeim rökum að útgjöld vegna skoðunar farms, geymslugjalda og förgunar geti ekki talist björgunarkostnaður í skilningi laga nr. 42/1926 og af þeim sökum falli útgjöldin ekki undir ábyrgð stefnda eftir ábyrgðaryfirlýsingunni 9. apríl 1997. Hvað sem líður skýringu á lögum nr. 42/1926 er á það að líta að orðalag yfirlýsingarinnar er víðtækara en svo að hún einskorðist við björgunarkostnað í þeirri þröngu merkingu, sem haldið er fram af stefnda, en í yfirlýsingunni felst eins og áður er komið fram að stefndi ábyrgist að skipseigendur virði lagalega skyldu sína til að greiða kostnað íslenskra stjórnvalda vegna strands Víkartinds. Teljast útgjöld vegna réttmætra aðgerða á vegum sýslumanns í því skyni að tryggja varðveislu farms og örugga ráðstöfun hans til réttra aðila eftir brottflutning af strandstað tvímælalaust til kostnaðar vegna strandsins, sem stefndi ber ábyrgð á eftir ábyrgðaryfirlýsingunni. Verður því ekki fallist á framangreind rök stefnda. Stefndi hefur einnig bent á til stuðnings máli sínu, að umræddur kostnaður komi ekki til niðurjöfnunar eftir reglum um sameiginlegt sjótjón. Þeirri viðbáru verður að vísa á bug, þar sem skilyrði þeirra reglna fyrir skyldu til að greiða sjótjónsframlag eru ekki þau sömu og skilyrði greiðsluskyldu stefnda á grundvelli ábyrgðaryfirlýsingar hans. Verður nú nánar vikið að einstökum liðum í kröfu áfrýjanda.
IV.
1. Geymslugjöld Hf. Eimskipafélags Íslands vegna farms, er eigendur sóttu ekki
Í mars og apríl 1997 óskaði sýslumaðurinn á Hvolsvelli þess að Hf. Eimskipafélag Íslands annaðist vörslur alls góss, sem félli til úr Víkartindi eftir strandið. Einnig mæltist sýslumaður til að félagið tæki að sér í umboði hans flutning farmsins af Háfsfjöru til Reykjavíkur og varðveitti þær þar, sbr. bréf sýslumanns 11. mars og 8. apríl 1997. Varð félagið við þessum tilmælum. Telja verður að sýslumaður hafi haft heimild til þessa samkvæmt meginreglum laga nr. 42/1926, sbr. meðal annars 7. og 8. gr. þeirra. Verður og talið að þessar ráðstafanir sýslumanns hafi verið eðlilegar í ljósi allra aðstæðna, en á þeim tíma höfðu engir samningar náðst við þann, sem ábyrgð bar á strandinu. Í framangreindum björgunarsamningi 30. maí 1997 var sú skipan staðfest að Eimskipafélagið sæi um þessa þætti björgunaraðgerða og umönnun farms í beinu framhaldi af þeim, eins og áður var vikið að. Kostnaður vegna geymslugjalda af ósóttum farmi, sem félagið annaðist að beiðni sýslumannsins í kjölfar strandsins, er því á ábyrgð stefnda hvort sem litið er til ákvæða laga nr. 42/1926, sbr. einkum 2. mgr. 7. gr. þeirra, eða ábyrgðaryfirlýsingarinnar 9. apríl 1997, sbr. björgunarsamninginn 30. maí 1997. Verður því ekki fallist á þá almennu viðbáru stefnda að skuldbinding hans taki ekki til geymslugjalda. Öðru máli kann að gegna hvort krafa til endurgreiðslu á slíkum kostnaði geti lækkað eða fallið niður, t.d. á grundvelli reglna um skyldu kröfuhafa til að draga úr tjóni.
Upphaflegur höfuðstóll geymslugjaldakröfu Hf. Eimskipafélags Íslands nam 7.071.083 krónum samkvæmt reikningi 22. september 1998. Frá honum dró félagið samtals 2.363.455 krónur samkvæmt tveimur kreditnótum dagsettum sama dag. Eftir málflutningi áfrýjanda fyrir Hæstarétti felast í nótum þessum endurgreiðslur vegna geymslugjalda af vörum, sem viðtakendur sóttu og greiddu þess vegna geymslugjöld af til Eimskipafélagsins. Höfuðstóll kröfu félagsins fyrir geymslu ósóttra vara nam því 4.707.628 krónum nettó. Samkvæmt skrá, sem fylgdi reikningnum, virðist hér vera um að ræða 75 vörusendingar. Skráin ber með sér geymslukostnað hverrar sendingar fyrir sig og er samtala kostnaðarins 7.071.083 krónur, sem er sama fjárhæð og upphaflegur höfuðstóll reikningsins 22. september 1998. Af skránni verður ekki séð hvað af einstökum sendingum varð að loknum geymslutíma hjá Hf. Eimskipafélagi Íslands. Þó er ljóst af því, sem áður greinir um frádrátt vegna kostnaðar af sóttum vörum, að einhverjar af vörusendingum þessum komust í hendur réttra viðtakenda. Öðrum sendingum virðist ýmist hafa verið fargað eða þær seldar nauðungarsölu á uppboðum, sem sýslumaðurinn í Reykjavík hélt 13. júní 1998 og 15. maí 1999.
Stefndi mótmælir kröfulið þessum með vísun til þess að látið hafi verið hjá líða að halda til streitu kröfu á hendur viðtakendum ósótts farms um að þeir greiddu geymslukostnað. Auk þess hafi orðið óeðlilegur dráttur á að bjóða vörurnar upp og hafi það leitt til lengri geymslutíma og aukins geymslukostnaðar.
Málsgögn um tilkynningar eða áskoranir frá Eimskipafélaginu og sýslumanninum á Hvolsvelli til eigenda ósóttra vörusendinga eru óglögg og ófullnægjandi. Sama á við um aðgerðir, er kunna að hafa verið gerðar til að innheimta hin umdeildu geymslugjöld hjá viðtakendum varnings, sem ekki var vitjað. Í málinu nýtur ekki við gagna um geymslutíma hverrar vörusendingar fyrir sig og upplýsingar skortir um hvenær telja mátti tímabært að farga eða leita nauðungarsölu á einstökum sendingum. Að þessu virtu er málið að þessu leyti svo vanreifað af hendi áfrýjanda að vísa verður kröfu hans um geymslugjöld sjálfkrafa frá héraðsdómi.
2. Förgunarkostnaður Sorpu bs.
Krafa vegna kostnaðar við förgun vöru úr skipinu styðst við reikning Sorpu bs. 31. október 1998 að fjárhæð 1.226.650 krónur vegna förgunar í maí 1998. Reikninginn greiddi sýslumaður 25. apríl 2000 með dráttarvöxtum og innheimtuþóknun eða alls 1.738.946 krónum. Stefndi mótmælir þessum kröfulið meðal annars með vísun til seinagangs við innheimtutilraunir og þess að þau mistök hafi orðið, að ekki hafi verið sundurgreindur kostnaður vegna förgunar einstakra vörusendinga. Þessi mistök hafi girt fyrir að unnt væri að endurkrefja kostnaðinn hjá einstökum farmeigendum, sem hafi verið hinir réttu greiðendur. Auk þess hafi tafir á ráðstöfun viðkvæms farms, svo sem matvöru, leitt til þess að eyða hafi þurft ýmsum vörum, sem ella hefði mátt selja og komast þannig hjá eyðingar- og geymslukostnaði.
Tollstjórinn í Reykjavík annaðist skipulag förgunar skemmdrar vöru, sbr. 7. mgr. 111. gr. tollalaga nr. 55/1987. Áfrýjandi kveður matvöru, sem ekki var talin hæf til neyslu, hafa verið eytt undir eftirliti tollvarða. Hafi förgunin að mestu farið fram í lok maí og byrjun júní 1998. Á fyrrnefndum reikningi Sorpu bs. 31. október 1998 eru taldar þessar vörur, sem fargað var: Timbur, grófur úrgangur, blandaður úrgangur A, blandaður úrgangur B, „farmur 8000 kg í Álfsnes“ og „Eftirlitssk. úrg. ódælanlegur.“ Reikningnum fylgir sundurliðun, sem tekur til 32 vörusendinga, sem virðist hafa verið eytt verið á tímabilinu frá 6. til 29. maí 1998. Frekari sundurgreiningar nýtur ekki við og eigi er greint frá viðtakendum vörusendinganna.
Af málsskjölum verður ráðið að nokkurs seinlætis hafi gætt um að ráðstafa ónýtum, heilsuspillandi eða hættulegum farmi, en heimildir um það eru engan veginn fullnægjandi. Ekki liggur fyrir í málinu vitneskja um geymslutíma hverrar vörusendingar um sig og heimildir vantar um hvenær tímabært var að eyða einstökum sendingum. Eru því gögn um hinn umdeilda förgunarkostnað að nokkru sama marki brennd og upplýsingar um geymslukostnað. Ennfremur skortir fullnægjandi greinargerð um ráðstafanir til fá viðtakendur ónýts varnings eða varnings, sem lá undir skemmdum, til að sækja hann og eftir atvikum að krefja viðtakendur um greiðslu förgunarkostnaðar.
Samkvæmt því, sem hér hefur verið rakið, er þessi liður í dómkröfu áfrýjanda ekki studdur viðhlítandi gögnum og verður kröfunni um förgunarkostnað því vísað sjálfkrafa frá héraðsdómi.
3. Kostnaður Könnunar ehf.
Krafa um endurgreiðslu á kostnaði, sem greiddur var Könnun ehf., á stoð í reikningi félagsins til Hf. Eimskipafélags Íslands 30. júlí 1997 að fjárhæð 1.108.806 krónur. Þessi kostnaður Könnunar ehf. var meðal þess, sem sýslumaðurinn á Hvolsvelli greiddi Hf. Eimskipafélagi Íslands 17. apríl 2000 eins og áður var rakið. Reikningur Könnunar ehf. er fyrir vinnu félagsins „við losun gáma og forskoðun“ á vöru, sem losuð var úr þeim í apríl og maí 1997, en afhending vörusendinga til viðtakenda mun hafa byrjað skömmu eftir að losun skipsins hófst um miðjan apríl 1997. Í reikningnum segir og að gámarnir hafi verið losaðir í Sundahöfn á vörusvæði Hf. Eimskipafélags Íslands „eftir því sem gámar bárust austan frá Háfsfjöru eftir strand“ Víkartinds.
Um verkefni Könnunar ehf. vegna strandsins liggur fyrir bréf félagsins til sýslumannsins á Hvolsvelli 5. desember 1997. Þar segir meðal annars: „Eimskip bað um að við hefðum mann á Háfsfjöru allan tímann sem þar var unnið og að auki á öðrum tímum ef um breytingu væri að ræða á skipi, farmi eða veðri. ... Í öðru lagi bað Eimskip um að maður eða menn frá Könnun yrðu staðsettir í Sundahöfn þegar varningur færi að berast frá Háfsfjöru og viðstaddir þegar gámar væru tæmdir og varningi komið í öruggt skjól. Í þriðja lagi bað Garðar Briem hdl. okkur um að meta og þá með eigendum og tollvörðum, eftir atvikum, alla vöru sem verið væri að leysa út og fylla út þar til gert eyðublað (Guarantee) með þeirri tölu ... sem við teldum vera raunhæft CIF verð eftir mismunandi hrakninga. Þessu verki er enn ekki lokið, því alltaf öðru hvoru berst beiðni um mat á vöru, sem verið er að leysa út. Í fjórða lagi bað Eimskip okkur um að skrifa stutta skýrslu á ensku um hverja sendingu fyrir sig, sem við og gerðum og erum enn að, eftir því sem varan er leyst út.“ Að verkefnum Könnunar ehf. er einnig vikið í bréfi Hf. Eimskipafélags Íslands til sýslumanns 11. maí 1999. Kemur þar fram að starfsmenn Könnunar ehf. hafi þegar nokkuð var liðið frá strandinu annast skoðun á strandgóssi í Sundahöfn.
Í málinu liggja fyrir nokkrir aðrir reikningar fyrir vinnu Könnunar ehf. Annars vegar fjórir reikningar samtals að fjárhæð 1.782.902 krónur fyrir viðveru og þjónustu félagsins í apríl, maí, júní og júlí 1997 „vegna mats á vörum úr Víkartindi, sem fluttar voru af strandstað til Reykjavíkur“. Leggja verður til grundvallar að þessir reikningar séu fyrir þjónustu, sem Könnun ehf. telur í bréfinu 5. desember 1997 að veitt hafi verið við mat „með eigendum og tollvörðum“ að beiðni umboðsmanns stefnda. Hins vegar er reikningur að fjárhæð 33.239 krónur vegna sýnatöku og mælingar á olíu úr Víkartindi í október 1997. Þessa fimm reikninga greiddi stefndi og deila málsaðilar ekki um þá. Auk þess er komið fram að Hf. Eimskipafélag Íslands greiddi Könnun ehf. fyrir ýmis verk, sem sýslumaður var ekki krafinn um greiðslu fyrir. Af þessu og öðrum málsgögnum er sýnt að Könnun ehf. sinnti margþættum verkefnum í kjölfar strandsins.
Starfsmenn Könnunar ehf. voru kallaðir til með vitneskju íslenskra stjórnvalda vegna hins sérstaka ástands, sem upp kom vegna strandsins og nauðsynlegra ráðstafana í framhaldi af því, meðal annars sundurgreiningar á heilum, skemmdum og ónýtum varningi. Verður að ætla að athugun á umfangi og eðli skemmda á farminum hafi krafist vinnu, sem var mun meiri en verið hefði, ef skipið hefði verið affermt á venjulegan hátt á umsömdum ákvörðunarstað. Hefur stefndi ekki sýnt fram á að útgjöld áfrýjanda vegna vinnu „við losun gáma og forskoðun“ á vörum, sem Könnun ehf. fékk greiðslu fyrir vegna apríl og maí 1997 samkvæmt áðurnefndum reikningi að fjárhæð 1.108.806 krónur, verði ekki talinn eðlilegur kostnaður stjórnvalda vegna strandsins. Ræður hér ekki úrslitum að vinna starfsmanna Könnunar ehf. kann að einhverju leyti að hafa nýst öðrum, en leitt er í ljós samkvæmt framansögðu að Könnun ehf. beindi kröfum vegna annars kostnaðar að stefnda og Hf. Eimskipafélagi Íslands og fékk hann greiddan. Verður því tekin til greina krafa áfrýjanda vegna umrædds reiknings Könnunar ehf. að fjárhæð 1.108.806 krónur.
V.
Sýslumaðurinn á Hvolsvelli greiddi Hf. Eimskipafélagi Íslands kostnað Könnunar ehf. með 1.108.806 krónum 17. apríl 2000 ásamt geymslukostnaði að fjárhæð 7.071.083 krónur eða alls 8.179.889 krónur að viðbættum dráttarvöxtum og innheimtukostnaði samtals að fjárhæð 2.023.992 krónur, en að frádregnum „afslætti” samkvæmt framangreindum kreditnótum að fjárhæð 2.363.455 krónur og afslætti að fjárhæð 132.391 krónu eða samtals 2.495.846 krónum. Nam heildargreiðsla sýslumannsins því 7.708.035 krónum eins og fram kemur í III. kafla. Engar skýringar hafa verið gefnar á síðastgreindum afslætti og ekki hefur verið gerð grein fyrir hvernig dráttarvextir og innheimtukostnaður skiptist á þá tvo kröfuliði, sem felast í höfuðstólnum 8.179.889 krónum. Að svo vöxnu máli þykir rétt að dæma stefnda til að greiða áfrýjanda kröfu hans vegna þjónustu Könnunar ehf. að fjárhæð 1.108.806 krónur ásamt dráttarvöxtum frá 1. maí 2000 eins og nánar segir í dómsorði.
Rétt er að stefndi greiði áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Vísað er frá héraðsdómi kröfum áfrýjanda, íslenska ríkisins, á hendur stefnda, Standard Steamship Owners´ Protection & Indemnity Association (Europe) Ltd., vegna kostnaðar við geymslu og förgun farms úr flutningaskipinu Víkartindi.
Stefndi greiði áfrýjanda 1.108.806 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt vaxtalögum nr. 25/1987 frá 1. maí 2000 til 1. júlí 2001, en frá þeim degi til greiðsludags dráttarvöxtum eftir 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Stefndi greiði áfrýjanda samtals 500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. október 2001.
Mál þetta var höfðað 8. september 2000 og dómtekið 5. þ.m.
Stefnandi er íslenska ríkið og höfðar dóms- og kirkjumálaráðherra málið fyrir hönd þess.
Stefndi er Standard Steamship Owners P&I Association Europe Ltd., St. Katharine´s Way, London, Englandi.
Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 10.730.585 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. maí 2000 til 1. júlí 2001 en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Hann krefst einnig málskostnaðar úr hendi stefnda.
Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda en til vara verulegrar lækkunar. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar.
I
Þann 5. mars 1997 strandaði flutningaskipið m/s Vikartindur á Háfsfjöru í Rangárvallasýslu. Skipið var í eigu þýska skipafélagsins Atalanta Schiffahrts Gesellschaft mbH en á tímaleigu á vegum Hf. Eimskipafélags Íslands (hér á eftir nefnt Eimskipafélagið). Stefndi var ábyrgðartryggjandi (P&I klúbbur) skipsins. Á strandstað lá skipið nánast á hliðinni og vissi mót hafi. Féllu margir gámar af þilfarinu og þurfti m.a. að banna um tíma umferð um Þykkvabæjar- og Háfsfjörur meðan björgunarsveitir söfnuðu saman hættulegum efnum.
Í greinargerð sýslumanns Rangárvallasýslu vegna strandsins, dags. 10. mars 1997, segir að frá því er óviðkomandi umferð inn á svæðið hafi verið bönnuð að morgni 7. mars hafi ástand verið viðunandi og góður vinnufriður á strandstað til björgunaraðgerða. Frá upphafi hafi legið fyrir að Eimskipafélagið og/eða tryggingafélag skipsins myndu ætla að gera eigin ráðstafanir til að bjarga farmi skipsins. Lögreglustjóri hafi því óskað eftir því við Garðar Briem hrl., lögmann útgerðar skipsins og vátryggjanda, að viðkomandi aðilar ábyrgðist greiðslu alls kostnaðar sem hljótast muni af björgunaraðgerðum, þ.m.t. löggæslukostnaðar, eins og skylt sé samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laga um skipströnd og vogrek nr. 42/1926. Þar sem sú trygging hafi enn ekki verið sett líti lögreglustjóri svo á að farmur skipsins sé enn á ábyrgð sinni, sbr. 3. mgr. 7. gr. sömu laga. Jafnframt sé farmurinn og skipið að veði framar öllum öðrum höftum, sem á þeim kunni að hvíla, til tryggingar öllum þeim kostnaði, sem af strandi leiði og áfallinn sé vegna beinna afleiðinga af því, sbr. 20. gr. laga nr. 42/1926. Þó hafi verið látið óátalið að Eimskipafélagið flytti nokkra gáma, sem skolað hafi á land á strandstað, til Reykjavíkur enda sé enn svo stór hluti farmsins um borð að nægi til greiðslu alls kostnaðar. Gámar þessir hafi verið skoðaðir og innsiglaðir af tollvörðum, sem hafi verið á vakt á strandstað alla daga frá og með 6. mars, í samræmi við ákvæði 15. gr. laga nr. 42/1926.
Í bréfi sýslumanns Rangárvallasýslu 11. mars 1997 til Eimskipafélagsins er vísað til ábyrgðar lögreglustjóra samkvæmt lögum nr. 42/1926. Þá segir að með því að munnlega hafi svo um samist að félagið taki við vörslum á þegar brottfluttu góssi úr skipinu sé þess farið á leit að það annist vörslur alls þess góss sem til falli úr strandi m/s Vikartinds í Reykjavík.
Á fundi 24. mars 1997, þar sem mætt var af hálfu sýslumanns Rangárvallasýslu, dómsmálaráðuneytis, umhverfisráðuneytis, Hollustuverndar og útgerðar og vátryggjanda m/s Vikartinds, voru gerð drög að samkomulagi sem miðaði að því m.a. að stefndi tæki að sér björgun farms og skips og hreinsun rusls sem rekja mætti til strandsins
Í bréfi Eimskipafélagsins 2. apríl 1997 til sýslumanns Rangárvallasýslu segir að þar sem eigendur og/eða vátryggjendur m/s Vikartinds muni ekki hafa gengið formlega frá samningi við sýslumannsembættið á grundvelli 7. gr laga nr. 42/1926 um yfirtöku björgunar á skipi og góssi sé málið enn í höndum embættisins. Félagið fer þess á leit við sýslumannsembættið að það tryggi að afhending farms fari ekki fram fyrr en móttakandi hafi sýnt fram á eignarrétt sinn yfir vörunni og að félagið hafi fengið farmgjöld og annan áfallinn kostnað í tengslum við vöruna að fullu greiddan. Þá er minnt á að Eimskipafélagið eigi ýmist eða hafi á leigu langflesta gáma, sem með skipinu hafi verið, og því sé óheimilt að ráðstafa þeim án heimildar þess.
Með bréfi sýslumanns Rangárvallasýslu 8. apríl 1997 til Eimskipafélagsins eru sett fram þau eindregnu tilmæli að félagið taki að sér, í umboði hans sem lögreglustjóra, flutning vörunnar af Háfsfjöru til Reykjavíkur, vörslur hennar þar og samstarf um þær aðgerðir sem fram þurfi að fara. Í bréfinu segir að afstaða embættisins, samkvæmt 1. mgr. 20. gr., sbr. 7. gr., laga nr. 42/1926 og 2. mgr. 156. gr. laga nr. 34/1985, sé sú að vara í vörslum Eimskipafélagsins verði ekki afhent farmeigendum fyrr en sett hafi verið full trygging af hálfu eiganda vörunnar eða vátryggjanda vegna hugsanlegrar hlutdeildar í kostnaði við björgun og hugsanlegrar niðurjöfnunar sjótjóns.
Sýslumanni Rangárvallasýslu var afhent ábyrgðaryfirlýsing stefnda, undirrituð 9. apríl 1997 af forstjóra hans, sem er að meginefni svohljóðandi, í þýðingu löggilts skjalaþýðanda, að “við ábyrgjumst gagnvart sýslumanni Rangárvallasýslu að eigandi MS Vikartinds virði lagalega skyldu sína til þess að greiða kostnað íslenskra stjórnvalda vegna strands fyrrgreinds skips. Íslensk stjórnvöld þau, sem ábyrgð þessi á við um, er lögreglan, tollurinn, heilbrigðis- og mengunareftirlit, og önnur stjórnvöld ríkis eða sveitarfélaga sem koma beint að málefnum skipsins, og verktakar sem starfa á vegum stjórnvalda þessara.
Upphæð ábyrgðar þessarar er kr. 30 milljónir og hér með samþykkjum við að endurgreiða til sýslumanns Rangárvallasýslu allt að fyrrgreindri upphæð, þ.e. kostnað sem fyrrgreind stjórnvöld kunna að verða fyrir vegna strandsins og fjarlægingar farms og braks við suðurstrendur Íslands. Skv. samningi milli eiganda MS Vikartinds og sýslumanns Rangárvallasýslu, sem undirritaður var á fundi á Hvolsvelli þann 24. mars, skal kostnaður þessi greiðast eigi síðar en sjö dögum eftir að eigendum er gerð grein fyrir honum í gegnum lögfræðing okkar á Íslandi, Garðar Briem. Sýslumaður skal leggja fram reikninga með kröfu sinni sem staðfestir hafa verið af yfirmanni viðkomandi stjórnvalds.
Upphæð ábyrgðar þessarar má endurskoða innan 30 daga frá undirritun og á sérhverjum tíma sem báðir aðilar samþykkja að slík endurskoðun verði gerð. Við útgáfu yfirlýsingar Hollustuverndar ríkisins að lokið hafi verið, á ásættanlegan hátt og í samræmi við íslensk lög, að fjarlægja brak úr MS Vikartindi, sem borist hefur til strandar á starfssvæði Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, fellur ábyrgð þessi úr gildi, eða eigi síðar en tveimur árum eftir dagsetningu hennar.
Ágreining, sem rísa kann vegna túlkunar á þessari ábyrgðaryfirlýsingu, skal færa til úrlausnar hjá íslenskum dómstólum eða til þess bærra íslenskra stjórnvalda, skv. íslenskum lögum. Komi til ágreinings samþykkjum við að við getum eigi haldið eftir greiðslum til sýslumanns Rangárvallasýslu. . .”
Losun skipsins hófst um miðjan apríl 1997 og var farmurinn fluttur í vörugeymslur Eimskipafélagsins í Sundahöfn. Að frumkvæði sýslumanns og vegna framlags til björgunarkostnaðar var hver vörusending skoðuð af Könnun ehf.
Samningur var gerður 30. maí 1997 um björgunaraðgerðir varðandi m/s Vikartind milli sýslumanns Rangárvallasýslu og eigenda skipsins. Í 3. gr. hans segir að eigendur samþykki að sjá um losun/björgun alls farms/gáma úr m/s Vikartindi. Þegar farmurinn/gámarnir hafi verið teknir frá borði skipsins skuli afhenda þá Eimskipafélaginu til vörslu f.h. sýslumanns Rangárvallasýslu og skuli farmurinn/gámarnir strax fluttir á athafnasvæði félagsins í Reykjavík. Í 4. gr. segir að eigendum farms/gáma um borð í m/s Vikartindi sé heimilt að hafa samband við Eimskipafélagið varðandi afhendingu farms í þeirra hendur gegn afhendingu bankaábyrgðar og/eða geymslufjár sem skuli nema 60% af cif verðmæti vörunnar. Í 6. gr. segir að óski eigandi farms/gáma úr m/s Vikartindi eigi afhendingar (þrátt fyrir að tilkynningar hafi verið sendar samkvæmt 4. gr. samningsins) skuli farmi/gámum ráðstafað með opinberu uppboði í samræmi við íslensk lög og afrakstur sölunnar renna til sýslumanns Rangárvallasýslu og síðan til niðurjöfnunarmanns sjótjóns.
Í bréfi Garðars Briem hdl. 11. júní 1997 til sýslumanns Rangárvallasýslu greinir frá því að Eimskipafélagið hafi ekki sinnt óskum um samningaviðræður, hvorki fyrir né eftir undirritun framangreinds samkomulag og hunsað samningsuppkast sem sent hafi verið. Bent er á að tímabært sé að senda tilkynningar í samræmi við 6. gr. samkomulagsins til móttakenda farms, þ.e.a.s. bera fram ósk um að þeir sæki vöruna og tilkynna þeim jafnframt að verði hún ekki leyst út verði hún seld á nauðungaruppboði.
Frá því greinir í bréfi lögmanns Eimskipafélagsins 11. júní 1997 til sýslumanns Rangárvallasýslu að þjónusta félagsins hafi verið veitt sýslumannsembættinu m.a. á grundvelli laga nr. 42/1926. Framangreindur samningur sé félaginu óviðkomandi og er ítrekað að embættið sé ábyrgt fyrir öllum kostnaði sem fallinn sé á þá vöru úr m/s Vikartindi sem sé í vörslu félagsins í umboði sýslumanns.
Í bréfi sýslumanns Rangárvallasýslu 19. júní 1997 til Garðars Briem hdl. segir að sá kostnaður, sem til hafi fallið vegna flutnings farms úr m/s Vikartindi svo og vegna geymslu farmsins frá því tímamarki er skipið strandaði og þar til samningur um framkvæmd björgunar skipsins var gerður þ. 30. maí 1997, sé á ábyrgð sýslumannsembættisins gagnvart Eimskipafélaginu, sbr. ákvæði laga nr. 42/1926. Tryggingar þær, sem eigendur farms í skipinu hafi þurft að setja til að geta leyst vörur sínar til síns, standi hins vegar til tryggingar kostnaði embættisins. Sá kostnaður, sem til falli vegna geymslu og flutnings farms úr m/s Vikartindi frá og með 30. maí 1997, sé gagnvart Eimskipafélaginu algjörlega á ábyrgð umbjóðenda lögmannsins, sbr. ákvæði laga nr. 42/1926 og samning um framkvæmd björgunar frá 30. maí 1997. Í lok bréfsins er hvatt til viðræðna lögmannsins og fulltrúa Eimskipafélagsins. Í stefnu greinir frá því að ekki hafi orðið af samningum en eftir að fallist hafi verið á kröfu útgerðarinnar um að geymslugjöld yrðu framvegis innheimt hjá móttakendum farms megi segja að friður hafi komist á.
Í bréfi sýslumanns Rangárvallasýslu 19. september 1997 til Garðars Briem hdl. segir að embættið hafi þ. 22. ágúst s.á. greitt Eimskipafélaginu af geymslufé þrjá reikninga frá 26. júní 1997, samtals að fjárhæð 6.082.803 krónur, vegna geymslu- og vöruafgreiðslugjalda. Um bráðabirgðaráðstöfun hafi verið að ræða þar sem greiða beri greinda fjárhæð af geymslu-/tryggingafé, sett íslenskum stjórnvöldum að upphæð 30 milljónir króna. Var óskað eftir endurgreiðslu fjárhæðarinnar til ráðstöfunar vegna niðurjöfnunar sjótjóna.
Með bréfi Garðars Briem hdl. 16. júlí 1997 til tollstjórans í Reykjavík var leitað eftir því að hann krefðist nauðungarsölu samkvæmt 4. mgr. 111. gr. laga nr. 55/1987 á varningi úr m/s Vikartindi, sem eigendur hefðu hvorki vitjað né leyst út í geymslum í Sundahöfn í Reykjavík, og þá áður en lögmæltur ársfrestur væri liðinn.
Í svarbréfi tollstjórans, dags. 27. nóvember 1997, segir að embætti hans geti ekki fallist á erindi lögmannsins. Jafnframt liggi fyrir af hálfu sýslumanns Rangárvallasýslu að hann telji sig ekki hafa heimildir samkvæmt lögum nr. 42/1926 til þess að krefjast uppboðs á umræddum vörum. Embættið muni hins vegar stuðla að því að varningurinn verði seldur eins fljótt og hægt verði eftir að ársfrestur verði liðinn.
Uppboð á vegum tollstjórans í Reykjavík fór fram 18. júní 1998. Allmargar vörusendingar voru þó ekki boðnar upp vegna þess að opinber gjöld höfðu verið greidd af þeim. Nær allur sá farmur sem var eftir var seldur á uppboði 15. maí 1999 að frumkvæði sýslumanns Rangárvallasýslu á grundvelli laga um skipströnd og vogrek nr. 42/1926.
II
Í málinu krefur stefnandi stefnda um endurgreiðslu reikninga, sem sýslumaður Rangárvallasýslu innti af hendi, til Eimskipafélagsins vegna reikninga útgefinna af félaginu og Könnun ehf., Sorpu og Efnamóttökunni hf.
Í bréfi lögmanns til sýslumanns Rangárvallasýslu, dags. 11. maí 1999, segir að honum hafi verið falið af Eimskipafélaginu að innheimta tvo reikninga á hendur sýslumanni; annan, dags. 25. september 1998, að upphæð 7.071.083 krónur vegna geymslugjalda fyrir ósóttar vörur úr Vikartindi, hinn að upphæð 1.108.806 krónur vegna eftirlits Könnunar ehf. í tengslum við tollafgreiðslu vöru úr Vikartindi og er dagsetning hans 30. júlí 1997.
Í innheimtubréfinu segir að óumdeilt sé að heimildir sýslumanns varðandi afskipti af farminum byggist á lögum um skipströnd og vogrek nr. 42/1926. Einnig sé óumdeilt að björgun og meðferð hans hafi verið í höndum sýslumanns þegar hann hafi sent Eimskipafélaginu beiðni þ. 11. mars og 8. apríl 1997 um að það annaðist geymslu alls þess farms sem kynni að bjargast úr Vikartindi. Með bréfi Eimskipafélagsins, dags. 17. mars 1997, hafi félagið tekið að sér geymslu á farminum á grundvelli þeirra skilmála sem þar sé vísað til. Sýslumaður hafi ekki gert athugasemdir við það, sem fram komi í framangreindu bréfi, og heimilað flutning á farminum í Sundahöfn þar sem Eimskipafélagið hafi tekið við honum til geymslu í umboði sýslumanns. Fram kemur að upphaflegur reikningur vegna geymslugjalda hafi fyrir mistök hljóðað um 17.470.098 krónur en nýr reikningur, að upphæð 7.071.083 krónur dags. 22. september 1998, hafi verið sendur sýslumanni. Tekið er fram að til frádráttar reikningnum komi tveir kreditreikningar, báðir dags. 22. september 1998, annar að upphæð 1.843.023 krónur og hinn að upphæð 520.432 krónur, og sé þar um að ræða leiðréttingu á reikningi, dags. 26. júní 1997 (að upphæð 6.082.803 krónur), sem sýslumaður hafi þegar greitt.
Reikningur Könnunar ehf., dags. 30. júlí 1997, á hendur Eimskipafélaginu er vegna losunar gáma og forskoðunar framkvæmdrar á vörum úr þeim á vörusvæði Eimskipafélagsins í Sundahöfn í apríl og maí 1997. Í innheimtubréfinu segir að í fyrstu hafi starfsmenn ríkistollstjóra séð um þessa skoðun. Fljótlega hafi komið í ljós að hann hafi ekki haft mannskap til að vera við tæmingu gámanna og framkvæma vöruskoðunina og hafi mál skipast á þann veg að Eimskipafélagið hafi beðið Könnun ehf. að sjá um hana enda hafi hlutverk félagsins verið að sjá til þess í umboði sýslumanns að farið yrði að lögum við meðferð á vörunum í samráði við ríkistollstjóra. Segir í bréfinu að “Eimskip greiddi að lokum reikning Könnunar hf. fyrir þessi störf og er með framangreindum reikningi að endurkrefja sýslumann um þann kostnað.”
Greiðslu reiknings Könnunar ehf. er neitað með bréfi sýslumanns Rangárvallasýslu 9. desember 1997 til Eimskipafélagsins. Í bréfi sýslumanns til Garðars Briem hdl. 24. mars 1998 er leitað svars sem fyrst um kröfuna. Höfnun sýslumanns á greiðslu reikningsins er ítrekuð í bréfi hans til Eimskipafélagsins 14. september 1998. Að auki er þar mótmælt frekari reikningum vegna geymslugjalda en legið hafi fyrir í júlí 1997 (þ.e. 6.082.803 krónur).
Með bréfi 21. desember 1998 sendi sýslumaður Rangárvallasýslu Garðari Briem hdl. frumrit þessara reikninga: Sorpa, dags. 31. október 1998, að upphæð 1.226.650 krónur vegna förgunar úr Vikartindi í maí 1998, Heilbrigðiseftirlit Suðurlands 4.867 krónur og Eimskipafélagið, dags. 11. nóvember 1998, 4.707.628 krónur (7.071.083 kr. 520.432 kr. 1.843.023 kr.). Um reikning Eimskipafélagsins er tekið fram að sjónarmið niðurjöfnunarmanns sjótjóns um að ekki beri að greiða hann að fullu sé embættinu óviðkomandi og segir í niðurlagi bréfsins að þess sé vænst að reikningunum verði komið út úr heiminum svo fljótt sem unnt sé. Með bréfi sýslumanns 30. desember 1998 til lögmanns Eimskipafélagsins er reikningi Könnunar ehf. enn andmælt. Með bréfi, dags. 4. mars 1999, til lögmanns Eimskipafélagsins gerir Garðar Briem hdl. grein fyrir þeirri afstöðu sinni að neita að greiða reikning Könnunar ehf. og reikning Eimskipafélagsins vegna geymslugjalda. Í bréfi lögmanns Eimskipafélagsins til sýslumanns Rangárvallasýslu 25. júní 1999 er um það vísað til samkomulags embættisins og félagsins þ. 12. maí 1999 og fundar þ. 31. s.m. að óumdeilt sé að sýslumanni beri að greiða Eimskipafélaginu reikninga fyrir geymslugjöldum vegna ósóttra vara úr Vikartindi og kostnað Könnunar ehf. vegna eftirlits í tengslum við tolleftirlit vöru úr skipinu.
Í símbréfi sýslumanns Rangárvallasýslu, sem sent var Eimskipafélaginu 31. janúar 1999, segir að ætlunin sé að senda eigendum varnings, sem sé talinn ónýtur, bréf um að þeir verði þá þegar að sækja varninginn og láta farga honum á eigin kostnað en að öðrum kosti verði varningnum fargað og þeim sendur reikningur vegna förgunarkostnaðar. Hvað varðar þann varning, sem talinn hafi verið söluhæfur, þurfi að senda móttakendum áskorun um að sækja vöruna og greiða af henni geymslukostnað jafnfram því sem þeir verði að leggja fram tryggingu með sama hætti og aðrir vörueigendur hafi gert. Verði varan ekki sótt verði hún boðin upp án frekari fyrirvara. Þá liggur frammi í málinu afrit bréfs sýslumanns til viðtakanda vöru úr Vikartindi sem er sögð liggja enn ósótt í vörslum Eimskipafélagsins. Skorað er á viðtakandann að fjarlægja vöruna úr geymslum fyrir 1. mars 1999 og greiða geymslugjald. Að öðrum kosti muni förgun fara fram og hann verða krafinn um þann kostnað sem af því hljótist ásamt áföllnum geymslukostnaði.
Sýslumaður Rangárvallasýslu greinir Sorpu frá því í bréfi 17. febrúar 1999 að embættið telji sér ekki skylt að greiða reikning fyrirtækisins. Í bréfi sýslumanns til Sorpu 19. mars 1999 segir að um allnokkuð skeið hafi staðið þref um það hverjum beri að greiða reikninginn og er fyrirtækið beðið um að sýna biðlund enn um sinn. Hver sem niðurstaðan verði sé ljóst að gera verði tilraun til að innheimta kostnað hjá móttakendum vörunnar.
Frammi liggja beiðnir Eimskipafélagsins, dags. 25. og 28. maí 1999, um förgun vörusendinga undir tolleftirliti og skuli kostnaður, sem af förguninni leiði, innheimtur hjá sýslumanninum á Hvolsvelli. Efnamóttakan hf. annaðist eyðingu efnavöru. Reikningar fyrirtækisins á hendur sýslumanni eru dagsettir 31. maí 1999.
Sýslumaðurinn í Rangárvallasýslu greiddi reikninga Eimskipafélagsins vegna geymslugjalda svo og vegna kostnaðar Könnunar ehf. 17. apríl 2000 með 7.708.035 krónum, og 25. apríl 2000 greiddi hann reikning Sorpu með 1.738.946 krónum og eftirstöðvar reikninga Efnamóttökunnar hf. 920.436 krónur en áður höfðu verið greiddar 363.168 krónur eða samtals 1.283.604 krónur.
Í bréfi sýslumannsins í Rangárvallasýslu til Garðars Briem hdl. 1. júní 1999 segir að hann eigi engra annarra kosta völ til þess að ljúka Vikartindsmálinu, eins og lögmanninum eigi að hafa verið ljóst sl. sex mánuði, en að kalla eftir því að ábyrgðin, sem tryggingafélag skipsins lagði fram, dags. 9. apríl 1997, verði gerð virk. Grundvöllur sé fyrir málshöfðun á hendur umbjóðendum lögmannsins virði þeir ekki ákvæði ábyrgðarinnar en þar sé skýrt kveðið á um að þeir getið ekki haldið eftir greiðslum í tilvikum ágreinings.
III
Stefnandi reisir kröfu sína á því að stefndi sé bundinn við ábyrgðaryfirlýsingu frá 9. apríl 1997 og beri því að greiða sér 10.730.585 krónur sem sýslumaðurinn í Rangárvallasýslu hafi þurft fyrir hönd íslenskra yfirvalda að leggja út vegna geymslu og ráðstöfunar á farmi m/s Vikartinds. Yfirlýsingin kveði afdráttarlaust á um að stefnda sé skylt að inna af hendi greiðslu jafnvel þótt ágreiningur sé um réttmæti kröfu.
Krafa stefnanda er þannig sundurliðuð:
1. Geymslureikningur Eimskipafélagsins og reikningur Könnunar ehf., samtals að upphæð 7.708.035 krónur. Með samkomulagi stefnanda við þýska útgerð Vikartinds og stefnda 30. maí 1997 hafi orðið að samkomulagi milli allra málsaðila að geyma skyldi allan farm Vikartinds hjá Eimskipum. Stefndi hafi hins vegar neitað að greiða geymslugjöld vegna ósótts farms, sem síðar hafi orðið að ráðstafa með opinberu uppboði, og þess farms sem hafi orðið að eyða. Könnun ehf. hafi að beiðni Eimskipafélagsins annast ásamt tollvörðum opnun gáma og tjónaskoðun, bæði í Háfsfjöru og á athafnasvæði Eimskipa.
2. Reikningur Sorpu að upphæð 1.738.946 krónur. Fyrirtækið sé sá aðili á höfuðborgarsvæðinu, sem annist móttöku og förgun sorps, og hafi tollstjórinn í Reykjavík, sem annast hafi skipulag förgunar í umboði sýslumannsins í Reykjavík, eðlilega ákveðið að það annaðist förgunina.
3. Reikningur Efnamóttökunnar hf. að upphæð 1.283.604 krónur fyrir eyðingu efnavöru úr m/s Vikartindi.
Á því er byggt að túlka beri ábyrgðaryfirlýsingu stefnda frá 9. apríl 1997 með hliðsjón af samningi eigenda Vikartinds og málsaðila frá 30. maí s.á. Hann geri ráð fyrir ákveðinni aðferðafræði við ráðstöfun farms úr Vikartindi og jafnframt hafi verið gert ráð fyrir því að sýslumaðurinn í Rangárvallasýslu kynni að þurfa að leggja í kostnað vegna farmsins o.fl. Ábyrgðaryfirlýsingin hafi átt að tryggja greiðslu alls þess kostnaðar, án annarra skilyrða en þess að hún rynni út í síðasta lagi tveimur árum eftir útgáfu. Allur kostnaður sýslumannsins í Rangárvallasýslu hafi fallið til innan þeirra tímamarka.
IV
Málsástæður stefnda fyrir aðalkröfu sinni eru þær sem hér verða raktar:
1) Gildistími ábyrgðaryfirlýsingar stefnda.
Meginmálsástæða er að hafna beri kröfum stefnanda, sem séu hafðar uppi á grundvelli ábyrgðaryfirlýsingar stefnda frá 9. apríl 1997, þar sem ábyrgðin hafi verið fallin niður þegar þær voru bornar fram. Þá fyrst, er sýslumaður hafi lagt út fé til greiðslu kostnaðar, hafi hann getað öðlast rétt til endurkröfu gagnvart stefnda. Ekki skipti máli við hvort tímamark ábyrgðaryfirlýsingarinnar sé miðað; bæði hafi verið liðin þegar skilyrðið var uppfyllt, þ.e. lokið hafi verið við hreinsun fjara á fullnægjandi hátt samkvæmt kröfum heilbrigðisyfirvalda þ. 24. júní 1998 og tveggja ára gildistími hafi runnið út 9. apríl 1999. Aðild stefnda að björgunarsamningi breyti hér engu því að ábyrgðaryfirlýsingin sé grundvöllur ábyrgðar stefnda.
2) Krafa um endurgreiðslu kostnaðar Eimskipafélagsins vegna geymslu farms.
Á því er byggt að um aðildarskort sé að ræða. Öll geymslugjöld sem á hafi fallið hafi verið kræf gagnvart hverjum og einum eiganda farmsendinga. Til þeirra beri að vísa kröfum og kostnaðurinn geti ekki verið kræfur gagnvart stefnda á grundvelli laga um skipströnd og vogrek eða þess björgunarsamnings sem aðilar hafi undirritað. Einnig er á því byggt að stefndi eigi gagnkröfu um skaðabætur, jafnháa endurgreiðslukröfu stefnanda, vegna rangra ákvarðana í sambandi við ráðstöfun farmsins. Sýslumaður hafi ekki orðið við ítrekuðum áskorunum fulltrúa útgerðar skipsins um að selja farminn á uppboði sumarið 1997 á grundvelli fullkominnar heimildar laga nr. 42/1926. Seinagangur af hálfu tollstjóra og sýslumanns hafi síðan valdið því að uppboðsferli var ekki lokið fyrr en 15. maí 1999.
3) Krafa um endurgreiðslu kostnaðar Könnunar ehf.
Öll sú þjónusta, sem Eimskipafélagið hafi krafið um á grundvelli þessa reiknings, hafi verið í þágu þess sjálfs eða vegna aðstoðar við tollstjóraembættið í Reykjavík. Útgerð skipsins hafi hins vegar greitt fimm reikninga, samtals að upphæð 1.816.141 króna, sem séu allir sprottnir af björgun farmsins, skoðun ástands hans og mati á verðmæti hverrar vörusendingar til niðurjöfnunar.
4) Endurgreiðsla reikninga Sorpu og Efnamóttökunnar ehf.
Á því er byggt að réttir greiðendur séu eigendur vörusendinga. Þá er á það bent að sundurgreining kostnaðar vegna sérhverrar vörusendingar hafi ekki átt sér stað vegna mistaka og því sé endurkrafa gagnvart farmeigendum óframkvæmanleg.
Rök stefnda fyrir varakröfu sinni eru þau að verði talið að kröfur þær, sem krafist er að verði endurgreiddar, hafi verið bornar fram að réttum hætti innan tímamarka beri stefnandi ábyrgð á ákvörðunum, framkvæmdum og framkvæmdaleysi yfirvalda sem hafi leitt til verulegs óþarfa aukakostnaðar auk þess sem kostnaður hafi ekki verið krafinn hjá réttum greiðendum.
V
Málið er höfðað á grundvelli ábyrgðaryfirlýsingar stefnda sem kveður á um endurgreiðslu allt að þrátíu milljónum króna að fullnægðum tilteknum skilyrðum. Ákvæði hennar um lok gildistíma ábyrgðar eru skýr og ótvíræð. Er eigi fallist á að túlka beri þau með hliðsjón af samningi frá 30. maí 1997 um björgunaraðgerðir varðandi m/s Vikartinds milli sýslumanns Rangárvallasýslu og eigenda skipsins þegar af þeirri ástæðu að hann hefur ekki að geyma ákvæði sem efnið varða. Ákvæði ábyrgðaryfirlýsingar þess efnis að stefndi geti ekki haldið eftir greiðslum komi til ágreinings verður ekki skilið á þann veg að með því sé girt fyrir andmæli á grundvelli þess að kröfugerð falli utan gildistíma ábyrgðar enda yrði ákvæði, sem að því lýtur, að öðrum kosti þýðingarlaust.
Í málinu liggur frammi ódagsett yfirlýsing Heimis Hafsteinssonar oddvita, f.h. sveitarstjórnar Djúpárhrepps, og Matthíasar Garðarssonar, f.h. Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, þess efnis að eigendur flutningaskipsins Vikartinds hafi fullnægt skyldum sínum hvað varðar hreinsun rusls sem borist hafi á land í Djúpárhreppi í kjölfar strands skipsins á Háfsfjöru. Vitnið Matthías Garðarsson, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, staðfesti efni yfirlýsingarinnar. Hann kvað tilmæli hafa borist um að framkvæma skoðun, afgreiðslu erindisins hafi verið hraðað og yfirlýsingin gefin fljótlega. Frammi liggur símbréf Garðars Briem hdl, dags. 22. júní 1998, til Matthíasar þar sem hann biður um “yfirlýsingu frá ykkur eftir lokaskoðun sem væntanlega fer fram í vikulokin.” Þá liggur frammi ljósrit bréfs lögmannsins, dags. 7. júlí 1998, til ráðuneytisstjóra umhverfismálaráðuneytisins þar sem vísað er í hjálagða yfirlýsingu oddvita Djúpárhrepps og yfirmanns Heilbrigðiseftirlits Suðurlands þess efnis að hreinsun rusls í Djúpárhreppi í kjölfar strands Vikartinds sé lokið á fullnægjandi hátt.
Við það verður miðað að gildistími ábyrgðar stefnda samkvæmt yfirlýsingu hans frá 9. apríl 1997 hafi runnið út 7. júlí 1998 og hvað sem öðru líður eigi síðar en 9. apríl 1999. Hann var því löngu liðinn er sýslumaður greiddi umstefnda reikninga, 17. og 25. apríl 2000, sem krafist er að verði endurgreiddir, en ekki verður séð að krafan hafi verið uppi höfð fyrr en með höfðun málsins.
Samkvæmt þessu er niðurstaða málsins sú að sýkna beri stefnda af kröfum stefnanda.
Dæma ber stefnanda til að greiða stefnda málskostnað sem er ákveðinn 700.000 krónur.
Mál þetta dæmir Sigurður Hallur Stefánsson héraðsdómari.
D ó m s o r ð:
Stefndi, Standard Steamship Owners P&I Association Europe Ltd., er sýknaður af kröfum stefnanda, íslenska ríkisins.
Stefnandi greiði stefnda 700.000 krónur í málskostnað.