Hæstiréttur íslands

Mál nr. 431/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Fimmtudaginn 30

 

Fimmtudaginn 30. júlí 2009.

Nr. 431/2009.

Ríkislögreglustjóri

(Elísabet Rán Andrésdóttir fulltrúi)

gegn

X

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. júlí 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. júlí 2009, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 4. ágúst 2009 klukkan 16 og sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Varnaraðili hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 23. júlí 2009. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. júlí 2009.

Ríkislögreglustjóri hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að með vísan til með vísan til a. liðar 1. mgr. 95. gr., sbr. 1. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, að X, kennitala [...], verði með úrskurði gert skylt að sæta áfram gæsluvarðhaldi í 7 daga, eða til þriðjudagsins 4. ágúst n.k. kl. 16.00. Þá er einnig gerð krafa um að X sæti einangrun á meðan gæsluvarðhaldinu stendur sbr. b. lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Í kröfu ríkislögreglustjóra kemur fram að þann 23. júlí kl. 15:15 hafi á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur verið tekin fyrir krafa Ríkislögreglustjóra um að X sætti gæsluvarðhaldi í 14 daga, eða til 6. ágúst n.k. kl. 16:00, sem og einangrun á meðan gæsluvarðhaldi stæði. Kveðinn hafi verið upp úrskurður og hafi kærða, X verið gert að sæta gæsluvarðhaldi til þriðjudagsins 28. júlí 2009, kl. 16:00. Einnig hafi kærða verið gert að sæta einangrun á meðan gæsluvarðhaldi stæði.

X hafi verið boðaður til yfirheyrslu hjá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra miðvikudaginn 22. júlí kl. 16:40 og handtekinn kl. 17.30 sama dag. Tildrög málsins hafi verið þau að þann 15. júlí 2009 hafi efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra borist kærur Ólafs Eiríkssonar hrl. annars vegar fyrir hönd A ehf., kennitala [...] og hins vegar fyrir hönd B ehf., kennitala [...]. Kærur þessar hafi beinst að meintum brotum X, kennitala [...], Y, kennitala [...], Z, kennitala [...], Þ, kennitala [...] og Æ, kennitala [...] á 155. gr., 244. gr., 247. gr., 248. gr., og 249. gr. almennra hegningarlaga og 1. tl. 127. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994.

Verður nú vikið annars vegar að kæru Ólafs Eiríkssonar hrl. fyrir hönd A ehf., og hins vegar að kæru hans fyrir hönd B ehf.

Kæra Ólafs Eiríkssonar hrl., fyrir hönd A ehf.

Þann 3. júní sl. fór af stað atburðarás sem lögmætir forráðamenn A ehf. komu hvergi nærri. Verður atburðarásin rakin í næstu fjórum köflum.

1.             Framlagning fjögurra falsaðra tilkynninga í fyrirtækjaskrá

2.             Kaupsamningur um fasteign að M.

3.             Útgáfa og undirritun ÍLS veðbréfs

4.             Stofnun reiknings í nafni A ehf. og úttektir af honum

5.  Möguleg heimfærsla til refsiákvæða

Kærandi telur að framangreind háttsemi varði við lög með eftirgreindum hætti:

1)       Með því að senda fyrirtækjaskrá tilkynningar sem höfðu að geyma falsaðar undirskriftir stjórnarmanna og varamanna A ehf. og voru sendar án vitundar og samþykkis forráðamanna A ehf. hafa þeir sem að sendingunni hafa staðið gerst sekir um brot á 1. tl. 127. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994. Í ákvæðinu segir að það varði sektum eða fangelsi allt að tveimur árum að skýra vísvitandi rangt eða villandi frá högum hlutafélags eða öðru er það varðar í opinberri auglýsingu eða tilkynningu, í opinberu boði í þátttöku í stofnun félags eða í útboði hluta, í skýrslum, ársreikningi eða yfirlýsingum til hluthafafundar eða forráðamanna félags eða í tilkynningum til hlutafélagaskrár.

Að því er þennan þátt varðar er einnig vert að benda á 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 um skjalafals. Þar segir: Hver, sem notar falsað skjal til þess að blekkja með því í lögskiptum, skal sæta fangelsi allt að 8 árum. Skal það einkum metið refsingu til þyngingar, ef skjalið er notað sem opinbert skjal, viðskiptabréf eða erfðaskrá.

2)       Með gerð kaupsamnings við Æ og afhendingu kaupsamningsins til þinglýsingar er ljóst að þeir sem að komu fram undir fölsku flaggi sem fulltrúar A ehf. hafa brotið gegn fyrrgreindu ákvæði 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Jafnframt er ljóst að háttsemin getur varðað við 249. gr. sömu laga um umboðssvik. Í greininni segir: Ef maður, sem fengið hefur aðstöðu til þess að gera eitthvað, sem annar maður verður bundinn við, eða hefur fjárreiður fyrir aðra á hendi, misnotar þessa aðstöðu sína, þá varðar það fangelsi allt að 2 árum, og má þyngja refsinguna, ef mjög miklar sakir eru, allt að 6 ára fangelsi.

3)       Með því að stofna reikning í nafni A ehf. má leiða að því líkum að brotið hafi verið gegn ákvæði 155. gr. almennra hegningarlaga um skjalafals. Með því að taka út þá fjármuni sem lagðir höfðu verið inn á fyrrgreindan kjörbókarreikning í nafni A ehf. er ljóst að sá eða þeir sem villtu á sér heimildir hafa gerst sekir um þjófnað eða fjárdrátt, sbr. 244. gr. og 1. mgr. 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1949. Í 1. mgr. 247. gr. almennra hegningarlaga segir: Dragi maður sér fjármuni eða önnur verðmæti, sem hann hefur í vörslum sínum, en annar maður er eigandi að, án þess þó að verknaðurinn varði við 246. gr., þá skal hann sæta fangelsi allt að 6 árum.

Verður nú vikið að kæru Ólafs Eiríkssonar hrl. fyrir hönd B ehf.

Kæra Ólafs Eiríkssonar hrl., fyrir hönd B ehf.

Þann 29. júní sl. fór af stað atburðarás sem lögmætir forráðamenn B ehf. komu hvergi nærri. Verða málavextir raktir í næstu fjórum köflum.

1.             Framlagning fjögurra falsaðra tilkynninga í fyrirtækjaskrá

2. Kaupsamningur um fasteign að N

3. Útgáfa og undirritun ÍLS veðbréfs

5. Möguleg heimfærsla til refsiákvæða

Kærandi telur að framangreind háttsemi varði við lög með eftirgreindum hætti:

1)       Með því að senda fyrirtækjaskrá tilkynningar sem höfðu að geyma falsaðar undirskriftir stjórnarmanna og varamanna B ehf. og voru sendar án vitundar og samþykkis forráðamanna félagsins. hafa þeir sem að sendingunni hafa staðið gerst sekir um brot á 1. tl. 127. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994. Í ákvæðinu segir að það varði sektum eða fangelsi allt að tveimur árum að skýra vísvitandi rangt eða villandi frá högum hlutafélags eða öðru er það varðar í opinberri auglýsingu eða tilkynningu, í opinberu boði í þátttöku í stofnun félags eða í útboði hluta, í skýrslum, ársreikningi eða yfirlýsingum til hluthafafundar eða forráðamanna félags eða í tilkynningum til hlutafélagaskrár.

Að því er þennan þátt varðar er einnig vert að benda á 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 um skjalafals. Þar segir: Hver, sem notar falsað skjal til þess að blekkja með því í lögskiptum, skal sæta fangelsi allt að 8 árum. Skal það einkum metið refsingu til þyngingar, ef skjalið er notað sem opinbert skjal, viðskiptabréf eða erfðaskrá.

2)       Með gerð kaupsamnings við D og afhendingu kaupsamningsins til þinglýsingar er ljóst að þeir sem að sigldu undir fölsku flaggi sem fulltrúar B ehf. hafa brotið gegn fyrrgreindu ákvæði 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Jafnframt er ljóst að háttsemin getur varðað við 249. gr. sömu laga um umboðssvik. Í greininni segir: Ef maður, sem fengið hefur aðstöðu til þess að gera eitthvað, sem annar maður verður bundinn við, eða hefur fjárreiður fyrir aðra á hendi, misnotar þessa aðstöðu sína, þá varðar það fangelsi allt að 2 árum, og má þyngja refsinguna, ef mjög miklar sakir eru, allt að 6 ára fangelsi.

3)       Með því að taka út þá fjármuni sem lagðir höfðu verið inn á reikning B ehf. er ljóst að sá eða þeir sem villtu á sér heimildir hafa gerst sekir um þjófnað eða fjárdrátt, sbr. 244. gr. og 1. mgr. 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1949. Í 1. mgr. 247. gr. almennra hegningarlaga segir: Dragi maður sér fjármuni eða önnur verðmæti, sem hann hefur í vörslum sínum, en annar maður er eigandi að, án þess þó að verknaðurinn varði við 246. gr., þá skal hann sæta fangelsi allt að 6 árum.

Byggt á fyrirliggjandi gögnum komi fram að þrjár færslur allar að sömu fjárhæð, kr. 4.542.857 hafi verið færðar yfir á þrjá mismunandi bankareikninga í eigu X í Landsbanka Íslands, Kaupþingi og Íslandsbanka þann 3. júlí sl. af reikningi B ehf. nr. [...]. Í yfirheyrslu sem fram hafi farið miðvikudaginn 22. júlí  hafi komið fram ótrúverðug skýring X um að framangreindar fjárhæðir væru skuld frá Þ. Þá skýringu hafi X einnig haldið fram í yfirheyrslu sem fram hafi farið í gær 27. júlí.

Gögn málsins hafi jafnframt leitt í ljós tengsl X við A ehf. Þrjár færslur hafi verið millifærðar af reikningi A ehf., í útibúi Landsbanka Íslands að Álfabakka 10, að beiðni Z allar að sömu fjárhæð kr. 2.100.000 yfir á þrjá mismunandi reikninga í eigu X í BYR, Kaupþingi og Íslandsbanka. Í yfirheyrslu 22. júlí hafi komið fram að X kannaðist ekkert við að hafa fengið framangreinda upphæð greidda inn á BYR reikning. Hins vegar í yfirheyrslu 27. júlí eftir að honum hafi verið kynnt kæra A ehf. á hendur Z vegna skjalafals hafi X sagt líklegt að þessar millifærslur hafi verið greiðslur vegna skuldar frá Z.

[...]

[...]

Í fyrri framburði X kvaðst hann ekki kannast við önnur nöfn sem komi fram í gögnum málsins en Þ en þeir væru einungis kunningjar og lítil tengsl. Í síðari framburði hans, eftir að legið hafi fyrir fyrirhugað hafi verið að X færi í utanlandsferð til Costa del Sol með Þ, Z og Y, hafi X gefið upp að Z sé frændi hans og ágætt samband þeirra á milli ásamt því að kannast við Y sem kunningja sinn en umgangist hann lítið. Ennfremur gefi fyrirliggjandi bankagögn tilefni til þess að tengsl séu til staðar á milli X og framangreindra aðila.

[...]

Í ljósi þess að rannsókn málsins sé á viðkvæmu stigi þar sem gagnaöflun sé ekki lokið og yfirheyra þurfi meinta samverkamenn X sem áætlað sé að komi til landsins í dag 28. júlí sé brýnt að þeir geti ekki haft áhrif eða samráð sín á milli og torveldi rannsókn málsins. Þær yfirheyrslur geti jafnframt leitt betur í ljós þátt X í meintum brotum og gefi jafnvel tilefni til frekari yfirheyrslna.

Málin sem nú séu til rannsóknar séu flókin og umfangsmikil og virðist hin meintu brot vera á höndum margra manna og sé rannsókn málsins á frumstigi. Þá virðist sem hin meintu brot séu þaulskipulögð og því þáttur X enn til rannsóknar. Telja verði að rökstuddur grunur sé um refsiverða háttsemi þar sem framburður X sé misvísandi og ótrúverðugur vegna útskýringa hans á að um sé að ræða skuldir. Þá hafi X ekki gert nægjanlega grein fyrir þessum fjármunum. [...] Þá gefi aðferðafræðin um innlögnina þ.e. þrjár greiðslur allar að sömu fjárhæð inn á mismunandi bankareikninga ástæðu til grunsemda að um samverknað hafi verið um að ræða.

Að auki gefi vitnisburður X um vörslu fjármunanna í heild sinni er varða fé af reikningum frá A ehf. að fjárhæð kr. 6.300.000 og B ehf. að fjárhæð kr. 13.628.571 þ.e. alls fjárhæð kr. 19.928.571 sem teknir hafi verið út í reiðufé tilefni til rökstudds gruns um að X hafi vitneskju um vörslur þeirra. [...]

Efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra telji tilefni til að ítreka að um sé að ræða umfangsmikið mál með umtalsverða fjármuni sem virðist vera þaulskipulagt þar sem fjölmargar ríkisstofnanir séu blekktar og fjármunum náð með sviksamri háttsemi. Þar sem loku sé ekki fyrir það skotið að fjármunirnir séu í vörslu X eða öðrum honum tengdum þyki ljóst að gangi kærði laus geti hann komið þeim fjármunum undan eða komið því í verk með öðrum hætti. Séu því mikilvægir rannsóknarhagsmunir að kærða X verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi. [...]

Ríkislögreglustjóri ítreki það að sakborningur sé undir rökstuddum grun um brot gegn 155. gr., 244. gr. 247. gr., 248. gr., 249. gr. og 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. tl. 127. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994. En brot gegn 155. gr. almennra hegningarlaga varði fangelsi allt að 8 árum. Rannsókn málsins sé á frumstigi og því ljóst að rannsóknarhagsmunir krefjist þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi og einangrun á meðan gæsluvarðhaldinu standi.

Í þágu rannsóknar málsins þyki með vísan til þess sem að framan er rakið og a. liðar 1. mgr. 95. gr., sbr. 1. mgr. 97. gr. og b. liðar 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð opinberra mála, brýna nauðsyn bera til að sakborningi verði áfram gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 4. ágúst n.k. klukkan 16.00, þar sem hætta þyki á að hann muni torvelda rannsókn málsins og skjóta undan fjármunum ef hann fái að halda frelsi sínu.

Til rannsóknar eru ætluð brot gegn 155. gr., 244. gr., 247. gr., 248. gr., 249. gr. og 264. gr. almennra hegningarlaga og 1. tl. 127. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994, og er rökstuddur grunur um háttsemi kærða sem getur varðað allt að 8 ára fangelsi.  Fallist er á með lögreglu að brýnir hagsmunir séu fyrir því að kærða verði gert að sæta áfram gæslu­varð­haldi, enda rannsókn málsins á frumstigi og líklegt að kærði geti torveldað rannsókn málsins og skotið undan fjármunum gangi hann laus. Með vísan til framangreinds, hjálagðra gagna og a- liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, er krafa ríkislögreglustjóra tekin til greina þannig að kærði sæti  áfram gæsluvarðhaldi til þriðjudagsins 4. ágúst nk. kl. 16.00. Þá er með sömu rökum fallist á að kærði sæti einangrun skv. b- lið 1. mgr. 99. gr. laganna.

Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, kennitala [...], sæti áfram gæsluvarðhaldi til þriðjudagsins 4. ágúst n.k. kl. 16.00.

Kærði skal sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldi stendur.