Hæstiréttur íslands

Mál nr. 401/2003


Lykilorð

  • Kærumál
  • Stefnubirting
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Fimmtudaginn 16

 

Fimmtudaginn 16. október 2003.

Nr. 401/2003.

X

(Karl Georg Sigurbjörnsson hrl.)

gegn

Y

(enginn)

 

Kærumál. Stefnubirting. Frávísunarúrskurður staðfestur.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að vísa faðernismáli X á hendur Y sjálfkrafa frá héraðsdómi þar sem skilyrðum 89. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála til birtingar stefnu í Lögbirtingablaði var ekki fullnægt.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir, Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. október 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vestfjarða 29. september 2003, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var sjálfkrafa vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Vestfjarða 29. september 2003.

Mál þetta, sem var dómtekið 3. september sl., höfðaði X þann 18. júní sl. gegn Y, Venesúela.

Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði með dómi að stefndi sé faðir [...] Z. Þá gerir stefnandi kröfu um málskostnað sér til handa ásamt virðisaukaskatti.

Stefndi hefur ekki látið málið til sín taka, né boðað forföll.

Stefnandi fékk gjafsókn í málinu með leyfi dóms- og kirkjumálaráðuneytis, dags. 14. maí 2003.

I.

Stefnandi lýsir málsatvikum þannig í stefnu að hún hafi kynnst stefnda í byrjun [...] í [...] Venesúela. Hafi hann búið þar hjá [...]. [...] Hún kveðst hafa ítrekað reynt að ná sambandi við stefnda til að tjá honum að hann væri orðinn faðir en þær tilraunir hafi engan árangur borið.

Í október 2001 lagði hún inn yfirlýsingu um faðerni barnsins til sýslu­mannsins í Reykjavík skv. 5. gr. l. nr. 20/1992 og beiðni um meðlag frá 1. september 2000. Með bréfi dags. 12 nóvember 2001 til einkamálaskrifstofu dómsmála­ráðuneytisins óskaði sýslumaðurinn eftir því við ráðuneytið að það kannaði afstöðu stefnda til málsins. Fór dómsmálaráðuneytið þess á leit við utanríkisráðuneytið að það hlutaðist til um að aflað yrði viðurkenningar stefnda á faðerni Z og samþykki hans til greiðslu meðlags með barninu, viðurkenndi hann faðernið á annað borð. Í framhaldi þessa var stefnda sent ábyrgðarbréf frá sendiráði Íslands í Washington. Var kvittað fyrir móttöku bréfsins en ekkert svar hefur borist. Dómsmálaráðuneytið tilkynnti svo sýslumanninum í Reykjavík, með bréfi dags. 17. október 2002, að það sæi ekki tilgang í því að halda áfram tilraunum til að afla faðernis­viðurkenningar frá stefnda þar sem hann virtist ekki ætla sér að svara bréfum sendiráðsins. Með bréfi dags. 22. október 2002 var stefnanda síðan tilkynnt sú ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík að vísa faðernismálinu frá því embætti.

Stefnandi kveðst í framhaldi þessa hafa ákveðið þessa málsókn þar sem henni sé í mun að feðra barn sitt. Kveðst hún ekki hafa reynt stefnubirtingu í Venesúela þar sem hún telur, með vísan til afdrifa framangreinds ábyrgðabréfs, að slíkt myndi ekki þjóna neinum tilgangi og að í raun sé ekki vitað um núverandi heimili stefnda.

II.

Stefnandi byggir kröfur sínar á 4. gr. sbr. VII. kafla barnalaga nr. 20/1992. Krafa um málskostnað er byggð á 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Um rétt stefnanda á gjafsókn vísar hún til 2. mgr. 45. gr. laga nr. 20/1992 og 2. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991.

Um varnarþing er vísað til 57. gr. laga nr. 20/1992 og um stefnubirtingu til 89. gr. laga um meðferð einkamála.

III.

Stefnandi hefur kosið að birta stefnuna í Lögbirtingablaði þar sem henni þyki sýnt að birting fyrir stefnda í Venesúela muni ekki bera árangur. Um birtingu stefnu fyrir aðila, sem á heimili eða dvalarstað í tilteknu erlendu ríki og birting hér á landi samkvæmt almennum reglum er ekki möguleg, gilda þær reglur er fram koma í 90. gr. laga nr. 91/1991. Er í greinargerð með lögunum sérstaklega tiltekið að skilyrðum 89. gr. væri ekki fullnægt með því einu, að stefndi ætti heimili í öðru ríki, jafnvel þótt ekki væri vitað hvar í því ríki heimilisfang hans væri. Ef þannig væri vitað að stefndi væri búsettur í tilteknu ríki en á óþekktum stað þar, leiðir af fyrirmælum 90. gr. að birta yrði stefnuna í því ríki eftir reglum þess um birtingu fyrir manni sem hefði óþekkt heimilisfang. Ef yfirvöld viðkomandi ríkis á hinn bóginn neita eða láta hjá líða að verða við ósk um birtingu skv. 90. gr. er heimilt að birta stefnu í Lögbirtingablaði, sbr. b-lið 89. gr. laganna. 

Ekki verður annað ráðið en heimaland stefnda sé Venesúela. Stefnandi hefur ekki reynt að birta stefnu fyrir stefnda í Venesúela. Samkvæmt framansögðu bar stefnanda að birta stefnu fyrir stefnda eftir reglum heimalands hans. Ekki hafa verið lögð fram gögn er sýna hvaða reglur gilda um stefnubirtingu í því landi. Þá verður ekki séð að yfirvöld í heimalandi stefnda hafi neitað eða látið hjá líða að verða við ósk um að birta stefnu eftir reglum 90. gr. laganna. Er því skilyrðum 89. gr. laganna fyrir birtingu í Lögbirtingablaði ekki fullnægt og því óhjákvæmilegt að vísa málinu sjálf­krafa frá dómi.

Rétt þykir að málskostnaður falli niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði samkvæmt gjaf­sóknar­leyfi dags. 14. maí 2003, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Karls Georgs Sigurbjörnssonar, hrl., sem ákveðst 65.000 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum.

Úrskurð þennan kveður upp Erlingur Sigtryggsson, dómstjóri.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað sjálfkrafa frá dómi.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Karls Georgs Sigurbjörnssonar, hrl., 65.000 krónur.