Hæstiréttur íslands

Mál nr. 547/2012


Lykilorð

  • Landamerki
  • Samningur


Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 26. september 2013.

Nr. 547/2012.

Guðrún María Valgeirsdóttir

Sigurður Jónas Þorbergsson

Kristín Ólafsdóttir

Arnar Ólafsson

Bryndís Jónsdóttir

Sigurður Baldursson

Finnur Baldursson

Pétur Gíslason

Finnur Sigfús Illugason

Jón Illugason

Sólveig Illugadóttir

Héðinn Sverrisson

Daði Lange Friðriksson og

Kristín Sverrisdóttir

(Ólafur Björnsson hrl.

Guðmundur H. Pétursson hdl.)

gegn

Þingeyjarsveit og

(Friðbjörn Garðarsson hrl.)

Norðurþingi

(Hilmar Gunnlaugsson hrl.)

og

Þingeyjarsveit

gegn

Norðurþingi

Landamerki. Samningur.

Aðilar deildu um landamerki jarðanna Reykjahlíðar í Skútustaðahreppi, Þeistareykja í Þingeyjarsveit og Áss og Svínadals í Norðurþingi á þríhyrndu landsvæði sunnan og suðaustan Hituhóla, sem markaðist af línu sem dregin var úr Eilífshnjúki í hornmark skammt norðan Éthóls, þaðan í vörðu norðan Hituhóla og úr vörðunni beina línu í Eilífshnjúk um hnitapunkt sem eigendur Reykjahlíðar töldu vera Gangnamannaskarð í Hrútafjöllum. Töldu G o.fl. að allt hið þríhyrnda landsvæði tilheyrði jörðinni Reykjahlíð, Þ taldi allt landsvæðið tilheyra jörðinni Þeystareykjum, en N taldi hluta svæðisins tilheyra jörðunum Ási og Svínadal. Hæstiréttur vísaði til þess að eldri heimildir sem lýstu merkjum Reykjahlíðar hefðu lítið breyst um aldir og hefði þar verið lýst beinum línum milli kennileita. Væri samræmi milli þessara lýsinga og landamerkjabréfs Reykjahlíðar frá 1891 sem og eldri og yngri heimilda um suðurmörk Þeistareykja. Mæltu þessar heimildir gegn því að eigendur Reykjahlíðar ættu tilkall til lands norðan þeirrar beinu línu, sem lægi úr Eilífshnjúki og vestur í Gæsadalsmó, nema talið yrði að eigendur jarðanna hefðu samið um merki þeirra, þannig að gildi hefði að lögum. Taldi Hæstiréttur að það sem kom fram um landamerki í tilteknum eldri heimildum fyrir Þeistareyki og Ás styddi að jörðinni Þeistareykjum hefði tilheyrt land austur í Eilífshnjúk og þar með hið umdeilda landsvæði. Hefðu eigendur Þeistareykja að lögum verið bærir til að ráðstafa landinu í heild eða að hluta til annarra með löggerningum. Að því er varðaði það álitaefni hvort eigendur jarðanna hefðu samið um aðra skipan landamerkja vísaði Hæstiréttur til þess að landamerkjabréf væru í eðli sínu samningar væru þau samþykkt af eigendum eða umráðamönnum aðliggjandi jarða, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 457/2011. Taldi Hæstiréttur að með áritun sinni á landamerkjabréf Áss og Svínadals frá 1889 hefði umboðsmaður Þeistareykja samþykkt að merki milli jarðanna hefðu breyst með tilteknum hætti þannig að aukist hefði við land það sem tilheyrði Ási og Svínadal. Hefðu landamerki þessi verið ítrekuð í landamerkjaskrá Þeistareykjaafréttar 1948. Með hliðsjón af orðalagi landamerkjabréfs Áss og Svínadals, staðháttum við Hrútafjöll, skipulagi fjárleita og framburði vitna um ferðir yfir skarðið staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu héraðsdóms um að Gangnamannaskarð hið syðra, sem vísað var til í landamerkjabréfi Áss og Svínadals væri skarðið syðst í Hrútafjallahala. Féll því nyrðri hluti hins þríhyrnda landsvæðis innan merkja Áss og Svínadals. Að því er varðaði álitaefnið hvort syðri hluti hins þríhyrnda landsvæðis tilheyrði Þeistareykjum eða Reykjahlíð taldi Hæstiréttur að landamerkjabréf Þeistareykjaafréttar sem talið var frá 1915 yrði ekki lagt til grundvallar sem gild heimild við úrlausn málsins, enda fullnægði það ekki því formskilyrði þágildandi 4. gr. landamerkjalaga að vera fengið sýslumanni í hendur til þinglesturs. Hið þríhyrnda landsvæði hefði verið skilið frá landi Þeistareykja með landamerkjaskránni frá 1948, en eigendur Þeistareykja hefðu að lögum verið bærir til að ráðstafa landinu með þeim hætti. Var það lagt til grundvallar að í undirritun eigenda Þeistareykja og áritun eigenda Reykjahlíðar á landamerkjaskrána um samþykki, hefði falist ráðstöfun sem í eðli sínu væri samningur landeigenda um breytt merki milli jarðanna tveggja og hefði sú skipan mála staðið ágreiningslaus í ríflega hálfa öld. Fengi það hvorki haggað niðurstöðunni að ekki yrði séð af gögnum málsins að endurgjald hefði komið fyrir né að einn eigenda Reykjahlíðar hefði á árunum 1950 og 1966 lýst merkjum jarðarinnar með öðrum hætti í rituðu máli. Þá yrði ekki annað ráðið en að eigendur Reykjahlíðar hefðu frá árinu 1948 farið með þennan hluta landsvæðisins sem sitt land og m.a. gert samninga um borun eftir jarðhita á svæðinu.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson.

Áfrýjendurnir Guðrún María Valgeirsdóttir, Sigurður Jónas Þorbergsson, Kristín Ólafsdóttir, Arnar Ólafsson, Bryndís Jónsdóttir, Sigurður Baldursson, Finnur Baldursson, Pétur Gíslason, Finnur Sigfús Illugason, Jón Illugason, Sólveig Illugadóttir, Héðinn Sverrisson, Daði Lange Friðriksson og Kristín Sverrisdóttir, hér eftir nefnd eigendur Reykjahlíðar, skutu málinu til Hæstaréttar 16. ágúst 2012. Kröfur þeirra á hendur áfrýjandanum Þingeyjarsveit eru að viðurkennt verði að landamerki milli jarðanna Reykjahlíðar og Þeistareykja séu aðallega þessi: Úr vörðu á Bunguvegg norðan Hituhóla, hnit: A600913 N594615, hér eftir (P4), ráði Borgaveggur allt suður að beinni línu sem þversker hann og liggur í stefnu austan frá Eilífshnjúk og vestur að rótum Gæsafjalla að norðan. Sé það merkjahorn sem hér myndast á Borgavegg, hnit: A600885 N590719, hér eftir (P5), stutt norður af Éthól. Þaðan verði fylgt beinni línu til vesturs á punkti þar sem Bóndhóll er genginn í hásuður og Eilífshnjúk ber rétt norðan undan Gæsafjöllum, hnit: A592999 N589908, hér eftir (P6). Til vara krefjast eigendur Reykjahlíðar viðurkenningar á því að landamerki milli ofangreindra jarða séu eftirfarandi: Úr punkti við sunnanverða Hituhóla, hnit: A600903 N593309, hér eftir (P4a), þar sem lína dregin þvert vestur úr Gangnamannaskarði í Hrútafjöllum, hnit: A604149 N593251, hér eftir (P3), þversker í réttu horni línu dregna í suður frá Bunguvegg, ráði Borgaveggur allt suður að annarri beinni línu sem þversker hann og liggur í stefnu austan frá Eilífshnjúk og vestur að rótum Gæsafjalla að norðan. Sé það merkjahorn sem hér myndast á Borgavegg (P5) stutt norður af Éthól. Þaðan verði fylgt beinni línu til vesturs þangað til Bóndhóll er genginn í hásuður og Eilífshnjúk ber rétt norðan undan Gæsafjöllum (P6).

Gagnvart stefnda Norðurþingi krefjast eigendur Reykjahlíðar þess að viðurkennt verði að landamerki milli jarðanna Reykjahlíðar annars vegar og Áss og Svínadals hins vegar séu aðallega úr fyrrgreindri vörðu á Bunguvegg norðan Hituhóla (P4) í stefnu eftir línu sem dregin sé austur í Gangnamannaskarð í Hrútafjöllum (P3) og þaðan áfram í Eilífshnjúk, hnit: A608870 N591490, hér eftir (P2). Til vara krefjast eigendur Reykjahlíðar viðurkenningar á því að merkin séu úr punkti við sunnanverða Hituhóla (P4a) þar sem lína dregin þvert vestur úr Gangnamannaskarði í Hrútafjöllum (P3) þverskeri í réttu horni línu dregna í suður frá Bunguvegg, en frá Gangnamannaskarði í Hrútafjöllum (P3) í Eilífshnjúk (P2).

Auk framangreinds krefjast eigendur Reykjahlíðar málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti úr hendi beggja gagnaðila.

Áfrýjandinn Þingeyjarsveit, hér eftir eigandi Þeistareykja, skaut málinu til Hæstaréttar 18. september 2012 að því er varðar ágreining um landamerki jarðanna Þeistareykja annars vegar og Áss og Svínadals hins vegar. Hann krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms um landamerki milli Reykjahlíðar og Þeistareykja og málskostnaðar fyrir Hæstarétti úr hendi eigenda Reykjahlíðar. Þá krefst hann þess að viðurkennt verði að landamerki milli Þeistareykja og Áss og Svínadals liggi frá Eilífshnjúki (P2) í Gangnamannaskarð syðra í Hrútafjöllum (P3) og þaðan í vörðu á Bunguvegg (P4). Loks krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti úr hendi stefnda Norðurþings.

Stefndi Norðurþing krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms að því er varðar landamerki Áss og Svínadals og málskostnaðar fyrir Hæstarétti óskipt úr hendi eigenda Reykjahlíðar og eiganda Þeistareykja.

Áðurnefndir eigendur Reykjahlíðar hafa stefnt Gísla Sverrissyni til réttargæslu fyrir Hæstarétti en hann er eigandi Reykjahlíðar að 1,562 hundraðshlutum. Fyrir liggur í málinu yfirlýsing hans um að hann geri ekki athugasemdir við kröfur þessara áfrýjenda en muni ekki láta málið til sín taka fyrir Hæstarétti.  

Eftir höfðun málsins hefur sú breyting orðið á aðild þess að skiptum á dánarbúi Þuríðar Sigurðardóttur er lokið og kom eignarhlutur hennar í Reykjahlíð 2 í hlut áfrýjandans Sigurðar Jónasar Þorbergssonar.

Dómendur í málinu fóru á vettvang 2. september 2013.

I

Í Þingeyjarsýslu eru jarðirnar Reykjahlíð í Skútustaðahreppi, Þeistareykir í Þingeyjarsveit og Ás og Svínadalur í Norðurþingi og er ágreiningur milli eigenda þeirra um landamerki. Upphaf ágreiningsins má samkvæmt gögnum málsins rekja til þess er óbyggðanefnd tilkynnti þá ákvörðun sína 15. júní 2006 að nefndin myndi taka til umfjöllunar landsvæði á austanverðu Norðurlandi í samræmi við ákvæði laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta en þá varð ljóst að ágreiningur væri á milli eigenda Reykjahlíðar og eiganda Þeistareykja um landamerki jarðanna. Eftir höfðun málsins kom einnig í ljós að ágreiningur er um suðvesturmerki Áss og Svínadals og þar með um merki milli þeirrar jarðar og Reykjahlíðar annars vegar og Þeistareykja hins vegar. Samkvæmt úrskurðum óbyggðanefndar í málum nr. 1/2007 og 2/2007 er allt land á þrætusvæðinu eignarland, en í úrskurðunum var jafnframt tekið fram að þar væri ekki tekin afstaða til landamerkja. Af hálfu landeigenda og íslenska ríkisins var unað við niðurstöðu óbyggðanefndar.  

Samkvæmt gögnum málsins eru Reykjahlíð, Þeistareykir og Ás forn býli en Svínadalur í Kelduhverfi mun hafa verið hjáleiga Áss. Reykjahlíð á land að norðan allt frá Gæsadalsmó í vestri að Dettifossi í austri en norðan Reykjahlíðar eiga Þeistareykir land að vestan og Ás og Svínadalur að austan. Nær land Þeistareykja frá Lambafjöllum í vestri og til austurs að línu sem að norðan er dregin úr Eyjólfshæð til suðurs um Bunguvegg og að Hituhólum, en austan línunnar er land Áss og Svínadals sem nær austur að Jökulsá á Fjöllum. Þeistareykir tilheyrðu lengi Múlakirkju í Grenjaðarstaðarsókn og mun fastri búsetu þar endanlega hafa lokið 1873. Eftir það munu tún jarðarinnar hafa verið nytjuð fram til 1955 en annað land sem afréttur. Reykdæla- og Aðaldælahreppar eignuðust jörðina með afsali frá landsjóði 1915 sem þinglesið var ári síðar. Þingeyjarsveit, sem kemur nú fram sem eigandi jarðarinnar, varð til við sameiningu Hálshrepps, Ljósavatnshrepps, Bárðdælahrepps og Reykdælahrepps, en Aðaldælahreppur sameinaðist sveitarfélaginu síðar. Kelduneshreppur var eigandi Áss og Svínadals þar til hreppurinn seldi ábúanda jarðarinnar heimaland hennar með afsali 29. apríl 1938. Undanskilið sölunni var allt land jarðarinnar sunnan og vestan línu úr Ásbyrgisbotni í Rauðhóla og var það nefnt afréttur hreppsins og liggur að þrætusvæði máls þessa. Norðurþing varð til 2006, er Kelduneshreppur sameinaðist fleiri sveitarfélögum, og kemur nú fram sem eigandi þess lands sem undanskilið var sölunni 1938.

Með konungsúrskurði 1841 var  Þingeyjarsýslu skipt í Norður og Suður Þingeyjarsýslu. Samkvæmt henni skyldu allir hreppar sunnan og vestan Reykjaheiðar tilheyra suðursýslunni en aðrir hreppar norðursýslunni. Varnargirðing vegna mæðuveiki mun hafa verið reist árið 1941 og endurnýjuð á árabilinu 1970 til 1972. Liggur hún frá sandgræðslugirðingu vestan Gæsafjalla, austur um Gjástykki og áfram til austurs að Hafragili vestan Dettifoss. Eigandi Þeistareykja heldur því fram að girðingin sé á sveitarfélagamörkum og þar með nánast á þeim merkjum sem séu rétt landamerki milli Reykjahlíðar og Þeistareykja. Eigendur Reykjahlíðar andmæla því og telja að sveitarfélagamörk hafi verið ranglega skráð inn á landakort af því svæði sem um ræðir í málinu og sé það með öðru kveikjan að þeim ágreiningi sem uppi sé í málinu um landamerki.

II

Ekki er um það deilt að merki milli Reykjahlíðar og Áss og Svínadals liggja í beinni línu frá Dettifossi í austri, hnit: A619587 N593269, hér eftir (P1), að fjallinu Eilífi eða Eilífshnjúki í vestri (P2). Er land Reykjahlíðar sem fyrr segir sunnan línunnar en Áss og Svínadals að norðan. Þá er óumdeilt hvar merki milli Þeistareykja og Áss og Svínadals liggja úr Eyjólfshæð í norðri um Bunguvegg og suður undir Hituhóla. Einnig er ágreiningslaust að landamerki Reykjahlíðar og Þeistareykja liggja saman norðan Gæsafjalla og að hornmark milli þeirra er í (P6) á stað þeim „vestur í mó, þar til Bóndhóll er genginn í hásuður og Eilífshnjúkur ber rétt norðan undan Gæsafjöllum“ eins og segir í landamerkjabréfi Reykjahlíðar 8. apríl 1891 sem þinglesið var 29. maí sama ár. Hins vegar er ágreiningur um merki jarðanna þriggja sunnan og suðaustan Hituhóla. Í því sambandi deila málsaðilar meðal annars um hvort tilvísun í Hrútafjöll í Reykjahlíðarbréfinu merki hæsta tind á fjallinu eða hvort örnefnið Hrútafjöll taki til stærra svæðis sem nái lengra til suðurs og þar með til Hrútafjallahala. Þá er deilt um staðsetningu kennileitisins Gangnamannaskarðs, en kennileitið Gangnamannaskarð hið syðra kemur fyrir í landamerkjabréfi Áss og Svínadals 1. maí 1889 sem þinglesið var 24. júní 1890. Jafnframt er um það ágreiningur hvernig túlka ber orðin „þangað til bein stefna fæst útí Búnguveggi (rétt horn)“ í síðastnefndu landamerkjabréfi.

Af framangreindu leiðir að ágreiningur í málinu um merki milli jarðanna þriggja er í reynd þríþættur. Hann varðar þríhyrnt landsvæði, er markast af beinni línu sem dregin er frá Eilífshnjúki (P2) til vesturs í merkjapunkt (P5) stutt norður af Éthól. Þaðan af línu, sem dregin er beint til norðurs í vörðu á Bunguvegg norðan Hituhóla (P4), og þaðan af beinni línu sem dregin er til suðausturs um (P3), sem deilt er um hvort sé fyrrgreint Gangnamannaskarð, og aftur í Eilífshnjúk (P2).

Í fyrsta lagi leiðir af aðalkröfu eigenda Reykjahlíðar á hendur eiganda Þeistareykja og stefnda Norðurþingi, að eigendur Reykjahlíðar telja allt hið þríhyrnda landsvæði innan marka þeirrar jarðar. Samkvæmt varakröfu eigenda Reykjahlíðar er landsvæði það, sem þeir gera tilkall til innan hins þríhyrnda svæðis, heldur minna og markast af punktum (P2), (P5), (P4a), (P3) og aftur í (P2).

Í öðru lagi felst í kröfu eiganda Þeistareykja að hann telji allt hið þríhyrnda landsvæði innan marka sinnar jarðar. Samkvæmt því séu merki Reykjahlíðar og Þeistareykja á línu sem dregin sé úr Eilífshnjúki í austri (P2) og beina stefnu til vesturs að þeim stað norðan Bóndhóls, þar sem svo langt er farið fram í mó að Eilífshnjúkur er nærri genginn undir Gæsafjöll (P6). Til samræmis við það liggi merkjalína Þeistareykja og Áss og Svínadals úr Eilífshnjúki (P2) í Gangnamannaskarð (P3) og þaðan beina línu áfram í sömu stefnu í vörðu á Bunguvegg (P4) en þar með sé hið þríhyrnda svæði allt innan merkja Þeistareykja.

Í þriðja lagi felst í kröfugerð stefnda Norðurþings að hann telur Ás og Svínadal eiga nyrðri hluta hins þríhyrnda landsvæðis. Samkvæmt því séu merki Áss og Svínadals til suðvesturs á línu sem eigi upphafspunkt í Eilífshnjúki (P2) og þaðan beina stefnu til norðvesturs í Gangnamannaskarð hið syðra, hnit: A603862 N592465, hér eftir (PA), og liggi þaðan þvert í vestur þangað til bein stefna fæst út í Bunguvegg og rétt horn myndast í punkti með hnitum: A600898 N592552, hér eftir (PB).

Í héraðsdómi var komist að þeirri niðurstöðu að merki milli Reykjahlíðar og Þeistareykja liggi úr Eilífshnjúki (P2) beint áfram í sem næst sömu stefnu til vesturs og línan frá Dettifossi í Eilífshnjúk í hornmark þar sem Bóndhóll er genginn í hásuður og Eilífshnjúk ber rétt norðan undan Gæsafjöllum (P6). Var með þessu hafnað öllu tilkalli eigenda Reykjahlíðar til hins umþrætta landsvæðis. Þá var komist að þeirri niðurstöðu að merki milli Áss og Svínadals og Þeistareykja liggi úr Eilífshnjúki (P2) til norðvesturs í Gangnamannskarð hið syðra í Hrútafjöllum (PA) og þaðan til vesturs þangað til bein stefna fæst út í Bunguvegg þar sem rétt horn myndist í (PB). Af þeirri niðurstöðu héraðsdóms leiddi að hinu þríhyrnda landsvæði var skipt nokkurn veginn til helminga milli Þeistareykja og Áss og Svínadals og tilheyrði samkvæmt því suðurhlutinn Þeistareykjum en norðurhlutinn Ási og Svínadal.

III

Í máldaga Auðunar biskups rauða Þorbergssonar fyrir Hólabiskupsdæmi frá árinu 1318 sagði að Reykjahlíðarkirkja „ä halft heima land. med ollum gognum oc giædum.“ Var þetta ítrekað í máldögum Péturs biskups Nikulássonar fyrir kirkjum í Hólabiskupsdæmi frá 1394 og síðar. Í Reykjahlíðarmáldaga 17. febrúar 1573 sagði meðal annars að „J gudz Nafni Amenn Kirkiann J Reykiahlijd er helgud med gudi oc hinum heilaga Lorentia hun a halft heima land ... Lanndar merki J austan verdan SeliaDal og suo langt vt J mo sem Ilijfs fiall kemur fram vndan gasa Dals fiollum oc suo þaðann j Llijfs fiall/ og hafra gil sem er Austur vid Jokuls a/ Enn hid fremra J þa fiall garda Sem næstir eru fyrir austan Myvatn og eckj snertir bufiar hägagaungu“. Í máldagabók Guðbrands biskups Þorlákssonar frá 1590 til 1616 sagði að „Kÿrkian I Hlÿd vid Myuatn ... skal eiga aptur sitt hallft heimaland, so sem hun hefur aatt meir enn I 2 hndr. aar, og bÿvÿsat verdur “. Í prófastsvísitasíu Reykjahlíðarkirkju frá 1735 greindi frá því að „Kyrkiann j Reikiahlýd eigie hálft heimaland ... fiordung j langareka firir nordann Máná til Hvals og Vida landamerkie j austann verdann Seliadal og so langt uti mó sem Ýlýfs fiall kiemur framm undann Gásadals fiollum og so þadann j Ylýfsfiall og Hafragil, sem er austur vid Jökulsá.“ Í gögnum er varða jarðamat frá 1849 til 1850 var merkja Reykjahlíðar ekki getið en tekið fram að jörðin væri „½ Kyrkjueign og ½ Bondaeign, híngað til talin 40 hndr. ... Kostir jarðarinnar eru: mikið fjallaland til hestagaungu sumar og vetur, hagarymi, landkostir til málnytu fyrir fé og kyr i betra lagi, mörland i besta lagi hér i hreppi og góð og áreiðanleg vetrarbeit fyrir fjenað i heimahögum og hross i selhögum og á ádurnefndum fjöllum; ... hjer er og dálítil grasatekja“.

Landamerkjabréf fyrir Reykjahlíð var gert 8. apríl 1891 og þinglesið 29. maí sama ár á Skútustöðum. Þar sagði meðal annars um merki jarðarinnar: „Að austan ræður Jökulsá alla leið norður að Dettifossi. Að norðan móti Svínadals- og Áslandi í Kelduhverfi, ræður bein stefna frá Dettifossi í Eilífshnjúk; þaðan bein stefna yfir Hrútafjöll og Gjástykki móti Þeystareykjalandi, vestur í mó, þar til Bóndhóll er genginn í hásuður og Eilífshnjúkur ber rjett norðan undan Gæsafjöllum. Frá merki þessu ræður bein stefna í Bóndhól, sem er beint vestur af Gæsadalsfjöllum og þaðan móti Grímsstaðalandi bein lína í Þverdalsbyrgi, þaðan yfir há Skjólbrekku í merkivörðu austast á Flatskalla, þaðan beina stefnu í Kvæk, sem er grashvammur við vatnið, er gengur inní hraunið vestarlega, milli Grímsstaða og Reykjahlíðar. Þá ræður Mývatn suður að Svínavog.“ Eigandi og ábúandi Reykjahlíðar skrifaði undir bréfið og var það áritað um samþykkt meðal annars fyrir Ás og Svínadal og af umráðamanni Þeistareykjalands.

Í gögnum vegna fasteignamats 1916 til 1918 var þess getið að landamerki Reykjahlíðar hafi verið þinglesin 1891 en að ágreiningur væri talinn gagnvart Ytri Neslöndum. Í örnefnaskrá Reykjahlíðar eftir Pétur Jónsson í Reynihlíð frá 1950, sem er meðal gagna málsins, sagði að Gjástykkisveggur væri mót vestri suður frá Hrútafjöllum. Norður frá Leirhnjúkshrauni austanverðu og Hágöngum væri suðurendi Gjástykkis sem að mestu væri í Þeistareykjalandi og í Gjástykkinu suðvestur af Hrútafjöllum væru Éthólar. Hrútafjöll væru norðan merkja en sunnan við þau héti Hrútafjallahali og gegnum hann væri skarð nálægt merkjum, Gangnamannaskarð, og væri halinn sunnan við skarðið. Sami Pétur skrifaði um jörðina Reykjahlíð í Árbók Þingeyinga 1966 og lýsti merkjum hennar í stórum dráttum meðal annars þannig að þau lægju „austan við Grímsstaði í norður vestan við Gæsafjöll og svo norðan við þau austur í Eilíf og þaðan í Dettifoss ... Lína í hánorður er 17 km. á merki norðan við Gæsafjöll. Lína í Dettifoss 31 km.“

IV

Þeistareykja var getið í máldaga Auðunar biskups fyrir Hólabiskupsdæmi frá 1318. Þar var merkjum ekki lýst en fram kom að Múlakirkju tilheyrði: „þeistareykia land oc mælifell.“ Hið sama var ítrekað í máldögum Péturs biskups fyrir kirkjum í Hólabiskupsdæmi frá 1394. Í vísitasíugerð Jóns Hólabiskups Vilhjálmssonar frá 1431 sagði að Múlakirkja ætti „selfor j teistaræykia landi.“ Í máldögum Ólafs biskups Rögnvaldssonar frá árabilinu 1461 til 1510 sagði að Múlakirkja ætti Mælifell og einnig Þeistareykjaland og að í Múla væri „þriggia presta skylld oc tueggia diakna. tekzt heima j leigu. iiij. merkr. en vtan gardz adrar. iiij. ef lykzt af þeistareykium.“ Fram kom í skrá Sigurðar prests Jónssonar á Grenjaðarstað um máldaga Hóladómkirkju, klaustra og nokkurra kirkna á Norðurlandi frá 1525, sem nefnd hefur verið Sigurðarregistur, að með Múlakirkju fylgdi Þeistareykjaland og Mælifell. Í jarðakaupabréfi frá 31. desember 1544 sagði að Reykir í Reykjahverfi væru seldir með öllum gögnum og gæðum, eignum og ítölum, að tilskildum nokkrum ítökum. Þar á meðal: „Mælifellzhaga utann so mykinn part sem Eignadur værj Mulakyrkiu ä millum tueggia Garda.“ Í máldögum Ólafs biskups Hjaltasonar frá 1553 kom fram að Múlakirkju fylgdu Þeistareykir og í öðrum máldaga sem gerður var fyrir Múlakirkju 8. september 1563 var sagt að Múlakirkju fylgdi Þeistareykjaland og Mælifell.

Í lögfestu, sem gerð var fyrir Þeistareyki og Mælifell 1639, var merkjum ekki lýst en sagt meðal annars: „Anno 1639 ... Eg Jon Gyssurson Lögfeste hier j dag eign mvla k(ir)kju liggjandj j Grenjadarstadar kýrkju soknn Er mælefell og þesta Reykia land heýter“. Í lögfestu Þorleifs Skaftasonar prests í Múla frá 1744 á Þeistareykjum og Mælifellshögum var hins vegar getið merkja Þeistareykja og sagði þar meðal annars: „ad Sunnan So langt fram j Mó, þar til Ylÿfz fiall er nærre geinged under Giæsadals fioll, og So rett austur og Vestur, Ad Vestann räda Lambafiöll, að Norðan Raudhóll og rettsÿnis Vr hönum austur og Vestur, enn Ad austan rædur Land eign þeirra Manna er nærst kunna Sier landeign ad bevÿsa“. Í lögfestu Skúla Tómassonar fyrir Þeistareyki og þar með Mælifellshaga frá 13. maí 1854 sagði: „Jeg Skúli Thomasson prestur að Múla lögfesti hjermeð í dag samkvæmt máldaga Múlakirkju ... af 1563 og lögfestum af datis 1712, 1725, 1749, 1753, 1744, 1767, 1806, 1809 og 1819, öllum upplesnum fyrir manntalsþingsrjetti og óátöldum – bæði á Húsavík og Helgastöðum, – Múlakirkju eign, eyðijörðina Þeistareyki, liggjandi í Grenjaðarstaða kirkju sókn, og Helgastaða þingsókn; Löfesti jeg nefndrar jarðar tún ... og allar landsnytjar, sem greindri jörðu fylgt hafa, og fylgja eiga með rjettu, að fornu og nýju, að öllu tilskildu; en engu fra: Hvar með meintir eru allir Mælifellshagar, að tilteknum þessum landamerkjum: Að sunnan svo langt fram í Gæsadalsmó, þar til Ylífs fjall er nærri gengið undir Gæsadalsfjöll, og svo rjett austur og vestur. Að vestan ráða Lambafjöll; að norðan Rauðhóll og rjettsýnis úr honum vestur til sæluhússtóttar og austur; En að austan ræður landeign þeirra manna, er löglega kunna sjer landeign að bevísa.“

Í auglýsingu Þórarins Jónssonar prests í Múla 1809 um landamerki Þeistareykja sagði meðal annars: „Og til ad koma í veg fyrir slíkt ad nockru, þá eru þessi ummerki Þeistareika Lands ad medreiknuðum Mælifells högum: ad vestan ráda Lambafiöll réttlínis út og sudur, ad nordan Raudhóll austur og vestur, fyri víst allt á midia Dunareikihálsa, sudur undir Bóndólfs Skard, Takmörk ad sunnann Eilífshnúkur nærri gengenn undir Giæsadals Fioll, og þadan réttlínis úr sama Hniuk út aptur Móts vid ádurnefndt Bóndólfs Skard austur frá Þeistareikium.“ Í gögnum vegna jarðamats frá 1849 til 1850 var tekið fram: „Thestareykir, med Mælifellshögum sem selland staðarins Múla, eyðijörð, áður talin 20 hndr.; er nú brúkuð fyrir afrjett handa sauðfje og hrossum; graslendi er þar heimum sig á fyrrverandi túni og eingjum, víðlendi mikið af móum og hrauni“.

Til er landamerkjabréf Þeistareykjaafréttar sem er ódagsett og óþinglýst en talið gert 1915. Það mun ritað af Benedikt Jónssyni bónda á Auðnum í Laxárdal eftir að Reykdæla- og Aðaldælahreppar keyptu Þeistareyki af landsjóði árið 1915. Landamerkjabréfið samþykktu með áritun sinni eigendur aðliggjandi jarða, þar með taldir eigendur Reykjahlíðar, en þó ekki eigendur Áss og Svínadals og Kelduness. Í bréfinu sagði: „Suðvesturhorn landsins er á Hólasandi þar sem norðurrönd Eilífshnjúks sér norður undan Gæsafjallahorni nyrðra. Þaðan ræður merkjum að sunnan gegnt Grímsstaða og Reykjahlíðar löndum, samkvæmt þinglesnum landamerkjaskrám þeirra jarða, bein stefna um Gæsafjallahorn nyrðra á Eilífshnjúk, gegnt Hrútafjöllum. Að austan gegnt Áss og Svínadals landi ráða merkjum Hrútafjöll, samkvæmt fornum máldögum og lögfestum Áss, og frá Hrútafjöllum í Kerlingarhól. Að norðan gegnt Áss, Kelduness, Garðs, Víkingavatns, Fjalla og Skarðs löndum eru samkvæmt þinglesnum og staðfestum landamerkjaskrám allra þessara jarða, landamerkin þannig: Úr Kerlingarhól um Sauðklett og Eyjólfshæð í syðri enda Lönguhlíðar; þaðan um Rauðhól eftir Bláskógavegi um Sæluhús í Höfuðreiðarmúla. Að vestan gegnt Skarða, Skóga, Þverár, Reykja, Brekknakots, Klambrasels, Langavatns, Geitafells, Kasthvamms og Hólalöndum, eru samkvæmt þinglesnum og staðfestum landamerkjaskrám allra þessara jarða, merkin þannig: úr Höfuðreiðarmúla um Lambafjöll í Gustahjnúk og þaðan um Þverárgilsdrög, Kröflugil og eftir Sandi í suðvestur hornmark það, sem í upphafi var nefnt. Land allt innan þessara merkja er óskoruð eign Reykdæla og Aðaldælahreppa, og eiga engir aðrir neins konar ítök í það eða réttindi til þess, önnur en landsjóður námur.“  

Í landamerkjaskrá fyrir Þeistareykjaafrétt sem dagsett er 16. september 1948,  innfærð í landamerkjabók Þingeyjarsýslu og þinglesin í júlí 1951 sagði um merki Þeistareykja: „Að norðan eru merki frá suðurodda Sæluhússmúla, bein stefna í norðurenda Rauðhóls, þaðan stefna í suðurenda Lönguhlíðar, (brún mót vestri) og þaðan bein lína austur á Eyjólfshæð. Að austan eru merki fyrst bein stefna af Eyjólfshæð suður í norðurenda Bunguveggjar, þar sem varða er. Þá ræður merkjum gjáveggurinn, Bunguveggur, þar til hann þrýtur, austur af Þeistareykjatungu sunnanvert. Frá veggjarenda á þessum stað ræður bein lína suður að Hituhólum miðjum, og sama stefna suður yfir hólana. Frá sunnanverðum Hituhólum ræður óslitinn gjáveggur, Borgaveggur, allt suður að beinni línu, sem þversker vegg þenna, stefnu austan frá Eilífshnúk og vestur að rótum Gæsafjalla að norðan. Er það merkjahorn, sem hér myndast á Borgavegg stutt norður af Éthól. Að sunnan eru merki frá þessum stað á Borgavegg, vestur eftir fyrrnefndri línu, stefnu af Eilíf á norðurrætur Gæsafjalla og sömu stefnu frá þeim stað, er rætur fjallanna ganga lengst norður, og vestur mó og sand þar, sem Eilífshnúk ber við Gæsafjöll að norðan, allt vestur á merkihnúk á Klapparbrekku, en þaðan bein stefna á Gustaskarð. Að vestan ráða Lambafjöll merkjum úr Gustaskarði að sunnan norður á Jónsnípu á Höfuðreiðarmúla, og af Jónsnípu bein stefna í suðurodda Sæluhússmúla, sem í upphafi var nefndur.“

Síðastnefnt landamerkjabréf liggur fyrir í málinu í vélritaðri uppskrift. Samkvæmt þeirri uppskrift ritaði Sigfús Bjarnarson undir bréfið. Þá ritaði undir það Áskell Sigurjónsson vegna Reykdælahrepps og Sigurður Guðmundsson vegna Aðaldælahrepps. Vegna Reykjahlíðar rituðu undir bréfið Pétur Jónsson, Illugi Jónsson, Sigurður Einarsson, Þorsteinn Jónsson og Kristjana Hallgrímsdóttir. Ólafur Jónsson ritaði undir vegna Fjalla, Björn Haraldsson og Þórarinn Haraldsson sem eigendur Austurgarða og Laufáss, Erlingur Jóhannesson fyrir hönd Kelduneshrepps samkvæmt umboði vegna Ásheiðar, Snorri Gunnlaugsson vegna Geitafells, Aðalgeir Davíðsson vegna Langavatns, Kristján Jóhannesson vegna Klambrasels, Sigtryggur Hallgrímsson vegna Reykja samkvæmt umboði, Sveinn Björnsson vegna Víkingavatnstorfu samkvæmt umboði, Guðmundur Björnsson vegna Sulta, og Jóhannes Þórarinsson handsalað vegna Garðs. Vegna Grímsstaða rituðu undir bréfið Jóhannes Sigfinnsson, Helgi Sigurjónsson og Ragnar Sigfinnsson, fyrir Þverá Hrólfur Árnason, fyrir Skóga I Gunnlaugur Sveinbjörnsson, fyrir Skóga II Páll Sigurðsson og Sigurður Pálsson og fyrir Skörð Jón Þórarinsson. Í niðurlagi landamerkjabréfsins sagði: „Framanrituð merkjaskrá, gerð af Sigfúsi Bjarnarsyni eftir beiðni vegna Aðaldæla og Reykdælahreppa, eigenda afréttarlandsins, er hér staðfest með undirritun oddvita beggja þessara hreppa og jafnframt með undirritun allra aðila þeirra, er lönd eiga, eða umráð hafa á landi, umhverfis Þeistareykjaafrétt að öllum hliðum.“

Í ódagsettri örnefnaskrá Ara Gíslasonar fyrir Þeistareykjaafrétt var merkjum Þeistareykja lýst. Þar sagði meðal annars að merkin væru austan úr Eyjólfshæð suður í norðurenda á Bunguvegg. Hann þryti austur af Þeistareykjabungu sunnanvert. Frá enda veggjarins væri bein lína suður að miðjum Hituhólum og sama stefna suður yfir hólana. Frá þeim sunnanverðum réði óslitinn gjáveggur, Borgaveggur, allt þar til hann væri þverskorinn af línu frá Eilífshnjúki og vestur að rótum Gæsafjalla að norðan. Merkjahornið sem hér myndaðist væri stutt norður af Éthól. Í ódagsettri örnefnaskrá Kristjáns Jóhannssonar í Klambraseli fyrir Þeistareykjaland var merkjum einnig lýst og sagði þar meðal annars: „Að síðustu förum við suðaustur í Þeistareykjalandshorn, þar kallast Hituhólar, yfir þá liggja merkin milli Keldhverfinga og Þeistareykja, svo þeir tilheyra ekki Þeistareykjum nema að hluta, og féllu Hituhólar niður í fyrra bréfi.“  

V

Samkvæmt Landnámabók var jörðin Ás landnámsjörð Önundar Blængssonar og sagði þar að hann hefði numið Kelduhverfi frá Keldunesi og búið að Ási. Í máldaga Auðunar biskups frá 1318 var merkja Áss ekki getið en þar sagði: „Kyrkia j Ase ä þridiung j heimalande.“ Þetta var ítrekað í máldögum Péturs biskups Nikulássonar og Ólafs biskups Rögnvaldssonar sem áður er getið. Í vitnisburði sex manna um reka- og landamerki milli Áss og Kelduness 28. júní 1494 kom fram: „að kiellduness skylldi eiga sionhending vr mel þeim er vt er fra fliotzdalzgarde og helldur vestann. og vpp j Midhjoolz hws. Og vt vr melnvm Riettsyni j sio. Enn j millvum skoga landzmerkis og Ass kirkiv Reka. Riettsyni vr sio nyagardur. er nv erv kalladar þufur. j Jòkulza. vid Jlijfsfialle.“

Í máldagabók Guðbrands biskups  frá 1590 til 1616 sagði: „kirkian I Ase skal eiga þridiung I heima ... landj, so sem hun aatt hefur“. Í vitnisburði séra Þorsteins Illugasonar prófasts í Múla um landamerki Áss og Kelduness 4. ágúst 1620, sem ritaður var að beiðni Guðbrands biskups, skýrði Þorsteinn svo frá að þegar hann fékk umboð Hólastóls í norðurumboði þá hafi elstu menn sem þá voru í Kelduhverfi lýst fyrir honum eftirfarandi landamerkjum milli Áss og Kelduness: „fyrst vr þeÿrrj þufu Sem Hvalbein stendur J vid sioinn og Reka mark er A millumm Ass og Kiellduness þadann Riett Sÿnis J Fliots dalz gard, og aftvr Sion Hending J Reÿk J Holz Husvmm.“ Í lögfestu Jóns Jónssonar, sem lesin var á manntalsþingsrétti að Ási 25. júní 1789, lögfesti Jón eignarjörð sína Ás og hjáleigur hennar, Bakka, Þórunnarsel og Byrgissel ásamt Byrgi. Með lögfestunni sem skyldi gilda í ár var öllum bannað að nýta sér það land sem markað var meðal annars með eftirfarandi hætti: „þadan rétta stefnu i Meidavallahamar úr honum rétt til vesturs í þann austari Saudklett þadan í Hrútafjöll og austur í eilífshnjúk og svo beint austur í Jökulsá. og rædur hún svo landi ad austan til sjáfar úr.“ Í gögnum vegna jarðamats frá 1849 til 1850 kom meðal annars fram: „Ás með hjáleigunni Svínadal, bóndaeign hingaðtil talin 20 hndr. ... landrými mikið og landkostir góðir, vetrarbeit eins; kolaskógur mikill og afréttarland að því skapi, líka nokkur grastekja.“

Landamerkjasamningur var gerður milli Áss og Svínadals 27. ágúst 1887 og þinglesinn 28. júní 1911. Sagði þar meðal annars: „Við undirskrifaðir umboðsmenn eigenda jarðanna Áss og Svínadals í Kelduhverfi höfum komið okkur saman um það, að hin réttu landamerki milli nefndra jarða skuli vera þessi: 1. Frá Dettifossi að framan og austan, beina stefnu til vesturs í Eilífshnjúk.“  

Í landamerkjabréfi Áss og Svínadals í Kelduhverfi sem gert var 1. maí 1889 og þinglesið 24. júní 1890 sagði: „Ás á land allt að utan og austan frá syðri enda á Svartbaksskeri við Jökulsá og með henni fram í Dettifoss, og þaðan beint vestur í Eilífshnjúk, og þaðan beint vestur á Gangnamannaskarð (hið syðra) í Hrútafjöllum, og þaðan þvert í vestur þangað til bein stefna fæst útí Búnguveggi (rétt horn) og úr Bunguveggjum beina línu útí Eyjólfshæð austur í Kerlingarhól, og svo austur í Merkiþúfu og Arndísarhóla og alla leið á Meiðavallahamar við Byrgisbotn, síðan ráða Byrgisbjörg landamerkjum á millum jarðanna Áss og Byrgis það sem björgin taka“. Bréfið var meðal annars undirritað af umboðsmanni eiganda Áss og áritað um samþykki eigenda nálægra jarða, þar á meðal af umboðsmanni Þeistareykja og ábúanda og eiganda Reykjahlíðar.

Í gögnum vegna jarðamats frá 1916 til 1918 sagði: „Ás á allt land utan og austan frá syðri enda á Svartbaksskeri við Jökulsá og með henni fram í Dettifoss, og þaðan beint í Eilífshnjúk; þaðan beint vestur í Gangnamannaskarð hið syðra í Hrútafjöllum og þaðan þvert vestur þangað til bein stefna fæst út í Bringuveggi (rétt horn), og úr Bringuveggjum beina línu út í Eyólfshæð, austur í Kerlingarhól og svo austur í Merkiþúfu og Arndísarhóla og alla leið í Meiðarvallahamar við  Byrgisbotn.“ Í örnefnaskrá Ara Gíslasonar fyrir Ásheiði sem skráð var 1961 var meðal annars sagt að austan við Gjástykkið syðst væru Hrútafjöll og sunnan þeirra Gangnamannaskarð. Eilífur væri syðst og vestast á Svínadalshálsi og úr honum væri merkjalínan í Dettifoss.

VI

Eins og fyrr greinir var ekki gert landamerkjabréf fyrir Þeistareyki eftir setningu landamerkjalaga nr. 5/1882. Hins vegar var gert landamerkjabréf fyrir Ás og Svínadal 1. maí 1889 sem þinglesið var 24. júní 1890 og fyrir Reykjahlíð 8. apríl 1891 sem þinglesið var 29. maí sama ár. Landamerkjaskrá fyrir Þeistareykjaafrétt var á hinn bóginn gerð 1948, hún innfærð í landamerkjabók Þingeyjarsýslu og þinglesin í júlí 1951. Áður og að því er talið er árið 1915 hafði verið gert landamerkjabréf fyrir Þeistareykjaafrétt en því var ekki þinglýst, hvorki þá né síðar, og það var ekki áritað um samþykki af eigendum Áss og Svínadals og Kelduness. Þess er fyrr getið að samkvæmt úrskurðum óbyggðanefndar í málum nr. 1/2007 og 2/2007 er allt land á þrætusvæðinu eignarland og una landeigendur og íslenska ríkið þeirri niðurstöðu.

Ágreiningslaust er hvar lönd Reykjahlíðar og Þeistareykja liggja saman norðan Gæsafjalla, hvar lönd Þeistareykja og Áss og Svínadals liggja saman á línu sem dregin er úr Eyjólfshæð suður undir Hituhóla og hvar lönd Reykjahlíðar og Áss og Svínadals liggja saman á línu sem dregin er úr Dettifossi í Eilífshnjúk. Ágreiningsefni málsins varðar á hinn bóginn hvernig merki milli jarðanna skuli dregin á þríhyrndu landsvæði sem áður er lýst og markast af línu sem dregin er úr Eilífshnjúki (P2) í hornmark skammt norðan Éthóls (P5), þaðan í vörðu norðan Hituhóla (P4) og úr vörðunni beina línu í Eilífshnjúk (P2) um hnitapunkt (P3), sem eigendur Reykjahlíðar halda fram að sé Gangnamannaskarð í Hrútafjöllum.

Hér áður eru raktar heimildir sem fyrir liggja í málinu um merki milli jarðanna þriggja, Reykjahlíðar, Þeistareykja og Áss og Svínadals. Þessar heimildir eru frá ólíkum tímum og misjafnlega nákvæmar hvað lýsingu merkja varðar. Það er þó ótvírætt einkenni þeirra heimilda sem lýstu merkjum Reykjahlíðar að þær hafa lítið breyst um aldir. Þar var lýst með áþekku orðalagi beinum línum milli kennileita eins og lýsingar í Reykjahlíðarmáldaga frá 1573 og prófastsvísitasíu Reykjahlíðarkirkju frá 1735 bera með sér. Er samræmi milli þessara eldri heimilda og landamerkjabréfs Reykjahlíðar frá 1891. Í því bréfi kom fram að á móti Svínadals- og Áslandi í Kelduhverfi réði bein stefna frá Dettifossi í Eilífshnjúk og þaðan bein stefna yfir Hrútafjöll og Gjástykki móti Þeistareykjalandi vestur í mó þar til Bóndhóll væri genginn í hásuður og Eilífshnjúk bæri rétt norðan undan Gæsafjöllum. Þá er og til þess að líta að lýsingar framangreindra heimilda á norðurmörkum Reykjahlíðar eru í fullu samræmi við lýsingar eldri og yngri heimilda á suðurmörkum Þeistareykja, sem lýstu með áþekkum hætti beinni línu úr Gæsadalsmó austur með jaðri Gæsafjalla að norðan. Bera þessa merki lögfesta Þorleifs Skaftasonar frá 1744, auglýsing Þórarins Jónssonar prests í Múla frá 1809, lögfesta Skúla Tómassonar frá 1854, ódagsett og óþinglýst landamerkjabréf Þeistareykjaafaréttar frá 1915 og að hluta landamerkjaskrá Þeistareykjaafréttar frá 1948. Mælir allt þetta gegn því að eigendur Reykjahlíðar eigi tilkall til lands norðan þeirrar beinu línu, sem liggur úr Eilífshnjúki og vestur í Gæsadalsmó, nema svo verði litið á að eigendur Reykjahlíðar, Þeistareykja og Áss og Svínadals hafi með samningum sín í milli komið á annarri skipan mála um merki jarða sinna, þannig að gildi hafi að lögum.

Samanburður á heimildum um merki milli Þeistareykja og Áss og Svínadals sýnir á hinn bóginn að lýsingar á þeim hafa, hvað úrlausnarefni þessa máls varðar, tekið nokkrum breytingum í aldanna rás. Í því sambandi er þess fyrst að geta að merkjum Áss var í lögfestu Jóns Jónssonar, sem lesin var á manntalsþingi í Ási 25. júní 1789, lýst þannig að þau lægju í Meiðavallahamar og úr honum rétt til vesturs í þann austari Sauðklett, þaðan í Hrútafjöll og austur í Eilífshnjúk og svo beint austur í Jökulsá. Þá virðist með sama hætti gengið út frá því í auglýsingu Þórarins Jónssonar prests í Múla frá 1809 að suðaustur hornmark Þeistareykja væri í Eilífshnjúki, sbr.  orðalag auglýsingarinnar: „Takmörk að sunnan Eilífshnúkur nærri gengenn undir Giæsadals Fioll, og þadan réttlínis úr sama Hniuk “. Elsta fyrirliggjandi heimildin um merki Þeistareykja, lögfesta Þorleifs Skaftasonar frá 1744, lýsti austurmörkum jarðarinnar ekki sjálfstætt með vísun til kennileita, heldur kom þar fram að austurmerkin réðust af landareign þeirra manna „er nærst kunna Sier landeign ad bevÿsa.“ Hið sama gerði Skúli Tómasson í lögfestu frá 1854, en þar sagði hann einnig um austurmörkin að þar réði landareign þeirra manna „er löglega kunna sér sjer landeign að bevísa.“

Merkjalýsing í lögfestunni fyrir Ás frá 1789 sýnir að eigandi jarðarinnar á þeim tíma taldi að sú þríhyrnda landspilda sem um er deilt í málinu tilheyrði Þeistareykjum að stærstum hluta og kom sami skilningur fram í auglýsingu Þórarins Jónssonar í Múla frá 1809 um merki Þeistareykja. Þá var í hinu óþinglýsta landamerkjabréfi Þeistareykja frá 1915 lagt til grundvallar að gegnt Áss- og Svínadalslandi réðu merkjum Hrútafjöll, samkvæmt fornum máldögum og lögfestum Áss, og frá Hrútafjöllum í Kerlingarhól. Þessar heimildir bera með sér að eigendur Þeistareykja og Áss töldu á þessum tíma að land Þeistareykja næði lengra til austurs en nú er. Að sama skapi töldu þeir að land Áss og Svínadals næði skemmra til vesturs heldur en landamerkjabréf þeirrar jarðar frá 1889 og landamerkjaskrá Þeistareykjaafréttar 1948 bera með sér, en síðastnefnda landamerkjaskráin skar þríhyrnda svæðið sem um er deilt frá Þeistareykjalandi.

Við aðalmeðferð málsins komu fyrir dóm sex vitni og höfðu fimm þeirra verið búendur í Kelduhverfi en einn í Aðaldælahreppi. Fjögur þessara vitna, Þórarinn Þórarinsson í Vogum, Sigurgeir Ísaksson í Undirvegg og Ásbyrgi, Sigvaldi Gunnarsson í Lyngási og Þorfinnur Jónsson á Ingveldarstöðum, allir í Kelduhverfi, báru á þann veg að almennt hefði verið talið að Þeistareykir ættu land sunnan línu sem dregin væri úr Eilífshnjúki í Gangnamannaskarð í Hrútafjöllum og þaðan í Bunguvegg. Þá kvað eitt vitnanna, Guðmundur Hallgrímsson frá Grímshúsum í Aðaldal, það hafa komið sér á óvart við lestur örnefnaskrár Kristjáns Jóhannssonar í Klambraseli og lýsingu þar á merkjum Þeistareykja að Kristján skyldi hafa skorið þríhyrninginn frá Þeistareykjalandi. Eitt vitnanna, Adam Jónsson í Tóvegg í Kelduhverfi taldi að landið sunnan línunnar væri Mývatnssveitarland eins og hann komst að orði og aðspurður hvort hann vísaði þar til Reykjahlíðar kvaðst hann ekki vita það en tók fram að víst væri að Reykjahlíð ætti land sunnan girðingar.

Hér að framan var rakið það sem fram kom um merki í lögfestum fyrir Þeistareyki 1744 og 1854, í auglýsingu Þórarins Jónssonar í Múla frá 1809 um merki Þeistareykja, í hinu óþinglýsta landamerkjabréfi Þeistareykja frá 1915 og í lögfestu fyrir Ás frá 1789. Það sem þar kemur fram styður að jörðinni Þeistareykjum hafi tilheyrt land austur í Eilífshnjúk og þar með það landsvæði sem um er deilt og verður það lagt til grundvallar við úrlausn málsins. Af því leiðir að eigendur Þeistareykja hafa að lögum verið bærir til að ráðstafa umræddu landi jarðarinnar í heild eða að hluta til annarra með löggerningum.

VII

Næst kemur til úrlausnar hvort eigendur Reykjahlíðar, Þeistareykja og Áss og Svínadals hafi samið um aðra skipan landamerkja milli jarða sinna en þá, sem gilti á þrætusvæði málsins samkvæmt því er fram kemur í kafla VI hér að framan. Ber í því sambandi að hafa í huga það sem segir í dómi Hæstaréttar 11. október 2012 í máli nr. 457/2011 að landamerkjabréf eru í eðli sínu samningar séu þau samþykkt af eigendum eða umráðamönnum aðliggjandi jarða.

Fyrst er til þess að líta sem áður greinir að Þeistareykir áttu land á móti Reykjahlíð og Ási og Svínadal allt austur í Eilífshnjúk, þar sem var sameiginlegt hornmark jarðanna þriggja. Landamerkjabréf Áss og Svínadals frá 1889 er elst þeirra landamerkjabréfa sem gerð voru fyrir jarðirnar þrjár. Það var undirritað af umboðsmanni og eiganda Áss og Svínadals og áritað um samþykki af eigendum nálægra jarða, þar á meðal fyrir hönd Þeistareykja og Reykjahlíðar. Í bréfinu var merkjum Áss lýst úr austri frá Dettifossi „beint vestur í Eilífshnjúk og þaðan beint vestur á Gangnamannaskarð (hið syðra) í Hrútafjöllum, og þaðan þvert í vestur þangað til bein stefna fæst útí Búnguveggi (rétt horn) og úr Bunguveggjum beina línu út í Eyjólfshæð austur í Kerlingarhól.“ Við þessa lýsingu á merkjum Áss og Svínadals, sem umboðsmaður Þeistareykja samþykkti sem fyrr segir með áritun sinni á bréfið frá 1889, færðist sameiginlegt hornmark Reykjahlíðar, Þeistareykja og Áss og Svínadals ekki úr Eilífshnjúki. Hins vegar sneiddist við þessa ráðstöfun austast af Þeistareykjum að sunnanverðu land, sem jörðinni hafði áður tilheyrt á svæðinu frá Hrútafjöllum vestur yfir Gjástykki og í Bunguvegg, og féll eftirleiðis innan marka Áss og Svínadals. Þá færðust merki Þeistareykja að norðan einnig með landamerkjabréfinu frá 1889 til vesturs frá Kerlingarhól og Fremri Sauðklett í Eyjólfshæð sem við þetta varð norðaustur hornmark Þeistareykja, og land Áss og Svínadals jókst að sama skapi til vesturs. Úr Eyjólfshæð liggja mörk Áss að vestan og Þeistareykja að austan samkvæmt landamerkjabréfinu frá 1889 til suðurs um Bunguvegg, yfir Hituhóla og þaðan um Gangnamannaskarð hið syðra í Hrútafjöllum og í Eilífshnjúk.

Framangreind skipan merkja í millum Þeistareykja og Áss og Svínadals, sem leggja verður til grundvallar að samið hafi verið um með landamerkjabréfinu 1889, hélst óbreytt til ársins 1948. Það ár var hún ítrekuð í landamerkjaskrá Þeistareykjaafréttar sem dagsett er 16. september 1948 og áritað um samþykki af Kelduneshreppi sem eiganda Áss.

VIII

Hér að framan er rakið hvernig eigendur Þeistareykja og Áss og Svínadals hafa ákvarðað merki sín í milli með landamerkjabréfunum frá 1889 og 1948, sem eru í eðli sínu samningar um landamerki eins og háttaði til í samskiptum þeirra. Kemur þessu næst til úrlausnar hvar kennileitið Gangnamannaskarð er að finna, en af staðsetningu þess ræðst hvernig merkjalína þessara tveggja jarða er nánar dregin. Eigandi Þeistareykja heldur því fram að Gangnamannaskarð sé í hnitapunkti (P3) í Hrútafjöllum en kröfugerð stefnda Norðurþings er á því reist að skarðið sé syðst í Hrútafjallahala (PA) og þar með syðsta skarðið af þeim fjórum sem til greina geta komið sem Gangnamannaskarð.

Kennileitið Gangnamannaskarð kom fyrir í landamerkjabréfi Áss og Svínadals og var þar nefnt Gangnamannaskarð hið syðra. Þessi tvö kennileiti, Gangnamannaskarð og Gangnamannaskarð hið syðra, komu hins vegar hvorki fyrir í landamerkjabréfi Reykjahlíðar frá 1891 né Þeistareykjaskránni frá 1948 og heldur ekki í eldri heimildum um merki jarðanna þriggja. Í örnefnaskrá Reykjahlíðar eftir Pétur Jónsson frá 1950 var hins vegar getið um örnefnið Gangnamannaskarð. Þar sagði að Hrútafjöll væru norðan merkja, sunnan við þau héti Hrútafjallahali og gegnum hann væri skarð nálægt merkjum sem heiti Gangnamannaskarð en halinn væri sunnan við skarðið. Einnig var Gangnamannaskarðs getið í örnefnaskrá Ara Gíslasonar fyrir Ásheiði frá 1961 en þar sagði að sunnan Hrútafjalla væri Gangnamannaskarð. Jón Illugason einn af eigendum Reykjahlíðar gaf aðilaskýrslu fyrir héraðsdómi. Hann kvaðst einvörðungu hafa heyrt talað um eitt Gangnamannaskarð og væri það milli Hrútafjalla og Hrútafjallahala í hnitapunkti (P3). Hann sagðist ekki kannast við það að menn hefðu hist í skarðinu og skipt þar leitum. Þá kvað hann aðspurður eigendur Reykjahlíðar með samningi hafa heimilað Landsvirkjun að bora holur eftir heitu og köldu vatni á þrætusvæðinu.

Af gögnum málsins verður ekki dregin ótvíræð ályktun um staðsetningu kennileitisins Gangnamannaskarðs. Samkvæmt framburði flestra þeirra sem vitni báru í málinu var skarðið fært hestum, mönnum og kindum og í því skiptu með sér leitum gangnamenn sem komu norðan úr Kelduhverfi og gengu suður með Hrútafjöllum að austan. Fóru sumir gangnamanna vestur yfir skarðið og leituðu í Gjástykki til norðurs en aðrir fóru austur undir Eilífshnjúk og leituðu þaðan til norðurs. Eitt vitnanna, Adam Jónsson í Tóvegg, kvaðst kannast við Gangnamannaskarð og sagðist hafa verið þar í göngum í fjölmörg ár. Hægt hafi verið að fara bæði gangandi og ríðandi um skarðið og Gjástykkismenn farið vestur yfir það með hesta sína og þaðan til norðurs vestan Hrútafjalla.

Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi kom í ljós við vettvangsskoðun að fjögur skörð eða lægðir eru í Hrútafjöllum að meðtöldum Hrútafjallahala. Um hið nyrsta þeirra er ekki fær leið, hvorki mönnum né skepnum, og kemur það því samkvæmt framansögðu ekki til álita við úrlausn málsins. Hin þrjú eru í suðurhluta fjallsins. Um það þeirra sem nyrsta er (P3) og sum vitnanna nefndu ókleifa skarðið, er ekki reiðfær leið að austan og kemur það því heldur ekki til álita en tvö hin syðri eru reiðfær. Ef farið er um miðskarðið þarf eins og í héraðsdómi greinir að fara upp allbrattar brekkur en syðsta skarðið (PA) er sýnu lægst og um það auðveldust reiðleið. Með hliðsjón af orðalagi landamerkjabréfs Áss og Svínadals, staðháttum við Hrútafjöll, skipulagi fjárleita og framburði vitna um ferðir yfir skarðið verður staðfest sú niðurstaða hins áfrýjaða dóms að Gangnamannaskarð hið syðra, sem til er vitnað í landamerkjabréfi Áss og Svínadals, sé skarðið syðst í Hrútafjallahala, en á því er kröfugerð stefnda Norðurþings reist. Þá leiðir einnig af hinu sama að staðfest verður sú niðurstaða hins áfrýjaða dóms að úr Gangnamannaskarði hinu syðra í punkti (PA) liggi merkjalínan þvert til vesturs í punkt (PB). Í því sambandi skal þess og getið að þegar merkjalínan er dregin með þessum hætti þvert í vestur úr (PA) myndast 90° horn á Bunguvegg í punkti (PB) á beinni línu sem dregin er frá síðarnefnda punktinum í punkt (P4), og er það í samræmi við orðalag landamerkjabréfs Áss og Svínadals.

IX

Að fenginni þeirri niðurstöðu sem áður greinir um landamerki milli Þeistareykja og Áss og Svínadals kemur næst til úrlausnar hvernig merki Reykjahlíðar verða nánar dregin. Er álitaefnið það hvort syðri hluti hinnar þríhyrndu þrætuspildu, sem liggur til norðvesturs úr Eilífshnjúki (P2) í Gangnamannaskarð hið syðra (PA), úr því þvert í vestur í punkt (PB) og úr honum til suðurs í punkt (P5), tilheyri Reykjahlíð eða Þeistareykjum. Þess er getið í kafla VI hér að framan að lýsing landamerkja milli Þeistareykja og Reykjahlíðar í eldri og yngri heimildum um merki jarðanna mælir gegn því að eigendur Reykjahlíðar eigi tilkall til lands norðan þeirrar beinu línu sem liggur úr Eilífshnjúki og vestur í Gæsadalsmó. Þarf því úrlausnar við hvort svo verði litið á að eigendur Reykjahlíðar og Þeistareykja hafi með samningum sín í milli komið á annarri skipan mála þannig að gildi hafi að lögum.

Sú ályktun verður ekki dregin af efni landamerkjabréfs Áss og Svínadals frá 1889, sem eigendur Reykjahlíðar og Þeistareykja samþykktu, að með því hafi mörk Reykjahlíðar með samningi landeigenda færst norður fyrir þá beinu línu sem samkvæmt eldri heimildum skildi jarðirnar tvær og lá úr Eilífshnjúki vestur í Gæsadalsmó. Þá kom fram í vettvangsgöngu að þótt Hrútafjöll og Hrútafjallahali séu tvö sjálfstæð kennileiti mynda þau eina heild þar sem halinn er syðsti og lægsti hluti fjallanna og gengur suður úr þeim. Framburður vitna um kennileiti og staðhætti styður þetta. Þá er ljóst af gögnum málsins að landfræðileg mörk Gjástykkis að norðan eru móts við Eyjólfshæð og að sunnan nær það allt að Sandmúla. Af þessu leiðir að staðhættir tengdir kennileitunum Hrútafjöllum og Gjástykki standa ekki í vegi þeirri ályktun að sú beina stefna yfir þau, sem til er vitnað í Reykjahlíðarbréfinu frá 1891, liggi áfram til vesturs úr Eilífshnjúki í sem næst sömu stefnu og merkjalínan frá Dettifossi í hnjúkinn, í stað þess að taka stefnu til norðvesturs úr honum. Verður samkvæmt þessu heldur ekki lagt til grundvallar að Reykjahlíðarbréfið frá 1891, sem eigendur Þeistareykja samþykktu, hafi falið í sér samning þeirra um breytt merki jarðanna miðað við það sem áður var talið.

Fyrr er getið hins ódagsetta landamerkjabréfs Þeistareykjaafréttar sem talið er gert 1915 í framhaldi af kaupum Aðaldæla- og Reykdælahreppa á Þeistareykjalandi. Þótt landamerkjabréf þetta geti eftir atvikum verið til stuðnings öðrum heimildum um merki Þeistareykja, verður það ekki lagt til grundvallar sem gild heimild við úrlausn ágreinings í þessu máli, enda fullnægði það ekki því formskilyrði þágildandi 4. gr. landamerkjalaga að vera fengið sýslumanni í hendur til þinglesturs. Til þess er á hinn bóginn að líta að árið 1948 gerðu þáverandi eigendur Þeistareykja, Aðaldæla- og Reykdælahreppir, landamerkjaskrá Þeistareykjaafréttar sem svo var nefnd. Var hún undirrituð 16. september það ár og þinglýst í júlí 1951 og er hún fyrsta þinglýsta landamerkjabréf þeirrar jarðar. Þótt merkjaskrá þessi hafi ekki verið árituð af öllum eigendum jarða í Kelduneshreppi og henni ekki þinglýst á manntalsþingi þar, haggar það ekki gildi hennar gagnvart þeim eigendum aðliggjandi jarða sem skrána árituðu um samþykki, sbr. lögskýringargögn er varða 4. gr. laga nr. 41/1919 um landamerki. Landamerkjakrá þessi var árituð um samþykki af Kelduneshreppi sem eiganda Ásheiðar og af eigendum Reykjahlíðar. Hún lýsti eins og áður segir merkjum Þeistareykja að austan beina stefnu úr Eyjólfshæð um nánar tilgreind kennileiti allt suður að beinni línu sem þversker Borgavegg í stefnu frá Eilífshnjúki og vestur að rótum Gæsafjalla að norðan. Í þeirri lýsingu merkja fólst ótvírætt að sá hluti hins þríhyrnda þrætusvæðis, sem tilheyrði Þeistareykjum eftir 1889, var með þessu skilinn frá landi jarðarinnar. Er áður komist að þeirri niðurstöðu að eigendur Þeistareykja hafi að lögum verið bærir til að ráðstafa þessu landi jarðarinnar með þeim hætti.

Af kröfugerð stefnda Norðurþings í málinu leiðir að hann gerir ekki tilkall til syðri hluta þrætusvæðisins. Þegar metið er hvort í framangreindri ráðstöfun eigenda Þeistareykja árið 1948, sem eigendur Reykjahlíðar samþykktu, hafi falist samningur um breytt merki jarðanna er fyrst að líta til efnis 1. mgr. 2. gr. laga nr. 41/1919. Þar kemur meðal annars fram að eigandi lands eða fyrirsvarsmaður skuli gera glöggva skrá um landamerki eins og hann veit þau réttust. Þá merkjalýsingu skal hann sýna hverjum þeim sem land á til móts við hann, eða fyrirsvarsmanni hans, og skulu þeir rita samþykki sitt á merkjaskrána nema þeir telji hana ranga, enda skal þess þá getið ef einhver þeirra vill ekki samþykkja hana. Að þessu loknu skal merkjaskrá afhent til þinglýsingar.

Eins og áður greinir er landamerkjabréf í eðli sínu samningur, ef það er samþykkt af eigendum eða umráðamönnum aðliggjandi jarða um þau atriði, sem þeir hafa forræði á að ráðstafa með löggerningi. Með hliðsjón af þessu verður lagt til grundvallar, að í undirritun eigenda Þeistareykja og áritun eigenda Reykjahlíðar á landamerkjaskrána frá 1948 um samþykki við efni hennar, hafi falist ráðstöfun sem í eðli sínu er samningur landeigenda um breytt merki milli Þeistareykja og Reykjahlíðar. Skráin var innfærð athugasemdalaust í landamerkjabók Þingeyjarsýslu og henni þinglýst á manntalsþingum í Aðaldæla- og Reykdælahreppum. Stóð sú skipan mála sem skráin mælti fyrir um ágreiningslaus í ríflega hálfa öld, eða allt þar til kröfum var lýst fyrir óbyggðanefnd eins og nánar er rakið hér að framan. Fær það ekki haggað þessari niðurstöðu að ekki verður séð af gögnum málsins að endurgjald hafi komið fyrir það land sem með þessari ráðstöfun færðist til Reykjahlíðar. Þá breytir það heldur ekki niðurstöðunni þótt Pétur Jónsson, sem á þeim tíma var einn af eigendum Reykjahlíðar, hafi samkvæmt gögnum málsins á árunum 1950 og 1966 að sönnu lýst merkjum jarðarinnar með öðrum hætti í rituðu máli. Er í því sambandi til þess litið að ekki verður annað ráðið af málsgögnum en að eigendur Reykjahlíðar hafi frá árinu 1948 farið með þennan hluta þrætusvæðisins sem sitt land og meðal annars gert samninga um borun eftir jarðhita á svæðinu.  

Samkvæmt öllu framansögðu verður það niðurstaða málsins að merki Reykjahlíðar gagnvart Þeistareykjum liggi úr punkti (P6) í Gæsadalsmó þar sem Bóndhóll er genginn í hásuður og Eilífshnjúk ber rétt norðan undan Gæsafjöllum, til austurs í punkt (P5) skammt norðan Éthóls og úr þeim punkti til norðurs í punkt (PB) skammt sunnan Hituhóla. Merki Reykjahlíðar gagnvart Ási og Svínadal liggja síðan til norðvesturs frá punkti (P2) í Eilífshnjúki í punkt (PA) í Gangnamannaskarði hinu syðra í Hrútafjöllum og þaðan til vesturs í punkt (PB) skammt sunnan Hituhóla þar sem er hornmark jarðanna þriggja.

Rétt er að hver aðila ber sinn kostnað af rekstri máls þessa í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Viðurkennt er að landamerki Reykjahlíðar í Skútustaðahreppi gagnvart Þeistareykjum í Þingeyjarsveit liggja úr þeim stað í Gæsadalsmó þar sem Bóndhóll er genginn í hásuður og Eilífshnjúk ber rétt norðan undan Gæsafjöllum í punkti (P6), hnit A592999 N589908, til austurs í merkjahorn skammt norðan Éthóls í punkti (P5), hnit A600885 N590719, og þaðan til norðurs á stað skammt sunnan Hituhóla í punkti (PB), hnit A600898 N592552, þar sem er hornmark.

Viðurkennt er að merki Reykjahlíðar í Skútustaðahreppi gagnvart Ási og Svínadal í Norðurþingi liggja til norðvesturs úr Eilífshnjúki í punkti (P2), hnit A608870 N591490, í Gangnamannaskarð hið syðra í Hrútafjöllum í punkti (PA), hnit A603862 N592465, og þaðan til vesturs á stað sunnan Hituhóla í punkti (PB), hnit A600898 N592552, þar sem er fyrrnefnt hornmark.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 20. júní 2012.

I.

Mál þetta, sem dómtekið var þann 14. júní 2012 eftir endurflutning og hafa þinglýstir eigendur jarðarinnar Reykjahlíðar í Skútustaðahreppi, Suður-Þingeyjarsýslu, Guðrún M. Valgeirsdóttir, kt. [...], Sigurður Jónas Þorbergsson, kt. [...], Þuríður Sigurðardóttir, dánarbú, kt. [...], Kristín Ólafsdóttir, kt. [...], Arnar Ólafsson, kt. [...], Bryndís Jónsdóttir, kt. [...], Sigurður Baldursson, [...], Finnur Baldursson, kt. [...], Pétur Gíslason, kt. [...], Sigfús Illugason, kt. [...], Jón Illugason, kt. [...], Sólveig Illugadóttir, kt. [...], Héðinn Sverrisson, kt. [...], Daði Lange Friðriksson, kt. [...] og Kristín Þ. Sverrisdóttir, kt. [...] höfðað með stefnu birtri 25. febrúar og 1. mars 2010, á hendur sveitarfélaginu Þingeyjarsveit, þinglýstum eiganda jarðarinnar Þeistareykja, og upphaflega til réttargæslu eigendum aðliggjandi jarða, þ.e. íslenska ríkinu, kt. [...], vegna jarðanna Áss og Svínadals í Norður-Þingeyjarsýslu, svo og Elínu Steingrímsdóttur, kt. [...], Herdísi Steingrímsdóttur, kt. [...], Guðrúnu Benediktsdóttur, kt. [...], Kjartani Þ. Sigurðssyni, kt. [...], Hauki Aðalgeirssyni, kt. [...], og Þorgerði Egilsdóttur, kt. [...], vegna Grímsstaða I-IV í Skútustaðahreppi og loks Gísla Sverrissyni, kt. [...], eiganda Reykjahlíðar að 1,5625% eignarhluta.

Þá er málið höfðað með gagnstefnu sveitarfélagsins Þingeyjarsveitar á hendur aðalstefnendum, birtri 30. mars 2010, en þingfestri 8. apríl sama ár.

Loks er málið höfðað með meðalgöngustefnu sveitarfélagsins Norðurþings, kt. [...], Ketilsbraut 79, Húsavík, á hendur aðalstefnendum, þinglýstum eigendum Reykjahlíðar og gagnstefnanda sveitarfélaginu Þingeyjarsveit.  Meðalgöngusökin var þingfest án athugasemda af hálfu meðalgöngustefndu á dómþingi þann 9. júní 2011.

Af hálfu réttargæslustefndu, íslenska ríkisins og eigenda Grímsstaða, var því lýst yfir við meðferð málsins að þeir myndu ekki láta málið til sín taka, en útivist varð af hálfu réttargæslustefnda Gísla Sverrissonar.

Endanlegar dómkröfur aðalstefnenda, fyrrgreindra eigenda Reykjahlíðar, á hendur gagnstefnanda, sveitarfélaginu Þingeyjarsveit, eiganda Þeistareykja, í aðalsök, eru:

„... að viðurkennt verði með dómi að rétt landamerki milli jarðanna Reykjahlíðar og Þeistareykja á hinu umþrætta svæði séu aðallega:

Úr vörðu á Bunguvegg norðan Hituhóla (p.4) (hnit: A-600913/N-594615) ræður óslitinn gjáveggur, Borgaveggur, allt suður að beinni línu, sem þversker vegg þennan, stefnu austan frá Eilífshnúk og vestur að rótum Gæsafjalla að norðan.  Er það merkjahorn sem hér myndast á Borgavegg stutt norður af Éthól. (p.5) (hnit: A-600885/N-590719). Þaðan fylgt beinni línu til vesturs þangað til Bóndhóll er genginn í hásuður og Eilífshnjúk ber rétt norðan undan Gæsafjöllum. (p.6) (hnit: A-592999/N-589908)

En til vara:

Úr punkti við sunnanverða Hituhóla (p.4a) (hnit: A-600903/N593309), (þar sem lína dregin þvert vestur úr Gangnamannaskarði í Hrútafjöllum, (p.3) (hnit: A-604149/N-593251) þversker línu dregna í suður frá Bunguvegg. (rétt horn frá (p.4.), (hnit: A-600913/N-594615) í (p.4a.) ræður óslitinn gjáveggur, Borgaveggur, allt suður að beinni línu, sem þversker vegg þennan, stefnu austan frá Eilífshnúk og vestur að rótum Gæsafjalla að norðan.  Er það merkjahorn, sem hér myndast á Borgavegg stutt norður af Éthól. (p.5) (hnit: A-600885/N-590719), en þaðan er fylgt beinni línu til vesturs þangað til Bóndhóll er genginn í hásuður og Eilífshnjúk ber rétt norðan undan Gæsafjöllum. (p.6) (hnit: A-592999/N-589908).

Endanlegar dómkröfur aðalstefnenda, fyrrgreindra eigenda Reykjahlíðar á hendur meðalgöngustefnanda, sveitarfélaginu Norðurþingi, eiganda jarðanna Áss og Svínadals, eru:

aðallega að rétt landamerki milli jarðanna Reykjahlíðar annarsvegar og jarðanna Áss og Svínadals séu:

Úr vörðu á Bunguvegg norðan Hituhóla (p.4) (hnit: A-600913/N-594615) stefnu eftir línu sem dregin er vestur í Gangnamannaskarð í Hrútafjöllum, (p.3) (hnit: A-604149/N-593251) og þaðan áfram í Eilífshnjúk (p.2) (hnit A-608870/N-591490)

En til vara að merkin séu:

Úr punkti við sunnanverða Hituhóla (p.4a) (hnit: A-600903/N-593309) þar sem lína dregin þvert vestur úr Gangnamannaskarði í Hrútafjöllum, (p.3) (hnit: A-604149/N-593251) þversker línu dregna í suður frá Bunguvegg (rétt horn) frá p.4, (hnit: A-600913/N-594615) í (p.4a) en frá Gangnamannaskarði í Hrútafjöllum (p.3) í Eilífshnjúk (p.2) (hnit A-608870/N-591490).“

Dómkröfur gagnstefnanda, sveitarfélagsins Þingeyjarsveitar, vegna Þeistareykja í aðalsök á hendur aðalstefnendum, fyrrgreindum eigendum Reykjahlíðar, eru:

Að viðurkennt verði með dómi að landamerki milli jarðanna Þeistareykja í Þingeyjarsveit og Reykjahlíðar í Skútustaðahreppi byggi á sveitarfélagsmörkum Þingeyjarsveitar og Skútustaðahrepps frá Eilífshnjúki (A 608870 N 591490) og þaðan beina línu í vestur að þeim stað norðan Bóndhóls, þar sem svo langt er farið fram í mó að Eilífshnjúkur er nærri genginn undir Gæsafjöll (A 592999 N 589908).

Endanlegar dómkröfur gagnstefnanda í meðalgöngusök gagnvart meðalgöngustefnanda, sveitarfélaginu Norðurþingi, eru:

Að viðurkennt verði með dómi að landamerki milli Þeistareykja og Áss liggi á sveitarfélagsmörkum Þingeyjarsveitar og Norðurþings frá Eilífshnjúki (A 608870 N 591490) í Gangnamannaskarð (syðra) í Hrútafjöllum (A 604149 N 593251) og þaðan í vörðu á Bunguvegg (A 600913 N 594615).

Endanlegar dómkröfur meðalgöngustefnanda, sveitarfélagsins Norðurþings, á hendur meðalgöngustefndu, eigendum Reykjahlíðar og Þingeyjarsveitar, vegna Þeistareykja eru:

Að viðurkennt verði með dómi að landamerki heiðarlands Áss og Svínadals í Kelduhverfi á svæðinu frá Eilífshnjúki í austri að landamerkjum við Þeistareykjaland í vestri, þ.e. landamerki heiðarlands til suðurs, séu svohljóðandi:

Frá Eilífshnjúk (hnit 608-870; 591-490) og þaðan beint vestur í Gangnamannaskarð (hið syðra) í Hrútafjöllum (hnit 603-862; 592-465), og þaðan þvert í vestur þangað til bein stefna fæst út í Bunguveggi (rétt horn) (hnit 600.898; 592.552).

Þá krefst meðalgöngustefnandi málskostnaðar in solidum úr hendi meðalgöngustefndu.

Aðalstefnendur krefjast sýknu í gagnsök og meðalgöngusök, auk málskostnaðar.

Gagnstefnandi krefst sýknu í aðalsök og meðalgöngusök, auk málskostnaðar.

I.

Af gögnum verður ráðið að ágreiningur um landamerki á hinu umþrætta landsvæði í Þingeyjarsýslum hafi fyrst orðið áþreifanlegur milli eigenda Reykjahlíðar og Þeistareykja eftir að óbyggðanefnd tilkynnti þá ákvörðun sína þann 15. júní 2006 að hún myndi taka til umfjöllunar landsvæði á austanverðu Norðurlandi í samræmi við lög nr. 58, 1958 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.  Samkvæmt úrskurðum nefndarinnar í málum nr. 1/2007 og 2/2007 varð það niðurstaðan að allt landsvæði innan landamerkja nefndra jarða, en einnig innan landamerkja Áss og Svínadals, væri eignarland.  Í úrskurðunum var skýrt kveðið á um að ekki væri tekin afstaða til merkja milli jarðanna.  Af hálfu eigenda nefndra jarða, en einnig íslenska ríkisins, var unað við niðurstöðu óbyggðanefndar að þessu leyti.

Vegna lýsts ágreinings um legu landamerkja nefndra jarða boðaði sýslumaðurinn á Húsavík til sáttafundar þann 14. ágúst 2009, millum landeigenda, en án árangurs.  Eftir höfðun þessa máls kom í ljós að ágreiningur var einnig um suðvesturmerki jarðarinnar Áss/Svínadals og þar með um merkjalínur gagnvart jörðunum Reykjahlíð og Þeistareykjum.

Ágreiningur málsaðila er m.a. um það hvar landamerki nefndra jarða liggi um Gjástykki, við Hrútafjöll og Hituhóla.  Við meðferð málsins var hins vegar upplýst að enginn ágreiningur er með aðilum um landamerkjapunktinn Eilífshnjúk, en þar um hafa þeir m.a. vísað til landamerkjabréfa jarðanna og annarra gagna.  Þá er ekki ágreiningur um að merki Reykjahlíðar og Þeistareykja liggja saman norðan við Gæsafjöll.  Aftur á móti er ágreiningur um merkin þar í milli, um staðsetningu örnefna, þ. á m. Gangnamannaskarð (syðra) í Hrútafjöllum og um hvernig túlka eigi landamerkjalýsingar úr Gangnamannaskarði í Bunguvegg við fyrrnefnda Hituhóla, vestan Hrútafjalla og Gjástykkis.  Var þessi ágreiningur áréttaður við meðferð málsins, m.a. í vettvangsferðum, og hann afmarkaður með hnitsettum kröfulínum og ljósmyndum, sbr. einkum dskj. nr. 61-73.

Við meðferð málsins hafa málsaðilar lagt fram margvísleg gögn.  Helst má þar nefna þinglýst landamerkjabréf jarðanna Reykjahlíðar og Áss og Svínadals frá 1. maí 1889 og 8. apríl 1891 og þinglýsta landamerkjaskrá Þeistareykjaafréttar frá 16. september 1948.  Þá hafa aðilar lagt fram örnefnaskrár, lögfestur, vísitasíur og afréttarskrár, en að auki vísa þeir til heimildarrita, þ. á m. eru rit í bókaflokknum Göngur og réttir frá 1950, Byggðir og bú Suður-Þingeyinga frá 2005 og samantekt Þjóðskjalasafns um jarðir í Þingeyjarsýslum.

Ágreiningslaust er að jarðirnar Reykjahlíð, Þeistareykir og Ás eru forn býli. Verður hér á eftir vikið að þeim helstu heimildum um jarðirnar, sem aðilar hafa teflt fram og varða framangreint álitaefni.

a) Jarðarinnar Reykjahlíðar er fyrst getið í máldögum Auðunar biskups rauða frá 1318.  Segir í máldaganum að Reykjahlíðarkirkja eigi hálft heimaland með öllum gögnum og gæðum.  Í sambærilegum yngri heimildum er réttindum kirkjunnar ítrekað lýst og m.a. staðhæft að hún eigi Austurfjöll, fyrir austan Mývatn.  Fyrir liggur að í byrjun 16. aldar komst Reykjahlíðarjörðin að hluta til í eigu svonefndra Ásverja frá Kelduhverfi.  Var þá farið að safna vitnisburðum um réttindi jarðarinnar, einkum þó austan og sunnan Mývatns, og dæma um það dóma.  Virðist tilefnið hafa verið deilur um námaréttindi.  Í prófastvísitasíu Reykjahlíðarkirkju frá 1573 segir að landeigandi hafi selt brennisteinsnámur í Kröflu, en síðan er sagt að landamerki jarðarinnar séu: „... J austann verdann Seliadal og so langt uti mó sem Ýlýfs fiall kiemur framm undann Gásadals fiollum og so þadann j Ylýfsfiall og Hafragil, sem er austur við Jökulsá ...

Á 18. og 19. öldinni voru margsinnis lesnar upp lögfestur á manntalsþingum um jörðina Reykjahlíð.  Þar á meðal er lögfesta Einars Jónssonar frá 5. júní 1758, en þar er merkjum m.a. lýst með sama hætti og í áðurgreindri vísitasíu frá 1573.

Landamerkjabréf Reykjahlíðar var útbúið 8. apríl 1891.  Var það þinglesið 29. maí sama ár á Skútustöðum.  Segir í bréfinu um austur- og norðurmerkin:

„... Að austan ræður Jökulsá alla leið norður að Dettifossi.

Að norðan móti Svínadals og Áslandi í Kelduhverfi, ræður bein stefna frá Dettifossi í Eilífshnjúk; þaðan bein stefna yfir Hrútafjöll og Gjástykki móti Þeystarreykjalandi, vestur í mó, þar til Bóndhóll er genginn í hásuður og Eilífshnjúkur ber rjett norður undan Gæsafjöllum.  Frá merki þessu ræður bein stefna í Bóndhól, sem er beint vestur af Gæsadalsfjöllum og þaðan móti Grímsstaðalandi bein lína í Þverdalsbyrgi, þaðan yfir hjá Skjólbrekku í merkivörðu austast á Flatskalla, þaðan beina stefnu í Kvæk, sem er grashvammur við vatnið, er gengur inní hraunið vestarlega, milli Grímsstaða og Reykjahlíðar.“

Þáverandi eigandi og ábúandi Reykjahlíðar, Sigurgeir Pétursson, ritaði undir bréfið, en að auki var það áritað um samþykki af hálfu Erlends Gottskálkssonar, eiganda og umboðsmanns Áss og Svínadals, Benedikts Kristjánssonar, prests á Grenjaðarstað, vegna Þeistareykjalands, Sigurjóns Kristóferssonar, eiganda Grímsstaða, en einnig af eigendum jarðanna Ytri- og Syðri-Neslanda og Voga.

Af gögnum verður ráðið að samfelld búseta hafi verið í Reykjahlíð frá því að jarðarinnar var fyrst getið.  Óumdeilt er að eftir gerð landamerkjabréfsins 1891 hefur jörðin framselst með hefðbundnum hætti og verið veðsett.

Elsta fjallskilareglugerð fyrir Þingeyjarsýslur er frá árinu 1893.  Var þar öllu landi sýslunnar skipt í þrjú fjallskilafélög.  Í reglugerðinni er m.a. kveðið á um að fjallskilafélögum megi skipta í deildir eftir því sem hagar, fjöll og vatnsföll deila.  Þá segir að land skiptist í afrétti og heimalönd og að það sé hreppsnefnda að ákveða takmörk þar á milli.  Ný fjallskilareglugerð var sett árið 1904, en þar segir að allt land skiptist í öræfi, afrétti og heimalönd og að það skuli vera afréttir, sem að fornu hafi verið.  Núgildandi fjallskilareglugerð er frá árinu 1966.

Fyrir gerð nefndra fjallskilareglugerða þekktist að gerðar voru afréttarskrár.

Í afréttarskrá Skútustaðahrepps frá árinu 1878 er afréttarsvæðum Mývetninga lýst að nokkru.  Segir þar að afrétturinn sé m.a. á Framdölum, Austurdölum og Grafarlöndum vestari svo og í Miklamó og í Dyngjufjallabruna.  Í 4. og 5. lið er vikið að afréttarmörkum hreppsins gagnvart Kelduhverfi og Þeistareykjum, og segir þar:

4. Austurfjöll, sem öll eru eign Reykjahlíðarkirkju. Þau ná til suður allt fram undir jökla.  Að austan takmarkast þau af Jökulsá á fjöllum.  Að norðanverðu eru takmörkin á milli þessa afrejttar og Kelduhverfis afrjettarlanda þessi: Ur Hafragili beint til vesturs í Eilífsfjall og þaðan í Hrútafjöll.  Að vestanverðu takmarkast afrétturinn af Kröfluhrauni allt suður á Þríhyrninga, og þaðan suður á Halaskógafjall gegn Námufjalli.  Þaðan ræður fjallgarðurinn til suðurs í Þrengslaborgir.  Lögrjett fyrir þennan afrjett er Dalsrjett, og liggur hún í Reykjahlíðar heimalandi. Innan takmarka afrjettarins á jörðin Vogar afrjettarland það er Ludent nefnist;  þar stendur og nýbýlið Hlíðarhagi með þeim landamerkjum, er hjer segir:  Að vestan ráða Hágangnafjöll útí Afanga og þaðan í Eilifsfjall.  Ur Eilíf ræður bein stefna til austurs gegnt Austaribrekku, og ræður hún merkjum suður á móts við fremra Hágangnahorn.  Ennfremur áskilur afrjettareigandi, að mega hafa selstöðu á Austaraseli, sem er innan takmarka afrjettarins.

5. Reykjahlíðar- og Grímsstaðaheiðar með Gæsadalsfjöllum.  Þetta afrjettarland takmarkast að vestanverðu af Hólasandi, að norðan af Þeistareykjarlandi, að austan af Kröfluhrauni, að sunnanverðu af Grímsstaða- og Reykjahlíðarheimalöndum eptir þeirri stefnu er hér segir.  Frá Hlíðarfjalli að austan vestur í Víðidalskrók, þaðan í Sjónarhól og svo í Tófuöxl, er liggur við Hólasand.

Afrjettarlönd þessi tilheyra jörðunum Reykjahlíð og Grímsstöðum, en eru gengin til Hraunsrjettar í Helgastaðahreppi, eins og líka sveitar stjórnin í Helgastaðahreppi skipar fyrir um fjallskil á nefndum afrjetti.  En haganlegra væri, að annað hvort væri hann genginn til Dalsrjettar, eða byggð væri fyrir hann ný aukarétt í Grímsstaða- eða Reykjahlíðarlandi.

Afréttarskrárinnar frá 1878 er getið í bókaflokknum Göngum og réttum, eftir Braga Sigurjónsson, en einnig í öðrum ritum, þ. á m. ritum Jóns Sigurðssonar frá Ystafelli.  Í þessum heimildum segir m.a. um leitarsvæði Mývetninga á Austurfjöllum að á síðari tímum hafi „afrétturinn“ verið Norðurfjöll, Veggir, Eystri- og Neðri-Miðfjöll og Gæsafjöll og Gæsafjallastykki.  Þess er getið að áður hafi fé af Austurafrétt verið réttað á Réttargrund við Hlíðarhaga, og að þangað hafi verið smalaður mikill hluti Austurafréttar eða sunnan frá svonefndri Vallhumalslág og norður að landamerkjum Keldhverfinga svo og einhver hluti af „afrétt“ Helgastaðahrepps.  Í nefndum heimildum er vísað til gamalla sagna um að Keldhverfingar hafi smalað Austurafrétt að nokkru áður fyrr, því að Mývetningar hafi þá ekki notað hana mikið til fjárgöngu.

Í örnefnaskrá Péturs Jónssonar um Reykjahlíð frá 1950 segir að svonefnd Gæsafjallagirðing hafi verið reist vegna sauðfjárveikivarna árið 1941.  Staðhæfir Pétur, en hann var um árabil bóndi í Reynihlíð og hreppstjóri Skútustaðahrepps, að Gjástykkisvegur liggi yfir móa og sé austan við Gæsafjöll, en um norðursvæði jarðarinnar segir hann nánar:

Gjáveggur er norður frá Kolhól á hæðunum mót austri.  Svo er Gjástykkisveggur mót vestri suður frá.  Norður frá Leirhnúkshrauni austanverðu og Hágöngum er svo suðurendi þess mikla Gjástykkis, sem að mestu er í Þeistareykjalandi.  Í Gjástykkinu suðvestur af Hrútafjöllum eru Éthólar.  Hrútafjöll, sem hér er vitnað til, eru norðan merkja.  Sunnan við þau heitir Hrútafjallahali, og gegnum hann er skarð nálægt merkjum, sem heitir Gangnamannaskarð.  Halinn er sunnan við skarðið.  Suðaustur af Hrútafjöllum er óslétt land, sem heitir Hrútafjallakrubbar.  Suðvestur af Hrútafjöllum er aftur Hrútafjallahitur, ofurlítil volgra í jörð.  Hrútafjallarandir eru suður frá Hrútafjöllum, upp frá Gjástykkisvegg.

Eilífsvötn er allstórt vatn milli Hágangs og Grjótháls, þetta er nokkuð stórt vatn og nú ávallt nefnd Eilífsvatn.  Hitt er eldra nafn, og munu þá talin með smávötn nálægt Réttargrund.  Eilífur er hár tindur á sýslumörkum og Litli-Eilífur er háfláfastur honum að sunnan.  Norður af Eilífsvatni eru lágar grjótöldur, það er byrjun á Grjótháls.

Í Árbók Þingeyinga 1966 lýsir fyrrnefndur Pétur m.a. gæðum jarðar sinnar, Reykjahlíðar.  Segir hann að á meðal helstu kosta hennar séu mikið afréttarland, en um takmörk hennar til norðurs segir hann: „Lína úr Mývatni um 800 m austan við Grímsstaði í norður vestan við Gæsafjöll og svo norðan við þau austur í Eilíf og þaðan í Dettifoss.“  Tiltekur Pétur að merkjalínan í hánorður sé 17 km í merki norðan við Gæsafjöll en þaðan sé merkilínan í Dettifoss 31 km.  Í fyrrnefndum bókaflokki Göngum og réttum, V. bindi, er frásögn Péturs Jónssonar á fjárleitum í Reykjahlíðarlandi.  Segir hann frá því að forðum hafi landið m.a. verið notað til hestagöngu á vetrum bæði fyrir Mývatnssveit, Kelduhverfi og víðar.  Hann lýsir m.a. fyrstu göngum sínum árið 1910, en einnig þeim síðustu árið 1948.  Um takmörk leitarsvæðis á Norðurfjöllum segir hann að þau takmarkist að norðan af landamerkjum Kelduhverfis, en þar hafi Mývetningar hitt fyrir gangnamenn Keldhverfinga.  Að vestan segir hann að leitarsvæðið hafi takmarkast af Leirhnjúkshrauni, sem hann segir að sé illfært.  Pétur getur þess að ýmsar náttúruhamfarir hafi orðið í Reykjahlíðarlandi, en helst megi þar nefna á sögulegum tíma Mývatnselda á árunum 1724 til 1729: „... voru þau eldgos öll í Reykjahlíðarlandi“.  Nefnir hann í því sambandi Stóra-Víti vestan við Kröflu svo og Leirhnjúk, en jafnframt að samtímis hafi verið gufugos við Hituhóla.  Þá segir hann að þann 21. ágúst 1727 hafi hafist gos við Leirhnjúk, og hafi þá komið mikið hraun upp sem hafi runnið til norðurs en austan við Gæsafjöll og heiti það Leirhnjúkshraun.  Pétur getur þess að eftir að girðing var reist norðan við afréttarlönd Reykjahlíðar hafi mjög fátt fé komið inn á afréttarlönd jarðarinnar.

Samkvæmt bréfi sveitarstjórnar Skútustaðahrepps frá 12. mars 2007 eru „afréttir“ í hreppnum í einkaeign ákveðinna jarða og skiptast í Austurafrétt og Suðurafrétt.

Fyrrnefnd girðing, sem reist var vegna sauðfjárveikivarna í byrjun fimmta áratugar tuttugustu aldarinnar, liggur m.a. norðan Gæsafjalla og austur um Gjástykki og áfram austur.  Girðingin var endurnýjuð á árunum 1970-1972 að frumkvæði Skútustaðahrepps, á nær sama girðingarstæði.  Eru heimildir um að ágreiningur hafi risið um skiptingu kostnaðar vegna girðingarframkvæmdanna.  Fór svo að Skútustaðahreppur stefndi eigendum Þeistareykja, þ.e. Aðaldælahreppi og Reykdælahreppi, en einnig Kelduneshreppi, til greiðslu á helmingi kostnaðar við framkvæmdina, en hin nýja girðing náði frá Dettifossi að sandgræðslugirðingu, vestan við Gæsafjöll.  Í málatilbúnaði oddvita Skútustaðahrepps er girðingin nefnd landamerkjagirðing.  Málinu var vísað frá með dómi Hæstaréttar Íslands, sbr. mál nr. 66/1975.

b) Jarðarinnar Þeistareykja er fyrst getið í máldaga Auðunar rauða frá 1318, en þar segir að „Þeistareykjaland“ tilheyri Múlakirkju í Aðaldal.  Hið sama kemur fram í síðari máldögum, en einnig í kirknaskrám og vísitasíubókum frá 15., 16. og 17 öld.  Í lögfestum á 18. öld eru Þeistareykir margsinnis nefndir jörð, með túnum, engjum, holtum, högum og öðrum landsnytjum og sagt að ekkert sé undan skilið sem fylgi jörðinni og fylgt hafi.

Samkvæmt gögnum voru Þeistareykir eitt fjögurra brennisteinsnámasvæða í Suður-Þingeyjarsýslu, en hin voru Kröflu-, Hlíðar- og Fremrinámur.  Framan af virðist brennisteinsnám hafa verið mikilvæg aukabúgrein fyrir þingeyska bændur, a.m.k. fram í byrjun 19. aldar.  Deilur risu um brennisteinsnámið á Þeistareykjum eftir 1792, sem lyktaði með hæstaréttardómi í Danmörku 1823, en þá var Múlakirkju dæmt fullt eignarhald yfir námunum.

Bærinn Þeistareykir var norður undir Bæjarfjalli uppi á hinu mikla heiðarlandi milli Reykjahverfis og Jökulsár á Fjöllum, langt norðan Mývatnssveitar til suðurs og Kelduhverfis til norðurs, en næsta byggð var í Reykjahverfi, í um 15 km fjarlægð.  Stærsti hluti landsins er brunahraun.  Á vesturmerkjum eru Lambafjöll og Þeistareykjahraun, sem einnig er nefnt Borgarhraun á kortum, en þar austan við eru Kvíhólafjöll, Bæjarfjall og Ketilfjall og enn austar eru Þórunnarfjöll og Þeistareykjabunga og loks Gjástykki.

Í lögfestu frá 1744 er vikið að landamerkjum Þeistareykjajarðarinnar, en þar segir:

… sem greindre Jörd filger og filgt hefur ad fornu og Niju (Hvar med og Meinter eru aller Mælefellshagar) ad tilteknum þessum landa Merkjum ad sunnan So langt framm j Mö, þar til Ylyfs fiall er nærre geinged under Giæsadalsfioll, og So rett austur og vestur, ad Vestann ráda Lambafioll, ad Nordan Raudhöll og rettsijnes Vr hönum sutur og Vestur, enn Ad austan rædur land eign þeirra Manna er nærst kunna Sier landeign ad beVijsa.

Merkjum Þeistareykja er lýst með svipuðum hætti í síðari lögfestum, en heimildir eru um að búseta á jörðinni hafi á köflum verið stopul.  Liggur fyrir að margoft var leitast við að byggja og nýta hana sem slíka, m.a. til beitar og grastekju.  Á vormánuðum 1809 lét Þórarinn Jónsson, prestur í Múla, frá sér fara auglýsingu um landamerki Þeistareykja, og segir þar:

… Og til ad koma í veg fyrir slíkt ad nockru, þá eru þessi ummerki Þeistareika Lands ad medreiknuðum Mælifells högum:  ad vestan ráda Lambafiöll réttlínis út og sudur, ad nordan Raudhóll austur og vestur, fyrir víst allt á midia Dunareikiahálsa, sudur undir Bóndólfs Skard, takmörk ad sunnan Eilífshnjúkur nærri gegninn undir Gæsadals Fiöll, og þadan réttlínis úr sama Hniuki út aptur Móts vid ádurnefndt Bóndólfs Skard austur frá Þeistareikium.

Síðast mun föst búseta hafa verið á Þeistareykjabýlinu í um 5 ár, en endanlega mun henni hafa lokið árið 1873.  Eftir það mun túnið hafa verið nytjað allt fram undir 1955, en annað land helst nytjað sem afréttur.

Er Helgastaðahreppi var skipt í Aðaldæla- og Reykdælahrepp árið 1894 gerðu hrepparnir samning við séra Benedikt Kristjánsson á Grenjaðarstað um að hann léði hreppunum Þeistareykjaland til afnota.  Hreppsnefnd Aðaldælahrepps endurnýjaði samninginn árið 1905, en þá án endurgjalds.  Af gögnum verður ráðið að fyrirsvarsmenn hreppanna hafi lýst kaupáhuga á Þeistareykjalandi og liggur fyrir að af því tilefni lét sýslumaðurinn í Þingeyjarsýslum í té umsögn um jörðina árið 1912.  Segir í henni að kalla megi óhjákvæmilega nauðsyn fyrir íbúa hreppanna að hafa upprekstur í Þeistareykjalandi og því sé eðlilegt að hreppsnefndirnar hafi umráð yfir landinu.  Í lýsingu Þeistareykja, sem gerð var vegna fyrirhugaðrar sölu, segir að Þeistareykjaafréttur sé nálægt 2 fermílur að stærð og að engir aðrir noti afréttinn til upprekstrar en Reykdæla- og Aðaldælahreppar, en að jafnaði sé rekið á hann 6.000 fjár árlega.

Í málinu liggur fyrir skjal sem ber yfirskriftina: „Landamerki Þeistareykjaafréttar.“  Skjalið er ódagsett og óþinglýst, en talið er líklegt að það hafi verið gert eftir sölu Þeistareykja árið 1915, til nefndra hreppa.  Skjalið er undirritað af oddvitum hreppanna, en það hefur verið talið ritað af Benedikt Jónssyni á Auðnum, sem var uppi 1846-1939.  Í skjalinu er merkjum Þeistareykja lýst þannig:

Suðvesturhorn landsins er á Hólasandi þar sem norðurrönd Eyjólfshnjúks sér norður undan Gæsafjallahorni nyrðra.

Þaðan ræður merkjum að sunnan gegnt Grímsstaða- og Reykjahlíðarlöndum, samkvæmt þinglesnum landamerkjaskrám þeirra jarða, bein stefna um Gæsafjallahorn nyrðra á Eilífshnjúk, gegnt Hrútafjöllum.

Að austan gegnt Ás- og Svínadalslandi ráða merkjum Hrútafjöll, samkvæmt fornum máldögum og lögfestum Áss, og frá Hrútafjöllum í Kerlingarhól.

Að norðan … úr Kerlingarhól um Sauðklett og Eyjólfshæð í syðri enda Lönguhlíðar, þaðan um Rauðhól eftir Bláskógavegi um sæluhús í Höfuðreiðarmúla.

Að vestan … úr Höfuðreiðarmúla um Hálambafjöll í Gústahnjúk og þaðan um Þverárgilsdrög, Kröflugil og eftir sandi í suðvesturhornmark það, sem í upphafi er nefnt.

Land allt innan þessara merkja er óskoruð eign Reykdæla- og Aðaldælahreppa, og eiga engir aðrir neins konar ítök í það eða réttindi til þess, önnur en landsjóður námur.

Umrætt skjal var undirritað eigin hendi af fyrirsvarsmönnum hreppsnefnda Reykdæla- og Aðaldælahreppa.  Í niðurlagi þess segir að landamerkjaskráin sé samþykkt og staðfest af landeigendum aðliggjandi jarða, en þar undir rita nafn sitt m.a. Einar Friðriksson og Jón Einarsson fyrir hönd Reykjahlíðar svo og fyrirsvarsmenn og jarðeigendur nokkurra jarða í hinum fornu Reykdæla- og Aðaldælahreppi, þ. á m. Kristján Jóhannsson í Klambraseli.  Jarðeigendur Áss og Svínadals og Kelduness í Öxarfirði rita nafn sitt ekki undir skjalið.

Landamerkjabréf fyrir svonefndan „Þeistareykjaafrétt“ var útbúið 16. september 1948.  Bréfið er ekki í frumriti, en samkvæmt vélrituðum texta segir að það sé undirritað af Sigfúsi Björnssyni frá Sandi.  Merkjum Þeistareykja er lýst þannig í bréfinu:

Að norðan eru merki frá suðurodda Sæluhúsamúla, bein stefna í norðurenda Rauðhóls, þaðan í suðurenda Lönguhlíðar, þaðan brún mót vestri og þaðan bein lína austur á Eyjólfshæð.

Að austan eru merki fyrst bein stefna af Eyjólfshæð suður í norðurenda Bunguveggjar, þar sem varða er.  Þá ræður merkjum gjáveggurinn, Bunguveggur, þar til hann þrýtur austur af Þeistareykjabungu sunnanvert.  Frá veggjarenda á þessum stað ræður bein lína suður að Hituhólum miðjum og sama stefna suður yfir hólana.

Frá sunnanverðum Hituhólum ræður óslitinn gjáveggur, Borgarveggur, allt suður að beinni línu sem þver sker vegg þenna, stefnu austan frá Eilífshnjúk og vestur að rótum Gæsafjalla, að norðan.  Er það merkjahorn, sem hér myndast á Borgarvegg stutt norður af Éthól.

Að sunnan eru merki frá þessum stað á Borgavegg, vestur eftir fyrrnefndri línu, stefnu af Eilíf á norðurrætur Gæsafjalla og sömu stefnu frá þeim stað, er rætur fjallanna ganga lengst norður og vestur mó og sanda þar, sem Eilífshnúk ber við Gæsafjöll að norðan, allt vestur á merkihnúk á Klapparbrekku, en þaðan bein stefna á Gústaskarð.  Að vestan ráða Lambafjöll merkjum …

Í niðurlagi bréfsins segir að merkjaskrána hafi nefndur Sigfús gert að beiðni Aðaldæla- og Reykdælahreppa, eigenda afréttarlandsins.  Þá segir í hinum vélritaða texta að á skjalið hafi fyrirsvarsmenn hreppanna ritað nafn sitt, annars vegar Áskell Sigurjónsson 27. júní 1950 og hins vegar Sigurður Guðmundsson 27. júní 1951, og loks jarðeigendur og umráðamenn þeirra jarða sem áttu eða höfðu umráð á landi umhverfis Þeistareykjaafrétt.  Eru þar á meðal vélrituð nöfn þáverandi eigenda Reykjahlíðar, þeirra Péturs Jónssonar, Illuga Jónssonar, Sigurðar Jónssonar, Þorsteins Jónssonar og Kristjönu Hallgrímsdóttur, en einnig Erlings Jóhannssonar f.h. Kelduneshrepps v/ Ásheiðar, en sá síðastnefndi mun hafa verið hreppsnefndarmaður um árabil.

Umrætt bréf, sem nefnt hefur verið Sigfúsarskrá, er undirritað eigin hendi af Sigurði Guðmundssyni á Grenjaðarstað þann 27. júní 1951.  Er vélritað að það hafi hann gert samkvæmt umboði fyrrnefnds Áskels Sigurjónssonar, dagsettu 27. júní 1950.  Bréfinu mun hafa verið þinglýst í júlí 1951.

Í ritinu Byggðir og bú Suður-Þingeyinga frá 2005 segir að land Þeistareykja sé allstórt og er merkjum  þar lýst með líkum hætti og í fyrrnefndri Sigfúsarskrá.

Í örnefnaskrám, en einnig í fyrrnefndum heimildaritum, er fjallað nokkuð um Þeistareykjajörðina og m.a. lýst mörkum hennar.  Í örnefnaskrá um Þeistareyki, sem kennd er við Ara Gíslason, segir í upphafsorðum að heimildarmaður við gerð hennar hafi verið fyrrnefndur Sigfús Björnsson, en þess einnig getið að hún hafi verið yfirfarin árið 1968 af Kristjáni Jóhannessyni í Klambraseli, fæddum 1892. Í aðfararorðum skrárinnar segir að til umfjöllunar sé hið mikla heiðarland austan Lambafjalla, sem nái allt austur að Jökulsá á Fjöllum, suður að Mývatnsafréttarlöndum og fjöllum og norður að byggð í Kelduhverfi.  Sagt er að vesturhluti þessa landsvæðis sé Þeistareykjaland, en að austurhlutinn sé Ásheiði, sem tilheyri Keldhverfingum.  Um austur- og suðurmerki Þeistareykja segir í skránni:

Svo eru merkin að austan úr Eyjólfshæð suður í norðurenda á Bunguvegg, en það er gjáveggur mjög langur.  Hann þrýtur austur af Þeistareykjabungu sunnanvert.  Frá veggenda er bein lína suður að miðjum Hituhólum og sama stefna suður yfir hólana.  Frá þeim sunnanverðum ræður óslitinn gjáveggur sem heitir Borgarveggur, allt þar til hann er þverskorinn af línu frá Eilífshnjúk og vestur að rótum Gæsafjalla að norðan.  Merkjahornið sem hér myndast á Borgarvegg er stutt norður af Éthól.  Svo er að sunnan lína þessi, sem fyrr getur, frá Eilífshnjúk, við norðanverð Gæsafjöll allt vestur á Merkihnjúk sem er á Klapparbrekku, og þaðan bein stefna á Gustaskarð.

Mikið af þessu svæði er hraun og sandar, en þó eru allmiklir gróðurkaflar í því.  Þegar landið er smalað, er því skipti í tvær leitir.  Heitir austurhluti þeirra Gjástykkisleit, en vesturhlutinn Þeistarekjaleit.

Í örnefnaskrá Ara segir að land Þeistareykja sé um 330 ferkílómetrar að stærð.  Tekið er fram að á svonefndum Þeistareykjagrundum hafi byggðin verið, en að þar austan við sé landið nefnt Austanfjalls.  Um einstök örnefni segir m.a. í skránni, að austast og nyrst á merkjum sé örnefnið Eyjólfshæð, en þar sunnar séu m.a. Sandfell og Þórunnarfjöll og enn austar sé Þríhyrningur.  Þá segir að þar skammt suður frá sé stakur hnjúkur á hrauninu alláberandi, sem heiti Einbúi.  Síðan segir:

Það er gróðurlítið land hér um slóðir.  Austur af Einbúa eru á merkjum Hituhólarnir.  Er hér mikið af flötum móum.  Norður frá Hituhólum með merkjum er nefnt Gjástykki, grunnt dalverpi með gjávegg að vestan, lágum óreglulegum og missignum....Í suðausturhorni landsins er Gjástykkisberg.  Það er milli Borgarveggs og Hrauntagls.  En það er norðurendi hrauns frá Leirhnjúk við merki austan Gæsafjalla.  Austur til Hrútfjalla leita þeir.

Suður frá Hituhólum með Gjástykki að vestan er óslitinn gjáveggur með nokkrum hraunborgum á barminum.  Þetta heitir Borgarveggur.  Það eru háir hólar og sumir holir innan.  Syðsta borgin á veggnum en sunnan merkja og heitir Éthóll. Þar átu gangnamenn mat sinn.  Syðsti hluti Þeistareykjalands, mórinn austan og sunnan og jafnvel vestan við Kvíhólsfjall heitir Gæsafjallamór.  Dregur hann nafn af Gæsafjöllum í Reykjahlíðarlandi.  Þetta eru flatir móar.  Norðan undir Gæsafjöllum eru Drauggrundir.  Um þær liggja merkin.

Í örnefnaskrá fyrrnefnds Kristjáns Jóhannssonar í Klambraseli er merkjum Þeistareykja m.a. þannig lýst: „... Að síðustu förum við í suðaustur í Þeistareykjalandshorn, þar kallast Hituhólar yfir þá liggja merkin milli Keldhverfunga og Þeistareykja svo þeir tilheyra ekki Þeistareykjum nema að hluta....Síðast er svo bein lína úr suðausturhorni landsins vestur norðan Gæsafjalla um Draugsgrundir í vörðu á Klappabrekku í Gústa.  Í athugasemdum í skrá Kristjáns segir um Bunguvegg:  Er hár gjaveggur móti austri. Snýr frá norðri til suðurs eins og allir gjáveggir hér.  Hann er ófær uppgöngu á löngum köflum.“  Í nefndum athugasemdunum segir að landmerkin séu ekki skráð eftir skrá frá sýsluskrifstofu heldur eftir minni.

Í svonefndum viðbótum við örnefnaskrá Þeistareykja, sem dagsettar eru 5. janúar 1984, greinir starfsmaður Örnefnastofnunar frá því að nefndur Kristján í Klambraseli hafi í október 1983 gert nokkrar athugasemdir við eldri örnefnaskrár og þar á meðal við skrá Ara Gíslasonar.  Greinir Kristján þar frá merkjum Þeistareykja, en einnig víkur hann að fjallskilum og segir: „... fyrstu Þeistreykjagöngur hafi verið gengnar í einu lagi með 24-26 mönnum síðan um 1880, nema þau ár sem Sigfús Björnsson stjórnaði göngum í Þeistareykjalandi.  Einnig breytti hann (Sigfús) merkjum Þeistareykjalands í samráði við eigendur þess og aðra viðkomandi aðila.  Samt telja þeir Höfuðreiðarmúla í örnefnaskrá Þeistareykja og fleira, sem Kristján telur ekki eiga að vera þar ...  Haft er eftir Kristjáni að norðurmörk Þeistareykja liggi m.a. eftir beinni línu úr suðurenda Lönguhlíðar um Beinaklettshæðir í Eyjólfshæðir.  Er haft eftir Kristjáni að Sauðklettur sé skammt frá Eyjólfshæð og að hann hafi verið norðausturhorn Þeistareykjalands, en um það örnefni segir hann: „Þessi klettur var umdeildur milli landeigenda, því margir eru klettarnir þar.  Því færði Sigfús Björnsson mörkin í Eyjólfshæð ... einnig lét hann Reykhverfinga hafa hálfan Höfuðreiðarmúla frá Þeystreykjum. ... Ekki er rétt að telja Gjástykki til þess svæðis.  Það er austan við Þeistareykjaland.

Áðurnefndur Helgastaðahreppur náði forðum, eins og áður er fram komið, yfir hreppa þá báða, er nefndir voru Aðaldælahreppur og Reykdælahreppur, þ.e. sveitirnar Aðaldal, Reykjadal og Laxárdal, auk fremri hluta Reykjahverfis, nú Þingeyjarsveit.  Fram kemur í bókaflokknum Göngum og réttum að sökum mikils fjárþunga forðum hafi féð leitað verulega á afréttir annarra sveitarfélaga, en af því hafi leitt að Helgastaðahreppur hafi orðið að senda menn á margar réttir nágrannasveita, þ. á m. í Kelduhverfi og í Hlíðarrétt Mývetninga og jafnvel leggja þeim til nokkurt gangnalið.  Þá hafi nefndir nágrannar átt dilkrúm í Hraunsrétt í Aðaldal og Keldhverfingar að auki átt aðhald í Þeistareykjalandi.

Um fjallskil ábúenda í hinum forna Helgastaðahreppi segir m.a. í „Skrá 1882 yfir afrétti og heimalönd, sem hreinsuð eru til Hraunsréttar:

Afrétt sveitarinnar er Þeistareykjaland og hefur sveitin ekki aðra afrétt, hvorki til notkunar né hreinsunar nema í samlögum við aðrar fjallskiladeildir.  Þeistareykjaafrétt er skipt í þessar leitir:

a) Gjástykkisleit.  Hún er austast í Þeistareykjalandi takmörkuð að austan af Hrútafjöllum, að sunnan af Hágöngum og Mývetningaleitum, að vestan af Þeistareykjaleit (Þórunnarfjöllum) og að norðan af Kelduhverfislöndum.  Í þessa leit þurfa sjö menn í fyrstu göngum og fjóra til sex í öðrum og þriðju.

 b) Þeistareykjaleit.  Hún takmarkast að austan af Gjástykkisleit, að sunnan af Gæsafjöllum, að vestan af Hólasandi og Lambafjöllum og að norðan af Kelduhverfisheiðum.  Í þessa leit þurfa 20-22 í fyrstu göngum og 14-18 í öðrum og þriðju.

Segir í nefndri skrá að vanalega hafi Gjástykkisleitin byrjað að sunnan og hafi þá leitarmenn legið nóttina áður undir Gæsafjöllum.

Í bókaflokknum Göngum og réttum eru frásagnir um fjallskil á hinu umþrætta landsvæði.  Þannig er til lýsing Ketils Indriðasonar frá Ytra-Fjalli í Aðaldal um fjallskil Aðaldæla og Reykdæla og um Þeistareykjagöngu árið 1943.  Um austurmörk leitarsvæðisins segir Ketill að þangað hafi farið Hannes bóndi Jónsson á Staðarhóli en hann hafi verið gangnaforingi.  Hafi hann farið við sjötta mann austur fyrir Þeistareykjafjöll; „... og var þar drjúgum þunnskipaðra, enda minni fjárvon, en tveim hinum röskustu mönnum var ætlað að fara suðaustur í Gjástykki og ganga síðan vestur með Gæsafjöllum að Hólasandi og taka við fénu, er það rynni suður, norðan úr landinu.“  Þarf til þess bæði lagni og harðfylgi með kunnáttu á landsháttum, og hrekkur þó ekki til, ef út af ber með veður og skyggni.  Fram kemur í frásögninni að aðhald hafi verið hlaðið í Klettaborgum vestan af Kvíhólafjöllum og hafi m.a. verið til þess ætlast að „austanfjalla - og Gjástykkismenn“ rækju fé sitt þangað.

Í byrjun 21. aldar voru boraðar könnunarholur í landi Þeistareykja vegna hugsanlegrar jarðvarmavirkjunar, á grundunum norðan Bæjarfjalls.

c) Jörðin Ás var samkvæmt Landnámu landnámsjörð Önundar Blængssonar.  Í lögfestum og máldögum frá 14. og 15. öld er Ás-jarðarinnar ítrekað getið, en þó er þar ekki fjallað sérstaklega um suðurmörk hennar.  Samkvæmt samantekt Þjóðskjalasafns lögfesti Jón Jónsson eignarjörð sína Ás og hjáleigur hennar fyrir manntalsþingsrétti að Ási þann 25. júní 1789.  Segir þar um suðurmörkin: „Þaðan rétta stefnu í Meiðavallahamar, úr honum rétt til vesturs í þann austari sandklett, þaðan í Hrútfjöll og austur í Eilífshnjúk og svo beint austur í Jökulsá og ræður hún svo landi að austan til sjávar.

Landamerkjabréf fyrir jörðina Ás og afbýlisjörð hennar Svínadal í Kelduhverfi var útbúið 1. maí 1889.  Því var þinglýst 24. júní 1890 á Skinnastöðum.  Er merkjum m.a. þannig lýst: „Ás á land allt að utan og austan frá syðri enda á Svartbaksskeri við Jökulsá og með henni fram í Dettifoss, og þaðan beint vestur í Eilífshnjúk, og þaðan beint vestur á Gangnamannaskarð (hið syðra) í Hrútafjöllum, og þaðan þvert í vestur þangað til bein stefna fæst útí Búnguveggi (rétt horn) og úr Bunguveggjum beina línu útí Eyjólfshæð austur í Eyjólfshæð austur í Kerlingarhól, og svo austur í Merkiþúfu og Arndísarhóla og alla leið á Meiðavallahamar við Byrgisbotn, síðan ráða Byrgisbjörg landamerkjum á milli jarðanna Áss og Byrgis það sem björgin taka ...

Bréfið er undirritað af E. Gottskálkssyni, en hann var umboðsmaður eigenda Áss.  Bréfið er áritað um samþykki jarðeigenda nálægra jarða, þ. á m. umboðsmanni Þeistareykja, B. Kristjánssyni, og ábúanda og eiganda Reykjahlíðar, Sigurgeiri Péturssyni.  Að auki samþykktu bréfið landeigendur í Kelduhverfi.

Landamerkjasamningur milli jarðanna Áss og Svínadals var útbúinn 27. ágúst 1837 og var hann þinglesinn í júní 1911.  Segir þar m.a. um merkin milli jarðanna að þau séu frá Dettifossi að framan og austan, beina stefnu til vesturs í Eilífshnjúk.

Samkvæmt jarðamati 1916-1918 er Ás vestanvert við Jökulsá.  Í matinu er hin þinglesna landamerkjalýsing tekin upp, en ekki er um algjörlega orðrétta samsvörun að ræða, t.d. er talað um Bringuveggi í staðinn fyrir Bunguveggi og fleira.  Í matinu segir að jörðin eigi hrossagöngu á Mývatnsfjöllum.

Ýmsar breytingar urðu á eignarhaldi Áss á 20. öldinni.  Jörðin komst m.a. í eigu Einars Benediktssonar skálds árið 1907, sem seldi hana Kelduneshreppi árið 1924.  Árið 1938 var heimaland Áss suður að Rauðhólum selt ábúendum, en allt land þar sunnan við og vestan línu úr Ásbyrgisbotni í Rauðhóla undanskilið og var það „afréttur“ Kelduneshrepps.  Hreppsnefnd Kelduneshrepps afsalaði Náttúruverndarráði spildu úr „afréttarlandi hreppsins“, sem áður tilheyrði Ási, 17. mars 1973, til þess að verða hluti af þjóðgarði.  Mörkum landsins að sunnan og vestan er þar lýst svo:

Að sunnan.  Landamerki eins og þau eru tilgreind í landamerkjabréfi 27. ágúst 1887, þinglýst 28. júní 1911.  Að vestan.  Bein lína úr norðvestur horni Svínadalslands, sbr. ofanritað, í Botnslæk í Ásbyrgi.“

Kelduneshreppur og Landgræðsla ríkisins gerðu með sér samning 18. október 1991 um að hreppurinn léti endurgjaldslaust af hendi land úr syðri hluta Ásheiðar (afréttarland Kelduneshrepps) til landgræðslu.  Mörkum landsvæðisins er lýst þannig:

Land þetta afmarkast af landi Svínadals að austan (þjóðgarðurinn í Jökulsárgljúfrum), hreppamörkum Kelduneshrepps að sunnan, (sýslumörk Norður- og Suður-Þingeyjarsýslu), nýlegu hrauni vestan Hrútafjalla að vestan og væntanlegri girðingu að norðan.  Um nánari stærð og afmörkum landsins vísast til uppdráttar, sem fylgja skal samningi þessum og vera hlut af honum.  Tekið er fram að landið verði afhent eiganda, þegar landið sé það vel gróið, að eigi sé nauðsyn á frekari aðgerðum af hendi Landgræðslunnar.  Samningurinn var staðfestur af landbúnaðarráðuneytinu þann 12. október 1992.

Í örnefnaskrá Ara Gíslasonar frá 1961 er lýst örnefnum á Ásheiði í Kelduneshreppi, en einnig merkjum.  Segir um vesturhluta Ásheiðar að suðvestan Ingveldarstaðalands liggi merkjalínan frá Þjófaborg suðvestur í Kerlingarhól og síðan áfram í Eyjólfshæð;  Ef svo er haldið frá Eyjólfshæð suður með Þeistareykjalandi á hægri hönd er þar á merkjum Bunguveggur geysilangur.  Sunnan hans heita Hituhólar.  Þar breytir merkjalína um stefnu og stefnir heldur sunnar en í Eilíf, svo úr honum austur í Dettifoss.“  Um fyrrnefndan Kerlingarhól segir í skránni að hann sé áberandi hóll, en suður af honum sé gjáveggur, sem heiti Kerlingaveggur, er snúi mót austri.  Suðvestur af hólnum sé Stórhóll og suðaustur af Eyjólfshæð liggi svo fyrrnefndur Bunguveggur.  Þá segir einnig að suðaustur frá Stórhól sé gróin hraunbreiða, sem heiti Kvíar, en suðvestur af þeim séu Kvíahæðir.  Um greint landsvæði segir í skránni: „Gjástykki er geysilegt flæmi, austast í syðri hluta Ásheiðar og er frá Bunguvegg og austur að Gjástykkisvegg.  Það er allt sundursprungið af gjám og sumum stórkostlegum.  Hér hafa orðið stórkostleg landsig.  Á rimunum milli gjánna er sendið land og virðist ekki gróðurmikið, en þó dafnar fé þarna mjög vel.  Þetta Gjástykki mun vera um 5 km breitt sums staðar og sumar sprungurnar ná alla leið norður í Kelduhverfi, t.d. veggurinn sem Undirveggur stendur undir ... Austan við Gjástykkið syðst eru Hrútafjöll og sunnan þeirra er Gangnamannaskarð.  Norður frá Hrútafjöllum er hnúkur nokkuð hár sem heitir Mófell.  Þar norður af eru Mófellshæðir og norðarlega á þeim er Litla-Mófell 402 m hátt.  Þar taka svo við grónir Móar.  Eilífur er syðst og vestast á Svínadalshálsi, afar hár og toppmyndaður með klettabeltum og grasgeirum hér og þar.  Úr honum er merkjalínan í Dettifoss.  En norður frá Eilíf er Grjótháls sem er frekar hrjóstrugur og óhrjálegur á að sjá.“

Í fyrrnefndum bókaflokki Göngum og réttum eru frásagnir um göngur á hinu umþrætta landsvæði, m.a. í 5. bindi.  Segir um leitarmörk og hreppamörk Keldhverfinga að þau séu þau sömu að mestu leyti, en þó séu frávik sums staðar.  Um suður- og vesturmörk leitarsvæðisins segir að þau séu í stórum dráttum þessi:

Um Biskupsás á Tunguheiði og Jóhannsgil í Sæluhúsamúla, þaðan þvert austur yfir heiðina í Eyjólfshæð.  Frá Eyjólfshæð til suðurs um Bunguvegg í Hituhóla að girðingu, er skiptir afréttarlöndum Keldhverfinga og Mývetninga, og liggur rétt sunnan við Eilíf, austur í Hafragil norðan Dettifoss.

Í nefndum bókaflokki segir um sveitir sem liggja að Kelduhverfi vestan Jökulsár, að þar séu Tjörnes, Húsavík, Reykjahverfi, Aðaldalur og Reykjadalur og að sunnan Mývatnssveit, og er áréttað að þar hafi verið girðing á milli frá árinu 1943.  Þess er getið að alltaf hafi gengið margt fé í afréttum Keldhverfinga úr öðrum hreppum, þó mest úr Aðaldal og Reykjahverfi, eða frá innsveitungum eins og þeir eru nefndir, enda hafi þeir alltaf gengið með Keldhverfingum meira og minna í gegnum árin og geri enn.  Sagt er frá því að þeir gangnamenn sem gangi Svínadalsháls og framhluta Ásheiðar fari fram að girðingu þeirri er liggur frá Hafragili um Eilíf ,,að Hituhólum.“  Þeir menn sem ganga vesturhluta Ásheiðar, sem oftast sé kallað Gjástykki, fari á bíl til móts við hina og sé gengið norður um Stórhól, Skuggaklett og norður fyrir Langavatnshöfða, en þar sé féð skilið eftir undir kvöld.  Greint er frá því að frá árinu 1962 hafi Keldhverfingar haft dálítið réttarhólf í aðhaldi Aðaldæla á Þeistareykjum og dregið þar úr sitt fé flest ár síðan.

II.

Fjallað verður um kröfur og röksemdir málsaðila í einu lagi hér á eftir þar sem þær skarast að verulegu leyti í aðalsök, gagnsök og meðalgöngusök.

Málsástæður og lagarök aðalstefnenda, eigenda Reykjahlíðar í aðalsök og meðalgöngusök.

Aðalstefnendur byggja kröfur sínar einkum á áðurlýstum landamerkjabréfum jarðanna Reykjahlíðar, Þeistareykja og Áss/Svínadals, en að auki vísa þeir til áðurrakinna örnefnaskráa og eldri heimilda sem hér að framan hafa verið raktar.  Byggja þeir á því að umþrætt merki milli greindra jarða eigi að vera í samræmi við landamerkjabréf Reykjahlíðar frá 8. apríl 1891, þ.e. að norðan og þá þannig:

Úr Dettifossi og þaðan beint vestur í Eilífshnjúk og þaðan beint vestur í Gangnamannaskarð í Hrútafjöllum og þaðan þvert í vestur þangað til bein stefna fæst í línu dregna í suður frá Bunguvegg (rétt horn).  Frá Sunnanverðum Hituhólum ræður óslitin gjáveggur, Borgarveggur, allt suður að beinni línu, sem þversker vegg þenna(n), stefnu austan frá Eilífshnjúk og vestur að rótum Gæsafjalla að norðan.  Er það merkjahorn, sem hér myndast af Borgarvegg stutt norður af Éthól.  Þaðan er fylgt beinni línu til vesturs þangað til Bóndhóll er genginn í hásuður og Eilífshnjúk ber rétt norðan undan Gæsafjöllum og þaðan bein stefna suður í Bóndhól.“ 

Um rétt merki vísa aðalstefnendur einkum til þeirrar merkjalínu sem lýst er í landamerkjabréfi Þeistareykja frá 16. september 1948, þinglýstu 31. júlí 1951.  Benda þeir á að bréfið hafi verið samþykkt af eigendum og umráðamönnum jarða umhverfis Þeistareykjaafrétt, þ. á m. af þáverandi eigendum Reykjahlíðar.  Þá hafi bréfið verið staðfest af oddvita Reykjadalshrepps 1950 og af oddvita Aðaldælahrepps 1951.  Byggja aðalstefnendur á því að dómkrafa þeirra sé í ágætu samræmi við hið þinglýsta landamerkjabréf Reykjahlíðar frá 8. apríl 1891, en það hafi verið undirritað af Sigurgeiri Péturssyni, þáverandi eiganda og ábúanda Reykjahlíðar, og samþykkt m.a. af Erlendi Gottskálkssyni vegna Áss og Svínadals, umráðamanni Þeistareykjalands, svo og af eigendum jarða sem land áttu að Reykjahlíð, þ. á m. Grímsstaða og Ytri- og Syðri-Neslanda.  Jafnframt vísa aðalstefnendur um réttmæti kröfugerðar sinnar til áðurrakins landamerkjabréfs Áss og Svínadals frá 1. maí 1889.

Aðalstefnendur benda á að sú merkjalína sem gagnstefnandi, Þingeyjarsveit, eigandi Þeistareykja, byggir á, fylgi varnargirðingu sem reist hafi verið 1941.  Fái hún með engu móti staðist, enda hafi girðingin ekki verið girt á merkjum, líkt og títt hafi verið með mæðuveikigirðingar.  Aðalstefnendur staðhæfa enn fremur að sveitarfélagsmörk séu ranglega skráð inn á kort á hinu umþrætta svæði.

Aðalstefnendur byggja á því að kröfulína þeirra sé í fullu samræmi við náttúrleg merki á umræddu landsvæði, en að auki sé hún í samræmi við landnýtingu, en eigendur Reykjahlíðar hafi á hverjum tíma nytjað landið innan réttra merkja.

Aðalstefnendur byggja á því að túlka beri orðalag landamerkjabréfs Reykjahlíðar með hliðsjón af ofangreindum gögnum en allar fyrirliggjandi heimildir styðji þá fullyrðingu þeirra að landamerki Reykjahlíðar og Þeistareykja séu um Borgarvegg.

Aðalstefnendur byggja á því að merki jarðar þeirra og grannjarðarinnar Þeistareykja, sem og Áss/Svínadals, liggi greinilega saman með þeim hætti sem þeir hafi dregið upp á hnitsettum uppdrætti, sbr. m.a. dskj. nr. 62.  Staðhæfa þeir að landamerkjabréf jarðanna vísi í raun öll á tiltekinn stað, sem sé í sunnanverðum Hituhólum.  Byggja þeir á því að jörðin Þeistareykir geti ekki átt land fyrir austan línu, sem dregin sé um Bunguvegg-Hituhóla-Borgarvegg, sbr. áðurrakið orðalag í landamerkjabréfi Þeistareykja frá 1948.  Sé þetta í samræmi við örnefnalýsingar jarðanna sem og aðrar heimildir, þ. á m. Byggðir og bú Þingeyinga frá 2005 og Göngur og réttir III frá 1950.

Samkvæmt framansögðu andmæla aðalstefnendur merkjalínu gagnstefnanda, sveitarfélagsins Þingeyjarsveitar, eiganda Þeistareykja, um að hún fari yfir Hrútafjöll.  Telja þeir og fráleitt að einhver mistök hafi átt sér stað við gerð landmerkjabréfa er varði hið umþrætta landsvæði, svo skýrt sem þau séu orðuð, og eigi það ekki hvað síst við um merkjabréf Þeistareykja frá 1948, sem þinglýst hafi verið 31. júlí 1951.  Benda þeir á og árétta að samkvæmt orðalagi nefnds bréfs eigi Þeistareykir ekki land fyrir austan Borgarvegg/Bunguvegg.  Þvert á móti fari merkjalínan eftir gjáveggnum frá Hituhólum suður í þverlínu Eilífshnjúks/rætur Gæsafjalla og myndi þannig rétt horn við hana.  Með réttu ætti því að vísa lýstri kröfu gagnstefnanda frá dómi ex offico þar sem hann eigi ekki lögvarða hagsmuni af legu landamerkja milli jarðanna Reykjahlíðar og Áss/Svínadals.

Aðalstefnendur byggja kröfu sína gagnvart meðalgöngustefnanda, landeiganda Áss og Svínadals, sveitarfélaginu Norðurþingi, einkum á landamerkjabréfi Áss og Svínadals frá 1. maí 1989 og vísa til þess að þar sé merkjum lýst með svipuðum hætti og lýst sé í landamerkjabréfi Reykjahlíðar.  Benda þeir á að í bréfi Áss sé sérstaklega getið um örnefnið Gangnamannaskarð (Syðra) í Hrútafjöllum, en að ágreiningur sé með aðilum um hvar umrætt skarð sé í Hrútafjöllum.  Jafnframt vísa þeir til þess að kröfulína þeirra sé í samræmi við þá kröfugerð sem meðalgöngustefnandi hafði sjálfur haft uppi í málarekstri sínum fyrir óbyggðanefnd og telja ljóst að merki Reykjahlíðar liggi yfir Hrútafjöll og Gjástykki samkvæmt lýstum landamerkjabréfum í samræmi við hnitsetta kröfulínu nr. 3 á dskj. nr. 62.

Aðalstefnendur byggja á því að túlka beri orðalag landamerkjabréfs Reykjahlíðar með hliðsjón af áðurröktum gögnum og staðháttum og árétta að merki Reykjahlíðar og Áss/Svínadals liggi greinilega saman.  Þeir byggja og á því að Gangnamannaskarð hið syðra sé aðalskarðið í Hrútafjöllum, og sé það þekkt kennileiti.  Þeir andmæla því málatilbúnaði gagnstefnanda og meðalgöngustefnanda að nefnt skarð sé í fjallsrananum sunnan við aðalfjallið, enda sé miklu nær að tala um lægð í rananum en skarð.  Þá benda þeir á að í landamerkjabréfi Reykjahlíðar sé Gangnamannaskarð syðra ekki nefnt heldur einungis Hrútafjöll, sem þeir telja að bendi til þess að frekast eigi að miða við hátoppinn á fjallinu.  Þá vísa þeir og til þess að kunnugir heimamenn telji að umrætt merkjaskarð sé í daglegu tali aðeins nefnt Gangnamannaskarð og að tilvísun til hins syðra sé sleppt, enda sé Gangnamannaskarð hið nyrðra óþekkt kennileiti.  Loks benda aðalstefnendur á að samkvæmt dómkröfu meðalgöngustefnanda sé merkjalína hans dregin úr Hrútafjallahala í Borgarvegg, en ekki Bunguvegg líkt og segi í landamerkjabréfum Áss og Svínadals annars vegar og Reykjahlíðar hins vegar.  Málatilbúnaður meðalgöngustefnanda fái því ekki staðist með nokkru móti og því beri að sýkna aðalstefnendur af kröfum hans í málinu.

Aðalstefnendur byggja á því að við túlkun lýstra landamerkjabréfa verði að horfa heildstætt til orðalags þeirra og meta þau í ljósi eldri heimilda ásamt því að hafa hliðsjón af landfræðilegum aðstæðum og örnefnum.  Engu breyti þó að girðingar séu ekki á merkjum á þessum slóðum, enda breyti uppsetning slíkra mannvirkja ekki þinglýstum bréfum.  Þeir árétta að uppsetning girðinganna hafi helgast af því hvar besta girðingarstæðið var að finna, en fyrrnefnd girðing frá fimmta áratug tuttugustu aldar hafi upphaflega verið sett upp sem mæðuveikigirðing, og hafi slíkar opinberar girðingar oft ekki verið reistar á merkjum, enda tilgangur þeirra verið annar.

Um lagarök vísa aðalstefnendur til landamerkjalaga nr. 5, 1982 og 41, 1919, með síðari breytingum og meginreglna íslensks réttar um gildi landamerkjabréfa og túlkun þeirra, sem og til einkamálalaga nr. 91, 1991.  Einnig er af þeirra hálfu vísað til almennra reglna samningaréttar um að gerða samninga beri að halda.  Þá vísa þeir til þinglýsingalaga nr. 39, 1978 og 72. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi einkaréttarins, en um málskostnað vísa þeir til XXI. kafla laga nr. 91, 1991.

Málsástæður og lagarök gagnstefnanda, sveitarfélagsins Þingeyjarsveitar, í aðalsök og meðalgöngusök vegna jarðarinnar Þeistareykja.

Af hálfu gagnstefnanda er á því byggt að elstu skráðu landamerkjalýsingu Þeistareykja sé að finna í áðurrakinni lögfestu Múlaprests frá 9. maí 1744.  Sé sú lýsing í samræmi við eldri merkjalýsingar Reykjahlíðar, þ. á m. þá sem lýst sé í áðurröktum Reykjahlíðarmáldaga frá 1573.  Telur gagnstefnandi að umræddar heimildir verði ekki skildar á annan hátt en að landamerki jarðanna Þeistareykja og Reykjahlíðar sé bein lína sem liggi nokkurn veginn á ásnum austur-vestur, en þar sé hvergi minnst á Hrútafjöll.  Er á því byggt að landamerkjalýsingarnar séu í fullkomnu samræmi hverjar við aðra og sýni svo ekki verði um villst að merki milli jarðanna liggi í beinni línu úr Eilíf vestur í Gæsafjallamó.  Þeir vísa jafnframt til þess að fyrrnefnd lögfesta frá 1744 sé í samræmi við lögfestu Múlaprests fyrir Þeistareyki frá árinu 1854, en hún hafi verið lesin upp á manntalsþingi á Skútustöðum án andmæla.  Byggir gagnstefnandi á því að landamerkjabréf Reykjahlíðar frá 1891 sé í samræmi við þessar eldri heimildir um merki jarðarinnar, en samkvæmt bréfinu eigi jörðin land á móti Svínadal og Áslandi í beinni línu úr Dettifossi í Eilífshnjúk, en úr Eilífshnjúk ráði síðan bein stefna á móti Þeistareykjum vestur í Mó.  Um sé að ræða beina línu, en það sé í ágætu samræmi við kröfugerð hans, en alls ekki í samræmi við kröfugerð aðalstefnenda í aðalsök þar sem ekki sé lýst beinni línu heldur krókóttri.

Gagnstefnandi bendir á að er Þingeyjarsýslu hafi verið skipt í tvennt með konungsályktun þann 17. febrúar 1841 hafi m.a. verið miðað við landamerki Þeistareykja og Svínadals á því svæði sem hér um ræðir.  Byggir gagnstefnandi á því að sé landamerkjalýsing Reykjahlíðar í landamerkjabréfi jarðarinnar frá 1891 lesin af athygli verði hún ekki skilin á annan veg en svo að landamerkin liggi á sveitarfélagsmörkum í beinni línu á milli þeirra tveggja punkta, sem fyrr var getið.  Þáverandi eigendur Þeistareykja hafi samþykkt landamerkjalýsinguna með áritun sinni á bréfið.  Gagnstefnandi bendir jafnframt á að ef fallist yrði á túlkun aðalstefnanda, eigenda Reykjahlíðar, í aðalsök, væru hvorki landamerkin milli Reykjahlíðar og Svínadals og Áslands né landamerkin milli Reykjahlíðar og Þeistareykja í beinni línu, en að auki hlytu landamerkjapunktarnir að vera fleiri en þrír á jafnlangri leið.

Gagnstefnandi byggir á því að jafnvel þó svo að landamerkjabréf Reykjahlíðar frá 1891 tiltaki að merkjalínan liggi yfir Gjástykki sé til þess að líta að Gjástykkið liggi bæði norðan og sunnan hreppa og landamerkja.  Þannig sé örnefnið Gjástykkisbunga sunnan landamerkjalínunnar.  Við málflutning var enn fremur til þess vísað að örnefnið Hrútafjallarandir væri á landamerkjum og að augljóst væri að Hrútafjöllin væru norðan þeirrar beinu línu, sem dregin væri úr Eilíf og vestur í Mó.  Hljóti því tilvísunin í landamerkjabréfi Reykjahlíðar til Hrútafjalla að vera misritun ellegar að átt hafi verið við Hrútafjallahala, sem gangi suður af Hrútafjallarana.

Gagnstefnandi bendir á að eftir að sveitarfélögin Reykdælahreppur og Aðaldælahreppur keyptu Þeistareyki af Landsjóði árið 1915 hafi verið gert áðurrakið landamerkjabréf fyrir jörðina.  Bréfinu hafi aldrei verið þinglýst þar sem á hafi skort áritanir eigenda Áss, Svínadals og Kelduness.  Á hinn bóginn hafi þáverandi eigendur Reykjahlíðar áritað bréfið og þannig samþykkt efni þess og lýsingu á landamerkjum.

Gagnstefnandi byggir á því í ljósi ofangreinds að kjarni máls þessa sé í raun sá að árið 1948 hafi verið gert landamerkjabréf fyrir Þeistareykjaafrétt, en þar hafi merki verið dregin með öðrum hætti en áður hafði verið gert.  Er til þess vísað að aðalstefnendur byggi kröfur sínar í aðalsök fyrst og fremst á efni þessa bréfs fremur en á landamerkjabréfi Reykjahlíðar og eldri heimildum um merki jarðarinnar.  Gagnstefnandi byggir á því að með afréttarbréfinu frá 1948 hafi einungis verið afmarkað leitarsvæði.  Hafi það verið gert í kjölfar þess að girt var fjárheld girðing á landa- og hreppamörkum á árunum 1943-44, enda hafi fyrirkomulag leitar á hinu umþrætta landsvæði breyst eftir það.  Vísar gagnstefnandi til þess að eigendur Þeistareykja hafi allt þar til umrædd girðing var reist hreinsað allt Þeistareykjaland og þ. á m. hið umdeilda svæði vestan Hrútafjalla til Hraunsréttar, líkt og lýst sé í framlögðum gögnum.  Eftir að girðingin var reist hafi Keldhverfingar leitað hið umdeilda svæði og dregið sundur fé sitt norður í Kelduhverfi.  Við gerð landamerkjabréfsins um afréttinn 1948 hafi hins vegar engar breytingar orðið á eignarhaldi hins umdeilda landsvæðis, enda séu slík bréf ekki lögmæt við aðilaskipti að fasteignum í heild eða að hluta, sbr. meginreglur laga um yfirfærslu á eignarrétti yfir fasteignum, sbr. 4. gr. landamerkjalaga nr. 41, 1919.  Umrætt landamerkjabréf hafi þess utan ekki verið í lögmætu formi þar sem eigendur aðliggjandi jarða hafi ekki allir ritað nafn sitt á það.  Bréfið hafi því aldrei verið tækt til þinglýsingar.  Bendir gagnstefnandi og á að merkjalýsing bréfsins varðandi norðurmerki Þeistareykja hafi þegar verið dæmd ómerk með dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra í máli nr. 192/1997.

Til frekari rökstuðnings fyrir kröfugerð sinni vísar gagnstefnandi, Þingeyjarsveit, til áðurrakinnar afréttarskrár frá 1882.  Í skránni sé það m.a. tiltekið að Gjástykkisleit sé austast í Þeistareykjalandi og megi ljóst vera að hið umdeilda landsvæði hafi verið innan landamerkja Þeistareykja og að eigendur jarðarinnar hafi hlutast til um að hreinsa svæðið ár hvert, a.m.k. til ársins 1943, sbr. m.a. fyrrnefndar lýsingar gangnamanna sem raktar séu í bókaflokknum Göngum og réttum.

Gagnstefnandi áréttar að eftir að sauðfjárveikivarnagirðingin var reist á hinu umþrætta landsvæði hafi Keldhverfingar leitað Hrútafjöll og svæðið vestan þeirra og andmælir hann því sem röngu og ósönnuðu að Reykhlíðingar hafi forðum smalað Hrútafjöll.  Gagnstefnandi áréttar enn fremur að gerð landamerkjabréfsins fyrir afrétt Þeistareykja árið 1948 hafi ekki verið í tengslum við aðilaskipti á eignarlandi heldur vegna leitarskipulags á svæðinu í kjölfar breyttra aðstæðna.  Staðhæfir hann að fyrrum fyrirsvarsmönnum aðalstefnenda, og þeim sem rituðu nafn sitt á nefndan gerning, hafi verið þetta ljóst.  Þannig hafi einn þeirra, Pétur Jónsson í Reynihlíð, fjallað um fjallskil í áðurrakinni grein í Árbók Þingeyinga árið 1966, en einnig lýst merkjum á landsvæðinu.  Bendir gagnstefnandi á að af merkjalýsingu Péturs að dæma, hafi hann ekki talið að landamerkjabréfið, sem hann ritaði undir 18 árum fyrr, hefði breytt landamerkjum jarðanna.  Í þessu samhengi bendir gagnstefnandi einnig á að samkvæmt frásögn Péturs, sem fram komi í bókaflokknum Göngum og réttum, hafi fátt fé komið inn á land Reykjahlíðar að norðan eftir að girðingin norðan afréttarlanda Reykjahlíðar var reist.  Er á því byggt af hálfu gagnstefnanda að umrædd girðing hafi verið reist á landa- og hreppamörkum á árunum 1943-44, en að hún hafi síðan verið endurnýjuð á síðari hluta 7. áratugar 20. aldar á nær sama girðingarstæði.  Bendir hann á að frumkvæðið að þeim framkvæmdum hafi komið frá Skútustaðahreppi, og hafi síðar risið ágreiningur um skiptingu kostnaðar vegna þeirra.  Hafi svo farið að Skútustaðahreppur hafi stefnt eigendum Þeistareykja og Kelduneshrepps til greiðslu á helmingi kostnaðar vegna girðingarframkvæmdanna, en í þeim málatilbúnaði hafi Skútustaðahreppur byggt á því að um landamerkjagirðingu væri að ræða.  Hafi málinu að lokum verið áfrýjað til Hæstaréttar, sem hafi lagt dóm á málið þann 2. maí 1978.  Vísar gagnstefnandi í þessu sambandi til þess að í hreppsnefnd Skútustaðahrepps á árabilinu 1970 til 1978 hafi ávallt setið a.m.k. einn eigenda Reykjahlíðar.  Telur gagnstefnandi að málatilbúnaður Skútustaðahrepps við innheimtu girðingarkostnaðarins sé í andstöðu við það sem aðalstefnendur haldi fram í þessu máli.

Af hálfu gagnstefnanda er því andmælt að ýmis ummæli um landamerki Þeistareykja í ritum almenns eðlis sem og í örnefnaskrám eigi að hafa þau réttaráhrif sem aðalstefnendur í aðalsök haldi fram.  Telur hann að þessar heimildir byggi allar á hinu svokallaða landamerkjabréfi frá árinu 1948, sem ranglega hafi verið talið afmarka Þeistareykjaland, en lýsi í raun merkjum leitarsvæðis.  Byggir gagnstefnandi á að aðalstefnendur hafi ekki fært fram gögn eða sönnun fyrir því að þeir eða fyrirrennarar þeirra hafi eignast hið umdeilda land fyrir kaup eða með öðrum yfirfærslugerningi.  Áréttar gagnstefnandi að landamerkjabréf, hvort sem þau séu gild eða ógild, geti ekki undir neinum kringumstæðum verið metin hliðstæð eða sambærileg við yfirfærslugerninga, enda verði í slíkum gerningum að koma fram hver sé framseljandi og framsalshafi og hvað sé framselt, en um slíkt komi ekkert fram í margnefndu bréfi.

Gagnstefnandi vísar til þess að málsástæður og lagarök meðalgöngustefnanda, Norðurþings, séu í raun samhljóða hans og þá þannig að leggja beri til grundvallar þá lýsingu sem fram komi í landamerkjabréf Áss um landamerki á hinu umþrætta landsvæði, en á það bent að Þeistareykir séu í Suður-Þingeyjarsýslu, en Ásheiði í Norður-Þingeyjarsýslu.  Gagnstefnandi bendir á að ágreiningur hans við meðalgöngustefnanda varði í fyrsta lagi það hvar staðsetja beri Gangnamannaskarð (syðra) í Hrútafjöllum og öðru lagi hvernig beri að túlka landamerkjalýsinguna úr Gangnamannaskarði.

Gagnstefnandi andmælir þeirri kröfugerð meðalgöngustefnanda að kennileitið Gangnamannaskarð (syðra) í Hrútafjöllum sé í raun staðsett í Hrútafjallarananum, en ekki í fjallinu sjálfu.  Byggir hann á því að sú staðsetning sé hvorki í samræmi við landamerkjabréf Áss né eldri heimildir um landamerki þeirrar jarðar og Þeistareykja  og staðhæfir að skarð það sem meðalgöngustefnandi vísi til geti varla talist hafa borið jafn virðulegan titil og skarð.  Miklu frekar sé um að ræða lægð í landinu.  Bendir hann á að lengi hafi legið fyrir hvar umrætt skarð væri staðsett á kortum og hafi sýslu- og hreppamörk verið dregin um það á flestum þeim kortagrunnum sem aðgengilegir séu.  Þannig hafi lengi legið fyrir að mörk sýslna og hreppa, og þar með merki jarðanna Þeistareykja og Áss, hafi verið dregin úr umræddu skarði að Bunguvegg norðan Hituhóla, en ekki sunnan þeirra líkt og byggt sé á í meðalgöngusök. 

Gagnstefnandi bendir á að Bunguveggur, sem nefndur sé eftir Þeistareykjabungu, liggi óslitinn frá norðri til suðurs allt að Hituhólum.  Þá sé Borgarveggur skammt sunnan Hituhólanna, og liggi hann nokkurn veginn óslitinn allt suður á sveitarfélagamörk.  Gagnstefnandi vísar til þess að meðalgöngustefnandi eða fyrirrennarar hans hafi ekki fyrr en undir rekstri þessa máls mótmælt því hvernig merkin hefðu verið dregin á milli jarðanna á fyrrnefndum kortum.  Er í því samhengi bent á að öll hreppsnefnd Kelduneshrepps hafi ritað undir áðurrakinn samning við Landgræðslu ríkisins í októbermánuði 1991.

Um lagarök í aðalsök og meðalgöngusök vísar gagnstefnandi til landamerkjalaga nr. 5, 1982 og 41, 1991 með síðari breytingum og til landskiptalaga nr. 46, 1941 með síðari breytingum.  Þá vísar hann til þinglýsingalaga nr. 39, 1978, sem og eldri laga um sama efni.  Einnig vísar hann til réttaráhrifa og gildis landamerkjabréfa að íslenskum rétti sem og til 72. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi eignarréttarins.  Kröfu sína um málskostnað styður hann við XXI. kafla laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála, en um höfðun gagnsakar er vísað til 2. mgr. 28. gr. sömu laga.

Málsástæður og lagarök meðalgöngustefnanda Norðurþings vegna Áss/ Svínadals í meðalgöngusök og gagnsök.

Meðalgöngustefnandi byggir kröfur sínar einkum á hinu þinglýsta landamerkjabréfi jarðarinnar Áss og Svínadals.  Vísar hann til þess að bréfið hafi verið áritað af eigendum aðliggjandi jarða, þ. á m. þáverandi eigendum Þeistareykja og Reykjahlíðar, meðalgöngustefndu.

Meðalgöngustefnandi byggir á því, að landamerkjalínan frá Eilífshnjúk brotni við Gangnamannaskarð hið syðra og liggi línan þaðan beint vestur í Bunguvegg.  Hann byggir á því að umrætt skarð liggi nokkru sunnar en meðalgöngustefndu, eigendur Reykjahlíðar og Þingeyjarsveit, miði við í kröfum sínum og málatilbúnaði.  Staðhæfir hann að engin gögn liggi fyrir er hnekki landamerkjalýsingu Áss og Svínadals og því geti meðalgöngustefndu ekki átt frekari rétt en af þeim gerningi leiðir.

Meðalgöngustefnandi bendir á að jafnvel þótt aðilar kunni að vera sammála um orðalag landamerkjalýsingarinnar, þá kunni ágreiningur að felast annars vegar í mismunandi skilningi á því hvaða skarð skuli teljast Gangnamannaskarð hið syðra og hins vegar á því hvort línan úr skarðinu um Gjástykki beint vestur í Bunguvegg sé í annarri stefnu en línan úr Eilífshnjúk að Gangnamannaskarði hinu syðra.  Um merkjalínuna vísar meðalgöngustefnandi til framlagðra gagna og hnitsetningar í endanlegri kröfugerð hans fyrir dómi og krefst þess að viðurkennt verði með dómi að rétt landamerki heiðalands Áss og Svínadals í Kelduhverfi séu þau sem þar greinir.

Meðalgöngustefnandi bendir á að landamerkjalýsingar nefndra jarða séu nokkuð villandi, en að suðurmerki Áss séu þó tiltölulega skýrlega skilgreind í áðurröktu landamerkjabréfi jarðarinnar frá 1889.  Hið sama gildi um norðurlínu Reykjahlíðarlands samkvæmt landamerkjabréfi jarðarinnar frá 1891.  Allnokkur munur sé hins vegar á áðurröktum landamerkjalýsingum Þeistareykjalands frá 1809 annars vegar og frá 1948 hins vegar.

Meðalgöngustefnandi bendir á að við gerð landamerkjabréfs Áss og Svínadals þann 1. maí 1889 hafi eigendur aðliggjandi jarða ritað samþykki sitt þar á og hafi landamerkjalýsingin því virst ágreiningslaus.

Meðalgöngustefnandi bendir á að kröfugerð hans byggi á því að landamerkjalínan frá Gangnamannaskarði hinu syðra lendi ekki á Bunguvegg heldur sunnan enda hans, en síðan sé línan „flúgtuð“ til norðurs, en skýr málvenja á svæðinu sé að „út“ merki norður og því beri að skilja „út í Bunguveggi“ til norðurs.  Hann bendir jafnframt á að í merkjalýsingu jarðarinnar sé í þrígang tilgreind stefna til vesturs, þ.e. „beint“ í vestur úr Dettifossi í Eilíf, úr Eilífi aftur „beint“ í vestur til Gangnamannaskarðs og loks „þvert“ í vestur til flúgtlínu við Bunguvegg.  Tveir fyrri leggirnir víki lítillega frá stefnu í hávestur, sá fyrri 9° til suðurs og sá seinni 11° til norðurs.  Síðasti leggurinn, frá Gangnamannaskarði í flúgtlínu í Bunguvegg, sé því sem næst í stefnu hávestur og loks sé bein lína frá Dettifossi í landamerkjapunkt sunnan Hituhóla mjög nærri því til hávesturs.  Hann bendir á að í áðurrakinni ódagsettri örnefnalýsingu Ásheiðar, eftir Ara Gíslason, sé gengið út frá því að merkjalínan stefni suður fyrir Eilíf frá Hituhólum, en það eigi sér hvergi samsvörun í landamerkjalýsingum. Þá sé ekki skýrt í örnefnalýsingu Ara hvar í Hituhólum merkjalínan brotni.

Að því er varðar landamerkjalýsingu Þeistareykjalands bendir meðalgöngustefnandi á að í landamerkjalýsingunni frá 1948 sé lýst merkjum um Gjástykki, um Bunguvegg og suður að Hituhólum miðjum en síðan með sömu stefnu suður yfir hólana og um óslitinn gjávegg Borgarveggjar allt suður að beinni línu, sem þverskeri stefnu austan frá Eilífshnjúk og vestur að rótum Gæsafjalla að norðan.  Bendir hann á að merkjalýsingin hafi verið samþykkt af þáverandi eigendum Reykjahlíðar, Ásheiðar og Þeistareykja og einnig af eigendum flestra umliggjandi jarða.  Til samanburðar vísar meðalgöngustefnandi til eldri lýsinga af landamerkjum Þeistareykja þar sem austurmörk jarðarinnar séu óskýrt skilgreind.  Er í því sambandi nefnd áðurrakin lögfesta frá 1744, sem síðar hafi verið endurtekin ítrekað, þ. á m. árið 1854, og í áðurrakinni auglýsingu um landamerki jarðarinnar árið 1809.  Að auki vísar meðalgöngustefnandi á fyrrnefndar landamerkjalýsingar Þeistareykja í heimildarritum, þ. á m. í bókaflokknum Göngum og réttum og í örnefnaskrám Ara Gíslasonar og Kristjáns Jóhannessonar.  Staðhæfir hann að samanlagt sé í þessum heimildum lýst landamerkjum Þeistareykja með Bunguvegg frá suðurenda hans inn í miðja Hituhóla og þaðan beina stefnu til suðurs með Borgarvegg, en það sé hins vegar ekki fyllilega í samræmi við hið þinglýsta landamerkjabréf Áss, þar sem í nefndum heimildum sé gert ráð fyrir að vesturhelmingur Hituhóla tilheyri Þeistareykjalandi.  Meðalgöngustefnandi bendir jafnframt á að í nefndum heimildum séu engar áætlanir um landamerki um vörðu á barmi Bunguveggjar í brotna stefnu um Gangnamannaskarð til tinds Eilífs líkt og gagnstefnandi, sveitarfélagið Þingeyjarsveit, telji rétt.

Að því er varðar landamerkjalýsingu Reykjahlíðar vísar meðalgöngustefnandi til áðurrakins landamerkjabréfs jarðarinnar frá 1891.  Telur hann einsýnt að af lýsingunni megi ráða að Reykjahlíðarland afmarkist í suðri af „beinni stefnu“ milli Eilífshnjúks og flúgtlínu norðan undir Gæsafjöll.  Er á því byggt að í lýsingunni sé ranglega gert ráð fyrir að merkjalínan skeri Hrútafjöll, en hún liggi um 2 kílómetra sunnan við Hrútafjallahala.  Er í því samhengi á það bent að umrædd sjónlína sé um 15 km löng.  Jafnframt byggir meðalgöngustefnandi á því að hin beina merkjalína Reykjahlíðar marki landamerki milli Þeistareykja og Reykjahlíðar, sem aftur bendi til þess að fleygurinn, sem afmarkist af flúgtlínu frá norðurhlíðum Gæsafjalla í Eilíf og svo línu frá Eilífshnjúk um Gangnamannaskarð suður fyrir Hituhóla, verði talinn tilheyra Þeistareykjum.

Að því er varðar örnefnið Gangnamannaskarð (syðra) bendir meðalgöngustefnandi á að mögulega megi tala um fjögur „skörð“ í Hrútafjöllum.  Þannig sé skarð norðanvert í fjöllunum, sem virðist göngufært úr báðum áttum, en liggi hátt og hafi því ekki haft beina þýðingu við göngur þar sem mun auðveldara hafi verið fyrir gangnamenn að fara út fyrir fjallið en um skarðið.  Hann bendir á að sunnanvert í Hrútafjöllunum, í svokölluðum Hrútafjallahala, séu tvö göngufær skörð, sem auðveldlega megi reka fé um.  Þar séu og augljósar fjárgötur, en auk þess séu skörð þessi nokkuð afgerandi séð úr austri og virðist skera Hrútafjöllin í þrjá bita, þ.e. meginhluta Hrútafjalla nyrst, en tvö minni fjöll/fell sunnar.  Bendir hann á að syðsti hluti Hrútafjalla sé kallaður Hrútafjallahali og telur líklegast að það heiti tilheyri fyrrnefndum tveimur syðstu hlutum fjallsins.  Hann bendir enn fremur á að landhæð vestan Hrútafjalla sé meiri en austanvert við fjöllin og að þaðan virki skörðin óverulegri.  Hann bendir og á að fjórða skarðið sé nokkuð norðan við göngufæru skörðin og virðist álitlega göngufært séð úr vestri, en augljóslega ófært gangandi mönnum séð úr austri, þar sem 5-8 m hár klettaveggur sé því næst lóðréttur efst í skarðinu.  Í þessu samhengi vísar meðalgöngustefnandi til þess að rétt sé að horfa til þess að í áðurröktum landamerkjalýsingum sé farið úr austri frá Dettifossi um Eilíf og þaðan um Gangnamannaskarð (hið syðra).  Úr austri sé því augljóst að nyrsta skarðið í sunnanverðum Hrútafjöllum sé algjörlega ófært gangandi mönnum og fé.  Í þessu samhengi bendir hann á að í örnefnaskrá Péturs Jónssonar fyrir Reynihlíð segir: „Gangnamannaskarð: Gegnum Hrútfjallahala suður úr Hrútfjöllum.  Og enn fremur: „Hrútfjöll sem hér er vitnað til eru norðan merkja - sunnan við þau heitir Hrútafjallahali og gegnum hann er skarð nálægt merkjum sem heitir Gangnamannaskarð.  Halinn er sunnan við skarðið.  Meðalgöngustefnandi bendir á að í lýsingu Péturs sé tiltekið að Gangnamannaskarð liggi í gegnum Hrútafjallahala þó svo að í seinni tilvísuninni sé halinn talinn sunnan við skarðið.  Byggir meðalgöngustefnandi á því að álykta megi af þessu að vart sé hægt að segja að hið ókleifa skarð liggi í gegnum Hrútafjallahala, heldur sé það einfaldlega skarð eða klif í meginhluta Hrútafjalla.  Sé því eðlilegt að segja að syðsta skarðið sé það eina sem liggi „í gegnum Hrútafjallahala“ en nyrðra göngufæra skarðið skeri hins vegar Hrútafjallahala frá meginhluta Hrútafjalla.

Af hálfu meðalgöngustefnanda er í ljósi ofangreinds, og efnis landamerkjabréfs Áss og Svínadals um að landamerkin liggi um „Gangnamannaskarð (hið syðra)“, á því byggt, að um sé að ræða syðra skarðið af tveimur göngufærum skörðum sunnanvert í Hrútafjöllum, andstætt því sem meðalgöngustefndu haldi fram.  Hann bendir jafnframt á að kennileitið Gangnamannaskarð sé ekki nefnt í örnefnaskrám jarðanna Þeistareykja og Áss.  Verði samkvæmt þessu að telja líklegast að örnefnið vísi til skarðs sem sé fært gangnamönnum og þá í fyrrnefndum Hrútafjallahala líkt og fram komi í örnefnalýsingu Péturs Jónssonar í Reynihlíð.

Meðalgöngustefnandi bendir á að í Hrútafjöllum, í Hituhólum og á barmi Bunguveggjar séu nokkrar vörður eða grjóthrúgur.  Staðhæfir hann að allar eigi vörðurnar það sameiginlegt að vera litlar og í raun aðeins samsafn fáeinna steina í grýttu umhverfi, og að auki nýlegar að sjá.  Er á því byggt að ósennilegt sé að nokkur þessara varða hafi verið hugsuð sem landamerkjavarða, enda sé engin þeirra tilgreind í landamerkjalýsingum.

Af hálfu meðalgöngustefnanda er áréttað að af lýstum landamerkjabréfum sé lýsing Áss og Svínadals frá 1889 skýrust varðandi landamerki um Gjástykki og þá þannig að merkjalínan liggi frá Eilífshnjúk um Gangnamannaskarð og þaðan hornrétt í flúgtlínu norður í Bunguvegg.  Er á því byggt og það áréttað að augljóst sé af vettvangi en einnig uppdráttum, að hið ókleifa skarð í sunnanverðum Hrútafjöllum sé ekki það skarð sem vísað er til í landamerkjalýsingunni.  Einnig er á því byggt að ekki sé sjónlína í Gangnamannaskarð úr punkti á flúgtlínu í Bunguvegg hornrétt á stefnu í ókleifa skarðið, en í milli beri Hituhóla og að hliðstæða sögu megi segja um flúgtlínu hornrétt á nyrðra göngufæra skarðið, nema hvað í því tilviki sjáist ekki í skarðið vegna þess hversu lágt landið liggi í flúgtpunkti við Bunguvegg.  Verði af þessum sökum að miða við margnefnt syðsta skarð í Hrútafjöllum/Hrútafjallahala.  Í ljósi þessa andmælir meðalgöngustefnandi kröfum meðalgöngustefnda, Þingeyjarsveitar, um að landamerkin liggi frá Eilífi um ókleift skarð í Hrútafjöllum og þaðan í lítillega brotinni stefnu á vörðu á Bunguvegg, enda sé hún ótæk og í ósamræmi við ritaðar heimildir.  Nægi þar ekki framlögð dagbókarfærsla og vitnisburður Þórarins Þórarinssonar er farið hafi á vörðu á suðurenda Bunguveggjar og upp í hið ókleifa skarð í Hrútafjöllum með landamerkjamerkingar vegna loftmyndatöku árið 1976.  Af hálfu meðalgöngustefnanda er og andmælt kröfu meðalgöngustefndu, eigenda Reykjahlíðar, um land norður fyrir línu frá Eilífi norðan undir Gæsafjöll, enda sé hún ekki í samræmi við ritaðar heimildir.  Að því leyti er bent á að í landamerkjabréfi Reykjahlíðar frá 1891 sé gert ráð fyrir því að línan skilji að lönd Reykjahlíðar og Þeistareykja, sem gefi til kynna að við gerð bréfsins hafi verið gert ráð fyrir að Þeistareykir ættu land austur að Eilífi.  Landamerkjalýsing Þeistareykja frá 1809 sé þó óskýr um austurmörk landsins en tiltaki þó að landið nái austur í Eilíf.  Í landamerkjalýsingum síðustu aldar hafi á hinn bóginn verið gert ráð fyrir að landamerkjalína Þeistareykja væri um Bunguvegg, Hituhóla og Borgarvegg og upp í línu milli Eilífs og Gæsafjalla.

Af hálfu meðalgöngustefnanda er loks á því byggt að afleiddur landamerkjapunktur Áss/Svínadals, sbr. hnit: 600.898;592.552, sé á litlum hól, skammt austan vegaslóða sunnan Hituhóla.  Til skýringar dómkröfunni er á það bent að punkturinn sé fundinn út með því að fylgja flúgtlínu við Bunguvegg þar til sjónlína að syðsta skarði Hrútafjalla reynist hornrétt á línuna.  Nánar um hnitmerki, sbr. dómkröfur, vísar meðalgöngustefnandi til endanlegrar kröfugerðar sinnar í meðalgöngustefnu.

Um lagarök vísar meðalgöngustefnandi til 20. gr. laga nr. 91, 1991, en um málskostnað til XXI kafla sömu laga.

III.

Við aðalflutning gaf aðilaskýrslu Jón Illugason í Reykjahlíð, en vitnaskýrslur gáfu Þórarinn Þórarinsson, Sigvaldi Gunnarsson, Sigurgeir Ísaksson og Adam Jónsson, allir úr Kelduhverfi, og Guðmundur Hallgrímsson úr Aðaldal.

Í máli þessu deila aðilar um landamerki jarða við mörk Suður- og Norður-Þingeyjarsýslna.  Um er að ræða landsvæði við norðurmerki Reykjahlíðar í Skútustaðahreppi, suðausturmerki Þeistareykja í hinum forna Helgastaðahreppi, síðar Aðaldæla- og Reykjahlíðarhreppum, og nú í sveitarfélaginu Þingeyjarsveit, en báðar jarðirnar eru í Suður-Þingeyjarsýslu, og suðvesturmerki jarðarinnar Áss/Svínadals í fyrrum Kelduneshreppi í Norður-Þingeyjarsýslu, nú í sveitarfélaginu Norðurþingi.

Árið 1841 var samkvæmt konungsályktun Þingeyjarsýslu skipt í Norður- og Suður-Þingeyjarsýslu.  Var þá um merkin m.a. miðað við landamerki Þeistareykja og Áss/Svínadals á Mývatnsfjöllum og öræfum.  Í bókaflokknum Göngum og réttum, III. bindi, er vikið að sýslumörkunum og segir m.a. að þau fari að hluta saman við austurmerki Þeistareykja.  Lýsing sýslumerkjanna er í samræmi við það sem skráð er eftir Jóhanni Skaptasyni sýslumanni í Árbók Ferðafélags Íslands 1969, en þar segir m.a.: „... beint í suður í Sæluhúsmúla, en þaðan þvert í austur að Eyjólfshæð.  Þaðan til suðurs um Bunguvegg að Hitahólum, þá til suðausturs um Eilíf og frá honum eftir beinni sjónhendingu að Dettifossi“.

Í máli þessu tefla málsaðilar fram landamerkjabréfum jarða sinna ásamt eldri og yngri heimildarskjölum.

Um gildi landamerkjabréfa hefur Hæstiréttur Íslands lýst þeirri afstöðu, t.d. í máli réttarins nr. 48/2004, að auk formreglna skipti almennt máli hvort um sé að ræða jörð eða annað landsvæði.  Segir í dómsniðurstöðunni m.a. að þekkt sé að landamerkjabréf hafi ekki eingöngu verið gerð fyrir jarðir, heldur einnig afrétti.  Enn fremur er í þessum dómi sagt að landamerkjabréf fyrir jörð feli almennt í sér ríkari sönnun fyrir því að um eignarland sé að ræða þótt jafnframt verði að meta gildi hvers bréfs sérstaklega.  Er sagt að það auki almennt gildi landamerkjabréfs sé það áritað um samþykki eigenda aðliggjandi jarða, en að þess verði að gæta að með því að gera landamerkjabréf geti menn ekki einhliða aukið við land sitt eða annan rétt umfram það.  Verði til þess að líta hvort til séu eldri heimildir sem fallið geti að lýsingu í landamerkjabréfi, enda stangist sú lýsing heldur ekki á við staðhætti, gróðurfar og upplýsingar um nýtingu lands.  Ber við niðurstöðu máls þessa m.a. að hafa  framangreint í huga.

Af hálfu aðila hafa verið lögð fram gögn um nýtingu hins umþrætta landsvæðis og þá ekki síst um fjallskil og hafa þau að nokkru verið rakin hér að framan.  Að virtum þessum gögnum og framburði vitna og aðila verður lagt til grundvallar að miklar breytingar hafi orðið á fjárleitum á hinu umþrætta landsvæði á liðnum 100-130 árum.  Í afréttarskrám og öðrum gögnum segir m.a. frá því að gangnamenn sem gengu fyrir hinn forna Helgastaðahrepp hafi m.a. farið um Gjástykki og allt austur að Hrútafjöllum.  Einnig eru heimildir um að gangnamenn í afréttarlöndum Keldhverfinga, á framhluta Ásheiðar, hafi m.a. um miðja síðustu öld farið fram að girðingu þeirri er liggur frá Hafragili um Eilíf, vestur um Gjástykki og allt að Gæsafjöllum.  Þá eru frásagnir um að Mývetningar hafi farið að afréttarmörkum gegnt afréttunum í Kelduhverfi og á Þeistareykjum, en um þau norðurmörk eru m.a. nefnd kennileitin Hafragil, Eilífur, Hrútafjöll og Kröfluhraun.

Um lýstar breytingar á fjallskilum verður ályktað af gögnum og skýrslum að mestu hafi ráðið að ruddir voru akvegir um heiðarlöndin, en einnig lagning fyrrnefndrar sóttvarnargirðingar við norðurmörk Reykjahlíðarlands nokkru fyrir miðja síðustu öld.

Að virtum þessum gögnum öllum er það niðurstaða dómsins að fyrirkomulag fjallskila á hinu umþrætta svæði hafi ekki eignarréttarlega þýðingu.

Samkvæmt landamerkjalögum frá árinu 1882 var eiganda eða umráðamanni hverrar jarðar skylt að skrásetja nákvæma lýsingu á landamerkjum jarðar sinnar, eins og hann vissi þau réttust.  Þá bar landeiganda að sýna merkjalýsingu hverjum þeim er land átti til móts við hann, sem og eigendum lands þess, er hann taldi jörð sína eiga ítak í, og er þeir allir höfðu ritað nafn sitt á hana skyldi hann fá hana sýslumanni í hendur til þinglesturs á næsta manntalsþingi.

Líkt og hér að framan var rakið voru landamerkjabréf fyrir Ás og Svínadal í Kelduhverfi og Reykjahlíð í Skútustaðahreppi útbúin vorin 1889 og 1891, og þau síðan þinglesin.

Í landamerkjaskránni fyrir Reykjahlíð er merkjum lýst frá austri.  Segir þar að merkin séu á móti Svínadals- og Áslandi og að þar ráði bein stefna frá Dettifossi í Eilífshnjúk, en þaðan fari þau beina stefnu yfir Hrútafjöll og Gjástykki mót Þeistareykjalandi, vestur í mó, þar til Bóndhóll er genginn í hásuður og Eilífshnjúk ber rétt norður undan Gæsafjöllum.

Gjástykki er víðlent dalverpi.  Frá Hrútafjöllum nær það m.a. vestur að Hituhólum, en til norðurs með Bunguvegg í landi Þeistareykja og í austasta hluta Ásheiðar.  Til suðurs nær Gjástykkið m.a. að Hágöngum og Éthólum í landi Reykjahlíðar.  Í suðurhluta Gjástykkis, vestan Hrútafjalla, er mikið hraun komið frá Mývatnseldum hinum fyrri og síðari og hefur það spillt landi verulega.  Er þetta svæði illfært bæði mönnum og búfénaði.

Hrútafjöll eru austan við Gjástykkið, sunnarlega.  Samkvæmt áðurröktum örnefnaskrám eru kennileiti, einkum að sunnan og vestan, tengd fjöllunum, þ. á m. -hali, -krubbar, -randir og -hitur.

Í landamerkjabréfi fyrir Ás í Kelduhverfi og aflandsjörð hennar Svínadal er merkjum lýst frá austri, frá Dettifossi og þaðan beint vestur í Eilífshnjúk, og þaðan beint vestur á Gangnamannaskarð (hið syðra) í Hrútafjöllum, og þaðan þvert í vestur þangað til bein stefna fæst út í Bunguveggi (rétt horn) og úr Bunguveggjum beina línu út í Eyjólfshæð.

Í landamerkjaskrá, sem útbúin var fyrir svonefndan Þeistareykjaafrétt haustið 1948, svonefndri Sigfúsarskrá, er merkjum á hinu umþrætta landsvæði lýst.  Segir um austurmerki afréttarins, að þau fari frá Eyjólfshæð og suður í norðurenda Bunguveggjar, þar sem varða er, en síðan suður með gjáveggnum þar til hann þrýtur austur af Þeistareykjabungu.  Síðan er merkjunum lýst frá veggendanum í beinni línu suður að Hituhólum miðjum og með sömu stefnu suður yfir hólana.  Þá segir að þaðan ráði óslitinn gjáveggur, Borgarveggur, allt suður að beinni línu sem þversker vegginn, með stefnu austan frá Eilífshnjúk og vestur að rótum Gæsafjalla að norðan. Segir að merkjahornið sé stutt norður af Éthól.

Nefnd merkjabréf eru öll árituð um samþykki af eigendum og umráðamönnum aðliggjandi lands, sbr. að því leyti tilskipun um sveitastjórnir á Íslandi frá 4. maí 1872 um fyrirsvar hreppsnefnda.  Til þess er að líta að samkvæmt dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra frá 28. júní 1998, sbr. mál nr. 192/1997, rituðu ekki allir aðiljar í Kelduhverfi undir merkjaskrá Þeistareykja frá 1948 og er það niðurstaða dómsins að athugasemdalaus þinglýsing á skránni skapi ekki rétt umfram það sem efni hennar sjálfrar veitir, en að því leyti er jafnframt sérstaklega til þess litið að skránni var eigi þinglýst í Kelduneshreppi.

Þegar til framangreindra heimildarskjala er litið og jafnframt höfð í huga þau eldri gögn sem hér að framan hafa verið rakin og varða jarðirnar Reykjahlíð, Ás og Þeistareyki er það niðurstaða dómsins að merki þeirrar fyrstnefndu, Reykjahlíðar, séu því sem næst í beinni línu frá austri til vesturs.  Um merkjalínu Reykjahlíðar er eins og áður segir tiltekið að hún fari um kennileitin Eilífshnjúk og þaðan beina stefnu yfir Hrútafjöll og Gjástykki, á móti Þeistareykjalandi, og að rótum Gæsafjalla.  Samkvæmt örnefnaskrá Péturs Jónssonar í Reynihlíð er heildarvegalengd merkjalínunnar rétt um 30 km.

Í landamerkjabréfi Reykjahlíðar er ekki vikið að Gangnamannaskarði sem merkjapunkti, ólíkt því sem er í merkjabréfi Áss frá 1889, en sömu fyrirsvarsmenn rituðu undir bæði bréfin.

Eins og fyrr var rakið er vikið að kennileitinu Gangnamannaskarði í örnefnaskrám.  Í örnefnaskrá Ara Gíslasonar um Ásheiði segir þannig að skarðið sé sunnan Hrútafjalla.  Í örnefnaskrá Péturs Jónssonar segir að Hrútafjöllin séu norðan merkjalínu og enn fremur að í gegnum Hrútafjallahala sé Gangnamannaskarð, nálægt merkjum, en að halinn sé sunnan við skarðið.

Að virtum framangreindum gögnum, en einnig með hliðsjón af vitnaframburði og vettvangsgöngum, verður við úrlausn málsins það lagt til grundvallar að Hrútafjallahali hafi frá fyrri tíð verið talin tilheyra samheitinu Hrútafjöllum.  Að þessu sögðu og að virtum áðurröktum eldri heimildum um merki Reykjahlíðar, þ. á m. frá 16. og 18. öld, ásamt efni merkjabréfa Áss og Þeistareykja, eldri sem yngri, auk fyrrnefndrar umfjöllunar um víðlendi Gjástykkis, lítur dómurinn svo á að svo miklar líkur séu fyrir að krafa gagnstefnanda, en einnig meðalgöngustefnanda, eigi við rök að styðjast, að leggja verði sönnunarbyrðina á aðalstefnendur um að merkjalína Reykjahlíðarjarðarinnar fari norður fyrir þá beinu línu sem kennileitin Eilífshnjúkur, Hrútafjöll, Gjástykki og Gæsafjöll marka. Hefur sú sönnun að áliti dómsins eigi tekist.

Af gögnum verður ekki dregin ótvíræð ályktun um hvar staðsetja eigi kennileitið Gangnamannaskarð hið syðra í Hrútafjöllum.  Kennileitið virðist fyrst koma fram í landamerkjabréfi Áss 1889, en þess er ekki getið í landamerkjaskrám Reykjahlíðar og Þeistareykja.  Í vettvangsferðum dómsins með aðiljum að og um Hrútafjöll varð ljóst að fjögur skörð eða lægðir eru í fjöllunum að meðtöldum Hrútafjallahala.  Er eitt alveg nyrst í Hrútafjöllum, en það kemur að mati dómsins ekki til álita við úrlausn þessa máls.  Hin þrjú eru í suðurhluta fjallsins.  Það nyrsta er ókleift, en tvö hin syðri eru reiðfær.  Syðsta skarðið er sýnu lægst, lítt áberandi og auðveld reiðleið. Sé farið um mið-skarðið þarf að fara upp allbrattar brekkur.  Að áliti dómsins hefur vart tilgang að fara þar um í ljósi þess að gangnamenn Keldhverfinga þurftu á árum áður að fara talsvert sunnar til að smala Gjástykkið vestan Hrútafjalla.

Að öllu framangreindu virtu og með hliðsjón af efni áðurnefndra örnefnaskráa lítur dómurinn svo á að slíkar líkur séu fyrir því að krafa meðalgöngustefnanda eigi við rök að styðjast, að Gangnamannaskarð hið syðra sé það skarð sem er syðst í Hrútafjallahala og verður það lagt til grundvallar í máli þessu.

Í landamerkjabréfi Áss frá 1889 er kveðið á um að suðvesturmerkjalína jarðarinnar fari um Gangnamannaskarð og vestur í Bunguveggi.  Að áliti dómsins ræður nánari áttalýsing bréfsins ekki úrslitum við úrlausn um staðsetningu merkjapunkts vestan Gjástykkis við Hituhóla, en athygli vekur að í bréfinu er um gjávegginn talað í fleirtölu og að ekki er minnst á Hituhóla.

Í örnefnaskrá fyrrnefnds Ara segir að merki Áss og Þeistareykja fylgi geysilöngum Bunguvegg frá Eyjólfshæð til suðurs, en að sunnan hans séu Hituhólar og að þar breyti merkjalínan um stefnu til austurs.  Í örnefnaskrá nefnds Ara um Þeistareyki segir aftur á móti að merkjalínan fari í beinni línu suður með Bunguvegg og suður að miðjum Hituhólum, en þar sunnan við ráði gjáveggurinn Borgarveggur.  Er þetta í samræmi við áðurrakta Landamerkjaskrá fyrir Þeystareykjaafrétt frá 1948.  Í örnefnaskrá Kristjáns Jóhannssonar um Þeistareyki segir aftur á móti að merkjalínan milli Keldhverfinga og Þeistareykja fari yfir Hituhóla „svo að þeir tilheyra ekki Þeistareykjum nema að hluta“.  Í hinni óþinglýstu landmerkjaskrá Þeistareykjaafréttar frá 1915 segir að merkjum til austurs ráði Hrútafjöll, en einnig er þar minnst á Eilífsfjöll.  Að áliti dómsins er þessi síðasta lýsing mjög í anda þeirra heimilda, sem elstar eru, en þ. á m. er áðurrakin lögfesta frá 1744 og auglýsing Múlaprests frá 1809.  Verður nefnd skrá því höfð í huga við úrlausn málsins, líkt og fyrrnefnd Sigfúsarskrá frá 1948, þrátt fyrir að báðar hafi þær að áliti dómsins nokkur einkenni lögfestu.

Við úrlausn þessa þáttar málsins verður auk ofangreindra atriða að líta til staðhátta við Hituhóla, fyrrgreindrar niðurstöðu dómsins um kennileitið Gangnamannaskarð syðra í Hrútafjöllum svo og niðurstöðu dómsins um landamerki Reykjahlíðar.  Einkum ber þó að líta til efnisatriða fyrrnefnds landmerkjabréfs Áss.  Að öllu þessu virtu auk heildarmats verður að áliti dómsins að telja að svo miklar líkur séu fyrir því að krafa meðalgöngustefnanda um tilgreindan merkjapunkt sunnan Hituhóla (hnit 600.898 ; 592.552) eigi við rök að styðjast að leggja verði sönnunarbyrðina á gagnstefnanda og aðalstefnendur þar í mót.  Að áliti dómsins hefur sú sönnunarbyrði ekki tekist, en m.a. eru engar heimildir um að varða norðan hólanna hafi ráðið merkjum.  Að þessu sögðu og að öðru leyti með vísan til röksemda meðalgöngustefnanda verður fallist á merkjapunkt hans sunnan Hituhóla, sbr. fyrrgreint kröfulínukort og hnitmerki, sbr. dskj. nr. 62.

Eins og fram er komið er ágreiningur um að kennileitið Eilífshnjúkur sé austasti merkjapunktur jarðarinnar Þeistareykja, en óumdeilt er að kennileitið er á merkjum jarðanna Áss og Reykjahlíðar.

Samkvæmt landmerkjabréfi Reykjahlíðar liggur merkjalína jarðarinnar frá Eilífshnjúk í beinni stefnu yfir Hrútafjöll og Gjástykki og segir að merkin séu á móti Þeistareykjalandi.  Að áliti dómsins hefur þessi lýsing, um sameiginlega merkjalínu jarðanna, nokkra stoð í áðurröktum eldri heimildum um austurmörk Þeistareykja.  Þegar þessi gögn eru virt í samhengi við áðurgreindar niðurstöður dómsins um merki Reykjahlíðar, um kennileitið Gangnamannaskarð (hið syðra) í Hrútafjallahala í Hrútafjöllum og um merkjapunkt sunnan Hituhóla, ásamt umfjöllun dómsins um aðrar heimildir, þ. á m. fyrrnefndrar Sigfúsarskrár, og þar sem ekki nýtur við annarra gagna sem byggt verður á, verður fallist á röksemdir gagnstefnanda, Þingeyjarsveitar, að hluta.  Verður samkvæmt þessari niðurstöðu fallist á að landsvæði norðan áðurgreindra merkja Reykjahlíðar tilheyri jörðinni Þeistareykjum, en takmarkist við áðurlýst merki meðalgöngustefnanda við Gangnamannaskarð syðra og merkjapunkt sunnan Hituhóla, eins og lýst er á hnitsettu korti, dskj. nr. 62 og nánar segir í dómsorði.

Eftir atvikum og með hliðsjóna af 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91, 1991 þykir rétt að málskostnaður falli niður, í aðalsök, gagnsök og meðalgöngusök, þannig að hver aðili ber sinn kostnað af málrekstrinum.

Ólafur Ólafsson héraðsdómari ásamt dr. Bjarna E. Guðleifssyni náttúrufræðingi og Herði Blöndal verkfræðingi kváðu upp dóminn.

D Ó M S O R Ð :

Viðurkennt er að merki milli jarðanna Áss/Svínadals í Norðurþingi og Þeistareykja í Þingeyjarsveit ráðist af merkjalínu milli Eilífshnjúks, hnit A608.870 og N591.490, og þaðan beint vestur á Gangnamannaskarð (hið syðra) í Hrútafjöllum, hnit A603.862 og N592.465, og þaðan þvert í vestur þangað til bein stefna fæst út í Bunguvegg (rétt horn), merkjapunktur, hnit A600.898 og N592.552.

Viðkennt er að merki milli jarðanna Reykjahlíðar í Skútustaðahreppi og Þeistareykja í Þingeyjarsveit ráðist m.a. af merkjalínu milli Eilífshnjúks, hnit A608.870 og N591.490 og merkjahorns þar sem Bóndhóll er genginn í hásuður og Eilífshnjúk ber rétt norðan undan Gæsafjöllum, hnit A592.999 og N589.908.

Málskostnaður fellur niður.