Hæstiréttur íslands

Mál nr. 310/1999


Lykilorð

  • Greiðslumark
  • Ábúð
  • Afsal
  • Frávísun frá héraðsdómi að hluta
  • Lögvarðir hagsmunir
  • Kröfugerð
  • Aðfinnslur
  • Sératkvæði


                       

Fimmtudaginn 24. febrúar 2000.

Nr. 310/1999.

Þorbjörg Guðjónsdóttir

(Ólafur Björnsson hrl.

Sigurður Sigurjónsson hdl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Guðrún Margrét Árnadóttir hrl.)

og gagnsök

 

Greiðslumark. Ábúð. Afsal. Frávísun frá héraðsdómi að hluta. Lögvarðir hagsmunir. Kröfugerð. Aðfinnslur. Sératkvæði.

 

Með bréfi til landbúnaðarráðuneytis (LR) sögðu Þ og S upp ábúð á jörðinni L í mars 1996. Jafnframt óskuðu þau eftir úttekt á jörðinni ásamt fjárhagslegu mati á eignarhluta Þ í mannvirkjum, en gerðu m.a. fyrirvara um að viðurkennt yrði að greiðslumark jarðarinnar í mjólk skiptist milli eigenda hennar í sömu hlutföllum og eignin skiptist samkvæmt fasteignamati. LR féllst á uppsögnina, en hafnaði sjónarmiðum Þ og S um skiptingu greiðslumarksins. Við úttektina féllu Þ og S frá fyrirvara um uppsögn ábúðarinnar, en Þ áskildi sér rétt til að láta reyna á það fyrir dómi, að viðurkennt yrði að hún ætti ákveðinn hluta jarðarinnar. Í júlí 1997 var gengið frá samningi milli Þ og S og LR um kaup á mannvirkjum á jörðinni. Rituðu Þ og S undir samninginn með fyrirvara vegna uppgjörs greiðslumarks í mjólk. Höfðaði Þ mál þar sem að hún krafðist annars vegar viðurkenningar á eignarrétti á greiðslumarki jarðarinnar og hins vegar greiðslu andvirðis greiðslumarksins. Var Þ ekki talin hafa lögvarða hagsmuni af því að fá eignarréttarkröfurnar teknar til umfjöllunar og var þeim vísað frá héraðsdómi. Talið var að greiðslumark væri bundið við lögbýli og framleiðslu á því og fylgdi lögbýlinu við eigenda- eða ábúendaskipti. Því væri enginn lagagrundvöllur fyrir því að leiguliði gæti litið á greiðslumark lögbýlis, sem hann hefur haft í ábúð, sem eign sína í lok ábúðar. Þá var ekki fallist á að Þ hefði verið eigandi að 12 ha spildu af jörðinni, heldur hefði verið um að ræða yfirfærslu á ræktun spildunnar frá fyrri jarðeiganda, en ekki á grunneignarrétti. Var íslenska ríkið sýknað af kröfum Þ um greiðslu andvirðis greiðslumarksins.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 4. ágúst 1999 og krefst hann þess aðallega að viðurkennt verði með dómi að hann sé eigandi að 136 þúsund lítra greiðslumarki jarðarinnar Lækjar, Hraungerðishreppi, í mjólk. Þá krefst hann þess að gagnáfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 22.440.000 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 17. júlí 1997 til greiðsludags, gegn afhendingu ofangreinds greiðslumarks til gagnáfrýjanda.

Til vara er þess krafist að viðurkennt verði með dómi að aðaláfrýjandi sé eigandi 57,45% greiðslumarks fyrrgreindrar jarðar í mjólk, eða jafngildi 78.132 lítra. Jafnframt að gagnáfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 12.891.780 krónur auk dráttarvaxta eins og í aðalkröfu greinir, gegn afhendingu greiðslumarksins.

Til þrautavara er þess krafist að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um að aðaláfrýjandi sé eigandi að 6,135% greiðslumarks fyrrgreindrar jarðar í mjólk, eða jafngildi 8.343 lítra, þó þannig að gagnáfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 1.376.694 krónur auk dráttarvaxta eins og í aðalkröfu segir, gegn afhendingu greiðslumarksins.

Í öllum tilvikum krefst aðaláfrýjandi þess að gagnáfrýjandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði 25. október 1999 og krefst þess aðallega að verða sýknaður af öllum kröfum aðaláfrýjanda, sem verði dæmd til greiðslu málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann lækkunar á dæmdum kröfum og að málskostnaður á báðum dómstigum verði felldur niður. Til þrautavara krefst hann verulegrar lækkunar á stefnukröfum aðaláfrýjanda og að málskostnaður á báðum dómstigum verði látinn falla niður.

I.

Svo sem fram er komið eru allar kröfur aðaláfrýjanda tvíþættar, þannig að annars vegar er gerð krafa um viðurkenningu eignarréttar að tilteknu greiðslumarki jarðarinnar Lækjar í Hraungerðishreppi og hins vegar krafa um greiðslu andvirðis hins tiltekna greiðslumarks á því verði, sem fengist hefði fyrir það á árinu 1997.

Í málinu er óumdeilt að greiðslumark það, sem aðaláfrýjandi krefst eignarréttar yfir, var þegar við málshöfðun nýtt af nýjum ábúanda jarðarinnar Lækjar. Dómsorð, sem fæli í sér að fallist yrði á báða liði í einhverri af kröfum hans, þykir ekki geta staðist. Telja verður að í greiðslukröfum aðaláfrýjanda í síðari liðum kröfugerðarinnar felist jafnframt krafa um viðurkenningu þess að hann hafi átt eignarrétt að öllu eða einhverju leyti á greiðslumarkinu. Samkvæmt þessu þykir aðaláfrýjandi ekki geta átt lögvarða hagsmuni af því að eignarréttarkröfur hans í fyrri liðum kröfugerðarinnar verði teknar til umfjöllunar og verður þeim vísað frá héraðsdómi.

 

II.

Með bréfi til gagnáfrýjanda 25. mars 1996 sögðu áfrýjandi og sonur hennar upp ábúð sinni á jörðinni Læk þar sem skuldastaða þeirra væri með þeim hætti að grundvöllur frekari búrekstrar virtist brostinn. Var þess óskað að úttekt á jörðinni ásamt fjárhagslegu mati á eignarhluta aðaláfrýjanda í mannvirkjum færi fram svo fljótt sem verða mætti. Í lok bréfsins kemur fram fyrirvari þess efnis meðal annars, „að viðurkennt verði að greiðslumark jarðarinnar skiptist milli eigenda jarðarinnar í sömu hlutföllum og eignin skiptist milli eigenda skv. fasteignamati.“

Í svarbréfi gagnáfrýjanda 30. apríl 1996 segir að fallist sé á uppsögnina, en hins vegar sé hafnað öllum sjónarmiðum ábúenda um  skiptingu greiðslumarksins. Engu að síður sé rétt að úttekt fari fram. Fór úttekt fram 22. og 23. maí 1996 þar sem mætt voru aðaláfrýjandi og sonur hennar ásamt lögmanni sínum og fulltrúi gagnáfrýjanda. Í upphafi úttektargerðar segir svo: „Fyrir lá bréf ábúenda, dagsett 25. mars 1996, en þar er gerður fyrirvari um uppsögn ábúðarinnar. Ábúendur lýsa því nú yfir að þeir falla alfarið frá þeim fyrirvara. Ábúandi, Þorbjörg Guðjónsdóttir, áskilur sér þó rétt til að láta á það reyna fyrir dómi, að viðurkennt verði að hún eigi ákveðinn hluta jarðarinnar Læks, þ.e. 12 ha. lands undir ræktun, og lóð undir hálfum útihúsum með tilheyrandi hlutdeild í greiðslumarki jarðarinnar.“ Þennan fyrirvara áréttaði lögmaður hennar í lok gerðarinnar.

Í júlí 1997 var síðan gengið frá samningi milli aðaláfrýjanda og sonar hennar annars vegar sem ábúenda að Læk og jarðadeildar landbúnaðarráðuneytisins hins vegar um kaup á mannvirkjum á jörðinni. Kaupverð er samtals ákveðið 19.439.000 krónur, sem sé „mat úttektarmanna Hraungerðishrepps, sbr. ábúðarlög nr. 64/1976, 1. mgr. 16. gr.” Frá kaupverði voru dregnar skuldir ábúenda, samtals 14.888.433 krónur, sem kaupandi tók að sér að greiða, og komu því til greiðslu 4.550.567 krónur. Aðaláfrýjandi og sonur hennar rituðu bæði undir samning þennan „með fyrirvara v/uppgjörs v/greiðslumarks í mjólk.“

Með kaupsamningi 21. júní 1996 seldu aðaláfrýjandi og sonur hennar Gauta Gunnarssyni, sem tók við ábúð að Læk, bústofn, tæki og  samtals 57,4 ha ræktun fyrir alls 7.442.000 krónur.

Af hálfu gagnáfrýjanda er því haldið fram að kröfur þær, sem koma fram í aðal- og varakröfum aðaláfrýjanda fái ekki samrýmst fyrirvara þeim, sem hún og sonur hennar gerðu við úttektargerðina 22. og 23. maí 1996, en á henni hafi verið byggt við samningsgerðina í júlí 1997.

III.

Ákvæði um greiðslumark eru í lögum nr. 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Í 2. gr. laganna er greiðslumark lögbýlis skilgreint svo að það sé tiltekið magn kindakjöts, mælt í kílógrömmum, eða mjólkur, mælt í lítrum, sem ákveðið er fyrir hvert lögbýli samkvæmt búvörusamningi og veitir rétt til beinnar greiðslu úr ríkissjóði. Þá er heildargreiðslumark skilgreint svo að það sé tiltekið magn kindakjöts, mælt í tonnum, eða mjólkur, mælt í lítrum, sem ákveðið er samkvæmt búvörusamningi með tillti til heildarneyslu innanlands og skiptist milli lögbýla eftir greiðslumarki þeirra. Rætur þessara ákvæða má rekja til laga nr. 15/1979 um breyting á lögum nr. 101/1966 um Framleiðsluráð landbúnaðarins, verðskráningu, verðmiðlun og sölu á landbúnaðarvörum o.fl., en tilgangur þeirra var að draga úr framleiðslu búvöru, svo að hún hæfði innanlandsmarkaði. Var þar lögfest heimild fyrir Framleiðsluráð landbúnaðarins að fengnu samþykki fulltrúafundar Stéttarsambands bænda og með staðfestingu landbúnaðarráðherra að ákveða mismunandi verð á búvöru til framleiðenda. Var meðal annars heimilt að ákveða framleiðendum fullt grundvallarverð fyrir ákveðinn hluta framleiðslunnar, en útflutningsverð fyrir það, sem umfram var, sbr. a-lið 1.  gr.  laga nr. 15/1979. Með reglugerð nr. 348/1979 og síðar reglugerð nr. 465/1983 voru settar nánari reglur um framleiðslustjórnunina. Í hinni síðarnefndu var hið svonefnda búmark skilgreint sem „tala ærgildisafurða sem fundin er fyrir hvern framleiðanda skv. nánari reglum II. kafla og er höfð til viðmiðunar þegar ákveða þarf mismunandi verð fyrir búvöru til framleiðanda vegna framleiðslustjórnunar“. Samkvæmt II. kafla reglugerðarinnar var meginreglan sú, að miða skyldi við meðaltalsframleiðslu áranna 1976, 1977 og 1978.

Hinn 1. júlí 1985 tóku gildi lög nr. 46/1985 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Samkvæmt reglugerð nr. 37/1986 um stjórn mjólkurframleiðslunnar verðlagsárið 1985-1986, sem sett var með heimild í þessum lögum, skyldi Framleiðsluráð landbúnaðarins reikna mjólkurframleiðendum svonefndan fullvirðisrétt, sem skilgreindur var í 1. gr. sem „það framleiðslumagn, sem framleiðandi afhendir til sölu í afurðastöð og honum er ábyrgst fullt verð fyrir skv. reglugerð þessari“. Í síðastgreindri reglugerð og eftirfarandi reglugerðum voru lagðar hömlur við því að framleiðandi nýtti fullvirðisrétt með öðrum hætti en innleggi sínu í afurðastöð. Við ábúendaskipti taldist framleiðsla fráfarandi bónda og þess, er tók við, framleiðsla lögbýlisins viðkomandi verðlagsár og skiptist fullvirðisréttur milli þeirra í hlutfalli við það sem notað hafði verið við ábúendaskiptin, sbr. 23. gr. reglugerðar nr. 339/1986 um búmark og fullvirðisrétt til framleiðslu mjólkur og sauðfjárafurða verðlagsárið 1986-1987.

Með samningi ríkisvaldsins við Stéttarsamband bænda 11. mars 1991 var horfið frá greiðslum útflutningsbóta og fullvirðisréttarkerfi og teknar upp beingreiðslur er miðuðust við innanlandsmarkað á hverjum tíma. Á síðasta ári fullvirðisréttarins voru í því skyni að fækka framleiðendum heimiluð með takmörkunum aðilaskipti að fullvirðisréttti í mjólk milli lögbýla, sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 262/1991 um fullvirðisrétt til framleiðslu mjólkur verðlagsárið 1991-1992. Gat ráðstöfun fullvirðisréttar milli lögbýla ekki átt sér stað nema með samþykki jarðeiganda og ábúanda, ef um leiguábúð var að ræða. Í reglugerð nr. 313/1991 um aðlögun fullvirðisréttar til framleiðslu sauðfjárafurða að innanlandsmarkaði var kveðið á um kaup ríkissjóðs á fullvirðisrétti í sauðfé og greiðslu förgunarbóta. Samkvæmt 4. gr. reglugerðarinnar fylgdi fullvirðisréttur lögbýlinu og var kaupverð hans greitt eiganda þess eða eftir tilvísun hans nema sá fullvirðisréttur er ábúandi hafði sjálfur keypt eða flutt með sér á leigujörð, sem greiddur var ábúanda.

Með lögum nr. 99/1993, sem áður er getið, kom greiðslumark í stað fullvirðisréttar. Í 1. mgr. 45. gr. laganna segir að greiðslumark skuli bundið við lögbýli. Á hverju lögbýli skal aðeins einn framleiðandi vera skráður handhafi beinna greiðslna. Samkvæmt 2. mgr. skyldi greiðslumark hvers lögbýlis fyrir verðlagsárið 1992-1993 vera jafnt fullvirðisrétti þess eins og hann væri að lokinni aðlögun hans að innanlandmarkaði haustið 1992. Greiðslumark þaðan í frá skyldi breytast í hlutfalli við breytingar á heildargreiðslumarki, sbr. 3. mgr. Samkvæmt 47. gr. er bein greiðsla framlag úr ríkissjóði til framleiðenda mjólkur og greiðist samkvæmt greiðslumarki hvers lögbýlis. Í 46. gr. laganna eru heimiluð aðilaskipti greiðslumarks á milli lögbýla, enda séu uppfyllt skilyrði, er ráðherra setji í reglugerð. Samkvæmt 2. mgr. greinarinnar þarf samþykki bæði eiganda lögbýlis og ábúanda fyrir flutningi greiðslumarks frá lögbýli ef ábúandi er annar en eigandi. Í 3. mgr. er leiguliða heimilt að kaupa greiðslumark á lögbýlið í samræmi við 2. mgr. 39. gr., en samkvæmt henni var leiguliða heimilt að kaupa greiðslumark í sauðfé á lögbýlið og skyldi það þá skráð sérstaklega á nafn hans. Vildi hann selja slíkt greiðslumark átti jarðeigandi að eiga forkaupsrétt að því.

IV.

Í dómum Hæstaréttar, þar sem fjallað hefur verið um búmark, hefur verið komist að þeirri niðurstöðu að búmarki hafi ekki verið úthlutað sem framleiðslurétti, heldur hafi það eingöngu verið viðmiðunartala, sem skerðing á afurðaverði reiknaðist frá. Við þetta skapaðist takmarkaður réttur til handa framleiðendum búvara, sem gæti haft fjárhagslega þýðingu fyrir þá og slík réttindi yrðu ekki skert nema með heimild í lögum, þar sem jafnræðis yrði gætt. Þetta á og við um greiðslumark samkvæmt lögum nr. 99/1993. Af lögunum er ljóst að greiðslumark er bundið við lögbýli og framleiðslu á því. Framleiðandi, hvort sem það er eigandi eða leiguliði á lögbýli, fær beingreiðslu í samræmi við greiðslumark þess á meðan á framleiðslu stendur. Hafi greiðslumark ekki verið framselt með lögmætum hætti til annars lögbýlis hlýtur það að fylgja lögbýlinu við eigenda- eða ábúendaskipti. Enginn lagagrundvöllur er fyrir því að leiguliði geti litið á greiðslumark lögbýlis, er hann hefur haft í ábúð, sem eign sína í lok ábúðar.

Í ábúðarlögum nr. 64/1976 er meðal annars mælt fyrir um byggingu jarða, um stöðu landsdrottna og leiguliða vegna framkvæmda á jörðum, réttindi og skyldur leiguliða og ábúðarlok, eins og nánar er rakið í niðurstöðu héraðsdóms. Samkvæmt 16. gr. laganna á að fara fram mat á þeim framkvæmdum, sem leiguliði hefur unnið að á jörð og nauðsynlegar eru til búrekstrar og er eiganda skylt að kaupa þær á matsverði. Slíkar framkvæmdir mynda ekki eignarhlutdeild í lögbýlinu.

Aðaláfrýjandi heldur því fram að með því að hún fái ekki sérstaklega greitt fyrir greiðslumarkið við lok ábúðar séu brotnar á henni jafnræðisreglur. Bendir hún á þessu til stuðnings, að við sölu ríkisjarða til ábúenda hafi greiðslumarkið ekki verið metið til verðs heldur talið til annarra eigna ábúenda, er jörðinni fylgi. Einnig hafi ríkið greitt ábúendum beint við uppkaup á framleiðsluheimildum og þegar þær hafi verið skertar hafi ábúendur fengið bætur greiddar eins og sjálfseignarbændur.

Við sölu lögbýla fylgir þeim greiðslumark eins og lög gera ráð fyrir og áður hefur komið fram. Þótt svo kunni að vera að það hafi ekki verið tilgreint sem sérstakur matshluti við sölu gagnáfrýjanda til ábúanda verður ekki á það fallist að í því felist viðurkenning þess að ábúandinn hafi átt greiðslumarkið. Aðstæður við kaup framleiðsluheimilda og greiðslu bóta fyrir skerðingu þeirra geta heldur ekki talist sambærilegar við aðstöðu aðaláfrýjanda í þessu máli, enda var þar um að ræða greiðslur samkvæmt sérstökum reglum til þeirra, sem í framleiðslu stóðu og sættu skerðingu á henni.

Með allt ofangreint í huga þykja ekki lagaskilyrði til að taka til greina aðal- og varakröfur aðaláfrýjanda. Auk þess ber að fallast á það með gagnáfrýjanda að umræddar kröfur hafi ekki samrýmst þeim fyrirvara, sem aðaláfrýjandi og sonur hennar gerðu við úttektargerðina 22. og 23. maí 1996 og byggt var á við samningsgerð aðilanna í júlí 1997.

V.

Þrautavarakrafa aðaláfrýjanda er á því byggð að hún sé eigandi að 6,135% jarðarinnar Lækjar, það er 12 ha af 195,6 ha landi. Hafi hún eignast umræddan jarðarhluta með afsali Gísla Högnasonar til sín 9. maí 1979. Í afsali þessu er í 8 liðum talið upp, það sem afsalað er til aðaláfrýjanda. Segir þar í 1. lið að afsalað sé helmingi eyðijarðarinnar Arnarstaðakots í Hraungerðishreppi. Í lið 2 segir síðan: „Ræktuðu landi úr landi Lækjar og Arnarstaðakots 12 ha. fasteignamv. kr. 1.621.000“. Í liðum 3-8 er afsalað helmingi ýmissa útihúsa á jörðinni. Afsali þessu var þinglýst 14. maí 1979.

Hinn 29. sama mánaðar gaf Gísli Högnason út gjafaafsal til ríkissjóðs fyrir eignarjörð sinni Læk og hálfri jörðinni Arnarstaðakoti ásamt öllum mannvirkjum „að engu undanskildu, öðru en eftirtöldum eignarhlutum á jörðunum sem eru í eigu Þorbjargar Guðjónsdóttur, búrekstursfélaga míns:“ Kom síðan upptalning í 6 liðum á þeim útihúsum, sem afsalað hafði verið til aðaláfrýjanda að hálfu með afsalinu 9. maí. Síðan segir í afsalinu að því sem hann afhendi með gjafaafsali sínu fylgi öll gögn og gæði og sé það afhent með skilmálum í 7 liðum, sem á eftir koma. Fjalla þeir meðal annars um rétt afsalsgjafa til búsetu á jörðunum svo lengi sem hann vilji reka búskap og rétt aðaláfrýjanda til að búa á jörðunum til æviloka eftir að hann hafi sleppt ábúð og síðan gangi niðjar hennar fyrir. Í 5. lið skilmálanna segir: „Búrekstursfélagi minn, Þorbjörg Guðjónsdóttir á ræktun 12 ha. á hinu afsalaða landi.“

Hinn 11. september 1979 fór fram úttektargerð að Læk í tilefni þess að aðaláfrýjandi skyldi taka við ábúð á jörðinni frá fardögum 1980. Viðstödd útttektina voru meðal annarra aðaláfrýjandi og Gísli Högnason. Í upphafi úttektarinnar segir að aðaláfrýjandi sé „eigandi að nokkrum húseignum og ræktun á Læk og verður þeirra eigna hennar getið hér síðar.“ Er þess og síðar getið að tiltekin útihús séu að hálfu eign aðaláfrýjanda.  Undir lok úttektargerðarinnar segir svo: „Ræktað land er talið samkvæmt skýrslu frá Búnaðarfélagi Íslands 57,0 ha. Af þeirri ræktun er Þorbjörg Guðjónsdóttir eigandi að 12,0 ha.“ Undir úttektargerðina skrifuðu allir viðstaddir.

Með bréfi 18. júní 1981 byggði landbúnaðarráðherra aðaláfrýjanda „ríkisjörðina Læk í Hraungerðishreppi, Árnessýslu, frá fardögum 1981 að telja, til lífstíðarábúðar skv. II.kafla laga nr. 64 31. maí 1976.“  Sonur aðaláfrýjanda mun lengst af hafa búið með henni á jörðinni, en ábúð þeirra lauk í framhaldi af uppsögn þeirra 25. mars 1996, eins og áður er rakið. Með afsali 14. september 1993 seldi aðaláfrýjandi eignarhlut sinn í Arnarstaðakoti. Eins og áður sagði afsalaði aðaláfrýjandi nýjum ábúanda Lækjar samtals 57,4 ha ræktun. Er óumdeilt að þar er innifalin umrædd 12 ha ræktun, en  aðaláfrýjandi telur sig eiga grunneignarrétt að hluta landsins eftir sem áður.

VI.

Í afsali til aðaláfrýjanda 9. maí 1979 var hið ræktaða land, sem henni var afsalað, á engan hátt afmarkað og segir þar að það sé úr landi Lækjar og Arnarstaðakots. Í gjafaafsalinu 29. sama mánaðar var eingöngu vísað til 12 ha ræktunar á hinu afsalaða landi, sem væri í eigu aðaláfrýjanda. Það var ekki talið upp með þeim eignum, sem undanskildar voru gjöfinni. Við úttekt 11. september sama ár var í þessu sambandi einungis talað um ræktun, sem aðaláfrýjandi ætti, en ekki um eignarhlut í jörðinni. Aðaláfrýjandi skrifaði undir úttektargerðina og tók við byggingarbréfi, sem náði til allrar jarðarinnar og hafði þar ábúð í 15 ár. Þegar allt þetta er virt verður að líta svo á, að það hafi verið sameiginlegur skilningur allra, sem hér áttu hlut að máli, að í afsalinu 9. maí 1979 til aðaláfrýjanda hafi að þessu leyti falist yfirfærsla á 12 ha ræktun en ekki á grunneignarrétti yfir tiltekinni spildu. Hefði og þurft að kveða skýrar á um það, ef svo hefði átt að vera. Eru því ekki skilyrði til að taka þrautavarakröfu aðaláfrýjanda til greina.

VII.

Samkvæmt framansögðu verður gagnáfrýjandi sýknaður af öllum kröfum aðaláfrýjanda. Rétt er að málskostnaður á báðum dómstigum falli niður. Aðaláfrýjandi hefur fengið gjafsókn í héraði og fyrir Hæstarétti. Greiðist gjafsóknarkostnaður eins og nánar segir í dómsorði.

Þær athugasemdir verður að gera við málatilbúnað aðaláfrýjanda að hann var ekki nákvæmur sem skyldi. Reifun málsatvika í stefnu var ekki í fullu samræmi við gögn málsins. Þá voru kröfur aðaláfrýjanda og málsástæður þeim til stuðnings í stefnu ekki nægilega skýrar, sbr. d- og e-liði 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Dómsorð:

Fyrri liðum í aðal-, vara- og þrautavarakröfum aðaláfrýjanda, Þorbjargar Guðjónsdóttur, er vísað frá héraðsdómi.

Gagnáfrýjandi, íslenska ríkið, á að vera sýkn af kröfum aðaláfrýjanda að öðru leyti. Málskostnaður á báðum dómstigum fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður aðaláfrýjanda í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanna hennar, 600.000 krónur samtals.

Sératkvæði

Hjartar Torfasonar

Mál þetta varðar réttindi þau á jörðinni Læk í Hraungerðishreppi, yfir landi hennar, jarðabótum og mannvirkjum, hlunnindum, gögnum og gæðum, sem áfrýjandi öðlaðist við búskap sinn þar á árunum 1960-1996, fyrst í sambúð og félagsskap með Gísla Högnasyni, þáverandi eiganda að jörðinni, og síðan sem leiguliði stefnda á grundvelli lífstíðarábúðar, er henni var tryggð með áskilnaði Gísla, þegar hann gaf ríkissjóði jörðina með afsali vorið 1979. Á síðara tímabilinu stundaði hún búskapinn í félagi við son sinn, er framselt hefur henni tilkall sitt til þeirra framleiðsluréttinda á jörðinni, sem eru hið sérstaka ágreiningsefni málsaðila.

Í málinu hefur ekki verið gerð skýr grein fyrir því, hvernig þau áfrýjandi og Gísli höguðu búskap sínum á jörðinni, en staðfest er í afsali hans til ríkissjóðs, að hann hafi litið á áfrýjanda sem búrekstursfélaga sinn. Samkvæmt gögnum málsins og óvéfengdum staðhæfingum áfrýjanda virðist þó mega við það miða, að á árunum næst fyrir útgáfu afsalsins hafi hlutur hennar í búskapnum numið helmingi eða meiru. Megi meðal annars marka þetta af því, að Gísli afsalaði henni helmingshlut í öllum mannvirkjum á jörðinni, er máli skiptu, þannig að ríkissjóður eignaðist þau aðeins til hálfs á móti henni. Um hlutdeildina er og til þess að líta, að þau Gísli voru ekki aðeins félagar að búskapnum, heldur einnig í óvígðri sambúð.

Það er framleiðsla á mjólkurafurðum, sem var uppistaða búskaparins á Læk, og var jörðinni afsalað um það leyti, sem takmarkanir á þeirri framleiðslu með viðmiðun við búmark komu til sögunnar, sbr. lög nr. 15/1979 og síðari löggjöf um stjórn á búvöruframleiðslu. Samkvæmt yfirliti um framleiðsluheimildir á býlinu virðist umfang búskaparins hafa haldist í svipuðu horfi frá 1979 til 1996, en búmark áfrýjanda árin 1980-1985 nam 1.216 ærgildisafurðum. Fullvirðisréttur hennar árin 1985-1992 var lengst af nærri 141.000 lítrum mjólkur, en greiðslumark frá og með framleiðsluárinu 1992-1993 var sem næst þeim 136.000 lítrum, sem hér er um deilt.

Í lögum nr. 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum og undanfarandi löggjöf um stjórn búvöruframleiðslu, sem einkum hefur verið beitt til takmörkunar á framleiðslu mjólkur- og sauðfjárafurða, hefur ekki komið fram skýr afstaða til þess, hvort framleiðsluheimildir vegna þeirra afurða tilheyri ábúanda eða landsdrottni, þegar um búskap á leigujörðum er að ræða. Eðli málsins samkvæmt eru það ábúendurnir, sem verið hafa skráðir handhafar réttindanna, en jafnframt er nú svo á kveðið, að þau eigi að vera bundin við lögbýlin. Eftir grundvallarreglum um ábúð á jörðum er eðlilegt að skilja hið síðarnefnda á þann veg, að telja beri þessar heimildir til þeirrar aðstöðu eða hlunninda hverrar jarðar, sem ábúandinn hafi til umráða og til ráðstöfunar með samþykki jarðareiganda. Um tilheyrslu réttindanna hljóti það einkum að ráða, hvor lagt hafi þau til jarðarinnar. Sé tilheyrslan hjá ábúanda, verði  jarðareiganda eftir atvikum skylt að kaupa þau af honum í ábúðarlok við verði, sem úttektarmenn meti eftir almennum reglum ábúðarlaga, nema um sé að ræða réttindi, sem beinlínis falla undir ákvæði laga nr. 99/1993 um kaup leiguliða á greiðslumarki og sérskráningu þess, en þá fari eftir þeim ákvæðum.

Í máli þessu liggur beinast við að álykta, að greiðslumark að Læk við lok ábúðar áfrýjanda vorið 1996 hafi tilheyrt henni, þar sem framleiðsluheimildir á jörðinni urðu að öllu leyti til í búskapartíð hennar og vegna búskapar hennar og sonarins. Úr því þarf þó ekki að skera til hlítar, hvort svo megi telja, þar sem áfrýjandi gerði áskilnað annars efnis við úttektina í ábúðarlok. Hefur hún ekki sýnt nægilega fram á, eins og málið er vaxið, að víkja beri þeim áskilnaði til hliðar henni í hag vegna jafnréttissjónarmiða.

Meginefni þessa áskilnaðar eða fyrirvara var á þá leið, að telja yrði greiðslumarkið tilheyra áfrýjanda í hlutfalli við eignarhlutdeild hennar í mannvirkjum og aðstöðu á jörðinni og landi hennar. Er varakrafa áfrýjanda á þessu reist og hlutdeildin þar reiknuð eftir samanlagðri eign hennar í matshlutum jarðarinnar eftir fasteignamati við ábúðarlok. Í áskilnaðinum felst meðal annars það sjónarmið, að ríkissjóður geti sem landsdrottinn með engu móti talið til eignarumráða yfir framleiðsluheimildunum nema að því marki, sem þær verði raktar til hins fyrri eiganda, er gaf ríkissjóði jörðina og skipaði áfrýjanda í stöðu leiguliða með þeirri ráðstöfun. Á þetta sjónarmið er bæði rétt og skylt að fallast, svo sem hér stendur á. Af því leiðir eftir því, sem fyrr var rakið, að telja verður hið umdeilda greiðslumark tilheyra áfrýjanda að helmingi eða meiru. Á grundvelli þess er eðlilegt að taka varakröfu hennar til greina að undirstöðu til, þar sem ekki sé varhugavert að miða hlut hennar í greiðslumarkinu við framtalda hlutdeild hennar í matshlutum jarðarinnar. Þá hlutdeild verður þó að lækka úr 57,45% í 57,22%, þar sem á það verður að fallast með stefnda, að áfrýjandi hafi ekki verið eigandi að 12 ha lands úr jörðinni, heldur 12 ha ræktunar.

Samkvæmt þessu er það niðurstaða mín, að viðurkenna beri, að 57,22% af greiðslumarki í mjólk á jörðinni Læk vorið 1996, eða jafngildi 77.819 lítra, hafi þá tilheyrt áfrýjanda. Kröfu hennar um greiðslu vegna þessarar framleiðsluheimildar beri hins vegar að vísa frá dómi, þar sem rétt sé, að hún verði áður metin af úttektarmönnum í Hraungerðishreppi. Auk þessa verði stefnda gert að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. maí 1999.

 

I.

Mál þetta, sem dómtekið var föstudaginn 5. marz sl., endurupptekið og dómtekið á ný föstudaginn 23. apríl sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Þorbjörgu Guðjónsdóttur, kt. 100631-3349. Engjavegi 73, Selfossi, með stefnu birtri 30. júní 1998 á hendur landbúnaðarráðherra og fjármálaráðherra, kt. 550169-2829, Arnarhváli, Reykjavík, f.h. ríkissjóðs.

 

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þessar:

Aðallega:

I.            Að viðurkennt verði með dómi, að stefnandi sé eigandi að 136 þúsund lítra greiðslumarki í mjólk (mjólkurkvóta) jarðarinnar Lækjar, Hraungerðishreppi.

II.          Að stefndi greiði stefnanda kr. 22.440.000 auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla l. nr. 25/1987 frá 17. júlí 1997 til greiðsludags, gegn afhendingu ofangreinds mjólkurkvóta til stefnda.

 

Til vara:

I.            Að viðurkennt verði með dómi, að stefnandi sé eigandi að 57,45% mjólkurkvóta jarðarinnar Lækjar, Hraungerðishreppi, eða 78.132 lítrum.

II.          Að stefndi greiði stefnanda kr. 12.891.780 auk dráttarvaxta skv. III. kafla l. nr. 25/1987 frá 17. júlí 1997 til greiðsludags, gegn afhendingu ofangreinds mjólkurkvóta til stefnda.

 

Til þrautavara:

I.            Að viðurkennt verði með dómi, að stefnandi sé eigandi að 6,135% af mjólkurkvóta jarðarinnar Lækjar, Hraungerðishreppi, eða 8.343 lítrum.

II.          Að stefndi greiði stefnanda kr. 1.376.694 auk dráttarvaxta skv. III. kafla l. nr. 25/1987 frá 17. júlí 1997 til greiðsludags, gegn afhendingu ofangreinds mjólkurkvóta til stefnda.

 

Í öllum tilvikum krefst stefnandi málskostnaðar samkvæmt mati dómsins í samræmi við hagsmuni málsins, vinnu málflytjanda og annan kostnað af málinu samkvæmt málskostnaðarreikningi.

 

Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og tildæmdur málskostnaður úr hendi hans að mati dómsins, en til vara, að stefnukröfur verði stórkostlega lækkaðar og málskostnaður í því tilviki látinn niður falla.

 

II.

Málavextir:

Málavextir eru þeir, að með gjafaafsali Gísla Högnasonar bónda, Læk í Hraungerðishreppi, Árnessýslu, dags. 29. maí 1979, eignaðist ríkissjóður jörðina Læk, ásamt hálfri jörðinni Arnarstaðakoti í Hraungerðishreppi, ásamt öllum mannvirkjum, að undanskildum eignarhlutum stefnanda, Þorbjargar Guðjónsdóttur, á jörðinni, nánar tiltekið hálfu lausagönguhjarðfjósi, hálfu áburðarhúsi, hálfu mjólkurhúsi, hálfri garðávaxtageymslu, hálfri hlöðu og hálfri votheysgeymslu.  Enn fremur er tekið fram í gjafaafsalinu, að Þorbjörg Guðjónsdóttir, sem gefandi kallar búrekstursfélaga sinn, eigi 12 ha. ræktun á hinu afsalaða landi.  Eignarhald stefnanda að framangreindum mannvirkjum, auk hálfrar eyðijarðarinnar Arnarstaðakots, byggir á afsali Gísla Högnasonar til hennar, dags. 9. maí 1979.  Í því afsali kemur fram, að stefnandi eigi m.a. 12 ha. ræktað land úr landi Lækjar og Arnarstaðakots.

Stefnandi hafði verið ábúandi á Læk frá árinu 1960, fyrst með Gísla Högnasyni, en ein frá árinu 1979, er Gísli hætti búskap, en stefnandi hafði lífstíðarábúð á jörðinni samkvæmt gjafabréfi Gísla.  Sonur stefnanda, Heimir Ólafsson, mun þó hafa verið með búskap við hlið móður sinnar og Gísla frá árinu 1974, en ekki var gerður við hann formlegur ábúðarsamningur.  Rak hann þar búskap, allt til þess tíma að ábúð þeirra lauk á fardögum 1996.

Með bréfi dags. 25. marz 1996 sagði stefnandi upp ábúðinni og bar við fjárhagserfiðleikum og heilsuleysi sínu og sonar síns.  Var uppsögnin gerð með þeim fyrirvara m.a., að viðurkennt yrði, að greiðslumark jarðarinnar skiptist milli eigenda jarðarinnar í sömu hlutföllum og eignin skiptist milli eigenda samkvæmt fasteignamati.  Af hálfu ráðuneytisins var fallizt á uppsögnina en hafnað öllum sjónarmiðum ábúenda um skiptingu greiðslumarksins.  Jafnframt var lagt til, að úttekt færi fram á jörðinni í samræmi við 16. gr. ábúðarlaga nr. 64/1976.  Niðurstaðan varð sú, að úttekt á jörðinni fór fram þann 23. maí 1996, og skrifaði stefnandi undir hana með þeirri athugasemd, að þó svo að fallið væri, við úttektina, frá þeim fyrirvara, sem gerður var í uppsagnarbréfi varðandi greiðslumark, þá væri af hálfu ábúanda ítrekað, að hann myndi hugsanlega bera undir dómstóla, hvort hann eigi hlut í jörðinni.

Með samningi undirrituðum 9. og 17. júlí 1997 keypti jarðadeild Landbúnaðarráðuneytisins hluta af eignum stefnanda og sonar hennar á jörðinni Læk, og var kaupverðið í samræmi við mat úttektarmanna.  Áður höfðu mæðginin selt viðtakanda jarðarinnar, með samþykki jarðadeildar, ræktun á jörðinni, samtals 57,4 ha., auk bústofns og véla.

Búmark jarða var fyrst reiknað samkvæmt heimildum í l. nr. 15/1979 og reglugerð nr. 348/1979.  Var búmark jarðarinnar Lækjar þá ákveðið 1.216 ærgildi í mjólk, en 33 ærgildi í nautgripakjöti.  Árið 1986 var stefnanda síðan úthlutað fullvirðisrétti fyrir jörðina Læk, en með búvörulögum 1985 var mjólkurkvótinn nefndur fullvirðisréttur, sem var það magn mjólkur, sem framleiðendur fengu fullt verð fyrir.  Fyrsta verðlagsárið, sem fullvirðisréttur var reiknaður 1985/1986, var hann 146.839 lítrar á jörðinni Læk.  Árið 1992 var mjólkurframleiðendum, og þar með stefnanda, fyrst úthlutað greiðslumarki í mjólk, en greiðslumark var þá nýtt nafn á mjólkurkvótanum, vegna breytinga, sem gerðar voru á kerfinu, þegar svokallaðar beingreiðslur voru teknar upp.  Greiðslumark á Læk var ákveðið 135.082 lítrar á verðlagsárinu 1992/1993.

Deila í máli þessu snýst um eignarhald á greiðslumarki jarðarinnar Lækjar, sem stefnandi kýs að kalla mjólkurkvóta.

Sonur stefnanda, Heimir Ólafsson, hefur framselt móður sinni kröfu sína til greiðslumarksins að því marki, sem hann kann að vera eigandi hans sem annar ábúandi jarðarinnar frá árinu 1981.

 

Málsástæður stefnanda:

Aðalkrafa:

Stefnandi byggir kröfur sínar á því, að kvótinn sé sín eign, þar sem hún hafi skapað hann með vinnu sinni, eins og önnur verðmæti og mannvirki á jörðinni, og því eigi hún kröfu til þess, að stefndi kaupi þá eign við ábúðarlok samkvæmt mati, eins og aðrar fasteignir og framkvæmdir á jörðinni, sem stefnandi hafi skapað, enda verði ekki skilið á milli kvótans og fasteignarinnar.

Mjólkurkvótinn teljist til þeirra verðmæta á jörðinni, sem ábúandi hafi skapað með vinnu sinni, enda hafi hann verið viðurkenndur sem atvinnu- og eignaréttindi bænda af Hæstarétti, sbr. Hrd. 1996:3002, Hrd. 1997:2578 og Hrd. 1997:2563. Atvinnu- og eignaréttindi njóti sérstaklega ríkrar réttarverndar í íslenzkum rétti, sbr. ákvæði 72. og 75. gr. stjórnarskrárinnar og verði að tryggja, að þau réttindi séu nægjanlega virt í lögskiptum aðila.  Sérstaklega verði að tryggja, að framkvæmda­valdið gangi ekki á þessi réttindi gagnvart einstaklingum í krafti yfirburðastöðu sinnar.

Hafa verði í huga, að við setningu laga nr. 15/1979 hafi verið komið á kvótakerfi í landbúnaði, og þeir einir hafi getað fengið úthlutað kvóta, sem höfðu framleitt mjólk tiltekinn árafjölda fyrir setningu laganna.  Núgildandi reglur um kvóta geri einnig ráð fyrir því, að framleiðsla mjólkur fylgi lögbýlum.  Þannig hafi ætíð verið litið svo á, að órjúfanleg tengsl séu milli mjólkurframleiðslu og þeirra mannvirkja, sem séu á jörðum.  Verði að skýra þessi tengsl þannig, að á milli mannvirkjanna og framleiðsluréttarins verði ekki skilið.  En þótt kvótinn sé skráður á lögbýli og sé því ekki til sem sjálfstæð eining, þá sé mjólkurkvóta ætíð úthlutað á nafn framleiðanda, og því sé hann persónuleg eign hans með þeirri kvöð, að hann verði að vera skráður á lögbýli.  Því byggi stefnandi á því, að kvótinn sé eign ábúanda en ekki jarðeiganda, þegar svo hagi til, að kvótinn hafi myndazt í búskapartíð ábúanda, og uppgjör hafi ekki farið fram samkvæmt ábúðarlögum.

Þessi skilningur virðist líka staðfestur af ríkissjóði, þegar ríkisjarðir hafi verið seldar ábúendum, en þar hafi kvótinn ekki verið seldur neinu verði til ábúenda, heldur hafi hann verið talinn til annarra eigna ábúenda, er jörðinni fylgja.

Það væri því brot á jafnræðisreglu stjórnarfarsréttar, ef ekki væri fallizt á kröfu stefnanda til kvótans.  Ábúendum jarða væri mismunað eftir því hvort þeir keyptu jarðir, sem þeir væru ábúendur á, eða hvort þeir ákvæðu að bregða búi og selja landsdrottni eignir sínar á jörðinni, eins og lög geri ráð fyrir.

Þá styðji það einnig kröfur stefnanda, að ríkið greiddi ábúendum fyrir kvótann við uppkaup ríkissjóðs á framleiðsluheimildum á sínum tíma, og þegar framleiðslu­heimildirnar voru skertar, hafi ábúendur fengið greiðsluna eins og sjálfseignarbændur.  Ríkið hafi því þarna í raun viðurkennt, að ábúandinn ætti kvótann.  Það væri því einnig brot á jafnræðisreglu, ef stefnandi ætti að sitja við lakara borð en þeir, sem seldu framleiðslurétt sinn til ríkisins á sínum tíma.

Sú ráðstöfun stefnda, að láta hjá líða að greiða fyrir stjórnarskrárvernduð eignar- og atvinnuréttindi sé í raun ráðstöfun, sem honum sé óheimil, enda engar lagaheimildir eða lagarök, sem mæli með því, að slík eignaupptaka sé heimiluð bótalaust.  Stefnandi byggi á því, að stefndi hafi í raun svipt hann eignaréttindum, án þess að lagaskilyrði stæðu til þess og með vísan til meginreglu eignaréttar, verði slíkri upptöku ekki við komið, án þess að fullnægjandi bætur fáist fyrir.  Stefnandi byggi á því, að þær bætur séu markaðsvirði kvótans á þeim tíma, sem samningur um kaup á mannvirkjum jarðarinnar var gerður.

Stefnandi byggir málssókn sína á því, að samkvæmt ábúðarlögum eigi fráfarandi ábúandi þá kröfu á hendur landsdrottni, að hann sé skyldugur til að kaupa allar framkvæmdir og mannvirki ábúanda á jörðinni.  Fyrir liggi markaðsverð umræddra eigna á þeim tíma, sem úttekt jarðarinnar fór fram, sem teljist matsverð þeirra.  Beri stefnda, samkvæmt ábúðarlögum, að leysa þessa eign til sín á ofangreindu matsverði.

 

Varakrafa:

Til rökstuðnings varakröfu vísar stefnandi til þess, sem rakið er varðandi aðalkröfu, eftir því sem við eigi.  Á því er byggt, að kvótinn eigi að skiptast milli sameigenda jarðarhluta í sömu hlutföllum og einstakir matshlutar jarðar skiptist eftir fasteignamati.

Verði talið, að kvótanum hafi verið úthlutað á sínum tíma til eigenda bújarða, sem fasteignatengdum réttindum, sem fylgi jörðinni, eins og hver önnur hlunnindi, þá sé ljóst, að kvóti fylgi líka þeim fasteignum, sem ábúandi átti á jörðinni við úthlutun réttindanna, þ.e. að sanngjarnt sé, að kvótinn skiptist þá í sömu hlutföllum og einstakir matshlutar skiptist milli eigenda samkvæmt fasteignamati.  Líta verði til þess, að andlag lögbýlis, í skilningi ábúðarlaga, sé jörðin auk mannvirkja hennar og með vísan til þess rökstuðnings, sem að baki aðalkröfu liggi, að kvótinn og mannvirkin séu órjúfanlega tengd, þá verði ekki á það fallizt, að kvótinn eigi aðeins að fylgja jarðarhlutanum (moldinni) samkvæmt fasteignamati, heldur verði að miða við alla matshluta fasteignarinnar.

Til rökstuðnings framansögðu megi líta til þess, að löggjafinn hafi með setningu veðlaga nr. 75/1997 afmarkað andlag veðréttinda í fasteign þannig, að hann nái til landa eða lóðar ásamt öllum húsum, öðrum byggingum og mannvirkjum, sem á landinu eða lóðinni hafi verið reist, nema þau séu sérstaklega undanskilin, sbr. 16. gr.  Með sömu rökum verði að líta þannig á, að land eða lóð verði ekki sérstaklega skilin frá við mat á því, hvaða eignarhluta kvóti skuli fylgja.

Í þessu sambandi megi einnig vísa til 25. gr. skattalaga, þar sem fram komi, hvernig söluverði bújarðar sé skipt upp við ákvörðun skattlagningar.  Þar hafi löggjafinn ákveðið að nota fasteignamat við ákvörðun hlutfalls einstakra matshluta.  Þegar skipta þurfi fasteignatengdum réttindum milli sameigenda bújarðar, mætti með sömu rökum miða skiptinguna við hlutfall einstakra matshluta jarðar samkvæmt fasteignamati.

Varakröfu byggir stefnandi enn fremur á þeim rökum, að hún eigi mjólkur”kvótann” í hlutfalli við eign sína á jörðinni samkvæmt fasteignamati, þ.e. 57,4% “kvótans”, en þann 1. desember 1995 hafi hún verið eigandi að sama hlutfalli jarðarinnar Lækjar samkvæmt fasteignamati.  Sé þá miðað við, að hún sé eigandi að 50% útihúsa á Læk, 6,1% jarðarinnar (12 ha.) og síðan alfarið þeirra mannvirkja, sem hún og Heimir sonur hennar létu gera á ábúðartíma sínum.  Stefnandi byggir á því, að samkvæmt ofangreindu fasteignamati, dskj. nr. 5, hafi heildarfasteignamat allra matshluta jarðarinnar Lækjar verið kr. 20.880.000, sbr. og dskj. nr. 47 til hliðsjónar.

Matsverð einstakra matshluta á Læk, sem voru í eigu stefnanda, hafi verið eftirfarandi:

 

fasteignamathlutfall stefnanda

6,1% jarðarinnar Lækjar (12 ha.)

779.000

48.000 (sbr. og dskj. 13)

61% ræktaðs lands (u.þ.b. 55ha. af 90 ha.)

2.997.000

1.838.000 (sbr. dskj. nr. 25)

50% lausagöngu/hjarðfjóss

4.008.000

2.004.000

50% bogaskemmu

465.000

233.000

50% hesthúss

74.000

37.000

50% kálfahúss

771.000

385.000

50% geymslu

179.000

90.000

50% hlöðu

545.000

272.000

100% véla- og verkfærageymslu

1.254.000

1.254.000

100% votheysturns

5.834.000

5.834.000

Samtals 57,4% af heildarfasteignamati jarðarinnar

20.880.000

11.995.000

 

Þrautavarakrafa:

Stefnandi byggir þrautavarakröfu sína á sömu meginsjónarmiðum og aðal- og varakröfu.  Byggt sé á því, að “kvótinn” skiptist í sömu hlutföllum og landið skiptist milli sameigenda.  Eins og í málavaxtalýsingu greini, hafi stefnandi eignazt 12 ha. ræktaðs lands úr jörðinni Læk og Arnarstaðakoti, auk helmings Arnarstaðakots og helming útihúsa.  Eignarhlutdeild þessi sé 6,135% af heildarlandi jarðarinnar Lækjar, þ.e. 12 ha. af 195,6 ha. landi jarðarinnar, sbr. dskj. nr. 25 og dskj. nr. 13.  Stefnandi byggir því þrautavarakröfu sína á því, að hlutdeild hennar í “kvóta” skuli vera í samræmi við eignarhlutdeild hennar í landi jarðarinnar.

 

Fjárkrafa:

Stefnandi kveðst í öllum tilvikum byggja á því, að stefnda beri að greiða markaðsvirði mjólkurkvóta á þeim tíma, sem samningur var gerður milli hennar og stefnda um kaup á mannvirkjum á jörðinni Læk, en markaðsverð á þessum tíma var kr. 165 per lítir.

Þegar málið sé skoðað í heild og með vísan til forsendna allra liggi fyrir, að stefnandi hafi ekki fengið viðurkenndan eignarétt sinn til þeirra verðmæta, sem hún hafi skapað á jörðinni Læk á ábúðartímanum, og þar með ekki fengið réttilega greitt fyrir þau réttindi, sem hún óumdeilanlega hafi áunnið sér.  Stefndi hafi neitað að gera upp þessi réttindi við stefnanda, sem honum beri þó lagaskylda til samkvæmt ákvæðum ábúðarlaga.

Krafizt sé dráttarvaxta frá 17. júlí 1997, en þann dag hafi verið gengið frá samningi um kaup ríkisins á eignum stefnanda á jörðinni Læk, sbr. og dskj. nr. 9.

 

Lagarök:

Stefnandi vísar til 72. og 75. gr. stjórnarskrárinnar um verndun atvinnu- og eignaréttarins.  Enn fremur vísar stefnandi til búvörulaga og ábúðarlaga, einkum 16. gr., meginreglna skaðabótaréttar um að greiða skuli fullar bætur fyrir fjártjón, jafnræðisreglu stjórnarfarsréttar og stjórnskipunarréttar.  Vaxtakrafa er studd við III. kafla l. nr. 25/1987 og málskostnaðarkrafan við 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. l. nr. 91/1991, sbr. XX. kafla laganna um gjafsókn.

 

Málsástæður stefnda:

Stefndi kveður greiðslumark það í mjólk, sem ágreiningsefni málsins snúist um, ekki hafa orðið til vegna aðgerða stefnanda sem ábúanda, heldur sé tilurð þess að rekja til opinberra aðgerða við framleiðslustjórnun búvara.  Sé með því og reglum, er um það gildi á hverjum tíma, stefnt að því að dreifa meðal þeirra, sem á hverjum tíma hafi viðkomandi framleiðslu með höndum, þeim fjárhagslega stuðningi ríkisvaldsins, sem veittur sé til búvöruframleiðslu, er sæta þurfi framleiðslustjórnun.

Í kjölfar setningar laga nr. 15/1979, sbr. lög nr. 45/1981, hafi búmark verið reiknað, en tilgangur þess hafi verið að hafa framleiðsluviðmiðun til að reikna út skerðingu afurðaverðs, þegar útflutningsbætur dygðu ekki til.  Skyldi reikna út búmark á hverju lögbýli og við þann útreikning hafi verið lögð til grundvallar meðalframleiðsla á því búi árin 1976-1978 samkvæmt skattframtali.  Stæði jörð auð í samfellt 5 ár eða lengur, skyldi búmark hennar falla niður, sbr. reglugerð nr. 465/1983.  Búmarkið hafi þannig ekki verið framleiðsluréttur, heldur viðmiðunartala, sem skerðing á afurðaverði reiknaðist frá, við uppgjör afurðastöðva til bænda.

Með lögum nr. 46/1985 hafi verið tekin í lög heimild fyrir ríkisstjórnina til að gera samninga við Stéttarsamband bænda um magn mjólkur og sauðfjár, sem ríkið myndi ábyrgjast, að fullt grundvallarverð fengist fyrir samkvæmt lögunum á samningstímanum, en það magn hafi afurðarstöðvunum þá verið skylt að staðgreiða framleiðendum.  Hafi verðábyrgðarmagnið í þeim samningum, sem gerðir voru, kallazt heildarfullvirðisréttur, og þeim heildarrétti hafi síðan verið skipt upp á milli þeirra framleiðenda viðkomandi búvöru, er sátu lögbýli, sem reiknað hafði verið búmark.  Í reglugerð nr. 37/1986 hafi verið kveðið á um stjórn mjólkurframleiðslunnar verðlagsárið 1985-1986 og þar kveðið á um, hvernig heildarfullvirðisrétturinn skyldi skiptast, fyrst á milli einstakra búmarkssvæða, en síðan hvernig fullvirðisréttur einstakra svæða skiptist á framleiðendur á lögbýlum innan þeirra.  Við skiptinguna hafi gilt sú regla, að engum skyldi reiknaður fullvirðisréttur umfram mjólkurframleiðslu lögbýlisins innan búmarks verðlagsárið 1984/1985.  Hafi framleiðsla á því verðlagsári þannig verið lögð til grundvallar við upphaflega skiptingu fullvirðisréttarins milli framleiðenda.  Hafi í þeirri reglugerð og eftirfarandi reglugerðum verið lagðar hömlur við því, að framleiðandi nýtti fullvirðisrétt með öðrum hætti en innleggi sínu í afurðastöð.  Við ábúendaskipti hafi framleiðsla fráfarandi bónda og þess, er við tók, talizt framleiðsla lögbýlisins viðkomandi verðlagsár, og skiptist fullvirðisréttur milli þeirra í hlutfalli við það, sem notað hafði verið við ábúendaskiptin, sbr. t.d. 23. gr. reglugerðar nr. 339/1986.

Með samningi ríkisvaldsins við Stéttarsamband bænda 11. marz 1991 hafi verið horfið frá greiðslum útflutningsbóta og fullvirðisréttarkerfi og teknar upp beingreiðslur, er miðuðust við innanlandsmarkað á hverjum tíma.  Á síðasta ári fullvirðisréttarins hafi, í því skyni að fækka framleiðendum, verið heimiluð, með takmörkunum þó, aðilaskipti að fullvirðisrétti í mjólk milli lögbýla, sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 262/1991 um fullvirðisrétt til framleiðslu mjólkur verðlagsárið 1991-1992.  Hafi ráðstöfun fullvirðisréttar milli lögbýla ekki getað átt sér stað, nema með samþykki beggja jarðeigenda og ábúenda, ef um leiguábúð var að ræða.  Í reglugerð nr. 313/1991 um aðlögun fullvirðisréttar til framleiðslu sauðfjárafurða að innanlandsmarkaði hafi verið kveðið á um uppkaup ríkissjóðs á fullvirðisrétti í sauðfé og greiðslu förgunarbóta.  Samkvæmt 4. gr. reglugerðarinnar hafi fullvirðisréttur fylgt lögbýlinu og hafi kaupverð hans verið greitt eiganda þess eða eftir tilvísun hans, nema sá fullvirðisréttur, er ábúandi hafði sjálfur flutt með sér á leigujörð, sem greiddur hafi verið ábúanda.

Í lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, sem endurútgefin voru sem lög nr. 99/1993, sé greiðslumark lögbýlis skýrt svo í 2. gr., að það sé tiltekið magn kindakjöts, mælt í kílógrömmum, eða mjólkur, mælt í lítrum, sem ákveðið sé fyrir hvert lögbýli samkvæmt búvörusamningi og veiti rétt til beinnar greiðslu úr ríkissjóði.  Heildargreiðslumark sé skilgreint svo, að það sé tiltekið magn búvöru, sem ákveðið sé samkvæmt búvörusamningi með tilliti til heildarneyzlu innanlands og það skiptist milli lögbýla eftir greiðslumarki þeirra.

Í X. kafla laganna um aðlögun og stjórn framleiðslu mjólkur 1992-1998 sé kveðið á um í 44. gr., að heildargreiðslumark mjólkur sé tiltekið magn mjólkur, mælt í lítrum, sem beinar greiðslur ríkissjóðs miðist við.  Skyldi landbúnaðarráðherra ákveða heildargreiðslumark fyrir hvert verðlagsár og setja í reglugerð nánari ákvæði um skiptingu í greiðslumark lögbýla.  Samkvæmt 45. gr. laganna sé greiðslumark bundið við lögbýli.  Á hverju lögbýli skyldi aðeins einn framleiðandi vera skráður handhafi beinna greiðslna og skyldi greiðslumark hvers lögbýlis fyrir verðlagsárið 1992-1993 vera jafnt fullvirðisrétti þess, eins og hann var að lokinni aðlögun hans að innanlandsmarkaði haustið 1992.  Greiðslumark þaðan í frá breyttist síðan í hlutfalli við breytingar á heildargreiðslumarki.  Samkvæmt 47. gr. sé bein greiðsla framlag úr ríkissjóði til framleiðenda mjólkur og greiðist samkvæmt greiðslumarki hvers lögbýlis.

Samkvæmt 46. gr. séu heimil aðilaskipti greiðslumarks milli lögbýla að uppfylltum skilyrðum, er ráðherra setji í reglugerð.  Samkvæmt þeirri grein geti eigandi lögbýlis ráðstafað greiðslumarki frá lögbýli, en áskilið samþykki ábúanda, sé ábúandi annar en eigandi.  Þá sé leiguliða heimilt að kaupa greiðslumark í mjólk á lögbýli á sama hátt og kveðið var á um í 2. mgr. 39. gr.  Samkvæmt henni hafi leiguliða verið heimilt að kaupa greiðslumark í sauðfé á lögbýlið, og skyldi það þá skráð sérstaklega á nafn hans.  Vildi leiguliði selja slíkt greiðslumark, hafi jarðareigandi átt að eiga forkaupsrétt að því.

Samkvæmt framangreindu hafi þau fjárhagslegu réttindi, er tengd voru við framleiðslustjórn búvara, átt tilurð sína að rekja til reglna, er giltu um hana á hverjum tíma, og þau réttindi ávallt verið bundin við lögbýli og út frá því gengið, að nýting á  þeim réttindum við uppgjör og við greiðslur fyrir búvörur væri liður í leiguliðanotum ábúanda, væri um leiguábúð að ræða.

Í málatilbúnaði stefnanda sé algjörlega litið framhjá því, að það sé frumskylda ábúanda samkvæmt ábúðarlögum að hafa lögheimili á lögbýlisjörðinni og reka þar bú á þann hátt, að jörðin, sem búrekstrareining, gangi ekki úr sér.  Búseta stefnanda og búrekstur á Læk hafi þannig verið hluti af leiguliðaskyldum hennar, en hafi ekki falið í sér stofnframlag eða sjálfstæðar umbætur hennar á jörð, er kaupskylda samkvæmt 16. gr. ábúðarlaga gæti tekið til.

Með fjárframlögum ríkisins til mjólkurframleiðenda á grundvelli búvörusamnings sé lagður grundvöllur að þeim réttindum, sem tengd verði við greiðslumarkið.  Löggjafinn hafi verið fyllilega innan valdheimilda sinna, er hann, með reglum í X. kafla l. nr. 99/1993, lögfesti þær reglur, er áður hafði verið byggt á í framleiðslustjórnuninni, þ.e. að greiðslumarkið skyldi bundið við lögbýli og ráðstöfunarréttur á því í höndum eiganda þess, með þeim takmörkunum, að ábúandi á hverjum tíma ætti rétt til að njóta þeirra beingreiðslna, er við það væru tengdar, og það yrði ekki skilið frá lögbýlinu án samþykkis hans, meðan sú ábúð stæði.  Um einhvers konar eignarrétt leiguliða að greiðslumarki sé hins vegar ekki að ræða, frekar en hann geti með ábúð sinni öðlazt eignarrétt yfir bújörð þeirri, sem ábúðarsamningur hans taki til.  Það fái þannig engan veginn staðizt hjá stefnanda, að af hálfu löggjafans hafi verið litið svo á, að þau réttindi, sem felist í greiðslumarki, og áður í fullvirðisrétti og búmarki, hafi stofnazt vegna vinnu, sérstakra framkvæmda eða fjárfestinga ábúenda, sem þeim beri greiðsla fyrir við ábúðarlok.  Um slíkt sé ekki að ræða, nema ábúandi hafi beinlínis fjárfest í greiðslumarki til lögbýlisins, en um það sé ekki að ræða í þessu tilviki.  Í þeim tilvikum sé þó ekki um að ræða innlausnarskyldu jarðeiganda, heldur eingöngu forkaupsrétt hans, sem honum sé í sjálfsvald sett, hvort hann nýti.

Vara- og þrautavarakrafa stefnanda sé á misskilningi byggð.  Aldrei hafi verið tekið mið af landkostum eða mannvirkjum, sem séu á jörð, í þeim útreikningum, sem lagðir hafi verið gegnum tíðina til grundvallar við framleiðslustjórnun búvara.

Staðhæfingar stefnanda um, að ríkið hafi, með aðgerðum sínum, fallizt á, að ábúendur ríkisjarða séu eigendur “kvóta” fái ekki staðizt og séu á misskilningi byggðar, svo sem ítarlega sé gerð grein fyrir í dskj. nr. 39, bls. 5.  Með öllu sé óskiljanlegt, hvernig stefnandi geti ályktað um greiðsluskyldu af því, að þegar ríkisjarðir hafi verið seldar ábúendum, sé greiðslumark ekki selt sérstaklega, enda séu þau verðmæti, sem við það kunni að vera bundin, þá einn fjölmargra ósundurgreinanlegra þátta, er myndi gangverð jarða.  Reglur um uppkaup ríkisins á framleiðsluheimildum geti heldur ekki stutt kröfur stefnanda og eigi ekki við hér, né heldur reglur um bætur, sem ákveðnar hafi verið vegna niðurfærslu fullvirðisréttar 1992, sbr. 36. gr., lokamálslið 1. mgr. 44. gr. og B-lið í ákvæði til bráðabirgða laga nr. 99/1993.  Vísan stefnanda til jafnræðisreglu fái þannig engan veginn staðizt.

Kröfur stefnanda fái heldur ekki samrýmzt sölu bygginga til ríkisins, sbr. dskj. nr. 11, á verði, sem ákveðið hafi verið í úttekt á dskj. nr. 24 og þeim fyrirvara, sem hún gerði við hana, sem takmarkazt hafi við þann áskilnað að láta reyna á það fyrir dómi, hvort hún ætti ákveðna hluta jarðarinnar Lækjar, þ.e. land undir 12 ha. ræktun og lóð undir helmingi útihúsa með tilheyrandi hlutdeild í greiðslumarki jarðarinnar, sbr. dskj. nr. 24, bls. 1.  Er stefnandi setti upphaflega fram þær kröfur, sem hún hafi nú uppi í stefnu, í apríl 1998, hafði hún þegar selt og afsalað ríkinu, sem jarðeiganda á grundvelli innlausnarskyldu samkvæmt 16. gr. ábúðarlaga, eignarhluta sínum í öllum byggingum á óskertu matsverði, ákveðnu samkvæmt 1. ml. 1. mgr. 16. gr.  Fái ekki staðizt að krefja löngu síðar til viðbótar greiðslu, vegna ætlaðs réttar yfir greiðslumarki í heild eða hlutdeildar í því, reiknaðri eins og hér sé gert, eftir að byggingar hafi verið seldar jarðeiganda og innleystar af honum á óskertu matsverði samkvæmt 1. ml. 1. mgr. 16. gr., sem aldrei gætu talizt nauðsynlegar í búrekstri á jörð án greiðslumarks og bæri að meta lægra samkvæmt 2. ml. 1. mgr. 16. gr., eða sem með öllu hefði verið óskylt að kaupa, væru þau flytjanleg, sbr. 3. mgr.  Þá hafi stefnandi selt viðtakandi ábúanda alla ræktun, þ.á m. þá, sem þrautavarakrafa reiknist út frá.  Samkvæmt því hafi greiðslumark, er við hana kynni að vera tengt, fylgt með í þeirri sölu og því alveg ljóst, að stefnandi geti ekki lengur verið rétthafi slíkrar kröfu.  Kröfur stefnanda skorti þannig með öllu lagastoð og fái ekki staðizt, hvernig sem á sé litið.

Verði ekki á sýknukröfu fallizt, sé til vara krafizt stórkostlegrar lækkunar stefnukrafna.  Til viðbótar þeim sjónarmiðum, er greini hér að framan, sé í því sambandi vakin athygli á eftirgreindu:

Í kröfugerð stefnanda sýnist í öllum tilvikum miðað við útreiknað greiðslumark lögbýlisins, eins og það var ári eftir að hún vék af jörðinni, sem ekki fái staðizt. Greiðslumark í mjólk sé ekki föst, varanleg stærð, heldur byggi það á því, að til staðar sé búvörusamningur þess efnis, og það breytist í samræmi við árlegar breytingar heildargreiðslumarks á gildistíma búvörusamnings.  Greiðslumark reiknist einungis fyrir eitt verðlagsár í einu og sé tilkynnt fyrir sama tímabil.

Kröfugerð stefnanda í þá veru, að jarðeiganda verði gert skylt að kaupa af henni það greiðslumark, er henni kynni að tilheyra, eigi hvorki lagastoð í 16. gr. ábúðarlaga né í búvörulögum, og beri þegar af þeirri ástæðu að sýkna af henni.

Stefnandi hafi sjálf aldrei þurft að leggja í kostnað vegna úthlutana framleiðsluréttar á Læk, sem hafi frá öndverðu verið í samræmi við gildandi reglur á hverjum tíma, sbr. yfirlit Framleiðsluráðs á dskj. nr. 40.  Fjárkröfur stefnanda, sem hvergi sé að finna tölulega útlistun á, séu úr öllu hófi.  Stefnandi krefjist þess, að greiðsla fyrir hvern lítra mjólkur verði 165 krónur.  Samkvæmt dskj. nr. 29 hafi beingreiðsla úr ríkissjóði til mjólkurframleiðenda verðlagsárið 93/94 verið kr. 14,25 á lítra.  Kröfugerðin jafngildi þannig andvirði beingreiðslu um tæplega tólf ára skeið.

Krafa um, að stefnanda verði greitt andvirði greiðslumarks, miðað við ætlað gangverð í viðskiptum milli lögbýla, sé auk þess ekki haldbær.  Það gangverð skapist af því, að þá sé lögbýli að afsala sér greiðslumarki og annað lögbýli að auka til lengri tíma framleiðslumöguleika sína.  Engu slíku sé hins vegar til að dreifa hér.  Staðhæfingum um ætlað gangverð greiðslumarks, sem engum gögnum sé stutt, sé mótmælt.

Útreiknaðri eignarhlutdeild matshluta stefnanda í heildarfasteignamati, sem byggt sé á í vara- og þrautavarakröfu, sé mótmælt sem allt of háum.  Sundurliðun á útreikningi, tímamark, er hún miðist við og gögn henni til stuðnings skorti með öllu.

Kröfugerð stefnanda um dráttarvexti sé óljós og sé því mótmælt, að stefnandi geti átt neinn rétt til dráttarvaxta.

 

IV.

Forsendur og niðurstaða:

Aðalkrafa stefnanda:

Tilurð greiðslumarksins hefur verið rakin hér að framan, en því var komið á árið 1992 og leysti af hólmi fullvirðisréttinn, sem hafði verið við lýði frá árinu 1985.  Greiðslumarkið var, eins og fullvirðisrétturinn, bundið við lögbýli, sbr. 1. mgr. c-lið 7. gr. l. nr. 5/1992 um breytingar á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum nr. 46/1985. 

Í þeim lagaákvæðum, sem fjalla um greiðslumark, og áður fullvirðisrétt, er hvergi tekið fram berum orðum, hver sé eigandi réttindanna.  Hins vegar er víða í lögum og reglugerðum, sem settar hafa verið með heimild í lögum á hverjum tíma, að finna ákvæði, sem eru leiðbeinandi um það atriði, og gefa skýrt til kynna, hver hefur verið vilji löggjafans í þessu efni.  Þannig segir t.d. í 19. gr. l. nr. 112/1992 um breytingar á lögum um framleiðslu og sölu á búvörum, nr. 46/1985 með síðari breytingum, staflið b (48.gr.), að greiðslumark skuli bundið við lögbýli, og í staflið c (49. gr.), sbr. 2. mgr. 42. gr. l. nr. 5/1992, er kveðið á um heimild til aðilaskipta greiðslumarks á milli lögbýla og er þar sérstakt ákvæði þess efnis, að sé ábúandi lögbýlis annar en eigandi, þurfi samþykki beggja fyrir flutningi greiðslumarks frá lögbýli.  Enn fremur segir þar, að leiguliða sé heimilt að kaupa greiðslumark á lögbýli og skuli það skráð sérstaklega á nafn hans.  Í 2. mgr. 42. gr. l. nr. 5/1992 segir einnig:  “Nú vill leiguliði selja slíkt greiðslumark og skal jarðeigandi eiga forkaupsrétt að greiðslumarkinu.”  Þykja þessi síðastnefndu ákvæði taka af öll tvímæli um það, að um er að ræða tvenns konar greiðslumark; annars vegar greiðslumark það, sem fylgir lögbýli og er eign jarðareiganda, en hins vegar greiðslumark, sem ábúandi kaupir sérstaklega í skjóli leiguréttar síns á lögbýli.  Þessi skilningur fær jafnframt stoð í 4. gr. rgl. nr. 313/1991, sem fjallar að vísu um fullvirðisrétt, en ekki verður séð að eignarréttur fullvirðisréttar og greiðslumarks hafi verið mismunandi í lögum, enda leysti greiðslumarkið fullvirðisréttinn af hólmi, svo sem áður hefur verið rakið.  Í tilvitnuðu reglugerðarákvæði segir svo m.a.:  “Fullvirðisréttur á lögbýli fylgir því og er kaupverð hans greitt til eiganda þess eða eftir tilvísun hans, nema sá fullvirðisréttur sem ábúandi hefur keypt eða flutt með sér á leigujörð, sem er greiddur ábúanda.”

Þeirri málsástæðu stefnanda, að hún hafi skapað “kvótann” með vinnu sinni á jörðinni og eigi hann því eins og önnur verðmæti á jörðinni, er hafnað á þeirri forsendu, að greiðslumark og aðrar sambærilegar ráðstafanir, sem voru við lýði, áður en greiðslumarkið var tekið upp, urðu til vegna opinberra aðgerða við framleiðslustjórnun búvara, svo sem skýrt kemur fram, þar sem rakin er tilurð þessara ráðstafana.  Enda þótt fallast megi á með stefnanda, að hún hafi átt þátt í því að yrkja jörðina og byggja og/eða halda við mannvirkjum, svo jörðin stæði undir nafni sem lögbýli með aðstöðu til mjólkurframleiðslu, þá bar henni skylda til þess sem ábúanda að eiga þar lögheimili, nytja hana og reka þar bú, sbr. 21. gr. ábúðarlaga nr. 64/1976, og skv. 17. gr. sömu laga er henni skylt að halda við mannvirkjum og ræktun, svo sem nánar er kveðið á um í greininni.  Hins vegar er ekki fallizt á, að réttindi til greiðslumarks hafi stofnazt vegna vinnu ábúanda, sem samrýmist skyldum hans samkvæmt lögunum.  Það breytir ekki þessari niðurstöðu, þótt greiðslumarki sé úthlutað á nafn framleiðanda, ef hann er annar en eigandi lögbýlis, enda nýtur hann greiðslumarksins í krafti leiguréttar síns, meðan hann situr jörðina og framleiðir mjólk í samræmi við úthlutað greiðslumark. 

Beingreiðslur þær, sem ábúanda hafa verið greiddar, taka mið af framleiðslu hans fyrir verðlagsárið, og eru greiddar honum í krafti leiguréttar hans til greiðslumarksins, en jarðareigandi á ekki rétt til þeirra, nema því aðeins að hann sé jafnframt framleiðandi.  Hann er hins vegar eigandi greiðslumarksins, en ábúandi hefur það á leigu með jörðinni, þar sem það fylgir lögbýlinu og verður ekki skilið frá því nema samþykki beggja, eiganda þess og leigutaka, þ.e. ábúanda, komi til.

Stefnandi hefur ekki fært haldbær rök að því, að þessi niðurstaða sé brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, eða að um óheimila, bótalausa eignaupptöku sé að ræða, og er þeim sjónarmiðum hennar hafnað.

Samkvæmt framansögðu ber að sýkna stefnda af aðalkröfu stefnanda.

 

Vara- og þrautavarakrafa stefnanda:

Stefnandi vísar til stuðnings varakröfu sinni og þrautavarakröfu til málsástæðna með aðalkröfu, en þeim sjónarmiðum hennar hefur verið hafnað hér að framan.  Þá byggir stefnandi á því, að hún eigi mjólkur”kvótann” í hlutfalli við eign sína á jörðinni samkvæmt fasteignamati, þ.e. 57,4% “kvótans”, en þann 1. desember 1995 hafi hún verið eigandi að sama hlutfalli jarðarinnar Lækjar samkvæmt fasteignamati.  Miðar stefnandi þá við, að hún sé eigandi að 50% útihúsa á Læk, 6,1% jarðarinnar (12 ha.)  og síðan alfarið þeirra mannvirkja, sem hún og Heimir, sonur hennar, létu gera á ábúðartíma sínum.  Stefnandi byggir á því, að samkvæmt ofangreindu fasteignamati, dskj. nr. 5 (dskj. nr. 46, sem er læsilegra eintak af dskj. nr. 5), hafi heildarfasteignamat allra matshluta jarðarinnar Lækjar verið kr. 20.880.000, sbr. og dskj. nr. 47 til hliðsjónar.

Tilvísun stefnanda í rökstuðningi fyrir varakröfu á dskj. nr. 52 í dskj. nr. 25 er ónákvæm, þ.e. þar sem fram kemur að hlutdeild hennar í ræktuðu landi hafi verið 55 ha. af 90 ha.  Í dskj. nr. 25 er ræktað land, tún, talið vera 84,8 ha. og akrar (opin ræktun) 17,5 ha. eða samtals 102,3 ha.  Á dskj. nr. 47 er ræktað land jarðarinnar Lækjar samtals 90,4 ha., en það er útskrift samkvæmt fasteignamati 14. desember 1998.  Þá er enn fremur athugavert, að hlutfallstölur í yfirliti stefnanda yfir matsverð einstakra matshluta á Læk á dskj. nr. 52 eru ónákvæmar. 

Ekki er fallizt á það með stefnanda, að hlutdeild í mannvirkjum á jörð myndi eignarhlutdeild í lögbýli, enda er gert ráð fyrir því í ábúðarlögum, að ábúandi geti átt mannvirki á ábúðarjörð sinni, án þess að hann verði þar með eigandi lögbýlisins að hluta, en hins vegar getur eigandi jarðarinnar þurft að leysa þau til sín eftir atvikum við ábúðarlok. 

Samkvæmt afsali Gísla Högnasonar til stefnanda, dags. 9. maí 1979, eignaðist stefnandi 12 ha. úr ræktuðu landi Lækjar og Arnarstaðakots.  Af gjafaafsali Gísla til íslenzka ríkisins, dags. 29. sama mánaðar, má skilja, að stefnandi eigi aðeins ræktunina á framangreindum 12 hekturum.  Það er hins vegar ekki í samræmi við orðalag afsalsins til stefnanda, sem hefur verið þinglýst, og ber að líta svo á, þar sem annað liggur ekki fyrir, að hún hafi verið eigandi 12 hektara af ræktuðu landi jarðarinnar.  Þegar búmarki var fyrst úthlutað til lögbýlisins Lækjar, og síðar fullvirðisrétti og greiðslumarki, var jörðin því í sameign Gísla Högnasonar og stefnanda, þannig að stefnandi átti framangreinda 12 hektara af ræktuðu landi jarðarinnar, sem var þá samtals 57,5 hektarar, en hvergi kemur fram í gögnum málsins, að um afmarkað landsvæði hafi verið að ræða í eigu stefnanda.  Verður því að líta svo á, að þau hafi átt landið í óskiptri sameign.  Ber henni því eignarhlutdeild í greiðslumarki í því hlutfalli, sem eignaraðild hennar að jörðinni nemur.  Samkvæmt dskj. nr. 25 er heildarstærð jarðarinnar Lækjar talin vera 195,6 ha., og hefur þeirri mælingu ekki verið hnekkt eða hún gerð ósennileg.  Eignarhlutfall stefnanda í jörðinni er því 6,135%, og ber henni það hlutfall af greiðslumarki jarðarinnar.

Þegar stefnandi lét af ábúð, var greiðslumark jarðarinnar 136.341 lítri skv. upplýsingum frá framleiðsluráði landbúnaðarins á dskj. nr. 40, en stefnandi miðar við 136.000 lítra, og verður sú tala lögð til grundvallar.  Er eignarhluti hennar því 8.343 lítrar.  Ekki kemur fram í gögnum málsins, að stefnandi hafi selt þetta greiðslumark til nýs ábúanda með þeirri ræktun, sem hún seldi honum, og liggur ekki fyrir, að stefnandi hafi selt eignarhluta sinn í jörðinni, þ.e. þá 12 hektara, sem hún keypti af Gísla Höskuldssyni á sínum tíma.  Fyrri hluti þrautavarakröfu stefnanda er því tekinn til greina.

Síðari liður kröfugerðar stefnanda lýtur að því, að stefnda verði gert að kaupa greiðslumarkið af stefnanda á því gangverði, sem stefnandi kveður hafa verið markaðsverð á þeim tíma, sem ábúð stefnanda lauk.  Verður kröfugerð hennar ekki skilin á annan veg.  Málsástæður fyrir þessum þætti kröfunnar virðast þó lúta að því, að stefnanda beri bætur vegna eignaupptöku “kvótans”.  Er sá málatilbúnaður ekki í samræmi við kröfugerðina, eins og hún er fram sett.  Með því að stefnandi hefur ekki fært að því rök, að stefnda beri að leysa til sín greiðslumarkið, verður þessi kröfuliður ekki tekinn til greina gegn andmælum stefnda.

Samkvæmt þessum úrslitum ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir eftir atvikum hæfilega ákveðinn kr. 325.000, og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

Dómsorð:

Viðurkenndur er eignarréttur stefnanda, Þorbjargar Guðjónsdóttur, að 8.343 lítrum af greiðslumarki jarðarinnar Lækjar, Hraungerðishreppi.

Öðrum hlutum kröfugerðar stefnanda er hafnað.

Stefndi, íslenzka ríkið, greiði stefnanda kr. 325.000 í málskostnað.