Hæstiréttur íslands

Mál nr. 178/2004


Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Miski
  • Læknir
  • Sjúkrahús
  • Læknaráð
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 25

 

Fimmtudaginn 25. nóvember 2004.

Nr. 178/2004.

Jórunn Anna Sigurðardóttir

(Róbert Árni Hreiðarsson hdl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Skarphéðinn Þórisson hrl.)

og gagnsök

 

Skaðabætur. Miski. Læknar. Sjúkrahús. Læknaráð. Gjafsókn.

J gekkst undir brjóstaminnkunaraðgerð á Landspítalanum í ágúst árið 1991. Ekki var talið sannað að vanræksla eða önnur saknæm mistök hafi valdið því að drep komst í hægra brjóst J eftir aðgerðina og einnig var ósannað að saknæm mistök hafi orðið við eftirfarandi meðferð hennar. Skaðabótaábyrgð varð því ekki lögð á ríkið vegna þess tjóns, sem hlaust af því að drep komst í hægra brjóstið. Á hinn bóginn urðu mistök, að því er varðar útlitslegan árangur aðgerðarinnar, sem ollu því að J þurfti að gangast undir fleiri lýtaaðgerðir til lagfæringa á brjóstunum. J gerði enga kröfu um bætur fyrir tímabundna eða varanlega örorku, sem þessu tengdist. Henni voru hins vegar dæmdar miskabætur úr hendi ríkisins.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Gunnlaugur Claessen og Hrafn Bragason.

Aðaláfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 7. maí 2004. Hún krefst þess, að gagnáfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 22.635.963 krónur ásamt nánar tilgreindum ársvöxtum frá 23. ágúst 1991 til 29. júní 1999 en dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001 og samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi 30. júní 2004. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu aðaláfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að krafan verði lækkuð og málskostnaður látinn niður falla.

I.

Eins og fram kemur í héraðsdómi gekkst aðaláfrýjandi undir brjóstaminnkunaraðgerð á Landspítalanum 23. ágúst 1991. Tilgangur aðgerðarinnar var að létta á þyngd brjóstanna. Voru tekin 572 grömm af hægra brjósti og 578 grömm af því vinstra. Í kjölfar aðgerðarinnar fékk aðaláfrýjandi drep í stóran hluta hægri geirvörtu og gekkst hún undir aðra aðgerð á Landspítalanum 27. september 1991 til þess að lagfæra brjóstið. Á árunum 1992 til 1994 fór aðaláfrýjandi í fjórar lýtaaðgerðir til lagfæringa á brjóstunum.

Aðaláfrýjandi telur að mistök hafi verið gerð við aðgerðirnar, sem fram fóru á Landspítalanum í ágúst og september 1991, og eftirlit og meðferð hafi verið ábótavant og ófullnægjandi eftir fyrstu aðgerðina. Þá telur hún, að útlitslegur árangur þeirra aðgerða hafi verið óviðunandi.

II.

Aðaláfrýjandi reisir bótakröfu sína á því, að mistök hafi orðið við sjálfa aðgerðina 23. ágúst 1991. Ekki hafi verið beitt réttri eða viðurkenndri aðferð við brjóstaminnkunina. Í raun liggi ekkert fyrir um það hvaða aðferð aðgerðarlæknirinn beitti, aðeins hans eigin orð. Í aðgerðarlýsingu sé ekki nafngreint hvaða aðferð hafi verið notuð og upplýsingar um það sé ekki að finna í skriflegum gögnum málsins. Fyrir dómi bar aðgerðarlæknirinn, að hann hefði beitt svokallaðri „Strömbeck” aðferð, sem sé viðurkennd og mikið notuð.

Í aðgerðarlýsingu var skráð, að skorinn hafi verið út „medialt baseraður flipi fyrir areoluna sem er debridiseraður í kringum.”  Héraðsdómur, sem skipaður var sérfróðum meðdómendum, taldi aðferð þá, sem þar er lýst, vera útfærslu á aðgerð, sem kennd sé við Strömbeck, og sé hún viðurkennd og mikið notuð. Í áliti læknaráðs 18. desember 2001, sem rakið er í héraðsdómi, segir að til séu margar viðurkenndar aðferðir við brjóstaminnkun og sé Strömbeck aðgerð ein þeirra. Verður því talið, að viðurkenndri læknisaðferð hafi verið beitt við brjóstaminnkunaraðgerð aðaláfrýjanda.

Þá reisir aðaláfrýjandi bótakröfu sína einnig á því, að mistök hafi orðið í sjálfri aðgerðinni. Mikil blæðing í hægra brjósti fyrstu klukkustundirnar eftir aðgerðina bendi til þess. Þá hafi þau mistök verið gerð, að of mikið hafi verið fjarlægt af vef úr brjóstunum, sem valdið hafi hættu á fylgikvillum, og hafi brjóstin orðið mun minni, en hún hafi óskað eftir.

Í aðgerðarlýsingu kemur ekkert fram, sem bendir til annars en að aðgerðin hafi verið framkvæmd á hefðbundinn hátt.  Hefur ekki verið sýnt fram á, að saknæm mistök hafi átt sér stað við aðgerðina sjálfa.

III.

Aðaláfrýjandi reisir kröfu sína í annan stað á því, að ónógt eftirlit hafi verið með henni eftir fyrstu aðgerðina og ófullnægjandi eftirmeðferð. Hún telur, að strax eftir aðgerðina hafi farið að blæða inn á hægra brjóstið, svokallaðir sogkerar, sem settir voru í brjóstin við aðgerðina, hafi ekki náð að hreinsa blóðið og það safnast fyrir í brjóstinu og myndað blóðgúlp. Þetta hafi valdið þrota í brjóstinu og blóðrásartruflun til geirvörtusvæðis, sem aftur hafi valdið drepi í geirvörtunni og brjóstvef þar undir. Telur hún, að ástand sitt og líðan strax á fyrstu klukkustundunum eftir aðgerðina hafi gefið tilefni til ítarlegrar skoðunar og aðgerða af hálfu sérfræðilæknis. Mikil blæðing í hægra brjósti hafi stíflað kerana, sem hafi leitt af sér blóðsöfnun í sárið með auknum þrýstingi í nærliggjandi vef. Hafi strax mátt vera ljóst, að eitthvað hafði farið úrskeiðis í aðgerðinni. Þrátt fyrir stöðugar kvartanir hennar hafi ekkert verið gert fyrr en á þriðja degi eftir aðgerð, er hún var sett á sýklalyf að fyrirmælum aðstoðarlæknis. Eftirlit sérfræðilækna hafi verið lítið sem ekkert frá aðgerðinni 23. ágúst þar til 27. ágúst, er aðgerðarlæknirinn kom á vakt.

Við aðgerðina 23. ágúst var komið fyrir tveimur sogrörum í hvoru brjósti. Mun meira blæddi úr hægra brjósti. Fyrsta sólarhringinn eftir aðgerð komu 294 ml úr kerum úr því brjósti en 18 ml úr því vinstra. Í hjúkrunarskýrslum er tekið fram, að sog sé gott í kerum og þeir ekki stíflaðir. Lítið blóð kom í kerana frá kvöldi aðgerðardags þar til þeir voru teknir 26. ágúst. Í áliti læknaráðs er tekið fram, að stíflist keri þá haldi hann ekki áfram að flytja lítið magn daglega heldur stíflist alveg. Telur læknaráð gögn málsins ekki benda til þess, að keri hafi stíflast í hægra brjósti. Aðaláfrýjandi heldur því fram, að vakthafandi sérfræðingur hafi hleypt út blóði úr hægra brjósti á stofugangi 25. ágúst og það sama hafi aðgerðarlæknirinn gert 26. ágúst. Um þetta er ekki getið í sjúkraskýrslu, sem skráð var jafnóðum, og verður að telja ósannað, að blóði hafi verið hleypt úr brjóstinu fyrr en 28. ágúst.

Í hjúkrunarskýrslu 26. ágúst var tekið fram, að hiti hefði hækkað í 38,4° og lýst þrota í hægra brjósti og hafi aðaláfrýjandi þá verið sett á sýklalyf. Næsta dag hafi hiti lækkað, en lýst var svolítilli spennu í brjóstinu og efri hluti geirvörtu sagður bláleitur. Þann dag kom aðgerðarlæknirinn og tók annan hvern saum úr. Þrýstingur var sagður ekki eins mikill en talsvert mar og geirvartan svipuð. Var aðaláfrýjanda þá gefið blóðaukandi lyf og hafin rafleiðnimeðferð á húð. Hinn 28. ágúst var síðan í aðgerð hleypt út 100 til 200 ml blóðkekki úr hægra brjósti.

Eins og að framan greinir heldur aðaláfrýjandi því fram, að of seint hafi verið brugðist við að hleypa blóðinu úr brjóstinu, það hefði í raun átt að gera strax að kvöldi aðgerðardags. Samkvæmt beiðni aðaláfrýjanda gaf sérfræðingur, sem starfaði í Svíþjóð, vottorð 22. ágúst 1996, sem fyrir liggur í málinu. Hann telur, að kerarnir hafi stíflast, sem leitt hafi af sér blóðsöfnun með auknum þrýstingi í nærliggjandi vef. Ekki sé unnt að fullyrða, hvort blóðsöfnun í sárið hafi leitt til blóðrásartruflunar og dreps, eða hvort svo hefði orðið hvort sem var. Hann telur að átt hefði að laga þetta að kvöldi aðgerðardags meðan enn var tími til að takmarka eða koma í veg fyrir hugsanlegan skaða.

Í álitsgerð landlæknis 9. júní 2000 segir, að mjög erfitt sé að segja til um hvenær rétt sé að fara inn á jafn viðkvæmt aðgerðarsvæði og hér um ræðir og kanna málin.  Mjög ólíklegt sé, að ástæða hefði verið til þess að kvöldi aðgerðardags eða daginn eftir, miðað við lýsingar í sjúkraskrá. Heldur sé unnt að fallast á, að tilefni hefði verið til aðgerðar 26. ágúst og jafnvel frekar 27. ágúst, er fyrst var lýst bláma á geirvörtu. Hann bendir þó á, að aldrei sé lýst missmíð eða útlitsbreytingum á brjóstinu, sem séu hins vegar mjög algengar við blæðingar, ef þær eru verulegar. Hann tekur fram, að verstu fylgikvillar svona aðgerða séu sýkingar og drep í flipa. Drep stafi af blóðrásartruflunum, sem geti orðið í aðgerðinni sjálfri eða í kjölfar hennar, ef blóðrás truflast vegna sýkingar, þrýstings frá blæðingu og segamyndun í æð. Meðal áhættuþátta slíkra segamyndunar séu reykingar, en fyrir liggur að aðaláfrýjandi reykti bæði fyrir og eftir aðgerðina. Líkur séu á, að hér sé um samverkandi þætti að ræða.

 Eins og segir í sjúkraskýrslu var það fyrst 27. ágúst að tekið var eftir því að verulegt vandamál væri á ferð, þegar lýst var bláma í efri hluta geirvörtu. Í áliti læknaráðs er bent á, að fleira en eitt geti valdið slíku, svo sem aukinn þrýstingur vegna blæðingar, blóðgúls eða bjúgs. Alltaf sé nokkur hætta á truflunum á blóðflæði og vefjadrepi eftir brjóstaminnkunaraðgerðir og aukist sú áhætta við reykingar eftir aðgerð. Telur læknaráð, að aðgerðarlæknirinn hafi brugðist rétt við með því að fjarlægja sauma úr brjóstinu og gefa lyf til að auka blóðflæði um brjóstvefinn. Ekki hafi verið brugðist of seint við. Frekar ólíklegt sé, að blóðgúll sá, sem fannst við aðgerðina 28. ágúst, hafi verið hin raunverulega orsök að óförum aðaláfrýjanda, þótt hún hafi getað verið meðvirkandi.

Héraðsdómur taldi, að í þessu efni verði að styðjast við mat aðgerðarlæknis. Mat hans á blóðflæði sé mikilvægast. Læknar, sem ekki voru viðstaddir hafi ekki raunhæfar forsendur til að draga aðrar ályktanir. Féllst hann ekki á, að eftirlit hafi verið ónógt eða eftirmeðferð ófullnægjandi.

Fyrir liggur, að drep í geirvörtu er þekktur fylgikvilli brjóstaminnkunaraðgerða, þótt ekki sé hann algengur. Læknavísindin ráða ekki yfir úrræðum, sem girða fyrir að sjúklingar fái fylgikvilla vegna skurðaðgerða. Eins og að framan greinir eru skiptar skoðanir um það, hvenær rétt hefði verið að hleypa blóði úr brjósti aðaláfrýjanda eftir aðgerðina 23. ágúst. Læknaráð fullyrðir, að ekki sé unnt að sjá, að mistök hafi átt sér stað við eftirmeðferðina.  Eins og mál þetta liggur fyrir eru ósönnuð saknæm mistök starfsmanna gagnáfrýjanda við eftirmeðferð aðaláfrýjanda.

Bótakrafa aðaláfrýjanda er öðrum þræði reist á því, að læknir sá, sem annaðist skurðaðgerðina, hefði átt að vara hana við þeirri áhættu, sem fylgir svona aðgerð. Ekki hafi verið minnst á fylgikvilla, sem leitt gætu af aðgerðinni. Aðgerðarlæknirinn bar fyrir dómi, að hann hefði rætt við aðaláfrýjanda um hugsanleg vandamál vegna aðgerðarinnar, eins og hann geri við alla sjúklinga, er hún kom til hans á stofu tveimur árum fyrir aðgerðina. Hann hafi einnig hitt hana að morgni aðgerðardagsins, 23. ágúst 1991, og ítrekað hætturnar og taldi sig hafa minnst á hættu þá, sem stafaði af reykingum. Aðaláfrýjandi hefur viðurkennt að hafa kvöldið fyrir aðgerðina fengið upplýsingabækling lýtalækningadeildar um brjóstaminnkunaraðgerðir, þar sem tekið er fram hvaða vandamál gætu orðið eftir aðgerð, og voru tilteknar blæðingar, sýkingar og blóðrásartruflun, sem leitt gæti til dreps í geirvörtunni. Hún segist hafa flett bæklingnum, en ekki lesið hann. Er fallist á það með héraðsdómi, að ósannað sé að um hafi verið að ræða saknæman skort á upplýsingum af hálfu gagnáfrýjanda.

IV.

Aðaláfrýjandi reisir bótakröfu sína einnig á því, að útlitslegur árangur brjóstaminnkunaraðgerðarinnar hafi verið alls óviðunandi. Hún telur aðgerðarlækninn hafa fjarlægt of mikið af brjóstvef miðað við það, sem hún hafi viljað, og það sem eðlilegt mætti teljast, þannig að brjóstin hafi orðið mjög lítil. Þá hafi þau eftir aðgerðina verið ósamstæð og vinstri geirvartan sett allt of ofarlega á brjóstið. Þessi mistök hafi valdið því, að hún hafi orðið að gangast undir fleiri aðgerðir til þess að fá úr því bætt. Í ágúst 1992 fór hún í aðgerð á Borgarspítalanum, þar sem vinstri geirvarta var flutt neðar, og í október 1993 var gerð útlitsbætandi aðgerð á báðum brjóstum á St. Jósefsspítala í Hafnarfirði. Í febrúar 1994 fór hún enn í aðgerð til að lagfæra hægra brjóstið og í maí sama ár fór hún í aðgerð, þar sem brjóstin voru stækkuð.

Aðaláfrýjandi fór í brjóstaminnkunaraðgerð af læknisfræðilegum ástæðum, en hún hafði þjáðst af vöðvabólgu og höfuðverkjum, sem raktir voru til of stórra brjósta. Aðgerðarlæknirinn bar fyrir dómi, að hann hefði reynt að fara eftir óskum aðaláfrýjanda hvað varðar stærð brjóstanna, en tilgangurinn með aðgerðinni hefði verið að létta þau og því hefði orðið að taka það magn, sem munaði um. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum er það álit sérfræðinga, að stærð brjósta og staðsetning geirvörtu ráðist við aðgerðina og sé á ábyrgð læknisins. Þótt ekki sé unnt að ábyrgjast nákvæma samhverfu á staðsetningu og stærð brjósta eftir aðgerð, verður að fallast á það álit héraðsdóms, að brjóst aðaláfrýjanda urðu minni en ástæður voru til. Sérfræðingar þeir, sem fyrir dóm komu, báru að ekki hefði verið samræmi milli geirvartanna, sú vinstri hefði verið talsvert hástæðari en hægri. Af gögnum málsins er ljóst, að þar hafi verið um augljós mistök að ræða.  Afleiðing þessa var sú, að aðaláfrýjandi varð að gangast undir fleiri aðgerðir til þess að ráða bót á því, sem ella hefði ekki verið þörf á.

Þá byggir aðaláfrýjandi einnig á því, að húð hafi verið tekin á röngum stað til ígræðslu í aðgerðinni 27. september 1991. Fram er komið, að húðin var tekin neðarlega á utanverðu hægra læri aðaláfrýjanda. Í áliti læknaráðs kemur fram, að það sé matsatriði hvaðan húð sé tekin til flutninga, en lærið utanvert hafi verið nokkuð hefðbundinn staður til húðtöku. Ofanvert læri sé heppilegra, mæli ekkert því í mót. Héraðsdómur taldi engin efni hafa verið til að velja tökusvæðið rétt ofan við hné á utanverðu læri, eins og gert var. Þetta staðarval geti naumast talist eðlilegt og hafi valdið óþarfa lýti, en það sé á valdi viðkomandi læknis að velja staðinn. Er fallist á þá niðurstöðu héraðsdóms.

Samkvæmt framansögðu er fallist á að mistök hafi átt sér stað við framkvæmd aðgerðanna 23. ágúst og 27. september 1991 að því er varðar útlit brjóstanna og húðtöku til ígræðslu. Er gagnáfrýjandi ábyrgur vegna þeirra mistaka.

V.

Aðaláfrýjandi hefur lagt fram þrjú örorkumöt í málinu. Vigfús Magnússon tryggingalæknir mat varanlega örorku hennar 10% í febrúar 1995. Júlíus Valsson og Sigurjón Sigurðsson tryggingalæknar mátu varanlega og tímabundna örorku 20% í mars 1997. Högni Óskarsson geðlæknir mat í desember 1997 varanlega örorku 35% en tímabundna örorku 75% út árið 1998. Kröfugerð aðaláfrýjanda byggir hins vegar á 100% tímabundinni örorku frá 23. ágúst 1991 til 31. október 2001, en 35% varanlegri frá þeim tíma. Læknaráð taldi varanlega örorku 20%. Í máli þessu krefst aðaláfrýjandi bóta vegna alls þess tjóns, sem hún telur sig hafa orðið fyrir af völdum brjóstaminnkunaraðgerðarinnar. Meðal þess er útlagður kostnaður og jafnframt framtíðarútgjöld vegna heilbrigðisþjónustu, vaxta- og lántökukostnaður og tjón vegna missis íbúðar. Er kröfugerðin í engu samræmi við neinar viðmiðanir í sambærilegum málum.

Eins og að framan greinir er ósannað, að vanræksla eða önnur saknæm mistök hafi valdið því, að drep komst í hægra brjóst aðaláfrýjanda eftir aðgerð þá, sem gerð var á henni 23. ágúst 1991, og einnig er ósannað, að saknæm mistök hafi orðið við eftirfarandi meðferð hennar. Skaðabótaábyrgð verður því ekki lögð á gagnáfrýjanda vegna þess tjóns, sem hlaust af því að drep komst í hægra brjóstið. Á hinn bóginn urðu mistök, að því er varðar útlitslegan árangur aðgerðarinnar, sem ollu því, að aðaláfrýjandi þurfti að gangast undir aðgerðir til lagfæringar á þeim mistökum. Aðaláfrýjandi gerir enga kröfu um bætur fyrir tímabundna eða varanlega örorku, sem þessu tengist Hún á hins vegar rétt á miskabótum úr hendi gagnáfrýjanda, sbr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem í gildi var, er tjónið varð. Þykja þær hæfilega ákveðnar 1.500.000 krónur, miðað við verðlag þegar málið var höfðað 29. júní 1999, með dráttarvöxtum frá þeim tíma til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað eru staðfest.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður aðaláfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, svo sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Gagnáfrýjandi, íslenska ríkið, greiði aðaláfrýjanda, Jórunni Önnu Sigurðardóttur, 1.500.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 29. júní 1999 til 1. júlí 2001 en 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað skulu vera óröskuð.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður aðaláfrýjanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 600.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. febrúar 2004.

Málið var höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Róbert Árna Hreiðarssyni hdl. f.h. Jórunnar Önnu Sigurðardóttur, kt. 260257-7149, Ljósheimum 16b, Reykjavík, á hendur íslenska ríkinu, með stefnu sem birt var 29. júní 1999.  Það var upphaflega dómtekið 15. júní 2000 og dæmt í héraði 11. júlí sama ár.  Málinu var áfrýjað og með dómi Hæstaréttar 29. mars 2001 var dómur héraðsdóms ómerktur svo og málsmeðferð frá og með munnlegum málflutningi og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar, gagnaöflunar og dómsálagningar að nýju.

Málið var dómtekið að nýju 18. desember 2002 og dæmt í héraði 20. janúar 2003.  Málinu var skotið til Hæstaréttar 11. apríl 2003 og með dómi 2. október 2003 var hinn áfrýjaði dómur ómerktur og málinu vísað heim í hérað til munnlegs málflutnings og uppsögu dóms að nýju.

Aftur var málið dómtekið að loknum munnlegum málflutningi þriðjudaginn 10. febrúar 2004.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru:  „Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 22.635.963 kr. ásamt ársvöxtum sem hér greinir: 5,8% af 17.982.600 kr. frá 23. ágúst 1991 til 1. september sama ár, 6,3% frá þeim degi til l. nóvember sama ár, 3,9% frá þeim degi til l. desember sama ár, 3,4% frá þeim degi til 1. janúar 1992, 2,6% frá þeim degi til 1. mars sama ár, 1,6% frá þeim degi til l. apríl 1992, 1,1% frá þeim degi til l. júní sama ár, 1% frá þeim degi til l. september sama ár, 0,9% frá þeim degi til 1. janúar 1993, 0,9% af 18.063.527 kr. frá þeim degi til l. febrúar sama ár, 1,1% af þeirri fjárhæð frá þeim degi til 1. mars sama ár, 1% frá þeim degi til 1. apríl sama ár, 0,9% frá þeim degi til 1. maí sama ár, 0,8% frá þeim degi til l. september sama ár, 0,9% frá þeim degi til l. desember sama ár, 0,5% frá þeim degi til 1. janúar 1994, 0,5%, af 18.180.774 kr. frá þeim degi til l. janúar 1995, 0,5% af 18.285.047 kr. frá þeim degi til 1. júní sama ár, 0,6% af þeirri fjárhæð frá þeim degi til l. janúar 1996, 0,6% af 18.448.207 kr. frá þeim degi til l. mars sama ár, 0,9% af þeirri fjárhæð frá þeim degi til 1. maí sama ár, 0,8% frá þeim degi til 1. júní sama ár, 0,7% frá þeim degi til l. nóvember sama ár, 0,8% frá þeim degi til l. janúar 1997, 0,8% af 18.711.253 kr. frá þeim degi til l. febrúar sama ár, 0.9% af þeirri fjárhæð frá þeim degi til l. júní sama ár, 1% frá þeim degi til 1. ágúst sama ár, 0,9% frá þeim degi til l. september sama ár, 0,8% frá þeim degi til 1. janúar 1998, 0,9% af 18.871.639 kr. frá þeim degi til l. mars sama ár, 0,8% af þeirri fjárhæð frá þeim degi til 1. maí sama ár, 0,7% frá þeim degi til l. nóvember sama ár, 0,6% frá þeim degi til 1. janúar 1999, 0,6% af 19.219.315 kr. frá þeim degi til l. apríl sama árs, 0,7% af þeirri fjárhæð frá þeim degi til 1. maí sama árs, 0,8% frá þeim degi til 29. júní 1999.  Krafist er dráttarvaxta skv. 10. grein vaxtalaga 25/1987 af 19.266.505 kr. frá 29. júní 1999 til 1. júlí 2001 og skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.  Þess er krafist, að áfallnir dráttarvextir leggist við höfuðstól skuldarinnar og dráttarvextir reiknist af þeirri fjárhæð á 12 mánaða fresti, sbr. 12. gr. laga nr. 25/1987 og 12. gr. laga nr. 38/2001, í fyrsta sinn 29. júní 2000.

Þá er krafist málskostnaðar eins og málið væri ekki gjafsóknarmál skv. framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun."

Dómkröfur stefnda eru aðallega þær að stefndi verði sýknaður af öllum dómkröfum stefnanda.  Jafnframt er krafist málskostnaðar samkvæmt mati réttarins.  Til vara er þess krafist að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar, en málskostnaður þá látinn niður falla.

 

I.

Helstu málavextir eru að í maí 1989 sótti stefnandi um að fara í brjóstaminnkunaraðgerð á Landspítalanum.  Eftir nokkurn aðdraganda var framkvæmd skurðaðgerð á stefnanda 23. ágúst 1991.  Ólafur Einarsson lýtalæknir sá um aðgerðina.  Munu 572 grömm hafa verið tekin af hægra brjósti og 578 grömm af því vinstra og geirvörtur færðar sem ætla mátti til samræmis við nýja brjóstastærð.

Aðgerðin mun hafi gengið vel og áfallalaust fyrir sig.  Í aðgerðinni voru svokallaðir blóðkerar tengdir brjóstum stefnanda.  Áttu þeir að taka við því blóði sem rynni úr brjóstum stefnanda eftir aðgerðina.  Stefnandi mun hafi verið með blóðkerana í þrjá sólarhringa og af hálfu stefnda er haldið fram að vandlega hafi verið fylgst með þeim.  Blóðkerarnir hafi virkað eðlilega á þessu tímabili og hafi ástand stefnanda almennt verið talið eðlilegt.

Í hjúkrunarskýrslum segir að ástand stefnanda á þriðja degi eftir aðgerð sé það gott að búast megi við því að hún verði send heim daginn eftir.  Í lok þessa sama dags hafi hún fengið dálítinn hita og hroll og á fjórða degi, þ.e. daginn eftir, hafi fyrst farið að bera á bláma í efri hluta hægri geirvörtu og aukinni spennu kringum geirvörtu.  Þá þegar hafi henni verið gefið sýklalyf og lyf til að örva blóðstreymi sem draga átti úr líkum á drepi.  Við þetta hafi hitinn lækkað fljótlega.  Í sama augnamiði hafi hluti af saumum verið fjarlægður.  Daginn eftir, þ.e. þann 28. ágúst á fimmta degi eftir aðgerð, hafi ástand geirvörtu orðið verra, brjóstið spenntara og farið að bera á vaxandi blóðsöfnun til hliðar í hægra brjósti.  Stefnandi hafi þá aftur verið tekin til aðgerðar og úr hægra brjósti stefnanda hafi verið fjarlægðir 100-200 ml af blóðstorku.  Við þetta hafi blóðsrás til geirvörtu lagast þá tvo daga sem stefnandi dvaldi áfram á spítala í það sinn.  

Af hálfu stefnda segir að stefnandi hafi áfram verið til eftirlits á göngudeild Landspítalans.  Því miður hafi svo farið að blóðrás versnaði og drep hafi tekið að myndast í kringum hægri geirvörtuna og neðan við hana.  Reynt hafi verið með öllum ráðum að hemja þessa þróun en það hafi ekki tekist.  Nauðsynlegt hefði verið fyrir stefnanda að fara í nýja aðgerð 27. september 1991, en þá hafi verið gerð svokölluð plastisk aðgerð á hægra brjóstinu þar sem reynt hefði verið að endurskapa geirvörtusvæðið og húðsvæðið þar fyrir neðan til bráðbirgða og hafi verið notuð til þess m.a. húð sem tekin var af utanverðu hægra læri stefnanda.  Aðgerð þessi hafi heppnast og hafi stefnandi verið útskrifuð á fjórða degi frá aðgerð.  Stefnandi hafi verið áfram til eftirlits á göngudeild og hafi hún að mestu verið gróin sára sinna upp úr miðjum október 1991.  Þann 21. nóvember s.á. hafi stefnandi komið síðast til eftirlits og litið þá sæmilega út og sár verið talin að fullu gróin.  Hún hafi verið talin vinnufær frá og með 1. nóvember 1991.

Ljóst var á þessum tíma, að sögn stefnda, að stefnandi myndi þurfa að fara síðar í aðgerð til frekari lagfæringa.  Hafi verið fyrirhugað að í þær yrði ráðist að vori eða um sumarið 1992.  Til þess hafi þó ekki komið þar sem stefnandi hafi leitað til annarra lækna.

 

Þann 9. júní 2000 gaf landlæknisembættið út eftirfarandi álitsgerð í máli stefnanda:

 

Efni kvörtunar:

Óviðunandi eftirlit og meðferð í kjölfar brjóstaminnkunaraðgerðar, 23.08.1991.

 

Inngangur:

Landlæknir hefur áður tjáð sig og gefið úrskurð í máli þessu, fyrst með bréfi þann 01.06.1993, þar sem talið var að "rétt hafi verið staðið að aðgerðinni".  Var sú umsögn byggð á atvikalýsingu og umsögnum lýtalæknanna Árna Björnssonar yfirlæknis á lýtalækningadeild Landspítalans og Sigurðar E. Þorvaldssonar læknis á skurðlækningadeild Borgarspítalans.  Aftur var málið metið af hálfu embættis landlæknis með bréfi þann 16.09.1996, þar sem niðurstaðan var sú að "ekki hafi verið staðið tilhlýðilega að eftirmeðferð eftir brjóstaminnkun".  Var sá úrskurður einkum byggður á umsögn Ólafs Péturs Jakobssonar yfirlæknis við lýtalækningadeild sjúkrahússins í Örebro í Svíþjóð.  Fram hefur komið beiðni frá Ólafi Einarssyni lýtalækni á Landspítala Hringbraut um að málið verði endurskoðað í ljósi þess að honum hafi ekki verið veittur kostur á andmælum við seinni úrskurðinum og ýmis önnur sjónarmíð séu uppi um atburðarrás en þau sem liggja til grundvallar úrskurði Ólafs Péturs.  Ljóst er að verða verður við þessari ósk Ólafs Einarssonar.

 

Þar sem meginatriði málsins snúast um hvort rétt eða ranglega hafi verið brugðist við vandamálum, sem fram komu á fyrstu dögum eftir brjóstaminnkunaraðgerðina verður fyrst og fremst hugað að þeim tíma sjúkrasögunnar.  Einkum er stuðst við atvikalýsingu sjúklings í stefnu og því sem skráð er í sjúkraskrá, einkum nótur hjúkrunarfræðinga, vökva- og hitablöð.

 

Saga:

Brjóstaminnkunaraðgerð var framkvæmd á báðum brjóstum þann 23.08.1991 í svæfingu.  Beitt var svonefndri "medial based flap" aðgerð.  Tekin voru alls 572 grömm af hægra brjósti og 578 af hinu vinstra.  Komið var fyrir tveimur sogdrenum (svonefndum bombudrenum) í sitt hvoru aðgerðarsvæði.  Aðgerðina gerði Ólafur Einarsson og var Sigurður Björnsson læknakandidat honum til aðstoðar.  Fram kemur að Jórunni var gerð grein fyrir aðgerðinni meðal annars með því að afhenda henni bækling.  Ekki kemur fram hvort sérstaklega hafi verið lögð áhersla á flipadrep sem mögulegan fylgikvilla.  Ekki kemur annað fram í aðgerðarlýsingu en að aðgerðin hafi gengið eðlilega fyrir sig.  Blóðtap í aðgerð var metið um 300 ml.  Jórunn fór á vöknun í lok aðgerðarinnar um kl. 13.35 aðgerðardag og þaðan á deild um kl. 17.00.  Þann tíma sem hún var á vöknunardeild voru tæmdir alls 265 ml úr sogbrúsum, merktum I og II, sem báðir komu frá hægra brjósti.

 

Við komu á deild er hægra brjósti lýst spenntara en hinu vinstra.  Síðan virðist að alls hafi tæmst 294 ml úr sogdrenum I og II fram til næsta morguns (þ.e.a.s. 24.08.1991), ekkert úr dreni 3 og 18 ml úr dreni 4 en þau voru bæði í vinstra brjósti.  Fram kemur í nótum hjúkrunarfræðínga aðgerðardag að lítið hafi komið í brúsana eftir komu á deild og sama athugasemdin "lítið komið í brúsa í nótt, 47 ml" er höfð uppi af hálfu hjúkrunarfræðinga á nætunvakt aðfaranótt 24.08.1991.  Þess er einnig getið að lítilsháttar blæðing sé frá hægra brjósti. Jórunn er einnig sögð hafa sofið vel þessa nótt eftir að hafa fengið svefnlyf.

 

Daginn eftir eru 7 ml sagðir hafa komið í sogdren frá hægra brjósti og 13 ml frá hinu vinstra.  Þess er getið í hjúkrunarnótum að gott sog sé á en "lítið í brúsum".  Ennfremur kemur fram að "slöngurnar valda henni óþægindum" en Jórunn sé hins vegar "dugleg að hreyfa sig, sígarettan dregur hana".  Sú staðreynd að lítið sé í brúsum er bæði endurtekin af kvöldvakt og næturvakt.  Fram kemur að "aðeins spenna á hægra brjósti - gott sog".  Fram kemur hins vegar hjá Jórunni að hún hafi kvartað sáran við hjúkrunarfræðing undan verkjum og þrýstingi í hægra brjóstinu.  Á lyfjablað er ekki skráð að gefin hafi verið verkjalyf sólarhringinn þann 24.08.1991, en í hjúkrunarnótum kemur fram að engin verkjalyf hafi verið gefin á morgunvakt, einu sinni á kvöldvakt og einu sinni á næturvakt.  Sjálf telur Jórunn sig hafa fengið verkjalyf þrisvar þennan sólarhring.

 

Þann 25.08.1991 er gjöf verkjalyfja skráð þrisvar á lyfjablað og kemur það heim og saman við framburð Jórunnar í stefnu.  Hjúkrunarfræðingur mun hafa reynt að sjúga blóð úr brjóstinu með sprautu án árangurs samkvæmt því sem fram kemur í stefnu en þess er ekki getið í hjúkrunarnótum.  Þann 25.08.1991 komu 11 ml úr hægra brjósti og 7 ml úr hinu vinstra.  Fram kemur í hjúkrunarnótum að gott sog hafi verið á og dren ekki stífluð.  Jórunn var sögð láta betur af sér en daginn áður.

 

Daginn eftir, þann 26.08.1991 voru sogdren tekin.  Þá er lýst þrota í hægra brjósti í hjúkrunarnótu en ekki missmíð.  Þann dag hækkar hiti í 38,4°, en hafin hefði verið gjöf með sýklalyfi, díkloxacillin (Staklox)) 1 gr fjórum sinnum um munn um morguninn.  Haldið er fram að læknir hafi ekki skoðað Jórunni fyrr en þá frá kvöldi aðgerðardags.  Engin færsla í sjúkraskrá hrekur þetta.  Fram kemur í stefnu að Jórunni hefði fundist eins og hægra brjóstið væri að springa.  Árni Björnsson læknir, sem var á bakvakt, þann 26.08.1991, var kallaður inn samkvæmt stefnu og flutti hann Jórunni inn á aðra stofu, skar í hægra brjóst og hleypti út blóði.  Um þetta er hvergi getið í sjúkraskrá.  Í nótum næsta dags 27.08.1991 er sagt að Jórunn hafi sofið sæmilega, hiti hafði lækkað.  Hins vegar er nú lýst "svolítílli spennu í brjósti" og efri hluti geirvörtu sagður vera bláleitur en áður hafði ekki verið minnst á það.  Ekki er minnst á missmíð eða breytingu á útliti að öðru leyti.  Þann dag kom Ólafur Einarsson og leit á Jórunni, tók annan hvern saum.  Þrýstingurinn sagður ekki eins mikill í hægra brjóstinu en talsvert mar á ferð og vartan sögð svipuð.  Hafin var þá meðferð með lyfi, sem áhrif hefur á samloðun blóðflagna og eykur vökvamagn í æðum (Rheomacrodex) og enn fremur hafin rafleiðnimeðferð á húð (transcutaneous neive stimulation TNS).  Samkvæmt stefnu var Ólafur sagður hafa hleypt enn meira blóði úr hægra brjóstinu en þess er ekki getið í sjúkraskrá.  Svefn var slitróttur þessa nótt enda kemur fram í hjúkrunarnótum að hún hafi að verið "að vonum leið eftir þetta".

 

Daginn eftir þann 28.08.1991, var í aðgerð hleypt út blóðkekki um 100-200 ml af hálfstorknuðu blóði og var kökkurinn hliðlægt í brjóstinu út undir holhönd.  Þess er getið í aðgerðarlýsingu að tveimur dögum áður hafi farið að bera á vaxandi merkjum um blóðkökk og kemur það heim og saman við lýsingu hjúkrunarfræðings frá 26.08.1998, þar sem fram kemur að þroti hafi verið í hægra brjósti.  Sú ályktun er dregin í aðgerðarlýsingu að þetta hafi haft áhrif á blóðrás, bæði í geirvörtu og í skurði niður af henni.

 

Atvikalýsing verður í sjálfu sér ekki rakin í smáatriðum eftir þetta en eins og fram kemur í öllum gögnum málsins var gangur mjög erfiður, drep komst í geirvörtusvæði og hefur þurft að gera margar lýtaaðgerðir á brjóstinu vegna þessa með tilheyrandi óþægindum, örvefsmyndun og lýtum.  Fyrir liggur að Jórunn hefur ekki náð sér eftir þetta, þjáðst af verulegum öðrum vandamálum, einkum þunglyndi og vefjagigt sem án vafa má rekja til þessara vandamála.

 

Umsögn:

Brjóstaminnkun er mjög algeng aðgerð eins og flestum er kunnugt um.  Fylgikvillatíðni er ekki ýkja há en tíðni þeirra fer eftir því hvers mikið er tekið af brjóstinu, aldri sjúklingsins og fitulagi (Br J Plast Surg 1998;51:444-449; Scand J Plast Reconstr Surg Hand Surg 1998;32:281­286; Plast Reconstr Surg 1997;100:875-883).  Fylgikvillatíðni er á bilinu 1-10% og í flestum rannsóknum eru yfir 90% sjúklinga ánægðir með árangur (Ann Plast Surg 1998;41:370-377).  Verstu fylgikvillar aðgerða af þessu tagi eru vafalítið sýkingar og drep í flipa.  Drep stafar af blóðrásartruflunum, það getur orðið í aðgerðinni sjálfri, t.d. ef æðar eru skornar í sundur (en lega þeirra getur verið mjög mismunandi eftir einstaklingum) eða ef mjög hert er að saumum flipans þannig að of hár þrýstingur verði í skurðsárinu eða í vefnum þar undir.  Í kjölfar aðgerðarinnar getur blóðrás truflast vegna sýkingar eins og áður sagði, þrýstings frá blæðingu (blóðkekki) og segamyndun í æð, bæði slagæð og bláæð.  Meðal áhættuþátta slíkrar segamyndunar verður að nefna reykingar.

 

Þau atriði, sem helst verður að hafa í huga við mál þetta eru eftirfarandi:

 

1. Allmikið ber á milli þess sem skráð er í sjúkraskrá og þess sem kemur fram hjá sjúklingi um hversu miklir verkir voru á aðgerðarsvæði, hvort og hvenær verkjalyfjum var beitt, og hvort blóði var hleypt út úr skurði eða ekki fram að seinni aðgerð þann 28.08.1991.

2. Meginhluti þess sem kom í kera í lok aðgerðar fram á kvöld aðgerðardags kom frá hægra brjósti en mjög lítið kom í þá eftir það.  Drenin voru þó ítrekað sögð opin.

3. Líta vel út daginn eftir aðgerð, þann 24.08.1991, með góðan lit, en spennu í hægra brjósti var fyrst lýst þann dag á kvöldvaktinni en augljósum þrota lýst tveimur dögum síðar þann 26.08.1991.  Hins vegar var aldrei lýst missmíð eða útlitsbreytingum, sem eru hins vegar mjög algengar við blæðingar, sem hér um ræðir, ef þær eru verulegar.

4. Daginn eftir eða þann 27.08.1991 var efri hluti vörtu hægra megin bláleitur og svolítilli spennu lýst í brjósti.  Þann dag var hafin meðferð með Rheomacrodex, sem áður er lýst og TNS en sýnt hefur verið fram á í tilraunadýrum að slík meðferð auki blóðflæði í flipum af þessu tagi (Acta Physiol Scand 1988;134:89-94).

5. Við aðgerð daginn eftir reyndist hálfstorknað blóð vera hliðlægt í brjóstinu útundir holhönd en því ekki lýst hvort kerar hafi náð þangað og legu þeirra ekki lýst nánar í aðgerðarlýsingu.  Hins vegar kveðst læknir hafa lagt þá þar, enda slíkt venja.

 

Ljóst er að aðgerðin tókst mjög illa með hörmulegum afleiðingum fyrir Jórunni.  Deilt er um hvort meginástæða drepsins hafi verið að blóðkökkur, sem safnaðist fyrir í hægra brjósti og honum hafi ekki verið hleypt út nógu snemma eða hvort meginástæðan hafi verið sú að segamyndun í æð til flipans hafi lokað blóðrennsli.  Aldrei verður endanlega úr því skorið en líklegt er að báðir þættir hafi komið þar við sögu, enda geta þeir oft farið saman.  Bláminn á geirvörtusvæði, sem lýst er bendir til stíflu í bláæð, stífla í slagæð veldur fölva.  Stíflan getur hins vegar verið vegna utanaðkomandi þrýstings á æðina, í þessu tilviki þrýstings frá blæðingu.  Hefst þar ferill, sem flestir þekkja vel við myndun legusára.

 

Ljóst er að mun meira blæddi frá aðgerðarsvæðinu hægra megin en vinstra megin og ef til vill var sú blæðing heldur meiri en venjulegt er, þó vel innan þekktra marka.  Mjög lítið kom í dren frá kvöldi aðgerðardags þar til þau voru tekin.  Það þarf þó ekki að þýða að þau væru stífluð enda er því ítrekað lýst í hjúkrunarnótum að svo hafi ekki verið.  Sjúklingur lýsir verulegum verkjum þennan tíma, sem verður að hafa í huga við mat á ástandinu, en lýsingar þeirra eru hins vegar ekki eins ákveðnar í sjúkraskrá.  Fram kemur að fyrstu merki um þrota eða spennu í hægra brjósti er lýst daginn eftir aðgerð, en þó ekki óyggjandi fyrr en þann 26.08.1991.  Eftir á að hyggja virðast þar koma fyrstu merkin um eitthvað geti verið að.

 

Líklegt er því að tveir þættir hafi verið samverkandi.  Annars vegar söfnun áðurnefnds hálfstorknaðs blóðs á aðgerðarsvæði, sem lak hliðlægt út í holhönd.  Óvíst er því að dren hafi náð að sjúga það með öllu í burtu, jafnvel þó þau væru opin.  Hins vegar er einnig ljóst að blóðflæðið til flipans hefur truflast, bæði af þessum völdum og að öllu líkindum einnig vegna segamyndunar og í því samhengi verður að benda á reykingar sjúklings, sem ljóslega gætu hafa aukið hættu þar á.

 

Ólíklegt er að sýking hafi átt hér hlut að máli, hiti lágur og ljósum einkennum ekki lýst.  Ákvörðun um sýklalyfjagjöf að morgni 26.08.1991 getur þó bent til að þroti sá sem lýst var hafi verið talsverður og valdið áhyggjum læknisins um sýkingu.

 

Mjög erfitt er að segja um hvenær rétt er að fara inná jafn viðkvæmt aðgerðarsvæði og kanna málin.  Setji menn sig í þær kringumstæður, sem til staðar voru, dagana eftir aðgerð.  Matið er mjög erftt og gæta verður þess að vitneskja, sem fengin er eftirá er því miður haldlítil við ákvarðanir.  Mjög ólíklegt er að ástæða hefði verið til þessa að kvöldi aðgerðardags né heldur daginn eftir aðgerð miðað við lýsingar í sjúkraskrá.  Frekar er unnt að fallast á að tilefni hefði verið til aðgerðar þann 26.08.1991 og jafnvel frekar daginn eftir þegar bláma er lýst á geirvörtu.  Minna verður þó á að aldrei er lýst missmíð á brjósti en á móti koma mjög ákveðnar lýsingar sjúklings á miklum verkjum dagana eftir aðgerð.  Óvíst er hvort slík aðgerð hefði breytt neinu um gang mála en möguleikarnir hefðu vafalítið verið meiri og betri árangur en raun ber vitni.  Ennfremur verður að koma fram að skráning í sjúkraskrá er ábótavant.  Ekki er algjört samræmi milli skráningar á verkjalyfjum í hjúkrunarnótum og lyfjablöðum og skráning lækna á atburðum eftir aðgerð er mjög áfátt.

 

Álit:

Í ljósi ofanskráðs voru því líklega efni til að fara inn á aðgerðarsvæði einum til tveimur dögum áður en það var endanlega gert.  Leggja verður þó áhersla á að mat af þessu tagi er erfitt.  Fylgikvilli sá sem af aðgerðinni hlaust er velþekktur þó að hann sé fátíður og erfitt að fullyrða hvort aðgerð sem framkvæmd hefði verið fyrr hefði breytt gangi mála en líkur eru á að svo hefði verið.  Ljóst er að heilsuvanda Jórunnar, sem hefur verið verulegur frá aðgerð má rekja að mestu eða öllu til aðgerðarinnar.

 

Með úrskurði héraðsdóms 3. apríl 2001 var leitað umsagnar læknaráðs um eftirfarandi atriði sem Hæstiréttur hafði tilgreint í dómi sínum 29. mars 2001 að nauðsynlegt væri að fá áður en dómur gengi í héraði:

1. Telur læknaráð, að Jórunn Anna Sigurðardóttir hafi fengið viðhlítandi ráðgjöf fyrir aðgerðina ?

             2. Telur læknaráð, að viðurkenndum aðferðum hafi verið beitt við aðgerðina ?

3. Telur læknaráð, að mistök hafi verið gerð í aðgerðinni ?

4. Er unnt að draga þær ályktanir af gögnum málsins, að keri hafi stíflast í hægra brjósti Jórunnar Önnu fljótlega eftir aðgerðina ?

5. Var of seint brugðist við til að tæma blóð úr brjóstinu þann 28. ágúst ?

6. Telur læknaráð, að mistök hafi orðið við eftirmeðferðina ?

7. Er læknaráð sammála örorkumati Júlíusar Valssonar og Sigurjóns Sigurðs­sonar um 20% örorku ?

8. Er læknaráð sammála örorkumati Högna Óskarssonar um 35% örorku ?

9. Ef fallist er á hvorugt örorkumatanna, hvað telur læknaráð örorku vegna aðgerðarinnar vera mikla ?

10. Telur læknaráð, að húð til ígræðslu hafi verið tekin á röngum stað í aðgerð 27. september 1991 ?

Með bréfi 18. desember 2001 til Héraðsdóms Reykjavíkur svaraði læknaráð framangreindum spurningum á þennan veg:

1. Samanber gögn og framburð Ólafs Einarssonar, læknis, verður að teljast að Jórunn hafi fengið viðhlítandi ráðgjöf fyrir aðgerð, bæði munnlega ráðgjöf frá Ólafi er hann sá Jórunni á stofu strax í upphafi þeirra kynna, og síðan í skriflegu formi fyrir aðgerð er Jórunn lagðist inn á lýtalækningadeild Landspítala.  Þar var Jórunni afhentur upplýsingabæklingur um aðgerðina (brjóstaminnkun) þar sem m.a. er minnst á helstu áhættur aðgerðarinnar og er það vel staðfest í skýrslum.  Þar kemur fram að Jórunn man vel eftir að henni hafi verið ráðlagt að stöðva reykingar, sem bendir tvímælalaust til að hún hafi fengið umrædda ráðgjöf, þar sem ráðgjöf um reykingar er hluti af þeirri umræðu.

2. Margar viðurkenndar aðferðir eru til við brjóstaminnkun og má þar benda á hvaða textabók í lýtalækningum sem er, t.d. McCarthy - Textbook of Plastic Surgery.  Sú aðferð sem notuð var við brjóstaminnkunaraðgerð Jórunnar er ein þeirra.  Læknaráð telur að það sé mat hvers læknis hverja af þessum viðurkenndu aðferðum hann notar.  Í tilfelli Jórunnar notaði Ólafur svokallaða Strömbeck aðgerð sem er honum vel kunn og hann hefur mikla reynslu af.

3. Hér er stuðst við aðgerðarlýsingu Ólafs á brjóstaminnkun Jórunnar.  Eins og komið hefur fram er hér um að ræða aðgerðartækni sem Ólafi er vel kunn og hann hefur mikla reynslu af.  Hann mun hafa gert ca. 200-300 slíkar aðgerðir.  Ekki er annað að sjá en að aðgerðin hafi gengið snurðulaust fyrir sig og engin mistök hafi átt sér stað.

4. Samkvæmt hjúkrunarskýrslum er ástandi kera lýst daglega:

23.8.- Keri nr. 1 130 ml - nr. 2 135 ml

24.8.- 47 ml í kerum alls, gott sog

25.8.- gott sog, lítið í þeim, ekki stíflaðir

26.8.- kerar fjarlægðir

Þetta verður að teljast eðlileg framvinda hvað varðar kera eftir aðgerð sem þessa.  Reikna má með að upphaflega komi meira í kerana og minnki síðan, eins og varð í þessu tilviki.  Þegar magnið hefur síðan minnkað í óveru eru kerarnir fjarlægðir.  Ef keri stíflast heldur hann ekki áfram að flytja lítið magn daglega heldur stíflast alveg.

5. Eins og fram kemur í skýrslum frá Landspítala var gott eftirlit haft með framvindu Jórunnar daglega eftir aðgerð.  Þann 27.8.91 var tekið eftir að verulegt vandamál var á ferð í skurðsárum í brjóstum Jórunnar þegar hjúkrunarfræðingur tók eftir bláma í efri hluta geirvörtu.  Hér er rétt að benda á að fleiri en ein orsök getur valdið slíku vandamáli, og má þar nefna aukinn þrýsting vegna blæðingar, blóðbúls eða bjúgs.  Eins og fram hefur komið í framburði Sigurðar Þorvaldssonar, lýtalæknis, er nokkur áhætta á truflunum á blóðflæði og vefjadrepi eftir allar brjóstaminnkunar-aðgerðir, þó slíkt sé fátítt.  Áhætta þessi eykst við reykingar eftir aðgerð, þó erfitt sé að leggja tölulegt mat á þá aukningu.  Þegar ljóst var að vandamál væri á ferðinni var brugðist skjótt við og fjarlægði Ólafur nokkra sauma úr hægra brjósti Jórunnar til að létta á þrýstingi, gaf henni Rheomacrodex í æð og hóf TNS meðferð til að auka blóðflæði um brjóstvef Jórunnar.  Ekki er því unnt að fallast á að seint hafi verið brugðist við að meðhöndla vandamál Jórunnar.  Þegar síðan kom í ljós að þessi viðbrögð dugðu ekki til var næsta dag ákveðið að fara með Jórunni í aðgerð og leita eftir blóðgúl sem hugsanlegum orsakavaldi fyrir blámanum og vefjadrepi.  Við aðgerðina fannst lítill blóðgúll, 100-200 ml, út við holhönd og er frekar ólíklegt að þar hafi hinn raunverulegi orsakavaldur að óförum Jórunnar verið, þó hann geti verið meðvirkandi.  Ef litið er á að vefjadrep átti sér stað í báðum brjóstum Jórunnar er líklegra að hér sé safn mismunandi orsaka, breytileiki í blóðflæði um slagæðar (arterial variation), bjúgur eftir byrjandi sýkingu (fékk hitatopp 26.8. og var sett á sýklalyf), reykingar eftir aðgerð, og lítill blóðgúll sem fannst við aðgerð 28.8.91.

6. Ekki er hægt að sjá að mistök hafi átt sér stað við framkvæmd og eftirmeðferð við brjóstminnkunaraðgerð Jórunnar, heldur að hér sé um vel þekktan, en sjaldgæfan, fylgikvilla að ræða og er miður að svo hafi orðið.

 

Læknaráð svarar spurningum frá 7 til 9 hér að framan á þann veg að læknaráð er sammála örorkumati Júlíusar Valssonar og Sigurjóns Sigurðssonar um 20% örorku en ósammála örorkumati Högna Óskarssonar um 35% örorku.  Svar læknaráðs við 10 spurningu er þetta:  Ávallt er matsatriði hvaðan húð er tekin til húðflutninga.  Lærið utanavert hefur verið nokkuð hefðbundinn staður til húðtöku.  Ef ekkert mælir því í mót er ofanvert lærið heppilegra, svo auðveldara sé fyrir sjúkling að hylja tökustaðinn, ef hann verður áberandi eftir að húðin grær.

 

II.

Stefnandi byggir kröfu sína á því, að mistök hafi verið gerð við og í kjölfar aðgerðarinnar á Landspítalanum þann 23. ágúst 1991.  Telur stefnandi stefnda, sem rekstraraðila Ríkisspítala og Landspítalans og vinnuveitanda lækna og annarra heilbrigðisstarfsmanna, sem að málinu komu, bera bótaábyrgð á þeim mistökum.  Byggir stefnandi á því, að eftirtalin mistök hafi verið gerð:

 

1.   Skort hafi á ráðgjöf og samráð við stefnanda fyrir aðgerð.

2.   Ekki hafi verið beitt viðurkenndri eða viðeigandi læknisaðferð.

3.   Mistök hafi verið gerð við sjálfa aðgerðina.

4.   Ónógt eftirlit og ófullnægjandi meðferð hafi verið eftir aðgerð.

5.   Útlitslegur árangur aðgerðar hafi verið óviðunandi og ekki í samræmi við óskir og væntingar stefnanda.

6.   Skinn hafi verið tekið af röngum stað til skinnágræðslu við aðgerðina 27. september 1991 og það valdið ónauðsynlegu lýti.

 

Er gerð grein fyrir þessu þannig:

 

1)  Ónóg ráðgjöf og samráð við stefnanda fyrir aðgerð. :

 

Stefnandi byggir á því, að henni hafi ekki verið gerð nægileg grein fyrir þeirri áhættu, sem fylgir brjóstaminnkunaraðgerð á Landspítalanum.  Hafi henni ekki verið gerð nægileg grein fyrir þeim vandamálum, sem upp kynnu að koma, og þeim afleiðingum, sem af kynnu að hljótast.  Ef stefnandi hefði talið minnstu hættu á, að afleiðingar aðgerðarinnar yrðu jafn hörmulegar og raun ber vitni, hefði hún ekki gengist undir hana.  Á það bæði við örkuml þau, sem aðgerðin hefur valdið stefnanda svo og ófullnægjandi útlitslegan árangur, svo sem rakið verður síðar.

 

Stefnandi byggir á því, að aðgerðarlækninum, Ólafi Einarssyni, lýtalækni, hafi verið skylt að gera sér grein fyrir öllum þekktum fylgikvillum brjóstaminnkunaraðgerðar.  Jafnframt hafi Ólafi borið að hafa við sig samráð um val á aðferð til brjóstaminnkunar og gera sér grein fyrir kostum og göllum mismunandi aðferða m.a. með hliðsjón af hugsanlegum fylgikvillum.  Jafnframt hafi Ólafi borið að gera sér grein fyrir þeirri áhættu, sem því fylgdi að gangast undir aðgerðina.  Ekkert af þessu hafi Ólafur gert.

 

Stefnandi segir að einu upplýsingarnar, sem henni hafi verið veittar um aðgerðina hafi verið í formi bæklings, sem henni hafi verið réttur daginn, sem hún var lögð inn til aðgerðarinnar.  Telur stefnandi efni hans eitt og sér ekki nægilegt til undirbúnings aðgerðinni.

 

Stefnandi telur þennan skort á upplýsingum, ráðgjöf og samráði færa aukna ábyrgð á árangri aðgerðarinnar á herðar læknisins og um leið minnka áhættu stefnanda af misheppnuðum árangri af aðgerðinni.

 

2 og 3)  Ekki hafi verið beitt réttri eða viðurkenndri aðferð við brjóstaminnkunina og/eða mistök hafi verið gerð við framkvæmd aðgerðar.

 

Þar sem röksemdir fyrir þessum málsástæðum eru nánast þær sömu verður fjallað um þær í einu lagi.

 

Stefnandi byggir á því, að "vandamálin", sem upp komu í kjölfar brjóstaminnkunaraðgerðarinnar hafi verið meiri og afleiðingarnar víðtækari en svo, að hægt sé að tala um, að þar hafi verið um að ræða þekkta fylgikvilla, þegar eðlilega er staðið að aðgerð.  Byggir stefnandi á því, að "vandamálin" megi rekja til þess, að ekki var beitt viðeigandi og/eða viðurkenndri aðferð við brjóstaminnkunina og/eða, að mistök hafi verið gerð við aðgerðina.

 

Um vandamálin sem upp komu, vísar stefnandi til þeirra einkenna, sem komu fram í kjölfar aðgerðarinnar.  Einkennin lýstu sér aðallega í mikilli blæðingu í hægra brjósti stefnanda fyrstu klukkustundirnar eftir aðgerð og miklum þrota og eymslum í hægra brjóstinu allt frá því stefnandi vaknaði eftir aðgerðina.

 

Varðandi víðtæki afleiðinganna bendir stefnandi á hina miklu útbreiðslu vefjadrepsins í hægra brjóstinu og mikla örvefsmyndun í báðum brjóstum þó einkum því hægra.  Séu þetta langtum víðtækari afleiðingar, en varað er við í þeim bæklingi, sem henni voru fengnir í hendur fyrir aðgerð. Nánar verður komið að þessum atriðum síðar undir lið 4 hér á eftir og er vísað til þeirrar umfjöllunar.

 

Þá byggir stefnandi á því, að útlitslegur árangur aðgerðarinnar hafi engan veginn verið viðunandi burt séð frá ofangreindum "vandamálum".  Bendi það til þess, að ekki hafi verið viðhafðar réttar aðferðir við aðgerðina.  Nánar verður fjallað um útlitslegan árangur aðgerðarinnar undir lið 5 hér á eftir og er vísað til þess.

 

Þá telur stefnandi þau mistök hafa verið gerð við aðgerðina, að of mikið hafi verið fjarlægt af vef úr brjóstum stefnanda.  Telur stefnandi þetta hafa aukið hættuna á þeim alvarlegu afleiðingum, sem af aðgerðinni hlutust, auk þess sem brjóstin hafi orðið mun minni, en stefnandi hafði óskað eftir.  Nánar um það vísast til liðar 5 hér á eftir.

 

4)    Ónógt eftirlit og ófullnægjandi eftirmeðferð.

 

Stefnandi byggir á því, að strax í kjölfar brjóstaminnkunaraðgerðarinnar hafi farið að blæða inn á hægra brjóst hennar.  Sogkerarnir í brjóstinu hafi ekki náð að hreinsa blóðið út og hafi blóð safnast fyrir í brjóstinu og myndað blóðgúlp (hematoma).  Hafi það valdið þrota í brjóstinu og blóðrásartruflun til geirvörtusvæðis, sem aftur olli drepi í geirvörtunni og brjóstvef þar undir og einnig í húð samsvarandi skurði undir brjóstinu.

 

Stefnandi telur, að eftirliti og meðferð í kjölfar aðgerðarinnar hafi verið verulega ábótavant.  Miklar líkur séu á, að laga hafi mátt það sem fór úrskeiðis í aðgerðinni og koma í veg fyrir eða stöðva vefjadrepið í hægra brjóstinu, ef rétt hefði verið að málum staðið.

 

Byggir stefnandi á því, að ástand sitt og líðan strax á fyrstu klukkustundunum eftir aðgerðina hafi gefið tilefni til ítarlegrar skoðunar og aðgerða af hálfu sérfræðilæknis.  Hin mikla blóðsöfnun í blóðkerana í hægra brjósti hafi ein sér gefið tilefni til ítarlegrar skoðunar sérfræðings á ástandi stefnanda, enda umfram það magn, sem sett er fram í markmiðslýsingu í sjúkraskrá.  Hafi strax mátt vera ljóst, að eitthvað hafði farið úrskeiðis í aðgerðinni.

 

Þá byggir stefnandi á því, að ástand sitt og stöðugar umkvartanir næstu daga eftir aðgerðina hafi gefið áframhaldandi og aukið tilefni til aðgerða.  Þrátt fyrir það hafi ekkert verið gert fyrr en á þriðja sólarhring eftir aðgerðina, er stefnandi var sett á sýklalyf að fyrirmælum Sigurðar Björnssonar, aðstoðarlæknis.  Hafi það verið alls ófullnægjandi, enda ekkert sem benti til, að um sýkingu væri að ræða.

 

Byggir stefnandi á því, að það hafi eingöngu verið á færi sérfræðilæknis að meta ástand stefnanda og ákvarða meðferð.  Aðstoðarlæknirinn hafi hvorki haft til þess menntun né reynslu.  Eftirlit sérfræðilækna hafi hins vegar verið lítið sem ekkert allt frá því stefnandi vaknaði eftir aðgerðina kl. 17.00 föstudaginn 23. ágúst 1991 og fram á þriðjudagsmorgunn 27. ágúst 1991, er Ólafur Einarsson, lýtalæknir, kom á vakt og fyrst kynnti sér ástandið.

 

Þá byggir stefnandi á því, að Ólafur Einarsson, lýtalæknir, hafi ekki brugðist rétt við, þegar hann á fjórða degi eftir aðgerð "uppgötvaði", að ekki var allt með felldu.  Hafi hann þá þegar átt að taka stefnanda í aðgerð og tæma blóðið út úr hægra brjóstinu.

 

Loks byggir stefnandi á því að ekki hafi verið forsvaranlegt að útskrifa hana af Landspítalanum þann 30. ágúst 1991.  Ástand hennar hafi gefið tilefni til, að hún yrði höfð lengur inni á legudeild og verulegar líkur á, að hægt hefði verið að takmarka vefjadrepið, ef það hefði verið gert.

 

5)    Útlitslegur árangur óviðunandi og ekki í samræmi við óskir og væntingar stefnanda.

 

Stefnandi byggir á því, að burtséð frá afleiðingum vefjadrepsins í hægra brjóstinu, hafi útlitslegur árangur brjóstaminnkunaraðgerðarinnar verið alls óviðunandi.

 

Stefnandi byggir á því, að Ólafur Einarsson, aðgerðarlæknir, hafi fjarlægt of mikið af brjóstvef miðað við óskir stefnanda og það, sem eðlilegt mátti teljast í þessu tilviki.  Eftir aðgerðina urðu brjóstin mjög lítil, svo minnsta gerð brjóstahaldara með bollastærð A var jafnvel of rúm.  Stefnandi hafði beðið um, að brjóstin yrðu höfð meðalstór (medium) þannig að þau fylltu brjóstahaldara með bolla af stærðinni B.  Telur stefnandi aðgerðarlækni bera fulla ábyrgð á árangri aðgerðar að þessu leyti.

 

Stefnandi byggir einnig á því, að brjóstin hafi eftir aðgerðina verið mjög ósamstæð og vinstri geirvartan hafi verið sett allt of ofarlega á brjóstið.

 

Þá hafi ör eftir aðgerðina orðið ónauðsynlega stór og áberandi.

 

6)    Skinn tekið á röngum stað til ígræðslu í aðgerðinni 26. september 1991 og það valdið óþarfa lýti.

 

Stefnandi heldur því fram, að ekki hafi verið forsvaranlegt að taka skinn af neðanverðu utanverðu hægra læri stefnanda til ígræðslu á hægra brjóstið.  Hafi það valdið stefnanda meira lýti, en nauðsyn bar til.  Réttara hefði verið að taka skinn á minna áberandi stað.

 

Stefnandi telur stefnda bera bótaábyrgð á öllu því tjóni, sem stefnandi hefur orðið fyrir af völdum aðgerðarinnar jafnt fjárhagslegu sem ófjárhagslegu.  Telur stefnandi   tjón sitt vera fólgið í útlögðum kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu, vaxta og lántökukostnaðar og tjóns vegna missis íbúðar svo sem nánar er gerð grein fyrir í stefnu.  Þá gerir stefnandi kröfu um greiðslu bóta fyrir örorkutjón, sem grundvallað sé á örorkumati læknanna Júlíusar Valssonar og Sigurjóns Sigurðssonar frá 12. mars 1997 og örorkumati Högna Óskarssonar geðlæknis frá 20. september 1997.  Ákvörðun stigs varanlegrar örorku styður stefnandi við mat hins síðastnefnda.  Örorkutjónið sé í prósentum talið þá  þannig:

 

Tímabundin örorka:         100% frá 23. ágúst 1991 - 31. október 2001.

Varanleg örorka:               35% frá 1. nóvember 2001 til æviloka.

 

Stefnandi byggir ofangreindar kröfur á því, að afleiðingar aðgerðarinnar 23. ágúst 1991 hafi leitt til varanlegra líkamlegra óþæginda og verulega skertrar hreyfigetu einkum í hægri handlegg.  Einkenni þessi megi fyrst og fremst rekja til örvefshellu, sem myndast hafi í brjóstunum í kjölfar vefjadrepsins einkum í hægra brjóstinu.  Einkennin megi þó að hluta rekja til vefjagiktar, sem tilkomin sé af hinu andlega álagi, sem afleiðingar aðgerðarinnar hafi valdið stefnanda.

 

Að auki byggir stefnandi á því, að afleiðingar aðgerðarinnar hafi haft slæm áhrif á andlega heilsu sína, sem komi til með að vera varanleg.  Fljótlega eftir aðgerð hafi farið að bera á miklu þunglyndi hjá stefnanda.  Þunglyndið lýsi sér í kvíða, svefntruflunum, dapurleika, svartsýni og reiði.

 

Byggir stefnandi á því, að þessar líkamlegu og andlegu afleiðingar aðgerðarinnar hafi gert sér ókleift að stunda vinnu og muni hafa veruleg áhrif á starfsgetu sína um ófyrirséða framtíð.  Þá byggir stefnandi á því, að möguleika sínir til að fara út á vinnumarkaðinn á ný og fá sér vinnu, séu takmarkaðir af menntunarskorti, aldri og kynferði.

 

Við mat á tekjutapi vegna afleiðinga aðgerðarinnar sem hér um ræðir kveðst stefnandi styðjast við útreikning Jóns Erlings Þorlákssonar tryggingafræðings frá 18. apríl 2002 sem lagður hefur verið fram í málinu en þar segir m.a.: 

 

„Jórunn Anna Sigurðardóttir varð fyrir heilsutjóni eftir læknisaðgerð 23/8 1991.  Þann dag kalla ég slysdag. Hún er fædd 26/2 1957 og hefur því verið 34 ára á slysdegi.

Örorka er sem hér segir eins og í fyrri útreikningi:

Til októberloka 2001 100%

Síðan varanleg örorka 35%

Þú óskar að miðað sé við meðaltekjur afgreiðslufólks með þeim hækkunum sem orðið hafa frá í nóvember 1998.  Þá töldust meðaltekjur vera kr. 1.600.000 á ári.  Síðan varð almenn hækkun um 3,65% í ársbyrjun 1999 og 3,9% þann 1/5 2000.  Þá er meðalhækkun 2000-2001 talin 12-15% (ég reikna með 13,5%) og 10% hækkun frá 2001 til 2002.  Með þessum hækkunum verða viðmiðunartekjur nú kr. 2.151.300.

Á áðurnefndum forsendum um tekjur og miðað við, að tap vegna slyssins sé á hverjum tíma sami hundraðshluti tekna og örorka er metin, fæst eftirfarandi áætlun:

                                                                                                                           Áætlaðar

                                                                                                                           tekjur       Tekjutap

                                                               Árið  1991, frá slysdegi                            361.700       361.700

         -                                                                                     1992                         1.035.600       1.035.600

         -                                                                                     1993                         1.075.700       1.075.700

         -                                                                                     1994                         1.110.500       1.110.500

         -                                                                                     1995                         1.161.700       1.161.700

         -                                                                                     1996                         1.243.000       1.243.000

         -                                                                                     1997                         1.455.900       1.455.900

         -                                                                                     1998                         1.561.400       1.561.400

         -                                                                                     1999                         1.626.600       1.626.600

         -                                                                                     2000                         1.723.100       1.723.100

         -                                                                                     2001                         1.955.700       1.743.900

         Síðan árlega                                                         2.151.300                            753.000

Höfuðstólsverðmæti vinnutekjutaps reiknast mér á slysdegi:

Vegna tímabundinnar örorku             kr. 13.158.700

 -          varanlegrar örorku     -      9.649.000

Samtals                                  kr. 22.807.700

Verðmæti tapaðra lífeyrisréttinda vegna slyssins áætla ég 6% af höfuðstólsverðmæti taps af varanlegri örorku,

kr. 578.900.-

-----------------------------------------­

Þú óskar, hr. lögm., að ég reikni slysdagsverðmæti launa Jórunnar og atvinnuleysisbóta árin 1992 og 1993, og eftir­farandi bóta frá Tryggingastofnun ríkisins: Sjúkradagpeninga árið 1991, örorkubóta 26/4 1995 og 29/3 2000, örorkulíf­eyris, tekjutryggingar og uppbóta á lífeyri frá júlí 1993 til október 2001.

Upplýsingar um laun og atvinnuleysisbætur eru í skattfram­tölum. Tölur um bætur Tryggingastofnunar tek ég úr yfirlitum stofnunarinnar.  

Útreikningur er á meðfylgjandi blaði.  Niðurstöður eru þessar:

 

                                                                            Greiðsla  Slysdagsverðm.

                                                                       Laun 1992 og 1993                  369.110    357.400

                                             Atvinnuleysisbætur 1992 og 1993                  202.618    197.400

                                                              Sjúkradagpeningar 1991                    45.497    45.200

                                                          Örorkubætur 1995 og 2000                  644.299    602.600

                                                      Örorkulífeyrir, tekjutrygging

                                                  og uppbót 1993 - október 2001               5.390.822    5.061.200        

                                                                                          Samtals               6.652.976    6.263.800

 

             Greiðslurnar eru samtals kr. 6.652.976 og slysdagsverðmæti þeirra allra kr. 6.263.800.

                         --------------------------------------------

Við útreikning höfuðstólsverðmætis eru fram að útreiknings­degi 18/4 2002 notaðir vextir og vaxtavextir (ég legg vexti við höfuðstól um hver áramót) af almennum sparisjóðsbókum í Landsbanka Íslands (7% frá slysdegi, 4% frá 11/10 91, 3,75% frá 1/11 91, 3,5% frá 21/11 91, 3% frá 1/12 91, 2,5% frá 1/2 92, 2% frá 11/2 92, 1,25% frá 21/3 92, 1% frá 1/5 1992, 1,25% frá 11/8 93, 0,5% frá 11/11 93, 0,65% frá 1/6 1995, 0,75% frá 1/10 96, 0,9% frá 21/1 97, 1% frá 1/5 97, 0,7% frá 1/4 98, 0,6% frá. 21/10 98, 0,7% frá 11/4 99, 1% frá 21/1 2000, 1,2% frá 11/7 00, 1,3% frá 21/8 00, 1,7% frá 21/11 00, 1,4% frá 1/4 01 og 1,5% frá 21/6 2001)  - Samsettir vextir frá slysdegi til útreikningsdags eru 12,13%. - Eftir útreikn­ingsdag eru notaðir 4,5% vextir og vaxtavextir.  Dánarlíkur fara eftir reynslu áranna 1976 til 1980 og líkur fyrir missi starfsorku í lifanda lífi eftir sænskri reynslu.  Ekki er tekið tillit ti1 skatta."

 

Stefnandi krefst þannig 6.894.900 kr. bóta vegna tímabundinnar örorku en 7.719.200 kr. bóta vegna varanlegrar örorku. Þá krefst stefnandi 1.368.500 kr. bóta vegna tapaðra lífeyrisréttinda.

  

Þá gerir stefnandi kröfu um greiðslu miskabóta vegna þess ófjárhagslega tjóns, sem hún hafi orðið fyrir vegna fyrrgreindra mistaka við læknismeðferðina á Landspítalanum í tengslum við brjóstaminnkunaraðgerðina.  Gerir stefnandi kröfur um bætur vegna tímabundinna og varanlegra líkamlegra og andlegra þjáninga og lýta, hneisu og röskunar á stöðu og högum.  Til rökstuðnings við fjárhæð kröfunnar er vísað til atvika málsins eins og þeim hefur verið lýst og fram koma í gögnum málsins.

 

Bótakrafa stefnanda er sundurliðuð þannig:

 

Útlagður kostnaður vegna heilbrigðisþjónustu:

   Komur á heilsugæslustöð                                                    kr.                         5.100.-

   Viðtöl og skoðanir hjá sérfræðingum                                 kr.                       19.683.-

   Saltvatnsinnlagnir í brjóstum                                               kr.                       40.000.-

   Svæfing                                                                                   kr.                       20.000.-

   Viðtöl hjá sálfræðingi                                                            kr.                     139.700.-

   Sjúkraþjálfun                                                                          kr.                         7.296.-

   Árgjald á líkamsræktarstöð                                                  kr.                       39.190.-

   Komur á sólbaðsstofu                                                          kr.                     255.000.-

   Lyfjakostnaður                                                                       kr.                         7.847.-

   Áætluð framtíðarútgjöld                                                       kr.                  1.000.000.-

 

   Samtals                                                                                    kr.                  1.533.816.-

 

Vaxta- og lántökukostnaður v/lána í Íslandsbanka hf.:

 

   Vaxta- og lántökukostnaður árið 1992                                kr.                       48.949.-

   Vaxta- og lántökukostnaður árið 1993                                kr.                       80.215.-

   Vaxta- og lántökukostnaður árið 1994                                kr.                       57.263.-

   Vaxta- og lántökukostnaður árið 1995                                kr.                     102.710.-

   Vaxta- og lántökukostnaður árið 1996                                kr.                     223.336.-

   Vaxta- og lántökukostnaður árið 1997                                kr.                     118.207.-

   Vaxta- og lántökukostnaður árið 1998                                kr.                     123.419.-

   Lántökukostnaður árið 1999                                                kr.                       35.990.-

   Áætlaður framtíðar vaxta- og lántökukostn.                      kr.                  1.555.928.-

   Samtals                                                                                    kr.                  2.346.017.-

 

Tjón v/missis íbúðar:

 

   Greiddar afborganir af Byggingasjóðslánum                                          kr.                         518.783.-          Ógreidd vanskil af Byggingasjóðslánum     kr.        1.854.711.-       Áætluð húsaleiga frá ágúst 1990 til mars 1997                                                                      kr.                   [1.600.000.-]

 

   Samtals                                                                                                          kr.                         773.494.-

 

  

 Tímabundin örorka:

 

   Tapaðar atvinnutekjur frá 23.08.1991-31.10.2001                                    kr.                    13.158.700.-          Laun 1992 og 1993     kr.        [357.400.-]

   Atvinnuleysisbætur 1992 og 1993                                                            kr.                      [197.400.-]

   Sjúkradagpeningar 1991                                                                             kr.                        [45.200.-]

   Örorkubætur 1995 og 2000                                                                         kr.                      [602.600.-]

   Örorkulífeyrir, tekjut. og uppb. 1993- apríl 2000                                      kr.                   [5.061.200.-]

    

   Samtals                                                                                                          kr.                      6.894.900.-

 

Varanleg örorka:

 

   Örorkutjón                                                                                                    kr.                      9.649.000.-          20% frádráttur vegna eingreiðsluhagr. og skattfrelsis        kr.        [1.929.800.-]

 

   Samtals                                                                                                          kr.                      7.719.200.-

 

Verðmæti tapaðra lífeyrisréttinda                                                                 kr.                      1.368.500.-

 

Miskabætur                                                                                                     kr.                      2.000.000.-

 

Alls samtals                                                                                                    kr.                22.635.963.-

 

 

 

III.

 

Af hálfu stefnda er haldið fram að ósannað sé að starfsmönnum lýtalækningadeildar Landspítalans hafi orðið á bótaskyld mistök við aðgerð á stefnanda 23. ágúst 1991 og eftirlit og meðferð eftir aðgerðina hafi verið ábótavant.  Stefnandi hafi fært rök sín, fyrir ætlaðri bótaábyrgð stefnda, fram í sex töluliðum og sé þeim svarað í sömu röð þannig:

 

Stefnandi telur að skort hafi á ráðgjöf og samráð við stefnanda fyrir aðgerð.  Fullyrðingu þessari er mótmælt sem rangri.  Ólafur Einarsson, læknir, fullyrðir að hann hafi a.m.k. tvisvar sinnum persónulega útskýrt þá áhættuþætti sem fylgt gætu aðgerð þessari.  Fyrst þegar aðgerðin var ákveðin í samráði við hann og síðan fyrir aðgerðina á spítalanum sjálfum.  Þar að auki hafi stefnandi fengið bækling um aðgerðina þar sem m.a. er gerð ítarleg grein fyrir áhættuþáttum og þar á meðal því sem upp kom síðar hjá stefnanda.  Stefnandi hafi því verið eins upplýstur og hugsast gat og fullyrðingar um annað beinlínis rangar.  Að auki er í þessu sambandi á því byggt að almenn vitneskja er um það í þjóðfélaginu að öllum læknisfræðilegum aðgerðum fylgir einhver áhætta sem fyrir fram er ekki séð fyrir um.

 

Stefnandi byggir á því, að ekki hafi verið beitt viðurkenndri eða viðeigandi læknisaðgerð.  Þessari fullyrðingu fylgja engar röksemdir.  Þessi fullyrðing er röng og enginn þeirra sérfræðinga sem tjáð sig hafa um mál þetta hefur staðfest þessa fullyrðingu stefnanda.  Það sama á við þá fullyrðingu stefnanda að mistök hafi verið gerð við framkvæmd aðgerðar.  Enginn hefur staðfest þá fullyrðingu heldur.  Meðan þetta er einungis fullyrðing án nokkurra sannana, þá er fullyrðingin órökstudd og þar með þýðingarlaus fyrir málatilbúnað stefnanda.

 

Stefnandi telur að ónógt eftirlit og ófullnægjandi meðferð hafi verið eftir aðgerð hennar í ágúst 1991.  Þessari fullyrðingu er algjörlega vísað á bug.  Eins og áður hefur verið bent á, þá er eftirliti með stefnanda skilmerkilega lýst í hjúkrunarskýrslu ...  Þar kemur í raun ekkert óvenjulegt fram fyrstu þrjá sólarhringana eftir aðgerð 23. ágúst 1991.  Eftirlit var með stefnanda allan sólarhringinn og á skýrslu hennar eru skráðar upplýsingar í samræmi við fyrirliggjandi gátlista.  Stofugangur, skoðanir og viðtöl lækna er þar ekki skráður nema eitthvað óvenjulegt sé á seyði.  Á fjórða degi eftir aðgerð kom í ljós að eitthvað hafði eða var að fara úrskeiðis.  Í fyrstu var talið að sýking væri að byrja og var strax brugðist við því með viðeigandi lyfjagjöf.  Auk þess var gefið lyf til að auka blóðrás í brjósti stefnanda.  Hiti lækkaði strax við lyfjameðferðina og var því í fyrstu talið að upphafleg greining hefði verið rétt.  Fljótlega kom þó í ljós að meira var að og við því var strax brugðist með nýrri aðgerð á fimmta degi sem þjónaði þeim tilgangi að koma í veg fyrir drep í hægra brjósti.  Þegar upp var staðið tókst ekki að koma í veg fyrir drepið og að því leytinu til fór upphafleg aðgerð úrskeiðis.

 

Drep í og við geirvörtu er þekktur fylgikvilli sem fylgir brjóstminnkunaraðgerðum.  Af hverju sumir fá drep en aðrir ekki eftir slíkar aðgerðir hefur enn ekki verið útskýrt.  Það er á hinn bóginn algjörlega ósannað að nokkuð hafi farið faglega úrskeiðis eftir aðgerðina hjá því starfsfólki Landspítalans sem annaðist stefnanda.  Á sama hátt er ósannað að starfsfólk Landspítalans hafi brugðist skyldum sínum gagnvart stefnanda, meðan á dvöl hennar á spítalanum stóð, og ekki gert allt það sem því bar að gera á grundvelli þeirrar vitneskju sem lá fyrir á hverjum tíma.

 

Sjálfsagt er það alltaf matsatriði hvað mikið á að taka af brjóstum þegar þau eru minnkuð.  Í þessu máli skiptir sjálfsagt máli að minnkunin var af læknisfræðilegum orsökum, þ.e. ekki beinlínis fegrunaraðgerð.  Í málinu kemur fram að stefnandi þjáðist fyrir aðgerð af vöðvabólgu og höfuðverkjum sem rakið var til of stórra brjósta.  Væntanlega hefur það verið mat lækna að minnkunin þyrfti að vera veruleg, ef aðgerðin ætti að ná tilgangi sínum, þ.e. að losa stefnanda undan áður nefndum einkennum.  Ólafur Einarsson, læknir, taldi sig hafa útskýrt nákvæmlega fyrir stefnanda hvað hann hyggðist fyrir og teiknaði hann fyrirhugaða stærð brjóstanna í samráði við stefnanda skömmu fyrir aðgerðina sjálfa.  Eftirfarandi drep truflaði auðvitað þessa mynd því við það minnkaði hægra brjóstið enn frekar.  Leiddi það síðar til þess að samræma þurfti stærð beggja brjósta.  Við þetta var ekki ráðið vegna þess fylgikvilla sem kom upp í framhaldi af fyrstu aðgerð.

 

Það er ekki rétt að skinn hafi verið tekið af röngum stað til skinnágræðslu við aðgerðina 27. september 1991 og það valdið ónauðsynlegu lýti.  Sá staður sem notaður var til skinntöku er sá staður sem venjulega er notaður þegar svona háttar til og hann er talinn henta vel til slíkra flutninga.  Skinntökustaðurinn greri fljótt og vel og ekki er að sjá á litmyndum af viðkomandi stað, sem liggja frammi í málinu, að lýti hafi fylgi skinntökunni.

 

Af hálfu stefnda er töluleg kröfugerð stefnanda talin óhefðbundin og í engu samræmi við þær venjur og þau dómafordæmi sem skapast hafi um sambærileg bótakröfumál fyrir gildistöku skaðabótalaganna l. júlí 1993.  Öllum tölulegum forsendum og bótakröfum stefnanda í heild sinni er algjörlega mótmælt sem þýðingarlausum og ósönnuðum.

Af hálfu stefnda er talið að stefnandi geri í kröfugerð sinni lítinn sem engan greinarmun á meintum líkamlegum afleiðingum ætlaðra mistaka í aðgerðinni í ágúst 1991 og þeim andlegu erfiðleikum sem hrjáð hafi stefnanda.  Flest sem úrskeiðis hafi farið í lífi stefnanda virðist aðgerðinni að kenna, hvort sem um sé að ræða þunglyndi, vöðvagigt eða hreyfingaerfiðleikar svo ekki sé minnst á fjármál, atvinnumál og jafnvel samskipti við annað fólk.  Þetta geti auðvitað ekki staðist, jafnvel þó talið yrði að einhver mistök hefðu átt sér stað við aðgerðina eða eftirmeðferð á spítala.  Ljóst sé t.d. að þunglyndi hrjáði stefnanda að einhverju marki fyrir aðgerðina og eins virðist hún hafa þjáðst af höfuðverkjum, sljóleika og vöðvabólgu svo dæmi séu tekin.  Í þeim málsskjölum sem stefnandi byggir á virðist engin tilraun vera gerð til að tengja þessa hluti saman, þ.e. ekki er gerð tilraun til að leita að líklegum uppruna þeirra vandamála sem hrjá stefnanda.  Í stað þess sé allri sök skellt gagnrýnislaust á aðgerðina í ágúst 1991 og öll vandamál stefnanda talin afleiðing hennar.

Örorkumat sem liggur frammi í málinu er talið af stefnda endurspegla að sumu leyti þá óvissu sem málatilbúnaður stefnanda byggir á.  Þrenns konar örorkumat liggi frammi í málinu.  Vigfús Magnússon, tryggingalæknir, meti örorku stefnanda 10% í febrúar 1995.  Í mars 1997 hafi Júlíus Valsson og Sigurjón Sigurðsson, tryggingalæknar, metið varanlega og tímabundna örorku stefnanda 20%.  Í desember 1997 hafi Högni Óskarsson, geðlæknir, metið varanlega örorku stefnanda 35%, en tímabundna örorku 75% út árið 1998.  Kröfugerð stefnanda sé hins vegar byggð á 100% varanlegri örorku út árið 2001, en 35% eftir það.  Sú kröfugerð virðist vera byggð á hyggjuviti stefnanda sjálfs.  Við lestur þessa örorkumats og samanburð komi í ljós að fullkomin óvissa sé um það hvað megi hugsanlega rekja til aðgerðarinnar 1991 og hvað sé í örorku stefnanda sem rekja megi til annarra atriða í lífi hennar.  Með öðrum orðum, meint örorka stefnanda sem sannanleg afleiðing af aðgerðinni 23. ágúst 1991, sé ósönnuð.  Kröfugerð stefnanda sé auk þess þannig fram sett að erfitt verði fyrir dómara, ef ekki útilokað, að leggja dóm á hana.  Af hálfu stefnda sé reyndar ekki gerð sjálfstæð krafa um frávísun, en þó megi ætla að málatilbúnaðurinn allur sé þess eðlis að dómari verði að vísa málinu frá dómi ex officio.

Af hálfu stefnda er mótmælt sérstaklega öllum kröfum stefnanda sem byggja á meintum fjárhagslegum afleiðingum aðgerðarinnar í ágúst 1991.  Þá sé átt við kröfur sem snúa að lántökum stefnanda, tjóni vegna missis íbúðar, ýmsan útlagðan kostnað í fortíð og til framtíðar, og svo framvegis.  Flest í þessari kröfugerð stefnanda sé án fordæma og í engu samræmi við íslensk dómafordæmi.  Örorkuútreikningi stefnanda sé mótmælt sem ósönnuðum.  Mótmæli þessi eiga að sjálfsögðu bæði við um meinta tímabundna og varanlega örorku.  Útreikningarnir  séu að hluta til einhliða útreikningar stefnanda sem að auki séu byggðir á órökstuddum og ósönnuðum grundvelli.  Miskabótakrafa stefnanda sé og sama marki brennd.

Í stefnu geri stefnandi í raun kröfu um það að sönnunarbyrði verði snúið við eða að minnsta kosti að slakað verði á hinni almennri reglu skaðabótaréttarins um að sá sem heldur fram fullyrðingu beri að sýna fram á að fullyrðingin sé rétt.  Krafa þessi líti út fyrir að vera sett fram á þeim grundvelli að ófullnægjandi sjúkraskrár liggi fyrir og að Landspítali hafi vanrækt að afla upplýsinga um málið.  Kröfu um öfuga sönnunarbyrði eða að slakað verði á sönnunarbyrði sé mótmælt.  Jafnframt er því mótmælt að ónógar upplýsingar séu fyrir hendi í máli þessu og að Landspítali hafi neitað stefnanda um upplýsingar úr sjúkraskrám sem varða hana sjálfa.  Þvert á móti hafi spítalinn reynt til hins ýtrasta að veita stefnanda allar þær upplýsingar og skýringar sem unnt sé að láta í té.  Umtalsverðar skjalfestar upplýsingar liggja fyrir um mál þetta allt og þar á meðal þá aðferð sem viðkomandi læknir viðhafði við brjóstaminnkunina.  Sama eigi við um eftirmeðferð á Landspítala varðandi aðgerðina og allt annað sem varðaði innlögn stefnanda á árinu 1991.  Í þessu sambandi sé rétt að ítreka að stefndi býr ekki yfir neinni samantekt um tíðni fylgikvilla við brjóstaminnkunaraðgerðir á Landspítala, hvorki hvað varðar einstaka lækna né almennt á spítalanum.

Að lokum þyki nauðsynlegt að mótmæla vottorði Ólafs Péturs Jakobssonar, lýtalæknis, sem lagt hafi verið fram í málin.  Í umsögn Guðmundar Más Stefánssonar, lýtalæknis, og umsögn Ólafs Einarssonar, lýtalæknis, sem einnig hafi verið lagðar fram, komi fram rökstudd gagnrýni á vottorði Ólafs Péturs.

 

IV.

Jórunn Anna Sigurðardóttir gaf aðilaskýrslu fyrir dómi.  Hún sagði m.a. að hún hefði reynt að fara að vinna eftir að Ólafur Einarsson læknir hefði skrifað hana vinnufæra eftir læknisaðgerðir hans.  Hún kvaðst hafa byrjað að leysa af í versluninni „Body Shop" og „Kjallaranum" sem Oddur Pétursson á.  Hún kvaðst hafa byrjað að leysa af í hádeginu og hafa reynt að vinna tvo tíma á dag og reynt að koma sér áfram en hún hafi dottið niður í þunglyndi og þetta hafi allt verið erfitt.  Hún kveðst hafa reynt að bjarga sér en því miður hefði hún ekki ráðið við störfin. 

Hún sagði  að á Landspítalanum hafi verið búið að gera þrjár aðgerðir á henni.  Hægri handleggurinn hafi verið fastur niðri.  Hún kvaðst ekki hafa getað lyft honum upp.  Reynt hefði verið að hliðra til fyrir hana - að hafa hana bara í afgreiðslu.  Kvaðst hún ekki hafa gert neitt nema afgreiða viðskiptavini.  Hún hefði ekki getað þurrkað af né tekið upp vörur eða annað.  Hún kvaðst einfaldlega ekki hafa ráðið við þetta vegna verkja sem hún hafi haft í handlegg og öxl. 

Hún sagði að aðdragandi þess að hún fór í brjóstaminnkunaraðgerð hafi verið sá að hún var með stór og þung brjóst og mikla vöðvabólgu í herðum og upp í háls.  Hún hafi verið með tíða höfuðverki.  Þetta hafi orðið til þess að hún hefði leitað til lýtalæknis, Ólafs Einarssonar.  Kvaðst hún hafa pantað tíma í maí 1989 og farið fyrst í viðtal.  Hann hafi skoðað hana og sagt sitt álit „að þetta sé of þungt og sigið."  Hann hafi ákveðið að setja hana á biðlista.  Þá hafi verið um að ræða ársbiðlista.  Kvaðst hún hafa klætt sig úr að ofan og staðið upp við vegg í Domus Medica.  Hafi hann tekið upp brjóst hennar og sagt: „Já, þau eiga að vera svona.  Svo ræðum við þetta allt síðar þegar að aðgerðardegi er komið."

Áður en hún var kölluð til aðgerðar kveðst hún hafa orðið ófrísk og átt dreng.  Það hafi virkað þannig að ekki hafi verið hringt í hana fyrr en í maí 1991 en drenginn hefði hún átt 1. ágúst 1990.  Þá hefði hún átt að mæta upp á Landspítala tveim dögum síðar en þá hefði komið brunatilfelli inn svo að aðgerðinni hefði verið frestað.  Þann 20. ágúst hafi síðan verið hringt í hana og hún beðin um að mæta í aðgerð þann 23.  Kvaðst hún hafa mætt inn á Landspítala þann 22., klukkan 9 um morgun, í blóðprufu og myndatöku.  Hefði hún síðan fengið að leggjast inn klukkan 9 um kvöldið vegna þess að hún hafi þurft að koma barninu sínu fyrir.  Þá hafi Sigurður Björnsson [læknir] tekið af henni skýrslu varðandi svæfingu, hvort hún hefði ofnæmi fyrir pensillíni eða einhverju þess háttar.  Síðan hafi hjúkrunarfræðingur ritað lögheimili og framangreint niður á blað og skýrt henni frá bæklingi sem gott væri fyrir hana að lesa fyrir aðgerðina sem framkvæma ætti næsta morgun.  Hún kvað Ólaf Einarsson ekki hafa tekið á móti sér á staðnum.  Sigurður Björnsson hefði verið kynntur sem kandídat og henni tjáð að hann yrði aðstoðarlæknir við aðgerðina.  Sigurður Björnsson hefði ekki gert henni grein fyrir fylgikvillum sem upp gætu komið eftir aðgerðina, eina leiðbeiningin sem hún hafi fengið hafi verið umræddur bæklingur.  Kvaðst hún hafa „flett yfir" bæklinginn en ekki lesið hann.  Bæklinginn hefði hún ekki fengið afhentan til eignar heldur til lestrar á staðnum.  Hún kvað hafa verið útskýrt fyrir sér varðandi sogrörin, hún yrði með sogrörin í þrjá til fjóra daga.  Aðallega hafi verið farið inn á það. 

Hún sagði að 23. ágúst 1991 hafi hún verið kölluð inn í litið herbergi, skoðunarherbergi, uppi á deild 13 A, lýtadeildinni.  Þar hafi Ólafur komið.  Mikið hafi verið að gera.  Hann hefði sagt: „Sæl Jórunn mín, nú ætla ég að teikna þig upp."  Kvaðst hún hafa verið ber að ofan og hafi hann teiknað sig upp.  Kvaðst hún þá hafa sagt við hann: „Heyrðu Ólafur, hvernig er þetta, hvernig gengur þetta fyrir sig, hafið þið einhverja staðla á brjóstum?"  Hafi hún tekið sem dæmi: small, medium, large.  Hann hefði svarað því að ekki væri um sérstaka staðla að ræða.  Kvaðst hún þá hafa sagt við hann: „Þú mátt ekki taka of mikið af mér þannig að ég verði flatbrjósta.  Ég vil hafa svona stærð sem kallast gæti medium framan á mér."  Sagði hún að hann hefði samþykkt þetta. Á hinn bóginn hefði ekkert verið rætt um hugsanlega fylgikvilla.  Ekkert hefði heldur verið rætt um aðgerðina sjálfa, hvernig hún gengi fyrir sig.  Ekkert hefði verið rætt um hvaða tækni ætti að beita. 

Aðspurð kvaðst hún hafa reykt hálfan pakka á dag á þessum tíma.  Hún hefði sagt Sigurði Björnssyni frá því fyrir viðtalið við Ólaf.  Það hefði hins vegar ekki komið til umræðu í viðtalinu við Ólaf.  Hún sagði að Ólafur hefði ekki orðað það við sig að varasamt væri að reykja eftir aðgerðina.  Hún sagði að reiknað hefði verið með fjórum til fimm dögum hjá henni á sjúkrahúsinu eftir aðgerð.  Hún sagði að legudagarnir hefðu orðið frá 23. til 30. ágúst. 

Stefnandi sagði að hún muni eftir sér um fimmleytið eða sexleytið að hún vaknar eftir aðgerðina 23. ágúst 1991.  Þá hefði hún haft þörf fyrir að fara að pissa.  Hefði hún fengið aðstoð við að fara á klósettið.  Síðan hefði hún farið upp í rúm aftur.  Kvaðst hún hafa verið vönkuð og hafa legið fyrir.  Aðspurð taldi hún að aðgerðin hefði hafist um tíuleytið um morguninn.  Hún kvaðst hafa verið aum eftir að hún vaknaði og fundið fyrir þrýstingi í hægra brjóstinu um átta- eða níuleytið um kvöldið.  Hefði hún kvartað út af því við hjúkrunarfræðing.  Hjúkrunarfræðingurinn hefði tjáð sér að þetta væri eðlilegt.  Þetta væri stórt og mikið skurðsvæði.  Ekki hefði verið kallaður til læknir til að skoða hana.  Læknir hefði ekki litið til hennar eftir að aðgerðinni var lokið þennan dag.  Hún kvaðst ekki hafa haft neinar efasemdir fyrsta daginn um að allt hefði gengið vel.

Þegar hún vaknaði daginn eftir aðgerðina 24. ágúst, kvað hún sér hafa liðið illa.  Hefði hún fundið fyrir auknum þrýstingi, brjóstið mjög spennt og mikill hiti.  Kvaðst hún hafa kallað nokkrum sinnum á hjúkrunarkonurnar.  Hefði henni verið tjáð að rörin gætu pirrað hana, allt væri eðlilegt.  Kvaðst hún hafa haft mikla verki.  Hefði henni verið gefið verkjalyf sem hafi slegið á þetta í tvo eða þrjá tíma.  Kvaðst hún hafa kvartað aftur.  Hefði það gengið þannig fyrir sig að henni hefði verið gefið verkjalyf oft þennan dag.  Læknir hefði ekki verið kallaður til.  Hjúkrunarfólkið hefði tjáð henni að allt væri eðlilegt.  Aðfaranóttina 25. ágúst hefði henni verið gefið verkjalyf.  Þrýstingurinn hefði haldið áfram.  Kvaðst hún þá hafa uppgötvað að þetta gat ekki verið eðlilegt.  Hefði hún kvartað við hjúkrunarfræðingana.  Þær hefðu séð að brjóstið var mikið spennt og eftir því sem hana minnir þá hefði það gerst að kvöldi þann 25. ágúst að hjúkrunarfræðingur kom með stóra sprautu, opnaði fyrir „drenið" og reyndi að sjúga út.  Kvaðst hún hafa upplifað mjög sterkt að ekki væri allt með felldu.  Ekki hefði verið kallaður til sérfræðingur þrátt fyrir stöðugar kvartanir hennar.  Hefði henni verið gefið svefnlyf en svefnlyf hefði hún aldrei áður tekið né sterk verkjalyf.  Hún hefði því haft mjög lítið lyfjaþol þannig að hún hefði sofnað.  Kvaðst hún hafa verið viðkvæm og „brotnað saman."  Þá hefði henni verið gefið róandi lyf sem hún hefði aldrei áður neytt. 

Næsta dag, eða sunnudaginn 25. ágúst, kvað hún ástand sitt hafa farið hratt niður á við.  Ekki hefði verið hlustað nægilega á kvartanir hennar.  Hefði hún kvartað mikið um verki í hægra brjósti undan þrýstingi.  Reynt hefði verið að sjúga þar út með sprautu.  Kvaðst hún hafa spurt hvort það gæti verið að um stíflu væri að ræða, þar eð hún hefði ekki haft vit á því, en hún hefði vitað að eitthvað var að brjóstinu.  Lögð hefði verið mikil áhersla af hjúkrunarfræðingum á að rörin, sem sett eru inn í brjóstin, gætu pirrað hana.  Samt hefði henni fundist skrýtið að hjúkrunarfræðingur hefði reynt að sjúga út blóð sem ekki kom.  Þetta kvað hún hafa gerst á kvöldvaktinni 25. ágúst.  Ástand sogbrúsanna hefði verið þannig á kvöldvaktinni að ekkert kom í þá.  Enginn læknir hefði litið á hana þessa helgi.

Aðfaranóttina 26. ágúst kvað stefnandi sér hafa liðið illa.  Hefði henni verið gefið verkjalyf og svefnlyf og róandi lyf.  Að morgni 26. ágúst hefðu sogdrenin verið fjarlægð og hún sett á sýklalyf.  Rörin hefðu verið laus í hægra brjóstinu og dottið út þegar hreyft var við þeim. Hefði Árni Björnsson læknir verið kallaður til nokkrum klukkutímum síðar eða seinni part dagsins.  Árni hefði séð hvað um var að vera og farið með hana inn í lítið herbergi á staðnum, skorið undir brjóstið og hleypt út blóði, 200 til 300 millilítrum.  Kvaðst hún vilja lýsa undrun sinni yfir að ekki væri getið um þetta í sjúkraskrám.  Blámi hefði verið í kringum geirvörtuna þegar Árni gerði þessa aðgerð.  Ólafur Einarsson læknir hafi fyrst daginn eftir litið á hana eða þriðjudaginn 27. ágúst. 

Hún sagði að Ólafur Einarsson læknir hefði komið á stofugang og hefði hann séð greinilega hvað um var að vera.  Hefði hún kvartað undan þrýstingi.  Þrýstingurinn hefði hjaðnað um tíma eftir að Árni hleypti út blóðinu en komið fljótt aftur.  Hefði hún haldið áfram að kvarta undan þessum þrýstingi.  Kvað hún Ólaf hafa farið með hana í litla herbergið, sem áður var getið um, og hann hafði notað þegar hann „teiknaði hana upp" fyrir aðgerðina.  Með honum hafi verið hjúkrunarfræðingur.  Þá hafi aftur verið hleypt út 200 til 300 millilítrum.  Þá hefði hann sagt: „Jórunn, nú er eitthvað að ske.  Ég verð að taka ákvörðun.  Það verður að opna brjóstið aftur.  Þú verður að búa þig undir aðgerð aftur á morgun."  Kvaðst hún hafa algjörlega brotnað niður við þetta.  Viðmót læknisins hefði ekki verið hlýlegt.  Ekki hefði verið hlúð að henni.  Þarna hefði hún fengið staðfestingu á að grunur hennar um að eitthvað verulegt væri að væri á rökum reistur.  Hún kvaðst muna eftir að seinni partinn þennan dag hefði henni verið gefið blóðlyf og veitt raförvun.  Kvaðst hún muna eftir að Ólafur hefði þá komið boðum til hennar símleiðis að hún mætti ekki reykja.  Kvaðst hún hafa reykt eina eða tvær sígarettur þessa daga á sjúkrahúsinu, allan tímann.  Kvaðst hún ekki muna hvort hún reykti eina sígarettu eftir það eða enga.  Hún hefði tekið mark á aðvöruninni. 

Þann 28. ágúst kvaðst hún aftur hafa farið í aðgerð.  Hefði henni verið gefið róandi lyf og svefnlyf fyrir nóttina.  Hefði hún verið tekin seint í aðgerðina vegna þess að brjóstið hefði verið þannig útlits.  Ekki hefði verið skýrt fyrir henni í smáatriðum í hverju aðgerðin var fólgin.  Líðan hennar hefði verið hörmuleg eftir aðgerðina.  Hún hefði alveg brotnað niður.  Hefði henni verið sagt að þetta hefði farið illa og nú yrði að bíða og sjá hverju fram yndi.  Þetta væri viðkvæmt svæði.  Hefði hún verið sett á mikið og sterkt pensillín og henni sagt að hún yrði að vera dugleg.  Ekki hefði verið lýst fyrir henni hverjar afleiðingarnar gætu orðið. 

Stefnandi sagði að 29. ágúst hefði þrýstingurinn verið horfinn úr brjóstinu, hefði það verið léttir, henni hefði þó liðið illa.  Úr sárum á hægra brjóstinu hefði runnið óþverri, gröftur eða eitthvað annað.  Kvaðst hún muna eftir að Ólafur hefði þennan dag litið til sín.  Hún sagði það rangt, sem skráð er í sjúkraskrá, að kreist hafi verið út úr brjóstinu vinstra megin ca. 100 til 200 millilítrar af fersku blóði 30. ágúst.  Aldrei hefði verið kreist blóð úr vinstra brjóstinu.  Ekki hefði verið reynt þennan dag að ná fersku blóði úr brjóstum hennar.  Kvaðst hún enga skýringu hafa á því hvers vegna þetta standi í sjúkraskrá.  Hún sagði að hægri geirvartan hefði verið mjög blá þegar hún var útskrifuð af sjúkrahúsinu.  Hefði hún verið útskrifuð með fyrirmælum um að koma á göngudeild daglega til að fá skipt á umbúðum á sárunum.  Kvað hún víst að drep hefði verið komið í brjóstið á þessum tíma, raunar þegar 29. ágúst.  Hún hefði þó ekki tjáð læknum þetta, raunar hefði hún metið þetta eftir á.

Þann 2. september 1991 sagði stefnandi að hún hefði fyrst komið á göngudeild til að skipta á sárunum.  Hjúkrunarfræðingur hefði tekið á móti henni og tekið umbúðirnar af.  Árni Björnsson læknir hefði komið þar að.  Drepið hefði verið mikið svo að spurning hefði verið hvernig umbúðir hún ætti að hafa.  Kvaðst hún muna eftir því að sett hafi verið á hana pensillíngrisja yfir allt brjóstið og síðan umbúðir.  Umræða um drep í brjóstinu hefði þá strax komið fram.  Hjúkrunarfræðingur hefði metið það svo.  Næstu tuttugu og fjóra daga hefði hún komið á göngudeildina til að skipta um umbúðir, hefði verið byrjað að plokka upp dauðu vefina, skinnið, þetta hefði verið mjög stórt svæði.  Skýringarnar sem hún hefði fengið hefðu verið þær að það þyrfti að leyfa drepinu að klára sig fyrir næsta skref sem væri að taka húð til að setja yfir sárið. 

Þann 26. september tjáði stefnandi að enn ein aðgerð hefði farið fram.  Kvaðst hún hafa verið lögð inn á lýtadeildina.  Ólafur hefði sagt henni að honum þætti leiðinlegt hvernig þetta hefði farið.  Nú væri ekkert hægt að gera í stöðunni annað en að taka skinn af læri eða rasskinn og setja yfir og leyfa sárinu að jafna sig næsta hálfa árið.

Stefnandi kveður hreyfigetu sína hafa verið skerta með framangreindum aðgerðum.  Hún sé engan veginn fær um að vinna.  Nú sé hún alfarið tekjulaus.  Kvaðst hún að lokum hafa farið í samtals átta aðgerðir með þeim, sem að framan greinir, hjá nafngreindum læknum til að koma lagi á brjóst sín, en vinstra brjóstið hefði einnig þurft lagfæringar við eftir aðgerðir Ólafs.

Aðspurð kvaðst stefnandi hafa farið í brjóstaaðgerðina til að fá bót meina sinna en ekki til að bæta útlit sitt.  Hún kvað Ólaf Einarsson lækni ekki hafa gert henni grein fyrir hættum sem fylgi aðgerðum af þessum toga þegar hún hitti Ólaf fyrst á læknastofu.  Það hefði ekkert verið rætt.  Hann hefði heldur ekki gert henni grein fyrir útfærslu aðgerðarinnar áður en aðgerðin hófst.  Ekki hefði verið rætt um magn þess sem ætlað væri að taka af brjóstunum.  Hún staðhæfði að hún hefði reykt áður en hún fór í umrædda aðgerð að jafnaði 10 sígarettur á dag en ekki pakka á dag í sextán ár eins og greint sé frá í hjúkrunarskýrslu.

Stefnandi staðfesti að rétt væri greint frá heilsufari hennar í örorkumati Högna Óskarssonar geðlæknis á dskj. nr. 50. 

Stefnandi sagði að fyrstu skriflegu upplýsingar sem hún hefði fengið um brjóstaaðgerðir hefðu verið þegar henni var afhentur bæklingur um brjóstaminnkun, sbr. dskj. nr. 13, 22. ágúst 1991, kvöldið fyrir aðgerðina.  Hún kvað móður sína hafa farið í brjóstaminnkunaraðgerð á árum áður sem hefði gengið vel.  Það hefði verið það sem hún þekkti til svona aðgerða.  Hún hefði ekki haft neina raunverulega vitneskju áður um að svona gæti farið eins og hún hefði upplifað sem afleiðingu aðgerðar á brjóstum hennar.

 

Ólafur Jón Einarsson lýtalæknir gaf skýrslu fyrir dómi.  Hann sagði m.a. að hann hefði starfað sem lýtalæknir á Landspítalanum í fjórtán ár, og hefði sérfræðimenntun í almennum skurðlækningum og lýtalækningum.  Hann sagði að Jórunn hefði fyrst komið til hans á stofu 30. maí 1989.  Hann sagði að vinkona Jórunnar, Arnfríður Gísladóttir hjúkrunarfræðingur, hefði beðið hann um að líta á hana.  Honum hefði fundist beiðni stefnanda um brjóstaminnkun eðlileg.  Brjóstin hefðu verið þung og sigin, kvartanir um verki í herðum og hálsi, sem geta verið af þess völdum.  Ákveðið hefði verið að leggja inn beiðni á lýtalækningadeild Landspítalans.

Aðspurður kvaðst Ólafur hafa sagt stefnanda frá hugsanlegum vandamálum sem gætu komið upp við lýtalæknisaðgerð, svo sem hann geri alltaf þá er leitað sé til hans um slíkar aðgerðir.  Tvær hættur fylgi öllum aðgerðum: blæðingar og sýkingar.  Það sem sérstætt sé við aðgerð, eins og hér um ræðir og raunar allar flipaaðgerðir, séu blóðrásartruflanir og drep.  Þetta hefði hann sagt sjúklingi frá.  Hann kvaðst ekki geta fullyrt að rætt hafi verið í þetta sinn um hættu af reykingum. 

             Ólafur kvaðst hafa hitt stefnanda fyrst eftir að hún lagðist inn á Landspítalann, annaðhvort daginn áður eða sama dag og aðgerðin fór fram.  Hann sagði að stefnandi hefði verið tekin inn á sérstakt herbergi, svokallaða skiptistofu, að morgni aðgerðar-dags.  Þar hefði hann ítrekað bent á hætturnar og þá örugglega minnst á hættu af reykingum.  Þar hefðu síðan verið teiknaðar á sjúklinginn áætlaðar stærðir við aðgerðina og hversu mikið brjóstin myndu minnka.  Sagði hann að að þessu væri staðið þannig að mælt væri út frá axlarbreidd sjúklings og miðlínu eftir sérstökum reglum eftir því hve mikið á að létta brjóstin.  Geirvartan sé staðsett eftir því.  Síðan sé teiknað eftir ákveðnu „skapalóni" úr plasti, sem hann noti til að marka á skurðinn, sem síðan er framkvæmdur.  Sjúklingurinn hefði séð sig í spegli eftir að teikningin var komin á.  Spegillinn hefði verið í þeirri hæð að sjúklingurinn hefði getað séð sig.  Hann sagði að haft væri samráð við sjúkling, eftir því sem hægt væri, um aðgerðina - hve mikið yrði tekið af brjóstum og endanlega stærð brjósta eftir aðgerð.  Hann sagði að ekki væri unnt að sýna það nákvæmlega.  Hann hafi fyrir reglu að taka milli handa sinna það af brjóstunum sem hann ætli að muni fara og spenna brjóstin upp þannig að hábungan sé þar sem áætlað er að geirvartan lendi.  Þá sjáist nokkurn veginn hvað fer.  Ekki sé hægt að sýna það nákvæmlega.  Hann kvaðst ekki ræða við sjúklinga um hvaða brjóstahaldarstærð viðkomandi muni nota eftir aðgerðina.  Hann sagði að ákveðið væri fyrir aðgerð hvað ætlað væri að taka af brjóstum um það bil - þriðjungur, helmingur og því um líkt.  Að vissu marki sé haft samráð við sjúkling um þetta.  Um aðferðina, sem notuð hefði verið við aðgerðina, vísaði hann til fylgiskjala með bréfi sínu til landlæknis 29. maí 2000 [dskj. nr. 184] þar sem fram koma myndir og skýringar.  Hann sagði að brjóstið væri minnkað, aðallega neðan til, lítillega ofan til, geirvartan sé skorin út á stilk þannig að skorið sé á blóðrás úr fjórum höfuðáttum.  Það sé skorið undir geirvörtuna þannig að hún lifir á þeirri blóðtengingu sem hún hefur í átt að miðju sjúklingsins.  Þar um fara bæði slagæðar og bláæðar sem næra geirvörtuna og þennan stilk.  Hann sagði að þessi aðferð væri algeng en fleiri aðferðir væru til. 

Aðspurður kvaðst hann ekki minnast þess að neitt sérstakt hefði komið upp við aðgerð þá, sem hér um ræðir.  Þetta hafi verið eðlileg aðgerð. 

Ólafur sagði að eftir aðgerðina aðgerðardaginn hafi hann líklega ekki séð stefnanda aftur fyrr en á svokallaðri „vöknun".  Þá hafi þegar komið dálítið blóð, úr hægri keranum meira, þeir hefðu virkað vel og skilað blóði.  Um minnkandi blæðingu hefði verið að ræða.  Eftir þennan dag hefði hann farið heim.  Síðan hefði hann verið á vakt fyrir almennu skurðlækningadeildina eða almennu handlæknisdeildina næstu tvo sólarhringa.  Kvaðst hann vera sannfærður um að hafa séð Jórunni á laugardeginum [24. ágúst].  Þá hafi liturinn á báðum geirvörtum verið góður og brjóstin mjúk, drenið virkt.  Hann kvaðst ekki geta fullyrt að hann hafi séð hana á sunnudeginum.  Hann kvaðst vita að hann var í húsinu þann dag og því ekki ólíklegt að hann hefði litið til hennar en hann kvaðst ekki muna eftir því.  Síðan kvaðst hann hafa séð hana á mánudagsmorgni [26. ágúst] á stofugangi.  Síðan hafi hann séð hana á þriðjudeginum, fyrst að morgni, síðan kallaður til hennar að kvöldi þess dags.  Þá hefði verið kominn blámi í efri brún geirvörtu.

Ólafur sagði að alltaf væri læknir á vakt á sjúkrahúsinu, ekki sé alltaf genginn stofugangur á sunnudögum en alltaf á laugardögum.  Stofuganga sé þó á sunnudögum ef þannig standi á að þörf sé fyrir það.  Ekki væri því hægt að fullyrða að læknir hefði litið til stefnanda sunnudaginn 25. ágúst 1991. 

Lagt var fyrir Ólaf dskj. nr. 15, sem er myndrit af vinnuskýrslu Ólafs hjá Ríkisspítölum tímabilið 16. ágúst 1991 til 31. ágúst 1991.  Hann sagði að skýrslan sýndi viðveru sína á sjúkrahúsinu þessa daga.

Lagt var fyrir Ólaf dskj. nr. 3, sem er myndrit af sjúkraskrá Jórunnar á Landspítalanum 22. ágúst 1991 til 30. ágúst 1991.  Ólafur var spurður hvenær sé ljóst af skráningu á þessu tímabili að alvarlegar blóðrásatruflanir eru farnar að hrjá Jórunni.  Hann svaraði því til að það hefði verið á kvöldvaktinni þann 27.  Hann hefði þá verið kallaður til vegna þess að þá var mar í brjóstinu og kominn blámi í efri hluta geirvörtunnar.

Ólafur kvaðst halda að stefnandi hafi fengið „trombosumyndun venumegin" í flipanum.  Þeir hafi getað verið að myndast að einhverju leyti dagana eftir aðgerð þó það hafi ekki verið að neinu marki fyrstu dagana vegna þess að geirvörtur höfðu góðan litarhátt þá og ekkert hefði fundist við þrýsting á geirvörtu um að blóðrásin væri ekki í lagi.  Þannig hafi það verið með geirvörtur Jórunnar alveg fram á fjórða dag eftir aðgerð en þá hafi blámi sést efst í geirvörtunni.  Blámi gefi til kynna að eitthvað hindri frárennsli í háræðakerfinu.  Ef stífla hefði orðið í slagæðakerfinu hefði fölvi sýnt það. 

Ólafur sagði að „segamyndun" eins og hér um ræðir sé algengari hjá kvenfólki en karlmönnum og því talið vera vegna þeirra hormóna sem kvenfólki fylgja.  Það sé velþekkt hjá fólki sem reykir.  Reykingar stórauki hættu á „segamyndun".  Síðan sé þetta þekkt í flipum almennt.  Þegar gerð er flipaaðgerð sé lifandi vefur með ákveðnu æðaneti skorinn út.  Þá eru ákveðnar æðar, sem bæði færa blóð að og frá, teknar frá vefjum, er eftir standi næst sárinu.  Blóðrásin í þessum vefjum sé því viðkvæm. „Segar" geti komið upp þó ekki sé reykt.  Ólafur kvaðst ekki sjá hvað hægt hefði verið að gera til að koma í veg fyrir þessa sýkingu hjá stefnanda.

Lagt var fyrir Ólaf dskj. nr. 4, sem er myndrit af sjúkraskrá Jórunnar á Landspítalanum 26. september 1991 til 1. október 1991.  Aðspurður kvaðst Ólafur ekki hafa samið texta, þar sem nafn hans er vélritað innan sviga undir málsgreinum í skránni.  Viðkomandi aðstoðarlæknir hefði vafalaust gert það. 

Ólafur kvaðst hafa gert eitthvað á bilinu tvö- til þrjúhundruð brjósta-minnkunaraðgerðir og mest notað þá aðferð sem notuð var við aðgerðina á Jórunni.

 

Sigurður Egill Þorvaldsson læknir kom fyrir dóm sem vitni.  Lagt var fyrir vitnið dskj. nr. 5, sem er myndrit af sjúkraskrá stefnanda hjá Borgarspítalanum, skurðlækningadeild, 25. ágúst 1992 til 27. ágúst 1992.  Kvaðst hann kannast við þessa skrá.  Sigurður kvaðst fyrst hafa séð stefnanda, Jórunni, 9. janúar 1992.  Hann kvað Jórunni þá hafa verið með ör eftir brjóstaminnkun og vinstri geirvartan hafi verið talsvert hástæðari en sú hægri.   Það hafi verið mesta lýtið, skort hefði samræmi þar.  Hann sagði að sjúkrasagan eins og hún kemur fram í sjúkraskránni sé byggð á útskriftarbréfi frá Landspítalanum.  Hann sagði að sjúkrasaga sé að jafnaði skráð eftir frásögn sjúklings.  Hann sagði að Hlíf Steingrímsdóttir aðstoðarlæknir hefði tekið og skráð sjúkrasöguna.  Hann staðfesti það sem fram kemur í myndriti af bréfi, er undirritað er af honum, og lýsir læknisaðgerð á Jórunni á skurðlækningadeild Borgarspítalans 26. ágúst 1992, en bréf þetta er hluti af sjúkraskránni [dskj. nr. 5]. 

Sigurður sagði m.a. að eftir útskrift af Borgarspítala 27. ágúst 1992 hafi stefnandi komið til hans á stofu 31. ágúst 1992.  Skipt hafi verið um umbúðir á sárum.  Þann 3. september 1992 hefði hún komið til að láta taka burt sauma að hluta.  Kvaðst hann ekki hafa skráð hjá sér frekar komur hennar til hans.

Hann sagði að þekkt væru áhættuatriði varðandi skurðaðgerðir slíkar sem hér um ræðir.  Ekki væri unnt að sjá fyrir um aukakvilla hjá hverjum og einum einstaklingi.  Af stórum uppgjörum verði ráðið að aukakvillar hafi vissa tíðni og koma alltaf fyrir öðru hverju þegar litið sé til mjög stórs sjúklingahóps.  Þekkt séu áhættuatriði í sambandi við aðgerðir sem þessar.  Ekki sé unnt að segja fyrir hvernig ör muni líta út eftir aðgerð, það sé einstaklingsbundið.  Áhætta sé þegar um flipaaðgerðir sé að ræða svo sem þessi var hvað varðar blóðrás, en um meiri áhættu hjá einum einstaklingi en öðrum sé alltaf að ræða.  Áhættan sé meiri hjá reykingafólki.  Almennt sé þó alltaf áhætta hvað varðar blóðrás.  Alvarlegasta áhættan sé sú hvort geirvartan eftir svona aðgerð njóti nægilegrar blóðrásar.  Ekki sé unnt að meta það fyrir fram.  Þetta megi segja að sé undir tilviljun komið þó að talið sé að sumar konur, t.d. þær, sem hafa mjög stór og sigin brjóst, þær sem reykja og þær sem hafa sykursýki séu í meiri áhættu hópi en aðrar.

 

Jóhannes Jens Kjartansson læknir kom fyrir dóm sem vitni.  Lagt var fyrir hann dskj. nr. 6, sem er myndrit af  sjúkraskrá stefnanda á St. Jósefsspítala í Hafnarfirði á tímabilinu 26. október 1993 til 29. október 1993.  Hann kvaðst þekkja hana og sagði m.a. að þetta hefði verið á þeim tíma þegar Rafn Ragnarsson læknir var í Domus Medica en sjálfur hafi hann þá verið yfirlæknir eða sérfræðingur við St. Jósefsspítala.  Rafn hefði leitað til hans og spurt hann hvort þeir gætu ekki kíkt saman á Jórunni, sem hefði lent í skakkaföllum vegna brjóstaminnkunaraðgerðar.  Það hefði verið auðsótt.  Hann hefði litið á Jórunni.  Þeir hefðu síðan ákveðið að gera aðgerð á henni til að lagfæra brjóst hennar. 

Jóhannes Jens sagði að ástand brjósta Jórunnar hefði verið þannig, þegar hann leit fyrst á hana, að lítið hafi verið eftir af hægri brjóstvörtunni, húð hefði verið flutt á hluta af sárunum neðan við brjóstvörtuna og brjóstið hefði verið frekar lítið vinstra megin.  Á vinstra brjósti hefði einnig verið skaði eftir drep.  Hann kvaðst aðspurður ekki minnast þess að Jórunn hefði kvartað undan verkjum í brjóstunum en mikill örvefur hefði verið til staðar.  Hann kvaðst halda að einhvers konar vefjadrep félli til í tveim til þremur brjóstaaðgerðum af hverjum hundrað aðgerðum.  Í þessu tilviki hefði það verið með verra móti.  Hann kvaðst ekki minnast þess að Jórunn hefði kvartað um hreyfihömlun á hægri hendi vegna örvefja. 

Jóhannes Jens staðfesti að hafa ritað bréf það sem kemur fram í myndriti á dskj. nr. 26.  Hann sagði að það væri vel þekkt að reykingar væru áhættuatriði eftir brjóstaminnkunaraðgerðir.  Hann sagði að hann varaði fólk við, ef viðkomandi reykti, að reykja nokkrum vikum fyrir aðgerð, þegar það væri að fara í brjósta-minnkunaraðgerðir, og legði fyrir það að reykja alls ekki meðan sárin væru að gróa.

 

Rafn Alexander Ragnarsson læknir kom fyrir dóm sem vitni.  Hann staðfesti að hafa ritað bréf til lögmanns stefnanda, sem fram kemur í myndriti á dskj. nr. 29.  Kvaðst hann hafa ritað bréfið vegna fyrirspurnar frá lögmanninum. Hann greindi og frá hlutdeild sinni í lagfæringum á brjóstum stefnanda og svaraði fyrirspurnum lögmanna aðila og sérfróðra dómara í því sambandi.  Hann staðfesti að hafa sent Tryggingastofnun ríkisins bréf, sem fram kemur í myndriti á dskj. nr. 28, og staðfesti læknisvottorð sitt, sem fram kemur á dskj. nr. 65.  Hann staðfesti að hafa ritað bréf til framkvæmdastjóra lækninga á skrifstofu Ríkisspítalanna, sem fram kemur í myndriti á dskj. nr. 64. 

Rafn kvaðst sjálfur hafa gert hundruð brjóstaaðgerða og komið hafi fyrir að sjúklingur hjá honum hefði fengið drep í sárin vegna blæðingar eftir á.  Allir lýtalæknar lendi í þessu fyrr eða síðar.

 

Gerður Jónsdóttir læknir kom fyrir dóm sem vitni.  Lagt var fyrir vitnið dskj. nr. 67, sem er myndrit af útprentun úr dagbók Heilsugæslustöðvarinnar í Efra Breiðholti varðandi stefnanda á tímabilinu 4. apríl 1991 til 9. mars 1999.  Staðfesti hún að skjalið væri útprentun úr dagbók heilsugæslustöðvarinnar [prentað út 26.03.99].  Gerður sagði m.a. að Jórunn hefði fyrst leitað til sín eftir brjóstaminnkunaraðgerðina 27. nóvember 1991 til að fá vottorð um staðfestingu á veikindum sínum því að hún hafði leitað til félagsmálastofnunar til að fá fjárhagslegan stuðning.  Hún staðfesti að hafa greint þunglyndi hjá stefnanda 28. febrúar 1996 og veitt henni róandi lyf.

Lagt var fyrir vitnið dskj. nr. 24, sem er myndrit af vottorði vegna umsóknar stefnanda til Tryggingastofnunar um örorkubætur, dags. 15. apríl 1993.  Gerður staðfesti nafnritun sína á skjalið og að efni þess væri frá henni komið.  Þá staðfesti hún að vottorð, sbr. dskj. nr. 27 og 36, væri frá henni komið.  Spurt var hvaðan hún hefði haft þær upplýsingar að við brjóstminnkunaraðgerð á stefnanda hafi stíflast dren „sem varð til þess að stórt haematom myndaðist."  Kvaðst hún ekki alveg vita það nú með vissu en líklegt væri að hún hefði fengið þessar upplýsingar frá Jórunni eða úr læknabréfi frá sjúkrahúsi.  Hún staðfesti og að dskj. nr. 44 og 66 væri læknisvottorð varðandi stefnanda er væri frá henni komið sem heimilislækni stefnanda.  Hún sagði að nokkrum árum eftir brjóstaaðgerðirnar hafi farið að bera á stoðkerfisveikleikum hjá stefnanda, þreytu og óþoli fyrir kulda.  Stefnandi hafi kvartað undan þrotatilfinningu og bjúgsöfnun.  Þessi einkenni hafi verið viðvarandi undanfarin ár.

Aðspurð sagði Gerður að á árinu 1995 hafi komið fram hjá stefnanda mikil og vaxandi stoðkerfisvandamál.  Stefnandi hafi verið send á árinu 1994 í sjúkraþjálfun út af stoðkerfisvandamálum.  Læknirinn var spurður hvað af þeim líkamlegu einkennum, sem lýst er í fjórðu málsgrein læknisvottorðsins frá 24. júní 1997 [dskj. nr. 49], megi  beinlíns rekja til brjóstaminnkunaraðgerðarinnar.  Lýsti hún því í nokkru máli.

Gerður var beðin um að skýra hvaðan hún hafi það sem fram kemur á dskj. nr. 24, þar sem segir: „Daginn eftir aðgerð fer hún að kvarta um þrýsting í hæ. brjósti.  Þessi einkenni fóru versnandi og á þriðja degi var hún komin með stórt haematoma utanvert í hæ. brjóst og í kjölfarið vaxandi necrosu" en ekkert í læknabréfi Landspítalans hafi gefið tilefni til þessara orða.  Gerður taldi að væri þetta ekki að finna í skriflegum heimildum væru þetta munnlegar upplýsinga frá stefnanda, Jórunni.

 

Sigurjón Sigurðsson læknir kom fyrir dóminn sem vitni.  Lagt var fyrir hann dskj. nr. 46, sem er matsgerð, mat á örorku stefnanda vegna brjóstaminnkunaraðgerðar, sem hún gekkst undir á Landspítalanum 23. ágúst 1991.  Staðfesti hann að hafa unnið þessa matsgerð ásamt Júlíusi Valssyni lækni.  Hann sagði m.a. að í mati á varanlegri örorku stefnanda [tuttugu af hundraði] hefðu verið teknar bæði andlegar og líkamlegar afleiðingar af brjóstaminnkunaraðgerðinni.  Hann sagði að líta yrði svo á að tímabundin örorka stæði meðan læknismeðferð færi fram vegna veikinda, er um væri að tefla, en varanleg örorka tæki síðan við ef um hana væri að ræða.  Tímabundin örorka væri í flestum tilvikum 100% vegna þess að á þeim tíma væri ekki um vinnu að ræða hjá sjúklingi.  Hann játaði að niðurstaða örorkumatsins væri byggð á því að tímabundin og varanleg örorka væri hvort tveggja 20%.  Hann sagði að sex eða sjö ár hefðu liðið frá því að umdeild aðgerð fór fram og þar til örorkumatið var gert.  Niðurstaðan hefði orðið sú vegna þess hve erfitt væri að taka á þessu að hafa tímabundna örorku eins og varanlega örorku. 

Aðspurður taldi Sigurjón að þeir hefðu metið andleg óþægindi stefnanda einn þriðja hluta af örorku stefnanda á móti tveimur þriðju líkamlegra einkenna.  Hann sagði að örvefsmyndunin í kringum brjóst stefnanda sem gerði það að verkum að handleggurinn varð ekki fullkomlega hreyfanlegur og að öllum hreyfingum hans fylgdi sársauki - að handleggurinn varð ekki eins nothæfur og ella, væru hinar líkamlegu afleiðingar.  Hann kvaðst ekki þekkja til þess að andlegar afleiðingar annarra brjóstaminnkunaraðgerða hefðu orði með sama hætti og hér.

 

Högni Óskarsson læknir kom fyrir dóm sem vitni.  Lagt var fyrir Högna dskj. nr. 50, sem er matsgerð hans á geðrænni örorku stefnanda.  Staðfesti hann að hafa unnið þessa matsgerð.  Hann gerði m.a grein fyrir því hvernig hann hefði komist að niðurstöðum sínum og til hvaða gagna hann hefði leitað í því sambandi.  Hann kvaðst ekki geta fullyrt að þunglyndiseinkenni hefðu verið til staðar hjá stefnanda þegar hún fór í brjóstaminnkunaraðgerðina 1991.  Ekkert í hans gögnum hefði bent til þess að mánuðum eða árum rétt fyrir aðgerðina hefði hún verið haldin þunglyndi að öðru leyti en því að ári fyrir aðgerðina hafi hún orðið þunglynd eftir barnsburð.

Lagt var fyrir Högna dskj. nr. 52, sem er myndrit af bréfi hans til lögmanns stefnanda, dags. 12. desember 1997, en þar segir undir fyrirsögninni niðurstaða:

 

1) Vinnugeta frá aðgerð í ágúst 1991 til þessa dags: Að mati undirritaðs hefur Jórunn verið að mestu óvinnufær á þessum tíma vegna þunglyndis og vegna samspils líkamlegra og andlegra einkenna.

2) Vinnugeta nú:  Ástand er að mestu óbreytt, þó hefur jákvæð lyfjasvörun um tíma aukið vinnugetu tímabundið.

3) Vinnugeta til frambúðar:  Varanleg örorka hefur verið metin 20%, og þá með sérstöku tilliti til líkamlegra einkenna.  Undirritaður telur, að vinnugeta muni verða skertari en þetta, vegna vaxandi tilhneigingar til þunglyndis sem afleiðing af samspili varanlegra líkamlegra einkenna, verri félagslegra aðstæðna en áður og geðrænna þátta.

Er það mat undirritaðs, að örorka muni vera meiri en 75% út næsta ár meðan Jórunn stundar frekari endurhæfingu, en varanleg örorka muni vera 35% eftir það.

 

Staðfesti Högni að bréf þetta væri frá honum komið.  Hann sagði að 75% markið á örorku, sem þar standi, sé miðað við ályktun frá Tryggingastofnun ríkisins á þeim tíma, sem hann hefði álitið varanlegt til lengri tíma litið.

 

Liv Synöve Þorsteinsson sjúkraliði kom fyrir dóminn sem vitni.  Hún sagði m. a. að hún hefði unnið á lýtalækningadeild Landspítalans þegar stefnandi, Jórunn, fór í aðgerðina árið 1991.  Hún kvaðst hafa spurt Jórunni á sínum tíma hvort hún hefði lesið bæklinginn um brjóstaminnkun [sbr. dskj. nr. 13].  Hefði hún neitað því.  Liv kvaðst muna í aðalatriðum eftir dvöl Jórunnar á spítalanum.  Hún kvaðst muna eftir að Jórunn hefði reykt því að þær hefðu reykt saman úti á svölum.  Hún sagði að þær hefðu reykt eitthvað svipað - tvær, þrjár í einu þegar þær fóru út.

 

Kristín Jónsdóttir hjúkrunarfræðingur kom fyrir dóm sem vitni.  Hún sagði m.a.  að hún hefði unnið á lýtalækningadeild Landspítalans frá 1980 til 1997.  Hún kvaðst lítillega muna eftir stefnanda, Jórunni.  Lögð var fyrir Kristínu sjúkraskrá, sem kemur fram á dskj. nr. 3, hluti sem nefndur er: „UPPLÝSINGAR FYRIR HJÚKRUN."  Kvaðst hún hafa skráð þær upplýsingar sem þarna eru.  Þar er skráð: „Reykt pk. á dag sl. 16 ár."  Hún kvaðst halda að hún hefði fengið þessar upplýsingar frá Jórunni.  Þær hefðu rætt saman kvöldið fyrir aðgerð.  Hún sagði að reykingar hefðu ekki verið ræddar sérstaklega af hjúkrunarfræðingum sem áhættuþáttur.  Kvaðst hún ætla að hún hefði afhent stefnanda bæklinginn um brjóstaminnkun.  Hún kvaðst ekki treysta sér til að svara því hvort hún hefði farið yfir efni bæklingsins með stefnanda.  Hún sagði að öllum sjúklingum hefði verið sýndur þessi bæklingur.  Kvaðst hún hafa veitt stefnanda ákveðna fræðslu um aðgerðina svo sem verið hefði skylda hennar.  Hún taldi ólíklegt að tappað hefði verið blóði af stefnanda í svokölluðu skiptiherbergi af lækni án þess að það væri skráð í hjúkrunarskýrslu.  Hún kvaðst ekki kannast við það að hjúkrunarfræðingur hefði tappað blóði úr sogdreni á stefnanda með sprautu án þess að það væri skráð.  Hún kvað verkjalyfjagjöf til stefnanda frá 23. ágúst til 25. ágúst 1991, svo sem fram kemur í sjúkraskrá, vera með eðlilegu móti að hennar mati.

 

Ingibjörg Nielsen hjúkrunarfræðingur kom fyrir dóm sem vitni.  Hún sagði m.a. að venja væri að ræða efni bæklingsins um brjóstaminnkunaraðgerð við sjúklinga áður en þeir fari í aðgerð.  Hún kvaðst ekki muna eftir neinu sérstöku varðandi dvöl stefnanda á spítalanum eftir aðgerðina fyrr en það hefði komið upp að ástand hennar var farið að versna, ekkert fyrst.  Hún kvaðst hafa verið á vakt 24. og 25. [ágúst].

 

Lilja Pálsdóttir hjúkrunarfræðingur kom fyrir dóm sem vitni.  Hún sagði m.a. að hún myndi eftir stefnanda á lýtalækningadeildinni á Landspítalanum á sínum tíma.  Hún kvaðst muna eftir stefnanda því hún væri ættuð frá sama bæ og hún úti á landi.  Hún hefði ekki verið málkunnug henni.  Hún hefði hitt hana í fyrsta skipti á sjúkrahúsinu.  Hún sagði að venjan hefði þá verið að hjúkrunarfræðingur á kvöldvakt fyrir aðgerð afhenti sjúklingi bæklinginn um brjóstaminnkunaraðgerð. 

Lilja sagði aðspurð að það hefði komið fyrir að læknir á deildinni spretti upp einum til tveimur saumum til að hleypa út minni háttar blæðingum hjá sjúklingi inni á deildinni í skoðunarherberginu ef þörf var á því en vanalega hefðu læknarnir ekki gert það einir, þeir hefðu yfirleitt haft hjúkrunarfræðing með sér.  Hún kvað líklegt að það hefði verið skráð ef það hefði verið gert.  Viðkomandi hjúkrunarfræðingur á vakt hefði hlotið að hafa orðið var við það vegna þess að hjúkrunarfræðingurinn hefði látið lækninn hafa bæði umbúðir og áhöld til þess.  Hún taldi mjög ólíklegt að Árni Björnsson læknir hefði hleypt blóði af stefnanda inni á deildinni án þess að það væri fært til bókar.  Hún sagði að vefjadrep kæmi fyrir af og til eftir brjósta-minnkunaraðgerð.

 

Guðrún Fjalldal hjúkrunarfræðingur kom fyrir dóm sem vitni.  Hún sagði m.a. að hún hefði starfað á lýtalækningadeild Landspítalans frá 1987 til 1992.  Hún kvaðst ekki muna sérstaklega eftir dvöl stefnanda á deildinni í ágúst 1991.  Hún kvaðst aðspurð hafa verið annar tveggja höfunda bæklingsins um brjóstaminnkun, sem oft hefur verið minnst á í þessu máli [dskj. nr. 13].  Hún sagði að bæklingurinn hefði fyrst verið gefinn út í mars 1991. Hún sagði að bæklingurinn um brjóstaminnkun hefði legið frammi á deildinni í ágúst 1991 og tilgangurinn hefði verið að sýna hann öllum sjúklingum sem fóru í aðgerðina.  Hjúkrunarfræðingarnir hefðu afhent sjúklingum bæklinginn.  Bæklingurinn hefði átt að vera til stuðnings hjúkrunarfræðingi sem fór með sjúklingi yfir aðgerðina kvöldið áður en aðgerð fór fram svo sem venja var.

 

Jóhann Bjarni Loftson sálfræðingur kom fyrir dóm sem vitni.  Lagt var fyrir hann dskj. nr. 48, sem er myndrit af bréfi frá honum, dags. 19. júní 1997, varðandi stefnanda til „þeirra sem málið varða."  Hann staðfesti undirskrift sína undir bréfið;  að efni þess væri rétt og frá honum komið.  Hann sagði m.a. að Jórunn hefði fyrst leitað til hans 17. september 1985.  Þá hefði hún nýlega verið búin að fara í áfengismeðferð og var byrjuð að lifa án þess að neyta áfengis.  Hún hafi verið alin upp við mjög hömlulaust heimilishaldi þar sem áfengismisnotkun var mikil og heimilishald rak mikið á reiðanum þannig að hún hefði átt mjög erfitt með að setja félagsleg mörk í öllum samskiptum, ekki síst í sambúð.

Hann lýsti þessu frekar og gerði grein fyrir að stefnandi hefði byggt upp sjálfstraust og sjálfsvirðingu undir handleiðslu hans.  Hann kvaðst hafa lagt fyrir hana persónuleikapróf og niðurstaða  þess hefði ekki sýnt nein einkenni sem teljast mættu sjúkleg, hvorki þunglyndi né annað.  Eftir aðgerðina í ágúst 1991 hefði hún leitað til hans 6. september 1991, skv. því sem hann hefði bókað.  Eins og hann sá hana kvað hann hana hafa byrjað í ákveðinni afneitun á því sem var að gerast hjá henni.  Ekki sé hægt að segja að allt í einu hefði orðið skyndilegt hrun hjá henni eftir aðgerðina,  heilmikil afneitun hafi verið í gangi hjá henni - þetta gat bara ekki verið að gerast að hennar áliti.  Það hafi ekki verið fyrr en seinna sem hún hefði gert sér grein fyrir hvað hún var að fara í gegnum.  Það hefði tekið hana töluverðan tíma að átta sig á alvöru málsins.  Þá hafi sjálfstraust hennar byrjað að brotna niður vegna þess m.a. að brjóst hennar voru allt öðruvísi en hún hafði gert ráð fyrir að þau kæmu út eftir aðgerðina.  Hún hefði samtímis þurft að berjast við endalausan sársauka og aðra erfiðleika.  Sjálfstraust hennar hafi smám saman brotnað niður.  Það hefði verið að gerast á um það bil fjórum til sex mánuði en ekki sé mögulegt að tímasetja þetta nákvæmlega.

Jóhann sagði að komið hefðu fram þunglyndiseinkenni hjá stefnanda við þetta mótlæti.  Hann sagði að stefnandi hefði verið lengi að vinna sig út úr þessari kreppu og varla sé hægt að segja því lokið.  Hann sagði að hún hefði lengi leitað til hans og geri það enn, hægt og rólega sé verið að byggja upp sjálfstraust hennar.  Hann sagði að Jórunn Anna væri mikil baráttukona en hún væri ekki búin að vinna sig út úr þessari kreppu þó að hún beri sig vel.

 

Ólafur Pétur Jakobsson læknir, sem býr í Svíþjóð, gaf vitnisburð gegnum síma.  Hann staðfesti að vottorð, dags. 22. ágúst 1996, sem liggur frammi í málinu sem dskj. nr. 43, sé frá honum komið.  Hann sagði að nýrri gögn í málinu, sem hann hefði fengið send, hefði ekki breytt ályktun hans svo sem hann greinir frá í vottorðinu.  Hann rökstuddi í stuttu máli niðurstöðu vottorðsins og hvernig hann hefði komist að henni og svaraði spurningum sem beint var til hans í því sambandi.

Ólafur sagði að niðurstöður sínar væru ekki byggðar á framburði stefnanda, sbr. tl. 2 og 3 á bls. 6 í vottorðinu.  Þessi lýsing á sjúkrasögu stefnanda komi frá stefnanda, eins og tekið sé fram, og hafi engin áhrif haft á niðurstöðu hans.  Hann sagði að orð sín í niðurstöðu, að kerarnir hefðu stíflast á fyrstu klukkustundum eftir aðgerð, væru byggð á reynslu hans af svona aðgerðum.  Hann kvaðst hafa farið eftir sjúkraskránni sem greindi frá verkjum hjá stefnanda eftir aðgerðina - að brjóstið hefði verið spennt.  Komi fram í sjúkraskránni að tæmt hefði verið storknað blóð úr brjóstinu.  Ef kerarnir hefðu verið í lagi hefði ekki safnast blóð fyrir í brjóstinu sem síðan hefði storknað.  Hann kvaðst ekki geta fullyrt að blóðrásin í brjóstinu hefði truflast vegna blæðingar.

 

Oddur Guðjón Pétursson kom fyrir dóm sem vitni.  Lagt var fyrir Odd dskj. nr. 63, sem er myndrit af bréfi, dags. 7. desember 1998.  Hann staðfesti að hafa undirritað bréfið og að efni þess væri rétt.

 

Þá gáfu skýrslu Sigurður Sigurðsson, faðir stefnanda, og Stefanía Guðrún Þorbergsdóttir, móðir stefnanda.

 

Gunnlaugur Geirsson  prófessor, er situr í réttarmáladeild læknaráðs, gaf skýrslu fyrir rétti 6. nóvember 2002.  Lagt var fyrir hann dskj. nr. 199, sem er álit læknaráðs frá 18. desember 2002, byggt á niðurstöðu réttarmáladeildar og varðar stefnanda.  Hann staðfesti að réttarmáladeildin hafi fjallað um málið svo sem þar greinir.

Hann kvaðst hafa fengið skjöl málsins frá 1 til 198 þann 8. maí 2001.  Hann kvaðst hafa kynnt sér álitsgerð Ólafs Péturs Jakobssonar sérfræðings í lýtalækningum er varðar málið.  Hann sagði aðspurður m.a. að hann væri ekki sammála Ólafi að keri hefði stíflast í hægra brjósti stefnanda fljótlega eftir aðgerðina.  Hann kvaðst vísa til álits Ottós Guðjónssonar lýtalæknis, er sæti átti í réttarmáladeild, er deildin fjallaði um málið.  Sjálfur kvaðst hann vera menntaður meinafræðingur og ekki hafa sömu þekkingu á lýtalækningum og Ottó.  Frá almennu sjónarmiði séð verði þó ályktað að ekkert komi úr kera sem er stíflaður.

Hann sagði að læknaráð hefði ákveðið að Sigurður Guðmundsson og Sigurður Thorlacius fjölluð um umsögn læknaráðs varðandi svör við spurningum nr. 7 og 8 [ 7. Er læknaráð sammála örorkumati Júlíusar Valssonar og Sigurjóns Sigurðssonar um 20% örorku?  8. Er læknaráð sammála örorkumati Högna Óskarssonar um 35% örorku?].

Aðspurður kvað hann læknaráð ekki hafa rætt um fjölda kvartana vegna Ólafs Einarssonar [lýtalæknis].  Ekki hafi borið á góma að fleiri hefðu fundið að störfum hans en annarra lýtalækna.  Hann kvað það hafa verið rétta ákvörðun og aðferð að auka blóðstreymi hjá stefnanda með lyfjagjöf eftir aðgerðina eins og gert var, sökum þess að allt sem auki blóðflæði dragi úr líkum á storknun og auki súrefni til vefjanna - en of lítið súrefni valdi vefjadrepi.  Hann taldi að aukið blóðstreymi þurfi ekki að leiða til aukins þrýstings.  Hann sagði að læknaráð hefði byggt á hjúkrunarskýrslum þá skoðun að gott daglegt eftirlit hafi verið með framvindu stefnanda eftir aðgerðina.

Gunnlaugur sagði að læknaráð hafi rætt og tekið afstöðu til þess sem fram kemur í bréfi Árna Björnssonar yfirlæknis til landlæknis 6. nóvember 1992 [dskj. nr. 22.] þar sem segir m.a.: „Það kom blæðing í skurðsárið hægra megin og myndaðist haematom, sem var tæmt hinn 28-08.  Þessi blæðing leiddi af sér drep í geirvörtu og hluta af húðinni á brjóstinu..."  Afstaða læknaráðs varðandi þetta komi fram í svari þess við spurningu nr. 5 í umsögn læknaráðs.

 

Sigurður Guðmundsson landlæknir gaf skýrslu fyrir dómi.  Hann sagði m.a. að hann sem forseti læknaráðsins stæði við það sem kæmi fram í áliti ráðsins enda þótt álit læknaráðsins væri í nokkru frábrugðið áliti landlæknisembættisins frá 9. júní 2000.  Kvaðst hann ekki hafa talið ástæðu til að skila séráliti í læknaráði þó að niðurstaða læknaráðs viki að nokkru frá því hvenær honum hefði þótt rétt að gripið hefði verið inn í atburði í áliti sínu frá 9. júní 2000.  Í læknaráði hefði hann komið fram sem forseti ráðsins, allt ráðið hefi staðið að baki álitinu, og legið hefðu fyrir álit sérfræðinga því til fulltingis.  Þetta sýni að vísu hversu mat á atburðum eftir aðgerð af þessu tagi geti verið „klínískt" mjög erfitt.  Hann hafi ekki séð ástæðu til að fara að skila séráliti forseta ráðsins eftir að meirihluti hefði komist að niðurstöðu.

Sigurður, sem sjálfur er sérfræðingur í lyflækningum, sagði að Ottó Guðjónsson lýtalæknir hafi verið kallaður til sem ráðgjafi.  Hann og aðrir læknaráðsmenn hafi rætt mjög mikið um málið bæði formlega og óformlega.  Til að vinna að svari læknaráðs við spurningum til ráðsins númer 7 og 8 er vörðuðu örorkumat hafi mest verið leitað til álits Sigurðar Thorlacius tryggingayfirlæknis.

Sigurður sagði að læknisaðgerðir, skurðaðgerð, lyfjameðferð eða annað, geti farið úrskeiðis og endað með hörmungum án þess að um mistök læknis eða annars heilbrigðisstarfsfólks sé að ræða.  Enginn ágreiningur sé um að afleiðingar skurðaðgerðar er hér um ræðir hafi verið hörmulegar en á hitt beri að líta að læknisfræði sé ekki óskeikul, mikið rými og efni sé til þess að læknisaðgerð fari úrskeiðis án þess að mistök hafi átt sé stað.  Læknaráð hafi fjallað um þá spurningu hvort mistök hafi orðið.  Matið hafi verið byggt á þekktum aðstæðum og fræðilegum forsendum.

Hvort mistök hafi orðið varðandi staðsetningu á geirvörtu sagði Sigurður að það væri ekki alveg víst.  Hún hafi getað færst úr stað í kjölfar ýmissa atburða sem hugsanlega hafi gerst eftir aðgerð svo sem eins og örvefsmyndunar, blæðingar, sýkingar og ýmiss konar fylgikvilla.

Aðspurður sagði Sigurður að Ólafur Einarsson skæri sig síður en svo úr hópi annarra lækna varðandi þann fjölda kvartana og kæra er bærust landlæknisembættinu.  Miðað við þær upplýsingar sem embættið hefði væri ferill Ólafs góður sem læknis og skurðlæknis.

 

Hannes Pétursson prófessor, er situr í réttarmáladeild læknaráðs, gaf skýrslu fyrir rétti 18. desember 2002.  Hann sagðist ekki hafa fjallað um mál það er hér væri fyrir dómi.  Sökum vanhæfis sérfræðinga í lýtalækningum hér á landi á þeim tíma til að fjalla um þetta sérstaka mál hafi Ottó Guðjónsson lýtalæknir, sem þá starfaði erlendis, verið fenginn til að taka sæti í réttarmáladeild við umfjöllun þess og átt mestan þátt í álitsgerðinni ásamt formanni réttarmáladeildar.  Sjálfur kvaðst Hannes hafa verið fjarverandi þegar læknaráð fundaði um málið 14. og 18. desember 2001 og ekki tekið þátt í umsögninni.  Hafi hann þó samþykkt að gera álit Ottós að áliti réttarmáladeildar.  Kvað hann sérgrein sína vera geðlækningar en þetta hafi verið mjög sértækt mál sem nauðsynlegt hefði verið að fá sérfræðing í lýtalækningum til að fjalla um.

 

Ottó Guðjónsson lýtalæknir gaf skýrslu fyrir rétti.  Hann sagði m.a. að hann hefði komið að þessu máli með þeim hætti að landlæknir hafi haft samband við hann og beðið hann um umsögn um málið.  Kvaðst hann hafa fengið stóran bunka af skjölum sendan til sín varðandi það.  Ekki geti hann þó fullyrt að öll málskjölin á þeim tíma hafi verið í bunkanum.  Hafi hann lesið yfir og kynnt sér þessi skjöl og varið til þess þremur kvöldum, samtals á tólf til fimmtán tímum.  Hann kvaðst ekki muna nákvæmlega hvenær hann hefði fengið þessi gögn send en taldi að hann hafi fengið þau með nægilegum fyrirvara til að svara beiðninni á tilsettum tíma.  Hann kvaðst aðspurður muna eftir að hafa fengið í hendur sjúkraskrá frá lýtalækningadeild Landspítalans [varðandi stefnanda] um tímabilið 22. ágúst 1991 til 30. ágúst 1991.  Þá kvaðst hann muna eftir að hafa fengið í hendur sjúkraskrár frá göngudeild spítalans varðandi stefnanda tímabilið 26. september 1991 til 1. október 1991.  Einnig kvaðst hann muna eftir að hafa séð sjúkraskrá varðandi stefnanda tímabilið 25. ágúst 1992 til 27. ágúst 1992.  Hann kvaðst ekki muna hvort hann hefði séð vottorð frá Ólafi Pétri Jakobssyni lækni ásamt fylgiskjölum, sem fram kemur á dskj. nr. 43, en sagðist muna að hann hafi lesið álitsgerð frá Ólafi en ekki hvort hún hafi verið samhljóða dskj. nr. 43.

Lagt var fyrir Ottó dskj. nr. 46, sem er matsgerð Júlíusar Valssonar læknis og Sigurjóns Sigurðssonar læknis varðandi stefnanda frá 12. mars 1997.  Aðspurður kvaðst hann hafa lesið yfir stóran bunka af skjölum varðandi málið og kvaðst ætla að þetta hafi verið eitt af þeim.  Þá var lagt fyrir Ottó dskj. nr. 50 og dskj. nr. 52, sem eru matsgerð Högna Óskarssonar geðlæknis varðandi stefnanda frá 20. september 1997 og 12. desember 1997.  Kvaðst Ottó hafa séð bréf og álitsgerð frá Högna en ekki muna hvort það hefði verið samhljóða dskj. nr. 50 og dskj. nr. 52.  Þá hafi hann séð og kynnt sér álitsgerð landlæknis varðandi málið frá 9. júní 2000 sem fram kemur á dskj. nr. 186.

Aðspurður kvaðst Ottó muna að hann hafi ekki verið sammála því áliti sem hann kynnti sér frá Ólafi Pétri Jakobssyni lækni varðandi málið en nákvæmlega hvað þeim bar í milli kvaðst hann ekki muna lengur.  Kvaðst hann hafa myndað sína eigin skoðun eftir að hafa farið yfir álit Ólafs og önnur gögn málsins.  Hann álíti að ekki hafi verið um mistök í læknisaðgerðinni að ræða heldur hafi stefnandi eftir aðgerðir átt við vandamál að stríða og aukaverkanir sem borið hefðu að án þess að greint verði að ranglega hafi verið staðið að aðgerðinni.

Lagt var fyrir Ottó dskj. nr. 199, þar sem fram kemur álit læknaráðs varðandi atriði er Hæstiréttur hafði tilgreint í dómi sínum um málið 29. mars 2001 að nauðsynlegt væri að fá frá  læknaráði áður en dómur gengi í héraði.  Kvað hann álitið meira og minna vera samhljóma greinargerð sem hann hefði skilað til landlæknis.  Kvaðst hann hafa verið staddur erlendis þegar hann samdi hana og verið einn í ráðum um efnistök og niðurstöðu.

Aðspurður staðfesti Ottó að vera þeirrar skoðunar að með því að stefnanda hafi verði afhentur upplýsingabæklingur um aðgerðina þar sem m.a. er minnst á helstu áhættur aðgerðarinnar og fengið munnlegar skýringar frá Ólafi Einarssyni lækni og öðrum áður en aðgerðin fór fram hafi ráðgjöf verið viðhlítandi.  Hann taldi og að ráðgjöf varðandi áhættu af reykingum hafi verið fullnægjandi.

Aðspurður um hvort brjóstvartan á vinstra brjósti stefnanda hafi verið sett á réttan stað eða ekki svaraði Ottó að hann hefði ekki skoðað það sérstaklega, en hafa verði í huga að matsatriði sé hvar varta er sett á brjóst, reikna þurfi með ákveðum breytingum eftir aðgerð því að þær færist svolítið til.  Því miður hafi í tilfelli stefnanda verið vandræði á ferð, allt hafi því breyst.  Ekki sé hægt að reikna með að vartan verði nákvæmlega þar sem hún er sett við skurðaðgerðina, það sígi í brjóstinu og vartan lyftist aðeins á nokkrum mánuðum eftir aðgerð.

 

V.

Niðurstaða: Rakið hefur verið að stefnandi gekkst undir brjóstaminnkunaraðgerð 23. ágúst 1991 á Landspítalanum og greint frá aðdraganda þess og eftirmálum, en stór og þung brjóst samfara vöðvabólgu í herðum og upp í háls höfðu þjakað stefnanda fyrir aðgerðina.

Ekki er deilt um að í kjölfar aðgerðarinnar fékk stefnandi drep í stóran hluta hægri geirvörtu og gera þurfti margar lýtaaðgerðir í framhaldi af upphaflegri aðgerð,  en deilt er um hvort valdið hafi saknæm og bótaskyld mistök sem stefndi beri ábyrgð á.

Stefnandi tilgreinir málsástæður sínar í fimm liðum sem stefndi svarar hverjum fyrir sig svo sem greint hefur verið frá.  Verður því fjallað um lagasjónarmið og röksemdir fyrir ályktun dómsins í sömu röð.

 

Í fyrsta lagi telur stefnandi að skort hafi ráðgjöf og samráð við stefnanda fyrir aðgerð.  Þessu var andmælt af hálfu Ólafs Jóns Einarssonar lýtalæknis  Kvaðst hann hafa sagt stefnanda frá hugsanlegum vandamálum er gætu komið upp við lýtalæknisgerð svo sem hann geri alltaf er leitað sé til hans um slíkar aðgerðir.  Hann hafi greint stefnanda frá því að alltaf væri hætta á blæðingum og sýkingum við skurðaðgerð en sérstæð hætta við brjóstaaðgerð væru þó blóðrásartruflanir og drep.

Stefnandi viðurkennir að hafa fengið fyrir aðgerðina til yfirlestrar upplýsingabækling lýtalækningadeildar um brjóstaminnkunaraðgerðir, en þar segir m.a.: „Hugsanleg vandamál eftir aðgerð eru blæðingar, sýking og blóðrásartruflun í geirvörtu, sem leitt geta til dreps í hluta eða allri geirvörtunni.  Ekki er hægt að fyrirbyggja þessi vandamál með öllu heldur verður að taka á þeim ef þau koma upp.”

             Öllum sem komnir eru til vits og ára má ljóst vera að ekki er með öllu áhættulaust að ganga undir skurðaðgerð.  Óhjákvæmilega getur skurðaðgerð valdið í örfáum tilvikum skaða sem ekki verður við ráðið þó að læknisfræðilega sé rétt staðið að verki.  Verður því að álykta að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að ákvörðun hennar að fara að lokum í brjóstaminnkunaraðgerð hafi byggst á saknæmum skorti á upplýsingum frá stefnda.

 

Í öðru lagi telur stefnandi að ekki hafi verið beitt réttri eða viðurkenndri aðferð við aðgerðina og/eða mistök hafi orðið í aðgerðinni.  Af hálfu stefnda er því mótmælt að ekki hafi verið beitt réttri og viðurkenndri aðferð enda hafi enginn þeirra sérfræðinga sem komið hafi að málinu staðfest slíkt.

Sérfróðum meðdómendum virðist sem að aðferðinni sem beitt var í þessu tilfelli hafi verið útfærsla á aðgerð sem kennd er við Strömbeck.  Er geirvartan þá látin lifa á blóðflæði sem berst um einn vefjastilk frá miðlægu hlið brjóstsins (medially based monopedicle flap).  Aðferðina telja þeir viðurkennda og mikið notaða.  Hér hafi verið um eðlilegt val við brjóstaminnkun hjá ungri konu að ræða þar sem ætla megi að máli skipti að halda tilfinningu í geirvörtu.  Sérfróðum vitnum hafi líka borið saman um að þessi aðgerðartegund hafi ekki í för með sér aukna hættu á blóðrásartruflunum umfram aðrar aðferðir þar sem geirvartan er höfð á vefjastilk, en ekki fjarlægð að fullu og grædd á aftur.  Þá hafi sérfræðingar talið eðlilegt, og ekki tengt sérstakri áhættu, að nota þessa aðferð við minnkun af því umfangi sem hér um ræðir, eða milli 500 og 600 grömm úr hvoru brjósti.

Sérfróðir meðdómendur telja að ýmsar aðferðir séu viðurkenndar og notaðar við brjóstaminnkun og fylgikvilli eins og blóðrásartruflun að því marki að valdi vefjadrepi sé vel þekkt eftir allar viðurkenndar aðferðir til brjóstaminnkunar án þess að um greinanleg mistök í framkvæmd aðgerðar sé að ræða auk þess sem ekkert sem komi fram í aðgerðarlýsingu bendi til annars en að aðgerðin hafi verið framkvæmd á hefðbundinn hátt.  Verður því ályktað að engin stoð sé fyrir því að ekki hafi verið beitt viðurkenndri eða viðeigandi læknisaðferð.

  Sérfróðir meðdómendur telja að ekki verði greint af gögnum málsins og framburði vitna að það magn af vef sem var fjarlægt hafi verið það mikið að ætla megi að það hafi aukið að marki fylgikvillahættu svo sem haldið er fram af stefnanda en andmælt er af hálfu stefnda.  Þá telja þeir að þær alvarlegu afleiðingar sem urðu á hægra brjósti verði ekki raktar til þess að óeðlilega mikill brjóstvefur hafi verið fjarlægður.  Er því hafnað að stefnandi hafi sannað að mistök hafi orðið að þessu leyti í aðgerðinni.

 

Í þriðja lagi byggir stefnandi á því að eftirliti og meðferð eftir aðgerðina af hálfu starfsmanna stefnda hafi verið verulega ábótavant.  Strax í kjölfar aðgerðarinnar hafi farið að blæða inn á hægra brjóst stefnanda og hafi sogkerar ekki náð að hreinsa blóðið út.  Þessu er vísað á bug af hálfu stefnda.

Lýsing í sjúkraskrá á ástandi kera, frá því skurðaðgerð lauk og þar til kerar voru fjarlægðir 26. ágúst, þykir ekki benda til þess að kerar hafi ekki staðist álag með eðlilegum hætti að mati sérfróðra meðdómenda.  Þá kemur fram í áliti læknaráðs að gögn málsins bendi ekki til þess að keri hafi stíflast í hægra brjósti stefnanda fljótlega eftir aðgerðina.  Í ljósi þessa m.a. verður ekki séð að nauðsyn hafi borið til þess að gera aðra aðgerð til þess að stöðva blæðingu, þar sem blæðing fór minnkandi og ekki annað séð en að kerar virkuðu sem skyldi.

Stefnandi ber að tvisvar sinnum á fyrstu dægrum eftir aðgerð hafi verið hleypt blóði eða blóðsegum úr hægra brjósti.  Hafi það verið gert á legudeildinni af tveimur mismunandi sérfræðingum.  Þar sem engar upplýsingar í sjúkraskýrslu, sem skráðar eru jafnóðum í sjúkralegunni, geta um þessi inngrip og ekki verður með óyggjandi hætti dregin ályktun af framburði vitna um þetta, verður að teljast ósannað að þessi inngrip hafi átt sér stað með þeim hætti sem stefnandi lýsir.

Samkvæmt skráningu í hjúkrunarskýrslu var fylgst reglulega með þeim þáttum sem bent gátu til blóðrásartruflunar samkvæmt almennt notuðum skilmerkjum, að mati sérfróðra meðdómenda.  Ekkert kemur fram í þeirri skráningu sem styður að merki um að blóðrásartruflun og yfirvofandi vefjadrep hafi verið greinanleg fyrr en 27. ágúst að skráð er „efri hluti vörtu bláleitur.”  Þann sama dag var annað hvert hefti fjarlægt úr sárum á hægra brjósti, gefið innrennslislyf (Macrodex) til að auka háræðablóðflæði og raförvun (TNS) beitt í sama skyni.  Þann 28. ágúst var síðan gerð enduraðgerð þar sem 100 til 200 ml af blóðstorku var hleypt út úr hægra brjósti.  Ákvarðanir um alla þessa meðferðarþætti voru teknar af sérfræðingi og er þetta, að áliti sérfróðra meðdómenda, eðlileg og viðurkennd meðferð.

Ekki verður ályktað að of seint hafi verið gripið til aðgerðar til að hleypa út blóðstorku og þannig reyna að auka gegnumstreymi blóðs um brjóstvefinn svo sem gert var.  Þetta er slíkt álitaefni, að sögn sérfróðra meðdómenda, að mælitækni af öllum gerðum hefði ekki tekið endanlega af skarið við þá ákvarðanatöku.  Almennt verði að byggja á mati þess læknis sem til slíkra aðgerðar grípur.  Læknar, sem ekki voru viðstaddir og ekki hafa annað við að styðjast en gögn þessa máls og framburð vitna og aðila, hafi ekki raunhæfar forsendur til að draga aðrar ályktanir.  Mat læknis á blóðflæði sé mikilvægast.  Við mat á merkjum um blæðingu inn í brjóst og myndun blóðgúlps séu að auki lögð til grundvallar einkenni sjúklings, og þá einkum verkir sem stafa af vefjaspennu.  Blóðgúlpur, af því umfangi að valda blóðrásartruflun í brjóstinu, veldur verulegum einkennum sem ekki verður ætlað að farið hafi fram hjá læknum og reyndum hjúkrunarfræðingum á lýtalækningadeild þar sem fjöldi brjóstaminnkunaraðgerða er framkvæmdur.  Greinargerð stefnanda og heimildum í sjúkraskrá ber ekki saman.  Að minnsta kosti 5 hjúkrunarfræðingar skráðu færslur dagana 23. ágúst til 27. ágúst og hvergi er að finna ábendingu þar um að óeðlilega miklir verkir hafi þjáð stefnanda.  Samkvæmt lyfjablaði var verkjalyfjagjöf minni en oftast er eftir brjóstaminnkunaraðgerðir fyrstu dægur eftir aðgerð, eða tveir verkjastílar að kvöldi aðgerðardags og engin verkjalyf fyrsta heila sólarhringinn eftir aðgerð.  Sé reiknað með samtals tæplega 900 ml blóðtapi aðgerðarsólarhringinn (blæðing í aðgerð og skráð blæðing í sogkera) er blóðgildi 24. ágúst 1991 eðlilegt, að teknu tilliti til þynningaráhrifa af vökvagjöf í æð.  Þetta blóðgildi styður heldur ekki að meiri háttar blóðsegasöfnun hafi þá átt sér stað í brjóstinu.  Það magn blóðstorku sem hleypt var út úr hægra brjósti við aðgerðina 28. ágúst bendir heldur ekki til þess að um meiri háttar blóðgúlpsmyndun hafi verið að ræða á fyrsta sólarhring eftir aðgerð.

Hvorki kemur fram í gögnum málsins né verður byggt á almennri reynslu af meðferð vefjadreps að hægt hefði verið að hafa áhrif á umfang drepsins í hægra brjósti með sértækum aðgerðum sem aðeins verði við komið á sjúkrahúsi.  Þannig verður ekki fallist á að verulegar líkur séu á að takmarka hefði mátt drepið með því að seinka útskrift.  

Gegn mótmælum stefnda verður því samkvæmt framangreindu ekki fallist á að eftirlit hafi verið ónógt eða eftirmeðferð ófullnægjandi.

 

Þótt litið sé fram hjá afleiðingum vefjadrepsins í hægra brjóstinu, telur stefnandi í fjórða lagi að útlitslegur árangur brjóstminnkunaraðgerðarinnar hafi verið óviðunandi og ekki í samræmi við óskir og væntingar stefnanda.  Af hálfu stefnda er á hinn bóginn byggt á því að skurðaðgerðin hafi fram farið af læknisfræðilegum ástæðum, en stefnandi hafi þjáðst af vöðvabólgu og höfuðverkjum fyrir aðgerðina sem rakið hafi verið til of stórra brjósta.  Þá hélt Ólafur Jón Einarsson lýtalæknir, er framkvæmdi aðgerðina, því fram fyrir rétti að hann hafi haft samráð við stefnanda eftir því sem hægt hefði verið um aðgerðina og þar með hve mikið yrði tekið af brjóstunum.

Óumdeilt er að stærð og lögun brjóstsins og staðsetning geirvörtu eru þættir sem eru alfarið á valdi þess læknis sem brjóstaminnkunaraðgerð framkvæmir.  Í umdeildu tilviki er ljóst að brjóst urðu lítil eftir aðgerðina - óháð drepinu í hægra brjósti - og talsvert minni en „medium” eða skálarstærð B eins og stefnandi segist hafa óskað eftir.

Þykir sérfróðum meðdómendum ljóst að staðsetning vinstri geirvörtu hafi eftir aðgerðina verið óeðlilega hátt á brjóstinu miðað við almennt notuð viðmið og það hvar meginvefur brjóstsins var.  Þó að örmyndun eftir aðgerð sé háð fjölmörgum þáttum sem ekki eru á valdi skurðlæknis, jafnvel þótt sár grói án fylgikvilla, þá verði að álykta að þessi staðsetning hafi leitt til annarrar aðgerðar sem ella hefði ekki verið þörf á.

Verður fallist á að brjóstin hafi verið gerð minni en tæknilegar og heilsufarslegar ástæður gáfu tilefni til og staðsetning vinstri geirvörtu eftir aðgerðina 23. ágúst 1991 hafi verið óeðlilega há.  Ályktað er að þessi vansmíð hafi valdið því að annarrar aðgerðar var þörf til að leiðrétta legu geirvörtu vinstra brjósts.

 

Í fimmta lagi byggir stefnandi á því að húð hafi verið tekið á röngum stað til ígræðslu í aðgerðinni 25. september 1991 er valdi lýti.  Af hálfu stefnda er hins vegar haldið fram að um venjulegan stað til húðtöku hafi verið að ræða er vel hafi hentað og ekki valdið lýti.

Sérfróðir meðdómendur telja að engin efni hafi verið til að velja tökusvæðið rétt ofan við hné á utanverðum ganglim svo sem gert var.  Venja sé að tökusvæðið sé á lítt áberandi stað við flutning á takmörkuðu magni af húð og er alfarið á valdi viðkomandi skurðlæknis að velja slíkan stað ef húðin er heilbrigð.  Þetta staðarval geti naumast talist eðlilegt í ljósi þessa og hafi valdið óþarfalýti.

 

Misræmis gætir í sjúkraskýrslum, vottorðum og öðrum málskjölum sem koma frá heilbrigðiskerfinu og lögð voru fram í máli þessu.  Þetta misræmi veldur þó ekki því, að áliti dómsins, að álykta megi að drep í hægra brjósti stefnanda eftir aðgerðina hafi orsakast af mistökum við aðgerðina eða við eftirmeðferðina á stefnanda á sjúkrahúsinu.  

Ljóst er, og raunar ómótmælt, að afleiðingar skurðaðgerðarinnar 23. ágúst 1991 á heilsu og líðan stefnanda hafa verið miklar og langvarandi.  Fjölmargar skurðaðgerðir og önnur meðferð hafa fylgt í kjölfarið.  Samkvæmt framangreindu verður þó ekki talið að stefndi beri skaðabótaábyrgð á ætlaðri örorku stefnanda sem varð vegna dreps eftir aðgerðina eins og áður var greint frá.  Á hinn bóginn verður talið að stefndi beri ábyrgð á að stefnandi þurfti að gangast undir aðgerð til að  leiðrétta legu geirvörtu vinstra brjósts og að húð var tekið á röngum stað á stefnanda til ígræðslu í aðgerðinni 26. september 1991.  Þykir stefnandi því eiga rétt á miskabótum að fjárhæð 500.000 krónur.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði eins og í dómsorði greinir.

Páll Þorsteinsson héraðsdómari og meðdómsmennirnir, Stefán Einar Matthíasson læknir og Þorvaldur Jónsson læknir, kveða upp dóminn. 

 

DÓMSORÐ:

Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, Jórunni Önnu Sigurðardóttur, 500.000 krónur með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 29. júní 1995 til 29. júní 1999, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laganna frá þeim degi til 1. júlí 2001, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Málskostnaður fellur niður.  Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með er talinn málflutningsþóknun lögmanns stefnanda, Róberts Árna Hreiðarssonar hdl., 1.000.000 krónur.