Hæstiréttur íslands
Mál nr. 280/2002
Lykilorð
- Akstur sviptur ökurétti
- Vanaafbrotamaður
- Reynslulausn
|
|
Fimmtudaginn 31. október 2002. |
|
Nr. 280/2002. |
Ákæruvaldið(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari) gegn Hirti Þórarni Sigurðssyni (Kristján Stefánsson hrl.) |
Akstur án ökuréttar. Vanaafbrotamaður. Reynslulausn.
H var ákærður fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreið sviptur ökurétti. Játaði hann brot sitt. H hafði margoft áður verið sakfelldur fyrir sams konar brot og ákæra í málinu tók til, auk annarra brota á umferðarlögum og þótti verða að líta til þessa sakaferils H við ákvörðun refsingar. Með broti sínu rauf H skilyrði reynslulausnar sem honum hafði verið veitt á samtals 200 daga eftirstöðvum fangelsisrefsingar sem honum hafði verið gert að sæta með dómum Hæstaréttar 24. febrúar 2000 og Héraðsdóms Reykjaness 7. apríl sama árs. Var refsing H fyrir brot hans er ákæran í máli þessu laut að og óafplánuð refsing samkvæmt fyrrnefndum dómum ákveðin í einu lagi í héraðsdómi. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísun til forsendna héraðsdóms var niðurstaða hans um 12 mánaða fangelsisrefsingu H staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 4. júní 2002 í samræmi við yfirlýsingu ákærða og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst nú staðfestingar héraðsdóms.
Ákærði krefst þess að refsing hans verði milduð.
Ákærða er gefið að sök að hafa ekið bifreið sviptur ökurétti 18. júlí 2001 og játaði hann brot sitt fyrir dómi. Hefur hann margoft áður verið sakfelldur fyrir sams konar brot og ákæra í málinu tekur til, auk annarra brota á umferðarlögum, eins og nánar er rakið í héraðsdómi. Við ákvörðun refsingar verður að líta til þessa sakaferils ákærða, sbr. 6. tölulið 1. mgr. 70. gr. og 72. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með broti sínu rauf ákærði skilyrði reynslulausnar, sem honum var veitt 23. maí 2001 á samtals 200 daga eftirstöðvum fangelsisrefsingar, sem honum var gert að sæta með dómum Hæstaréttar 24. febrúar 2000 og Héraðsdóms Reykjaness 7. apríl sama árs. Var refsing ákærða fyrir brot hans nú og óafplánuð refsing samkvæmt fyrrnefndum dómum ákveðin í einu lagi í héraðsdómi, sbr. 42. gr. og 60. gr. almennra hegningarlaga með áorðnum breytingum. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísun til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Hjörtur Þórarinn Sigurðsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 60.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 24. apríl 2002.
Málið er höfðað með ákæruskjali dagsettu 27. ágúst 2001 á hendur:
Hirti Þórarni Sigurðssyni, kt. 090665-4999,
Engihjalla 17, Kópavogi,
,,fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreiðinni VF-682, miðvikudaginn 18. júlí 2001, sviptur ökurétti um Njálsgötu í Reykjavík.
Þetta telst varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 3. gr. laga nr. 57/1997.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.”
Í þinghaldi 8. apríl sl. játaði ákærði brot sitt skýlaust.
Sannað er með skýlausri játningu ákærða, sem studd er öðrum gögnum málsins, að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem ákært er út af og er brot hans rétt fært til refsiákvæða í ákæru.
Afbrotaferil ákærða er langur. Hann hefur frá árinu 1983 hlotið 24 refsidóma fyrir umferðarlagabrot, nytjastuld, brot gegn valdstjórninni, þjófnað, líkamsárás, fíkniefnabrot, fjársvik og tékkalagabrot. Hann hefur 19 sinnum sætt refsingu fyrir ölvun við akstur og þá jafnan án réttinda, síðast með dómi Héraðsdóms Reykjaness 7. apríl 2000, fangelsi í 10 mánuði auk sviptingar ökuréttar ævilangt. Ákærða var veitt reynslulausn 23. maí 2001 á eftirstöðvum 200 daga refsingar. Ákærði hefur með broti sínu nú rofið skilyrði reynslulausnarinnar og ber að tiltaka ákærða refsingu í einu lagi sbr. 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 12 mánuði.
Dæma ber ákærða til að greiða allan sakarkostnað, þar með talda þóknun skipaðs verjanda, Kristjáns Stefánssonar, sem þykir hæfilega ákveðin 35.000 krónur.
Af hálfu ákæruvaldsins var málið flutt af Sturlu Þórðarsyni yfirlögfræðingi.
Valtýr Sigurðsson héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Ákærði, Hjörtur Þórarinn Sigurðsson, sæti fangelsi í 12 mánuði.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talda þóknun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 35.000 krónur.