Hæstiréttur íslands
Mál nr. 441/2000
Lykilorð
- Kærumál
- Samlagsaðild
- Kröfugerð
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
|
|
Föstudaginn 8. desember 2000. |
|
Nr. 441/2000. |
Hildur Guðjónsdóttir og Ýmir Vésteinsson (Jón Magnússon hrl.) gegn Reykjagarði hf. (Gestur Jónsson hrl.) |
Kærumál. Samlagsaðild. Kröfugerð. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.
Frávísunarúrskurður héraðsdóms var felldur úr gildi með vísan til þess, að þótt ranglega hefði verið staðið að kröfugerð samlagsaðilanna H og Ý í héraðsdómsstefnu, að því leyti að dómkröfur þeirra hafi þar tvívegis verið lagðar saman og settar fram sem ein krafa væri, yrði að gæta að því að hin sameiginlega krafa var sögð vera þeirra ,,að jöfnu", auk þess sem sundurliðun í stefnu gerði í meginatriðum kleift að greina kröfur þeirra nægilega að við efnismeðferð málsins. Í kæru sóknaraðila til Hæstaréttar hafði og verið tekið af skarið um aðgreiningu krafna H og Ý. Var því lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 4. desember 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. nóvember 2000, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að hafnað verði kröfu varnaraðila um frávísun málsins og honum gert að greiða málskostnað í héraði ásamt kærumálskostnaði.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sóknaraðilum gert að greiða kærumálskostnað.
Sóknaraðilar höfðuðu málið 4. apríl 2000 til heimtu bóta vegna tjóns, sem þau kveðast hafa orðið fyrir af því að neyta kjúklingakjöts 24. apríl 1999, sem framleitt hafi verið af varnaraðila, en þannig hafi þau smitast af svonefndum „campylobacter jejuni” sýkli, sem leynst hafi í kjötinu. Í héraðsdómsstefnu var þess krafist að varnaraðili yrði dæmdur til að greiða báðum sóknaraðilum skaðabætur og miskabætur „að jöfnu að fjárhæð kr. 167.623.-” og að auki að greiða sóknaraðilanum Ými „sérstaklega vegna tímabundins atvinnutjóns kr. 77.000.- eða samtals stefnukrafa kr. 244.623.-”, auk nánar tiltekinna vaxta og málskostnaðar. Í stefnunni var fyrstnefnda fjárhæðin sundurliðið og þess getið að af henni væru 619 krónur vegna kaupverðs kjötsins, 3.670 krónur kostnaður hvors sóknaraðila af læknismeðferð, 2.400 krónur kostnaður þeirra beggja af sjúkraflutningi, 9.064 krónur lyfjakostnaður þeirra samanlagður, 9.100 krónur þjáningabætur handa hvoru þeirra og 65.000 krónur miskabætur til hvors.
Samkvæmt héraðsdómsstefnu sækja sóknaraðilar málið í félagi með stoð í 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991. Sem samlagsaðilum ber þeim hvoru um sig að sækja tiltekna og sjálfstæða dómkröfu. Þótt ranglega hafi verið staðið að kröfugerð þeirra í stefnunni að því leyti að dómkröfur þeirra voru þar tvívegis lagðar saman og settar fram sem ein krafa væri, verður að gæta að því að fyrstnefnda fjárhæðin hér að framan var sögð vera krafa þeirra „að jöfnu”, auk þess sem áðurgreind sundurliðun gerði í meginatriðum kleift að greina kröfur þeirra nægilega að við efnismeðferð málsins. Í kæru sóknaraðila til Hæstaréttar er og tekið af skarið um að líta eigi svo á að kröfur þeirra séu að réttu lagi þannig að Hildur Guðjónsdóttir krefjist greiðslu úr hendi varnaraðila á 83.811,50 krónum, en Ýmir Vésteinsson á 160.811,50 krónum. Að þessu athuguðu eru ekki næg efni til að vísa málinu frá héraðsdómi vegna annmarka á kröfugerð sóknaraðila. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Rétt er að aðilarnir beri hver sinn kostnað af þessum þætti málsins í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. nóvember 2000.
Mál þetta er höfðað með stefnu birtri 4. apríl sl.
Stefnendur eru Hildur Guðjónsdóttir kt. 230176-5589 og Ýmir Vésteinsson kt. 180372-3349 bæði til heimilis að Álftamýri 46, Reykjavík.
Stefndi er Reykjagarður h.f. kt. 430272-0719, Suðurreykjum 3, Mosfellsbæ.
Stefnendur krefjast þess, að stefndi verði dæmdur til greiðslu skaða- og miskabóta til handa beggja stefnanda að jöfnu að fjárhæð 167.623 krónur og til handa stefnanda Ýmis sérstaklega vegna tímabundins atvinnutjóns 77.000 krónur eða samtals 244.623 krónur auk vaxta skv. 7.gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 26.4.1999 til þingfestingardags stefnu, en með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags og leggist áfallnir dráttarvextir við höfuðstól á 12 mánaða fresti í fyrsta sinn 6. apríl 2001. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda skv. mati dómsins auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun, en stefnendur eru ekki virðisaukaskattsskyldir.
Stefndi krefst þess aðallega að máli þessu verði vísað frá dómi.
Til vara krefst stefndi sýknu af öllum kröfum stefnenda.
Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi stefnenda að skaðlausu að mati dómsins.
Til þrautavara er þess krafist að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar og að málskostnaður í því tilviki verði felldur niður.
Krafa stefnda um frávísun er til meðferðar hér.
Í máli þessu krefja stefnendur stefnda sameiginlega um skaðabætur og miskabætur vegna veikinda sem þau kveðast hafa átt í og hafi stafað af svonefndri "Campylobacter jejuni" sýkingu. Hafi þau smitast eftir að hafa borðað kjúklingalæri sem þau höfðu matreitt á grilli laugardaginn 24. apríl 1999. Kjúklingalærin hafi þau keypt ófryst þann sama dag en þau hafi verið afurð sem stafaði frá stefnda.
Í stefnu er svofelld grein gerð fyrir kröfu stefnenda:
"Útlagður kostnaður stefnenda vegna sýkingarinnar nemur kr. 19.423.- og sundurliðast þannig: kaupverð kjúklingsins kr. 619.-, kostnaður sjúklings vegna komu á göngudeild og vegna rannsókna kr. 3.670.- fyrir hvort um sig eða samtals kr. 7.340.-, sjúkraflutningur kr. 2.400.-, lyfjakostnaður samtals kr. 9.064. Þjáningabætur vegna veikinda hvors stefnanda í 7 daga kr. 9.100.- eða samtals kr. 18.200.
Miski hvors um sig kr. 65.000.- eða samtals kr. 130.000. Tímabundið atvinnutjón Ýmis kr. 77.000.
Samtals dómkröfur stefnenda kr. 244.623."
Þá segir í stefnu að stefnendur séu sambúðarfólk með sameiginlegan fjárhag og því sé kröfugerð í málinu hagað eins og gert sé svo sem að ofan greini og sæki stefnendur málið í félagi sbr. 1. mgr. 19. gr.1. nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Af hálfu stefnda er krafist frávísunar, eins og að framan greinir enda séu kröfur stefnenda settar fram í einu lagi eins og þau eigi óskipt réttindi. Í þessu máli sé engin þörf eða skilyrði til samaðildar stefnanda samkvæmt l. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991. Stefnendur séu sambúðarfólk og hafi því ekki, a.m.k. ekki formlega, sameiginlegan fjárhag. Hvort þeirra um sig sé hæft til að bera réttindi og skyldur óháð hinu.
Þar sem kröfugerð sé sett fram í einu lagi telur stefndi að hún sé of óljós og óskýr til að um hana verði felldur dómur. Vísar hann til d-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 og meginreglna réttarfars um skýra, ljósa og ákveðna kröfugerð.
Af hálfu stefnenda er frávíunarkröfu mótmælt.
NIÐURSTAÐA
Hvor stefnenda um sig telur sig eiga kröfu á hendur stefnda vegna tjóns og miska sem þau telja sig hafa orðið að þola vegna sýkingar er þau neyttu matvæla sem þau kveða stafa frá stefnda og telji þau hann bera ábyrgð á tjóni sínu og miska. Kröfur þessar mætti hafa uppi í sérstöku máli hvors um sig enda er um tvær sjálfstæðar kröfur að ræða og ákvæði 1. mgr. 18. gr. laga um meðferð einkamála tekur ekki til stefnenda. Stefnendur bera fyrir sig reglu 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 um samlagsaðild en kröfugerð í stefnu samrýmist ekki ekki því ákvæði þar sem ekki er að finna sjáfstæða kröfu hvors þeirra um sig á hendur stefnda.
Þessi galli á málatilbúnaði stefnenda veldur því að vísa ber máli þessu frá dómi svo sem krafist er af stefnda.
Eftir þessum úrslitum er stefnendum gert að greiða stefnda 70.000 krónur í málskostnað.
Allan Vagn Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnendur Hildur Guðjónsdóttir og Ýmir Vésteinsson greiði stefnda Reykjagarði hf 70.000 krónur í málskostnað.