Hæstiréttur íslands
Mál nr. 286/2003
Lykilorð
- Kærumál
- Niðurfelling máls
- Lögvarðir hagsmunir
- Aðilaskipti
- Vanreifun
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Mánudaginn 1. september 2003. |
|
Nr. 286/2003. |
Íslenska ríkið(Einar Karl Hallvarðsson hrl.) gegn Allrahanda ehf. (Björgvin Þorsteinsson hrl.) |
Kærumál. Niðurfelling máls. Lögvarðir hagsmunir. Aðilaskipti. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli A ehf. á hendur Í var vísað frá héraðsdómi. Krafðist Í þess aðallega að málið yrði fellt niður en A ehf. að lagt yrði fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Tekið var fram að þar sem málinu hefði verið lokið í héraði án þess að efnisdómur hefði verið felldur á það gæti Í ekki haft lögvarða hagsmuni af því að fá niðurstöðu hins kærða úrskurðar breytt á þann veg að málið yrði frekar fellt niður í héraði en að því yrði vísað þaðan frá dómi. Gæti aðalkrafa Í því ekki komið til álita nema niðurstöðu héraðsdómara um frávísun málsins yrði hrundið. Fallist var á það með héraðsdómara að undir rekstri málsins hefðu slíkir annmarkar komið upp á reifun þess af hendi A ehf. og málatilbúnaði hans að óhjákvæmilegt hefði verið að vísa því frá dómi. Var niðurstaða héraðsdóms því staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. júlí 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. júní 2003, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að mál varnaraðila á hendur honum yrði fellt niður, en málinu á hinn bóginn vísað frá dómi. Kæruheimild er í k. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að mál varnaraðila á hendur sér verði fellt niður og að þrotabúi Ísferða ehf. verði gert að greiða sér málskostnaðar í héraði, en varnaraðili dæmdur til að greiða kærumálskostnað. Til vara krefst sóknaraðili þess að niðurstaða hins kærða úrskurðar um frávísun málsins frá héraðsdómi verði staðfest, en eins fari um málskostnað í héraði og kærumálskostnað og að framan greinir.
Varnaraðili kærði úrskurð héraðsdómara fyrir sitt leyti 11. júlí 2003 með heimild í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991. Hann krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst varnaraðili kærumálskostnaðar.
Sem fyrr segir var máli varnaraðila á hendur sóknaraðila vísað frá héraðsdómi með hinum kærða úrskurði. Með því var málinu lokið í héraði án þess að efnisdómur yrði felldur á það. Að því gættu getur sóknaraðili ekki haft lögvarða hagsmuni af því að fá niðurstöðu hins kærða úrskurðar breytt á þann veg að málið verði frekar fellt niður í héraði en að því verði vísað þaðan frá dómi. Getur framangreind aðalkrafa sóknaraðila því ekki komið til álita nema niðurstöðu héraðsdómara um frávísun málsins verði hrundið.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður að fallast á með héraðsdómara að undir rekstri málsins hafi slíkir annmarkar komið upp á reifun þess af hendi varnaraðila og málatilbúnaði hans að óhjákvæmilegt sé að vísa því frá dómi. Samkvæmt því verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest, þar á meðal ákvæði hans um málskostnað.
Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af kærumáli þessu.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. júní 2003.
Mál þetta var höfðað 14. maí 2001, þingfest 15. sama mánaðar og tekið til úrskurðar 30. maí um hvort fella beri það niður eða vísa því frá dómi án kröfu.
Stefnandi var upphaflega Allrahanda/Ísferðir ehf., kt. 500489-1119, Flateyri, sem síðar fékk nafnið Ísferðir ehf. Allrahanda ehf., kt. 521292-2979, gerir kröfu um að taka við aðild málsins sóknarmegin.
Stefndi er íslenska ríkið og er samgönguráðherra stefnt til fyrirsvars fyrir það. Stefndi gerir þær kröfur í þessum þætti málsins að málið verði fellt niður. Þá verði þrotabúi Ísferða ehf. gert að greiða stefnda málskostnað. Því er einnig haldið fram af hálfu stefnda að vísa beri málinu frá dómi án kröfu.
Allrahanda ehf. krefst þess að kröfu stefnda um niðurfellingu málsins verði hafnað og að málinu verði ekki vísað frá dómi án kröfu.
Efnislegar dómkröfur stefnanda í málinu eru þær að stefnda verði gert að greiða honum 35.000.000 króna, auk nánar tilgreindra dráttarvaxta frá 19. nóvember 1999 til greiðsludags og málskostnað.
Í greinargerð stefnda var aðallega krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hans hendi en til vara að kröfur stefnanda yrðu stórlega lækkaðar og málskostnaður í því tilviki felldur niður.
Helstu málsatvik
Á árinu 1992 sótti fyrirtækið Allrahanda/Ísferðir ehf. um sérleyfi til fólksflutninga á leiðunum Reykjavík-Ísafjörður, Ísafjörður-Flateyri og Ísafjörður-Suðureyri. Samgönguráðuneytið hafnaði umsókn fyrirtækisins um sérleyfi á leiðinni Reykjavík-Ísafjörður með bréfi dagsettu 20. mars 1992 en úthlutaði því sérleyfum á leiðunum Ísafjörður-Flateyri, Ísafjörður-Suðureyri og Ísafjörður-Hólmavík. Hélt fyrirtækið sérleyfum á þessum leiðum til 1. september 1997. Fyrirtækið sótti um áframhaldandi sérleyfi á þessum leiðum til næstu 5 ára með umsókn dagsettri 21. mars 2001.
Samgönguráðuneytið tilkynnti Allrahanda/Ísferðum ehf. 10. september 1997 að það hefði ákveðið að úthluta Ísafjarðarbæ sérleyfinu V.10, milli Þingeyrar, Flateyrar, Suðureyrar og Ísafjarðar, til eins árs. Ísafjarðarbær gerði samning við Allrahanda/Ísferðir ehf. um akstur á sérleiðinni. Ísafjarðarbær var síðan veitt einkaleyfi til fólksflutninga innan sveitarfélagsins í byrjun árs 1998 og var þá aksturinn boðinn út og í kjölfarið samið við annan aðila um aksturinn.
Dómkröfur stefnanda eru reistar á því að stefndi hafi með saknæmum og ólögmætum hætti veitt Ísafjarðarbæ sérleyfi á leiðinni V.10 og beri því að bæta honum það tjón sem hann hafi orðið fyrir af þeim sökum. Stefnandi byggir bótakröfur sínar á framlagðri matsgerð.
Tilkynnt var til hlutafélagaskrár 15. nóvember 2001 að nafni Allrahanda/Ísferða ehf. hefði verið breytt í Ísferðir ehf.
Í málinu hefur verið lagt fram aamkomulag Ísferða ehf. og Allrahanda ehf., dagsett 1. mars 2002. Í 5. gr. samkomulagsins er svohljóðandi ákvæði:
„Allrahanda ehf. tekur yfir málarekstur Ísferða ehf. gegn íslenska ríkinu (samgönguráðuneytinu) mál nr. E-4788/2001 með öllum þeim réttindum og skyldum sem málinu fylgja þar með talinn áfallinn kostnaður vegna málsins."
Síðar í samkomulaginu segir að greitt sé fyrir yfirtöku rekstrar og búnaðar, þar með talin áhættugreiðsla vegna tveggja mála í héraðsdómi að frádreginni yfirtöku tiltekinna skuldbindinga með 10 milljónum króna. Einnig að heimilt væri að greiða umrædda greiðslu með því að Allrahanda ehf. tæki að sér og eða greiddi kröfur sem á Ísferðum ehf. hvíldu. Undir samkomulagið rituðu sömu tveir stjórnarmennirnir fyrir hönd beggja félaganna, þeir Sigdór Sigurðsson og Þórir Garðarsson.
Hitt dómsmálið sem vísað var til í samkomulaginu var málið nr. E-7447/2001; Allrahanda/Ísferðir ehf. gegn Gísla Erni Lárussyni en annar dómari fór með það mál og lögmaður stefnanda í því máli var ekki sá sem gætir hagsmuna stefnanda í þessu máli. Við upphaf aðalmeðferð umrædds máls 4. desember 2002 var bókað að fyrirsvarsmaður stefnanda, Þórir Garðarsson hefði skýrt dóminum frá því að fyrirtækið Allrahanda ehf. hefði yfirtekið allan rekstur Allrahanda/Ísferða ehf. og að nafn málsins breyttist í samræmi við það. Lögmaður stefnanda í þessu máli gaf skýrslu sem vitni í umræddu máli.
Sjónarmið aðila varðandi formhlið málsins
Af hálfu stefnda er byggt á því að skilyrði 1. og 3. mgr. 22. gr. laga nr. 91/1991 fyrir því að Allrahanda ehf. taki við aðild málsins sóknarmegin séu ekki uppfyllt. Þar sem þrotabú Allrahanda/Ísferða ehf. hafi ekki látið málið til sín taka frá því að félagið var tekið til gjaldþrotaskipta, beri að líta svo á að ekki sé lengur sótt þing í málinu af þess hálfu. Af þeirri ástæðu beri að fella málið niður með vísan til b-liðs 1. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991.
Af hálfu stefnda er framlögðu samkomulagi frá 1. mars 2002 mótmælt sem ósönnuðu og þýðingarlausu í málinu. Þar sé mælt fyrir um framsal kröfu gegn greiðslu ákveðinna skulda. Ekki sé vitað til hvaða kröfu sé verið að vísa. Ljóst sé að meint framsal sé skilyrt og augljóslega riftanlegt. Ekki liggi fyrir hvort samkomulagið hafi verið efnt og því ekki ljóst hvort yfirtaka Allrahanda ehf. á aðild málsins hafi komið til framkvæmda.
Eftirfarandi athafnir þeirra sem að samkomulaginu hafi staðið bendi ekki til þess að það hafi komið til framkvæmda hvað varðar yfirtöku á þeirri kröfu sem um sé fjallað í máli þessu. Forsvarsmenn Allrahanda ehf. og Ísferða ehf. hafi mætt á matsfund sem matsmenn í máli þessu hafi boðað til fimm dögum eftir meint framsal kröfunnar og þá ekki upplýst um umrætt framsal. Engar upplýsingar hafi borist inn í málið um framsalið fyrr en 10. apríl 2003, þegar meira en ár hafi verið liðið frá dagsetningu samkomulagsins, þrátt fyrir fjölmargar fyrirtökur málsins þar sem lögmaður stefnanda hafi gefið fjölmargar málflutningsyfirlýsingar. Á þessu tímabili hafi Ísferðir ehf. orðið gjaldþrota en fyrirsvarsmenn þessara félaga hafi samt ekki séð ástæðu til þess að upplýsa um framsal kröfunnar. Umrætt samkomulag hafi ekki verið lagt fram í málinu fyrr en 19. maí 1003.
Af hálfu stefnda er því haldið fram að svo virðist sem meint framsal hafi verið einhvers konar tryggingargerningur. Sömu menn séu í fyrirsvari fyrir bæði félögin og framkoma þeirra sé svo tortryggileg að líta beri svo á að ekkert framsal sé komið fram.
Frá því að mál þetta hafi verið höfðað hafi krafan færst yfir til þrotabús stefnanda en þá hafi krafan aftur skipt um eiganda.
Af hálfu stefnda er einnig bent á að meint samkomulag feli í sér óvenjulegar ráðstafanir í einkahlutafélagi, sem aðeins stjórnarfundur geti tekið ákvarðanir um en ekki framkvæmdastjóri eða einstakir stjórnarmenn. Engar stjórnarsamþykktir liggi fyrir í umræddum einkahlutafélögunum um heimild til framsals. Telur stefndi að skiptastjóra hefði borið að vísa málinu til lögreglu.
Stefndi heldur því fram að framganga fyrirsvarsmanna umræddra félaga í málinu sé óviðeigandi og dómstólar eigi ekki að láta bjóða sér slík vinnubrögð.
Stefndi telur að framangreindur málatilbúnaður af hálfu stefnanda eigi einnig að leiða til þess að málinu verði vísað frá dómi án kröfu. Aðild að málinu sé vanreifuð og afar óskýr en það hafi verið talin frávísunarástæða
Af hálfu Allrahanda ehf. er því haldið fram að með umræddu samkomulagi 1. mars 2002 hafi átt sér stað fullgilt framsal kröfu á hendur stefnda. Skiptafundur í þrotabúi Ísferða ehf. hafi ekki gert athugasemdir við framsalið og skiptastjóri þrotabúsins staðfest að framsalið hafi átt sér stað. Þar sem kröfuhafar í þrotabúinu hafi ekki mótmælt framsalinu verði því ekki hnekkt og stefnda megi á sama standa þótt nýr aðili hafi fengið kröfuna framselda.
Byggt er á því að þar sem umrædd krafa hafi verið framseld hafi þrotabúið ekki átt að taka við aðild málsins sóknarmegin heldur Allrahanda ehf. á grundvelli 1. mgr. 22. gr. laga nr. 91/1991. Viðurkennt er að óheppilegt hafi verið að tilkynna ekki fyrr um framsalið. Lögmaður stefnanda hafi ekki haft hugmynd um aðilaskiptin fyrr en bú Ísferða ehf. hafði verið tekið til gjaldþrotaskipta. Meginmáli skipti hins vegar það sem raunverulega gerðist. Fyrir liggi að þrotabúið ætli ekki að rifta umræddum gerningi og skiptastjórinn hafi í raun samþykkt aðilaskipti að kröfunni.
Af hálfu Allrahanda ehf. er því haldið fram að engin ástæða sé til að ætla annað en að framangreint samkomulag hafi verið gert á þeim degi sem komi fram í því.
Þá er því haldið fram að engin ástæða sé til að vísa málinu frá dómi án kröfu. Málatilbúnaður stefnanda sé á engan hátt ruglingslegur og tafir á að tilkynna um framsal geti ekki leitt til frávísunar málsins.
Niðurstaða
Mál þetta var sem fyrr segir höfðað af Allrahanda/Ísferðum ehf. 14. maí 2001 og þingfest 15. sama mánaðar en greinargerð var skilað í því af hálfu stefnda 25. september 2001. Dómarinn sem fer með málið tók það fyrir í fyrsta sinn 12. nóvember 2001. Málið var síðan tekið fyrir 16. nóvember og 18. desember 2001 til úrlausnar á réttarfarsálitaefnum. Í þinghaldi 4. janúar 2002 voru, að beiðni stefnanda, dómkvaddir tveir matsmenn til að leggja mat á meint tjón stefnanda. Málið var síðan tekið fyrir 19. mars, 15. maí og 25. júní en í öllum tilvikum frestað til framlagningar matsgerðar, sem loks var lögð fram í þinghaldi 5. september 2002. Málið var síðan enn tekið fyrir 30. september og 14. október en frestað til frekari gagnaöflunar. Í þinghaldi 8. nóvember 2002 var gagnaöflun lýst lokið og málinu frestað til aðalmeðferðar til 29. janúar 2003. Aðalmeðferð var síðan frestað utan réttar um einn dag með tilliti til meðdómsmanns.
Þegar aðalmeðferð átti að fara fram í málinu 30. janúar 2003 lýsti lögmaður stefnanda því yfir að bú stefnanda hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta 20. desember 2002. Lögmaður stefnanda lýsti því ennfremur yfir að hann hefði ekki náð til skiptastjóra þrotabúsins, Kristins Ólafssonar hrl. og því lægi afstaða þrotabúsins til framhalds málsins ekki fyrir. Aðild málsins sóknarmegin var breytt til samræmis við þessar upplýsingar og varð þrotabú Allrahanda/Ísferða ehf. Málinu var þá frestað til 18. febrúar til að kanna afstöðu skiptastjóra um framhald málsins. Í því þinghaldi óskaði lögmaður stefnanda eftir því að málinu yrði frestað fram yfir skiptafund sem yrði 26. mars 2002.
Þegar málið var næst tekið fyrir, 10. apríl 2003, lagði lögmaður stefnanda fram fundargerð skiptafundar þrotabús Ísferða ehf. frá 26. mars 2003. Lögmaðurinn kvað hafa komið fram á skiptafundi 26. mars að nafni Allrahanda/Ísferða ehf. hefði verið breytt í Ísferðir ehf. Á fundinum hefði hann óskað eftir afstöðu þrotabúsins til þess hvort samkomulag forsvarsmanna Ísferða ehf. og Allrahanda ehf. um yfirtöku síðarnefnda félagsins á málarekstrinum væri vefengt og hefðu ekki verið gerðar athugasemdir við samkomulagið. Lögmaður stefnanda óskaði þá eftir að aðild málsins yrði breytt sóknarmegin í samræmi við framangreint samkomulag um að Allrahanda ehf. fengi framseld þau réttindi sem málshöfðunin lyti að. Lögmaður stefnda mótmælti beiðni um aðilaskipti sóknarmegin og taldi enga gerninga liggja fyrir um að skilyrðum 1. mgr. 22. gr. laga nr. 91/1991 væri fullnægt. Þrotabú Ísferða ehf. hefði þegar tekið við aðild málsins og málinu hefði verið frestað í því skyni að kanna hvort þrotabúið héldi málinu áfram. Af fundargerð skiptafundar væri ljóst að svo væri ekki og hlyti því málið að falla niður. Dómarinn veitti þá lögmanni stefnanda frest til 16. apríl að færa sönnur fyrir því að nýr aðili hefði fengið dómkröfurnar framseldar og einnig til að skýra afstöðu þrotabúsins til málsins.
Umrædd gögn lágu ekki fyrir í þinghaldi 16. apríl og fékk lögmaður stefnanda þá frest til 12. maí til að leggja þau fram. Sama var uppi á teningunum í þinghaldi 12. maí og fékk lögmaður stefnanda þá frest í sama skyni til 19. maí.
Í þinghaldi 19. maí lagði lögmaður stefnanda fram svohljóðandi yfirlýsingu skiptastjóra þrotabús Ísferða ehf.:
„Ég undirritaður, Kristinn Ólafsson hrl., skiptastjóri þb. Allrahanda/Ísferða ehf., kt. 500489-1119, lýsi því hér með yfir, að á skiptafundi í búinu, sem haldinn var þann 26. mars 2003, var engum mótmælum hreyft við framsali félagsins til Allrahanda ehf., kt. 571292-2979, á kröfu, sem félagið taldi sig eiga á hendur íslenska ríkinu um skaðabætur vegna meintrar ólögmætrar úthlutunar á sérleyfum og mál er rekið út af fyrir héraðsdómi.
Björgvin Þorsteinsson, hrl., fer með málið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Allrahanda ehf., kt. 571292-2979, fékk kröfuna framselda þann 1. mars 2002 gegn því að taka að sér greiðslu ákveðinna skulda."
Í þessu sama þinghaldi lagði lögmaður stefnanda fram samkomulag Ísferða ehf. og Allrahanda ehf. frá 1. mars 2002 sem frá er greint í málsatvikalýsingu.
Fyrir liggur að forsvarsmenn umræddra fyrirtækja, þeir Sigdór Sigurðsson og Þórir Garðarsson mættu báðir á matsfund sem haldinn var vegna undirbúnings matsgerðar í þessu máli 6. mars 2002 og gerðu þá ekki athugasemdir um að nýr aðili hefði tekið yfir rekstur Ísferða ehf. og málarekstur þennan en þessir aðilar höfðu þá fimm dögum áður undirritað framangreint samkomulag, þar að lútandi. Þeir komu heldur engum slíkum skilaboðum til lögmanns síns um framsal kröfunnar þótt þeim hafi augljóslega verið fullljóst um rekstur dómsmálsins og stöðu þess.
Dómsmál þetta var þannig tekið fyrir alls sjö sinnum frá því að meint aðilaskipti urðu á kröfunni 1. mars 2002 og fram til 30. janúar 2003, þegar lögmaður stefnanda upplýsti að þrotabú Ísferða ehf. hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta og var þá bókað athugasemdalaust að þrotabúið tæki við aðild málsins sóknarmegin. Engar upplýsingar komu fram í þessu þinghöldum um meint framsal kröfunnar og það þótt fyrirsvarsmaður stefnanda hefði við aðalmeðferð í öðru máli 4. desember 2002 upplýst um yfirtöku Allrahanda ehf. á rekstri Ísferða ehf. Engar upplýsingar voru heldur veittar um breytingu á heiti Allrahanda/Ísferða ehf. í Ísferðir ehf.
Það var síðan ekki fyrr en í þinghaldi 10. apríl 2003 að óskað var eftir því að Allrahanda ehf. tæki við aðild málsins sóknarmegin og þá einungis með vísan til bókunar á skiptafundi. Loks í þriðja þinghaldi þar á eftir, 19. maí 2003, lagði lögmaður stefnanda fram fyrrnefnt samkomulag frá 1. mars 2002.
Í 1. mgr. 22. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 segir að ef sóknaraðili framselji þau réttindi sem dómkrafa hans varði eftir að mál er höfðað en áður en það er tekið til dóms taki nýi eigandinn í hans stað við aðild málsins í því horfi sem það er.
Þótt ekki komi beinlínis fram í umræddu samkomulagi Allrahanda ehf. og Ísferða ehf. að sú krafa sem mál þetta snýst um hafi varið framseld þykir orðalag framangreinds 5. tl. um yfirtöku á málarekstri með öllum réttindum og skyldum sem málinu fylgja fela í sér framsal á kröfunni.
Ljóst er að skiptafundur í þrotabúi Ísferða ehf. 26. mars 2001, þar sem einungis var þó mættur fulltrúi eins kröfuhafa, gerði ekki athugasemdir við umrætt framsal. Í yfirlýsingu skiptastjóra þrotabúsins, dagsettri 19. maí 2003, kemur skýrt fram að umræddur skiptafundur hafi engum mótmælum hreyft við umræddu framsali. Þá lýsti skiptastjórinn því yfir að Allrahanda ehf. hefði fengið kröfuna framselda 1. mars 2002 gegn því að taka að sér greiðslu ákveðinna skulda. Fundargerð skiptafundar og yfirlýsing skiptastjóra verða ekki skilin á annan hátt en þann að skiptastjórinn og kröfuhafarnir telji umrædda kröfu ekki til eigna búsins.
Enda þótt umrætt framsal kunni að hafa ýmsar lögfylgjur sem ekki verður séð fyrir um á þessari stundu þykir Allrahanda ehf. hafa sýnt fram á það með fullnægjandi hætti að fyrirtækið hafi fengið umrædda kröfu framselda að forminu til og verður að miða við að framsalið hafi farið fram 1. mars 2002.
Líta verður svo á að Björgvin Þorsteinsson hrl. hafi sótt þing í málinu af hálfu Ísferða ehf., áður Allrahanda/Ísferða ehf., fram til 30. janúar 2003 en þá hafi hann sótt þing í málinu áfram af hálfu þrotabús félagsins í því skyni að halda málinu gangandi fram til þess að afstaða þrotabúsins eða kröfuhafa um framhald málsins lægi fyrir. Ennfremur verður að líta svo á að frá 10. apríl 2003 hafi hann sótt þing vegna Allrahanda ehf. á grundvelli fyrrnefnds framsals kröfunnar. Er því ekki hægt að líta svo á að þingsókn hafi fallið niður í málinu af hálfu sóknaraðila og verður málið ekki fellt niður á grundvelli b-liðs 1. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991.
Sem fyrr segir sóttu fyrirsvarsmenn Allrahanda ehf. og Ísferða ehf., þeir Sigdór Sigurðsson og Þórir Garðarsson, matsfund, sem haldinn var 6. mars 2002, vegna mats sem stefnandi hafði óskað eftir. Í fundargerð voru bókaðar ýmsar yfirlýsingar um gagnaöflun sem þeir gáfu fyrir hönd Allrahanda/Ísferða ehf.
Á þessum fundi eða síðar sáu þeir ekki ástæðu til að upplýsa um framangreint framsal kröfu þeirrar sem málið grundvallast á eða hlutast til um að Allrahanda ehf. tæki við aðild málsins sóknarmegin. Gjaldþrot Ísferða ehf. kom þeim heldur ekki til að koma þessum upplýsingum á framfæri og var málið áfram rekið í nafni Allrahanda/Ísferða ehf.
Á þeim tíma sem leið frá framsali kröfunnar og þar til óskað var eftir að aðild málsins yrði breytt sóknarmegin 10. apríl 2002 var málið tekið fyrir alls sjö sinnum. Í þessum þinghöldum lagði lögmaður Allrahanda/Ísferða ehf. fram matsgerð og ýmis gögn og gaf ýmsar málflutningsyfirlýsingar, án þess að hafa vitneskju um fyrir hvern hann væri að starfa og hver væri í réttur aðili málsins sóknarmegin.
Ákvæði 1. mgr. 22. gr. laga nr. 91/1991 gerir augljóslega ráð fyrir því að aðilaskipti fari fram fljótlega eftir að réttindi sem dómkrafa lýtur að hafa verið framseld. Þegar lögmaður stefnanda gaf yfirlýsingu um aðilaskipti sóknarmegin vegna framsalsins hafði málið verið rekið í nafni rangs aðila í 13 mánuði og hafði lögmaðurinn á þeim tíma ekki haft vitneskju um framsalið og þar af leiðandi ekki umboð til að fara áfram með málið, leggja fram ný skjöl og gefa málflutningsyfirlýsingar.
Það að fyrirsvarsmenn Ísferða ehf., létu farast fyrir að félagið tæki við aðild málsins í rúma 13 mánuði eftir meint framsal kröfunnar, með þeim afleiðingum sem að framan er lýst, og vöktu fyrst máls á að breyta aðildinni eftir að tæpir 4 mánuðir voru liðnir frá því að skráður aðili málsins varð gjaldþrota, þykir fela í sér alvarlegt brot á meginreglum réttarfars um skýran og glöggan málatilbúnað. Það sem gerir málatilbúnaðinn óskýrari en ella er að umrætt framsal er óskýrt og ekki er fyllilega ljóst hvort eða hvenær það kom til framkvæmda. Þetta hirðuleysi forsvarsmanna Allrahanda ehf. hefur valdið því að lögmaður sóknaraðila hefur rekið málið í rúmlega ár án umboðs og óvíst um gildi ýmissa yfirlýsinga hans á þeim tíma. Þessi ámælisverði málatilbúnaður hefur að auki haft í för með verulegan drátt á meðferð málsins. Málatilbúnaður stefnanda brýtur að þessu leyti í bága við meginreglu 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 um að málsástæður og mótmæli skuli koma fram jafnskjótt og tilefni verður til og fer í bága við það sjónarmið að máli skuli hraðað eins og kostur er.
Framangreindir annmarkar á málatilbúnaðir Allrahanda ehf., sem forsvarsmenn félagsins bera fulla ábyrgð á, þykja svo stórfelldir að ekki verður hjá því komist að vísa málinu frá dómi án kröfu.
Af hálfu stefnda hefur kröfu um málskostnað eingöngu verið beint að þrotabúi Ísferða ehf. Með hliðsjón af því að þrotabúið hefur ekki látið málið til sín taka eftir að félagið var lýst gjaldþrota verður það ekki, eins og atvikum er háttað, dæmt til að greiða málskostnað. Málskostnaður fellur því niður.
Sigurður Tómas Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Máli þessu er vísað frá dómi án kröfu.
Málskostnaður fellur niður.