Hæstiréttur íslands

Mál nr. 149/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


                                              

Mánudaginn 11. mars 2013.

Nr. 149/2013.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. B Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Sigmundur Hannesson hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Gæsluvarðhaldsúrskurður staðfestur.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. mars 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 7. mars 2013, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 4. apríl 2013 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 7. mars 2013.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess í dag fyrir Héraðsdómi Reykjaness með vísan til 2. mgr. 95 gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 að X, kt. [...], verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 4. apríl 2013 kl. 16. 

Kærði mótmælir kröfunni og krefst þess aðallega að henni verði hafnað, en til vara að gæsluvarðhaldstímanum verði markaður skemmri tími.

Krafan er reist á því að kærði sé undir grun um brot gegn lögum nr. 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. nr. 19/1940 ásamt síðari breytingum.

Í greinargerð lögreglustjóra segir m.a. að ávana- og fíkniefnadeild lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hafi nú til rannsóknar stórfelldan innflutning fíkniefna frá Kaupmannahöfn hingað til lands.  Þann 21. og 24. janúar  sl. hafi lögregla lagt hald á tæp 20 kíló af amfetamíni og tæpa 2 lítra af amfetamínvökva, sem flutt var hingað til lands með pósti.  Í þágu rannsóknar málsins hafi lögregla handtekið og yfirheyrt átta sakborninga, þ.m.t. kærða Ö, og sæti nú alls sex einstaklingar gæsluvarðhaldi m.t.t. rannsóknarhagsmuna málsins.

Lögregla hafi undir höndum myndbandsupptökur þar sem sjá megi meðkærðu Ö, Þ og Z,  póstleggja þann 18. janúar sl. þær sendingar er innihéldu umrædd 20 kíló af amfetamíni.

Mánudaginn 28. janúar sl. hafi meðkærði, Ý, sótt póstsendingu, sem innihélt ofangreindan amfetamínvökva, í póstafgreiðslu við Stórhöfða í Reykjavík.  Hafi lögregla fylgst með því hvar hann afhendi sendinguna meðkærða Ö, við [...] við [...]. Hafi lögregla fylgst með hvar Ö hafi gengið með póstsendinguna áleiðis að Elliðaám, þar sem hann hafi losað sig við hana og hafi hann verið handtekinn strax í kjölfarið. Þá hafi lögregla einnig fylgst með því hvar kærði X hafi haldið sig í námunda við pósthúsið og fylgst með afhendingu pakkans.

Samkvæmt mati A verkefnastjóra hjá rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði sé unnt að framleiða allt að 17 kíló af neysluhæfu amfetamíni úr umræddum vökva.

Í kjölfar handtöku kærða X hafi hann verið úrskurðaður í gæsluvarðhald, nú síðast með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 7. febrúar sl. til dagsins í dag.

Í skýrslutökum hjá lögreglu hafi meðkærði Ö greint frá því að kærði X hafi mánudaginn 28. janúar ekið sér að [...] við [...] og sagt sér að hitta þar mann og móttaka kassa. Hann hafi síðan átt að ganga með kassann að [...] í [...] og afhenda einhverjum manni kassann. Hann kvaðst ekki hafa vitað hvað var í kassanum, hann hafi aðeins fylgt fyrirmælum vinar sins, kærða X.

Kærði X hafi viðurkennt í skýrslutökum hjá lögreglu að hafa ekið Ö að [...] í umrætt sinn. Hann kveðst þó ekki hafa vitað hvað til stóð og hann kvaðst ekki hafa séð Ö móttaka umrædda póstsendingu. Hann kannaðist þó við að hafa í umrætt sinn við [...] hitt og rætt við Íslending sem hafi veri  ökumaður hvítrar jeppabifreiðar með brotinni hægri afturrúðu. Hér sé um að ræða B, sem hafi ekið ofangreindum Ý að póstafgreiðslunni við [...] í umrætt sinn.

Þá hafi kærði X skýrt nánar frá því að hann hafi hitt Ö helgina 19.–20. janúar sl. í Kaupmannahöfn og hafi Ö greint honum frá því að kassar hafi verið sendir til Íslands og í þeim hafi verið um 20 kíló af amfetamíni.

Lögregla hafi haft síma kærða Ö til rannsóknar og hafi lögregla fundið upplýsingar um þær heimasíður sem skoðaðar hafa verið í símanum. Þar megi sjá að dagana 25. og 26. janúar sl. hafi verið flett upp á því fyrirtæki sem var skráður viðtakandi ofangreindrar póstsendingar.  Aðspurður um þetta kvaðst kærði X hafa lánað meðkærða Ö símann og að hann hafi örugglega verið að leita að þessu fyrirtæki.  Þessari fullyrðingu hafi Ö neitað.

Kærði X sé nú undir sterkum grun um aðild að stórfelldum fíkniefnainnflutningi, þar sem  víst þyki að fíkniefnin hafi átt að fara í sölu- og dreifingu hér á landi. Telst brot hans varða við 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Í málinu liggi fyrir að X ekur meðkærða Ö að póstafgreiðslunni við [...], þar sem Ö tekur á móti sendingunni með amfetamínvökvanum.  Fyrir liggur framburður Ö um að hann hafi verið að sækja sendinguna að beiðni kærða X og hann hafi verið að fylgja hans fyrirmælum um hvað gera ætti við sendinguna. Þá liggi fyrir að lögregla fylgdist með kærða þar sem sendingin var sótt við [...], en þar ræddi hann m.a. við B, sem hefur viðurkennt sína aðild að málinu, þ.e. að hafa farið þarna til að sækja umrædda sendingu með Ý og að þeir hafi átt að fá 500.000 krónur fyrir.  Þá liggi og fyrir að kærði X hitti meðkærðu Z og Ö í Kaupmannahöfn er umræddar póstsendingar voru sendar til landsins.  X hefur viðurkennt hjá lögreglu að Ö hafi sagt sér, er þeir hittust í Kaupmannahöfn, að send hafi verið til Íslands um 20 kíló af amfetamíni og að endingu liggi fyrir gögn úr síma kærða X þar sem sést að flett hefur verið upp á fyrirtækinu sem var skráður móttakandi sendingarinnar.

Rannsókn málsins er varði þátt kærða sé langt komin og því ekki lengur þörf á að hann sæti gæsluvarðhaldi m.t.t. rannsóknarhagsmuna.  Hins vegar sé það mat lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að lagaskilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 sé fullnægt, enda sé kærði undir sterkum grun um að hafa framið afbrot sem varðar allt að 12 ára fangelsi og þá er brot hans svo svívirðilegt að almannahagsmunir krefjast þess að honum verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans.

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamálamála er þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Kærði hefur setið í gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Nú er krafist áframhaldandi gæsluvarðhalds á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Fallist verður á með lögreglustjóra að kærði sé undir sterkum grun um að hafa framið afbrot sem að lögum getur varðað allt að 12 ára fangelsi. Verður talið að meint brot sé þess eðlis að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Krafa lögreglustjórans verður því tekin til greina eins og hún er fram  sett og nánar greinir í úrskurðarorði.

Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Kærði,  X, skal sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 4. apríl 2013 kl. 16:00.