Hæstiréttur íslands

Mál nr. 247/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Fimmtudaginn 30

 

Fimmtudaginn 30. maí 2002.

Nr. 247/2002.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(Sigurður Kári Kristjánsson hdl.)

                                    

Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. maí 2002. Kærumálsgögn bárust réttinum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. maí 2002, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 10. júlí nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími og til þrautavara að honum verði í stað gæsluvarðhalds bönnuð för úr landi þar til dómur gengur í máli ákæruvaldsins á hendur honum.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. maí 2002.

Lögreglan í Reykjavík hefur krafist þess að X, heimilislausum manni, verði á grundvelli c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans en þó ekki lengur en til miðvikudagsins 10. júlí nk. kl. 16.00, vegna brota sem talin eru varða við 1. mgr. 155. gr., 247. gr., 248. gr. og 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, 73. gr. tékkalaga nr. 94/1933 og  44. og 45 gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

Í kröfu lögreglustjóra kemur fram að þann 7. þ.m. sl. hafi lögreglustjórinn í Reykjavík höfðað mál á hendur ákærða fyrir dóminum vegna þeirra ætlaðra brota hans sem lögð hafi verið til grundvallar í kröfugerð lögreglustjórans fyrir gæsluvarðhaldinu 14. f.m. Málið hafi verið þingfest nú fyrr í dag en þá hafi ákærði tjáð sig um hluta sakarefnisins.

Í ákæru sé höfðað mál á hendur ákærða fyrir 13 brot, framin á tímabilinu frá nóvember 2001 fram í apríl 2002 og sé honum meðal annars gefið að sök að hafa með auðgunarbrotum og skjalafalsi náð og reynt að ná til sín  verðmætum að andvirði um 2.350.000 króna. Ákærði hafi að mestu gengist við brotum sínum hjá lögreglu.

Ákærða var veitt reynslulausn af tæplega sex ára eftirstöðvum 17 ára fangelsisdóms í júní 2001. Fyrr í dag var þingfest opinbert mál á hendur ákærða þar sem honum voru gefin að sök 13 brot, framin á tímabilinu nóvember 2001 og fram í apríl 2002. Málið verður næst tekið fyrir 4. júní nk. en aðalmeðferð hefur ekki verið ákveðin. Meðal þessara brota eru skjalafals og allmörg auðgunarbrot. Ákærði játaði aðild að flestum þessara brota. Fram er komið að ákærði hefur lengi átt við alvarlegan fíkniefnavanda að stríða og að brotin voru framin til að fjármagna fíkniefnakaup. Í málinu liggur fyrir bréf frá meðferðarstofnuninni Byrginu þar sem fram kemur að samþykkt hafi verið að verða við beiðni ákærða um vímuefnameðferð og að hann hafi verið innritaður í slíka meðferð 27. maí 2002. Ákærði bar fyrir dómi að hann hefði ásetning til að láta af neyslu fíkniefna. Með vísan til framanritaðs og rannsóknargagna málsins má ætla að hann muni halda áfram brotum meðan málum hans er ekki lokið en góður ásetningur ákærða og innritun hans í vímuefnameðferð þykir ekki full­nægjandi trygging fyrir því að hann láti af fyrri háttsemi. Er því fallist á að skilyrðum um gæsluvarðhald ákærða samkvæmt c-lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 sé fullnægt. Krafa lögreglustjórans í Reykjavík um að kærði sæti gæsluvarðhaldi verður tekin til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.

Sigurður T. Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans en þó ekki lengur en til miðvikudagsins 10. júlí nk. kl.16.00.