Hæstiréttur íslands

Mál nr. 513/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vanhæfi


Dómsatkvæði

       

Föstudaginn 19. september 2008.

Nr. 513/2008.

Ákæruvaldið

(enginn)

gegn

X

(Oddgeir Einarsson hdl.)

 

Kærumál. Vanhæfi.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu X um að héraðsdómarinn A viki sæti í máli sem Á hafði höfðað á hendur X.

  

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Páll Hreinsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. september 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 12. september 2008, þar sem Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari hafnaði kröfu varnaraðila um að hún viki sæti í máli sóknaraðila á hendur honum. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að fyrrnefndur héraðsdómari víki sæti í málinu. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Varnaraðili hefur ekki bent á þau atvik eða aðstæður sem til þess eru fallnar að draga megi óhlutdrægni héraðsdómara í efa með réttu samkvæmt 6. gr. laga nr. 19/1991, sbr. g. lið 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur

Hvorki eru skilyrði til að dæma varnaraðila kærumálskostnað, sbr. 3. mgr. 169. gr. laga nr. 19/1991, né málskostnað í héraði, sbr. 1. mgr. 44. gr. sömu laga.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 12. september 2008.

Mál þetta er höfðað af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu með ákæru útgefinni 20. maí 2008, á hendur X, kt. [...], [heimilisf.], Reykjavík, „fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa þriðjudaginn 5. desember 2007 ekið bifreiðinni Þ með 61 km hraða á klst. austur Grænatún í Kópavogi, á vegarkafla við hús númer 20, þar sem leyfður hámarkshraði var 30 km á klst.

Telst þetta varða við 1., sbr. 4. mgr. 37. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til að sæta sviptingu ökuréttar skv. 101. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993“.

I.

Forsaga kröfugerðar ákærða er sú að dómari málsins kvað upp úrskurð þann 6. júlí 2007 þar sem ákærða var gert að sæta nálgunarbanni í sex mánuði þannig að lagt var bann við því að hann kæmi á eða í námunda við heimili fyrrverandi eiginkonu sinnar og vinnustað hennar með nánar tilgreindum hætti. Ákærði kærði úrskurðinn til Hæstaréttar Íslands en með dómi réttarins 11. júlí sama ár í máli nr. 368/2007 var hinn kærði úrskurður staðfestur að öðru leyti en því að nálgunarbann á hendur ákærða tæki ekki til vinnustaðar fyrrverandi eiginkonu hans.  

Í þinghaldi 13. júní sl. lýsti ákærði kröfu sinni um að dómari viki sæti vegna aðkomu dómarans að fyrrgreindu nálgunarbannsmáli á hendur honum. Var málinu frestað til að gefa ákærða kost á að hafa samráð við verjanda sinn en síðan var það tekið fyrir til umfjöllunar um kröfuna þann 9. september sl. Sækjandi mótmælti kröfunni. Þegar verjandi ákærða og sækjandi höfðu fært rök fyrir kröfum sínum að þessu leyti var málið tekið til úrskurðar.

II.

Við munnlegan málflutning um kröfu ákærða um að dómari víki sæti í málinu vísaði verjandi til þess að vegna eðlis tilvitnaðs nálgunarbannsmáls og þess að svo stutt væri síðan dómarinn kvað upp úrskurð í því máli, væri það til þess fallið að draga mætti hlutleysi dómarans í efa og ylli það því vanhæfi dómarans til að fara með þetta sakamál. Þá hefur ákærði bent á að niðurstaða Hæstaréttar Íslands í nálgunarbannsmálinu hafi ekki verið að öllu leyti í samræmi við niðurstöðu dómara í þessu máli. Vísaði ákærði til ákvæða 6. gr. laga nr. 19/1991, sbr. g-lið 5. gr. laga nr. 91/1991 til stuðnings kröfu sinni.

Af hálfu ákæruvaldsins var kröfu ákærða mótmælt með vísan til þess að tilvitnuð lagaákvæði ættu ekki við í máli þessu enda hefði dómarinn ekki tekið afstöðu til efnis málsins í úrskurði sínum í nálgunarbannsmálinu.

III.

Um vanhæfi dómara í opinberu máli fer samkvæmt 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 6. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála en eins og áður er rakið hefur ákærði vísað til g-liðar framangreindrar 5. gr. Þegar litið er til þess að úrskurður dómara máls þessa í áðurgreindu nálgunarbannsmáli er dómsúrlausn sem heyrir til almennum embættisverkum hans og þess að ákærði hefur ekki nefnt nein sérstök atvik við meðferð þess sem gefa ástæðu til að efast um hlutleysi dómarans gagnvart málsaðilum, verður ekki fallist á það með ákærða að uppfyllt séu skilyrði g-liðar 5. gr. laga nr. 91/1991. Verður kröfu ákærða um að dómari víki sæti vegna vanhæfis því hafnað.

Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu um að Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari víki sæti  í máli þessu.