Hæstiréttur íslands
Mál nr. 148/2005
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Börn
- Fyrning
- Miskabætur
- Sératkvæði
|
|
Fimmtudaginn 20. október 2005. |
|
Nr. 148/2005. |
Ákæruvaldið(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari) gegn X (Ásgeir Jónsson hdl.) |
Kynferðisbrot. Börn. Fyrning. Miskabætur. Sératkvæði.
X var sakaður um að hafa brotið gegn 1. mgr. 201. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með nánar tilgreindri háttsemi gagnvart dóttur sambúðarkonu hans. Samkvæmt ákæru var um að ræða eitt brot framið árið 1993 eða fyrri hluta ársins 1994, nokkur brot framin á árunum 1995 og 1996 og fjölmörg brot, sem framin voru frá júlí 1998 til apríl 1999. Sannað þótti að X hefði gerst sekur um þá háttsemi sem hann var ákærður fyrir. Hins vegar var talið að brot hans, sem fyrsti liður ákærunnar tók til, væri fyrnt og var hann því sýknaður af þeim lið ákærunnar. Að öðru leyti þótti hann hafa unnið til refsingar samkvæmt 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga og þótti hæfileg refsing ákveðin fangelsi í tvö ár og sex mánuði. Þá var hann dæmdur til að greiða brotaþola miskabætur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Guðrún Erlendsdóttir, Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 4. apríl 2005 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar héraðsdóms á sakfellingu en þyngingar á refsingu og að ákærði verði dæmdur til að greiða 2.000.000 krónur í miskabætur auk dráttarvaxta eins og í héraðsdómi greinir.
Ákærði krefst þess aðallega, að héraðsdómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar, til vara að hann verði sýknaður og miskabótakröfu vísað frá dómi og til þrautavara að refsing verði milduð og hann sýknaður af bótakröfu eða hún lækkuð.
Með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms ber að staðfesta hann á þann hátt sem í dómsorði greinir.
Ákærði greiði ¾ hluta sakarkostnaðar í héraði og allan sakarkostnað fyrir Hæstarétti samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun og þóknun réttargæslumanns, sem verða að meðtöldum virðisaukaskatti, svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en sakarkostnað.
Ákærði, X, greiði ¾ hluta sakarkostnaðar í héraði og allan sakarkostnað fyrir Hæstarétti, samtals 1.267.693 krónur, en ¼ hluti sakarkostnaðar í héraði greiðist úr ríkissjóði. Málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans á báðum dómstigum, Ásgeirs Jónssonar héraðsdómslögmanns, eru ákveðin 622.500 krónur í héraði og 435.750 krónur fyrir Hæstarétti. Þóknun réttargæslumanns brotaþola í héraði, Þórdísar Bjarnadóttur héraðsdómslögmanns, er ákveðin 186.750 krónur, en þóknun réttargæslumanns fyrir Hæstarétti, Daggar Pálsdóttur hæstaréttarlögmanns, 93.375 krónur.
Sératkvæði
Jóns Steinars Gunnlaugssonar
I.
Ákærði hefur neitað sök. Samkvæmt 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar skal hver sá sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi talinn saklaus þar til sekt hans hefur verið sönnuð. Sama regla er orðuð svo í 2. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sem leiddur var í lög á Íslandi með lögum nr. 62/1994, að hver sá sem borinn sé sökum um refsiverða háttsemi skuli talinn saklaus uns sekt hans er sönnuð að lögum. Í 45. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála er kveðið svo á að sönnunarbyrði um sekt sakbornings og atvik, sem telja megi honum í óhag, hvíli á ákæruvaldinu. Í 46. gr. laganna kemur fram að sönnunarskyldan gildi „um hvert það atriði sem varðar sekt og ákvörðun viðurlaga við broti“. Skal dómari meta hverju sinni hvort nægileg sönnun sé komin fram um þessi atriði. Við það mat kannar hann þau sönnunargögn sem færð hafa verið fram fyrir dómi. Til þeirra heyra einkum sýnileg sönnunargögn um brot, vitnisburður þeirra sem vitni hafa orðið að broti og skýrslur hins ákærða manns, þar sem hann tjáir sig um sakargiftir.
II.
Í 1. og 2. lið ákærunnar er ákærða gefið að sök að hafa haft samræði við dóttur sambúðarkonu sinnar í fyrsta lagi í að minnsta kosti eitt skipti á árinu 1993 eða fyrri hluta ársins 1994 og í öðru lagi í nokkur skipti á árunum 1995 og 1996. Í héraðsdómi var talið sannað, að hann hefði í fyrra tilvikinu gerst sekur um önnur kynferðismök en samræði við stúlkuna og í síðara tilvikinu að hann hefði haft við hana samræði í fimm skipti á árunum 1995 og 1996 og á fyrri hluta árs 1997. Hann var svo sýknaður af fyrra brotinu vegna sakarfyrningar.
Þessar sakfellingar í héraðsdómi voru eingöngu byggðar á vitnisburði ætlaðs brotaþola. Segir í forsendum dómsins, að vitnisburðurinn sé trúverðugur og ekkert sé komið fram sem hnekki honum. Jafnframt er þar sagt, að ekkert sé komið fram undir rekstri málsins sem gefi raunhæfa ástæðu til að ætla að hinar alvarlegu sakargiftir eigi sér aðra skýringu en þá að ákærði hafi brotið gegn stúlkunni með þeim hætti sem hún haldi fram.
Í þessari úrlausn felst að í tilviki, þar sem ætlaður brotaþoli ber fram sakir á hendur manni um brot af því tagi sem hér um ræðir og hann neitar sök, dugi til sakaráfellis, að kærandinn teljist trúverðugur að mati dómara. Þá megi hreinlega snúa sönnunarbyrði við og leggja á hinn sakaða mann að hnekkja framburðinum. Líklega eru vandfundin dæmi um að dómstólar hafi sakfellt ákærða menn fyrir refsiverð brot á slíkum grundvelli í öðrum flokkum afbrota. Þessu virðist ráða sú aðstaða að sönnunarfærsla um brot er jafnan erfið í málum af þessu tagi og svo hitt að brot, ef sönnuð eru, teljast án nokkurs vafa svívirðileg að almenningsáliti, því í þeim felst alvarlegt trúnaðarbrot gegn barni, sem viðkomandi sakborningi hefur verið trúað fyrir til uppeldis. Þessi aðstaða getur ekki að réttum lögum valdið því að sakborningar séu sviptir þeirri mannréttindavernd sem fyrrgreindum lagareglum um sönnunarfærslu í sakamálum er ætlað að tryggja þeim. Er með öllu óheimilt að láta þessar aðstæður valda því að farið sé svo með sönnunarbyrði sem héraðsdómur gerir hér, að snúa henni við og leggja á ákærða að hnekkja framburði þess sem á hann ber sakir.
Það getur ekki haft sjálfstætt sönnunargildi í sakamálum, að kærandi hafi skýrt fleirum en lögreglu frá þeim brotum sem sakir beinast að, nema sérstaklega standi á, einkum ef langt er um liðið frá ætluðum brotum. Í hinum áfrýjaða dómi er nefnt að kærandi hafi, eigi síðar en 1997, greint tveimur vinkonum sínum frá kynferðisbrotum ákærða. Í vitnisburði annarrar vinkonunnar kom fram, að þetta hefði gerst einu sinni, tilefnið hafi verið að hin vinkonan hafi skýrt þeim frá kæru á hendur föður sínum um sambærilegar sakargiftir, kærandi hafi verið drukkin við þetta tækifæri og hún hafi ekki gefið neina lýsingu á því í hverju ætluð misnotkun hefði verið fólgin. Jafnvel þó að fallist yrði á að sönnunarfærsla í opinberu máli geti yfirleitt farið fram með þessum hætti, verður ekki talið að vitnisburður á borð við þennan geti þar haft þýðingu og þá heldur ekki mat héraðsdómara á trúverðugleika hans, enda eru engin efni til að rengja framburðinn. Hann felur aðeins í sér endursögn á frásögn annars manns og skiptir því ekki máli um sönnun sakargiftanna. Hið sama er að segja um bréf, sem kærandi kveðst hafa skrifað nafngreindum vini sínum. Í framburði hans í málinu kom raunar fram að bréf þetta hefði líklega verið skrifað á árinu 1999, eftir að komið var á kynferðissamband ákærða við stúlkuna samkvæmt eigin frásögn hans. Bréfið liggur ekki fyrir í málinu, þar sem móttakandi þess kvaðst hafa glatað því. Í bréfinu kann að hafa verið efni, sem átti rót sína að rekja til hinna nýrri tilvika. Í engri þessara frásagna er því haldið fram, að kærandi hafi skýrt frá samræði ákærða við sig. Þær geta því aldrei, hvað sem öðru líður, orðið til stuðnings sakfellingu í 2. lið ákærunnar fyrir þá háttsemi, svo sem raunin varð í héraðsdómi.
Af hálfu ákærða hafa verið nefnd ýmis atriði sem hann telur til þess fallin að draga úr trúverðugleika kærandans. Að hluta er gerð grein fyrir þeim í hinum áfrýjaða dómi. Þar er meðal annars vikið að misræmi í framburði hennar um tilvikið í 1. lið ákæru, misræmi í framburði hennar um fjölda tilvika á árunum 1995 til 1996 og sýnilegum ruglingi í tíma við atburði eftir árið 1998, sem að hluta til er ákært fyrir í 3. lið ákærunnar. Af hálfu ákærða hefur verið vísað á fleiri dæmi sem talin eru sama marki brennd. Þannig beri gögn málsins víða með sér að kærandi hafi gegnum árin leitað mjög til ákærða og samband þeirra verið gott. Þess finnist þó dæmi í framburði kæranda, að hún segist hafa viljað forðast samneyti við hann. Fyrir dómi hafi hún allt að einu, þegar hún hafi verið spurð um atburði áranna 1995 og 1996, gefið það svar að sér hafi þótt afar gaman að fara með ákærða „út í torfæru og leika sér í snjónum og þá stoppaði hann bílinn stundum og lét mig leggjast í framsætinu og gerði sitt bara.“ Þá sé meðal málsgagna að finna ritaðan texta af hljóðsnældu, þar sem kærandi hafi hljóðritað símtal við ákærða 31. janúar 2004, nokkrum dögum áður en hún bar fram kæru sína hjá lögreglu. Hafi hún sagst gera þetta til að freista þess að ná fram játningu hans á brotum gagnvart henni. Í símtalinu hafi hún samt aldrei haft orð á því að hann hafi brotið gegn henni á þeim tíma, sem 1. og 2. liður ákærunnar fjalla um.
Fallast má á það með ákærða, að þetta séu allt atriði, sem héraðsdómur hefði þurft að víkja að, þegar hann mat trúverðugleika kæranda. Verður af þessum sökum ekki hjá því komist að ætla að niðurstaða héraðsdóms um sönnunargildi munnlegs framburðar kæranda fyrir dómi kunni að vera röng svo einhverju skipti, svo sem það er orðað í 5. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991. Af þessum sökum gæti Hæstiréttur samkvæmt þessu lagaákvæði fellt úr gildi héraðsdóm og meðferð málsins í héraði í þeim mæli að munnleg sönnunarfærsla færi þar fram á ný eftir þörfum og leyst yrði úr málinu á ný. Þegar hins vegar er hér litið til þess sem fyrr sagði, að sakfelling í refsimáli verður ekki eingöngu reist á framburði kæranda gegn neitun ákærða, tel ég að ekki sé ástæða til þessarar afgreiðslu málsins.
Með vísan til alls þess sem hér hefur verið rakið tel ég ósannað að ákærði hafi gerst sekur um þau brot sem hann er sakaður um í 1. og 2. lið ákærunnar og beri að sýkna hann af þeim. Þarf þá ekki að taka afstöðu til sjónarmiða um sakarfyrningu að því er þessa ákæruliði varðar.
III.
Í 3. lið ákærunnar er ákærða gefið að sök að hafa haft samræði við kæranda í fjölmörg skipti, stundum tvisvar í viku, frá júlí 1998 til apríl 1999, en þá varð kærandi 18 ára. Er þetta, svo sem raunar brotin í ákæruliðum 1 og 2, talið varða við 1. mgr. 201. gr. almennra hegningarlaga, þar sem refsing er lögð við því að hafa samræði eða önnur kynferðismök við barn eða ungmenni yngra en 18 ára, sem er kjörbarn, stjúpbarn, fósturbarn, sambúðarbarn eða ungmenni sem viðkomandi hefur verið trúað fyrir til kennslu eða uppeldis. Upphafstímamörk ákærunnar í þessum lið eru byggð á framburði ákærða fyrir lögreglu. Þegar ákærði kom fyrir dóm vildi hann breyta frásögn sinni um upphafstíma þessara kynferðislegu samskipta sinna við kæranda og kvaðst hafa ruglast á árum. Þau hafi byrjað sumarið 1999, þegar kærandi var orðin 18 ára gömul. Tengir hann þetta við sumarleyfisferðir til Spánar á þann hátt sem greint er í hinum áfrýjaða dómi. Hann hefur ekki framvísað sönnunargögnum, sem gætu verið til þess fallin að renna stoðum undir þennan breytta framburð, þó að hann ætti að hafa haft möguleika á því að minnsta kosti að einhverju marki. Með vísan til þessa en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms, að því er þetta snertir, tel ég að staðfesta beri niðurstöðu hans um sakfellingu ákærða á brotum samkvæmt þessum lið.
Þar sem meirihluti dómara hefur komist að annarri niðurstöðu um sakfellingu ákærða er ekki ástæða til að ég taki afstöðu til hæfilegrar refsingar hans fyrir þetta brot.
Ég tel að gera ætti ákærða að greiða helming sakarkostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti og að hæfileg málsvarnarlaun verjanda hans fyrir Hæstarétti séu 500.000 krónur að viðbættum virðisaukaskatti. Um fjárhæð annars sakarkostnaðar er ég sammála meirihluta Hæstaréttar.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 7. mars 2005.
Mál þetta dæma héraðsdómararnir Þorgeir Ingi Njálsson, Finnbogi H. Alexandersson og Guðmundur L. Jóhannesson. Er dómurinn fjölskipaður með vísan til 1. mgr. 5. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 1. gr. laga nr. 37/1994.
Málið er höfðað með ákæru útgefinni 18. nóvember 2004 á hendur X, [...] „fyrir kynferðisbrot gegn dóttur sambýliskonu ákærða, stúlkunni A, fæddri árið 1981, með því að hafa haft samræði við hana sem hér greinir:
1. Í að minnsta kosti eitt skipti, á árinu 1993 eða fyrri hluta ársins 1994, á salerni heimilis þeirra að Z [...].
2. Í nokkur skipti, á árunum 1995 og 1996, á heimili þeirra að Y [...].
3. Í fjölmörg skipti, stundum tvisvar í viku, frá júlí 1998 til apríl 1999, að Y [...].“
Sú háttsemi sem ákærða er gefin að sök í 1. tölul. ákæru er talin varða við 1. mgr. 201. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 9. og 10. gr. laga nr. 40/1992, sbr. nú 3. og 4. gr. laga nr. 40/2003, en meint háttsemi hans samkvæmt 2. og 3. tölul. ákæru er þar heimfærð til 1. mgr. 201. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 9. gr. laga nr. 40/1992, sbr. nú 3. gr. laga nr. 40/2003.
Í ákæru er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Í málinu er þess ennfremur krafist að ákærða verði gert að greiða A 2.000.000 krónur í miskabætur. Er bótakrafan tilgreind í ákæru, en hún var sett fram með bréfi skipaðs réttargæslumanns A, Þórdísar Bjarnadóttur héraðsdómslögmanns, 24. júlí 2004. Krafist er vaxta samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 31. desember 1998 til 1. júlí 2001, vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til 30. október 2004, en dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Loks er krafist réttargæsluþóknunar.
Ákærði krefst sýknu af refsikröfu ákæruvalds og frávísunar bótakröfu.
Málið var upphaflega dómtekið 7. f.m. Það var síðan endurupptekið 25. f.m. í tilefni af því áliti dómsins að afla þyrfti frekari gagna í því og yfirheyra eitt vitni að nýju, sbr. 131. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Í þessu sama þinghaldi lagði saksóknari hin umbeðnu gögn fram. Skýrslutakan fór síðan fram í þinghaldi 1. þ.m., en að henni lokinni var málið dómtekið að nýju.
I.
Hinn 3. febrúar 2004 lagði A fram kæru hjá rannsóknardeild lögreglunnar í Keflavík á hendur fósturföður sínum, ákærða X, fyrir að hafa misnotað hana kynferðislega um margra ára skeið. Kvað hún brotin hafa átt sér stað með hléum frá árinu 1988 til ársins 2001. Í lögregluskýrslu sinni greindi A frá því að ákærði og móðir hennar, B hefðu byrjað að búa saman árið 1988 eða 1989 og hafi ákærði flutt inn á heimili þeirra að Z í [...]. Hafi misnotkunin hafist fljótlega eftir að ákærði flutti inn á heimili hennar. Þetta hafi byrjað þá er hún, bróðir hennar C og ákærði fóru saman á torfærukeppni. Hafi hún setið í fanginu á ákærða og hann þá byrjað að þukla á lærum hennar utanklæða. Hafi henni fundist þetta óþægilegt en þó ekki sagt neinum frá því sem gerst hafði. Það hafi síðan gerst einhverju síðar að hún hafi legið í sófa í stofunni á heimili þeirra á Z. Hafi ákærði þá sagt við hana að hann ætlaði að gera við hana það sem dóttur hans, D, þætti gott. Hafi hann síðan tekið hana í bóndabeygju og borið hana inn í hjónaherbergið. Þar hafi ákærði síðan klætt hana úr að neðan og sleikt á henni kynfærin. Svona hafi þetta haldið áfram. Ákærði hafi vanið komur sínar inn í svefnherbergi hennar á morgnana milli klukkan 8 og 9, en móðir hennar hafi átt að mæta til vinnu klukkan 8 og ákærði klukkustund síðar. Hafi hún þóst vera sofandi meðan ákærði káfaði innanklæða á kynfærum hennar. Þetta hafi gerst í mjög mörg skipti. Einhverju síðar hafi ákærði byrjað að taka hana með sér í bíltúra. Kvaðst hún eiga erfitt með að tímasetja þetta, enda renni atburðirnir mikið saman í eitt. Hafi ákærði farið með hana eitthvert út fyrir bæinn á afskekktan stað. Þar hafi hann káfað á kynfærum hennar og sleikt þau, tekið út á sér liminn og nuddað honum upp að kynfærum hennar án þess að setja hann inn í leggöng hennar. Hafi þetta að því er hún taldi gerst í allt að tíu skipti. Í eitt skipti hafi ákærði setið í eins manns sófa í sjónvarpsholinu á heimili þeirra að Z og hún legið þar hjá honum. Hafi þetta verið að kvöldi til og hún verið klædd í nærbuxur og náttföt. Hafi ákærði, sem verið hafi mikið ölvaður, sett hönd sína inn fyrir nærbuxur hennar og verið þar með höndina kyrra þar til móðir hennar hafi komið þarna að og tekið hana í burtu frá honum. Kvað hún móður sína ekki hafa gert neitt veður út af þessu þar sem ákærði hafi verið ölvaður og hún því talið þetta vera eitthvert fyllerísrugl í honum. Svona hafi þetta gengið fyrir sig í tvö til þrjú ár, en upp frá því hafi ákærði farið að ganga lengra. Hafi hann haft við hana samræði í fyrsta sinn þegar hún hafi verið um 10 ára gömul. Þá hafi þau búið á Z. Kvaðst hún þó ekki muna hvort kynmökin hefðu átt sér stað á heimili þeirra eða í bíl ákærða en aðdragandinn hafi þó verið svipaður því sem áður var; hann hafi fyrst káfað á kynfærum hennar, síðan sleikt þau og á endanum sett liminn á sér inn í leggöng hennar og viðhaft samfarahreyfingar. Kvaðst hún ekki muna eftir því hvort ákærði notaði smokk eða hvort hann hafi fengið sáðlát. Hversu oft þetta gerðist kvaðst hún ekki muna, en það hafi þó verið alloft. Eitt atvik á Z sé henni einkar minnisstætt, en þá hafi allir verið heima. Kvaðst hún hafa farið á salernið en ekki læst hurðinni frekar en venjulega. Hafi ákærði komið inn á eftir henni og lokað hurðinni á eftir sér. Kvaðst hún hafa setið á klósettinu er ákærði kom inn og vitað í hvaða tilgangi hann væri kominn þangað. Hafi ákærði reynt að hafa við hana endaþarmsmök en ekki tekist að koma limnum inn. Þá hafi hann sett liminn inn í leggöng hennar og haft við hana samfarir. Hafi hún hallað sér fram, snúið baki í ákærða og haldið um baðkarið með höndunum á meðan ákærði kom fram vilja sínum. Á þessu tímabili hafi ákærði byrjað að gefa henni peninga í skiptum fyrir þagmælsku hennar um kynmökin. Það hafi síðan verið um sumarið 1994, þegar þau fluttu á Y í [...], að misnotkunin hafi farið að aukast. Næstum daglega hafi ákærði gert eitthvað á hlut hennar. Stundum hafi það verið á morgnana þegar móðir hennar var farin til vinnu, stundum þegar hún kom heim úr skólanum og stundum á milli klukkan 17 og 18, en móðir hennar, sem vann í Reykjavík á þessum tíma, hafi komið heim úr vinnunni um klukkan 18. Hafi þarna nær eingöngu verið um samfarir að ræða. Á þessum tímapunkti hafi hún fengið töluverðar fjárhæðir frá ákærða, allt frá 5.000 krónum fyrir hvert skipti. Kvað hún ákærða hafa gefið sér peninga þegar hún neitaði honum um kynmök. Hafi ákærði haft við hana samfarir nær daglega eða annan hvern dag í tvö ár og hafi þær eingöngu átt sér stað á Y. Í þau skipti sem ákærði hafi haft samfarir við hana í sjónvarsholinu á heimili þeirra hafi hún ávallt haft kveikt á sjónvarpinu í þeim tilgangi að útiloka það sem ákærði var að gera við hana. Þar hafi ákærði sleikt á henni kynfærin og síðan haft við hana samfarir. Hann hafi verið á hnjánum á gólfinu, en hún setið í stól og hallað sér aftur. Einnig hafi samfarirnar átt sér stað í sófa sem var þar. Þá hafi hún legið undir honum, á bakinu, og hann ofan á. Þá hafi þau einnig haft samfarir í svefnherbergi hennar og svefnherbergi móður hennar og ákærða. Kvað hún ákærða stundum hafa notað smokk og stundum ekki. Þá hafi hann ýmist haft sáðlát inni í henni eða verið með bréfþurrku og sett sæðið í hana. Ef undan er skilið eitt skipti hafi enginn komið að þeim þá er þessi misnotkun átti sér stað. Í þetta eina skipti hafi bróðir hennar komið óvænt heim, en þá hafi ákærði náð að rjúka á fætur og hysja upp um sig buxurnar og henda teppi yfir hana. Bróðir hennar hafi líklega hvorki séð né grunað neitt.
Í skýrslu A hjá lögreglu kom fram að hún hafi byrjað að reykja sígarettur tólf ára gömul og fljótlega eftir það byrjað að drekka áfengi. Fíkniefna hafi hún fyrst neytt þegar hún var fímmtán ára. Í fyrstu hafi verið um hass að ræða, en hún hafi leiðst út í sterkari efni þegar hún var sautján eða átján ára gömul. Í kringum fimmtán ára aldurinn hafi hún byrjað að vera með strák, E, og flutt að heiman og heim til foreldra hans. Kvaðst hún ekki hafa sagt honum frá reynslu sinni með ákærða. Á þessu tímabili hafi dregið úr misnotkuninni en þó hafi það komið fyrir að hún hafi þurft að koma við á fyrra heimili sínu að Y og hitt ákærða þar og hafi hann haft við hana samfarir. Kvaðst hún á þessum tíma hafa verið orðin svo tilfinningalega illa farin að henni hafi ekki þótt það vera neitt stórmál að hafa samræði við ákærða. Þetta hafi verið ágætis leið fyrir hana til að fjármagna fíkniefnaneyslu sína. Þegar hún hafi verið peningaþurfi hafi hún hringt í ákærða og fengið peninga í skiptum fyrir kynferðismök. Hafi hún stundum hringt í ákærða og beðið hann um að lána sér um þúsund krónur eða svo og honum fundist það vera sjálfsagt mál. Kvaðst hún hafi viljað hitta hann í banka til að taka við peningunum en ákærði viljað fá hana heim svo hann gæti haft við hana samfarir. Kvaðst hún ávallt hafa neitað í fyrstu, en þá hafi ákærði boðið henni hærri og hærri fjárhæðir þar til hún samþykkti að hafa við hann samfarir. Kvað hún ákærða hafa greitt allt frá 5.000 krónum og upp í 9.000 krónur, en oft hafi hann verið byrjaður að káfa á henni áður en hún hafi veitt samþykki sitt fyrir kynmökum gegn greiðslu. Eftir að hafa búið í nokkra mánuði hjá foreldrum E hafi þau flutt í íbúð að Þ í [...]. Ákærði hafi stundum komið þangað þegar E var ekki heima og haft við hana samfarir gegn greiðslu. Hafi þetta gerst í um 10 til 15 skipti.
Fram kom hjá A hjá lögreglu að hún hafi vorið 1997, að loknum 10. bekk, hætt námi og farið að vinna í [...]. Þegar hér var komið sögu hafi henni verið orðið sama um allt. Henni hafi gengið illa í skólanum og verið komin í mikla áfengis- og hassneyslu. Um áramótin 1997/1998 hafi hún síðan hafið nám í [...] og verið þar í 3-4 mánuði. Að því loknu hafi hún flutt aftur inn til E. Þegar hún kom að austan hafi hún verið laus við ákærða í einn eða tvo mánuði. Hún hafi þó hitt ákærða í eitt skipti á heimili hans á Y. Þau hafi verið þar ein og hafi ákærði þar viljað hafa við hana samfarir. Hún hafi í fyrstu neitað en eftir að ákærði hafði þrábeðið hana um að hafa við sig samræði gegn greiðslu hafi hún látið til leiðast. Svona hafi þetta gengið fyrir sig þar til í ágúst eða september 2001, en þá hafi hún flutt til Reykjavíkur. Þá hafi hún verið búin að gera ákærða það ljóst að hún vildi þetta ekki lengur og hafi ekkert gerst á milli þeirra eftir það.
Við skýrslugjöf hjá lögreglu skýrði A svo frá að hún hafi sagt móður sinni frá því um miðjan janúar 2004 að ákærði hefði misnotað hana kynferðislega, en móðir hennar og ákærði hefðu þá nýverið, eða um miðjan desember 2003, slitið samvistum. Hafi móðir hennar rætt við ákærða í kjölfar þessa og sagt við að hann „að hún vissi hvernig lífi hann hefði lifað“. Í framhaldi af þessu hafi ákærði ítrekað reynt að ná tali af A, en hún hafi ekki svarað símhringingum hans. Hafi hún þá ákveðið að setja á sig upptökutæki og taka upp samtal sem hún hefði haft í hyggju að eiga við ákærða. Hafi hún verið búin að koma tækinu fyrir og verið á leið heim til ákærða þegar hann hafi óvænt komið í heimsókn til hennar. Það samtal sem þau þá áttu hafi hún tekið upp. Hafi hún meðal annars sagt við ákærða að henni væri farið að líða mjög illa út af þessari misnotkun og hann þá svarað „já mér líka“ og spurt hana hvort hún gæti fyrirgefið honum. Hafi hann í kjölfarið farið að tala um það að hann vissi ekki af hverju þetta hafi gerst og farið að afsaka sig. Staðhæfði A að ákærði hafi í þessu samtali þeirra viðurkennt að hafa misnotað hana kynferðislega og að hún hafi tekið þá játningu upp á segulbandið. Ákærði hafi dvalið á heimili hennar í um það bil eina og hálfa klukkustund í þetta skipti, en þau hafi eingöngu rætt saman um misnotkunina í um það bil 5 mínútur. Sama dag og kæra var lögð fram hafi ákærði komið aftur heim til hennar og spurt hana hvort hún hefði í hyggju að leggja fram kæru á hendur honum. Hún hafi þá svarað því einu til að hún væri að hugsa málið, enda þótt hún hafi þá verið búin að taka um það ákvörðun að kæra hann.
Að lokum er vert að geta þess að því er varðar skýrslugjöf A hjá lögreglu að þar kom fram hjá henni að hún hafi skýrt kærasta sínum, F, frá því í febrúar 2003 að ákærði hefði misnotað hana kynferðislega. Þá hafi hún sagt þremur nafngreindum vinum sínum frá þessu löngu áður, eða á árunum 1995 eða 1996.
Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu þann 6. febrúar 2004. Kvaðst hann neita allri sök og þvertók fyrir að hafa beitt A kynferðislegu ofbeldi á umræddu tímabili. Hann kvaðst þó játa að hafa átt í kynferðislegu sambandi við A frá 1998 til 2001. Það hafi hins vegar verið með hennar samþykki og að frumkvæði hennar. Árið 1997 hafi A byrjað að slá ákærða um peningalán. Hafi hann lánað henni allt frá 5 til 10 þúsund krónur í hvert skipti. Illa hafi gengið að fá þær fjárhæðir endurgreiddar og því hafi ákærði hætt að lána henni. Um sumarið 1998 hafi ákærði og móðir A, B, farið í frí til Mallorca á Spáni. Er heim var komið hafi B farið að vinna en ákærði haldið áfram í sumarfríi. Í eitt skipti, í fyrri hluta júlímánaðar, hafi A verið að koma úr sturtu með einungis handklæði yfir sér, en ákærði verið að lesa dagblöð sem höfðu safnast upp meðan hann var í útlöndum. Um það sem gerðist í kjölfarið er eftirfarandi bókað í lögregluskýrslu: „Mætti segir að hún hafi spurt mætta hvort að mætti væri ekki tilbúinn að meika við sig díl. Mætti segist hafa spurt hana hvað hún ætti við og þá hafi hún látið handklæðið flaksa og spurt mætta hvort að hann vildi ekki koma við sig og einnig hafi hún spurt hvort að mætti gæti ekki reddað sér 5 eða 10 þúsund krónum. Mætti kveðst hafa fallið á bragðinu og segist aðspurður hafa haft við hana samfarir [...] Mætti segir aðspurður að þessu loknu hafi mætti látið hana fá pening.“ Kvaðst ákærði telja að þetta hafi svo gerst stöku sinnum fram til ársins 2001, það er að þau hafi haft samfarir og A þegið greiðslu fyrir. Hefði hún skipulagt þetta og fylgst með því hvort einhver væri heima. Hversu oft þau höfðu samfarir kvaðst hann ekki vita en þetta hafi þó staðið yfir í þrjú ár og stundum tvisvar í viku en stundum ekki neitt. Ákærði hafi síðan fyrri hluta ársins 2002 rætt um það við A að þau hættu þessu alfarið, bæði vegna sektarkenndar hans og þess að hann hafi verið orðið hrifinn af henni.
Ákærði gaf skýrslu öðru sinni hjá lögreglu 30. september 2004. Kvaðst hann vilja koma því á framfæri að á þeim tíma sem hann vann á bílaverkstæði [...] hafi hann byrjað í vinnu klukkan 8 á morgnana og áður en B, móðir A, fór í vinnuna. Þar hafi hann starfað frá 1988 til 1990. Hann hafi síðan byrjað að vinna hjá [...] árið 1990. Þar hafi hann byrjað að vinna á sama tíma og B, eða klukkan 9. Hafi þau bæði lagt af stað til vinnu sinnar klukkan 8:30. A hafi hins vegar á þessum árum mætt í skólann klukkan 8 og því hafi ákærði ekki getað farið inn til hennar til að brjóta gegn henni kynferðislega.
Eftir að hafa lesið yfir fyrri skýrslu sína hjá lögreglu tók ákærði fram að honum fyndist sem það liti þannig út að A hefði einungis fengið peninga hjá honum í skiptum fyrir kynferðisathafnir. Það sé hins vegar ekki rétt og hafi hún oft fengið peninga hjá honum án þess að um kynlífsgreiða af hennar hálfu hafi verið að ræða. Þá hafi hún oft beðið ákærða um peninga að loknum kynlífsathöfnum þeirra.
Aðspurður hjá lögreglu um ástæður kæru tiltók ákærði þá einu skýringu að ef til vill mætti rekja hana til sambúðarslita hans og móður A og deilna á milli þeirra í kjölfarið.
F, núverandi sambýlismaður A, gaf skýrslu hjá lögreglu 26. mars 2004. Kvaðst hann hafa kynnst A í kringum jólin 2002. Fljótlega eftir það hafi hún sagt honum frá því að ákærði hefði misnotað hana kynferðislega. Hafi hún greint honum frá því að ákærði hefði komið inn í herbergi hennar þegar móðir hennar var farin til vinnu og misnotað hana. Hafi hann vakið hana með munngælum og hafi þetta átt sér stað um margra ára skeið. Þetta hafi byrjað þegar A var 9 ára gömul. Hafi A ekki sagt það beint út en F skilið hana á þann veg að ákærði hefði haft við hana samfarir. Um ástæður þess að kæra var ekki lögð fram fyrr en raun ber vitni kom fram hjá F að A hafi ekki viljað gera móður sinni það. Eftir að ákærði og móðir A slitu samvistum hafi hún hins vegar ákveðið að leggja fram kæru. Fram kom hjá F að ákærði hafi oft heimsótt hann og A eftir að sambúð þeirra hófst og verið allur af vilja gerður til að hjálpa þeim. Þegar A var búin að leggja fram kæru sína hafi F farið til ákærða og beðið hann um að láta þau í friði. Eftir þetta hafi ekkert samband verið á milli þeirra.
B, fyrrum sambýliskona ákærða og móðir A, greindi frá því í lögregluskýrslu 18. maí 2004 að hún hafi fengið vitneskju um meinta misnotkun í kringum 20. janúar það ár. Hafi A komið til hennar eftir að B og ákærði slitu samvistum og sagt henni alla söguna. Fram hafi komið hjá A að ákærði hefði misnotað hana kynferðislega frá því í barnæsku. Líklega hafi þetta byrjað um það leyti sem ákærði flutti inn til B, eða í kringum 1987. Hafi A nefnt eitt atvik sérstaklega. Hún hafi þá legið í fanginu á ákærða, klædd í nærbol og nærbuxur, og verið að horfa á sjónvarpið. Kvaðst B muna mjög vel eftir þessu og að hún hafi brjálast þegar ákærði hafi sett hönd sína inn fyrir nærbuxur A. Kvaðst hún hafa rokið upp og tekið stúlkuna úr fangi hans. Hafi hún orðið mjög reið við ákærða vegna þessa, en talið að þessa tilburði hans mætti rekja til þess hversu ölvaður hann hafi verið. Kvaðst hún hafa rætt um þetta við hann daginn eftir en hann þóst ekkert muna, hafi allur farið í hnút og skammast sín. Kom fram hjá B að þegar A minntist á þetta atvik fyrir framan sjónvarpið hafi hún greint henni frá því að misnotkun ákærða hefði þegar verið byrjuð og hafi hann á þessu tímabili verið byrjaður að sleikja á henni kynfærin. Þá hafi A lýst fleiri atvikum fyrir B, meðal annars þegar ákærði hafi farið með hana fjölmörgum sinnum í bíltúra þar sem hann hafi misnotað hana. Hafi A lýst misnotkuninni þannig að ákærði hafi sleikt á henni kynfærin og nuddaði kynfærum sínum utan í hana, en þó ekki haft við hana samfarir. Það hafi gerst einhverju síðar. Kvaðst B hafa spurt A hvernig þetta hefði getað átt sér stað án þess að hún yrði þess vör og A þá svarað því til að það ætti sér eðlilegar skýringar. Móðir hennar hefði aldrei getað vitað þetta þar sem ákærði hefði alltaf gengið úr skugga um að hún væri í vinnunni og enginn annar heima. Auk þess hafi ákærði sagt við A að hún mætti ekki segja neinum frá því sem gerst hafði, þetta væri þeirra leyndarmál. Kvaðst B í ljósi frásagnar dóttur sinnar minnast þess að ákærði hefði verið síhringjandi í hana til að spyrja hana hvar hún væri stödd og hvenær hún kæmi heim. Hafi hann þannig fylgst vel með öllum hennar ferðum. Aðspurð um hvernig vinnutíma hennar og ákærða var háttað frá 1987 til 2001 skýrði B svo frá að ákærði hefði unnið frá klukkan 9 til 17 virka daga eða frá því að hann byrjaði í núverandi starfi hjá [...], en þar að auki hefði hann tekið sér klukkutíma hádegishlé milli klukkan 12 og 13 og komið heim. Áður hafi hann starfað á bifreiðaverkstæði [...], eða frá 1988 til 1990. Þar hafi hann unnið í 8 stundir á dag en getað komið og farið þegar honum sýndist. Kvaðst B hafa starfað hjá [...] frá 1986 og unnið frá klukkan 9 til 17 án þess að fara neitt heim í hádeginu. Eftir lokun hafi hún svo unnið við skúringar í bankanum og því ekki verið komin heim á kvöldin fyrr en um klukkan 18 eða 18:30 alla virka daga. Hún hafi þó hætt skúringunum árið 1990. Árið 1995 hafi hún svo farið að vinna hjá [...] í Hafnarfirði og því þurft að leggja mjög snemma af stað á morgnana, um klukkan 7:40, og komið mun seinna heim eftir vinnu en ákærði.
Í framangreindri skýrslu sinni skýrði B svo frá að í lýsingum A hafi komið fram að ákærði hafi notað smokk þá er hann hafi misnotað hana. Greindi B frá því í tilefni af þessu að þegar unnið hafi verið að því að hreinsa út úr bílskúrnum heima hjá henni og ákærða í kjölfar sambúðarslita þeirra hafi hún fundið nokkrar lengjur af smokkum í kassa innan um „bíladót“ í eigu ákærða. Hefðu hún og ákærði þó aldrei notað smokka við samfarir og kvað B það vera alveg ljóst að sonur hennar, C sem þar bjó einnig, ætti ekki umrædda smokka. Kvaðst B í einu og öllu trúa því sem A hefði sagt henni um hátterni ákærða. Kvaðst hún svona eftir á gera sér grein fyrir því að ákærða hafi greinilega ekki liðið vel á þessum tíma og hann hafi drukkið mikið. Hafi líðan ákærða greinilega farið síversnandi síðustu níu árin og svo hafi virst sem hann hefði „eitthvað slæmt á samviskunni.“
C, hálfbróðir A, greindi frá því í lögregluskýrslu sinni að hann hefði fyrst heyrt af málinu er A sagði honum og móður þeirra frá því hvað gerst hefði á milli hennar og ákærða. Hafi A sagt þeim að ákærði hefði byrjað að misnota hana er hún hafi verið um 7 ára gömul. Hafi ákærði sagt við hana að hann ætlaði að gera við hana svolítið sem dóttur hans þætti gott og kvaðst C telja að hann hafi átt við D dóttur ákærða. Síðan hafi hann farið með hana inn í herbergi, farið niður á hana og sleikt á henni kynfærin. Honum hafi orðið mjög órótt við lýsingar A og sagt að hann vildi ekki heyra meira. Hann kvaðst þó muna eftir því að A hafi sagt að ákærði hefði haft við hana samfarir. Kvaðst hann hafa átt erfitt með hlusta á það sem A hafði að segja þar sem hann hefði áður fyrr litið upp til ákærða og talið hann góða fyrirmynd. Sjálfur kvaðst C ekki hafa orðið var við óeðlilega hegðun ákærða í garð A þann tíma sem C bjó á heimilinu, en er hann líti til baka sjái hann ýmislegt sem styðji það sem A haldi fram. Megi þar nefna meðal annars að ákærði hafi alltaf boðið henni í bíltúr en honum ekki. Þá hafi A alltaf fengið peninga frá ákærða ef hana langaði í eitthvað. Til dæmis hafi ákærði aðstoðað hana við kaup á mótorhjóli er hún var 15 eða 16 ára gömul.
G, hálfsystir A, gaf skýrslu hjá lögreglu. Kvaðst hún hafa frétt af þessu máli er A hafi sagt henni frá því í janúar 2004. Hefði A greint henni frá því að ákærði hefði misnotað hana kynferðislega frá því að hún var 7 ára gömul. A hafi þó ekki lýst þessu nánar en þó sagt að hún grunaði ákærða um að hafa „gert þetta líka“ við dóttur hans, D, en ákærði hefði eitt sinn sagt við A að hann ætlaði að gera við hana svolítið sem dóttur sinni þætti gott og í framhaldinu hafi hann misnotað A. Hafi þetta átt sér stað þegar móðir þeirra var í vinnunni. A hafi þó ekkert farið frekar út í þetta og kvaðst G ekki hafa kunnað við það að spyrja hana um þetta frekar. Kvaðst G á þeim tíma sem hún dvaldi á heimilinu með A og ákærða ekki hafa orðið vör við neitt óvenjulegt þeirra á milli. Ákærði hafi verið G mjög hjálplegur, hann hafi ávallt verið tilbúinn að aðstoða hana, gera við bílinn hennar og dytta að hlutum á heimili hennar.
Auk framangreindra gáfu fjórir vinir A, þau H, I, J og K, skýrslu hjá lögreglu þá er málið var til rannsóknar þar.
Í skýrslu sinni kvaðst H vera góð vinkona A og hafa verið það síðan þær voru 15 ára gamlar. Kveður hún A hafa sagt sér og sameiginlegri vinkonu þeirra, I, frá því í kringum árið 1997 að ákærði hefði misnotað hana kynferðislega. Hafi þetta borist oft í tal, sérstaklega þegar A var undir áhrifum áfengis. Hafi A beðið hana um að segja ekki frá þessu, hún hafi ekki viljað að þetta fréttist. Þá hafi hún ekki viljað gera móður sinni það að kæra þetta til lögreglunnar.
Í skýrslu I hjá lögreglu er haft eftir henni að hún sé ein af bestu vinkonum A og hafi verið það síðan sumarið 1996. Hafi hún greint A frá því 1997 eða 1998 að faðir hennar hefði misnotað hana og systkini hennar. Við það tækifæri hafi A opnað sig og sagt frá því að fósturfaðir hennar, ákærði, hefði misnotað hana og borgað henni fyrir að þegja. Hafi A lýst þessu nánar þannig að ákærði hefði stundum komið inn í herbergi hennar á kvöldin, káfað á henni og látið hana fá peninga fyrir að segja ekki frá því hvað hefði gerst. Þá hafi A greint I frá því að í eitt skipti hefði hún, móðir hennar og ákærði verið að horfa á sjónvarpið og hafi hún setið í fangi ákærða, sem hafi verið með teppi yfir sér. Hafi hann sett teppið yfir A og farið að káfa á henni og meðal annars sett puttana á sér inn í kynfæri hennar. Hafi A beðið I um að segja engum frá þessu, hún hafi haft miklar áhyggjur af móður sinni og ekki viljað að hún fengi að heyra af þessu, en á þessum tíma hafi ákærði og móðir hennar búið saman. Kvaðst I ekki þekkja ákærða persónulega og því lítið geta sagt til um hann. Kvaðst hún þó oft hafa komið á heimili þeirra að Y og veitt því athygli að ef A vantaði peninga þá hafi ákærði ávallt verið tilbúinn að láta það eftir henni. Kvaðst I halda að A hafi aldrei þurft að borga honum til baka. A hafi með öðrum orðum fengið allt það sem hún vildi.
J gaf skýrslu hjá lögreglu í tilefni af því að A hafði tjáð lögreglu að hún hefði ritað J bréf um reynslusögu sína. A hafi verið góð vinkona hans frá því hann var 12 eða 13 ára og til 19 ára aldurs, en A sé ári eldri en hann. Kvaðst J hafa týnt bréfinu og ítrekaðar tilraunir hans til að finna það hafi ekki borið árangur. Bréf þetta hafi A ritað honum síðla árs 1999. Í bréfinu hafi A lýst því að ákærði í málinu hefði misnotað hana kynferðislega, en hún hafi ekki viljað segja frá því „þar sem hún vildi ekki eyðileggja fyrir mömmu sinni.“ Ekki hafi verið um frekari lýsingar að ræða, einungis að ákærði hefði misnotað hana og að það hefði staðið yfir um árabil. Þá hafi hún í bréfinu ekki greint frá því hvenær misnotkunin hefði hafist eða hvort henni væri lokið. Kvaðst J hafa rætt við A eftir að hann fékk bréfið en hann hafi þó ekki viljað fara nánar í þessu kynferðislegu mál og viti því ekki í hverju misnotkunin hafi verið fólgin. Auk þess hafi hann fundið á A að hún hafi ekki viljað ræða þessi mál og hafi reynt snúa umræðunni að öðru ef minnst var á þetta. J greindi þó frá einu atriði sem hann kvaðst muna eftir og hann taldi styrkja frásögn A, en það var að hún hafi helst aldrei viljað vera heima hjá sér, hafi verið á sífelldu ráfi og fengið mikið að gista hjá vinum og kunningjum.
Vitnið K kvaðst í skýrslu sinni hjá lögreglu hafa kynnst A um sumarið 2001, en þau hafi á þeim tíma leigt íbúð í sömu byggingu [...] í Reykjavík. Ekki hafi verið um kynferðislegt samband að ræða, en á milli þeirra hafi tekist góður vinskapur. Eftir að þau voru orðnir góðir vinir hafi A trúað honum fyrir því að ákærði hefði misnotað hana kynferðislega frá því að hún var um 10 ára gömul. Hafi A lýst misnotkuninni meðal annars með þeim hætti að ákærði hefði „beðið hana um að rúnka honum, sjúga á honum typpið og þannig og svo hafi það farið út í fullar samfarir seinna meir.“ Í eitt skipti kvaðst K hafa skutlað A á skrifstofu ákærða í [...] þar sem hana hefði vantað peninga. Hafi hún farið ein upp á skrifstofuna en komið til baka með tárin í augunum og verið mjög miður sín. Kvaðst K hafa spurt hana hvað hefði gengið á og hún þá tjáð honum að ákærði hefði sagt við hana að „ef hann ætti að fara að lána henni pening þá vissi hún hvað hann vildi í staðinn.“ Kvaðst K hafa vitað við hvað A átti þar sem hún hafi þá verið búin að segja honum frá því að ákærði hefði misnotað hana. Þau hafi rætt um að eitthvað þyrfti að gera í málinu en A ekki viljað að neinn vissi af þessu. Hún hafi verið hrædd um hvað það myndi gera fjölskyldu hennar.
II.
Svo sem gerð hefur verið grein fyrir kom fram hjá A í skýrslugjöf hennar hjá lögreglu 3. febrúar 2004 að hún hafi tekið upp samtal sem hún hafi átt við ákærða tveimur dögum áður. Hefur segulbandsspóla, sem óumdeilt er að hafi að geyma upptöku á samtali á milli A og ákærða, verið lögð fram í málinu og heldur A því fram að um sé að ræða samtal sem þau hafi átt í framangreint sinn. Þá er á meðal gagna málsins skjal sem hefur að geyma vélritaðan texta þessa samtals að því marki sem unnt var að greina það sem A og ákærða fór á milli. Í hinum vélritaða texta kemur fram tilvísun ákærða til samtals við móður A og að hún hafi verið „alveg brjáluð“ og sagt við ákærða að hann ætti að skjóta sig. Ekki kemur þó fram af hvaða tilefni þessi orð voru látin falla. Þá ræðir A um bækling frá Stígamótum sem hún hafi verið að lesa og lýsir því að henni hafi fundist eins og hún hafi verið lesa um sig sjálfa. Til eftirfarandi orðaskipta kemur stuttu síðar: „[A]: Já það er náttúrulega voða lítið sem hægt er að gera. Það er ekkert hægt að bæta þetta. Ákærði: Ha. [A]: Það er ekkert sem bætir þetta segi ég. Ákærði: Nei nei. [...] [A]: Hvað segirðu. Ákærði: Mér er búið að líða alveg rosalega illa út af þessu. [...] [A]: Það er svo mikið þunglyndi sem fylgir þessu, það er það versta. Ákærði: Ha. [A]: Það er svo mikið þunglyndi sem fylgir þessu. Ákærði: Já.“
Fyrir dómi hefur ákærði haldið því fram, svo sem síðar verður nánar gerð grein fyrir, að hann hafi ítrekað átt kynferðisleg samskipti við A eftir að hann kom heim úr sumarleyfi frá Spáni í júlí 1999 og þannig eftir að hún varð 18 ára gömul. Framangreint samtal varði þessi samskipti þeirra.
III.
Við aðalmeðferð málsins komu fyrir dóminn sem vitni allir þeir einstaklingar sem gefið höfðu skýrslu hjá lögreglu og tilgreindir eru í kafla I hér að framan, en að auki gáfu vitnaskýrslu Vigdís Erlendsdóttir sálfræðingur og sjö samstarfsmenn og vinir ákærða. Þá gaf ennfremur skýrslu sem vitni K, en hún og eiginmaður hennar kynntust ákærða og B í sumarleyfisferð á Spáni fyrir mörgum árum síðan og hafa ferðast með þeim bæði innanlands og utan. Loks kom fyrir dóminn sem vitni E, en hann var svo sem fram er komið unnusti A um tíma.
Í skýrslu sinni fyrir dómi neitaði ákærði því alfarið að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru. Hann kvaðst þó hafa átt kynferðisleg samskipti við A frá því um sumarið 1999, það er þegar hún var orðin 18 ára gömul, og eitthvað fram á árið 2001. Þau hefðu margoft haft samfarir á þessum tíma. Hafi þetta ávallt átt sér stað á Y. Svo sem fram er komið er haft eftir ákærða í skýrslu hans hjá lögreglu að þessi kynferðislegu samskipti hans og A hafi hafist sumarið 1998. Aðspurður um þetta misræmi fyrir dómi sagði hann skýrslu sína hjá lögreglu að þessu leyti ranga. Hann hafi ruglað saman árunum 1998 og 1999. Kvaðst hann hafa farið ásamt sambýliskonu sinni og móður til útlanda sumarið 1998 og byrjað að hafa kynferðislegt samneyti við A árið eftir, eða 1999. Í ferðinni sem móðir hans fór með honum í hafi hann kynnst hjónum frá Ísafirði og góður vinskapur tekist á milli þeirra og hans og sambýliskonu hans. Hefðu þau haldið sambandi eftir þetta og hefðu ákærði og kona hans farið í heimsókn til þeirra til Ísafjarðar og þau komið til þeirra til [...]. Árið eftir eða í júní 1999 hafi þessi hópur síðan ákveðið að fara saman til Mallorca. Hafi hjónin frá Ísafirði fengið að gista á heimili ákærða í nokkra daga bæði fyrir brottför og eftir heimkomuna frá Spáni. Kvaðst ákærði ekki hafa vitað hversu lengi þessir vinir þeirra ætluðu að dvelja hjá þeim þannig að hann hafi tekið sér aðeins lengra frí heldur en ella. Venjulega hafi hann tekið sér einn dag í frí eftir að heim var komið frá útlöndum en í þetta skipti hafi hann ákveðið að taka sér frí í fleiri daga. Nokkrum dögum eftir heimkomu þetta sumar og eftir að vinahjónin voru farin til síns heima hafi ákærði verið fletta blöðum sem höfðu safnast saman á meðan hann var erlendis. Hafi A þá komið til hans og spurt hann hvort hann gæti lánað sér pening. Hafi hann sagt við hana að hann væri hættur að lána henni þar sem hún borgaði honum ekki til baka. Kvaðst ákærði hafa sagt við sín eigin börn og börn B að á meðan þau væru í skóla væri sjálfsagt mál að aðstoða þau fjárhagslega, en ef þau hins vegar nenntu ekki í skóla þá þyrftu þau að sjá fyrir sér sjálf. Hafi hann haldið áfram að lesa blöðin en A farið í sturtu. Það hafi hún oft gert þegar hún kom á Y. Eftir sturtuna hafi hún komið að ákærða og með handklæðið eitt yfir sér. Hafi hún látið handklæðið „flagsa“ og spurt ákærða hvort hann vildi „meika við sig díl“. Kvaðst ákærði þá hafa spurt hana hvað hún ætti við og hún þá spurt hann hvort hann vildi koma við sig. Hafi hún síðan gengið þétt upp að honum og hann látið freistast og haft við hana samfarir. Í framhaldinu hefðu þau átt í kynferðislegu sambandi af og til fram til loka árs 2001. Kvaðst ákærði hafa notað smokk til að byrja með en síðar hafi hún sagt honum að þess væri ekki þörf þar sem hún væri á pillunni. Honum hafi liðið mjög illa út af sambandinu og rætt um það við A í byrjun árs 2002 að þau myndu slíta því. Það hefðu þau síðan gert „í bróðerni“. Kvaðst ákærði hafa rætt þetta við hana nokkrum sinnum eftir þetta og fram til þess dags sem hún kærði hann hafi samskipti þeirra verið mjög góð. Hún hafi oftar hringt í hann heldur móður sína, enda hafi hann ekki tuðað í henni þegar hana hafi vantað hitt og þetta. Þau hefðu haft mikið samband og hann hjálpað henni með eitt og annað. Það samband hafi haldist allt þar til kæra á hendur honum var lögð fram. Til að mynda hafi A og núverandi sambýlismaður hennar borðað hjá honum á aðfangadag 2003. Upp úr sambandi hans og móður A hafi þá verið slitnað. Kvaðst ákærði ekki vita hvað A gengi til með því að kæra hann fyrir kynferðisbrot. Eina skýringin sem hann gæti gefið á því væri sú að mjög hatrömm deila hafi þó komið upp á þessum tíma milli ákærða og móður A um skipti á húseign í kjölfar sambúðarslita þeirra. Hafi eignin verið skráð á hennar nafn þar sem ákærði hefði orðið gjaldþrota einhverjum árum áður. Hafi ákærði sagt við móður A að þau þyrftu að leysa málið varðandi húseignina en hún verið treg til þess. Í byrjun árs 2004 hefðu þau fengið kaupendur að húsinu og ákærði því lagt stíft að henni að þau myndu klára málið. Hún hafi þá sagt „við sjáum bara til þegar þar að kemur“. Þá hafi ákærði sagt við hana að hann þyrfti að fá sér lögfræðing ef þau gætu ekki leyst málið sjálf. Hafi hún þá sagt við hann að hann rétt réði því. Stuttu eftir þetta hafi hann komið í heimsókn til A og sambýlismanns hennar og hafi hún þá spurt hann hvort hann hefði verið að hóta móður sinni með lögfræðingi. Hafi hann svarað því til að það kynni vera nauðsynlegt ef þeim tækist ekki sjálfum að leysa málið með húseignina. Hún hafi þá sagt við hann að hann rétt réði því ef hann færi illa með móður hennar. Aðra skýringu en þessa hefði hann ekki á fram kominni kæru. Þó verði til þess að líta í þessu sambandi að ef til vill hafa verið léttbærara fyrir hana að segja móður sinni frá sambandi sínu og hans ef því fylgdi saga um að hann hefði misnotað hana.
Aðspurður um aðdraganda sambúðar hans og B svaraði ákærði því til að árið 1986 hafi hann verið nýskilinn og búið ásamt dóttur sinni að [...]. Með dóttur hans og eldri dóttur B, G, hafi tekist vinskapur og hafi hún fengið að dvelja hjá þeim um tíma. Hafi B komið af og til í heimsókn til ákærða til að líta eftir dóttur sinni og í kjölfarið tekist með þeim góður vinskapur og þau farið að búa saman fyrri hluta árs 1987 að Z. Á því heimili hafi búið auk ákærða og B þrjú börn hennar, það er G, A og C. D dóttur ákærða hafi hins vegar ekki lynt við B og hafi hún ekki búið með þeim. Þá hafi eldri sonur B, M, einnig búið um tíma hjá þeim. Síðar hefðu þau flutt að Y. Hefðu A og C flutt með þeim þangað, en G þá verið flutt að heiman. Þegar ákærði og B hófu sambúð hafi ákærði unnið á bifreiðaverkstæði [...], það er frá 1988 til 1990. Í lok árs 1990 hafi hann hafið störf hjá [...], þar sem hann starfi enn. B hafi hins vegar verið að vinna hjá [...], en síðar og í kjölfar bankasameiningar hjá Íslandsbanka, fyrst í [...]en síðan í Hafnarfirði. Þá er B vann í [...] hafi hún mætt til vinnu klukkan 9. Ákærði hafi hins vegar mætt í vinnu klukkan 8 á meðan hann vann á bílaverkstæðinu og hann hafi ávallt mætt vel fyrir klukkan 9 á vinnustað sinn hjá [...]. Hefðu hann og B farið á svipuðum tíma til vinnu eftir að hún hóf störf í Hafnarfirði. Á þessum árum hafi A verið í skóla sem byrjað hafi klukkan 8. Í ljósi þessa sé útilokað að hann hafi áreitt A kynferðislega á morgnana svo sem hún haldi fram. Það sé því tilhæfulaus áburður.
Aðspurður um smokkakassa sem B á að hafa fundið eftir að sambúð þeirra lauk kvað ákærði hann ekki tilheyra sér og kvaðst hann ekki hafa hugmynd um hver kunni að hafa verið eigandi hans. Þá neitaði ákærði því að hann hafi verið síhringjandi í B til að fylgjast með ferðum hennar. Hann hafi hringt til hennar þegar eitthvað var að færð og þá í þeim tilgangi að kanna hvort ekki væri allt í lagi með hana.
Aðspurður um samskipti sín og A að öðru leyti skýrði ákærði svo frá að hún hefði jafnan verið mjög hænd að honum. Hún hafi mikið leitað til hans með sín mál og sífellt verið í sambandi við hann varðandi alla mögulega og ómögulega hluti. Þá hafi hún ávallt leitað til hans frekar en móður sinnar ef hana vantaði pening fyrir einhverju. Hann hafi alla tíð greitt götu hennar og leitast við að hjálpa svo sem honum var frekast unnt.
Í skýrslu sinni fyrir dómi 27. janúar sl. skýrði A svo frá að þegar frá séu taldar þær misgjörðir ákærða sem hann hafi gerst sekur um gagnvart henni líti hún á hann sem góðan mann. Hann hafi á margan hátt reynst henni vel, verið hjálplegur og gert allt fyrir hana sem hún hafi beðið hann um. Í skýrslu sinni lýsti A atviki sem á að hafa átt sér stað þá er þau bjuggu að Z og áður en það sakarefni sem 1. töluliður ákæru tekur til á að hafa gerst. Ákærði hafi þá tekið hana í bóndabeygju og sagt við hana að nú ætlaði hann að gera nokkuð við hana sem dóttur hans þætti gott. Hann hafi síðan farið með hana inn í herbergi og sleikt kynfæri hennar. Hafi hann sagt við hana að þetta ætti að vera leyndarmálið þeirra. Atvikinu á salerninu, sbr. 1. liður ákæru, lýsti hún á þann veg að ákærði hafi þar reynt að hafa við hana endaþarmsmök, en þegar það hafi ekki gengið hafi hann nuddað getnaðarlimnum við endaþarm hennar og klofið á henni. Þetta hafi gerst þá er þau bjuggu á Z. Hún hafi snúið baki í hann allan tímann, beygt sig fram og haldið sér í baðkarið. Kvaðst hún ekki geta staðhæft að hann hafi sett liminn inn í leggöng hennar. Aðspurð kvaðst hún ekki geta sagt til um það hversu gömul hún hafi verið þá er ákærði hafi brotið gegn henni með þessum hætti. Þegar þetta var afstaðið hafi hann látið hana hafa hundraðkrónu seðil og hún farið út í sjoppu og keypt sér eitthvað fyrir hann. Þegar þetta gerðist hafi hann verið búinn að hafa við hana samfarir. Lýsti hún í því sambandi atviki sem á að hafa átt sér stað þegar hún varð 12 ára. Þá hafi hún farið inn í herbergi með strák og sýnt honum bók þar sem ýmsar samfarastellingar voru sýndar. Hafi hún ætlað að prófa þetta með honum og sagt við hann að hann þyrfti ekki að hafa áhyggjur af því að hún kynni þetta ekki, hún væri búin að gera þetta áður. Eftir að fjölskyldan flutti á Y hafi þessa kynferðislega misnotkun ákærða síðan haldið áfram. Þannig hafi ákærði komið inn í herbergi hennar, byrjað að káfa á brjóstum og kynfærum hennar og síðan haft við hana samfarir. Kvaðst hún sannfærð um að þetta hafi byrjað að gerast áður en hún fermdist. Í fyrstu hafi þetta gerst á morgnana, en síðar einnig í hádeginu og seinni part dags, en móðir hennar hafi þegar hér var komið sögu verið byrjuð að vinna í Hafnarfirði. Þegar A var innt eftir því hversu oft þetta hafi gerst á árunum 1995 og 1996 kom nokkurt hik á hana. Gat hún ekki staðhæft að um fleiri tilvik en 10 hafi verið að ræða og taldi líklegast að fjöldi þeirra væri á bilinu 5 til 10. Stuttu eftir fermingu hafi hún byrjað að reyna að forðast ákærða og vera sem mest að heiman nema þegar hann hafi verið að gera eitthvað sem hún hafi haft áhuga á. Hún hafi kynnst E haustið 1996, byrjað fljótlega með honum og flutt til hans. Hún hafi síðan farið í [...] í ársbyrjun 1998 og verið þar til vors. Þegar hún kom þaðan hafi ákærði haldið áfram að misnota hana. Hafi það oftast átt sér stað á Y og í sjónvarpsherberginu þar. Frá því um mitt ár 1998 og allt fram til hausts 2001 hafi ákærði þannig haft við hana samfarir í fjölmörg skipti. Haustið 2001 hafi hún flutt til Reykjavíkur og hefðu þau ekki átt kynferðisleg samskipti eftir það. Aðspurð um fjölda tilvika skýrði A svo frá að í fyrstu hafi þetta gerst vikulega, en eitthvað hafi dregið úr þessu eftir því sem á leið. Upp úr sambandi hennar og E hafi slitnað árið 2001 og í kjölfar þess að hún skýrði honum frá því að fíkniefnaneysla hennar væri komin úr böndum, en fram að því hefði hún aðallega verið að fikta við hass. Haustið 2001 hafi hún verið komin út í harðari efni. Hún hafi ekkert rætt misnotkunina við E, en sagt vinkonum sínum, þeim H og I, frá henni þegar hún var 15 eða 16 ára gömul. Þá hafi hún skrifað J bréfi þegar hún var 16 ára og þar skýrt frá því að hún hefði verið misnotuð. Aðspurð um ástæðu þess að kæra var ekki lögð fram fyrr en í ársbyrjun 2004 svaraði A því til að móðir hennar hafi átt erfitt uppdráttar af ýmsum ástæðum og ekki hafi verið á það bætandi. Þá hafi hún talið samband móður sinnar og ákærða vera gott og hún hafi ekki viljað eyðileggja það. Hún hafi þó verið búin að ákveða að leggja fram kæru áður en endanlega slitnaði upp úr sambandi þeirra. Fram kom hjá A að hún hafi að undanförnu átt við umtalsverðan vímuefnavanda að etja og ekki náð að koma sér út úr þeirri neyslu fyrr en í lok síðasta árs. Þá kvaðst hún í tvígang hafi reynt að fyrirfara sér og tvisvar fengið taugaáfall. Viðhorf hennar til lífsins endurspeglist í þessu, hún sjái engan tilgang með lífinu. Kvaðst hún rekja stöðu sína í dag, mikla andlega vanlíðan og undangengna vímuefnaneyslu, til misgjörða ákærða gagnvart henni. Loks er vert að geta þess hér að með sama hætti og hjá lögreglu bar A á þann veg fyrir dómi að hún hafi jafnan fengið peninga frá ákærða þegar hann hafi verið búinn að misnota hana.
A gaf skýrslu að nýju fyrir dómi 1. þ.m. Aðspurð greindi hún sem fyrr frá því að ákærði hefði haft við hana samfarir á þáverandi heimili þeirra að Y í [...]. Verður skýrlega af vitnisburði hennar ráðið að þetta hafi ítrekað átt sér stað þar allt frá því að hún flutti þangað með fjölskyldu sinni um mitt ár 1994 og þar til hún hóf nám við [...] í ársbyrjun 1998. Þannig skýrði hún svo frá að þetta hefði byrjað þegar hún bjó á Z, en haldið áfram á Y og átt sér stað öll þessi ár fram til 1998. Kvaðst hún í öllu falli ekki minnast þess að hún hafi fengið að vera í friði fyrir ákærða á meðan hún bjó á Y, en „ágætis stopp [komið] á þetta“ þegar hún fór austur til náms. Þá staðhæfði hún að ákærði hefði verið búinn að brjóta með þessum hætti gegn henni um nokkurn tíma haustið 1996, en þá hafi hún tekið upp samband við E. Hún átti hins vegar erfitt með að taka einstök tímabil út úr í þessu sambandi, sagði að þetta væru atburðir sem hún væri að reyna að gleyma og þessi tími rynni mikið til saman í huga hennar. Á umræddu tímabili hafi ákærði einnig komið til hennar þar sem hún bjó með E og haft við hana samfarir þar. Misgjörðum ákærða í sinn garð lýsti A með þeim hætti að hannn hefði fyrst sleikt eða nuddað kynfæri hennar og síðan haft við hana samfarir. Á Y hafi þetta gerst á þremur stöðum sem hún tilgreindi sérstaklega.
Í skýrslu sinni skýrði B svo frá að A hafi komið til hennar um miðjan janúar 2004 og skýrt henni frá því að ákærði hefði misnotað hana kynferðislega frá 8-9 ára aldri. Fram að þessu hefði hún enga hugmynd haft um meintar misgjörðir ákærða gagnvart dóttur hennar. Samkvæmt frásögn A hafi þetta byrjað þá er þau bjuggu á Z og í fyrstu gengið út á það að hann hefði sleikt hana að neðan. Kvaðst B á þessum tíma ekki hafa viljað vita meira. Þetta hafi eðli máls samkvæmt verið gríðarlegt áfall og hún hafi á þessum tíma verið að ganga í gegnum erfið veikindi. Hún hafi síðar fengið að vita eitthvað meira en þó án þess að um ítarlega lýsingu hafi verið að ræða enda hafi hún ekki kært sig um það. Hana hafi aldrei grunað að eitthvað af þessu tagi væri í gangi og hún hafi sett erfiðleika sem A hafi átt við að glíma í samband við drykkju ákærða, það er hengt ástand og líðan hennar á drykkju hans. Eftir að málið kom upp hafi hún hins vegar minnst atviks sem gerst hafi á Z. Ákærði hafi hafi þá tekið A í fang sér. Hann hafi verið ölvaður. Stuttu síðar hafi hann verið kominn með hendina í klofið á henni. Kvaðst B hafa reiðst mjög og rifið stúlkuna frá honum. Daginn eftir hafi þetta verið rætt og ákærði þá ekki kannast við neitt. Hafi hún þá afgreitt þetta sem einstakt atvik sem rekja mætti til ölvunarástands hans. Að sögn B hóf hún störf hjá [...] í Hafnarfirði í árslok 1995. Vegna fjarlægðar frá vinnustað hafi hún því lagt mjög snemma af stað í vinnu. Fram að þessu hafi hún unnið í banka í [...] og farið í vinnu um klukkan 8:30. Ákærði hafi átt að mæta til vinnu klukkan 9. Eftir að hún fór að vinna í Hafnarfirði hafi ákærði alltaf verið að hringja í hana til að spyrjast fyrir um það hvenær hún væri væntanleg heim. Aðspurð um sumarleyfisferðir hennar og ákærða svaraði B því til að þau hefðu byrjað að fara í sumarleyfi til Mallorca á Spáni árið 1995 og farið þangað árlega eftir það að árinu 2000 undanskildu, en þá hefðu þau farið til Portúgal. Þau hefðu kynnst L og N eiginmanni hennar í sumarleyfisferð 1996. Móðir ákærða, systir hans og mágur hefðu einnig verið með í þeirri ferð.
Í skýrslu F kom fram að hann hafi kynnst A síðla árs 2002. Þau hafi hafið sambúð í mars 2003. Nokkru áður, líklega í febrúar, hafi hún sagt honum frá því að ákærði hefði misnotað hana kynferðislega frá því að hún var 8 ára gömul. Hafi hún ekki lýst þessu frekar og hann ekki gengið eftir því að fá að heyra meira um það í hverju verknaður ákærða hafi verið fólginn. Hún hafi þó nefnt að ákærði hafi neytt hana til kynmaka. Hafi A haft á orði að hún vildi að hann fengi að heyra þetta frá henni sjálfri í stað þess að frétta þetta annars staðar frá. Inntur eftir viðhorfi sínu til ákærða svaraði F því til að hann komi ákaflega vel fyrir, sé hjálpsamur og greiðvikinn. Þannig hafi hann hjálpað til við að standsetja íbúð sem vitnið og A festu kaup á árið 2003 og aðstoðað þau við kaup á henni. Hann hafi hins vegar brotið með slíkum hætti gegn A að ekki sé hægt að lýsa þeim innri manni sem hann hafi að geyma. Þegar F var inntur eftir því af hverju hann hafi þrátt fyrir þetta haldið sambandi við ákærða allt árið 2003 og meðal annars borðað hjá honum á jólum svaraði hann því til að hann hafi verið nýr í þessari fjölskyldu og í upphafi ekki viljað skipta sér of mikið af. Að endingu hafi þó mælirinn fyllst og hann farið til ákærða og beðið hann um að láta þau í friði. Fram kom hjá F að hann og A fóru saman í meðferð vegna kannabisneyslu í apríl 2004.
C, bróðir A, skýrði svo frá fyrir dómi að systir hans hafi sagt honum frá því skömmu eftir jól 2003 að ákærði hefði verið að fitla við hana allt frá því að hún var 8 ára gömul. Hann hafi í fyrstu ekki „farið inn í hana“ heldur sleikt kynfæri hennar. Þetta hafi síðan smám saman aukist og ákærði gengið lengra og lengra í athöfnum sínum. Hafi þessu ekki linnt fyrr en A hafi komið sér í burtu af heimilinu. Hún hafi hágrátið á meðan hún skýrði frá þessu. Nánar aðspurður um það í hverju misnotkunin hafi falist samkvæmt frásögn A svaraði C því til að hún hafi ekki farið nánar út í það og hann hafi ekki heldur viljað heyra meira. Þá kom fram hjá C að hann hefði skilið systur sína svo að ákærði hafi látið af þessari háttsemi sinni þá er hún var 17 eða 18 ára að aldri.
G, hálfsystir A, skýrði svo frá fyrir dómi að A hafi komið heim til hennar ásamt unnusta sínum í janúar eða febrúar 2004 og greint henni frá því að ákærði hefði misnotað hana frá því hún var 7 ára gömul. Kvaðst G ekki hafa kært sig um að fá að vita meira um þetta. Hún gæti því ekki lýst því í hverju misnotkunin hafi verið fólgin, hún hafi reynt að loka á þetta mál. Hún kvaðst hafa búið á heimili móður sinnar og ákærða að Z í [...] þar til hún varð 17 ára, en hún er fædd árið 1972. Á þessum tíma hafi hún ekki orðið vör við eitthvað óeðlilegt í samskiptum ákærða og A. Þá hafi hún ennfremur búið um þriggja mánaða skeið á heimili móður sinnar og ákærða að Y í [...], líklega á árinu 1995. Henni hafi þá sem fyrr virst að samskipti ákærða og A væru með fullkomlega eðilegum hætti. Loks hafi A flust til hennar á árinu 2001 og búið hjá henni í stuttan tíma þar sem vitninu hafi vantað barnapössun. A hafi á þessum tíma ekkert minnst á misnotkun.
Í skýrslu H, sem er eins og A fædd árið 1981, kom fram að hún hafi verið 16 ára þá er A hafi sagt henni og I frá því að hún hefði verið misnotuð. Varðandi tilgreiningu á aldri sínum þá er þetta samtal átti sér stað skýrði H svo frá að I hafi verið komin með bílpróf á þessum tíma, en hún sé ári eldri en þær. Ekki hafi farið á milli mála að um kynferðislega misnotkun hafi verið að ræða. Hafi A hágrátið á meðan hún sagði frá þessu. Hún hafi hins vegar ekkert rætt um það í hverju misnotkunin hafi verið fólgin og ekki nefnt nein tímabil í því sambandi. A hafi einungis rætt um þetta í þetta eina skipti, en þær hefðu þá verið staddar í íbúð sem hún, I og ein önnur stúlka voru með á leigu í [...] sumarið eftir 10. bekk. Þær hefðu lítillega verið undir áhrifum áfengis. Áður en A skýrði frá þessu hafi I greint frá því að í gangi væri mál á hendur föður hennar vegna kynferðisbrots. Í kjölfarið hafi A opnað sig og greint frá misnotkun ákærða.
Í skýrslu sinni skýrði I svo frá að hún hafi kynnst A 1995 eða 1996. Þær hefðu strax orðið góðar vinkonur og verið mikið saman. Einhvern tíma á árinu 1997 og að undangenginni frásögn I um kynferðisbrot föður hennar hafi A sagt henni frá því að fósturfaðir hennar hefði misnotað hana. Hún hafi verið 8 ára þegar þetta byrjaði. Ekki hafi verið farið út í nánari lýsingar og aldur eða tímabil hafi ekki borið frekar á góma. A hafi liðið mjög illa þá er hún skýrði frá þessu. Þetta hafi aftur komið til umræðu um það bil hálfu ári síðar og hafi vinkona þeirra, H, þá einnig verið viðstödd.
Í skýrslu J kom fram að hann hafi kynnst A um það leyti sem hann fermdist, en hann er fæddur í apríl 1982. Þegar hann var 16 eða 17 ára hafi honum borist bréf frá A þar sem hún hafi skýrt honum frá því að ákærði hefði misnotað hana kynferðislega. Bréfið hafi þannig borist honum 1998 eða 1999. Í bréfinu hafi komið fram að misnotkunin hefði staðið yfir í lengri tíma. Háttsemi ákærða hafi ekki verið lýst frekar en svo að um hafi verið að ræða kynferðislega misnotkun. Þá hafi þar ekki verið tilgreint hvenær þetta hefði byrjað né heldur hvort þessu væri lokið. Kvaðst J hafa hvatt A til að leggja fram kæru, en að öðru leyti hafi þetta nær ekkert verið rætt. Þá kom fram hjá J að bréfið hafi glatast, líklega í flutningum, og ekki fundist aftur.
Í skýrslu sinni skýrði K svo frá að vinskapur hafi tekist með honum og A um mitt ár 2001. Þau hefðu þá búið í sama húsinu, það er leiguhúsnæði við [...] eða [...] í Reykjavík. Stuttu eftir að kynni tókust á milli þeirra hafi A sagt honum frá því að ákærði hefði misnotað hana kynferðislega frá því hún var 10 ára gömul. Þetta hafi byrjað með snertingum og að endingu leitt til kynlífs. Kvaðst K hafa skilið A svo að ákærði hefði haft við hana samfarir. Haustið 2001 hefðu þau K og A síðan farið saman til [...]. Hafi A vantað peninga og hafi tilgangur ferðarinnar verið sá að útvega þá. Hafi A farið til ákærða á vinnustað hans en K beðið út í bíl á meðan. Þegar hún kom til baka hafi hún verið miður sín. Hafi ákærði látið hana fá peninga en að sögn A sagt við hana að hún vissi hvað hann vildi fá í staðinn. Kvaðst K ótvírætt hafa skilið þetta svo að þar sem ákærði hafi látið hana fá pening þyrfti hún að eiga kynferðisleg samskipti við hann. Af vitnisburði K má ráða að það hafi borist í tal á milli hans og A af hverju hún léti þetta viðgangast. Hafi A þá haft á orði að hún væri hrædd um að móðir hennar myndi ekki trúa henni. Þá hafi hún viljað hlífa fjölskyldu sinni við þessu.
E kvaðst í skýrslu sinni hafa kynnst A haustið 1996. Hann hafi þá verið að hefja nám í fjölbrautarskóla en A verið í [...]. Um það bil ári seinna hafi A síðan flutt til hans, en hann hafi þá búið í foreldrahúsum. Þau hefðu síðan flutt í litla íbúð að [...] í [...] í nóvember 1998 og búið þar þar til upp úr sambandinu slitnaði, að líkindum í lok árs 2000. Þau hafi þannig verið saman í rúm fjögur ár og búið saman í um það bil þrjú ár. Upp úr sambandinu hafi þó slitnað í einhver skipti á þessum tíma. Til endanlegra sambandsslita hafi komið strax í kjölfar þess að A hafi greint honum frá fíkniefnaneyslu sinni. Samskipti hans og A við ákærða og móður hennar hafi verið með eðlilegum hætti allan þann tíma sem þau voru saman. Á milli hans og A hafi verið náið og gott samband, þau hafi verið mikið saman. Ekkert vandamál hafi komið upp í kynlífi þeirra og ekkert hafi bent til þess að A ætti erfitt með að stunda það. Fram kom hjá E að A hafi aldrei haft orð á því meðan á sambandi þeirra stóð að ákærði hefði brotið gegn henni. Stuttu eftir að þau hættu saman hafi hann hins vegar fengið frá henni sms-skilaboð þar sem fram hafi komið að ákærði hefði misnotað hana.
Í skýrslu sinni skýrði L svo frá að hún og eiginmaður hennar hefðu kynnst ákærða og B þá er þau voru stödd í sumarleyfi á Spáni árið 1998. Móðir ákærða og annað skyldfólk hans hafi einnig verið þarna á sama tíma. Upp frá þessu og fram til ársins 2003 hafi þau farið saman í ferðir til útlanda, í það minnsta fimm sinnum. Þannig hafi þau til dæmis farið saman til Spánar sumarið 1999. Þegar heim var komið hafi L og eiginmaður hennar jafnan gist eina nótt á heimili ákærða og B áður en þau héldu til síns heima á Vestfjörðum, fyrst sumarið 1998. Aðspurð um A og kynni sín af henni svaraði L því til að henni hafi alltaf fundist eins og eitthvað væri að hjá stúlkunni, hún hafi verið svo sorgbitin. Hún hafi hins vegar ekkert rætt þetta við móður stúlkunnar eða ákærða.
Fyrir dóminn komu fjögur vitni sem öll hafa haft af ákærða náin kynni vegna vinnu hans hjá [...], en þar mun hann hafa hafið störf 22. október 1990. Öll báru þessi vitni ákærða einkar vel söguna, sögðu hann einstaklega greiðvikinn og þægilegan í allri umgengni. Í vitnisburði yfirmanns ákærða kom fram að ákærði hafi yfirleitt alltaf mætt til vinnu vel fyrir klukkan 9 á morgnana. Þá kom fram hjá þremur þessara vitna að A hafi mikið leitað til ákærða, hringt oft í hann og oft komið á vinnustað hans, meðal annars eftir að móðir hennar og ákærði slitu samvistum.
Þá komu fyrir dóminn þrjú vitni sem verið hafa nánir vinir ákærða um árabil. Öll skýrðu þau svo frá að kynni þeirra af ákærða hafi í einu og öllu verið einstaklega ánægjuleg. Eitt vitnanna ræddi nokkuð um samskipti ákærða og A. Að sögn vitnisins var einkar gott og náið samband á milli þeirra og hafi A jafnan viljað vera sem næst honum. Hún hafi oft sest í fang hans og kúrt hjá honum. Hafi hún verið orðin stálpuð er hún gerði þetta síðast. Þá kom fram hjá vitninu að A hafi verið mjög blátt áfram og hreinskilin þá er hún var krakki.
IV.
Á meðal gagna málsins er greinargerð Vigdísar Erlendsdóttur sálfræðings og forstöðumanns Barnahúss, þar sem fram kemur að A hafi verið í meðferð hjá henni frá 8. september til 8. desember 2003 og aftur frá 27. desember 2004 og sótt 10 viðtöl. Hún hafi uppfyllt greiningarskilmerki þunglyndis samkvæmt niðurstöðum prófana 17. nóvember 2003 og 3. janúar 2005. Í viðtölum á árinu 2003 hafi A greint sálfræðingnum frá því að hún hefði um árabil sætt kynferðislegu ofbeldi af hendi ákærða. Það hafi hafist þegar hún var 7-8 ára og lokið þegar hún var 19 ára. Hafi hún sagt tveimur vinkonum sínum frá kynferðisofbeldinu fyrir nokkrum árum. Hún hafi ekki sagt móður sinni frá þessu vegna þess að hún hafi talið samband hennar og ákærða gott og ekki viljað leggja það á móður sína að segja frá misnotkuninni. Móðir hennar og ákærði væru hins vegar að skilja og því hefði hún hugleitt að greina móður sinni frá kynferðisofbeldinu og kæra það til lögreglu. Í greinargerðinni kemur fram að A hafi komist í tilfinningalegt uppnám þegar hún ræddi um þetta og verið þungbært að ræða um atvikin. Í ljósi þess að hún hafi haft í hyggju að óska eftir lögreglurannsókn hafi hún á þessum tíma ekki verið spurð nákvæmlega um það hvað hefði gerst. Í greinargerðinni kemur fram að í viðtölum á seinna meðferðartímabilinu, það er frá 27. desember 2004, hafi hún rætt aðeins nánar um þetta. Þannig hafi hún lýst atviki sem átt hafi sér stað á salerni heimilis hennar á Z, en ákærði hafi þar haft við hana samfarir. Hafi hann fyrst reynt að hafa við hana endaþarmsmök, en það ekki tekist. Hafi A komist í uppnám og fengið sterk líkamleg kvíðaviðbrögð meðan á frásögninni stóð, svo sem sýnilegan skjálfta, erfiðleika með raddbeitingu og munnþurrk.
Í þeim kafla greinargerðarinnar sem ber yfirskriftina „niðurstöður greiningar“ segir meðal annars að greining á líðan A hafi leitt í ljós margháttuð vandamál og tilfinningalega erfiðleika sem algengir séu meðal fólks sem sætt hafi langvinnu, alvarlegu kynferðisofbeldi í uppvextinum. Sjálfsmat hennar sé lágt og hún sé full sektarkenndar og eftirsjár yfir að hafa ekki stöðvað kynferðisofbeldið. Hún hafi þó bent á að henni hafi ekki verið fyllilega ljóst að hegðun ákærða væri röng fyrr en hún stálpaðist. Henni hafi ekki verið í nöp við ákærða heldur hafi viðhorf hennar til hans verið fremur jákvætt. Henni hafi þótt hann örlátur og að auki hafi samband hans og móður hennar virst vera gott. Viðhorf hennar til hans hafi orðið annað þegar hún var komin um fermingu, en þá hafi henni orðið ljóst hversu alvarleg hegðun hans hafi verið. Hún hafi þó ekki haft uppburði í sér til að byrja skyndilega að setja honum mörk „eftir allt sem hann hafi verið búinn að gera“. Hafi hún því brugðið á það ráð að vera sem mest að heiman til að takmarka aðgengi hans að henni. Hún hafi svo flutt af heimili móður sinnar og ákærða þegar hún var 15-16 ára gömul. Þá kemur einnig fram í þessum kafla greinargerðinnar að A hafi uppfyllt greiningarskilmerki áfallaröskunar (DSM-IV: 309.81 Posttraumatic Stess Disorder) með nánar tilgreindum einkennum. Svo sem áður greinir uppfyllti hún einnig greiningarskilmerki þunglyndis samkvæmt tveimur prófum. Segir í greinargerðinni að einkenni þunglyndis og áfallaröskunar skarist nokkuð. Þrátt fyrir að þau einkenni sem séu sameiginleg báðum greiningum séu ekki talin með við mat á greiningu áfallaröskunar uppfylli A greiningarskilmerki beggja greininganna.
Í niðurlagskafla greinargerðarinnar segir svo meðal annars: „Greining leiddi í ljós margvísleg vandamál sem þekkt eru meðal fólks sem sætt hefur kynferðisofbeldi í uppvextinum. Hún uppfyllir greiningarskilmerki áfallaröskunar [...] og þunglyndis [...]. Hún hefur jafnframt ánetjast fíkniefnum og glímir nú við þá erfiðleika sem því fylgja. [...] Í ljósi þess að ofbeldið stóð yfir frá bernsku hennar til fullorðinsára má ætla að það hafi haft varanleg áhrif á persónuleika hennar og félagsmótun. Ekki er unnt að meta að svo stöddu að hve miklu leyti A mun takast að vinna bug á þeim afleiðingum sem hið kynferðislega ofbeldi hefur haft á líf hennar og líðan.“
Vigdís Erlendsdóttir staðfest greinargerð sína við aðalmeðferð málsins. Svo sem reyndar er vikið að í greinargerðinni og prófanir eiga að hafa leitt í ljós hafnaði hún því að fíkniefnaneysla A geti raskað þeirri niðurstöðu að áfallaröskun sem hún hafi greinst vera með verði rakin til kynferðisbrota sem hún hafi sætt. Þá staðhæfði hún aðspurð að kynferðisleg samskipti stúlku, sem orðin er 18 ára gömul, við fósturföður sinn geti ekki leitt til áfallaröskunar, enda þótt líklegt sé að hegðun af því tagi sé til þess fallin að valda einhverjum geðrænum einkennum.
Með gögnum sem lögð hafa verið fram í málinu er staðfest að ákærði og B fluttu lögheimili sitt að Y í [...] 22. júlí 1994. Þá hefur verið aflað gagna undir rekstri málsins sem staðfesta að B hóf störf í [...] í Hafnarfirði eigi síðar en í janúar 1995.
V.
Úrslit málsins ráðast fyrst og fremst af mati á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi. Hefur hér að framan verið rakinn framburður A um ætlað kynferðislegt athæfi ákærða gagnvart henni, sem meðal annars tekur til áranna 1993 til 1996, þegar hún var á aldrinum 11 til 15 ára. Kæru sína lagði A fram hjá lögreglu 3. febrúar 2004, er hún var rétt tæplega 23 ára gömul. Ákærði hefur frá upphafi neitað þeim sakargiftum sem getið er í 1. og 2. tölulið ákæru og fyrir dómi neitaði hann alfarið að hafa gerst sekur um háttsemi gagnvart A sem varðað geti hann refsingu, en hann var fósturfaðir hennar þá er ætluð brot eiga að hafa átt sér stað.
Svo sem fram er komið er ákærða meðal annars gefið að sök að hafa í fjölmörg skipti frá því í júlí 1998 og fram til apríl 1999 haft samfarir við A, sem þá var á 18. aldursári, og þar með gerst sekur um brot gegn 1. mgr. 201. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við yfirheyrslu hjá lögreglu 6. febrúar 2004 og að viðstöddum verjanda gekkst ákærði í raun við sakargiftum að þessu leyti. Þannig viðurkenndi hann að hafa haft samfarir við A stuttu eftir að hann kom heim úr sumarleyfi frá Spáni í júlí 1998 og oft eftir það, stundum tvisvar í viku, á heimili sínu að Y í [...]. Um hafi verið að ræða þriggja ára tímabil og hafi þessu lokið árið 2001. Í lok þessarar skýrslu sinnar áréttaði ákærði það síðan sérstaklega að hann hafi „fyrst haft samfarir við [A] með hennar vilja er hún var orðin 17 ára gömul þarna sumarið 1998, í júlí“. Við skýrslugjöf hjá lögreglu 30. september 2004 kom ákærði engum athugasemdum á framfæri vegna þessa fyrri framburðar síns við lögreglurannsóknina. Við þingfestingu málsins 7. desember 2004 neitaði hann því hins vegar að hafa átt samskipti af kynferðislegum toga við A á árinu 1998 og fram í júlí 1999. Við aðalmeðferð málsins hélt ákærði sig við þetta og kvaðst hafa ruglast á árum þá er lögregla yfirheyrði hann. Í ferð sem farin var til Spánar sumarið 1998 hafi móðir hans verið í för með honum og sambýliskonu hans, B. Í þeirri ferð hefðu hann og B kynnst hjónum frá Ísafirði og farið með þeim í sumarleyfisferð til Spánar árið eftir. Eftir heimkomu úr þessari seinni ferð hefðu hann og A fyrst haft samfarir. Lýsti hann aðdraganda þeirra með sama hætti og hjá lögreglu. Hins vegar hélt ákærði sig við þann framburð sinn hjá lögreglu að þessu hafi lokið árið 2001. A hefur allt frá því að hún fyrst gaf skýrslu hjá lögreglu skýrt svo frá að ákærði hafi haft við hana samfarir skömmu eftir að hún sneri heim að loknu námi við [...], en þar hafi hún dvalið frá því í byrjun árs 1998 og fram til vors. Hafi ákærði í fjölmörg skipti haft við hana samfarir frá því um mitt ár 1998 og fram til hausts 2001, en þá hafi hún flutt til Reykjavíkur. Á meðal gagna málsins er skjal þar sem staðfest er að A stundaði nám við [...] á vorönn 1998. Hefur hún samkvæmt þessu og allt frá upphafi rannsóknar málsins verið staðföst í framburði sínum að því er tekur til tímabilsins sem hér er til umfjöllunar og sakargiftir á hendur ákærða ná að hluta til yfir og tengt upphaf þess við tiltekið atvik sem sannreynt hefur verið að átti sér stað um mitt ár 1998 og á eðli máls samkvæmt að vera henni í fersku minni. Á hinn bóginn verður ekki fram hjá því horft við úrlausn málsins að ákærði er tvísaga um það hvenær kynferðisleg samskipti hans og A hófust. Er það óhjákvæmilega til þess fallið að draga nokkuð úr trúverðugleika framburðar hans fyrir dómi, enda hefur misræminu ekki verið eytt með þeim skýringum sem hann hefur gefið á því.
Fyrir dómi bar A nokkuð á annan veg en hjá lögreglu um þau atvik sem saksókn tekur að öðru leyti til. Fyrir það fyrsta kvaðst hún ekki geta fullyrt nú að ákærði hafi sett getnaðarlim sinn inn í leggöng hennar þá er þau voru stödd inni á salerni á þáverandi heimili þeirra að Z í [...], sbr. 1. liður ákæru. Sem fyrr staðhæfði hún hins vegar að ákærði hafi í umrætt sinn reynt að hafa við hana endaþarmsmök. Þegar það hafi ekki gengið hafi hann í öllu falli nuddað getnaðarlim sínum við endaþarminn á henni og klof hennar. Kvaðst A ekki lengur treysta sér til að staðhæfa að ákærði hafi í þetta skipti gengið lengra í kynferðisathöfnum sínum gagnvart henni. Í annan stað var hún helst á því í fyrri skýrslu sinni fyrir dómi að ákærði hafi haft við hana samfarir í 5-10 skipti á heimili þeirra að Y í [...] á árunum 1995 og 1996. Var hún ekki afdráttarlausari í vitnisburði sínum þegar hún var innt eftir fjölda tilvika á þessu tímabili, en af framburði hennar hjá lögreglu verður ekki annað ráðið en að þetta hafi gerst í fjölmörg skipti og nánast annan hver dag um tveggja ára skeið. Gaf hún þá skýringu á þessu að þar væri hún frekar að vísa til tímabilsins 1998 til 1999. Í seinni skýrslu hennar fyrir dómi kom fram að hún ætti erfitt með að gera sér grein fyrir því nú hversu oft ákærði hefði haft við hana samfarir að Y á árunum 1995 og 1996. Hann hafi stundað þetta allan þann tíma sem þau bjuggu saman á þessum stað, það er frá því um mitt ár 1994 og fram á árið 1997, og þetta tímabili renni mikið til saman í eitt með tilliti til þessara misgjörða ákærða gagnvart henni.
Samkvæmt vitnisburði I greindi A henni frá því árið 1997 að ákærði hefði misnotað hana kynferðislega frá því hún var 8 ára gömul. Í vætti vitnisins fyrir dómi kom fram að A hafi ekki lýst því í hverju hin kynferðislega misnotkun hefði verið fólgin, en í skýrslu vitnisins hjá lögreglu er þó eitt atvik tilgreint sérstaklega og háttsemi ákærða að öðru leyti lýst á þann veg að ákærði hafi að sögn Averið síkáfandi á henni. Samkvæmt vitnisburði H greindi A henni frá því sumarið eftir að þær luku 10. bekk, sem mun hafa verið vorið 1997, að ákærði hefði misnotað hana kynferðislega. Ekki hafi verið rætt um það í hverju misnotkunin hefði verið fólgin og engin tímabil nefnd í því sambandi. Samkvæmt þessu hefur A borið sakir á ákærða um kynferðisbrot í samtölum við tvö vitni eigi síðar en árið 1997. Vitnisburður J hnígur eindregið í þá átt að hún hafi ekki löngu seinna skrifað honum bréf og greint honum frá kynferðislegum misgjörðum ákærða í sinn garð og að þær hefðu staðið yfir í lengri tíma.
Að mati dómsins er það ekki til þess fallið að rýra svo nokkru nemi gildi vitnisburðar A um þær misgjörðir sem hún kveðst hafa sætt af hendi ákærða þótt hún hafi ekki lýst því í samtölum sínum við þær I og H að ákærði hefði haft samfarir við hana. Hið sama á við um þá staðreynd að kæra var ekki lögð fram fyrr en raun ber vitni, en á því hefur A að mati dómsins gefið trúverðuga skýringu. Þá hefur hún í engu hvikað frá þeim framburði sínum að ákærði hafi ítrekað haft við hana samfarir að Y í [...] á þeim tíma þegar þau bæði bjuggu þar. Metur dómurinn það svo að tilgreining hennar nú á fjölda þessara tilvika og lýsing hennar fyrir dómi á því atviki sem 1. töluliður ákæru tekur til einkennist af mikilli varfærni og hún kappkosti að ganga ekki lengra í frásögn sinni en hún hafi nú algera vissu fyrir. Er þá jafnframt til þess að líta að rösk átta ár eru nú liðin frá lokum þess tímabils sem 2. liður ákæru tekur til. Breyta framangreind atriði þannig ekki því mati dómsins að A hafi í skýrslu sinni fyrir dómi gefið trúverðuga lýsingu á því að ákærði hafi brotið gegn henni og ekkert sé komið fram sem hnekki þeim framburði hennar í einstökum atriðum. Í heild þykir framburður A fyrir dómi vera trúverðugur.
Greinargerð Vigdísar Erlendsdóttur sálfræðings og vitnisburður hennar fyrir dómi styðja eindregið þá frásögn A að hún hafi sætt alvarlegri kynferðislegri misnotkun frá unga aldri, en gerð er grein fyrir efni greinargerðinnar og því sem fram kom í vitnisburði Vigdísar varðandi hana í kafla IV hér að framan.
Í vitnisburði A gætti ekki haturs eða reiði í garð ákærða. Skýrði hún af einlægni frá því að hann hefði reynst henni ákaflega vel um margt og þegar frá séu taldar þær misgjörðir sem hann hafi gerst sekur um gagnvart henni líti hún á hann sem góðan mann. Er að mati dómsins fráleitt að sambúðarslit ákærða og móður A hafi orðið til þess að ákærði er borinn svo þungum sökum sem raun ber vitni. Hefur ekkert komið fram undir rekstri málsins sem gefur raunhæfa ástæðu til að ætla að hinar alvarlegu sakargiftir eigi sér aðra skýringu en þá að ákærði hafi brotið gegn A með þeim hætti sem hún heldur fram.
Þegar allt framangreint er virt þykir ekki varhugavert að telja nægilega sannað, sbr. 45. og 46. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, að ákærði hafi í 5 skipti á árunum 1995 og 1996 og fyrri hluta árs 1997 haft samfarir við A á heimili þeirra að Y í [...] og aftur í fjölmörg skipti á tímabilinu júlí 1998 til apríl 1999. Verður við það að miða svo sem saksókn er háttað að brot ákærða á fyrra tímabilinu hafi alfarið átt sér stað eftir 28. apríl 1995, en þann dag varð A 14 ára. Með þessari háttsemi sinni braut ákærði því gegn 1. mgr. 201. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 9. gr. laga nr. 40/1992. Er sérstaklega til þess að líta að það kemur ekki í veg fyrir að áfall verði dæmt þótt við afmörkun fyrra tímabilsins samkvæmt framansögðu sé vikið aðeins frá því sem í ákæru greinir, sbr. meginreglu 117. gr. laga um meðferð opinberra mála. Ber þá ennfremur að hafa í huga þá sérstöðu sem kynferðisbrot gegn börnum hafa með tilliti til rannsóknar.
Að mati dómsins og á sama grunni og að framan greinir þykir komin fram sönnun fyrir því, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, að ákærði hafi í eitt skipti brotið gegn A á þáverandi heimili þeirra að Z í [...] og þá þannig að hann hafi nuddað getnaðarlim sínum við hana og með þeim hætti sem hún nú lýsir samkvæmt framansögðu. Þar sem fjölskyldan fluttist af Z um mitt ár 1994 er ljóst að A var yngri en 14 ára þá er þetta gerðist.
Fram að gildistöku laga nr. 40/1992, 10. júní 1992, en með þeim voru gerðar umtalsverðar breytingar á XXII. kafla almennra hegningarlaga, skyldi hver sá sem hefði samræði við barn, yngra en 14 ára, sæta fangelsi allt að 12 árum, sbr. 1. mgr. 200. gr. laganna. Önnur kynferðismök en samræði vörðuðu vægari refsingu að tiltölu, sbr. 202. gr. laganna. Það atferli ákærða sem hér um ræðir verður ekki virt sem samræði í skilningi fyrrnefnda ákvæðisins, heldur sem önnur kynferðismök. Um fyrningu slíkra brota gilti þá ákvæði 3. tölul. 1. mgr. 81. gr. laganna, sbr. 5. gr. laga nr. 20/1981, og fyrningarfrestur því 10 ár. Samkvæmt 1. mgr. 82. gr. almennra hegningarlaga, eins og þau hljóðuðu þá, sbr. 6. gr. laga nr. 20/1981, hófst fyrningarfrestur á þeim degi, sem refsiverðum verknaði eða refsiverðu athafnaleysi lauk. Breytingu, sem gerð var á þessu ákvæði með 2. gr. laga nr. 63/1998 og leiddi til síðara upphafsmarks fyrningarfrests á kynferðisbrotum gegn börnum yngri en 14 ára, verður ekki beitt í tilvikum, þar sem fresturinn var byrjaður að líða fyrir gildistöku þeirra, sbr. 2. gr. og 2. gr. a. almennra hegningarlaga, sbr. dómur Hæstaréttar 29. apríl 2004 í málinu nr. 32/2004. Svo sem fram er komið lagði A fram kæru á hendur ákærða 3. febrúar 2004.
Í skýrslu sinni fyrir dómi treysti A sér ekki til að segja til um það hversu gömul hún hafi verið þá er ákærði framdi það brot sitt sem hér hefur verið til umfjöllunar. Þá verður því ekki slegið föstu á grundvelli vitnisburðar hennar að öðru leyti að brotið hafi verið framið eftir gildistöku laga nr. 40/1992. Samkvæmt þessu og með vísan til meginreglu 45. gr. laga um meðferð opinberra mála og þess sem rakið er hér að framan verður ákærði sökum sakarfyrningar sýknaður af refsikröfu ákæruvalds að því er tekur til þessa brots hans.
VI.
Ákærði á sér engar málsbætur. Við ákvörðun refsingar hans verður að líta til þess að brot hans voru ítrekuð og alvarleg. Með brotum þeim sem 2. töluliður ákæru tekur til misnotaði ákærði sér gróflega aðstöðu sína og trúnaðartraust A er hún var ung að aldri og undir umsjá hans á heimili þeirra. Mátti ákærða vera ljóst hve alvarlegar afleiðingar atferli hans hlaut að hafa fyrir líf og sálarheill A. Á hinn bóginn verður til þess að líta að ákærði hefur ekki áður sætt refsingu. Þá verður jafnframt að hafa í huga við ákvörðun refsingar að um hana fer eftir ákvæði 1. mgr. 201. gr. almennra hegningarlaga eins og það hljóðaði fyrir þá breytingu sem gerð var á því með 3. gr. laga nr. 40/2003, sbr. 1. mgr. 2. gr. fyrrnefndu laganna. Samkvæmt þessu og með sérstakri hliðsjón af 1. og 3. tölul. 1. mgr. 70. gr. og 77. gr. almennra hegningarlaga þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í tvö ár og sex mánuði.
VII.
Ljóst er að háttsemi af því tagi sem ákærði hefur hér verið sakfelldur fyrir er almennt til þess fallin að valda þeim, sem fyrir verða, margvíslegum sálrænum erfiðleikum. Í fyrirliggjandi skýrslu Vigdísar Erlendsdóttur sálfræðings og forstöðumanns Barnahúss, sem gerð er grein fyrir í kafla IV hér að framan, og vitnisburði Vigdísar fyrir dómi kemur og fram að sú hafi orðið reyndin að því er A varðar. Lagði Vigdís á það sérstaka áherslu í vitnisburði sínum að ætla megi að þau kynferðisbrot sem A sætti muni hafa varanleg áhrif á persónuleika hennar og félagsmótun. Er með vísan til þessa og 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, áður 264. gr. almennra hegningarlaga, fallist á að A eigi rétt til miskabóta úr hendi ákærða. Er þá ekki undanskilin krafa hennar um miskabætur vegna þess brots sem ákærða verður sökum sakarfyrningar ekki gerð refsing fyrir, sbr. 16. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda og dóm Hæstaréttar frá 28. febrúar 2002 í málinu nr. 420/2001. Þykja bætur að framangreindu virtu hæfilega ákveðnar 1.200.000 krónur og skulu þær bera dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 30. október 2004, en þá var mánuður liðinn frá því að ákærða var kynnt bótakrafan, og til greiðsludags.
Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Ásgeirs Jónssonar héraðsdóms-lögmanns, þykja hæfilega ákveðin 500.000 krónur. Til sakarkostnaðar samkvæmt 164. gr. sömu laga, sbr. 14. gr. laga nr. 36/1999, telst ennfremur þóknun réttargæslumanns A, Þórdísar Bjarnadóttur héraðsdómslögmanns, sem þykir hæfilega ákveðin 150.000 krónur. Með vísan til 1. mgr. 165. gr. og 1. mgr. 166. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála verður ákærða gert að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns að ¾ hlutum, en ¼ hluti þeirra skal greiddur úr ríkissjóði. Sakarkostnaður að öðru leyti verður að fullu felldur á ákærða.
D ó m s o r ð :
Ákærði, X, sæti fangelsi í tvö ár og sex mánuði.
Ákærði greiði A 1.200.000 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 30. október 2004 til greiðsludags.
Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ásgeirs Jónssonar héraðsdómslögmanns, 500.000 krónur, að ¾ hlutum, en ¼ hluti þeirra skal greiddur úr ríkissjóði. Annan sakarkostnað greiði ákærði að fullu, þar með talda þóknun skipaðs réttargæslumanns A, Þórdísar Bjarnadóttur héraðsdómslögmanns, 150.000 krónur.
Þorgeir Ingi Njálsson
Finnbogi H. Alexandersson
Guðmundur L. Jóhannesson