Hæstiréttur íslands
Mál nr. 191/2014
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Börn
- Aðfinnslur
|
|
Fimmtudaginn 16. október 2014. |
|
Nr. 191/2014.
|
Ákæruvaldið (Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari) gegn Jóni Degi Kristjánssyni (Guðbjarni Eggertsson hrl.) (Berglind Svavarsdóttir hrl. réttargæslumaður) |
Kynferðisbrot. Börn. Aðfinnslur.
X var sakfelldur fyrir kynferðislega áreitni gagnvart A með því að hafa, er stúlkan var 14 ára, klipið í læri hennar þar sem hún sat í strætisvagni og látið sig falla yfir hana þannig að hún þurfti að ýta honum af sér. Var háttsemi X talin varða við 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við ákvörðun refsingar var litið til sakarferils X og þess að eftir að hann framdi brotið var hann dæmdur í 6 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir auðgunarbrot. Var sú refsing tekin upp og refsing X ákveðin fangelsi í 8 mánuði, en fullnustu refsingarinnar var frestað og skyldi hún falla niður að liðnum tveimur árum héldi X almennt skilorð.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Benedikt Bogason og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 11. febrúar 2014 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst þess að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins og einkaréttarkröfu vísað frá dómi.
A krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 400.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. júlí 2011 til 24. desember sama ár, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst hún þess að niðurstaða héraðsdóms um miskabætur verði staðfest.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði segir.
Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi var lögregla kvödd að heimili brotaþola í kjölfar atburða 1. júní 2011. Þótt málið væri ekki umfangsmikið lauk lögregla ekki rannsókn þess fyrr en 10. febrúar 2012. Ákæra var síðan gefin út 29. maí 2013. Þessi dráttur á meðferð málsins hjá lögreglu og ákæruvaldi hefur ekki verið skýrður og er hann aðfinnsluverður.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Jón Dagur Kristjánsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 580.440 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Guðbjarna Eggertssonar hæstaréttarlögmanns, 376.500 krónur og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Berglindar Svavarsdóttur hæstaréttarlögmanns, 188.250 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. október 2013.
I
Mál þetta, sem dómtekið var 4. október síðastliðinn, var höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 29. maí sl., á hendur Jóni Degi Kristjánssyni, kt. [...],[...],[...], „fyrir kynferðisbrot gegn A, kennitala [...], þá 14 ára gamalli, með því að hafa, miðvikudaginn 1. júní 2011 um borð í strætisvagni, sem ekið var frá verslunarmiðstöðinni Kringlunni og sem leið vagnsins lá í [...] í [...], klipið ítrekað ofarlega í læri A, þar sem hún sat í opnu rými í strætisvagninum, látið sig falla yfir hana þannig að hún þurfti að ýta honum af sér, sagt að hann væri með stórt typpi, og er hún stóð upp til að færa sig vegna háttsemi hans, klipið eða slegið hana í rassinn.
Telst þetta varða við 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Einkaréttarkröfur:
Af hálfu B, kt. [...], vegna ólögráða dóttur hennar A, kt. [...], er krafist að ákærða verði gert að greiða miskabætur að fjárhæð kr. 400.000 auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, sbr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, frá 1. júlí 2011, en síðan dráttarvaxta skv. 9. gr. vaxtalaga, sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, að liðnum mánuði frá birtingu bótakröfunnar til greiðsludags. Einnig er þess krafist að ákærða verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.“
Ákærði neitar sök og krefst sýknu. Hann krefst þess að bótakröfunni verði vísað frá dómi. Þess er krafist að sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða.
II
Málavextir eru þeir að nefndan dag var lögreglan kvödd að heimili brotaþola sem kvað ákærða hafa áreitt sig kynferðislega þennan sama dag. Kvaðst brotaþoli áður hafa séð ákærða áreita stúlkur en í þetta skipti hefði hún verið í strætisvagni og hefði ákærði þá klipið hana í lærið. Þá hefði hann einnig sagt henni að hann væri með stóran getnaðarlim. Brotaþoli kvað þá konu, sem sat við hlið hennar, hafa boðið henni sætaskipti og þegar brotaþoli hafi staðið upp hefði ákærði rassskellt sig. Lögreglan yfirheyrði ákærða sem kannaðist við að hafa klipið í rass brotaþola er þau gengu inn í vagninn. Að öðru leyti kannaðist ákærði ekki við að hafa haft afskipti af brotaþola.
Af hálfu ákærða hefur verið lagt fram vottorð geðlæknis þar sem fram kemur að ákærði lenti í alvarlegu bílslysi þegar hann var drengur. Við slysið hafi hann fengið heilaskaða og sé með töluverð framheilaeinkenni. „Samfara þessu er dómgreindarbrestur, nokkur greindarskerðing, persónuleikabreyting og hann hefur á köflum fengið geðrofseinkenni. Hann á mjög erfitt með að meta aðstæður, gera sér grein fyrir lögum og reglum og getur auðveldlega mistúlkað samskipti. Það hefur verið grunur um það síðasta árið að hann sé að leita í áfengi og kannski vímuefni, hann er með athyglisbrest og ofvirkni.“
III
Við aðalmeðferð neitaði ákærði sök og kvaðst ekki muna eftir að hafa haft afskipti af stúlku í strætisvagni á þeim tíma sem um ræðir. Hann kvaðst ekki þekkja til brotaþola. Undir ákærða var borið það sem brotaþoli og vitni báru hjá lögreglu en ákærði kvað það ekkert rifja upp fyrir sér.
Brotaþoli þekkti ákærða í dómsalnum og kvaðst vita að hann héti Jón. Hún kvaðst hafa verið í strætisvagni við [...] þegar ákærði hafi komið inn og staðið fyrir framan hana. Hann hafi klipið í læri hennar og sagt að hún væri með stinn læri. Þetta hafi hann gert aftur og aftur. Ákærði, sem þóttist vera að tala í símann, hafi sagt henni að hann væri með stórt typpi og síðan hefði hann látið sig falla ofan á hana. Hún kvaðst hafa ýtt honum af sér og hún og kona, er sat við hliðina á henni, hafi staðið upp og fært sig. Hún kvað ákærða hafa elt þær og klipið í rassinn á sér. Þær hafi fært sig aftar í vagninn og þá hafi ákærði sest fyrir aftan þær og verið að segja henni að hún mætti aka bíl hans og ýmislegt fleira. Þegar vagninn svo stöðvaðist kvaðst brotaþoli hafa hlaupið út og heim til sín eins hratt og hún hefði getað en konan hafi komið í veg fyrir að ákærði gæti elt hana. Hún kvaðst hafa verið hrædd og hlaupið hágrátandi heim til sín. Móðir hennar hafi svo hringt á lögregluna. Brotaþoli kvað þennan atburð hafa haft mikil áhrif á sig, meðal annars yrði hún alltaf mjög hrædd þegar hún sæi karlmenn er líktust ákærða.
Framangreind kona bar að hafa verið í strætisvagni við [...] er maður hafi komið inn í vagninn og gengið til hennar og brotaþola sem hefðu setið fyrir miðjum vagni á móts við aftari útgöngudyr. Hann hafi staðið á móts við brotaþola og þóst vera að tala í símann og sagt að hann væri í strætisvagni að „deita“. Áfengislykt hafi verið af manninum. Fljótlega hafi hann farið að káfa á brotaþola, bæði brjóstum og lærum. Hún kvaðst nú hafa sagt við brotaþola að þær skyldu færa sig aftar í vagninn og er þangað kom hefði hún látið brotaþola setjast við gluggann. Maðurinn hefði þá sest fyrir aftan þær og farið að reyna að tala við brotaþola, en hún hefði sagt honum að hætta því þar eð þær væru að tala saman. Konan kvaðst hafa komið í veg fyrir að hann áreitti brotaþola frekar. Hún kvaðst hafa hjálpað brotaþola út og staðið í veginum fyrir manninum til að hann kæmist ekki á eftir henni. Brotaþoli hafi verið hrædd og titrað. Konan kvað manninn hafa látið sig falla á þær áður en þær fluttu sig í nýtt sæti. Ekki mundi hún hvort maðurinn hefði nefnt typpið á sér og hún kvaðst ekki hafa séð hann slá brotaþola í rassinn. Hún kvaðst áður hafa séð manninn í strætisvagni og hefði hann þá verið að áreita ungar stúlkur en hún hefði ekki skipt sér af því. Konan kvaðst ekki þekkja ákærða sem þennan mann.
Móðir brotaþola bar að hún hefði komið heim umrætt kvöld hágrátandi og eins og í taugaáfalli. Hún hefði sagt að maður hefði áreitt sig kynferðislega. Hann hefði togað í hárið á sér, káfað á sér og farið inn undir úlpuna. Móðirin kvað brotaþola hafa sagt sér að hún hefði séð manninn áður vera að áreita ungar stúlkur og þess vegna haft varann á sér. Hún kvað þær mæðgur hafa farið á fésbók og fundið ákærða. Líklega hefði brotaþoli vitað nafn mannsins og þannig getað fundið hann. Þær hefðu sagt lögreglunni frá því um hvern væri að ræða. Hún kvað mynd hafa birst á fésbókinni og kvaðst hún þekkja ákærða sem manninn er brotaþoli hefði fundið og sagt vera gerandann. Móðirin kvað þetta hafa haft mikil áhrif á brotaþola og hefði hún varann á sér gagnvart sumum karlmönnum. Ljóst væri að hún þyrfti á aðstoð að halda vegna þessa.
Lögreglumaður, sem ritaði frumskýrslu málsins, staðfesti hana. Hún kvaðst meðal annars hafa rætt við móður ákærða sem hafi sagt sér að hann hefði lent í slysi og ekki gengið heill til skógar eftir það. Ákærði hefði ekki verið heima en rætti hafi verið við hann í síma.
Læknirinn, sem ritaði framangreint vottorð um ákærða, staðfesti það.
IV
Ákærði hefur neitað sök allt frá fyrstu yfirheyrslu hjá lögreglu og ekki kannast við að hafa haft afskipti af stúlku í strætisvagni á þeim tíma sem um ræðir. Eins og rakið var leitaði brotaþoli á fésbók strax og hún kom heim til sín og fann þar manninn er hafði áreitt hana. Móðir hennar sá mynd af manninum í tölvunni og þær staðfestu báðar fyrir dómi að ákærði væri maðurinn. Konan, sem aðstoðaði brotaþola í vagninum, þekkti að vísu ekki ákærða við aðalmeðferð, en hún bar að maður hefði áreitt brotaþola í strætisvagni eins og rakið var. Samkvæmt þessu telur dómurinn sannað að það hafi verið ákærði sem áreitti brotaþola eins og honum er gefið að sök í ákærunni. Með framburði brotaþola og framangreindrar konu er sannað, gegn neitun ákærða, að hann hafi klipið brotaþola í lærið eins og honum er gefið að sök og eins látið sig falla yfir hana. Hins vegar er ósannað að hann hafi sagt að hann væri með stórt typpi og að hann hafi klipið hana í rassinn en um þetta er brotaþoli ein til frásagnar. Brot ákærða er rétt fært til refsiákvæðis í ákærunni.
Ákærði var dæmdur í skilorðsbundið fangelsi 2004 fyrir gripdeild og fleiri brot. Árið 2006 var hann dæmdur í 45 daga fangelsi fyrir umferðar- og fíkniefnalagabrot. Eftir að ákærði framdi brotið, sem hann hefur nú verið sakfelldur fyrir, var hann dæmdur 16. maí 2012 í 6 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir auðgunarbrot. Þá hefur hann tvívegis verið sektaður fyrir fíkniefnalagabrot. Nú ber að taka skilorðsdóminn upp og dæma með þessu máli, sbr. 60. gr. almennra hegningarlaga og ákveða ákærða auk þess hegningarauka, sbr. 78. gr. sömu laga. Samkvæmt þessu verður refsing ákærða ákveðin 8 mánaða fangelsi sem bundin skal skilorði eins og í dómsorði segir.
Engin gögn hafa verið lögð fram til stuðnings miskabótakröfu brotaþola en með því að almennt má gera ráð fyrir að brot, eins og ákærði hefur nú verið sakfelldur fyrir, hafi í för með sér miska fyrir brotaþola þykir hún eiga rétt á miskabótum. Eru þær eftir atvikum hæfilega ákveðnar 200.000 krónur með vöxtum eins og í dómsorði segir. Það athugast að ákærða var birt bótakrafan 24. nóvember 2011 og miðast upphaf dráttarvaxta við það þegar 30 dagar voru liðnir frá þeim degi.
Loks verður ákærði dæmdur til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði segir en annan kostnað leiddi ekki af rekstri málsins.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð :
Ákærði, Jón Dagur Kristjánsson, sæti fangelsi í 8 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum 2 árum frá deginum í dag að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákærði greiði A 200.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. júní 2011 til 24. desember sama ár, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludag.
Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðbjarna Eggertssonar hdl., 376.500 krónur og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Jóhönnu Sigurjónsdóttur hdl., 200.800 krónur.