Hæstiréttur íslands

Mál nr. 473/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
  • Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi


Miðvikudaginn 30

 

Miðvikudaginn 30. ágúst 2006.

Nr. 473/2006.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Ingimundur Einarsson varalögreglustjóri)

gegn

X

(Bjarni Hauksson hdl.)

 

Kærumál. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi.

Ekki var talið að skilyrði 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 væru uppfyllt þannig að X yrði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. ágúst 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. ágúst 2006, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 21. september 2006 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Af gögnum málsins verður ekki ráðið að þáttur varnaraðila í umræddu fíkniefnabroti, sem lýst er í hinum kærða úrskurði, sé með þeim hætti að henni verði gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, líkt og sóknaraðili krefst. Verður því hinn kærði úrskurður felldur úr gildi.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. ágúst 2006.

                Ár 2006, fimmtudaginn 24. ágúst, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dóm­húsinu við Lækjartorg af  Sigrúnu Guðmundsdóttur héraðsdómara, kveðinn upp svo­felldur úrskurður.

             Lögreglan í Reykjavík hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, [kt. og heimilisfang], sæti áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 5. október 2006, kl. 16:00.

             Í greinargerð lögreglu kemur fram að ávana- og fíkniefnadeild lögreglustjórans í Reykjavík rannsaki meintan innflutning á miklu magni af fíkniefnum til landsins.  Kærða og samferðamaður hennar, A, [kt.], hafi verið handtekin þann 9. ágúst sl. af tollgæslu á Keflavíkurflugvelli við komuna til landsins frá Spáni. Kærða hafi verið með fíkniefnin í farangri sem hún var með meðferðis en A var handtekinn skömmu síðar í flugstöðinni eftir að hann hafði farið í gegnum hlið tollgæslunnar. Kærða hafi verið yfirheyrð og hefur játað að hafa vitneskju um að fíkniefnin væru falin í töskunni og að hafa tekið við fíkniefnunum á Spáni. Sé nánar vísað til framburðarskýrslna kærðu.

             Rannsókn málsins standi enn yfir og sé á lokastigi. Sem stendur hafi bankagögn ekki borist lögreglu en munu berast á næstunni. Unnið sé að úrvinnslu símagagna. Rannsókn málsins sé umfangsmikil og verði flýtt eftir föngum. Kærða þyki vera undir rökstuddum grun um aðild að stórfelldu fíkniefnabroti.  Kærða hafi sætt gæsluvarðhaldi frá 10. ágúst sl. Meint aðild kærðu þyki mikil en hún sé talin tengjast innflutningi fíkniefnanna til landsins og móttöku fíkniefnanna á Spáni. Frekari rannsókn málsins kunni að leiða í ljós enn meiri aðild hennar að málinu. Einnig sé lagt til grundvallar að um sé að ræða mjög mikið magn sterkra og hættulegra fíkniefna. Nær öruggt þyki að fíkniefnin hafi átt að fara í sölu og dreifingu til ótiltekins fjölda manna hér á landi. Hið meinta brot kærðu þyki mjög alvarlegt. Með tilliti til hagsmuna almennings þyki þannig nauðsynlegt að kærða sæti áfram gæsluvarðhaldi á meðan mál hennar sé til meðferðar en telja verður og reikna með að ef sakborningur, sem orðið hafi uppvís að jafn alvarlegu broti og kærða, gangi laus áður en máli ljúki með dómi þá valdi það hneykslun í samfélaginu og særi réttarvitund almennings. Staða kærðu í málinu þyki sambærileg stöðu sakborninga í öðrum svipuðum málum, sbr. mál Hæstaréttar nr.: 154/2006, 368/2005, 93/2005, 488/2004, 269/2004, 417/2000 og 471/1999, þar sem sakborningum hafi verið gert að sæta gæsluvarðhaldi fram að dómi þegar legið hafi fyrir rökstuddur grunur um beina aðild að innflutningi að miklu magni fíkniefna í ágóðaskyni. Sé ekki talin ástæða til að ætla að refsimat og réttarvitund almennings í slíkum málum hafi breyst frá því téðir dómar voru uppkveðnir, að skilyrðum 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála sé ekki fullnægt í því máli sem hér um ræðir.

             Sakarefnið sé talið geta varðað við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 64/1974 og 1. gr. laga nr. 32/2001.  Um heimild til gæsluvarðhalds er vísað til 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.

Kærða hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 10. ágúst sl. Hún hefur játað aðild að málinu. Rannsókn málsins er á lokastigi.  Dómurinn fellst á, að fyrir hendi sé sterkur grunur um að kærða hafi framið brot, sem að lögum getur varðað allt að 12 ára fangelsi, sbr. 173. gr. a. laga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum. Brotin eru þess eðlis að telja verður gæsluvarðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Er því fullnægt skilyrðum 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til gæsluvarðhalds yfir kærða. Verður því fallist á kröfu lögreglustjóra um áframhaldandi gæslu­varðhald, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð :

             Kærða, X, [kt. og heimilisfang], sæti áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 21. september 2006, kl. 16:00.