Hæstiréttur íslands
Mál nr. 76/2010
Lykilorð
- Opinberir starfsmenn
- Biðlaun
|
Fimmtudaginn 9. desember 2010. |
|
|
Nr. 76/2010. |
Íslenska ríkið (Guðrún Margrét Árnadóttir hrl.) gegn Brynjari Erni Ragnarssyni (Gísli Guðni Hall hrl.) |
Opinberir starfsmenn. Biðlaun.
B starfaði hjá G frá 24. maí 2004 til 31. september 2008 er honum var sagt upp störfum vegna breyttra áherslna í starfsemi G. Í kjölfarið krafðist hann greiðslu biðlauna með vísan til 5. mgr. bráðabirgðaákvæðis laga nr. 70/1996 þar sem kveðið var á um að þeir ríkisstarfsmenn sem höfðu rétt til biðlauna eftir eldri lögum nr. 38/1954 héldu rétti sínum. Áður en B réð sig til starfa hjá G hafði hann starfað samfellt hjá Landspítala frá árinu 1985 til janúarloka 2004 og sem stundakennari við Tækniskóla Íslands frá 1. janúar til 31. maí 2004. Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 34/2010 var komist að þeirri niðurstöðu að með orðinu starf í skilningi fyrrgreinds bráðabirgðaákvæðis væri átt við það starf sem viðkomandi starfsmaður gegndi í gildistíð eldri laga nr. 38/1954. Í málinu byggði Í ekki á þeirri málsástæðu að B hafi við starfslok hjá G gegnt öðru starfi en hann gegndi við gildistöku laga nr. 70/1996. Þess í stað byggði Í á því að rof hafi orðið á ráðningu G hjá Í frá 1. febrúar til 23. maí 2004. Þessi málsvörn var talin í samræmi við þá framkvæmd sem tíðkast hafði hjá Í um að áunninn biðlaunaréttur héldist ef um samfellda ráðningu starfmanna í þjónustu ríkisins væri að ræða, enda þótt starfsmaður skipti um starf og réði sig til annarrar ríkisstofnunar. Á grundvelli þessarar ráðstöfunar á sakarefninu, og þar sem Í væri að öðru óbreyttu á grundvelli jafnræðisreglu bundinn við þessa ívilnandi lagaframkvæmd, var talið að ágreiningur málins um biðlaunarétt B réðist af því hvort talið yrði að rof hafi orðið á samfelldri ráðningu B í starfi hjá Í. Á tímabilinu frá 1. febrúar til og með 23. maí 2004 sinnti B stundakennslu og gegndi ekki föstu ótímabundnu starfi í þágu Í. Uppfyllti starf hans á þeim tíma því ekki kröfur sem gerðar voru samkvæmt 14. gr. laga nr. 38/1954. Samkvæmt því var talið að rof hafi orðið á ráðningu B hjá Í á umræddu tímabili og gæti hann því ekki byggt rétt til biðlauna á 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða við lög nr. 70/1996. Þegar af þeirri ástæðu var Í sýknað af kröfum B í málinu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson og Garðar Gíslason.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. febrúar 2010. Hann krefst aðallega sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að málskostnaðar á báðum dómstigum verði felldur niður.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Í máli þessu gerir stefndi kröfu um greiðslu biðlauna vegna starfsloka sinna hjá Geislavörnum ríkisins haustið 2008. Stefndi, sem er tæknifræðingur að mennt, starfaði samfellt hjá Landspítala frá 1985 til janúarloka 2004. Hann var ráðinn til starfa hjá Geislavörnum ríkisins frá og með 24. maí 2004. Frá 1. janúar til 31. maí 2004 starfaði hann sem stundakennari við Tækniskóla Íslands. Honum var sagt upp störfum með þriggja mánaða fyrirvara miðað við 1. september 2008 vegna breyttra áherslna í starfsemi Geislavarna í kjölfar lagabreytinga, þar sem fremur væri krafist þekkingar á geislaeðlisfræði, mælifræði og stærðfræði en á raftæknifræði. Málavöxtum er nánar lýst í héraðsdómi.
Stefndi reisir kröfur sínar á því að 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða við lög nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins taki til stefnda og að starf hans hjá Geislavörnum ríkisins hafi verið lagt niður. Áfrýjandi reisir sýknukröfu sína annars vegar á því að rof hafi orðið á ráðningu stefnda hjá áfrýjanda þar sem hann hafi ekki gegnt starfi sem uppfyllti kröfur 14. gr. eldri laga nr. 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins frá 1. febrúar til 23. maí 2004. Því taki 5. mgr. bráðbirgðaákvæðis laga nr. 70/1996 ekki til hans. Hins vegar reisir áfrýjandi sýknukröfu sín á því að starf stefnda hjá Geislavörnum ríkisins hafi ekki verið lagt niður, en honum hafi verið sagt upp vegna þess að hann hafi ekki haft þá sérkunnáttu sem starfið krafðist eftir lagabreytingu.
II
Lög nr. 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins giltu til 1. júlí 1996 er lög nr. 70/1996 leystu þau af hólmi. Í 1. mgr. 14. gr. fyrrnefndu laganna var svofellt ákvæði: “Nú er staða lögð niður, og skal þá starfsmaður jafnan fá föst laun, er starfanum fylgdu, greidd í 6 mánuði frá því að hann lét af starfi, ef hann hefur verið í þjónustu ríkisins skemur en 15 ár, en í 12 mánuði, eigi hann að baki lengri þjónustualdur, enda hafi hann þá ekki hafnað annarri sambærilegri stöðu á vegum ríkisins.“ Í lögum nr. 70/1996 er ekki að finna sambærilegt almennt ákvæði um rétt ríkisstarfsmanna til biðlauna en í 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða við lögin segir: „Sé starf lagt niður á starfsmaður, sem skipaður hefur verið eða ráðinn í þjónustu ríkisins fyrir gildistöku laga þessara og fallið hefur undir lög nr. 38/1954, en telst ekki embættismaður skv. 22. gr. laga þessara, rétt til bóta er nemi launum í sex mánuði, ef hann hefur verið í þjónustu ríkisins skemur en í 15 ár, en ella í tólf mánuði. Að öðru leyti gilda um bótarétt og bótafjárhæð ákvæði 34. gr.“ Samkvæmt þessu skyldu þeir starfsmenn sem höfðu rétt til biðlauna eftir eldri lögum halda þeim rétti.
Með dómi Hæstaréttar 28. október 2010 í máli nr. 34/2010 var komist að þeirri niðurstöðu að með orðinu starf í síðastgreinda ákvæðinu væri átt við það starf sem viðkomandi gegndi í gildistíð laga nr. 38/1954, en í því máli var deilt um hvort starfsmaður Skógarbæjar, hjúkrunarheimilis, sem var sjálfseignarstofnun, ætti rétt til biðlauna.. Eins og að framan er rakið er málsvörn áfrýjanda ekki reist á því að stefndi hafi við starfslok hjá Geislavörnum gegnt öðru starfi en hann gegndi við gildistöku laga nr. 70/1996. Þess í stað er byggt á því að rof hafi orðið á samfelldri ráðningu hans hjá áfrýjanda. Er þessi málsvörn í samræmi við þá framkvæmd, sem mun hafa tíðkast hjá áfrýjanda, að áunnin biðlaunaréttur haldist ef um samfellda ráðningu starfsmanns í þjónustu ríkisins er að ræða, enda þótt starfsmaður skipti um starf og ráði sig til annarrar ríkisstofnunar. Á grundvelli framangreindrar ráðstöfunar sakarefnisins og þar sem áfrýjandi er að öðru óbreyttu á grundvelli jafnræðisreglu bundinn við framanrakta ívilnandi lagaframkvæmd, ráðast úrslit málsins, þrátt fyrir dóm Hæstaréttar í máli nr. 34/2010, af því hvort talið verður að rof hafi orðið á samfelldri ráðningu stefnda í þjónustu áfrýjanda.
Eins og að framan er rakið var stefndi ekki ráðinn til starfa hjá áfrýjanda með föstum launum á tímabilinu frá 1. febrúar til og með 23. maí 2004, en á þeim tíma sinnti hann stundakennslu við Tækniskóla Íslands. Á þessu tímabili gegndi hann ekki föstu ótímabundnu starfi í þágu áfrýjanda og uppfyllti starf hans því ekki kröfur sem gerðar voru samkvæmt 14. gr. laga nr. 38/1954, sbr. 1. gr. þeirra og dóma Hæstaréttar í málum nr. 57/1995 og nr. 58/1995, sem birtir eru í dómasafni 1996 á bls. 2701 og 2707. Samkvæmt því varð rof á ráðningu hans hjá áfrýjanda við starfslok hjá Landspítala 31. janúar 2004. Verður því að fallast á með áfrýjanda að stefndi geti ekki byggt rétt til biðlauna á 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða við lög nr. 70/1996. Verður áfrýjandi þegar af þeirri ástæðu sýknaður af kröfu stefnda.
Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Áfrýjandi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfum stefnda, Brynjars Arnar Ragnarssonar.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. nóvember 2009.
Mál þetta, sem tekið var til dóms 20. október sl., er höfðað með stefnu birtri 9. mars 2009.
Stefnandi er Brynjar Örn Ragnarsson, Reykási 35, Reykjavík.
Stefndu eru Geislavarnir ríkisins, Rauðarárstíg 10, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 1.278.315 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 455.505 krónum frá 1. janúar 2009, og af 411.405 krónum frá 1. febrúar 2009 og af 411.405 krónum frá 1. mars 2008, í hverju tilviki til greiðsludags.
Þá er krafist viðurkenningar á því að stefnandi eigi, samkvæmt 5. málsgrein bráðabirgðaákvæðis í lögum nr. 70/1996, rétt til skaðabóta úr hendi stefnda er nemi launum í tólf mánuði frá og með 24. október 2008, vegna niðurlagningar stöðu hans. Um bótafjárhæð fari samkvæmt 34. gr. sömu laga.
Þá krefst stefnandi málskostnaðar samkvæmt gjaldskrá Markarinnar lögmannsstofu hf., þ.m.t. að stefndi verði dæmdur til að bæta stefnanda kostnað sem hann hefur haft af greiðslu virðisaukaskatts af aðkeyptri lögmannsþjónustu.
Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og þess að honum verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati réttarins.
Til vara krefst stefndi þess að stefnukröfur verði lækkaðar og að málskostnaður verði í því tilviki látinn niður falla.
Málavextir
Stefnandi er tæknifræðingur að mennt og var starfsmaður Geislavarna ríkisins, sem er ríkisstofnun. Stefnandi var félagsmaður í Kjarafélagi Tæknifræðingafélags Íslands og fóru laun hans eftir kjarasamningi stéttarfélagsins við ríkið.
Samkvæmt starfsvottorði frá Landspítala starfaði stefnandi samfellt á Landspítala frá árinu 1985 til og með 31. janúar 2004. Hann var ráðinn sérfræðingur á eftirlitssviði hjá Geislavörnum ríkisins frá og með 24. maí 2004 samkvæmt ráðningarsamningi sem gerður var 1. júlí 2004. Á tímabilinu 1. janúar 2004 til 31. maí 2004 starfaði hann sem stundakennari við Tækniháskóla Íslands.
Stefndi sagði stefnanda upp starfi sínu með bréfi 27. ágúst 2008. Í bréfinu segir eftirfarandi:
Áherslur í starfsemi Geislavarna ríkisins breytast verulega í kjölfar breytinga á lögum um geislavarnir. Breytingarnar fela í sér að enn frekar verður dregið úr tæknilegu eftirliti stofnunarinnar, en aukin áhersla verður lögð á mat á geislaálagi sjúklinga, mælifræði, og virk gæðakerfi.
Breyttar áherslur krefjast verulegrar þekkingar á geislaeðlisfræði, mælifræði og stærðfræði, einkum tölfræði og tölfræðilegri úrvinnslu mæligagna, auk hæfni til miðlunar þekkingar fremur en þekkingar í raftæknifræði og tæknilegri uppbyggingu röntgentækja. Með vísan til ofangreinds er þér með sagt upp störfum við Geislavarnir ríkisins frá og með 1. september nk.
Stefnandi starfaði hjá stefnda allt til 23. október 2008 og voru honum greidd laun til 30. nóvember sama ár.
Stefnandi leitaði til stéttarfélags síns til að fá álit á því hvort starf stefnanda hefði verið lagt niður. Skilaði lögmaður stefnanda áliti þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að starf stefnanda hefði verið lagt niður í skilningi 5. málsgreinar bráðabirgðaákvæðis með lögum nr. 70/1996.
Í bréfi forstjóra stefnda frá 25. febrúar 2009 hafnar hann því að starf stefnanda hafi verið lagt niður og þar með bótarétti af þeim sökum.
Ágreiningur málsins lýtur að því hvort staða stefnanda hafi verið lögð niður og rétti stefnanda til skaðabóta af þeim sökum og að því hvort rof hafi orðið á ráðningu stefnanda í starf hjá ríkinu, frá 1. febrúar 2004 til 23. maí 2004.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi kveður starf sitt hafa verið lagt niður í skilningi 5. mgr. bráðabirgðaákvæðis með lögum nr. 70/1996. Stefndi hafi ekki fallist á að starf stefnanda hafi verið lagt niður og mótmælt því að stefnandi ætti bótarétt af þeim sökum.
Stefnandi byggir kröfu sína á 5. málsgrein bráðabirgðaákvæðis í lögum nr. 70/1996, sem tekið hafi til stefnanda. Þar segi að sé starf lagt niður eigi starfsmaður, sem skipaður hafi verið eða ráðinn í þjónustu ríkisins fyrir gildistöku laganna og fallið hafi undir lög nr. 38/1954, en teljist ekki vera embættismaður, rétt til bóta er nemi launum í sex mánuði, ef hann hafi verið í þjónustu ríkisins skemur en 15 ár, en ella í tólf mánuði. Um bótafjárhæð gildi ákvæði 34. gr. laganna.
Stefnandi hafi verið í þjónustu ríkisins í meira en 15 ár og eigi hann því tólf mánaða biðlaunarétt.
Í bréfi forstjóra stefnda frá 22. desember 2008 er ákvörðun um uppsögn stefnanda rökstudd með vísan til lagabreytinga og breyttrar verkefnastöðu. Ekki væri lengur þörf fyrir starfsmann eins og stefnanda. Í staðinn hafi orðið til nýtt starf fyrir starfsmann með annars konar þekkingu og menntun en þá sem stefnandi hafi haft.
Ákvörðunin hafi verið um niðurlagningu á stöðu stefnanda. Vísar stefnandi til áralangrar framkvæmdar þar um, m.a. til dóms Hæstaréttar í máli nr. 307/1995: Fiskifélag Íslands gegn Magneu Jónsdóttur. Í forsendum þess dóms sé niðurlagning stöðu skilgreind þannig að um hana sé m.a. að ræða í þeim tilvikum þegar starfsmaður á ekki lengur kost á að gegna starfa sínum vegna atvika sem verða ekki rakin til hans sjálfs. Ákvörðun stefnda hafi ekki verið rökstudd með vísan til neins í fari stefnanda.
Starf stefnanda hafi verið lagt niður 24. október 2008. Stefnandi byggir á því að frá og með þeim degi eigi hann rétt til skaðabóta er nemi launum í tólf mánuði. Þar sem stefndi hafi fallist á að greiða stefnanda laun til loka ,,uppsagnarfrests“ 30. nóvember 2008 einskorðist fjárkrafa hans við bætur, sem fallið hafi til eftir þann dag. Kröfu sína sundurliðar stefnandi svo:
|
tímabil |
gjalddagi |
|
fjárhæð |
framl. í séreign |
samtals |
|
||
|
1.-31.12.08 |
01.01.09 |
kr. |
447.739 |
7.766 |
455.505 |
|
||
|
1.-31.01.09 |
01.02.09 |
kr. |
403.639 |
7.766 |
411.405 |
|
||
|
1.28.02.09 |
01.03.09 |
kr. |
403.639 |
7.766 |
411.405 |
|
||
|
|
Höfuðstóll samtals |
kr. 1.278.315 |
||||||
Bótafjárhæðir samsvari launum, sem stefnandi hafi haft í starfi hjá stefnda, sbr. framlagða launaseðla. Hærri fjárhæð vegna desembermánaðar 2008 sé vegna desemberuppbótar samkvæmt ákvæði í kjarasamningi, 44.100 krónur. Stefnandi lýsi yfir að hann hafi engin önnur laun eða launaígildi á þessu tímabili.
Viðurkenningarkröfu gerir stefnandi með heimild í 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hún byggist á sömu málsástæðum og lagarökum og gerð hefur verið grein fyrir.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi kveður að starf stefnanda hafi ekki verið lagt niður. Þá kveður stefndi að stefnandi hafi ekki notið réttinda samkvæmt 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða með lögum nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
Samkvæmt lögum nr. 70/1996 sé meginreglan sú að biðlaunaréttur takmarkist við embættismenn, sbr. 34. gr., sbr. og 22. gr. laganna. Aðrir starfsmenn en embættismenn eigi því ekki biðlaunarétt, þótt störf þeirra séu lögð niður og verði þeim með einfaldri uppsögn í samræmi við 43. gr. laganna sagt upp af rekstrarlegum ástæðum. Í undantekningartilvikum kunni almennur starfsmaður að eiga biðlaunarétt, þ.e. ef hann uppfylli öll þau skilyrði sem sett eru í 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða með lögunum. Ákvæði 5. mgr. til bráðabirgða sé svohljóðandi:
Sé starf lagt niður á starfsmaður, sem skipaður hefur verið eða ráðinn í þjónustu ríkisins fyrir gildistöku laga þessara og fallið hefur undir lög nr. 38/1954, en telst ekki embættismaður skv. 22. gr.laga þessara, rétt til bóta er nemi launum í sex mánuði, ef hann hefur verið í þjónustu ríkisins skemur en 15 ár, en ella í tólf mánuði. Að öðru leyti gilda um bótarétt og bótafjárhæð ákvæði 34. gr.
Samkvæmt starfsvottorði frá Landspítala hafi stefnandi starfað samfellt á Landspítala frá árinu 1985 til og með 31. janúar 2004. Stefnandi hafi verið ráðinn sérfræðingur á eftirlitssviði hjá Geislavörnum ríkisins frá og með 24. maí 2004 með gagnkvæmum þriggja mánaða uppsagnarfresti. Samkvæmt því hafi orðið rof á ráðningu stefnanda hjá ríkinu og hafi hann ekki verið í þjónustu ríkisins á tímabilinu 1. febrúar til 23. maí 2004. Við starfslok stefnanda hjá Landspítala 31. janúar 2004 hafi því fallið niður sá skilyrti réttur stefnanda til biðlauna sem hann hafði átt á grundvelli ráðningar sinnar hjá ríkinu í gildistíð eldri laga nr. 38/1954 og hafi hann því ekki notið réttarstöðu samkvæmt 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða er hann hafi ráðist til starfa hjá Geislavörnum ríkisins frá og með 24. maí 2004. Réttarstaða stefnanda í starfi hjá Geislavörnum ríkisins hafi samkvæmt þessu miðast við ráðningarsamning hans frá 1. júlí 2004, sem byggðist á lögum nr. 70/1996 og hafi stefnandi því engan biðlaunarétt átt í starfi sínu hjá stefnda.
Stefndi vísar því á bug að um niðurlagningu starfs hafi verið að ræða. Um hafi verið að ræða breytingar á kröfum um menntun á starfssviði stefnanda vegna breytinga á lögum nr. 44/2002 um geislavarnir með lögum nr. 28/2008. Stefnandi sé raftæknifræðingur að mennt og starf hans hjá Geislavörnum ríkisins hafi fyrst og fremst falist í reglubundnu tæknilegu eftirliti með röntgentækjum, einkum hjá tannlæknum, og hafi starfsheiti hans samkvæmt ráðningarsamningi verið sérfræðingur á eftirlitssviði.
Þær breytingar sem gerðar hafi verið á lögum um geislavarnir með lögum nr. 28/2008, sem tekið hafi gildi 1. janúar 2009, hafi annars vegar falið í sér að framkvæmd eftirlits Geislavarna ríkisins hafi verið einfölduð og hins vegar hafi enn frekar verið dregið úr reglubundnu tæknilegu eftirliti. Eftir samþykkt laganna hafi verið ljóst að verulegar áherslubreytingar yrðu í starfsemi Geislavarna ríkisins.
Í ljósi breyttra aðstæðna hafi sú ákvörðun verið tekin í samræmi við þarfir stofnunarinnar að breyta starfi stefnanda og gera aðrar menntunarkröfur til þess, sbr. 43. gr. laga nr. 70/1996. Stefnanda hafi verið sagt upp störfum þar sem hann hafi ekki lengur haft, vegna lagabreytinganna, þá sérkunnáttu sem starfið hafi krafist og hafi uppsögn hans því ekki átt rætur í því að starf hans hafi verið lagt niður.
Starfið sem stefnandi gegndi hafi síðan verið auglýst og komi þar fram að auglýst hafi verið eftir eðlisfræðingi/eðlisverkfræðingi og að starfið fæli einkum í sér verkefni vegna læknisfræðilegrar notkunar jónandi geislunar, svo sem vinnu við öflun og tölfræðilega úrvinnslu gagna, mælifræði, gæðamál, fræðslu, stjórnsýslu o.fl.
Staðhæfingu stefnanda, um að orðið hafi til nýtt starf í stað starfs stefnanda, vísar stefndi á bug. Ekki hafi verið um nýtt starf að ræða heldur breytingu á starfi. Það hafi verið mat Geislavarna ríkisins, að teknu tilliti til þeirra breytinga sem orðið hafi á lögum nr. 28/2008 og þeirra verkefna sem stefnandi hafi haft með höndum, að breytingarnar væru slíkar að krefjast yrði tiltekinnar sérmenntunar sem stefnandi hafi ekki haft. Því hafi verið heimilt í ljósi almennra og sérstakra skilyrða fyrir ráðningu að segja stefnanda upp starfi samkvæmt 43. gr. laganna, sbr. 5. tl. 6. gr. laga nr. 70/1996.
Stefndi mótmælir fjárkröfum stefnanda sem of háum, en þær innihaldi í öllum tilvikum mánaðarlegar greiðslur vegna útlagðs kostnaðar samkvæmt aksturssamningi að fjárhæð 15.334 krónur, sem ekki falli undir biðlaunagreiðslur samkvæmt 1. mgr. 34. gr. Kostnaður vegna aksturs falli ekki lengur til eftir að starfsskyldur falli niður og því beri ekki að greiða akstursgjald á biðlaunatíma. Beri því að lækka mánaðargreiðslur sem þessu nemi, þannig að höfuðstóll lækki um 46.002 krónur, úr 1.278.315 krónum í 1.232.313 krónur.
Varðandi lækkun á viðurkenningarkröfu stefnanda tekur stefndi fram, að ef fallist verði á fjárkröfur stefnanda, séu þar með útkljáðar kröfur um laun til og með febrúar 2009. Geti viðurkenningarkrafa hans því ekki náð lengra en vegna launagreiðslna frá 1. mars til 23. október 2009. Þá liggi nú fyrir að stefnandi hafi verið ráðinn 10. mars sl. í starf tækja- og tæknistjóra Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands. Samkvæmt 2. mgr. 34. gr. laga nr. 70/1996 skuli launagreiðslur samkvæmt 1. mgr. 34. gr. falla niður, ef laun þau er nýja starfinu fylgja eru jöfn eða hærri en þau sem hann naut í fyrra starfi. Ella greiðist launamismunur út tímabilið séu laun í nýja starfinu lægri. Í samræmi við það geti viðurkenningarkrafa ekki náð lengra en vegna launa 1. mars til 9. mars 2009, séu laun í nýju starfi jöfn eða hærri, en takmörkuð við launamismun frá þeim tíma séu laun í nýja starfinu lægri.
Niðurstaða
Ágreiningur máls þessa lýtur annars vegar að því hvort staða stefnanda hafi verið lögð niður og rétti stefnanda til skaðabóta af þeim sökum og hins vegar að því hvort rof hafi orðið á ráðningu stefnanda hjá ríkinu, og hvort það rof leiði til þess að réttur hans til biðlauna hafi fallið niður.
Verður fyrst vikið að því hvort staða stefnanda hafi verið lögð niður.
Með bréfi forstjóra stefnda til stefnanda 27. ágúst 2008 var stefnanda sagt upp störfum, en í bréfinu segir m.a.: Áherslur í starfsemi Geislavarna ríkisins breytast verulega í kjölfar breytinga á lögum um geislavarnir. Breytingarnar fela í sér að enn frekar verður dregið úr tæknilegu eftirliti stofnunarinnar en aukin áhersla verður lögð á mat á geislaálagi sjúklinga, mælifræði og virk gæðakerfi. Breyttar áherslur krefjast verulegrar þekkingar á geislaeðlisfræði, mælifræði og stærðfræði, einkum tölfræði og tölfræðilegri úrvinnslu mæligagna auk hæfni til miðlunar þekkingar fremur en þekkingar í raftæknifræði og tæknilegri uppbyggingu röntgentækja.
Af orðalagi bréfs forstjóra stefnda verður glögglega ráðið að ástæður uppsagnar stefnanda voru þær að stefnandi átti þess ekki lengur kost, vegna breyttra áherslna í starfsemi stefnda, að gegna starfi því sem hann hafði gegnt. Ástæður þess að stefnanda var sagt upp störfum var því ekki að rekja til stefnanda sjálfs. Er með engu móti unnt að túlka breyttar áherslur í starfsemi stefnda, og þær afleiðingar sem það hafði í för með sér fyrir stefnanda, á annan hátt en þann en að ekki var lengur þörf fyrir þá stöðu sem stefnandi gegndi hjá stefnda og var hún því lögð niður.
Samkvæmt 5. mgr. bráðabirgðaákvæðis með lögum nr. 70/1996, sem leystu af hólmi lög nr. 38/1954, sem stefnandi heyrði undir, á starfsmaður rétt til bóta sem nemi launum í sex mánuði ef hann hefur verið í þjónustu ríkisins skemur en 15 ár, en ella í tólf mánuði.
Af hálfu stefnda hefur því verið haldið fram að rof hafi orðið á ráðningu stefnanda í þjónustu ríkisins frá 1. febrúar 2004 til 23. maí 2004 og að þá hafi fallið niður sá skilyrti réttur stefnanda til biðlauna sem hann hafði átt á grundvelli ráðningar sinnar hjá ríkinu í gildistíð laga nr. 38/1954. Hafi hann því ekki notið réttarstöðu samkvæmt 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða samkvæmt lögum nr. 70/1996, er hann hafi ráðist til starfa hjá stefnda 24. maí 2004.
Samkvæmt starfsvottorðum sem stefnandi lagði fram, starfaði hann hjá Landspítala í fullu starfi frá árinu 1985 til 31. janúar 2004. Frá þeim tíma til 31. maí 2004 var hann stundakennari við Tækniháskóla Íslands og frá 24. maí 2004 starfaði stefnandi sem sérfræðingur hjá stefnda, Geislavörnum ríkisins, þar til honum var sagt upp störfum. Allan starfstíma sinn, fram að því að stefnanda var sagt upp störfum, var hann samkvæmt framangreindu í þjónustu ríkisins og breytir engu í því sambandi þótt stefnandi hafi, á tímabilinu frá 1. febrúar 2004 til loka maí 2004, verið í stundakennarastarfi, en ekki föstu starfi. Stefnandi hafði, er honum var sagt upp störfum, starfað lengur en 15 ár í þjónustu ríkisins og á hann því rétt til bóta samkvæmt 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða samkvæmt lögum nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
Í málflutningi stefnanda við aðalmeðferð málsins kom fram að hann viðurkenndi að mánaðarlegar greiðslur vegna útlagðs kostnaðar samkvæmt aksturssamningi féllu ekki undir biðlaunagreiðslur samkvæmt 1. mgr. 34. gr. laga nr. 70/1996 og að af þeim sökum bæri að lækka mánaðarlegar greiðslur um þá fjárhæð, eða vegna greiðslu 1. janúar úr 455.505 krónum í 440.171 krónu og vegna greiðslna 1. febrúar og 1. mars úr 411.405 krónum í 396.071 krónu og höfuðstól um 46.022 krónur, eða úr 1.278.315 krónum í 1.232.313 krónur.
Þá kom einnig fram í málflutningi stefnanda að hann féllist á með stefnda, að ef fallist yrði á fjárkröfur stefnanda væru þar með útkljáðar kröfur um laun til og með febrúar 2009 og að viðurkenningarkrafa stefnanda næði því ekki lengra en vegna launagreiðslna frá 1. mars til 23. október 2009.
Stefnandi hefur krafist þess að um bótafjárhæð fari samkvæmt 34. gr. laga nr. 70/1996. Fer sú krafa hans því saman við það sjónarmið stefnda að viðurkenningarkrafa stefnanda taki mið af 2. mgr. 34. gr. laga nr. 70/1996, þannig að ef laun er hinu nýja starfi fylgja eru jöfn eða hærri en þau sem hann naut í fyrra starfi, falli launagreiðslur niður, en ella greiðist launamismunur út tímabilið, séu laun í nýja starfinu lægri.
Það er því niðurstaða dómsins, samkvæmt framangreindu, að stefnda beri að greiða stefnanda 1.232.313 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 440.171 krónu frá 1. janúar 2009 og af 396.071 krónu frá 1. febrúar 2009 og af 396.071 krónu frá 1. mars 2009, í hverju tilviki til greiðsludags.
Þá er viðurkennt að stefndi eigi, samkvæmt 5. málsgrein bráðabirgðaákvæðis í lögum nr. 70/1996, rétt til skaðabóta úr hendi stefnda er nemi launum frá 1. mars 2009 til 24. október 2009 vegna niðurlagningar á stöðu hans og að um bótafjárhæð fari samkvæmt 2. mgr. 34. gr. laga nr. 70/1996.
Í ljósi framangreinds, og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, greiði stefndi stefnanda 400.000 krónur í málskostnað, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.
Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan dóm.
D ó m s o r ð:
Stefndi, Geislavarnir ríkisins, greiði stefnanda, Brynjari Erni Ragnarssyni, 1.232.313 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af 440.171 krónu frá 1. janúar 2009, af 396.071 krónu frá 1. febrúar 2009 og af 396.071 krónu frá 1. mars 2009, í hverju tilviki til greiðsludags.
Viðurkennt er að stefnandi eigi rétt til skaðabóta úr hendi stefnda er nemi launum frá 1. mars 2009 til 24. október 2009 vegna niðurlagningar á stöðu stefnanda og að um bótafjárhæð fari samkvæmt 2. mgr. 34. gr. laga nr. 70/1996.
Stefndi greiði stefnanda 400.000 krónur í málskostnað.