Hæstiréttur íslands

Mál nr. 264/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Nauðungarsala


                                     

Þriðjudaginn 6. maí 2014.

Nr. 264/2014.

Gljúfrasel ehf.

(Steingrímur Þormóðsson hrl.)

gegn

Fagfólki ehf.

(Valgeir Kristinsson hrl.)

Hafnarfjarðarkaupstað og

(enginn)

Húsfélaginu Hvaleyrarbraut 22

(enginn)

 

Kærumál. Nauðungarsala.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu G ehf. um felld yrði úr gildi nauðungarsala sýslumanns á eignarhlutum félagsins í fasteign.

 

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. apríl 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 27. mars 2014 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að uppboðsbeiðni varnaraðila Fagfólks ehf. og uppboð á nánar tilgreindum eignum sóknaraðila yrði fellt úr gildi. Kæruheimild er í 1. mgr. 85. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Sóknaraðili krefst þess að nauðungarsala á eignarhlutum sóknaraðila, með fasteignanúmer 230-1248 og 230-1249, í fasteigninni Hvaleyrarbraut 22 í Hafnarfirði, sem fram fór 14. júní 2013, verði felld úr gildi. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilinn Fagfólk ehf. krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilarnir Hafnarfjarðarkaupstaður og Húsfélagið Hvaleyrarbraut 22 hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur á þann veg sem í dómsorði greinir.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðilanum Fagfólki ehf. kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Kröfu sóknaraðila, Gljúfrasels ehf., um að felld verði úr gildi nauðungarsala sýslumannsins í Hafnarfirði 14. júní 2013 á eignarhlutum sóknaraðila, með fasteignanúmer 230-1248 og 230-1249, í fasteigninni Hvaleyrarbraut 22, Hafnarfirði, er hafnað.

Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað eru staðfest.

Sóknaraðili greiði varnaraðilanum Fagfólki ehf. 250.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 27. mars 2014.

Með beiðni sóknaraðila, Gljúfrasels ehf., Álftamýri 37, Reykjavík, sem barst dóminum 12. júlí 2013, var leitað úrlausnar dómsins á gildi nauðungarsölu sem fór fram hjá sýslumanninum í Hafnarfirði 14. júní 2013 á fasteignunum 230-1248 og 230-1249 að Hvaleyrarbraut 22 í Hafnarfirði, sbr. 80. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Í beiðninni var varnaraðili Fagfólk ehf. einn tilgreindur sem gerðarbeiðandi við nauðungarsöluna. Málið var tekið til úrskurðar 24. febrúar 2014 að loknum munnlegum málflutningi. Í þinghaldi 17. mars 2014 var málið endurupptekið skv. 104. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1991, þar sem það voru tveir aðrir aðilar sem lýstu kröfum við nauðungarsöluna, þ.e. Hafnarfjarðar­kaupstaður og húsfélagið Hvaleyrarbraut 22, Hafnarfirði, og var þeim því veitt aðild að málinu, sbr. 3. mgr. 82. gr. laga nr. 90/1991. 

Dómkröfur sóknaraðila eru þær að uppboðsbeiðni Fagfólks ehf. frá 14. nóvember 2012 verði felld úr gildi og til vara að uppboðið á umræddum eignarhlutum 14. júní 2013 verði ógilt og ómerkt og fellt úr gildi. Við munnlegan flutning málsins hafði sóknaraðili uppi kröfu um málskostnað.

                Varnaraðili Fagfólk ehf. krefst þess aðallega að máli þessu verði vísað frá dómi, en til vara að kröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst varnaraðili Fagfólk ehf. málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.

                Varnaraðilar Hafnarfjarðarkaupstaður og húsfélagið Hvaleyrarbraut 22 í Hafnarfirði krefjast þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá gera þessir varnaraðilar kröfu um málskostnað.

I.

                Ágreiningur er um málsatvik. Í beiðni sóknaraðila til dómsins 12. júlí 2013 segir að atvik hafi verið þau að Snyrtistofa Ólafar Ingólfsdóttur ehf., félag í eigu Hannesar Ragnarssonar, fyrirsvarsmanns sóknaraðila, hafi selt bíla til Jóhannesar Helga Einarssonar, fyrirsvarsmanns varnaraðila Fagfólks ehf., í apríl 2011. Hannes hafi ekki getað afhent bílana og því afhent óútfyllt tryggingarbréf ásamt óútfylltum víxli. Lok þessara viðskipta hafi verið þau að samkomulag hafi verið gert 17. maí 2011 um að Hannes afsalaði til Jóhannesar Helga helmingi í hlut hans í Gljúfraseli ehf. Í samkomulaginu hafi komið fram að það hafi átt að aflétta tryggingarbréfinu. Tryggingarbréfið hafi aldrei átt að vera hærra en 3.800.000 krónur og hafi átt að afhenda það Hannesi við afhendingu bílanna. Þegar bílarnir hafi verið afhentir hafi Jóhannes Helgi ekki skilað tryggingarbréfinu og víxlinum. Þannig standi ekkert að baki víxlinum og tryggingarbréfinu, sem varnaraðili Fagfólk ehf. byggði á sem uppboðs­heimild.

Í greinargerð sóknaraðila, sem lögð var fram undir rekstri málsins, er atvikum lýst þannig að 5. apríl 2011 hafi Hannes Ragnarsson, fyrirsvarsmaður Gljúfrasels ehf., fengið lánaðar 2.500.000 krónur hjá Jóhannesi Helga Einarssyni, fyrirsvarsmanni Fagfólks ehf., til að kaupa fasteignirnar 230-1248 og 230-1249 að Hvaleyrarbraut 22 í Hafnarfirði. Kaupin hafi verið gerð í nafni Snyrtistofu Ólafar Ingólfsdóttur ehf., félags í eigu Hannesar Ragnarssonar. Hafi verið samkomulag milli Hannesar og Jóhannesar Helga um að sá síðarnefndi fengi í staðinn sem greiðslu bifreiðina JS 432, af tegundinni Infinity, árgerð 2002, en verðmæti bifreiðarinnar hafi verið a.m.k. 2.750.000 krónur, samkvæmt verðmati Bílabankans. Jóhannes Helgi hafi tilgreint 1.300.000 krónur sem verð inn á afsalið fyrir bifreiðinni en ekkert verð hafi verið á afsalinu er Hannes afhenti honum það. Einnig hafi Jóhannes Helgi átt að fá, og fengið, sem greiðslu bifreiðina PU-933, að verðmæti 1.050.000 krónur, en Jóhannes Helgi hafi greitt inn á bifreiðina 300.000 krónur, þannig að 750.000 krónur hafi komið til viðbótar sem greiðsla lánsins. Þrátt fyrir að Hannes hafi greitt skuldina hafi Jóhannes Helgi fyllt út víxilinn og tryggingarbréfið og þinglýst á eignina. Er Hannes hafi orðið þess áskynja hafi hann haft uppi mótmæli. Hann hafi reynt samningaviðræður við Jóhannes Helga og að lokum hafi þeir gert samkomulag 17. maí 2011, þegar útséð hafi verið með að Jóhannes Helgi myndi aflýsa tryggingarbréfinu og afhenda Hannesi víxilinn til baka. Hannes hafi beðið eftir því að samkomulagið frá 17. maí 2011 yrði uppfyllt, þ.e. að tryggingarbréfinu yrði aflétt og víxillinn afhentur, en til að hann gæti efnt samkomulagið hafi orðið að aflýsa tryggingarbréfinu, enda hafi það verið forsenda hans fyrir samkomulaginu.

                Varnaraðili Fagfólk lýsir atvikum þannig að Hannes hafi lagt fyrir Jóhannes Helga hugmynd að sameiginlegum kaupum þeirra á umræddum fasteignum af Íslandsbanka. Hannes hafi ekki átt neina peninga og hafi Jóhannes Helgi lagt til 2.500.000 krónur sem hafi þurft til kaupanna, auk þess sem hann hafi greitt þinglýsingar- og stimpilgjöld, eða um 2.600.000 krónur. Kaupsamningur og afsal hafi verið gert 31. mars 2011 á fasteignasölunni Stórborg. Hannes hafi greitt sinn helming af kaupverðinu með bifreiðinni JS-432 að verðmæti 1.300.000 krónur. Fasteigninni hafi verið afsalað til Snyrtistofu Ólafar Ingólfsdóttur ehf., sem hafi verið í fullri eigu Hannesar, og því hafi Jóhannes Helgi fengið víxil og tryggingarbréf að fjárhæð 5.000.000 króna, sem hafi verið áætlað helmingur af verðmæti fasteignarinnar, enda hafi staðið til að selja hana og skipta andvirðinu að jöfnu þeirra í milli. Afsalinu hafi verið þinglýst 7. apríl 2011 og tryggingarbréfinu 6. apríl s.á. Sama dag hafi Hannes látið útbúa afsal af umræddum fasteignum frá Snyrtistofu Ólafar Ingólfsdóttur ehf. til sóknaraðila Gljúfrasels ehf., án vitneskju Jóhannesar Helga og greinilega í þeim tilgangi að svíkja Jóhannes Helga og koma eignunum undan og til sín. Hannesi hafi ekki tekist það þar sem búið hafi verið að leggja tryggingarbréfið inn til þinglýsingar og hafi sýslumaður gert athugasemd við síðara afsalið þar sem ekki hafi verið getið um 5.000.000 króna tryggingarbréf á eigninni. Hinn 17. maí 2011 hafi Jóhannes Helgi og Hannes gert samkomulag um umræddar fasteignir, þess efnis að Hannes afsali til Jóhannesar Helga helmingshlut í einkahlutafélaginu Gljúfraseli ehf., en eina eign félagsins hafi verið umræddar fasteignir. Samkvæmt samkomulaginu skyldi Jóhannes Helgi aflýsa tryggingarbréfinu að fjárhæð 5.000.000 króna og víxlinum að sömu fjárhæð, en Gljúfrasel ehf. hafi átt að gefa út átta veðskuldabréf, hvert að fjárhæð 1.000.000 króna, og skyldu þau afhendast að jöfnu til Jóhannesar Helga og Hannesar. Hannes hafi aldrei efnt þetta samkomulag og því standi engin rök til að skila víxlinum og tryggingarbréfinu. Af samkomulaginu megi ráða að þeir hafi verið búnir að leggja jafnt af mörkum vegna útborgunar og greiðslu kaupverðsins sem hafi greiðst að jöfnu af þeim, þ.e. Hannes hafi greitt Jóhannesi Helga sinn helming kaupverðsins og það passi við verðmæti bifreiðarinnar JS-432. Í yfirlýsingunni felist án nokkurs fyrirvara að Jóhannes Helgi sé eigandi víxilsins og tryggingarbréfsins. Hannes hafi svo stolið bifreiðinni JS-432 eftir að hún komst í eigu Jóhannesar Helga, þar sem hún hafi verið til sölu á bílasölu. Hannes hafi svo skilað bifreiðinni eftir að Jóhannes Helgi kærði hann til lögreglu. Um viðskipti með bifreiðina PU-933 segir varnaraðili að þau hafi átt sér stað í desember 2010. Greitt hafi verið með Viðskiptanetinu 300.000 krónur, hinn 2. desember 2010, og tilkynning um eigendaskiptin tilkynnt Umferðarstofu degi síðar. Aldrei hafi verið gerðar athugasemdir af hálfu Hannesar um vanskil vegna viðskiptanna og þau hafi átt sér stað löngu áður en fasteignamálið hófst. Þau viðskipti séu málinu því algerlega óviðkomandi.

II.

Fyrir dómi skýrði Valgeir Kristinsson hrl. frá því að hann hefði vottað fyrirliggjandi tryggingarbréf 5. apríl 2011 á starfstöð sem hann var með í Reykjavík. Það hafi komið til þannig að Jóhannes Helgi og Hannes hafi verið á fundi í sama húsnæði, í herbergi á móti skrifstofu hans. Hannes hefði komið í gættina til hans og greint frá því að hafa í gegnum tíðina átt í ýmsum viðskiptum með Jóhannesi Helga og spurt hvort hann gæti vottað fyrirliggjandi tryggingarbréf. Valgeir kvaðst muna vel eftir þessu þar sem Hannes hafi nefnt að hann hefði í huga að ráða hann sem lögmann þar sem hann vildi höfða bótamál vegna slyss. Valgeir kvaðst hafa vottað tryggingarbréfið fullbúið en að hann myndi ekki sérstaklega eftir víxlinum. Síðar hafi hann verið beðinn um að votta samkomulagið frá 17. maí 2011 og hann gert það. 

Jóhannes Helgi Einarsson sagði fyrir dómi að hann hefði verið starfsmaður á fasteignasölu þegar Hannes hefði komið til hans en þeir hefðu þekkst lítillega fyrir. Hannes hefði greint frá fasteign sem hafi verið hægt að kaupa á góðu verði og spurt hvort hann gæti fjármagnað kaupin og að þeir myndu kaupa hana saman. Hann hafi séð sér hag í því og samþykkt það, þ.e. að hann myndi leggja út fyrir kaupunum á umræddum eignar­hlutum að Hvaleyrarbraut 22. Hannes hafi ekki átt neitt á móti og boðið fram bifreið upp í sinn hluta af þessu. Það hafi orðið úr að Jóhannes Helgi hafi borgað fyrir eignina og eignin verið sett á félag í eigu Hannesar. Hannes hafi afhent bifreiðina, sem hafi þá borgað hans hlut í kaupunum, þannig að þeir hafi átt eignina til helminga. Þeir hafi gengið frá þessu með því að gefa út tryggingarbréf og víxil, upp á 5.000.000 króna, sem Jóhannes Helgi myndi halda meðan eignin væri á nafni félags Hannesar. Jóhannes Helgi kvaðst hafa fengið bifreiðina afhenta, tryggingarbréfið og víxilinn, en eftir þetta hafi ekki verið hægt að ná í Hannes. Jóhannes Helgi sagði að þá hafi farið að renna á sig tvær grímur og hann hafi því þinglýst tryggingarbréfinu. Síðan hafi komið í ljós að Hannes hafi þinglýst eignarhlutunum að Hvaleyrarbraut 22 yfir á annað félag í eigu Hannesar, Gljúfrasel ehf. Sem betur fer hefði hann verið búinn að þinglýsa tryggingarbréfinu því að annars hefði hann tapað eigninni. Í framhaldi af þessu hefði hann reynt að ná sambandi við Hannes en það hafi ekki verið hægt að ná í hann. Hann hefði sent Hannesi tölvupóst um að ganga frá málum og á endanum hafi Hannes komið á skrifstofuna til hans. Hann kvaðst hafa haldið á þessum tímapunkti að Hannes væri andlega veikur. Þeir hefðu gert samkomulag um að Jóhannes Helgi fengi helmingshluta í Gljúfraseli ehf., sem þá hafi verið skráður eigandi umræddra eignarhluta, og fengi fjórar milljónir í skuldabréfum, sem væru þinglýst á eignina, og þá myndi hann skila tryggingarbréfinu og víxlinum. Hannes hefði aldrei svarað neinu eftir þetta og það næsta sem hefði gerst hafi verið það að Hannes hafi farið á bílasöluna, þar sem bifreiðin sem Hannes hafði greitt honum með var til sölu, og stolið bifreiðinni. Það hefði verið kært til lögreglu. Þá sagði Jóhannes Helgi að viðskipti með bifreiðina PU-933 hefðu átt sér stað á árinu 2010 og að hann hefði greitt fyrir hana að fullu með Viðskiptanetinu. Það hefði síðar komið í ljós að Hannes hefði ekki afhent bifreiðina PU-933 heldur allt aðra bifreið. Þannig að þar hefði Hannes líka haft svik í tafli. Jafnframt sagði Jóhannes Helgi að ásett verð á bifreiðina JS-432 hefði verið óraunhæft og að hún hafi ekki verið meira virði en 1.300.000 krónur. Á endanum hefði hann selt hana á því verði. 

III.

                Sóknaraðili byggir málatilbúnað sinn á því að uppboðskrafa varnaraðila sé greidd, þ.e. hinn umkrafði víxill, og að fyrirsvarsmaður varnaraðila hafi lofað að afhenda sóknaraðila tryggingarbréfið og víxilinn í viðurvist Valgeirs Kristinssonar hrl. Sóknaraðili byggir einnig á því að víxillinn sé falsaður, sem og tryggingarbréfið.

                Um lagarök vísar sóknaraðili til 80. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu og meginreglna kröfuréttar og samningaréttar.

IV.

                Varnaraðili Fagfólk ehf. byggir á því að málatilbúnaður sóknaraðila sé bæði mjög vanreifaður og ruglingslegur. Sóknaraðili geri engar athugasemdir við undirbúning og framkvæmd uppboðsins hjá sýslumanni. Eina málsástæða hans sé sú að hann hafi tekið lán hjá Jóhannesi Helga að fjárhæð 2.500.000 krónur og hann sé búinn að endurgreiða það og eigi því að fá víxilinn að fjárhæð 5.000.000 króna til baka og fella uppboðsmálið niður. Varnaraðili telur engin rök vera fram komin er hnekki gildi uppboðsins.

                Krafa varnaraðila sé byggð á víxli sem engin athugasemd sé gerð við. Varnaraðili sem víxilhafi þurfi ekki að taka til varna vegna viðskipta að baki víxlinum. Þau rök komist ekki að, sbr. víxillög og 17. kafla laga um meðferð einkamála. Einungis rök samkvæmt 17. kafla komist að í máli þessu og þegar af þeirri ástæðu beri að hafna kröfum sóknaraðila.

                Varnaraðili mótmælir því að víxillinn hafi verið ranglega útfylltur. Þessi málsástæða komist heldur ekki að í málinu og dómafordæmi séu fyrir því að ef víxill er óútfylltur hvað varðar fjárhæð þá sé víxilhafi talinn hafa umboð víxilskuldara til að fylla hann út að þessu leyti.

                Enn fremur byggir varnaraðili á því að engin rök styðji það að Hannes hafi fengið lán til fasteignakaupa og greitt lánið að fullu. Þar af leiðandi beri að sýkna varnaraðila af kröfum sóknaraðila.  

                Hvað varðar frávísunarkröfu vísar varnaraðili í greinargerð sinni til þess að samkvæmt 81. gr. laga um nauðungarsölu nr. 90/1991 beri þeim sem vill bera gildi nauðungarsölu undir héraðsdóm að tilgreina hverjir verða taldir aðilar að málinu, sbr. 3. mgr. 82. gr. laganna. Þarna sé átt við gerðarþola, gerðarbeiðanda og aðra þá sem hafa ekki gert kröfur fyrir sýslumanni í tengslum við nauðungarsöluna og hafa ekki fallið frá þeim. Sóknaraðili geti ekkert um þá sem hér eigi við, s.s. kröfuhafa, vegna ógreiddra fasteignagjalda og lóðarleigu, og húsfélag, alls þrír aðilar, sem allir hafi hagsmuna að gæta af máli þessu. Samkvæmt þessu sé ekki uppfyllt skilyrði 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála um óskipta aðild og skyldu til að veita þeim kost á að gæta réttar síns. Eigi því að vísa máli þessu frá dómi.

                Um lagarök vísar varnaraðili til laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, einkum 17. kafla laganna, og meginreglna kröfuréttar og samningaréttar. Varðandi frávísunarkröfu er vísað til g- og e-liðar 80. gr. laga nr. 91/1991 og 82. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. 

                Krafa um málskostnað er reist á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 129. gr. Dráttarvaxtakrafa á málskostnað er byggð á 4. tl. 129. gr. laga nr. 91/1991.

IV.

Varnaraðilar Hafnarfjarðarkaupstaður og húsfélagið Hvaleyrarbraut 22 í Hafnarfirði sáu ekki ástæðu til að leggja fram greinargerð í málinu, en bókað var um kröfugerð þeirra, sem greinir hér að framan, í þinghaldi 17. mars 2014.

Í téðu þinghaldi mótmælti sóknaraðili aðild Hafnarfjarðarkaupstaðar og lagði fram skjal, dags. 27. júní 2013, um að Hafnarfjarðarkaupstaður hefði afturkallað  uppboðsbeiðni sína vegna vangoldinna fasteignagjalda. Þótt Hafnarfjarðarkaupstaður hafi afturkallað uppboðsbeiðnina og hafi ekki lengur verið gerðarbeiðandi hefur Hafnarfjarðar­kaupstaður ekki fallið frá öllum kröfum sínum á hendur sóknaraðila. Hefur Hafnarfjarðarkaupstaður því lögvarða hagsmuni af máli þessu og á aðild að því skv. 3. mgr. 83. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu.

V.

                Að mati dómsins styðja gögn málsins fremur málatilbúnað varnaraðila Fagfólks ehf. en sóknaraðila. Verður að taka undir með varnaraðila Fagfólki ehf. að málatilbúnaður sóknaraðila er nokkuð ruglingslegur og erfitt að átta sig á málsatvikalýsingu sóknaraðila, en ekki þykir ástæða til að vísa málinu frá dómi vegna þess. Frávísunarkrafa í greinargerð varnaraðila Fagfólks ehf., sem byggð var á því að aðrir gerðarbeiðendur við nauðungarsöluna hafi ekki átt aðild að málinu, á ekki lengur við þar sem málið var endurupptekið 17. mars 2014 og Hafnarfjarðarkaupstað og húsfélaginu Hvaleyrarbraut 22 veitt aðild að málinu. Þá verður að hafna frávísunar­kröfu sem höfð var uppi í málflutningsræðu lögmanns varnaraðila Fagfólks ehf., sem var byggð á því að sýslumanni hefði ekki verið send tilkynning, sbr. 3. mgr. 81. gr. laga nr. 90/1991. Dómari tilkynnti sýslumanni um mál þetta með tölvuskeyti 9. september 2013 og gaf honum kost á því að koma að athugasemdum sínum um málefnið, en hann sá ekki ástæðu til þess.  

Samkvæmt gögnum málsins og því sem fram hefur komið í málinu leitaði Hannes Ragnarsson, fyrirsvarsmaður sóknaraðila, til Jóhannesar Helga Einarssonar, fyrirsvarsmanns varnaraðila Fagfólks ehf., um að þeir myndu kaupa saman umrædda eignarhluta að Hvaleyrarbraut 22 í Hafnarfirði af Íslandsbanka. Var gengið frá kaupsamningi þess efnis og afsali 31. mars 2011. Kaupverðið var 2.500.000 krónur. Jóhannes Helgi lagði til kaupverðið og fyrir kostnaði vegna kaupanna, 62.240 krónur, en kaupsamningurinn var gerður í nafni Snyrtistofu Ólafar Ingólfsdóttur ehf., félags í eigu Hannesar. Sóknaraðili byggir á því að Jóhannes Helgi hafi í staðinn fengið sem greiðslu bifreiðina JS-432 sem hafi verið að verðmæti 2.750.000 krónur, og bifreiðina PU-933, að verðmæti 1.050.000 krónur. Greitt hafi verið inn á síðarnefndu bifreiðina 300.000 krónur og því hafi 750.000 krónur komið sem viðbót sem greiðsla vegna fasteignakaupanna. Viðskiptin með bifreiðina PU-933 áttu sér stað á árinu 2010 og er ekkert fram komið í málinu sem styður þá fullyrðingu sóknaraðila að þau viðskipti tengist á nokkurn hátt umræddum fasteignaviðskiptum. Einnig er með öllu ósannað að verðmæti bifreiðarinnar JS-432 hafi verið meira en helmingurinn af kaupverði umræddra fasteigna, eða 1.300.000 krónur. Það liggur í augum uppi að Hannes og Jóhannes Helgi gerðu sér vonir um að hagnast á eigninni við endursölu á henni. Þar sem kaupin höfðu verið gerð í nafni félags í eigu Hannesar fékk Jóhannes Helgi jafnframt í hendur tryggingarbréf og víxil, til að tryggja hagsmuni hans við endursölu eignarinnar og skiptingu á söluandvirði hennar. Fram hefur komið í málinu að Hannes undirritaði afsal, dags. 6. apríl 2011, án vitundar Jóhannesar Helga, þar sem umræddum eignarhlutum var afsalað til annars félags í eigu Hannesar, Gljúfrasels ehf., en athugasemdir voru gerðar við afsalið hjá sýslumanni þar sem tryggingarbréfi að fjárhæð 5.000.000 króna hafði verið þinglýst á eignarhlutana. Í framhaldi af þessu gerðu Jóhannes Helgi og Hannes með sér samkomulag, hinn 17. maí 2011, um að Hannes afsalaði til Jóhannesar Helga helmingshlut í einkahlutafélaginu Gljúfraseli, en eina eign þess voru umræddir eignarhlutar að Hvaleyrarbraut 22. Samkvæmt samkomulaginu átti Jóhannes Helgi að aflýsa tryggingarbréfinu sem var með veð í umræddum eignar­hlutum, að fjárhæð 5.000.000 króna, og skila víxli að sömu fjárhæð til Hannesar, gegn því að Gljúfrasel ehf. gæfi út átta veðskuldabréf, samtals 8.000.000 króna. Umrædda eignarhluta að Hvaleyrarbraut 22 átti svo að setja í sölumeðferð og skipta söluandvirðinu jafnt á milli Hannesar og Jóhannesar Helga. Veðskuldabréfin voru hins vegar aldrei gefin út og tryggingarbréfinu því ekki aflýst. Samkvæmt öllu framansögðu verður að hafna þeirri málsástæðu sóknaraðila að uppboðskrafa varnaraðila Fagfólks ehf. hafi verið greidd. Þá er ekkert í málinu sem styður það að tryggingarbréfið eða víxilinn hafi verið fölsuð og að skjölin hafi verið útfyllt með hærri fjárhæð en samið hafi verið um. Við munnlegan flutning málsins kom fram af hálfu sóknaraðila að aðild varnaraðila Fagfólks ehf. að málinu væri óútskýrð en hvergi komi fram að tryggingarbréfið hafi verið framselt til Fagfólks ehf. Um þetta er það að segja að Fagfólk ehf. var handhafi tryggingarbréfsins og gerðarbeiðandi við umrædda nauðungarsölu og á því með réttu aðild að máli þessu. Þá hafði sóknaraðili við munnlegan flutning málsins uppi nýjar málsástæður varðandi form tryggingarbréfsins og víxilsins, s.s. um að útgáfustað vantaði. Þessar málsástæður komast ekki að í málinu gegn mótmælum varnaraðila Fagfólks ehf., sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991. Með vísan til alls framangreinds verður að hafna kröfum sóknaraðila, um að  uppboðsbeiðni Fagfólks ehf. frá 14. nóvember 2012 verði felld úr gildi og að uppboðið á umræddum eignarhlutum sem fór fram 14. júní 2013 verði fellt úr gildi.

Eftir þessum úrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 ber sóknaraðila að greiða varnaraðila Fagfólki ehf. málskostnað, sem er ákveðinn með hliðsjón af málskostnaðarreikningi, 564.750 krónur. Þá ber sóknaraðila að greiða varnaraðilum Hafnarfjarðarkaupstað og húsfélaginu Hvaleyrar­braut 22 í Hafnarfirði hvorum um sig 60.000 krónur í málskostnað.

Úrskurð þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

                Kröfu sóknaraðila, Gljúfrasels ehf., um að uppboðsbeiðni varnaraðila Fagfólks ehf. frá 14. nóvember 2012 verði felld úr gildi og að uppboðið á umræddum eignarhlutum sem fór fram 14. júní 2013 verði fellt úr gildi, er hafnað.

                Sóknaraðili greiði varnaraðila Fagfólki ehf. 564.750 krónur í málskostnað og varnaraðilum Hafnarfjarðarkaupstað og húsfélaginu Hvaleyrarbraut 22 í Hafnarfirði hvorum um sig 60.000 krónur í málskostnað.