Hæstiréttur íslands

Mál nr. 14/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Varnarþing
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Föstudaginn 23. janúar 2015.

Nr. 14/2015.

K

(Þuríður Halldórsdóttir hdl.)

gegn

M

(Oddgeir Einarsson hrl.)

Kærumál. Varnarþing. Frávísunarúrskurður staðfestur.

Í hinum kærða úrskurði héraðsdóms var máli K á hendur M vísað frá dómi þar sem það hefði verið höfðað á röngu varnarþingi. Deildu aðilar um hvort að M ætti fasta búsetu í Reykjavík í skilningi 2. málsl. 1. mgr. 32. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í dómi Hæstaréttar kom fram að stefna hefði verið birt fyrir A en þess ekki getið í birtingarvottorði að hún hefði tjáð þeim sem birti stefnuna að M ætti þar fasta búsetu eða dvalarstað eins og áskilið væri í a. lið 1. mgr. 87. gr. sömu laga. K hefði lagt fyrir Hæstarétt ódagsett skjal undirritað af stefnuvottinum þar sem greindi að A hefði staðfest við birtingu stefnunnar að M „væri með dvalarstað“ á umræddum stað. Með hliðsjón af 3. mgr. 87. gr. laganna og gegn andmælum M yrði réttaráhrifum skjals þessa ekki jafnað við skráningu upplýsinga á birtingarvottorði samkvæmt 1. mgr. 87. gr. laganna. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna úrskurðarins var hann staðfestur.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Eiríkur Tómasson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. desember 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. janúar 2015. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. desember 2014, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að lagt verði fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hún kærumálskostnaðar án tillits til gjafsóknar, sem sótt hafi verið um.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði var stefna birt fyrir A að [...] í Reykjavík, en þess ekki getið í birtingarvottorði að hún hafi tjáð þeim sem birti stefnuna að stefndi ætti þar fasta búsetu eða dvalarstað eins og áskilið er í a. lið 1. mgr. 87. gr. laga nr. 91/1991, sbr. b. lið 3. mgr. 85. gr. sömu laga. Sóknaraðili hefur lagt fyrir Hæstarétt ódagsett skjal undirritað af B, sem mun vera stefnuvottur, þar sem greinir að A hafi staðfest við birtingu stefnunnar að varnaraðili ,,væri með dvalarstað“ að [...] í Reykjavík. Með hliðsjón af 3. mgr. 87. gr. laga nr. 91/1991 verður réttaráhrifum skjals þessa ekki jafnað við skráningu upplýsinga á birtingarvottorði samkvæmt 1. mgr. 87. gr. sömu laga. Gegn andmælum varnaraðila fær hið nýja skjal því ekki haggað niðurstöðu hins kærða úrskurðar. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna úrskurðarins verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir. Með því að gjafsókn sóknaraðila samkvæmt bréfi innanríkisráðuneytisins 12. nóvember 2014 var bundin við rekstur málsins í héraði og hún hefur ekki lagt fyrir Hæstarétt gögn um að sér hafi verið veitt gjafsókn hér fyrir dómi verður gjafsóknarkostnaður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, K, greiði varnaraðila, M, 150.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. desember 2014.

Mál þetta sem tekið var til úrskurðar 14. nóvember sl. var höfðað 25. september sl. af stefnanda, K, [...], [...], [...] á hendur stefnda M, [...], [...], [...].

Stefnandi krefst þess að breyting verði gerð á núverandi skipan forsjár barna þeirra; C, fæddri [...], D, fæddri árið [...] og E, fæddum [...], þannig að stefnanda verði með dómi einni falin forsjá barnanna til 18 ára aldurs þeirra. Stefnandi krefst þess einnig að kveðið verði á um að stefnda beri að greiða stefnanda einfalt meðlag með hverju barni frá dómsuppkvaðningu til 18 ára aldurs og um inntak umgengnisréttar og að sá sem umgengni njóti beri einn kostnað vegna umgengni. Jafnframt er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda eins og málið væri eigi gjafsóknarmál að viðbættum virðisaukaskatti. Í stefnu var einnig gerð krafa um að stefnanda yrði falin forsjá barnanna til bráðabirgða en stefnandi féll frá þeirri kröfu í þinghaldinu 14. nóvember sl.

Stefndi krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi en til vara að stefndi verði sýknaður af kröfum stefnanda um forsjá barnanna og að honum verði einum dæmd forsjá barnanna og enn fremur að stefnanda verði gert að greiða einfalt meðlag með hverju barni frá dómsuppsögu til fullnaðs 18 ára aldurs þeirra. Til þrautavara krefst stefndi þess að forsjá barnanna verði áfram sameiginleg en að lögheimili barnanna verði ákveðið hjá honum og að stefnanda verði gert að greiða einfalt meðlag með hverju barni frá dómsuppsögu til fullnaðs 18 ára aldurs þeirra. Stefndi gerir einnig kröfu um að kveðið verði á um inntak umgengnisréttar þess foreldris sem ekki fær forsjá barnanna. Loks krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Í þessum þætti málsins er til úrlausnar frávísunarkrafa stefnda en stefnandi hefur krafist þess að frávísunarkröfu stefnda verði hafnað. Stefnandi hefur krafist þess að ákvörðun málskostnaðar vegna þessa þáttar málsins bíði efnisdóms ef synjað verður frávísunar en stefndi krefst málskostnaðar úr hendi stefnanda vegna þessa þáttar málsins.

I.

Stefnandi og stefndi eiga þrjú börn saman. Fyrsta barnið er fætt árið [...], annað árið [...] og þriðja árið [...]. Aðilar voru í sambúð frá árinu 2004 og skráðri sambúð frá miðju ári 2008. Stefnandi og börn aðila hafa búið í Danmörku frá upphafi árs 2009. Stefnandi höfðaði mál á hendur stefnda fyrir dönskum dómstól árið 2010 og krafðist þess að henni yrði falin forsjá barnanna og að stefndi fengi ekki að umgangast börn aðila. Stefndi krafðist sameiginlegrar forsjár og umgengni. Með dómi héraðsdóms í [...] (Retten i [...]) 27. janúar 2011 var kveðið á um áframhaldandi sameiginlega forsjá og umgengni stefnda með nánar tilgreindum hætti, þ.e. átta sinnum á ári. Kveðið var á um það að ferðarkostnaður vegna umgengni skyldi skipt milli aðila.

Stefndi áfrýjaði dóminum til Vestri Landsréttar og krafðist sameiginlegrar forsjár en að börnin ættu heimili hjá honum. Með dómi Vestri Landsréttar 6. júní 2011 var komist að þeirri niðurstöðu að börnin skyldu eiga heimili hjá stefnanda og dómur héraðsdóm var staðfestur.

Frá því að dómur Vestri Landsréttar gekk hafa aðilar deilt um fyrirkomulag umgengni stefnda við börnin og kostnað vegna hennar. Stefndi leitaði eftir breytingu á umgengni og kostnaðarskiptingu vegna hennar hjá dönskum stjórnvöldum (Statsforvaltningen Syd Danmark) og liggja fyrir stjórnvaldsákvarðanir um það í málinu frá árinu 2013.  Ákveðið var að aðilar skyldu sjálfir skipuleggja ferðalög barnanna í samræmi við það sem þeim væri fyrir bestu og að stefndi skyldi eiga „Skype“ samskipti við börnin á miðvikudögum og sunnudögum kl. 17.00.

Fyrir liggur einnig útskrift úr fógetabók Héraðsdóms [...] frá 2. desember 2013 þar sem tekin var fyrir krafa stefnda um að hann fengi börnin afhent til umgengni. Aðilar gerðu sátt í málinu, þ.á m. þess efnis að ferðalög vegna umgengni myndu skiptast þannig milli aðila að stefndi myndi panta og greiða flugmiða milli Danmerkur og Íslands en stefnandi sjá annast og greiða fyrir ferðalög milli heimilis og dansks flugvallar.

Með ákvörðun, dagsettri 21. febrúar 2014, vísuðu dönsk stjórnvöld (Statsforvaltningen)  frá kröfu stefnanda um breytingu á umgengni stefnda við börnin, þ.e. aðallega að hún yrði felld niður en til vara að hún yrði minnkuð og færi eingöngu fram í Danmörku. Ákvörðunin er rökstudd með þeim hætti að stefnandi hafi ekki upplýst um svo veigamiklar breytingar á aðstæðum að þær réttlæti breytingar á umgengni. Stefnandi hefði ekki fært rök fyrir því að breyting væri best fyrir börnin. Krafa stefnanda væri eingöngu byggð á fjárhagslegum aðstæðum. Stefnandi kærði ákvörðunina til „Ankestyrelsen/Familieretsafdelingen“ sem staðfesti ákvörðunina 30. september 2014. Áréttað var að áfrýjunaraðilinn væri sammála fyrsta stjórnvaldsstiginu að ekki væri upplýst um verulegar breytingar sem gætu réttlætt breytingar á umgengni og skiptingu kostnaðar af ferðalögum.

Stefndi óskaði eftir að lögheimili elsta barns aðila yrði flutt til Íslands sl. sumar. Hann segir það hafa verið vegna óskar hennar um að búa hjá honum á Íslandi vegna vanlíðunar í Danmörku.

Með bréfi dagsettu 30. ágúst 2013 fór stefnandi fram á það við Sýslumanninn í F að leitað yrði sátta um breytingu á forsjá þannig að framvegis hefði hún ein forsjá barnanna. Einnig var óskað eftir breytingu á umgengni. Málið var sent Sýslumanninum í Reykjavík til meðferðar þar sem í málinu voru upplýsingar um að stefndi hefði dvalarstað í Reykjavík. Sýslumaðurinn í Reykjavík tók málið fyrir með stefnda 2. október 2013 og sagði stefndi þá að afstaða hans vari sú að danskir dómstólar hefðu lögsögu í málinu. Með tölvupósti stefnanda til sýslumannsins í Reykjavík frá 25. október 2013 sagði stefnandi m.a. ljóst að íslensku barnalögin næðu til stefnda og varnarþing hans væri á Íslandi. Enginn dómur væri endanlegur í forsjár- eða umgengnismálum. Unnt væri að breyta samningum og kveða upp nýja úrskurði og dóma með tilliti til forsendna og hvað er best fyrir barn. Í kjölfar þessa svars stefnanda tók fulltrúi sýslumannsins í F til sérstakrar skoðunar hvort málið ætti undir íslensk yfirvöld. Niðurstaða hans var sú að hafna beiðni stefnanda um sáttatilraun vegna kröfu hennar um breytingu á forsjá barnanna. Stefnandi kærði úrskurð sýslumannsins og krafðist þess að lagt yrði fyrir sýslumann að verða við beiðni um sáttameðferð svo unnt væri að höfða forsjármál ef ekki næðust sættir.  Með úrskurði innanríkisráðuneytisins 23. júní sl. var hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir sýslumanninn að taka málið til nýrrar meðferðar. Í framhaldinu fór fram sáttameðferð samkvæmt 33. gr. barnalaga nr. 76/2003. Sættir tókust ekki samkvæmt vottorði sýslumannsins í F, dagsett 24. ágúst 2014.

II.

Málatilbúnaður stefnanda er reistur á því að vegna erfiðra samskipta við stefnda varðandi börnin og þá einkum í tengslum við umgengni þeirra sé ljóst að alls engar forsendur séu fyrir sameiginlegri forsjá. Útilokað sé fyrir stefnanda að ná nokkru samkomulagi varðandi börnin við stefnda. Krafa stefnanda um forsjá barnanna er reist á 34. gr. barnalaga nr. 76/2003. Krafa stefnanda er lýtur að umgengni og meðalagskrafa er byggð á 5. mgr. 34. gr. laga nr. 76/2003.

Stefnandi segir málið rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur því þar eigi stefndi fasta búsetu samkvæmt framlögðum útprentunum af heimasíðu www.ja.is, sbr. 37. gr. barnalaga nr. 76/2003.

Málskostnaðarkrafa stefnanda er byggð á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991. Krafan um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun styðst við lög nr. 50/1988 þar sem lögmönnum er gert að innheimta virðisaukaskatt vegna þjónustu sinnar.

Stefndi byggir kröfu sína um sýknu og forsjá barnanna á því að það sé börnunum fyrir bestu að hann fari með forsjá þeirra sbr. 2. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003. Fengi stefnandi forsjá barnanna bendi allt til þess að hún myndi tálma umgengni enn frekar en hún hafi þegar gert. Hegðun stefnanda í tengslum við umgengni stefnda við börnin hafi einkennst af tálmunum, stífni og tilraunum til að slíta sambandi barnanna við stefnda. Um þetta vitni m.a. úrskurðir og ákvarðanir danskra yfirvalda í málinu. Stefndi hafi hins vegar aldrei orðið uppvís að því að standa ekki við sinn hluta umgengnisfyrirkomulags. Hann hafi alltaf skilað börnunum á réttan stað á réttum tíma í samræmi við úrskurði danskra yfirvalda. Þá hafi hann reynt að sýna stefnanda sveigjanleika þegar hún hafi óskað eftir því að umgengni fari fram á öðrum tíma en kveðið er á um í umræddum úrskurðum/dómum. Vegna þess hve kostnaðarþátttaka stefndu í ferðakostnaði skapaði mikil vandræði í tengslum við umgengni hafi stefndi lagt til að hann greiddi flugmiða barnanna báðar leiðir en stefnda skyldi sjá um að koma börnunum til og frá flugvelli ytra. Til vara telji dómari það börnunum ekki fyrir bestu að stefndi fari einn með forsjá þeirra beri að dæma áframhaldandi sameiginlega forsjá beggja aðila, sbr. 3. og 4. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003. Stefndi hafnar meðlagskröfu stefnanda enda hafi hann greitt stefnanda meðlag með öllum þremur börnunum frá árinu 2010. Krafa stefnda um meðlag byggir á 54. og 55. gr. barnalaga. Þá gerir stefndi kröfu um að dómurinn kveði á um inntak umgengnisréttar með endanlegum dómi sínum sbr. 4. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003.

Krafa stefnda um málskostnað er byggð XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt byggist á ákvæðum laga nr. 50/1988. 

III.

Frávísunarkrafa stefnda er byggð á því að málið sé höfðað á röngu heimilisvarnarþingi. Samkvæmt 37. gr. barnalaga nr. 76/2003 skuli höfða mál á heimilisvarnarþingi barns eða á heimilisvarnarþingi stefnda að öðrum kosti. Ef hvorugt þeirra eigi heimilisvarnarþing hér á landi megi höfða mál á heimilisvarnarþingi stefnanda. Börn aðila séu búsett og eigi lögheimili í Danmörku. Reykjavík er því ekki heimilisvarnarþing barnanna. Stefndi eigi lögheimili á [...] í [...]. Þar sé hann jafnframt búsettur samkvæmt lögum um lögheimili. Sáttameðferð aðila hafi farið fram hjá Sýslumanninum í F. Málið sé því höfðað á röngu heimilisvarnarþingi samkvæmt 37. gr. laga nr. 76/2003 og því beri að vísa málinu frá dómi.

Framlögð útprentun af vefsíðunni www.ja.is sé ekki sönnun um búsetu stefnda. Um sé að ræða gamla skráningu sem láðst hafi að breyta. Sé nafni stefnda slegið inn komi enn fremur tvær niðurstöður um heimilisfang. Samkvæmt framlagðri útprentun af www.ja.is ætti stefnandi að hafa fasta búsetu að [...], [...].

Stefndi byggir kröfu sína á frávísun jafnframt á því að hann hafi nú þegar höfðað mál í Danmörku um lögheimili elstu dóttur aðila en þann 14. ágúst síðastliðinn sótti stefndi um breytingu á lögheimili stúlkunnar hingað til lands. Í Danmörku sé því í gangi stjórnsýslumál varðandi lögheimilisskipan elsta barnsins. Því sé óheimilt að hefja annað mál hér á landi á meðan mál um lögheimilisflutning elsta barnsins sé ólokið.

Stefndi krefst einnig frávísunar á þeim grundvelli að gengið hafi endanlegur dómur um forsjárskipan barnanna þann 6. júní 2011 fyrir Vestri Landsrétti Danmerkur. Síðasta ákvörðun danskra yfirvalda um umgengni stefnda við börnin sé einungis 17 daga gömul. Stefndi telur það í andstöðu við sjónarmið um res judicata að taka málið til efnislegrar meðferðar eins og sakir standa.  Samkvæmt 116. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 er dómur bindandi um úrslit sakarefnis milli aðila auk þess sem krafa sem hefur verið dæmd að efni til verði ekki borin aftur undir sama eða hliðsettan dómstól. Þá beri íslenskum dómstólum að viðurkenna ákvarðanir um forsjá, búsetur eða umgengnisrétt við barn sem teknar eru í ríki sem er aðili að Evrópusamningnum, sbr. 6. gr. laga um viðurkenningu og fullnustu erlendra ákvarðana um forsjá barns, afhendingu brottnuminna barna o.fl. nr. 160/1995. Að mati stefnda séu engar nýjar aðstæður komnar upp sem kalli á að hafið verði nýtt forsjármál milli aðila, niðurstöður danskra dómstóla frá árinu 2011 séu því bindandi fyrir aðila og íslenska dómstóla. Því beri að vísa málinu frá dómi.

Við munnlegan flutning um frávísunarkröfu stefnda lagði lögmaður stefnanda fram, með samþykki stefnda, útprentun af ja.is þar sem hún sagði að fram kæmi að þegar sett var inn heimilið [...] í [...] væri stefndi ekki tilgreindur með símanúmer. Lögmaður stefnanda hélt því fram að stefnandi væri búsettur að [...], Reykjavík og börnin hefðu verið þar á heimili hans í umgengni. Hann hefði unnið í  Reykjavík þar til í haust og nú væri hann í [...] í Reykjavík. Sannað væri með framlögðum gögnum, þ.e. útprentunum af ja.is og bréfi Sýslumannsins í F 20. september 2013 til Sýslumannsins í Reykjavík, að stefndi hefði dvalarstað í Reykjavík, [...], Reykjavík. Í bréfinu kæmi fram að stefndi hefði óskað eftir því í símtali við fulltrúa Sýslumannsins í F að bóka svör í málinu hjá Sýslumanninum í Reykjavík.

Þá hefði stefndi mætt við þingfestingu málsins ásamt lögmanni stefnanda. Stefndi hefði þá fyrst og fremst andmælt kröfunni um forsjá en jafnframt lýst því yfir að hans varnarþing væri í F. Lögmaður stefnanda sagði að dómari í reglulega dómþinginu hefði þegar tekið afstöðu til þessarar mótbáru og tjáð stefnda að úr því að hann væri mættur í dóminn kæmi sú viðbára ekki til álita þar sem ljóst væri að honum hefði borist stefnan. Því kæmi ekki til álita að sá dómari sem nú hefði fengið málið til meðferðar tæki afstöðu til þessa sama álitaefnis. Þá hélt lögmaður stefnanda því fram að enginn dómur um forsjá barns væri endanlegur. Ef aðstæður væru verulega breyttar í lífi barna væru skilyrði fyrir nýju máli og þá þyrfti ávallt að hafa hagsmuni barna að leiðarljósi.

Við flutning málsins var því mótmælt af hálfu lögmanns stefnda að fyrir lægju gögn er sýndu fram á að stefndi ætti fasta búsetu í Reykjavík. Lögmaður stefnda sagði stefnda vissulega oft vera í íbúðinni í [...] og gista þar en heimili hans væri í [...]. Þar væri innbúið hans og hann dveldi þar allar helgar. Varðandi útprentunina af ja.is sem stefnandi lagði fram við málflutninginn benti lögmaður stefnda á að samkvæmt skjalinu hefði verið slegið inn símanúmerið [...] en ekki [...] í [...]. Það væri því ekki sönnun þess að stefndi væri ekki þar búsettur. Fyrrgreint símanúmer kæmi stefnda ekki við.

IV.

Aðilar deila um hvort stefndi eigi fasta búsetu í [...] og þar með hvort málið sé höfðað á réttu varnarþingi, þ.e. heimilisvarnarþingi hans, sbr. 1. mgr. 37. gr. barnalaga nr. 76/2003 og 1. mgr. 32. gr. laga nr. 91/1991 þar sem kveðið er á um að eigi maður fasta búsetu í annarri þinghá en þar sem lögheimili hans sé skráð megi einnig sækja hann í þeirri þinghá.

Óumdeilt er að stefndi á lögheimili að [...] í [...], [...]. Sáttameðferð samkvæmt 33. gr. a. barnlaga nr. 76/2003 fór fram hjá Sýslumanninum í F. Framangreind gögn sem stefnandi hefur lagt fram sanna ekki að stefndi eigi fasta búsetu að [...] í skilningi 2. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1990 um lögheimili þar sem  kveðið er á um að maður teljist hafa fasta búsetu á þeim stað þar sem hann hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og svefnstaður hans er þegar hann er ekki fjarverandi um stundarsakir vegna orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika.

Í stefnu segir að stefndi eigi lögheimili að [...] í [...] en hafi fasta búsetu að [...], Reykjavík. Stefnan var birt þar fyrir A „í sömu íbúð“, eins og segir í birtingarvottorði, en fram kom í málflutningi að hún er móðir stefnda og býr þar. Á birtingarvottorðinu, sem ber haus lögmanns stefnanda, er forprentað að tilgreint heimilisfang sé ekki lögheimili „en þar hefur stefndi fasta búsetu og þarf því að birta fyrir honum sjálfum ...“. Birtingarvottorðið er undirritað af birtingarmanni. Þess er ekki getið í birtingarvottorðinu af hálfu birtingarmanns að A, sem birt var fyrir, hafi tjáð honum að stefndi ætti þar fasta búsetu eða dvalarstað, sbr. a-lið 1. mgr. 87. gr. laga nr. 91/1991. Með vísan til 3. mgr. sama ákvæðis þykir efni birtingarvottorðsins því heldur ekki sanna með fullnægjandi hætti að stefndi eigi fasta búsetu að [...], Reykjavík, og þar með heimilisvarnarþing samkvæmt 37. gr. barnalaga nr. 76/2003, sbr. 1. mgr. 32. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt öllu framanrituðu er fallist á það með stefnda að mál þetta sé höfðað á röngu varnarþingi og ber því að vísa málinu frá dómi.

Samkvæmt 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 300.000 krónur.

Stefnandi hefur gjafsókn í málinu samkvæmt gjafsóknarleyfi útgefnu 12. nóvember 2014. Allur málskostnaður hennar greiðist því úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Þuríðar K. Halldórsdóttur hdl., sem þykir hæfilega ákveðinn 300.000 krónur.

Þuríður K. Halldórsdóttir hdl. flutti málið f.h. stefnanda en Guðríður Lára Þrastardóttir hdl. flutti málið fyrir stefnda.

Áslaug Björgvinsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn. 

ÚRSKURÐARORÐ

Máli þessu er vísað frá dómi.

Stefnandi, K, greiði stefnda M, 300.000 krónur í málskostnað.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þ. á m. þóknun lögmanns hennar, Þuríðar K. Halldórsdóttur hdl., 300.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.