Hæstiréttur íslands
Nr. 2023-141
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Barnavernd
- Miskabætur
- Fyrirsvar
- Stefna
- Ómerking héraðsdóms
- Heimvísun
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Með beiðni 7. desember 2023 leita A og B leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 10. nóvember sama ár í máli nr. 353/2022: D gegn A og B. Gagnaðili tekur ekki afstöðu til beiðninnar.
3. Mál þetta lýtur að kröfu um miskabætur á grundvelli b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Leyfisbeiðendur telja að framganga barnaverndarnefndar gagnaðila hafi falið í sér ólögmæta meingerð gegn frelsi, friði og æru þeirra og barna þeirra. Héraðsdómur tók kröfuna til greina og dæmdi leyfisbeiðendum og börnum þeirra miskabætur. Landsréttur ómerkti héraðsdóm og vísaði málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju.
4. Leyfisbeiðendur byggja heimild til áfrýjunar á því að nauðsynlegt sé að metið verði hvort dómsathöfn Landsréttar í málinu kunni að vera röng. Þá varði málið sérstaklega mikilvæga hagsmuni þeirra enda hafi liðið tæplega 18 mánuðir frá því að niðurstaða héraðsdóms lá fyrir þar til málið var flutt í Landsrétti og að önnur slík töf sé mjög bagaleg fyrir leyfisbeiðendur. Þá vísa þeir til þess að enginn ágreiningur hafi verið um kröfugerð eða aðild við meðferð málsins í héraði eða fyrir Landsrétti. Í dómi Landsréttar sé hins vegar nefnt að í áfrýjunarstefnu og greinargerð áfrýjenda til Landsréttar hafi einungis foreldrar barnanna verið tilgreind sem stefndu. Þrátt fyrir það sé ekki sýknað vegna aðildarskorts eða málinu vísað frá Landsrétti vegna vanreifunar á aðild heldur því vísað til meðferðar að nýju í héraði. Umfjöllun Landsréttar um hugsanlega annmarka á áfrýjunarstefnu til réttarins geti ekki leitt til ómerkingar héraðsdóms og heimvísunar málsins.
5. Í 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 segir að við mat á því hvort fallist verði á beiðni um áfrýjunarleyfi skuli líta til þess hvort úrslit máls hafi verulegt almennt gildi eða varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni þess sem leitar leyfis. Þá getur Hæstiréttur veitt slíkt leyfi ef ástæða er til að ætla að málsmeðferð fyrir héraðsdómi eða Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant eða dómur Landsréttar bersýnilega rangur að formi eða efni.
6. Dómur Hæstaréttar í máli þessu hefur ekki verulegt almennt gildi. Ekki verður heldur talið að leyfisbeiðendur hafi sérstaklega mikla hagsmuni af því að fá heimild til að áfrýja málinu svo málsmeðferð um skaðabótakröfu dragist ekki á langinn með því að málið verði aftur dæmt í héraði og svo eftir atvikum áfrýjað á ný til Landsréttar. Þá var málsmeðferð í héraði eða Landsrétti ekki stórlega ábótavant eða dómur Landsréttar bersýnilega rangur að formi til. Hvort heimild til að áfrýja dóminum verði veitt veltur hins vegar á því hvort hann sé bersýnilega rangur að efni til.
7. Í stefnu til héraðsdóms sagði að leyfisbeiðendur þyrftu að höfða mál á hendur gagnaðila til heimtu miskabóta vegna tjóns sem þau töldu gagnaðila hafi valdið þeim og börnum þeirra. Jafnframt var gerð sú krafa að gagnaðili yrði dæmdur til að greiða börnunum hvoru um sig tiltekna fjárhæð í miskabætur. Í samræmi við þetta bar að réttu lagi í stefnunni að tilgreina börnin sem stefnendur málsins ásamt leyfisbeiðendum, sbr. a-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Á hinn bóginn var enginn ágreiningur um aðildina með aðilum og úr þessu mátti bæta með bókun í héraði ásamt því að tilgreina börnin sem stefnendur í þingbók og síðan í dómi, sbr. b-lið 1. mgr. 114. gr. sömu laga. Þess er þó að gæta að í dómsorði héraðsdóms eru börnin tilgreind sem stefnendur og þeim dæmdar bætur. Að þessu virtu virðast ekki næg efni hafa verið til að ómerkja héraðsdóm af þessari ástæðu, með tilheyrandi drætti á málsmeðferð, enda lá beint við að þetta yrði fært til betri vegar í Landsrétti. Jafnframt verður ekki séð að aðrir þeir annmarkar hafi verið á héraðsdómi að ástæða væri til að ómerkja hann. Samkvæmt þessu kann dómur Landsréttar að vera bersýnilega rangur og verður því veitt áfrýjunarleyfi í því skyni að fjalla um hvort ómerkja ber hann.