Hæstiréttur íslands
Mál nr. 420/2007
Lykilorð
- Ábyrgð
- Gjaldþrotaskipti
- Riftun
- Málsgrundvöllur
- Frávísun frá héraðsdómi
|
|
Fimmtudaginn 18. september 2008. |
|
Nr. 420/2007. |
Stefán Bragi Bjarnason og Gunnar Viðar Bjarnason (Ólafur Eiríksson hrl.) gegn Kaupþingi banka hf. (Kristinn Bjarnason hrl.) |
Ábyrgð. Gjaldþrotaskipti. Riftun. Málsgrundvöllur. Frávísun frá héraðsdómi.
Hinn 26. maí 2003 undirrituðu S og G yfirlýsingu til handa Búnaðarbankanum um sjálfskuldarábyrgð vegna yfirdráttar reiknings Vþ hf. sem þeir voru í fyrirsvari fyrir. Í kjölfar greiðsluáskorunar 27. ágúst 2004 vegna framangreindrar sjálfskuldarábyrgðar framseldi Vþ hf., K tékka að upphæð 30.440.000 krónur. Með úrskurði uppkveðnum 7. september 2004 var bú félagsins tekið til gjaldþrotaskipta og skiptastjóri skipaðu. Með vísan til 134. gr. og 141. gr. laga nr. 21/1994 lýsti skiptastjóri yfir riftun á greiðslu Vþ hf., til K og var K krafið um endurgreiðslu á fjárhæðinni. K endurgreiddi þrotabúinu fjárhæðina og lýsti jafnframt kröfu sinni í búið, hvort tveggja með fyrirvara. Í málinu byggði K kröfu sína á því að ábyrgðarskuldbinding S og G hefði raknað við þegar greiðslunni var rift af hálfu þrotabúsins. Við flutning málsins fyrir Hæstarétti kom fram að enn hefði ekki verið leyst úr ágreiningi stefnda við þrotabúið um veðrétt hans í fjárhæðinni sem greidd var og lögmæti riftunarinnar. Var því um ósamræmi í málatilbúnaði K þar sem hann byggði kröfu sína á því að greiðslunni hefði verið rift og hann þar með farið endanlega á mis við hana, en K hélt því gagnstæða fram gagnvart þrotabúinu. Talið var að málatilbúnaður K uppfyllti ekki ákvæði e. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og var málinu því sjálfkrafa vísað frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 10. ágúst 2007. Þeir krefjast sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Svo sem lýst er í hinum áfrýjaða dómi greinir aðila á um hvort í gildi sé sjálfskuldarábyrgð, sem áfrýjendur höfðu með yfirlýsingu 26. maí 2003 gengist í við stefnda vegna yfirdráttar á tékkareikningi nr. 3746 við vesturbæjarútibú stefnda í Reykjavík. Eigandi reikningsins var V & Þ hf., áður Vélar og þjónusta hf., en bú félagsins var tekið til gjaldþrotaskipta 7. september 2004. Voru áfrýjendur í fyrirsvari fyrir félagið fram að þeim tíma.
Fyrir liggur óumdeilt í málinu að stefndi átti samkvæmt tryggingarbréfi 31. desember 1998, sem þinglýst hafði verið 13. janúar 1999, veðrétt í vörubirgðum V & Þ hf. fyrir öllum skuldum félagsins við stefnda. Hinn 26. ágúst 2004 keypti Tá ehf., félag sem upplýst er að hafi verið í eigu áfrýjenda og fleiri aðila, hluta af vörubirgðir V & Þ hf. og greiddi kaupverðið meðal annars með tékka að fjárhæð 30.440.000 krónur. Þessi tékki var framseldur stefnda 30. ágúst 2004 þegar andvirði hans var lagt inn á fyrrgreindan tékkareikning nr. 3746 með þeim áhrifum að yfirdráttarskuldin á honum greiddist upp. Er ágreiningslaust að þá hafi stefndi afhent áfrýjendum frumrit yfirlýsingarinnar frá 26. maí 2003.
Með bréfi 22. september 2004 lýsti skiptastjóri í þrotabúi V & Þ hf. yfir riftun á greiðslunni 30. ágúst 2004 og vísaði um riftunarheimild til 134. og 141. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Í framhaldinu endurgreiddi stefndi fjárhæðina til þrotabúsins með fyrirvara um að „sumt sé sérgreind eign bankans“. Þá liggur fyrir í málinu kröfulýsing stefnda í þrotabúið 17. nóvember 2004, þar sem meðal annars er gerð krafa vegna yfirdráttarskuldar á tékkareikningi númer 3746 en um hana segir svo: „Krafa þessi er byggð á endurgreiðslu til þrotabúsins vegna riftunar skiptastjóra, ... Fyrirvari er gerður um réttmæti riftunarinnar.“
Stefndi byggir málsókn sína á því að ábyrgðarskuldbindingar áfrýjenda hafi raknað við þegar þrotabú V & Þ hf. rifti greiðslunni sem fram fór 30. ágúst 2004. Að framan er getið fyrirvara sem stefndi gerði, þegar hann annars vegar endurgreiddi þrotabúinu fjárhæðina sem greidd hafði verið og hins vegar lýsti kröfu sinni í búið. Við flutning málsins fyrir Hæstarétti kom fram að enn hefði ekki verið leyst úr ágreiningi stefnda við þrotabúið um veðrétt hans í fjárhæðinni sem greidd var og lögmæti riftunarinnar. Þar með er ljóst að ósamræmi er í málatilbúnaði stefnda þar sem hann beinlínis byggir kröfu sína á því að greiðslunni hafi verið rift og hann þar með farið endanlega á mis við hana, en heldur því gagnstæða fram gagnvart þrotabúinu. Af þessum sökum er málatilbúnaður hans svo ómarkviss að hann uppfyllir ekki ákvæði e. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og verður málinu því sjálfkrafa vísað frá héraðsdómi.
Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjendum upp í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðst eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.
Stefndi, Kaupþing banki hf., greiði áfrýjendum, Stefáni Braga Bjarnasyni og Gunnari Viðari Bjarnasyni, hvorum fyrir sig samtals 250.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. júní 2007.
Mál þetta var höfðað 23. febrúar 2007 og dómtekið 4. þ.m.
Stefnandi er Kaupþing banki hf., Borgartúni 19, Reykjavík.
Stefndu eru Stefán Bragi Bjarnason, Bæjargili 96, Garðabæ og Gunnar Viðar Bjarnason, Brekkugerði 16, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess að stefndu verði dæmdir in solidum til að greiða sér skuld að upphæð 30.440.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 8. október 2004 til greiðsludags svo og málskostnað.
Stefndu krefjast sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans. Upphaflegri aðalkröfu stefndu, um frávísun málsins, var hafnað með úrskurði uppkveðnum 18. maí sl.
1
Á grundvelli beiðni frá V & Þ hf. (áður Vélar og þjónusta hf.), kt. 591275-0389, Járnhálsi 2, Reykjavík var bú félagsins tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði uppkveðnum 7. september 2004 og skiptastjóri skipaður. Fyrirtækið hafði stundað umfangsmikinn rekstur og stefnandi verið helsti viðskiptabanki þess. Stefndi, Stefán Bragi Bjarnason, var formaður stjórnar félagsins og stefndi, Gunnar Viðar Bjarnson, framkvæmdastjóri.
Stefndu undirrituðu 26. maí 2003 yfirlýsingu til handa Búnaðarbankanum um sjálfskuldarábyrgð in solidum v. yfirdráttar að hámarksfjárhæð 38 milljónir króna vegna reiknings Véla og þjónustu hf. nr. 3746 í vesturbæjarútibúi bankans.
Hinn 27. ágúst 2004 var Vélum og þjónustu hf. birt greiðsluáskorun þar sem skorað var á félagið að greiða gjaldfallnar kröfur stefnanda á hendur því, m.a. vegna yfirdráttar á reikningi nr. 306-26-3746, samtals að fjárhæð 142.035.330 krónur að meðtöldum dráttarvöxtum, innheimtukostnaði og virðisaukaskatti. Skorað var á fyrirtækið að greiða skuldina eða semja um greiðslu hennar innan 15 daga frá móttöku greiðsluáskorunarinnar en að þeim tíma liðnum yrði krafist aðfarar fyrir skuldinni án frekari tilkynninga. Í greiðsluáskoruninni segir að greiðslu megi leggja inn á reikning lögfræðideildar 301-26-9131.
Félagið framseldi stefnanda 30. ágúst 2004 tékka að upphæð 30.440.000 krónur, útgefinn 26. s.m., andvirði sölu vörubirgða. Greiðslan var lögð inn á framangreindan reikning, 306-26-3746, en yfirdráttur á honum hafði þann dag numið 29.986.083 krónum.
Skiptastjóri þrotabús V & Þ hf. (áður Véla og þjónustu hf.) sendi stefnanda 22. september 2004 yfirlýsingu um riftun framangreindrar greiðslu. Þar segir m.a.: „Með hliðsjón af efnahag þrotabúsins er ljóst að umrædd greiðsla Véla og þjónustu hf. til bankans skerti greiðslugetu félagsins verulega en minnt skal á að greiðslan var innt af hendi einungis einni viku fyrir frestdag. Með greiðslunni var kröfuhöfum félagsins auk þess mismunað til góða fyrir KB-banka.“ Með tilvísun í 134. og 141. gr. laga nr. 21/1991 var greiðslunni rift og krafist endurgreiðslu á 30.440.000 krónum sem stefnandi innti af hendi 8. október 2004 með því að fjárhæðin var tekin út af reikningi 306-26-3746 og varð staða hans við það neikvæð sem því nemur.
Stefnandi sendi 17. nóvember 2004 kröfulýsingu í þrotabú V & Þ hf., þ.á m. kröfu að höfuðstólsupphæð 30.440.000 krónur vegna tékkareiknings nr. 306-26-3746. Frammi liggur endurskoðuð kröfulýsingarskrá þrotabúsins, dags. 12. janúar 2007, og ódagsett frumvarp til bráðabirgðaúthlutunar en skiptum er ekki lokið.
2
Stefnandi byggir kröfu sína, með vísun til sjálfskuldarábyrgðar stefndu, á almennum reglum kröfuréttar og meginreglum samningaréttar um skuldbindingargildi loforða og skyldu til að efna samninga.
Skuld á tékkareikningi nr. 306-26-3746 hafi verið greidd upp 30. ágúst 2004 en greiðslunni hafi verið rift og endurgreiðslu krafist úr hendi stefnanda sökum þess að hún hafi verið ótilhlýðileg, ógild, riftanleg og ólögmæt. Það sé meginregla í íslenskum rétti að við riftun falli niður skyldur aðila til að efna samning eftir aðalefni sínu og eigi þeir að vera eins settir og hefði greiðsla ekki átt sér stað.
Á því er byggt að sjálfskuldarábyrgðin sé enn í fullu gildi og því beri stefndu ábyrgð á skuld á reikningnum. Vegna riftunarinnar hafi stefnandi endurgreitt þrotabúinu 8. október 2004 fjárhæðina, 30.440.000 krónur, og reikningurinn orðið neikvæður sem henni nemi; á þessu sé fjárhæð dómkröfunnar reist.
3
Stefndu kveða umrædda riftun ekki snúa að þeim heldur að réttarsambandi V & Þ hf. (fyrir gjaldþrot) og stefnanda. Því sé engin krafa fyrir hendi á hendur stefndu vegna riftunar þriðja aðila. Þegar af þeirri ástæðu beri að sýkna þá af dómkröfum stefnanda og dæma þeim málskostnað að skaðlausu auk álags.
Af hálfu stefnanda sé ekki gerð viðurkenningarkrafa um að ábyrgðin standi enn heldur sé þess krafist að ábyrgðin verði greidd án þess að fyrir liggi hvort nokkuð verði eftir af skuld þeirri sem sjálfskuldarábyrgðinni hafi verið ætlað að tryggja. Óvíst sé að stefnandi muni eiga kröfu í þrotabúi V & Þ hf. eftir að úthlutun hafi farið fram.
Þá er af hálfu stefndu á því byggt að verði fallist á kröfu stefnanda muni hann auðgast með ólögmætum hætti. Stefnandi hafi endurgreitt 30.440.000 krónur með fyrirvara sem sé þess eðlis að hann áskilji sér sérgreindan eignarrétt á þeim forsendum að um sé að ræða andvirði lagers sem hafi verið veðsettur.
4
Mál þetta á rót sína í því að fyrir hendi er „krafa á hendur stefndu vegna riftunar þriðja aðila“ og er ekki fallist á málsástæðu stefndu sem að þessu lýtur.
Eigi er fallist á þá málsástæðu stefndu að afla þurfi viðurkenningardóms um réttmæti kröfu jafnframt því að gerð sé krafa um greiðslu hennar enda felur dómur sem kveður á um greiðsluskyldu í sér niðurstöðu um að krafa sé réttmæt.
Eigi er fallist á að það geti ráðið úrslitum þessa máls að óvíst sé að stefnandi muni eiga kröfu í þrotabúi V & Þ hf. eftir að úthlutun hafi farið fram. Nægjanlegt er að aðalskuldari hafi vanefnt skuldbindingu sína til að greiðsluskylda sjálfskuldarábyrgðarmanns verði virk og þarf kröfuhafi ekki að hafa leitað fullnustu hjá aðalskuldara áður. Um þetta skal einnig vísað til þess að nái kröfugerð stefnanda fyrir dóminum fram að ganga geta stefndu komið í stað hans um fjárheimtu gagnvart þrotabúinu, sbr. 115. gr. laga nr. 21/1991. Það, sem hér var sagt, tekur einnig til málsástæðu stefndu sem lýtur að ólögmætri auðgun stefnanda en þar mun átt við eftirfarandi sem fram kemur í „endurskoðaðri kröfulýsingarskrá“ skiptastjóra þrotabúsins: „Nr. 147. Tékkareikningur nr. 3746 (yfirdráttur). Krafan er samþykkt með vísan til 143. gr. GÞL. Greiðslu inn á reikninginn að sömu fjárhæð var rift af hálfu þrotabúsins þar sem stjórnendur hins gjaldþrota félags voru ábyrgir fyrir skuld á reikningnum. Endurgreiddi KB banki fjárhæðina til þrotabúsins og ber því að samþykkja kröfuna. Ekki er tekin afstaða til rétthæðar þeirrar kröfu en KB banki hefur talið sig eiga veðrétt í umræddri fjárhæð sem rift var.“
Skuld á tékkareikningi nr. 306-26-3746 nam 30.400.000 krónum eftir endurgreiðslu stefnanda til þrotabús V & Þ hf. Andmæli stefndu taka eftir hljóðan sinni einvörðungu til þess hluta yfirdráttarskuldarinnar, 29.986.083 króna, sem greiddur hafði verið stefnanda en síðan endurgreiddur þrotabúinu er greiðslunni var rift.
Meginniðurstaða dómsins er sú að við riftunina hafi krafa stefnanda á hendur hinum stefndu sjálfskuldarábyrgðarmönnum raknað við að nýju. Sú niðurstaða styðst við eðli og tilgang sjálfskuldarábyrgðar, meginreglur á sviði kröfu- og samningaréttar og kenningar fræðimanna. Niðurstaðan styðst einnig við 147. gr. gjaldþrotaskiptalaga en þar ræðir um endurgreiðslukröfu þrotabús á hendur þriðja manni sem sett hefur tryggingu eða gengið í ábyrgð fyrir skuldum þrotamanns en losnað frá skuldbindingu sinni vegna riftanlegrar greiðslu eða fullnustugerðar.
Samkvæmt þessu er niðurstaða dómsins sú að fallast beri á kröfur stefnanda og dæma stefndu til að greiða stefnanda óskipt 30.440.000 krónur með vöxtum eins og greinir í dómsorði og málskostnað sem er ákveðinn 750.000 krónur.
Mál þetta dæmir Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari.
D ó m s o r ð:
Stefndu, Stefán Bragi Bjarnason og Gunnar Viðar Bjarnason, greiði stefnanda, Kaupþingi banka hf., óskipt 30.440.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 8. október 2004 til greiðsludags.
Stefndu greiði stefnanda óskipt 750.000 krónur í málskostnað.