Hæstiréttur íslands
Mál nr. 127/2002
Lykilorð
- Skaðabótamál
- Missir framfæranda
- Útfararkostnaður
- Fyrirvari
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 26. september 2002. |
|
Nr. 127/2002. |
Einar Vignir Einarsson Eymar Einarsson Kristján Einarsson Viggó Jón Einarsson Eyleifur Hafsteinsson og Vátryggingafélag Íslands hf. (Jakob R. Möller hrl.) gegn Vilborgu Hannesdóttur (Gylfi Thorlacius hrl.) |
Skaðabótamál. Missir framfæranda. Útfararkostnaður. Fyrirvarar. Gjafsókn.
Eiginmaður V fórst í umferðarslysi. Ágreiningur reis um útreikning bóta fyrir missi framfæranda eftir 13. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, ákvörðun um útfararkostnað samkvæmt 1. mgr. 12. gr. sömu laga og framkvæmd bótauppgjörs. Fyrir lá að ekki var beitt aðferð skaðabótalaga í bótauppgjöri vátryggingafélagsins vegna missis framfæranda sem það bauð og nefndi lokauppgjör, auk þess sem engir fyrirvarar voru gerðir af hálfu þess. V hafði hins vegar gert fyrirvara um fjárhæð útfararkostnaðar og heimild félagsins til að draga frá bótagreiðslu makabætur frá Tryggingastofnun ríkisins og 40% af eingreiðsluverðmæti lífeyrissjóðsgreiðslna. Talið var að komist hefði á samningur milli aðilanna þess efnis að bætur teldust að fullu greiddar með þeim aðferðum sem viðhafðar voru að öðru leyti en því að V væri heimilt að láta á það reyna í dómsmáli, hvort umræddur frádráttur vátryggingafélagsins væri í samræmi við lög. Ekki var ágreiningur um að frádráttur við bótauppgjörið vegna makabóta frá tryggingastofnun hefði verið ofmetinn og bar því að standa V skil á þeirri fjárhæð. Þá var með vísan til þess að vátryggingafélagið var bundið við uppgjörsaðferð sína og þar sem hún átti ekki stoð í lögum fallist á kröfu V um greiðslu þeirrar fjárhæðar sem haldið var eftir vegna makalífeyris úr lífeyrissjóði. Með hliðsjón af öllum atvikum þóttu bætur vegna kostnaðar við útför eiginmanns V hæfilega metnar 500.000 krónur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson, Markús Sigurbjörnsson og Pétur Kr. Hafstein.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 14. mars 2002. Þeir krefjast sýknu af kröfum stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
I.
Málavextir eru raktir í héraðsdómi. Ekki er deilt um bótaskyldu áfrýjenda á grundvelli 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. mgr. 90. gr. og 1. mgr. 91. gr., en eiginmaður stefndu fórst í umferðarslysi á Kjalarnesi 25. febrúar 2000. Ágreiningur aðila lýtur hins vegar að útreikningi bóta fyrir missi framfæranda eftir 13. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, ákvörðun útfararkostnaðar samkvæmt 1. mgr. 12. gr. sömu laga og framkvæmd bótauppgjörs þeirra í milli 13. nóvember 2000.
II.
Í 1. mgr. 12. gr. skaðabótalaga er kveðið á um bætur fyrir tjón vegna missis framfæranda. Í 2. mgr. 12. gr. er um frádrátt greiðslna frá þriðja manni vísað til 4. mgr. 5. gr. laganna. Þær frádráttarreglur eiga meðal annars við um útreikning bóta samkvæmt 13. gr. skaðabótalaga, þar sem bætur til maka og sambúðarmaka fyrir missi framfæranda skulu reiknaðar sem 30% af bótum, sem hinn látni hefði átt rétt á fyrir 100% örorku, sbr. 5. - 8. gr. laganna. Við áðurnefnt bótauppgjör 13. nóvember 2000 hefði því verið rétt að áætla, hverjar örorkubætur til eiginmanns stefndu hefðu orðið að teknu tilliti til frádráttarliða 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga, sbr. 4. gr. laga nr. 37/1999, og reikna bætur til stefndu sem 30% af þeirri fjárhæð. Þessari aðferð var hins vegar ekki beitt við uppgjörið, sem áfrýjandi Vátryggingafélag Íslands hf. bauð og nefndi lokauppgjör, en í tjónskvittun sama dag voru greiddar bætur skilgreindar sem „fullar og endanlegar bætur...“. Uppgjörið var þannig fyrirvaralaust af hálfu vátryggingafélagsins, en stefnda gerði fyrirvara um fjárhæð útfararkostnaðar og heimild félagsins til að draga frá bótagreiðslu makabætur frá Tryggingastofnun ríkisins og 40% af eingreiðsluverðmæti lífeyrissjóðsgreiðslna.
Verður að líta svo á, að með þessu hafi komist á samningur milli aðila þess efnis, að bætur teldust að fullu greiddar með þeim aðferðum, sem viðhafðar voru, að öðru leyti en því að stefndu væri heimilt að láta á það reyna í dómsmáli, hvort umræddur frádráttur vátryggingafélagsins væri í samræmi við lög. Eru áfrýjendur þannig bundnir við bótauppgjörið að sínu leyti og geta ekki borið fyrir sig í þessu máli, að rétt sé nú að beita öðrum aðferðum samkvæmt ákvæðum skaðabótalaga. Hins vegar koma til skoðunar þau atriði bótauppgjörsins, er fyrirvarar stefndu lutu að.
Við margnefnt uppgjör voru dregnar frá bótunum makabætur frá Tryggingastofnun ríkisins að verðmæti 1.621.200 krónur. Við meðferð málsins fyrir héraðsdómi kom í ljós, að um svonefnt frítímaslys hefði verið að ræða og greiddi Tryggingastofnun ríkisins stefndu bætur í samræmi við það. Samkvæmt útreikningi Jóns Erlings Þorlákssonar tryggingafræðings 3. nóvember 2000 nemur slysdagsverðmæti þeirra 291.000 krónum. Er ekki ágreiningur um, að frádráttur við bótauppgjörið hafi verið ofmetinn um 1.330.200 krónur og ber áfrýjendum að standa stefndu skil á þeirri fjárhæð.
Við uppgjörið dró vátryggingafélagið ennfremur frá bótagreiðslunni 1.683.680 krónur, sem auðkenndar voru sem „Eingreiðsluverðm. lífeyrissjóðsgr, 40% af kr. 4.209.200.-“ Hér voru ranglega reiknuð 40% af slysdagsverðmæti makalífeyris úr lífeyrissjóði, eins og það var áætlað í áðurnefndum útreikningi Jóns Erlings. Rétt hefði hins vegar verið að draga frá ætluðum bótum hins látna vegna 100% varanlegrar örorku 40% af reiknuðu eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Samkvæmt öðrum útreikningi Jóns Erlings Þorlákssonar 26. júní 2001 nemur þetta eingreiðsluverðmæti 10.891.200 krónum og 40% frádráttur því 4.356.480 krónum. Síðan var rétt að reikna stefndu í bætur fyrir missi framfæranda samkvæmt 13. gr. skaðabótalaga 30% af þeirri fjárhæð, sem þannig hefði fengist. Áfrýjendur eru hins vegar bundnir við fyrri aðferð vátryggingafélagsins, eins og áður sagði. Þar sem hún átti sér ekki stoð í lögum verður að fallast á kröfu stefndu um greiðslu þeirrar fjárhæðar, sem þannig var haldið eftir.
III.
Með 1. mgr. 12. gr. skaðabótalaga var lögfest sú regla, að sá sem skaðabótaábyrgð beri á dauða annars manns skuli auk bóta fyrir missi framfæranda greiða hæfilegan útfararkostnað. Í athugasemdum með frumvarpi til skaðabótalaga segir um 12. gr., að samkvæmt henni skuli sníða bætur eftir mati á tjóni hvers einstaks tjónþola, en í 13. og 14. gr. frumvarpsins séu nánari reglur um ákvörðun bóta fyrir missi framfæranda og séu bætur eftir þeim að nokkru staðlaðar. Dómstólar hafi lengi dæmt bætur fyrir kostnað við útför, þótt ekki hafi verið til þess sérstök heimild í settum lögum. Með frumvarpinu sé lagt til, að lögfestur verði réttur til að krefjast bóta vegna útfararkostnaðar. Ekki sé þó ætlast til, að af því hljótist breyting á þágildandi reglum um ákvörðun bóta vegna kostnaðar af útför.
Stefndu voru greiddar 350.000 krónur vegna útfararkostnaðar með bótauppgjörinu 13. nóvember 2000. Áfrýjendur gera ekki athugasemdir við kostnað af útförinni sjálfri, en hann nam að viðbættum prentunarkostnaði sálmaskrár 245.658 krónum. Þeir andmæla því hins vegar, að þeim beri að standa undir fullum kostnaði af erfidrykkju, sem nam samkvæmt reikningi veitingaþjónustu 647.220 krónum að meðtöldum virðisaukaskatti. Krafa stefndu um ógreiddan útfararkostnað nemur þannig 542.878 krónum.
Eins og áður segir verður ekki talið, að bætur vegna útfararkostnaðar eigi að vera staðlaðar og hinar sömu í öllum tilvikum. Rétt er að meta aðstæður hverju sinni, eftir því sem kostur er, en þó þannig að bætur megi almennt teljast hæfilegar. Með hliðsjón af öllum atvikum þykja bætur vegna kostnaðar við útför eiginmanns stefndu hæfilega metnar 500.000 krónur, og eru því 150.000 krónur vangreiddar vegna þessa kröfuliðar.
IV.
Samkvæmt framansögðu verða áfrýjendur dæmdir til að greiða stefndu in solidum 3.163.880 krónur (1.330.200+1.683.680+150.000) með vöxtum af 3.013.880 krónum samkvæmt 1. mgr. 16. gr. skaðabótalaga, sbr. 12. gr. laga nr. 37/1999, frá 7. nóvember 2000 til 7. desember sama ár, er mánuður var liðinn frá framsetningu kröfubréfs, en dráttarvöxtum af 3.163.880 krónum frá þeim degi til greiðsludags, eins og nánar segir í dómsorði.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað stefndu verða staðfest. Rétt þykir, að áfrýjendur greiði sameiginlega 350.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti og skulu þær renna í ríkissjóð. Allur gjafsóknarkostnaður stefndu fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Áfrýjendur, Einar Vignir Einarsson, Eymar Einarsson, Kristján Einarsson, Viggó Jón Einarsson, Eyleifur Hafsteinsson og Vátryggingafélag Íslands hf., greiði in solidum stefndu, Vilborgu Hannesdóttur, 3.163.880 krónur með 4,5% ársvöxtum af 3.013.880 krónum frá 7. nóvember 2000 til 7. desember sama ár, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 3.163.880 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2001 en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað stefndu eru staðfest.
Áfrýjendur greiði sameiginlega 350.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti og skulu þær renna í ríkissjóð.
Allur gjafsóknarkostnaður stefndu fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 350.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. desember 2001.
Mál þetta, sem dómtekið var 27. nóvember s.l., er höfðað með stefnu birtri 23. apríl s.l.
Stefnandi er Vilborg Hannesdóttir, kt. 281262-4599, Logafold 119, Reykjavík.
Stefndu eru Einar Vignir Einarsson, kt. 131258-7399, Ljósuvík 34, Reykjavík, Eymar Einarsson, kt. 261250-7569, Jaðarsbraut 23, Akranesi, Kristján Einarsson, kt. 310555-3399, Danmörku, Viggó Jón Einarsson, kt. 120265-3189, Skuggabjörgum, Hofsósi, Eyleifur Hafsteinsson, kt. 310547-4179, Einigrund 24, Akranesi og Vátryggingafélag Íslands hf., kt. 690689-2009, Ármúla 3, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði in solidum dæmdir til að greiða stefnanda kr. 3.556.768 með 4,5% vöxtum af kr. 3.013.880 frá 7. nóvember 2000 til 7. desember 2000, en af kr. 3.556.758 frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 til 1. júlí 2001, en með dráttarvöxtum samkvæmt 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá er þess krafist að stefndu verði dæmdir til að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt málskostnaðarreikningi auk virðisaukaskatts eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
Stefnandi hefur gjafsókn í málinu með vísan til a-liðar 126. gr. laga nr. 91/1991 samkvæmt leyfi dómsmálaráðherra dagsettu 8. nóvember s.l.
Dómkröfur stefndu eru þær að þeir verði algjörlega sýknaðir af öllum kröfum stefnanda og hún verði dæmd til greiðslu málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti.
Málavextir.
Málavextir eru þeir að föstudaginn 25. febrúar 2000 var lögreglunni í Reykjavík tilkynnt um umferðarslys á Vesturlandsvegi ofan við Grundarhverfi á Kjalarnesi. Var hópur fólks á leið frá Reykjavík í fólksflutningabifreiðinni UI-176, en ökumaður hennar var Björn Gíslason, kt. 280263-4439, eiginmaður stefnanda. Einar Kristjánsson, kt. 191028-4069, ók bifreiðinni ZZ-006 áleiðis til Reykjavíkur og á ofangreindum stað beygði hann skyndilega yfir á rangan vegarhelming með þeim afleiðingum að hann lenti framan á fólksflutningabifreiðinni. Þeir Björn og Einar létust báðir í árekstrinum auk Benedikts Ragnarssonar, kt. 090768-5309, farþega í fólksflutningabifreiðinni. Þá slösuðust margir farþegar fólksflutningabifreiðarinnar, sumir mjög alvarlega.
Bifreiðin ZZ-006 var tryggð lögboðinni ábyrgðartryggingu hjá hinu stefnda tryggingafélagi og er ekki deilt um bótaskyldu. Aðrir stefndu eru lögerfingjar Einars Kristjánssonar heitins, en þeir fengu leyfi til einkaskipta á dánarbúi hans 31. mars 2000.
Stefnandi hefur krafið hið stefnda félag um bætur fyrir missi framfæranda samkvæmt 13. gr. skaðabótalaga og greiðslu útfararkostnaðar, þar með talinn kostnaður vegna erfidrykkju. Stefnandi sætti sig ekki við þann skilning hins stefnda félags að draga ætti frá bótum fjárhæð sem næmi 40% af makabótum stefnanda frá Tryggingastofnun ríkisins og eingreiðsluverðmæti lífeyrissjóðsgreiðslna frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Þá varð ágreiningur um fjárhæð útfararkostnaðar. Var gengið frá uppgjöri milli aðila 13. nóvember 2000 með fyrirvörum af hálfu stefnanda að þessu leyti. Stefnandi sundurliðar bótakröfu sína þannig að verðmæti greiðslna frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins sé kr. 1.683.680 og verðmæti greiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins sé kr. 1.330.200 eða samtals kr. 3.013.880. Þá gerir stefnandi kröfu um greiðslu útfararkostnaðar kr. 892.878, en hið stefnda félag hefur greitt kr. 350.000. Mismunurinn sé kr. 542.878 og því samanlögð krafa kr. 3.556.758.
Málsástæður og lagarök.
Stefnandi byggir á því að stefndu beri ábyrgð á tjóni stefnanda samkvæmt 88. gr. umferðarlaga. Bótakrafa stefnanda er byggð á 13. gr. skaðabótalaga, en þar komi fram að stefnandi eigi rétt til bóta fyrir missi framfæranda sem skuli nema 30% af þeim bótum sem hinn látni hefði átt rétt á fyrir algera 100% varanlega örorku samkvæmt 5-8 gr. skaðabótalaga. Stefnandi mótmælir þeim skilningi hins stefnda vátryggingafélags heimilt sé að draga frá greiðslu fyrir missi framfæranda 40% af makalífeyri sem stefnandi fær greiddan frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og verðmæti ekkjubóta sem stefnandi fær frá Tryggingastofnun ríkisins. Stefnandi vísar til frádráttarreglu 3. málsliðs 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga og bendir á að eðli málsins samkvæmt eigi stefnandi ekki rétt á greiðslu örorkulífeyris en hún eigi rétt á greiðslu makalífeyris kr. 22.206 á mánuði. Eingreiðsluverðmæti þeirrar greiðslu sé kr. 4.209.200 samkvæmt útreikningi Jóns Erlings Þorlákssonar, tryggingafræðings. Hafi hið stefnda félag dregið frá 40% þeirrar fjárhæðar eða kr. 1.683.680 frá bótauppgjöri til stefnanda. Stefnandi byggir á því að þessi frádráttur eigi sér ekki stoð í ákvæðum 13. gr. skaðabótalaga eða öðrum reglum skaðabótalaga og skaðabótaréttar. Samkvæmt 5. gr. sé heimilt að draga frá bótum fyrir missi framfæranda 40% örorkulífeyris frá lífeyrissjóði. Stefnandi fái engan örorkulífeyri heldur makalífeyri en grundvallarmunur sé á þessum lífeyristegundum og skorti skýlausa lagaheimild til frádráttarins. Í athugasemdum sem fylgdu greinargerð með lögum nr. 37/1999, sem breyttu skaðabótalögum nr. 50/1993, komi fram að aðeins sé rætt um frádrátt vegna örorkulífeyris en ekki sé talað um frádrátt vegna makalífeyris. Hafi það verið ætlun löggjafans að draga bæri frá bótagreiðslu 40% makalífeyris megi ætla að slíkt hefði verið tekið fram. Í síðasta málslið 4. mgr. 5. gr. laganna komi fram að aðrar greiðslur sem tjónþoli fái frá þriðja manni vegna líkamstjóns, svo sem lífeyrissjóði eða vátryggingafélagi dragist ekki frá skaðabótakröfu. Þá byggir stefnandi á því að ákvæði 13. gr. laganna feli í sér undantekningu frá meginreglu skaðabótaréttar um fullar bætur til tjónþola og beri að túlka hana þröngt. Stefnandi byggir á því að samkvæmt ákvæðum skaðabótalaga nemi bætur fyrir missi framfæranda samkvæmt 13. gr. laganna 30% af þeim bótum sem tjónþoli fengi sjálfur fyrir 100% varanlega örorku. Hafi bætur til eftirlifandi maka því verið skertar mjög verulega og fari frekari skerðing gegn meginreglum skaðabótaréttar um fullar bætur.
Stefnandi byggir á því að hún hafi einungis fengið greiddar ekknabætur frá Tryggingastofnun ríkisins í 6 mánuði, kr. 20.042 á mánuði og síðan kr. 15.027 í 12 mánuði þar sem Tryggingastofnun áleit að eiginmaður hennar hefði látist í frítímaslysi. Verðmæti þessarar greiðslu sé kr. 291.000 samkvæmt útreikningi tryggingafræðings og krefst stefnandi greiðslu á kr. 1.330.200, en það sé mismunur á verðmæti þeirrar greiðslu sem hún hafi fengið frá Tryggingastofnun og þeirrar greiðslu sem hið stefnda félag taldi hana hafa fengið. Stefnandi byggir á því að þessi frádráttur hins stefnda félags sé algerlega ólögmætur.
Stefnandi byggir á 12. gr. skaðabótalaga þar sem fram komi að sá sem beri skaðabótaábyrgð á dauða manns skuli greiða hæfilegan útfararkostnað. Stefnandi byggir á því að útlagður kostnaður vegnar útfarar eiginmanns hennar hafi verið kr. 219.825, kostnaður við prentun sálmaskrár kr. 25.833 og veitingakostnaður vegna erfidrykkju kr. 647.220. Við munnlegan flutning málsins var upplýst að 639 manns hefðu mætt til erfidrykkjunnar og var einingaverðið kr. 980. Þá hafi 140 gestir fengið gosdrykki og var kostnaður vegna þeirra kr. 21.000, en sú tala er innifalin í heildar kostnaði vegna erfidrykkju. Samanlagður kostnaður vegna útfararinnar sé því kr. 892.878, en hið stefnda félag hafi einungis fallist á að greiða kr. 350.000. Stefnandi bendir á að hinn látni hafi verið ungur maður sem hafi farist í átakanlegu umferðarslysi. Hann hafi tekið mikinn þátt í félagsstarfi og unnið á mjög fjölmennum vinnustað. Af þessum ástæðum hafi verið fjölmenni við útförina og þar af leiðandi fjölmenni við erfidrykkjuna. Hafi því verið óhjákvæmilegt að leita til veisluþjónustu um aðstoð við erfidrykkjuna, enda ekki hægt að ætlast til þess að ættingjar standi fyrir veitingum við aðstæður sem þessar. Hafi verði veitinga verið mjög í hóf stillt og ekki um önnur útgjöld að ræða en þau sem óhjákvæmileg hafi verið við útförina.
Stefnandi vísar um bótaskyldu til ákvæða umferðarlaga, sérstaklega 88. gr., 90. gr. 91. gr. og 95. gr. og almennra reglna skaðabótaréttar. Um útreikning bótarkröfu er vísað til ákvæða skaðabótalaga, sérstaklega 5., 6., 7., 8., 12., 13., 15 og 16. gr. Vaxtakrafa er reist á vaxtalögum nr. 25/1987 og lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Málskostnaðarkrafa er reist á 130. gr. laga nr. 91/1991.
Stefndu byggja á því að skýra beri 13. gr. skaðabótalaga í samræmi við 4. mgr. 5. gr. laganna þannig að í þessu tilviki beri að draga frá skaðabótakröfu 40% af reiknuðu eingreiðsluverðmæti bóta frá lífeyrissjóði. Byggja stefndu á því að bætur til stefnanda eigi að reikna þannig að margfalda eigi meðalárslaun að viðbættri verðlagshækkun og 6% framlagi í lífeyrissjóð með stuðli samkvæmt 6. gr. skaðabótalaga og frá þeirri fjárhæð sem þannig sé fundin eigi að draga 40% reiknaðs eingreiðsluverðmætis en stefnandi fái síðan í bætur samkvæmt 13. gr. skaðabótalaga 30% af þeirri fjárhæð. Stefndu segja aðra leið hafa verið farna við uppgjörið 13. nóvember 2000. Í stað þess að reikna frádrátt út með þessum hætti hafi við uppgjör verið dregin frá 40% makabóta frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins svo og 40% makabóta frá Tryggingastofnun ríkisins.
Stefndu telja stefnanda misskilja efni og tilgang 13. gr. skaðabótalaganna, en greinin feli í sér ákvæði um staðlaðar bætur til eftirlifandi maka eða sambúðarmaka. Áður en skaðabótalögin hafi tekið gildi hafi við ákvörðun bóta fyrir missi framfæranda verið reiknað út hvernig framfærslu hefði verið háttað samkvæmt upplýsingum um tekjur beggja maka. Skaðabótalögin hafi afnemið þá aðferð og tekið upp staðlaða aðferð með lágmarksbótum. Til þess að fullyrt yrði að um skerðingu fullra bóta væri að ræða yrði stefnandi að sýna fram á að bætur sem hún hefði fengið samkvæmt eldra fyrirkomulagi væru hærri en bætur samkvæmt stöðluðum reglum skaðabótalaga. Sé ekki líklegt að slíkur samanburður hefði nokkurt gildi í sjálfu sér þar sem í málinu sé því ekki haldið fram að ákvæði 13. gr. standist ekki eignarréttarákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar, heldur byggi stefnandi á því að bætur samkvæmt 13. gr. séu ekki réttilega reiknaðar í uppgjöri.
Stefndu byggja á því að þótt stefnandi njóti ekki örorkulífeyris eigi að reikna bætur fyrir missi framfæranda eins og verið væri að reikna skaðabætur til Björns heitins sjálfs. Telja stefndu þennan skilning fá stoð í athugasemdum með 12. gr. upphaflega frumvarpsins til skaðabótalaga. Sú lagagrein hafi ekki breyst en 4. mgr. 5. gr. laganna hafi breyst með fjölgun þeirra greiðslna sem dragist frá skaðabótum. Verði ekki annað séð en þeim breytingum hafi verið ætlað að hafa samsvarandi áhrif á greiðslur samkvæmt 13. gr. laganna.
Stefndu fallast á bæta eigi nokkurn kostnað við veitingar til útfarargesta. Hljóti þó að vera um að ræða mjög hóflegar veitingar til takmarkaðs hóps útfarargesta og verði að miða við einhvers konar meðalhóf. Stefndu draga ekki í efa að kostnaður stefnanda hafi numið þeirri fjárhæð er í stefnu greinir en telja að greiðsla á kr. 350.000 séu ríflegar almennar bætur og verði ekki á þá lagt að bera kostnað af svo víðtæku samkomuhaldi sem stefnandi hafi talið rétt að viðhafa að lokinni útför.
Stefndu telja rétt í ljósi óvissu um túlkun á 13. gr. skaðabótalaga, sbr. 4. mgr. 5. gr. laganna að verði bætur dæmdar ættu þær ekki að bera dráttarvexti fyrr en frá dómsuppsögu.
Málskostnaðarkrafa stefndu er reist á 1. og 3. mgr. 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 og krafa um virðisaukaskatt er reist á lögum nr. 50/1988.
Við aðalmeðferð málsins kom fyrir dóm Kristgeir Sigurgeirsson, kt. 300355-4559 og skýrði hann svo frá að Björn heitinn hefði hóað saman vinum og kunningjum og hefði ætlunin verið að eyða helginni með þeim í Skagafirði. Sagði hann ferðina hafa verið farna á vegum Björns og Benedikts Ragnarssonar heitinna. Hann kvað ferðina ekki hafa verið skipulagða af neinu fyrirtæki og hafi enginn verið á launum. Þá kvað hann þátttakendur engan kostnað hafa greitt við ferðina.
Niðurstaða.
Ágreiningur aðila í máli þessu snýst annars vegar um það hvort hinu stefnda tryggingafélagi hafi verið heimilt að draga frá greiðslu fyrir missi framfæranda 40% af makalífeyri sem stefnandi fær greiddan frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og hins vegar um það hvað telja verði hæfilegan útfararkostnað. Þá var ágreiningur um frádrátt ekknabóta sem stefnandi fékk greiddar frá Tryggingastofnun ríkisins. Eftir skýrslu Kristgeirs Sigurgeirssonar fyrir dómi að um frítímaslys hafi verið að ræða lýsti lögmaður stefndu því yfir að erfitt væri að halda til streitu kröfu þeirra þar að lútandi. Með hliðsjón af framansögðu og þar sem stefnandi hefur lagt fram gögn sem ekki hafa verið hrakin þess efnis að Tryggingastofnun hafi greitt stefnanda ekknabætur í samræmi við reglur um frítímaslys, ber að líta svo á að ekki sé lengur ágreiningur um að stefndu beri að standa stefnanda skil á kr. 1.330.200, en þar er um að ræða mismun á þeirri greiðslu sem hið stefnda félag taldi að stefnandi hefði fengið frá Tryggingastofnun ríkisins og verðmæti þeirrar greiðslu er hún fékk frá stofnuninni.
Samkvæmt 13. gr. skaðabótalaga skulu bætur fyrir missi framfæranda til maka eða sambúðarmaka vera 30% af bótum þeim sem ætla má að hinn látni mundi hafa átt rétt á fyrir algera (100%) örorku, sbr. 5.8. gr. Í 2. mgr. 12. gr. laganna segir um bætur fyrir tjón vegna missis framfæranda að um greiðslur frá þriðja manni fari eftir ákvæðum 4. mgr. 5. gr. laganna, en ákvæðið er svohljóðandi eftir lagabreytingu með 4. gr. laga nr. 37/1999: „Frá skaðabótakröfu vegna líkamstjóns dragast greiðslur sem tjónþoli fær frá almannatryggingum, bætur frá slysatryggingu ökumanns eftir umferðarlögum og bætur frá sams konar slysatryggingu manns er slasast sem farþegi í eigin ökutæki. Greiðslur frá samnings- eða lögbundinni atvinnuslysatryggingu launþega dragast frá skaðabótakröfu hans á hendur vinnuveitanda þeim sem slysatrygginguna keypti. Bætur samkvæmt lögum um sjúklingatryggingu skal einnig draga frá skaðabótakröfu. Jafnframt skal draga frá skaðabótakröfu 40% af reiknuðu eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris frá lífeyrissjóði og skal við útreikninginn miðað við 4,5% ársafvöxtun. Aðrar greiðslur sem tjónþoli fær frá þriðja manni vegna líkamstjóns, svo sem lífeyrissjóði eða vátryggingafélagi, dragast ekki frá skaðabótakröfu”.
Með lagabreytingunni 1999 voru ákvæði skaðabótalaga um bætur fyrir varanlega örorku endurskoðuð og var margfeldisstuðli til útreiknings skaðabóta breytt tjónþola í hag en frádráttarliðum samkvæmt 4. mgr. 5. gr. laganna fjölgað. Segir í athugasemdum frumvarps til breytingalaganna að í upphaflegu frumvarpi til skaðabótalaga hafi margföldunarstuðull öðrum þræði verið ákveðinn með hliðsjón af því að tjónþoli héldi óskertum rétti til bóta frá þriðja manni, t.d. almannatryggingum og vátryggingum, sem þá hafi ekki komið til frádráttar bótum. Með hækkuðum margföldunarstuðli hafi verið miðað við að tjónþoli fengi fullar bætur vegna varanlegrar örorku og í samræmi við það voru gerðar tvenns konar breytingar á frádrætti. Annars vegar komi nú greiðslur frá almannatryggingum til frádráttar og hins vegar frádráttur sem nemur 40% af eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris er tjónþoli fékk frá lífeyrissjóði.
Með lagabreytingunni 1999 var ekki gerð önnur breyting á 13. gr. laganna en sú að 2. mgr. greinarinnar var felld niður en hún var þess efnis að hafi framfærandi verið orðinn 26 ára gamall lækkuðu bætur eftir reglum 9. gr. laganna.
Í 1. mgr. 12. gr. skaðabótalaga eru almenn fyrirmæli um greiðslu bóta fyrir missi framfæranda en í 13. gr. laganna eru sérreglur um hvernig reikna skuli bætur til maka eða sambúðarmaka fyrir missi framfæranda. Þrátt fyrir að ekki sé vikið að frádráttarreglum í 13. gr. laganna verður að telja að tilvísun í 2. mgr. 12. gr. laganna til 4. mgr. 5. gr. laganna eigi einnig við um frádrátt bóta til þeirra sem byggja rétt sinn á 13. gr. laganna. Samkvæmt 4. mgr. 5. gr. laganna eru tæmandi taldar þær greiðslur sem komið geta til frádráttar örorkubótum, en hafa ber í huga að lagagreinin fjallar einvörðungu um örorkubætur og því eru þar eðli málsins samkvæmt ekki ákvæði um frádrátt makalífeyris frá lífeyrissjóði. Þá segir í lokamálslið greinarinnar að aðrar greiðslur sem tjónþoli fær frá þriðja manni vegna líkamstjóns, svo sem lífeyrissjóði eða vátryggingafélagi, dragist ekki frá skaðabótakröfu. Hvorki í skaðabótalögum né öðrum réttarheimildum er að finna heimild til að beita þeirri frádráttarreglu er stefndu byggja á. Er því ekki með nokkru móti unnt að fallast á þann skilning stefndu að 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga heimili frádrátt að þessu leyti.
Af hálfu hins stefnda tryggingafélags var valin tiltekin aðferð við uppgjör bóta til stefnanda vegna missis framfæranda. Þegar hefur farið fram fullnaðaruppgjör milli aðila þar sem þó var gerður fyrirvari af hálfu stefnanda við þessa uppgjörsaðferð. Hið stefnda félag áskildi sér hins vegar ekki rétt til að beita annarri uppgjörsaðferð ef í ljós kæmi að hún væri ekki í samræmi við skaðabótalög. Verður því ekki talið að stefndu geti í máli þessu nú borið því við að rétt hefði verið að beita annarri uppgjörsaðferð. Verður því að taka til greina þá kröfu stefnanda að umræddur frádráttur hafi verið óheimill og ber stefndu því að standa stefnanda skil á kr. 1.683.680 svo sem krafist er í stefnu.
Með 12. gr. skaðabótalaga var lögfest sú regla að sá, sem skaðabótaábyrgð ber á dauða annars manns, skuli greiða hæfilegan útfararkostnað. Dómstólar höfðu fram að gildistöku skaðabótalaga lengi dæmt bætur fyrir kostnað við útför þótt ekki hafi verið til þess sérstök heimild í settum lögum. Í greinargerð með frumvarpinu sagði að lagt væri til að lögfestur verði réttur til þess að krefja þann sem ábyrgð ber á dauða annars manns um útfararkostnað. Ekki var þó ætlast til að af því hlytist breyting á þágildandi reglum um ákvörðun bóta vegna kostnaðar af útför. Þá segir í greinargerðinni að í 13. og 14. gr. laganna séu nánari reglur um ákvörðun bóta fyrir missi framfæranda. Eftir þeim greinum séu bætur að nokkru staðlaðar, en samkvæmt 12. grein skuli sníða bætur eftir mati á tjóni hvers einstaks tjónþola. Samkvæmt framansögðu verður því að telja að skoða verði aðstæður hvers tjónþola fyrir sig þegar metið er hvað teljist hæfilegur útfararkostnaður í skilningi 12. gr. laganna.
Skilja verður málatilbúnað stefndu svo að ekki sé gerð athugasemd við beinan kostnað við útför Björns heitins, kr. 245.658 að meðtöldum prentunarkostnaði. Hið stefnda félag hefur talið greiðslu 350.000 króna hæfilega fullnaðargreiðslu en stefnandi krefst greiðslu að fullu fyrir kostnað vegna erfidrykkju sem nam samtals kr. 647.220. Telur stefnandi stefndu því eiga eftir að standa sér skil á kr. 542.878 vegna þessa kröfuliðar.
Það er alkunna að jarðarfarir geta verið misfjölmennar. Kemur þar einkum til aldur hins látna, fjöldi ættmenna og þátttaka hans í atvinnulífi og félagsstörfum. Þá verður að telja algengast hér á landi að boðað sé til erfidrykkju í prentaðri sálmaskrá eða með tilkynningu prests í lok útfarar. Þá kemur fyrir að útvalinn hópur sé látinn vita fyrirfram um erfidrykkju. Við mat á því hvað teljist hæfilegur útfararkostnaður í þessu máli verður ekki fram hjá því litið að Björn heitinn var ungur maður sem fórst í umferðarslysi þar sem tveir aðrir menn létust og fjöldi annarra slasaðist. Hann vann á fjölmennum vinnustað og var virkur í félagsstarfi. Við þessar aðstæður var ekki óeðlilegt af hálfu stefnanda að leita til veisluþjónustu um aðstoð og láta almennt boð út ganga til kirkjugesta um erfidrykkjuna. Samkvæmt gögnum málsins mættu 639 manns í erfidrykkjuna og nam kostnaður vegna hvers um sig kr. 980 auk kostnaðar vegna þeirra 140 sem neyttu gosdrykkja. Eins og hér stendur á verður því að telja að kostnaður vegna erfidrykkjunnar hafi ekki verið úr hófi og ber því að taka kröfu stefnanda að þessu leyti til greina.
Samkvæmt framansögðu verða kröfur stefnanda teknar til greina að öllu leyti með vöxtum eins og í dómsorði greinir.
Með hliðsjón af úrslitum málsins þykir rétt að stefndu greiði kr. 500.000 í málskostnað sem renni í ríkissjóð.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningslaun lögmanns hennar, Kristjáns B. Thorlacius, hdl., kr. 500.000. Hefur þá ekki verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Hjörtur O. Aðalsteinsson, héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Stefndu, Einar Vignir Einarsson, Eymar Einarsson, Kristján Einarsson, Viggó Jón Einarsson, Eyleifur Hafsteinsson, og Vátryggingafélag Íslands hf., greiði in solidum stefnanda, Vilborgu Hannesdóttur, kr. 3.556.758 með 4,5% vöxtum af kr. 3.013.880 frá 7. nóvember 2000 til 7. desember 2000, en af kr. 3.556.758 frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 til 1. júlí 2001, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndu greiði kr. 500.000 í málskostnað sem renni í ríkissjóð.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningslaun lögmanns hennar, Kristjáns B. Thorlacius, hdl., kr. 500.000.