Hæstiréttur íslands

Nr. 2023-153

A (Vilhjálmur Þ. Á. Vilhjálmsson lögmaður)
gegn
B (Ólafur Björnsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Dánarbússkipti
  • Arfur
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.

2. Með beiðni 14. desember 2023 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 17. nóvember sama ár í máli nr. 413/2022: A gegn B. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Ágreiningur aðila lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um greiðslu arfs að fjárhæð 8.852.474 krónur ásamt nánar tilgreindum vöxtum. Leyfisbeiðandi reisir kröfu sína á því að gagnaðili hafi ekki afhent honum þá fjármuni sem honum bar við skipti á dánarbúi móður þeirra en gagnaðili fór með umboð erfingja til að ganga frá skiptum á dánarbúinu.

4. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að gagnaðili skyldi greiða leyfisbeiðanda 1.069.724 krónur en að öðru leyti vera sýkn af kröfum hans. Í dóminum var rakið að samkvæmt yfirlýsingu 14. janúar 2000 sem var undirrituð af málsaðilum og móður þeirra átti endurgreiðsla leyfisbeiðanda á láni sem móðir þeirra veitti honum til kaupa á fasteign að fara fram við skipti á dánarbúi hennar. Leyfisbeiðandi var ekki talinn hafa sýnt fram á að hann hefði endurgreitt lánið. Þá hefði leyfisbeiðandi undirritað beiðni um leyfi til einkaskipta þar sem tilgreindur var fyrirfram greiddur arfur.

5. Samkvæmt gögnum málsins var það fyrst tveimur árum eftir að beiðni um leyfi til einkaskipta og erfðafjárskýrsla voru undirrituð sem leyfisbeiðandi hafði uppi kröfu um greiðslu arfs úr hendi gagnaðila. Þótti hann ekki með þessu einu hafa fyrirgert rétti til þess arfs sem hann gerði kröfu um að fá greiddan en aðgerðarleysi hans var talið hafa þýðingu við mat á sönnun um hvort gagnaðili hefði staðið honum skil á hlut hans í fyrirframgreiddum arfi.

6. Leyfisbeiðandi byggir á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur og hafi verulegt almennt gildi um sönnun í einkamálum. Niðurstaðan byggist á því að sá sem haldi því fram að hann hafi greitt fjárhæð til annars hljóti að hafa gert það ef hinn andmæli ekki innan ákveðins frests. Í málinu hafi gagnaðili ekki lagt fram neina staðfestingu þess efnis að hún hafi millifært umrædda fjárhæð til leyfisbeiðanda. Engu að síður hafi það verið lagt til grundvallar í niðurstöðu Landsréttar. Þá telur leyfisbeiðandi að niðurstaðan samræmist ekki 94. og 95. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Að lokum byggir leyfisbeiðandi á að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni hans en hann sé eignalaus með öllu.

7. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómurinn sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.