Hæstiréttur íslands
Mál nr. 28/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Þriðjudaginn 15. janúar 2013. |
|
Nr. 28/2013.
|
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Stefán Eiríksson lögreglustjóri) gegn X (Stefán Karl Kristjánsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. janúar 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum daginn eftir. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. janúar 2013 þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 8. febrúar 2013 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. janúar 2013.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði X, kt. [...], til að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 8. febrúar nk. kl. 16.
Í greinargerð kemur fram að klukkan 03.13 í nótt hafi lögreglu borist tilkynning um innbrot í Sjónvarpsmiðstöðina við Síðumúla 2 í Reykjavík. Búið hafi verið að brjóta stóra rúðu á versluninni, rúðu sem snúi til norðurs, út að Síðumúlanum og hafði einum sjónauka verið stolið, en tegund og verð liggi ekki fyrir. Á upptökum úr versluninni sjáist er [...] sé ekið upp að versluninni og A, meðkærði, komi frá bifreiðinni og brjóti rúðuna. Á upptökunni heyrist jafnframt er kallað sé „[...]“ frá bifreiðinni.
Umrædd bifreið hafi skráningarnúmerið [...] og hafi ítrekað verið búin að koma við sögu lögreglu fyrr um kvöldið og nóttina. Fyrr um kvöldið hafi lögregla haft afskipti af bifreiðinni og hafi kærða og meðkærði A þá á bifreiðinni ásamt tveimur aðilum, þeim B og C. hafi bifreiðin og aðilar í henni verið tengdir við þjófnaði á felgum. Fyrst megi telja felguþjófnað úr [...] og sé nánar um það í máli 007-2013-[...] og svo þjófnaður úr [...] sem vísist um í mál 007-2013-[...].
Það hafi svo verið klukkan 05:37 að tilkynnt hafi verið um bifreiðina. Í framhaldi hafi bifreiðin verið stöðvuð í akstri í Stigahlíð, en kærða hafi verið ökumaður umrætt sinn. Í bifreiðinni hafi verið 6 aðilar, kærða, meðkærði A og áðurnefndir aðilar, B og C, auk pars sem að þeirra sögn hafi verið að fá far heim.
Í skotti bifreiðarinnar hafi fundist felga undan bifreið þeirra, felga af [...] alveg eins og felgur sem hafi verið undir bifreiðinni að framan. Hinsvegar hafi felga að aftan hægra megin verið öðruvísi og hafi hún passað við lýsingu á felgu sem stolið hafi verið frá [...] (007-2013-[...]).
Á vettvangi hafi þau öll neitað aðild að málinu og öðrum brotum sem þau hafi verið grunuð um fyrr um kvöldið og nóttina. Aðspurð hafi þau sagst hafa verið niðri í bæ. Hafi þau ekki viðurkennt að hafa verið í [...] fyrr um kvöldið, þrátt fyrir að lögregla hefði haft af þeim afskipti þar. Fjórmenningarnir hafi verið handteknir klukkan 05:40 í Stigahlíð. Kærða hafi verið í áberandi annarlegu ástandi, hæg og sljó, greinilega mjög lyfjuð. Þegar kærðu hafi verið handtekin hafi hún skyndilega rifið upp úr vasa sínum eitthvað og reynt við að setja í munn sinn. Lögreglumaður hafi komið í veg fyrir að kærða næði að setja þetta upp í munninn og hafi þá komið í ljós að um hafi verið að ræða 16 töflur af óþekktri tegund, en kærða hafi ekki viljað upplýsa lögreglu nánar um töflurnar.
Auk þessa máls sé kærða undir sterkum grun um að hafa framið eftirtalin brot:
„Mál nr. 007-2013-[...]
Kærða er grunuð um þjófnað í félagi við 3 aðila, með því að hafa laugardagskvöldið 12. janúar sl. stolið felgu og hjólbarða undan bifreið við [...] í Reykjavík. Vitni kvaðst hafa séð fjóra aðila koma saman á [...] bifreið, 3 dyra, og hefði bifreiðin verið klesst að framan. Höfðu aðilarnir komið út úr bifreiðinni og farið að eiga við bifreiðina [...]. Sagði vitnið eina stelpuna hafa verið í appelsínugulri úlpu og einn ljóshærðan dökkklæddan með rauðri hettu.
Lögregla hafði haft afskipti af kærðu, A, B og C í Skútuvogi við Vöku klukkan 20:30 sama kvöld. Þá voru þau á bifreiðinni [...], sem er [...], 3 dyra. Var þá hægra afturhjól bifreiðarinnar sprungið. Þess má geta að felgur undan bifreiðinni [...] eru með felgur fyrir 5 gatadeilingu. Kærða var þá í appelsínugulri úlpu og meðkærði A í rauðri hettupeysu og svörtum jakka yfir peysunni.
Mál nr. 007-2013-[...]
Kærða er grunuð um þjófnað í félagi við 3 aðila, með því að hafa laugardagskvöldið 12. janúar sl. skrúfað felgu og hjólbarða af bifreið við [...] í Reykjavík. Skömmu eftir að lögregla hafði haft afskipti af kærðu og meðkærðu í Skútuvogi vegna tilkynningar um dekkjaþjófnað sá vitni er bifreiðinni var ekið að [...] þar sem tveir úr bifreiðinni fóru út og voru eitthvað að gera. Vitnið fór svo þegar það hafði færi til og skoðaði umhverfið, reyna finna hvað þau höfðu verið að gera. Niðurstaðan var sú að vitnið fann bifreið við [...] þar sem búið var að skrúfa eina felgu undan. Bifreiðin var að gerðinni [...]. Felguna fann vitnið einnig.
Mál nr. 007-2013-[...]
Kærða er grunuð um brot gegn valdstjórninni, ásamt meðkærða A, með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 12. janúar sl., að [...] í húsnæði [...], hótað lögreglumönnum því að stinga þá með notuðum sprautunálum. Kærða hótaði því jafnframt að stinga börn lögreglumannanna með sprautunál ásamt því að reyna að hrækja á lögreglumenn á leiðinni á lögreglustöð.
Mál nr. 007-2013-[...]
Fyrir þjófnað, með því að hafa fimmtudagskvöldið 10. janúar sl. stolið felgu og hjólbarða undan bifreið sem stóð við [...] í Kópavogi. Felgan og dekkið fundust undir bifreið kærðu, [...], um nóttina. Við skýrslutöku hefur kærða neitað sök.
Mál nr. 007-2013-[...]
Fyrir þjófnað, með því að hafa aðfaranótt miðvikudagsins 9. janúar sl., í félagi við meðkærða A, stolið þremur felgum og hjólbörðum undan bifreið sem stóð við [...] í Kópavogi. Vitni kvaðst hafa séð er ungt par hafi verið að stela hjólbörðunum undan bifreiðinni [...] og borið þau að annarri bifreið, bifreiðinni [...]. Hann sagði þau hafa horfið á brott á þeirri bifreið er þau urðu þess áskynja að upp hafi um þau komist. Bifreiðin [...] er í umráðum kærðu. Hjólbarðarnir fundust á og í bifreið kærðu skömmu síðar. Við skýrslutöku hefur kærða neitað sök.
Mál nr. 007-2012-[...]
Kærða er grunuð um þjófnað, með því að hafa 21. desember 2012, í verslun Nettó við Þarabakka 3 í Reykjavík, stolið vörum að verðmæti 33.912 krónur. Kærða hefur játað sök.
Mál nr. 007-2012-[...]
Kærða er grunuð um þjófnað, með því að hafa aðfaranótt 9. desember 2012, í verslun 10-11 við Barónsstíg í Reykjavík, stolið vörum að verðmæti 7.300 krónur. Kærða var staðin af verki og hefur játað sök.
Mál nr. 007-2012-[...]
Kærða er grunuð um þjófnað, með því að hafa 8. desember 2012, í Urðarapóteki við Vínlandsleið 16 í Reykjavík, í félagi við nafngreinda stúlku, stolið snyrtivörum. Vitni var að þjófnaðinum og jafnframt sést hann á upptöku úr eftirlitsmyndavél. Kærða neitar sök.
Mál nr. 007-2012-[...]
Kærða er grunuð um þjófnað, með því að hafa 8. desember 2012, í verslunum HB-búðin og Eymundsson við Strandgötu í Hafnarfirði, í félagi við tvo aðila, stolið vörum að verðmæti um 164.000 krónur. Lögregla kom að bifreið kærðu og meðkærðu við vettvang og fannst þar mikið magn stolnum vörum úr búðunum tveimur. Jafnframt fannst þýfi úr annarri búðinni innan klæða á kærðu. Vitni er jafnframt að þjófnaði kærðu á nokkrum vörum. Við skýrslutöku hefur kærða borið við minnisleysi eða neitað sök.
Mál nr. 007-2012-[...]
Kærða er grunuð um þjófnað og líkamsárás, með því að hafa 26 nóvember 2012, í verslun Hagkaups við Spöngina í Reykjavík, stolið vörum úr versluninni að verðmæti 250.247 krónur, en áður en kærða komst á brott með vörurnar stöðvaði lögreglukona á frívakt för hennar og réðst kærða í kjölfarið á hana og kýldi, reif í ha´r hennar og hrækti framan í hana. Kærða hefur neitað sök að því er varðar þjófnaðinn en játað að hafa kýlt og hrækt framan í konuna.
Mál nr. 007-2012-[...]
Kærða er grunuð um þjófnað, með því að hafa 13. nóvember 2012, í verslun Skeljungs við Grjótháls 8 í Reykjavík, stolið vörum að verðmæti 717 krónur. Kærða hefur játað sök.
Mál nr. 007-2012-[...]
Kærða er grunuð um þjófnað, með því að hafa þann 1. september 2012, í versluninni Leyndarmál við Hrísteig, í félagi við A, stolið vörum að verðmæti um 65.000 krónur. Kærða hefur neitað sök. Myndbandsupptaka liggur fyrir af þjófnaðinum og hafa einstaklingarnir verið endurþekktir sem kærða og A.
Mál nr. 007-2012-[...]
Kærða er grunuð um þjófnað, með því að hafa 13. ágúst 2012, í verslun Nóatúns í Austurveri í Reykjavík, stolið vörum að verðmæti 33.353 krónur. Kærða hefur neitað sök. Myndbandsupptaka liggur fyrir af verknaðinum.“
Kærða hafi hlotið fjóra dóma. Þann 2. september 2010 hafi hún í héraðsdómi Suðurlands verið dæmd til greiðslu sektar vegna tilraunar til þjófnaðar. Þann 7. september 2010 hafi hún í héraðsdómi Reykjavíkur verið dæmd í 6 mánaða fangelsi, skilorðsbundið í 2 ár, vegna þjófnaðarbrota, umferðarlagabrota, fíkniefnalagabrota og brota á lögum um fullnustu refsinga. Þann 20. maí 2011 hafi kærða verið dæmd í héraðsdómi Suðurlands til greiðslu sektar vegna brots á lögum um fullnustu refsinga og lögum um ávana- og fíkniefni. Þann 7. desember 2011 hafi hún svo í héraðsdómi Reykjavíkur verið dæmd í 8 mánaða fangelsi, skilorðsbundið í 2 ár, vegna þjófnaðarbrota.
Við rannsókn mála kærðu hjá lögreglu hafi komið í ljós að hún sé í mikilli neyslu fíkniefna, án atvinnu og hafi ekki fasta búsetu.
Með vísan til framangreinds og brotaferils kærðu á undanförnum vikum og mánuðum sé það mat lögreglustjóra að fram sé kominn rökstuddur grunur um að kærða hafi gerst sek um háttsemi sem fangelsisrefsing sé lögð við og að yfirgnæfandi líkur séu á því að kærða muni halda áfram brotastarfsemi fari hún frjáls ferða sinna.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og c.-liðar 1. mgr. 95. gr. laga 88/2008 um meðferð sakamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Með vísun til þess, sem að framan er rakið úr greinargerð lögreglustjóra og rannsóknargagna málsins, er fallist á það með lögreglustjóra að fram sé kominn rökstuddur grunur um að kærða hafi framið brot sem fangelsisrefsing er lögð við. Þá er, með vísun til sömu gagna, fallist á að ætla megi að hún haldi áfram brotum meðan máli hennar er ekki lokið. Samkvæmt þessu er fallist á með lögreglustjóra að skilyrði c.-liðar 1. mgr. 95. gr. laga 88, 2008 séu uppfyllt og er krafa um gæsluvarðahald því tekin til greina eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Kærða, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 8. febrúar 2013 kl. 16.