Hæstiréttur íslands

Mál nr. 81/2008


Lykilorð

  • Þjófnaður
  • Gripdeild
  • Fíkniefnalagabrot
  • Hegningarauki
  • Skilorð


Fimmtudaginn 12

 

Fimmtudaginn 12. júní 2008.

Nr. 81/2008.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari)

gegn

Geir Þorsteinssyni

(Páll Arnór Pálsson hrl.)

 

Þjófnaður. Gripdeild. Fíkniefnalagabrot. Hegningarauki. Skilorð.

Með dómi héraðsdóms Reykjavíkur 19. desember 2007 var G sakfelldur fyrir fjögur þjófnaðarbrot, gripdeild og fíkniefnalagabrot og dæmdur í 10 mánaða fangelsi. Þann 25. október 2007 hafði G hlotið 8 mánaða fangelsisdóm skilorðsbundinn í þrjú ár fyrir ýmis auðgunar- og fíniefnabrot. Voru öll brotin sem G var nú ákærður fyrir framin fyrir þann skilorðsdóm, og bar því að dæma G hegningarauka. Með vísan til 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 var ofangreindur skilorðsdómur tekinn upp og dæmdur með hinum nýju brotum og refsing ákveðin í einu lagi með hliðsjón af 77. og 78. gr. sömu laga. Var niðurstaða héraðsdóms staðfest um að refsing G yrði ákveðin 10 mánaða fangelsi og að ekki væri lengur stætt á að skilorðsbinda refsinguna.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Hjördís Hákonardóttir og Hrafn Bragason fyrrverandi hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 22. janúar 2008 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á refsingu ákærða, greiðslu skaðabóta og upptöku fíkniefna. 

Ákærði krefst þess að refsing verði milduð.

Ákærði játaði þau brot sem hann var sakfelldur fyrir. Var þar um að ræða þjófnað úr skólahúsnæði, verslun og bifreiðum, gripdeild og fíkniefnalagabrot. Ákærði var síðast dæmdur til refsingar 25. október 2007 fyrir ýmis auðgunar- og fíkniefnalagabrot, þá til átta mánaða fangelsisvistar skilorðsbundið í þrjú ár. Fyrir þann dóm hafði hann tvisvar gengist undir sátt vegna fíkniefnalagabrota og þrisvar hlotið dóma fyrir hegningarlagabrot. Sakarferli hans er nánar lýst í hinum áfrýjaða dómi. Öll brotin, sem hér er fjallað um, voru framin fyrir skilorðsdóminn 25. október 2007. Ber að taka þann dóm upp samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og ákveða ákærða refsingu í einu lagi með hliðsjón af 77. gr. og 78. gr. sömu laga. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, allt eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Geir Þorsteinsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins samtals 166.824 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Páls Arnórs Pálssonar hæstaréttarlögmanns, 149.400 krónur. 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. desember 2007.

Mál þetta var höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dagsettri 13. nóvember sl., “á hendur, Geir Þorsteinssyni, kt. 220873-3749, Snorrabraut 22, Reykjavík, fyrir eftirgreind brot framin í Reykjavík, nema annars sé getið, á árinu 2007:

1.

Þjófnað, með því að hafa fimmtudaginn 22. mars stolið 2 tölvum alls að verðmæti 106.000 kr. í húsnæði Kennaraháskóla Íslands, Skipholti 37.

ML.007-2007-20236

2.

Þjófnað, með því að hafa, fimmtudaginn 14. júní, brotist inn í 2 bifreiðar í Skútuvogi við Húsasmiðjuna,  bifreiðina [...] og stolið úr henni myndavél og 15 mynddiskum með kennsluefni alls að verðmæti um 220.000 kr. og inn í bifreiðina [...] og stolið úr henni veski og snyrtivörum að verðmæti um 10.000 kr. og 6.000 kr. í reiðufé.

ML. 007-2007-44115

3.

Þjófnað með því að hafa, að morgni miðvikudagsins 20. júní, stolið úr bifreiðum í Efstahjalla við Álfabrekku í Kópavogi eftirgreindum munum:  Þrífæti fyrir ljósmyndavél að verðmæti um 25.000 kr. úr bifreiðinni TM-996, saumavél að verðmæti 16.500 kr. úr bifreiðinni [...] og úr bifreiðinni [...] loftdælu og verkfærum að verðmæti alls um 50.000 kr.

ML. 007-2007-46082

4.

Þjófnað með því að hafa þann 20. júní stolið ferðagrilli að verðmæti 14.995 kr. í versluninni Select, Suðurfelli 4.

ML. 007-2007-46075

Telst háttsemin samkvæmt ákæruliðum 1 til 4 varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

5.

Gripdeild, með því að hafa laugardaginn 24. mars dælt bensíni að andvirði 1.979 kr. á bifreiðina [...] á bensínstöð Skeljungs hf. við Birkimel og farið af vettvangi án þess að greiða fyrir bensínið.

ML. 007-2007-20731

Telst þetta varða við 245. gr. almennra hegningarlaga.

6.

Fíkniefnalagabrot, með því að hafa aðfaranótt fimmtudagsins 17. maí 2007 í bifreiðinni [...] á Aðalstræti við Tjarnargötu, Reykjavík, haft í vörslum sínum 9 skammta af vímuefninu LSD (lysergide), sem lögregla fann við leit.

ML. 007-2007-35476

Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. gr. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65, 1974, sbr. lög nr. 13, 1985, sbr. lög nr. 68, 2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233, 2001, sbr. reglugerð nr. 848, 2002.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og jafnframt að 9 skammtar af vímuefninu LSD (lysergide) sem hald var lagt á, verði gerðir upptækir samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.

Í málinu er þess krafist af hálfu eftirgreindra að ákærði verði dæmdur til greiðslu skaðabóta:

Skeljungs hf., kt. 590269-1749, skaðabóta að fjárhæð 1.979 kr. ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. vaxtalaga nr. 38, 2001 frá 24. mars 2007 en síðan dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.

ML. 007-2007-20731

Skeljungs hf., kt. 590269-1749, skaðabóta að fjárhæð 14.995 kr. ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. vaxtalaga nr. 38, 2001 frá 20. júní 2007 en síðan dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.”

Fyrir dómi játaði ákærði að hafa framið þau brot sem hann er ákærður fyrir.  Hann kvað atvikalýsingu í ákæru rétta og gerði ekki athugasemdir við gögn málsins.  Ákærði samþykkti upptöku á 0 skömmtum af LSD.  Ákærði fól verjanda sínum að fjalla um skaðabótakröfurnar. 

Samkvæmt sakavottorði ákærða var hann sektaður fyrir fíknilagabrot í júlí 2006.  Hann var dæmdur í 3 mánaða fangelsi, skilorðsbundið í 2 ár, 5. september sama ár fyrir gripdeild, hylmingu og fíknilagabrot.  Í desember sama ár var hann sakfelldur fyrir nytjastuld en ekki gerð sérstök refsing.  Í mars 2007 var hann sektaður fyrir fíknilagabrot, 16. apríl sama ár var hann dæmdur í 9 mánaða fangelsi, þar af 6 mánuði skilorðsbundna í 3 ár, fyrir hlutdeild í broti gegn 4. mgr. 220. gr. og nytjastuld og 25. október síðast liðinn var hann dæmdur í 8 mánaða fangelsi, skilorðsbundið í 3 ár, fyrir gripdeild, fjársvik, tilraun til fjársvika, tilraun til nytjastuldar og fíknilagabrot.  Þessi dómur var hegningarauki og var skilorðshluti dómsins frá 16. apríl dæmdur með.

Með brotunum samkvæmt 1. og 5. ákærulið rauf ákærði skilorð dómsins frá 5. september 2006.  Með brotunum samkvæmt hinum ákæruliðunum rauf hann skilorð dómsins frá 16. apríl 2007.  Ákærði hefur á rúmu ári þrisvar sinnum verið dæmdur í skilorðsbundna refsingu auk þess sem einu sinni hefur honum ekki verið gerð sérstök refsing.  Þrátt fyrir að brotin sem hann hefur nú verið sakfelldur fyrir séu hegningarauki, eins og rakið var, er ekki lengur stætt á að dæma ákærða enn eina ferðina í skilorðsbundinn dóm.  Refsing hans verður ákveðin 10 mánaða fangelsi og hefur þá verið höfð hliðsjón af 77. og 78. gr. almennra hegningarlaga auk þess sem dómurinn frá 25. október síðast liðnum er dæmdur með, sbr., 60. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði hefur samþykkt kröfu um upptöku fíkniefna og verður orðið við henni.

Ákærði krafðist þess að bótakröfunum yrði vísað frá dómi þar eð ekki væri krafist bóta fyrir nettó tjón, heldur tjón kröfuhafans með álagningu og virðisaukaskatti.  Ákærði hefur viðurkennt að hafa stolið þeim hlutum sem bóta er krafist fyrir.  Verðmæti þeirra er útsöluverð þeirra sem samsett er úr ýmsum liðum, en hér er um skaðabótakröfu að ræða og er fallist á að tjón kröfuhafans sé það verð er hann hugðist selja varninginn á.  Það verður því fallist á bótakröfurnar og ákærði dæmdur til að greiða þær með vöxtum eins og krafist er.  Það athugast að ekki verður séð að þær hafi verið birtar ákærða fyrr en við fyrirtöku málsins í dag og miðast vaxtaákvörðun við það.

Loks verður ákærði dæmdur til að greiða málsvarnarlaun verjanda síns, Bjarna Haukssonar hdl.,  124.500 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, en annan kostnað leiddi ekki af rekstri málsins.

Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp dóminn.

Dómsorð

Ákærði, Geir Þorsteinsson, sæti fangelsi í 10 mánuði.

Upptækir til ríkissjóðs skulu vera 9 skammtar af LSD (lysergide).

Ákærði greiði Skeljungi hf. 16.974 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 af 1.979 krónum frá 24. mars 2007 til 20. júní sama ár, en af 16.974 krónum frá þeim degi til 19. janúar 2008, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði málsvarnarlaun verjanda síns, Bjarna Haukssonar hdl., 124.500 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.