Hæstiréttur íslands

Mál nr. 246/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Miðvikudaginn 27. apríl 2011.

Nr. 246/2011.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Björgvin Jónsson hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Páll Hreinsson og Viðar Már Matthíasson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. apríl 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 24. apríl 2011, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 29. apríl 2011 klukkan 16 og einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Fallist er á með sóknaraðila að varnaraðili sé undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem fangelsisrefsing er lögð við. Rannsókn málsins er á frumstigi og verður því fallist á með sóknaraðila að uppfyllt teljist skilyrði a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

                                                                 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 24. apríl 2011.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu krafðist þess í dag, fyrir Héraðsdómi Reykjaness með vísan til a-liðar 1. mgr. 95. gr. og b-lið 1. mgr. 99. gr.  laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 að X, kt. [...],[...],[...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til föstudagsins 29. apríl nk. kl. 16:00. Þá er gerð krafa um að kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.

Krafan er reist á því að kærði sé undir rökstuddum grun um brot gegn 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Kærði mótmælir kröfunni. Til vara krefst hann að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Í greinargerð með kröfunni kemur fram lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi verið kölluð að [...] í [...] aðfaranótt 24. apríl um kl. 03:00 vegna meintrar nauðgunar,  en þar hafi  tilkynnandi tekið á móti lögreglu, brotaþoli A, kt. [...].  Brotaþoli  hafi verið í miklu uppnámi og kvað sér hafi verið nauðgað af fyrrverandi sambýlismanni sínum, kærða X að [...], í [...], fyrr um nóttina á milli kl. 00:00 og 02:00. Sjáanlegir áverkar hafi verið á brotaþola, á vinstri hendi jafnframt því sem hún hafi kvartað undan verkjum í brjóstkassa og höfði. Í kjölfarið hafi  hún verið flutt á neyðarmóttöku á slysadeild Landsspítala til skoðunar.

Þá er haft eftir brotaþola í greinargerðinni að aðdragandinn hafi verið að hún hafi fengið símtal fyrr um kvöldið frá kærða og hann beðið hana að koma með íþróttatösku til hans. Brotaþoli hafi fengið vin sin til að keyra sig og hafi kærði tekið á móti henni að [...]. Í framhaldinu hafi þau byrjað að spjalla yfir kaffibolla. Hafi kærði farið inn í svefnherbergi og þá hafi brotaþoli farið í farsíma kærða og skoðað þar SMS skilaboð. Í kjölfarið hafi kærði reiðst og hellt sig yfir brotaþola. Samkvæmt kæranda þá hafi kærði rifið hana upp af stól sem hún hafi setið á og hent henni í gólfið og svo í sófann og síðan hent henni út af heimili hans. Brotaþoli hafi byrjað að ganga heim en þá hafi kærði komið akandi og sótt brotaþola og farið með henni aftur að [...]. Samkvæmt frásögn brotaþola hafi kærði reynt að troða töflu ofan í hana og í kjölfarið dregið hana inn í svefnherbergið og haft við hana samfarir gegn hennar vilja. Jafnframt hafi hann reynt að hafa við hana munnmök, en ekki tekist. Brotaþoli kvað kærða hafa haldið sér niðri á hárinu og höndum. Kvaðst brotaþoli hafa beðið kærða um að hætta en ekki geta sagt mikið vegna gráts. Brotaþoli hafi talið að kærði hafi ekki fengið sáðlát og hafi þetta staðið yfir í einhverjar mínútur. Þegar yfir lauk hafi brotaþoli farið inn á stofugang og þar hafi kærði tekið harkalega á henni með ofbeldi og hafi kærði ausið svívirðingum og hótað að drepa son hennar.  Upp úr þessu hafi kærði leyft brotaþola að fara og hafi hún hringt í vin sinn, B sem hafi sótt hana og hafi ekið henni að heimili hennar að [...]. Samkvæmt frásögn B,  hafi brotaþoli verið í miklu uppnámi þegar hann sótti hana að [...] og hafi hún sagt við hann að X hafi nauðgað sér á heimili X.

Þá segir að samkvæmt skoðun læknis á neyðarmóttöku Slysadeildar hafi verið mar á vinstra brjósti, mar á upphandlegg og á læri hafi verið 3 brunablettir á brotaþola og einnig hafi hún verið  lemstruð á skrokknum. Á vettvangi hafi fundist blóðfar í rúmi í herbergi kærða sem tæknideildin hafi haldlagt.

Þá kemur ennfremur fram í greinargerðinni að kærði X hafi verið handtekinn kl. 04:55 sl. nótt og hafi hann viðurkennt að brotaþoli hafi komið á heimili hans en neiti því að hafa haft samfarir við brotaþola eða önnur kynferðismök, en viðurkennir að komið hafi til ryskinga á milli þeirra. Hafi kærði kvaðst hafa haft samfarir við brotaþola fyrir 2 til 3 dögum síðan, en brotaþoli segi það hafa verið munnmök. Inn á heimili kærða hafi verið sonur hans en samkvæmt upplýsingum lögreglu hafi hann orðið var við umgang um nóttina og hafi heyrt þegar faðir hans reiddist. Kvaðst vitnið hafa verið órólegt inn í herbergi sínu og ekki farið út úr því.

Fram sé kominn rökstuddur grunur um að kærði hafi framið brot sem varði allt að 16 ára fangelsisrefsingu ef sök sannist. Rannsókn málsins sé á frumstigi og telji lögregla ljóst að rannsóknarhagsmunir krefjist þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi en m.a. eigi eftir að yfirheyra kærða aftur og taka skýrslu af brotþola aftur og sé brýnt að kærði hafi ekki áhrif á brotaþola eða vitni, sem tengd séu kærða og kæranda.  Jafnframt eigi eftir að taka frekari skýrslur af vitnum. Mál þetta sé enn á því stigi að hætt sé við að sakborningur muni torvelda rannsókn málsins gangi hann laus. Ætlað brot teljist varða við 1. mgr.  194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá verði ekki hjá því litið að ætluð atlaga og þvingun gegn brotaþola hafi verið gróf að mati lögreglu, sem framin hafi verið á sársaukafullan og meiðandi hátt, gegn kynfrelsi og æru brotaþola. Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og a.-liðar 1. mgr. 95. gr. laga og b.-liðar 1. mgr. 99. gr. laga nr.  88/2008 um meðferð sakamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Samkvæmt rannsóknargögnum  málsins er kærði  undir rökstuddum grun um brot gegn 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem varðað getur fangelsi í allt að 16 ár ef sök sannast. Kærði neitar því að hafa haft kynmök við kæranda í umrætt sinn, sem er í mótsögn við framburð kæranda.  Með vísan til alvarleika brotsins  og rannsóknargagna þykja skilyrði a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/ 2008 um meðferð sakamála vera uppfyllt í málinu. Verður því fallist á kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði. 

Þá verður með sömu rökum og rakin eru hér að framan og með vísan til b. liðar 1. mgr. 99. gr. laganna fallist á kröfu lögreglustjóra um að kærði sæti einangrun á meðan hann sætir gæsluvarðhaldi.

Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Kærði, X,  skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 29. apríl nk. kl. 16.00.

Kærði sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.