Hæstiréttur íslands
Mál nr. 458/2007
Lykilorð
- Sjúkrahús
- Læknir
- Skaðabætur
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 15. maí 2008. |
|
Nr. 458/2007. |
Íslenska ríkið(Einar Karl Hallvarðsson hrl.) gegn Nönnu V. Westerlund (Dögg Pálsdóttir hrl.) |
Sjúkrahús. Læknar. Skaðabætur. Gjafsókn.
N lagðist inn á L á árinu 1990 vegna nýrnasjúkdóms og fékk þar gefið blóð. Þann 20. júní 1993 kom í ljós að blóðið sem N fékk hafði verið sýkt af lifrabólgu C og að hún hafði sýkst. N var ekki gerð grein fyrir sýkingunni fyrr en á árinu 1999 og var það virt Í til sakar. Fyrir Hæstarétti snérist deila aðila eingöngu um kröfu N um miskabætur. Hélt hún því fram að það saknæma athafnaleysi starfsmanna L að tilkynna henni ekki um sjúkdóminn fyrr en raun varð hafi valdið henni mikilli líkamlegri og andlegri vanlíðan og þverrandi starfsorku. Í niðurstöðu Hæstaréttar sagði að N hefði ekki sýnt fram á að umrætt athafnaleysi starfsmanna N hafi verið orsök vanlíðunar hennar og skerts starfsþreks. Var Í því sýknað af kröfu N um miskabætur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 3. september 2007. Hann krefst sýknu af kröfu stefndu og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt.
I.
Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi greindist stefnda með alvarlegan nýrnasjúkdóm í júní 1990 og var í kjölfarið lögð inn á lyflækningadeild Landspítalans. Við meðferð sjúkdómsins fékk hún endurteknar blóðgjafir. Haustið 1992 var tekin upp skimun á mótefnum fyrir lifrarbólgu C hjá blóðgjöfum í Blóðbankanum, en þá fyrst munu hafa verið fyrir hendi handhæg og áreiðanleg próf sem unnt var að nota í þessu skyni. Eftir það hófst rannsókn á því hvort blóðgjafar hefðu reynst sýktir af lifrarbólgu C frá því að skimun hófst og kom þá í ljós að nokkrir þeirra höfðu áður gefið blóð. Í framhaldi þessarar niðurstöðu var kannað hvort blóð sem þessir einstaklingar gáfu hafi verið gefið sjúklingum og hverjir hafi fengið það. Þegar niðurstaða rannsóknastofu Háskólans í veirufræði á blóði stefndu lá fyrir 20. júní 1993 kom fram að hún hafði sýkst af lifrarbólgu C. Er óumdeilt í málinu að þá sýkingu hafi hún hlotið við það að fá gefið blóð úr sýktum einstaklingi við meðferðina á nýrnasjúkdómi hennar.
II.
Samkvæmt málflutningi stefndu fyrri Hæstarétti krefst hún nú einvörðungu viðurkenningar á skyldu áfrýjanda til greiðslu miskabóta sér til handa. Reisir hún kröfu sína á því að starfsmenn sjúkrahússins hafi gerst sekir um bótaskyld mistök með því að hafa ekki skýrt henni frá niðurstöðu rannsóknarinnar fyrr en í mars 1999, þrátt fyrir að vitneskja um hana hafi legið fyrir hjá þeim allt frá 20. júní 1993. Ekki er á því byggt að stefnda eigi rétt til bótanna á þeim grunni að henni hafi verið gefið sýkt blóð.
Áfrýjandi mótmælir því að stefndu hafi ekki verið tilkynnt niðurstaðan um sýkinguna í kjölfar þess að hún lá fyrir. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest sú niðurstaða hans að áfrýjandi hafi ekki sýnt fram á að starfsmenn sjúkrahússins hafi gert stefndu grein fyrir sýkingunni fyrr en á árinu 1999 og að það verði virt þeim til sakar.
Stefnda heldur því fram til stuðnings kröfu sinni um miskabætur að það saknæma athafnaleysi starfsmannanna að tilkynna henni ekki um sýkinguna fyrr en raun varð á hafi valdið henni mikilli líkamlegri og andlegri vanlíðan og starfsorka hennar farið þverrandi, en á þessu beri áfrýjandi bótaábyrgð. Ljóst væri að heilsufar hennar hefði orðið mun betra ef óvissunni um hvað hrjáði hana hefði verið eytt og hún haft vitneskju um sýkinguna, þrátt fyrir að óumdeilt sé að engar aðferðir til að lækna hana hafi verið þekktar fyrr en á árinu 1999.
Af gögnum málsins er ljóst að stefnda var haldin alvarlegum nýrnasjúkdómi og þunglyndi áður en hún fékk gefið hið sýkta blóð og átti eftir það einnig við að glíma önnur heilsufarsleg vandamál, meðal annars þunglyndi og vöðvagigt auk þess sem hún bar sjúkdómseinkenni frá stoðkerfi. Stefnda hefur hins vegar ekki sýnt fram á að það athafnaleysi starfsmanna áfrýjanda að skýra henni ekki frá lifrarbólgusýkingunni hafi verið orsök vanlíðunar hennar og skerts starfsþreks. Verður áfrýjandi af þeim sökum sýknaður af kröfu hennar.
Rétt er að málskostnaður falli niður í héraði og fyrir Hæstarétti, en um gjafsóknarkostnað stefndu fer eins og segir í dómsorði.
Dómsorð:
Áfrýjandi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfu stefndu, Nönnu V. Westerlund.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað stefndu skal vera óraskað, en fyrir Hæstarétti greiðist hann úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 350.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. mars 2007.
Mál þetta er höfðað 26. júní 2006, þingfest 29. s.m. og dómtekið 13. febrúar 2007.
Stefnandi er Nanna V. Westerlund, Hólum í Hjaltadal.
Stefndi er íslenska ríkið.
Dómkröfur stefnanda eru þær að viðurkennd verði með dómi bótaskylda stefnda vegna Landspítala háskólasjúkrahúss vegna þess tjóns sem stefnandi varð fyrir vegna athafnaleysis starfsmanna Landspítala háskólasjúkrahúss eftir greiningu á lifrarbólgu C á árinu 1993, sem hún hafði smitast af við blóðgjöf á spítalanum árið 1990. Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða málskostnað.
Stefndi krefst sýknu og greiðslu málskostnaðar.
Fyrir árið 1990 stundaði stefnandi, ásamt eiginmanni sínum, búskap á bænum Múla í Dýrafirði. Í júní 1990 greindist stefnandi skyndilega með alvarlegan nýrnasjúkdóm, hæmolytic uremic syndrome, eða blóðlýsu-þvageitrunar heilkenni. Var stefnandi lögð til meðferðar inn á lyflækningadeild Landspítala háskólasjúkrahúss, sem þá báru nafni Ríkisspítalar. Fólst meðferð m.a. í endurteknum blóðgjöfum og blóðskiptum. Er óumdeilt að stefnandi hafi smitast af lifrarbólgu C við blóðgjöf sem hún fékk í septembermánuði 1990. Þá er óumdeilt að um hafi verið að ræða svokallaða plasmagjöf, sem verið hafi stefnanda lífsnauðsynleg vegna sjúkdóms síns.
Fyrir liggur og er óumdeilt að haustið 1992 hafi verið tekin upp skimun fyrir lifrarbólgu C mótefnum hjá blóðgjöfum hjá Blóðbankanum og að það hafi verið gert um líkt leyti og í nágrannalöndum. Frá 1. október 1992 til 30. september 1993 höfðu verið skimaðar 12.069 blóðeiningar og reyndust 9 af þeim hafa lifrarbólgu C mótefni. Var þá kannað hvort þessir blóðgjafar hafi gefið blóð áður og reyndust 7 þeirra hafa gefið blóð. Alls var um að ræða 63 blóðeiningar. Var kannað hvort viðkomandi einingar hafi verið nýttar og hverjir hafi fengið þær. Fram kemur í greinargerð stefnda að tekist hafi að finna 24 einstaklinga sem sannanlega hafi fengið sýkta blóðeiningu. Hafi þá verið gerðar ráðstafanir til að fá blóðsýni frá þessum einstaklingum og hafi 21 þeirra reynst hafa sýkst af lifrarbólgu C. Í umsögn Sigurðar B. Þorsteinssonar smitsjúkdómalæknis frá 28. september 2005 kemur fram að misjafnlega hafi verið staðið að því að afla blóðsýna. Hafi verið leitað til heilsugæslu vegna þeirra sem búið hafi utan Stór-Reykjavíkursvæðisins. Hafi það almennt verið lagt í hendur viðkomandi heilsugæslulækna hvernig upplýsingum um niðurstöður yrði komið til sjúklinga, en almenna reglan hafi verið sú að viðkomandi hafi verið látnir vita.
Stefnandi kveðst hafa náð sér eftir veikindin og aftur hafið bústörf í upphafi árs 1991. Fljótlega hafi komið í ljós að þau störf hafi verið henni of erfið og að starfsgeta hennar hafi verið allt önnur og verulega minni en fyrir veikindin. Af þeim sökum hafi hún og fjölskylda hennar vorið 1991 flust af bújörðinni til Reykjavíkur. Hafi stefnandi reynt fyrir sér í ýmsum störfum en gengið illa að halda vinnu þar sem mjög hafi verið dregið af starfsgetu hennar og starfsorku. Hafi hún leitað sér aðstoðar hjá geðlækni vegna þess og þar sem hún hafi fundið fyrir einbeitingarörðugleikum og minnkandi almennri færni. Hafi hún verið meðhöndluð með þunglyndislyfjum, líkamsrækt og endurhæfingu, án teljandi árangurs. Hafi stefnandi árið 1995 verið metin 65% öryrki hjá Tryggingastofnun ríkisins.
Stefnanda voru á árinu 2002 greiddar bætur á grundvelli sérstakrar fjárveitingar, sem bundin var við að ekki væri viðurkennd bótaskylda vegna smitaðs blóðs. Var fjárhæðin miðuð við hámarksbætur eftir ákvæðum laga um sjúklingatryggingu, nr. 111/2000.
Júlíus Valsson sérfræðingur í gigtar- og embættislækningum mat örorku stefnanda í matsgerð 13. mars 2001, sem frammi liggur á dskj. nr. 11. Mat Júlíus varanlega örorku stefnanda vegna lifrarbólgusjúkdóms af völdum hepatitis-C vera 75%.
Við aðalmeðferð málsins gáfu stefnandi og Sigurður B. Þorsteinsson smitsjúkdómalæknir skýrslu fyrir dómi. Stefnandi kvaðst, eftir að hafa flutt að norðan til Reykjavíkur, hafa leitað og verið til meðferðar hjá Magnúsi Böðvarssyni lækni á Heilsugæslustöðinni í Mjódd, en Magnús hafi verið nýrnalæknir stefnanda. Á heilsugæslustöðinni hafi verið tekið blóð úr stefnanda vegna rannsókna í tengslum við nýrnasjúkdóm hennar. Hafi Magnús fylgst vel með stefnanda fyrstu 3 árin og hafi hann viljað að stefnandi leitaði til sálfræðings vegna nýrnasjúkdómsins. Í kjölfarið, eða á árinu 1991, hafi hún leitað til Péturs Haukssonar geðlæknis. Magnús hafi á árinu 1993 hætt að meðhöndla stefnanda sem sjúkling. Stefnandi kvaðst hafa farið að leita til Sigurðar B. Þorsteinssonar smitsjúkdómalæknis eftir að hún hafi greinst með lifrarbólgusmitið á árinu 1999. Sér hafi brugðið er henni hafi verið gerð grein fyrir smitinu, en um leið séð ástæðuna fyrir því af hverju hún hafi ætíð verið svo þreytt og slöpp alla tíð frá því hún hafi fengið blóðgjafirnar á árinu 1990. Hafi því fréttunum fylgt ákveðinn léttir, þó svo þær hafi ekki verið skemmtilegar.
Sigurður B. Þorsteinsson kvaðst hafa ritað bréf 28. september 2005 til aðstoðarlækningaforstjóra vegna mála stefnanda. Þá kvaðst hann hafa ritað annað bréf 25. október 2006 til ríkislögmanns í tengslum við málefni stefnanda. Á árinu 1993 hafi Landspítali staðið fyrir afturvirkri skimun á blóði blóðgjafa hjá Blóðbankanum. Þá hafi greinst 9 einstaklingar er hafi í gegnum blóðgjafir smitast af lifrarbólgu C. Umrædd skimun hafi verið hugsuð sem vísindarannsókn sem Sigurður hafi unnið og læknanemar aðstoðað við, m.a. með því að útvega blóðsýni frá þeim einstaklingum er talið var að gætu hafa smitast. Þar sem rannsóknin hafi á þeim tíma ekki beint tengst Landspítalanum hafi upplýsingar ekki verið færðar inn í sjúkraskrá viðkomandi einstaklinga. Beitt hafi verið öllum ráðum til að fá blóðsýni frá þeim einstaklingum er þurft hafi að rannsaka. Sumir þessara einstaklinga hafi búið úti á landi og hafi heimilislæknar oft aðstoðað við að ná sýnum. Þegar niðurstöður hafi legið fyrir hafi þær ýmist verið tilkynntar bréflega til læknis viðkomandi einstaklings eða símleiðis. Engin regla hafi þó legið fyrir í því efni. Þá hafi engar leiðbeiningar eða ráðleggingar legið fyrir um hvernig upplýsingum yrði komið til viðkomandi einstaklinga. Sigurður kvaðst sjá í vinnuskjölum er hann hafi haldið saman varðandi þessar rannsóknar að merkt væri við stefnanda ,,Ath”. Ekki kvaðst Sigurður vita fyrir hvað það hafi átt að standa. Ekki gæti hann staðfest að tilkynning til stefnanda um að hún væri smituð hafi verið afgreidd og væri hugsanlegt að henni hafi ekki verið tilkynnt um það. Þá kvað Sigurður ekki unnt að útiloka að ýmis stoðkerfisvandamál, sem stefnandi hafi greinst með síðar, væri að rekja til lifrarbólgusmits stefnanda. Hafi hún á sínum tíma í meðhöndlun verið látin njóta vafans í þeim efnum, en með því væri átt við að fremur hafi verið talið að stoðkerfisvandamálin væri að rekja til smitsins. Engar beinar rannsóknir hafi legið fyrir sem hafi slegið einhverju föstu í þeim efnum. Umrædd stoðkerfisvandamál hafi í það minnsta ekki verið til staðar fyrir blóðgjafirnar 1990. Sigurður kvað stoðkerfisvandamál, s.s. bólgu og liðverki, oft vera talin tengjast smiti á lifrarbólgu C. Sigurður staðfesti að það hafi ekki verið fyrr en árin 1998 til 1999 sem niðurstöður af samsettri meðferð með lyfin alfa interferon og ribavírin hafi bent til að a.m.k. hluta sjúklinga væri unnt að lækna með því að gefa þeim þessi lyf. Fyrst hafi þessum lyfjum verið beitt við langgengna sjúklinga með lifrarbólgu C og lyfið því ekki gefið á frumstigum sjúkdómsins. Sé það fyrst á síðustu árum að þessum lyfjum sé beitt snemma vegna breyttrar meðferðar á öðru efnanna og séu um 75% sjúklinga sem fái varanlega lækningu. Hafi því orðið mikil breyting til batnaðar frá fyrri tíð. Sú veira sem stefnandi hafi greinst með hafi svarað einna síst við þeirri meðferð sem hafi verið beitt á árunum 1998 til 1999. Sjúkdómur stefnanda hafi þó ekki verið langt genginn á árinu 1999. Kvaðst Sigurður hafa orðið læknir stefnanda í mars 1999. Þá kvaðst Sigurður ekki hafa neinar upplýsingar um hvort smit af lifrarbólgu C væri bein ávísun á þunglyndi, en vissulega yllu langvarandi veikindi almennt þunglyndi. Sigurður kvað mjög óvirka smitleið vera fyrir lifrarbólgu C í gegnum samræði. Rannsóknum bæri þó ekki saman um þetta atriði. Framkvæmd hafi verið stór rannsókn í Bandaríkjunum sem hafi sýnt fram á að á milli 4 til 5% tilvika smituðust með þeim hætti. Sú rannsókn hafi þó verið gagnrýnd af ákveðnum ástæðum. Ekki væri í dag miðað við sérstakar ráðstafanir fyrir fólk í hjúskap eða sambúð þar sem annað væri smitað af lifrarbólgu. Þá væri ekki sérstaklega lagt að fólki, sem væri smitað, að setja plástur á blæðandi sár í ljósi smithættu, þó svo alltaf væri góð regla, hjá hverjum sem væri, að setja plástur á sár.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir á því að allt til ársins 1999 hafi engin skýring fundist á hinu skyndilega heilsutapi stefnanda. Þann 31. mars 1999 hafi verið tekin sýni úr lifur stefnanda og hafi rannsókn leitt í ljós að stefnandi hafi verið með króníska lifrarbólgu, sem hún hafi smitast af í gegnum blóðgjafirnar á árinu 1990. Eftir að lifrarbólgusýking stefnanda hafi uppgötvast fyrri hluta árs 1999 hafi byrjað meðferð á stefnanda vegna lifrarbólgunnar. Hafi meðferðin fyrst og fremst falist í erfiðum lyfjagjöfum, m.a. með lyfinu interferon. Fljótlega hafi komið í ljós að sú meðferð hafi ekki virkað á stefnanda. Árið 2001 hafi stefnandi verið metinn 75% öryrki vegna lifrarbólgu C og hafi hún verið orðin algjörlega óvinnufær til frambúðar vegna hins smitaða blóðs. Fari stefnandi enn reglulega í eftirlit á Landspítala háskólasjúkrahús en lyfjameðferð sú sem hafi byrjað 2001 hafi engan árangur borið.
Stefnandi kveður lifrarbólguna hafa leitt til verulegra stoðkerfisvandamála, en þau séu þekktur fylgikvilli krónískrar lifrarbólgu. Jafnframt hafi stefnandi átt við margvísleg heilsufarsvandamál að stríða vegna lifrarbólgunnar. Hún sé máttlítil og slöpp, úthaldslítil o.fl. Að auki hafi þetta leitt til afar slæmra áhrifa á andlega líðan stefnanda. Tjón stefnanda sé mun meira en sú fjárhæð sem hún hafi fengið greidda frá íslenska ríkinu á árinu 2002. Þar sem stefndi neiti bótaskyldu telji hann sér óskylt að greiða stefnanda frekari bætur en þegar hafi verið greiddar, þ.e. hámarksbætur samkvæmt lögum nr. 111/2000. Starfsmenn stefnda hafi bakað stefnda bótaskyldu með eftirfarandi háttsemi sinni þegar í ljós hafi komið að einstaklingum hafi verið gefið sýkt blóð, hugsanlega með þeim afleiðingum að þeir hafi sýkst af alvarlegum og lífshættulegum sjúkdómi.
Stefnandi kannist ekki við að hafa sérstaklega verið boðuð í blóðrannsókn á árinu 1993 vegna gruns um lifrarbólgusmit. Þá reki stefnanda ekki minni til þess að henni hafi á þeim tíma verið sagt frá því að hún kynni að hafa fengið sýkt blóð árið 1990 og að hún þyrfti að fara í blóðrannsókn af þeim sökum né að henni hafi þá eða síðar verið gerð grein fyrir niðurstöðum rannsóknarinnar sem hún hafi fyrst fengið að sjá við meðferð máls hennar fyrir dómstólum á árinu 2005. Sjúkraskrá stefnanda renni stoðum undir fullyrðingar stefnanda, þar sem þar séu hvorki færslur um að hún hafi verið kölluð til blóðrannsóknar vegna gruns um lifrarbólgusmit, né að blóðrannsókn hafi leitt slíkt smit í ljós hjá stefnanda. Engin gögn séu til um að lifrarbólga stefnanda hafi uppgötvast fyrr en árið 1999. Fljótlega hafi hafist meðferð, en í ljós hafi komið að þau meðferðarúrræði sem til hafi verið vegna lifrarbólgu hafi ekki gagnast stefnanda. Jafnframt hafi komið í ljós að stefnandi hafi lifað við ýmsa fylgikvilla lifrarbólgu án þess að nokkur hafi áttað sig á uppruna þeirra. Það hafi valdið stefnanda talsverðu tjóni, bæði líkamlegu og andlegu. Á þeirri eftirfarandi háttsemi, þ.e. athafnarleysi starfsmanna stefnda, telji stefnandi að stefndi beri bótaábyrgð.
Stefnandi byggi kröfu sína á hendur stefnda um viðurkenningu á bótaskyldu á því að starfsmenn á vegum stefnda á Landspítala háskólasjúkrahúsi hafi á árinu 1993 gert skaðabótaskyld mistök. Þau mistök hafi leitt til tjóns fyrir stefnanda, þar sem stefnanda hafi ekki verið tilkynnt um niðurstöðu blóðrannsóknar sem hafi sýnt að hún hafi verið smituð af lifrarbólgu. Hafi það leitt til þess að hún hafi ekki fengið rétta meðhöndlun við sjúkdómi sínum og ekki fengið rétta meðferð við fylgikvillum hans, sem stefnandi hafi búið við allt frá árinu 1992. Á þessum mistökum beri stefndi ábyrgð samkvæmt meginreglum skaðabótaréttar um húsbóndaábyrgð, þ.e. reglum um ábyrgð vinnuveitenda á skaðaverkum starfsmanna sinna.
Fyrir liggi að stefnanda hafi verið gefið blóð árið 1990, en blóðgjöfin hafi verið hluti af sjúkdómsmeðferð vegna alvarlegs nýrnasjúkdóms sem stefnandi hafi greinst með. Það blóð hafi reynst smitað af lifrarbólgu C. Talið sé að helmingur þeirra sem smitist af sjúkdóminum með blóðgjöf þrói með sér langvinna og virka lifrarsýkingu, sem leitt geti m.a. til skorpulifur og illkynja æxlisvaxtar í lifur áratugum eftir upphaflega smitið.
Stefndi fullyrði að árið 1993 hafi verið gerð ítarleg rannsókn á vegum Blóðbankans vegna uppgötvunar um að blóðgjafi á árinu 1990 hafi reynst sýktur af lifrarbólgu C og að blóð úr honum hafi verið notað í nokkra einstaklinga á því ári. Af hálfu stefnda sé því haldið fram að þá strax hafi verið gerðar ráðstafanir til að fá blóðsýni úr þeim sem fengið hafi sýkt blóð árið 1990 til að greina hvort sýking væri til staðar. Jafnframt hafi verið fullyrt af stefnda að þeim sem greinst hafi með lifrarbólgusmit hafi verið tilkynnt um það og verið veitt viðeigandi meðferð. Framlögð gögn sýni að stefnandi hafi undirgengist blóðrannsókn á árinu 1993 þar sem rannsakað hafi verið hvort hún hafi verið sýkt af lifrarbólgu. Á þeim tíma hafi stefnandi enn verið í virkri meðferð vegna nýrnasjúkdóms. Hafi verið með henni ríkt eftirlit og hafi m.a. verið fylgst náið með ,,blóðstatus” og stefnandi því verið reglulega í blóðprufum á þessum tíma. Stefnanda reki ekki minni til þess að hafa á þessum tíma fengið upplýsingar um að hún kynni að hafa fengið sýkt blóð árið 1990. Þá reki hana ekki minni til þess að hafa verið boðuð sérstaklega í blóðprufu vegna gruns um lifrarbólgusmit árið 1993, né að henni hafi verið tilkynnt niðurstaða úr slíku prófi og að sú niðurstaða væri að hún væri smituð af lifrarbólgu C.
Gögn málsins styðji fullyrðingar stefnanda um þetta. Ekki séu til gögn um að stefnandi hafi sérstaklega verið boðuð í blóðrannsókn vegna gruns um lifrarbólgusmit. Í sjúkraskýrslu stefnanda sé engin skráning um að boða þurfi hana í blóðrannsókn vegna gruns um lifrarbólgusmit. Í sjúkraskrá stefnanda sé heldur ekki að finna gögn um að blóðrannsókn vegna gruns um lifrarbólgusmit hafi verið framkvæmd. Þá sé í sjúkraskýrslu stefnanda hvorki skráning um niðurstöðu blóðrannsóknar vegna gruns, né að sú rannsókn hafi leitt lifrarbólgusmit í ljós. Það eina sem muni hafa fundist í sjúkragögnum stefnanda varðandi það sem gert hafi verið árið 1993 sé niðurstaða rannsóknar, sem virðist hafa verið gerð um leið og stefnandi hafi farið í aðrar rannsóknir tengda heilsufari hennar á þessum tíma. Niðurstöðu þeirrar rannsóknar hafi fyrst borið fyrir augu stefnanda á árinu 2006 í tengslum við málaferli hennar á hendur stefnda. Sé því ósannað að stefnanda hafi verið skýrt frá því að hún hafi fengið sýkt blóð 1990, fyrr en árið 1999. Allan þann tíma hafi stefnandi átt við verulegan heilsufarsvanda að stríða, sem sífellt hafi farið versnandi.
Stefnandi fullyrði og byggi kröfu sína um viðurkenningu á bótaskyldu stefnda á því að hefði verið brugðist rétt við niðurstöðum blóðprófsins, sem fram hafi farið 1993, með viðeigandi hætti hafi mátt koma í veg fyrir stóran hluta þess heilsutjóns sem nú sé staðreynd að hún hafi orðið fyrir. Það að stefnanda hafi ekki verið tilkynnt niðurstaðan og að starfsmenn stefnda hafi ekki brugðist réttilega við greiningu stefnanda árið 1993 séu mistök starfsmanna stefnda, sem stefndi beri bótaábyrgð á.
Stefnandi telji að hin bótaskyldu mistök stefnda felist í þrennu. Í fyrsta lagi að henni hafi aldrei verið gerð grein fyrir hugsanlegu lifrarbólgusmiti og að gerð yrði sérstök blóðrannsókn af þeim sökum. Í öðru lagi að henni hafi aldrei verið kynnt niðurstaða áðurgreindrar rannsóknar sem nú liggi fyrir að gerð hafi verið og leiddi í ljós að stefnandi hafi verið með lifrarbólgusmit. Í þriðja lagi hafi af hálfu starfsmanna stefnda ekki verið brugðist við með viðeigandi hætti þegar lifrarbólgusmit stefnanda hafi komið í ljós árið 1993 þannig að stefnandi fengi þegar rétta meðferð.
Stefnandi telji að athafnarleysi starfsmanna stefnda, að ekki skyldi brugðist við greiningu vegna lifrarbólgusmitsins 1993, feli í sér saknæma háttsemi sem stefndi beri skaðabótaábyrgð á enda liggi fyrir að sú töf sem orðið hafi á viðeigandi meðferð hennar við lifrarbólgusmitinu hafi valdið henni andlegu og líkamlegu tjóni sem hægt hefði verið að koma í veg fyrir með réttum viðbrögðum. Á þessu tjóni beri stefnandi ábyrgð. Skaðabótakrafa stefnanda byggi þannig á því að ef henni hefði verið tilkynnt um niðurstöðu títtnefndrar blóðrannsóknar árið 1993 og ef að við þeirri greiningu hafi verið brugðist með viðeigandi meðferðarúrræðum af hálfu starfsmanna stefnda strax árið 1993 hefði tjón hennar orðið talsvert minna en raun bar vitni. Stefnandi hafi ekki fengið vitneskju um sjúkdóm sinn fyrr en árið 1999 og hafi sjúkdómurinn þá verið langt genginn og árangur meðferðar óviss.
Í framlögðu læknisvottorði Péturs Haukssonar geðlæknis, frá 28. nóvember 2000, komi fram að hann hafi haft stefnanda til meðferðar allt frá árinu 1991. Það hafi þó fyrst verið á árinu 1992 sem farið hafi að bera á minnkandi starfsorku og færni hjá stefnanda. Hafi stefnandi verið undir stöðugri handleiðslu geðlæknis en hin minnkandi starfsorka og færni hafi valdið stefnanda verulegri andlegri vanlíðan, auk þeirrar staðreyndar að ekki hafi náðst að finna orsök fyrir hinni líkamlegu vanlíðan. Lifrarbólgan hafi ekki greinst fyrr en árið 1999 og þá verið hafin meðferð með lyfinu interferon, sem hafi aukið á líkamlega og andlega vanlíðan stefnanda, en ljóst sé að það sé fyrst þá sem orsök heilsufarsvanda stefnanda, sem hún hafi glímt við frá árinu 1992, hafi komið í ljós.
Stefnandi byggi kröfu sína um viðurkenningu á skaðabótaskyldu stefnda þannig á því að með réttri sjúkdómsgreiningu og viðeigandi meðferð vegna lifrarbólgunnar strax árið 1993, hafi verið hægt að koma í veg fyrir þá löngu og ströngu sjúkdómsgöngu sem hún hafi þurft að ganga. Telji stefnandi fullvíst að hafi orsök þáverandi starfsþreks og líkamlegrar vanlíðunar hennar verið vituð allt frá upphafi hefði þróun sjúkdómssögu hennar og heilsufars orðið mjög á annan veg. Þá sé vísað til þess að í vottorði geðlæknis komi fram að stefnandi hafi verið metin 65% öryrki árið 1995, þ.e. mörgum árum áður en henni hafi borist vitneskja um lifrarbólgusmit sitt. Sé sú örorka byggð á áðurgreindum líkamlegum og andlegum kvillum sem engin skýring eða greining hafi fundist á, á þeim tíma. Eftir að lifrarbólgusmitið komi til vitundar stefnanda hafi örorka hennar verið metin 75% í örorkumati Júlíusar Valssonar frá 13. mars 2001.
Þá byggi stefnandi á því að miski hennar sé jafnframt talsverður og að hann sé enn óbættur þrátt fyrir greiðslur frá íslenska ríkinu á árinu 2002. Vart þurfi að fjölyrða um það gríðarlega áfall sem það hafi verið fyrir stefnanda að fá vitneskju um að hún bæri lífshættulegan smitsjúkdóm og hafi gert það í hartnær áratug án vitneskju þar um. Stefnandi hafi starfað sem bóndakona þegar hún hafi fengið hina sýktu blóðgjöf. Fullyrða megi að hún hafi ekki fengið þennan smitsjúkdóm annars, en helstu áhættuhópar fyrir slíkri sýkingu séu fíkniefnaneytendur, sprautufíklar og dreyrasjúkir einstaklingar. Vitað sé að sjúkdómurinn geti smitast við náið samband karls og konu, þó að það sé sjaldgæft og jafnframt frá móður til barns við meðgöngu. Stefnandi, sem hafi verið gift og á barneignaraldri þegar hún hafi sýkst, hafi því auðveldlega getað lent í þeim ógnvænlegu aðstæðum að smita sína nánustu af þessum illvíga sjúkdómi.
Þau einkenni sem krónísk lifrarbólga hafi í för með sér hafi valdið því að stefnandi, sem áður hafi verið hraust kona með fulla starfsorku, hafi varla unnið á vinnumarkaði í 15 ár, svo heitið geti, þrátt fyrir að vera rétt rúmlega fimmtug. Sjúkdómurinn hafi þannig tekið verulegan toll af heilsu hennar, svo ekki sé minnst á andlega áþján, áhyggjur og álitshnekki sem þetta hafi valdið henni.
Um lagarök vegna viðurkenningarkröfu vísi stefnandi til meginreglna skaðabótaréttar um húsbóndaábyrgð, þ.e. reglna um ábyrgð vinnuveitenda á skaðaverkum starfsmanna sinna. Jafnfram sé vísað til sakarreglunnar og annarra meginreglna skaðabótaréttar um bótaábyrgð og sök. Um lagarök viðurkenningarkröfu sinnar vísar stefnandi til 2. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, auk d-liðar 80. gr. sl. Þá er vísað til langrar dómaframkvæmdar hvað varðar skaðabótakröfur á hendur íslenska ríkinu, nú síðast dóms Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 317/2005. Stefnandi telji að með framlögðum gögnum og atvikum málsins sé sýnt fram á að tjón hafi orðið af því atviki sem viðurkenningar á skaðabótaskyldu sé krafist vegna. Óvíst sé enn um fjárhæð endanlegrar kröfu stefnanda, enda hafi endanlegt tjón stefnanda, sem beinlínis stafi af því að stefnandi hafi ekki fengið vitneskju um smit sitt fyrir en mörgum árum síðar, ekki verið metið. Megi jafnvel ætla að það tjón verði að mestu metið að álitum. Stefnandi hafi ekki haft tök á, eða fjárhagslegt bolmagn, til að láta slíkt mat fara fram.
Stefnandi telji kröfu sína ekki fyrnda. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 14/1905 hefjist fyrningarfrestur kröfu þegar hún verði gjaldkræf. Sé um að ræða kröfu sem ekki hafi ákveðið tímamark, hefjist fyrningarfrestur þegar fyrst sé unnt að krefjast greiðslu. Stefnandi hafi enga vitneskju fengið um sjúkdóminn fyrr en eftir að fyrir hafi legið niðurstaða úr lifrarsýnatöku 31. mars 1999. Um niðurstöðu blóðrannsóknar sem gerð hafi verið 1993 hafi stefnandi aldrei fengið að vita og raunar hafi sú rannsókn verið gerð án vitundar stefnanda, væntanlega í tengslum við aðrar blóðrannsóknir sem hún hafi undirgengist á þeim tíma af heilsufarsástæðum. Stefnanda hafi því fyrst verið kunnugt um smit sitt af lifrarbólgu C vegna blóðgjafar árið 1990 og það tjón sem það hafi valdið henni eftir rannsóknina í mars 1999. Beri því að miða upphaf fyrningarfrests við 31. mars 1999. Því til stuðnings sé vísað til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 180/2000. Jafnframt bendi stefnandi á bréf heilbrigðis- og tryggingarmálaráðuneytisins til ríkislögmanns 20. júní 2001. Komi þar skýrt fram afstaða íslenska ríkisins til fyrningar í málinu og telji stefnandi að um sé að ræða loforð stefnda um að bera ekki fyrir sig fyrningu í málinu, hvernig svo sem það myndi þróast í framtíðinni. Stefnandi telji að auki að loforð ríkisins um greiðslu á bótum á árinu 2002 samkvæmt fjárlögum megi túlka sem upphaf að nýjum fyrningarfresti, sbr. 6. gr. laga nr. 14/1905.
Um varnarþing vísar stefnandi til 3. mgr. 33. gr. laga nr. 91/1991. Um málskostnað er vísað til XXI. kafla sömu laga. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er byggð á lögum nr. 50/1988.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi kveður stefnanda hafa sett fram kröfu um viðurkenningu á bótaskyldu. Þátt fyrir undantekningarreglu í d-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, sem heimili slíka kröfugerð, sé ekki útskýrt að marki eða lögð fram sönnunargögn um tjón stefnanda. Í málinu hafi stefnandi lagt fram örorkumat og örorkutjónsútreikning í takt við aðferðir fébótareglna fyrir gildistöku skaðabótalaga nr. 50/1993. Matið geti af þeim ástæðum og öðrum tæplega talist nothæft til úrlausnar um ætlað tjón. Ekki séu lagðar fram haldbærar skýringar að mati stefnda á því hver tormerki geti verið á því að meta tjón sem stefnandi skírskoti til í ljósi málsástæðna þeirra sem byggt sé á í stefnu. Stefnandi rökstyðji kröfugerð sína einnig með tilliti til miska sem hún hafi orðið fyrir en engin lagarök séu færð fram til stuðnings þeim málatilbúnaði. Þá verði ekki séð hver tormerki geti verið á því að setja fram kröfu í krónum talið vegna ætlaðs miska. Ennfremur sé bent á að í kröfugerð stefnanda séu færðar fram málsástæður sem ekki eigi heima þar. Málsókn stefnanda sé byggð á ýmiskonar fullyrðingum um að starfsmenn stefnda hafi ekki viðhaft rétt viðbrögð, rétta sjúkdómsgreiningu eða að stefnandi hafi ekki hlotið viðeigandi meðferð. Séu fullyrðingar þessar engum gögnum studdar eða nánari rökstuðningi. Þá sé tíðum um að ræða fullyrðingar sem séu óljósar eða illskiljanlegar og í engu fært fram hverjar athafnir, viðbrögð eða meðferðir hefðu aðrar átt að vera að mati stefnanda. Allt séu þetta atriði sem hefðu grundvallarþýðingu við mat á því hvort bótaskilyrði samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar kæmu yfir höfuð til álita. Vanreifun málsins að þessu leyti geti hæglega orðið til réttarspjalla fyrir stefnda. Af ofangreindum ástæðum telji stefndi koma til greina að vísa málinu frá dómi án kröfu.
Stefnandi byggi kröfur sínar á því að skaðabótaskyld mistök hafi orðið á Landspítala árið 1993. Hafi stefnandi viðurkennt að á árinu 1990 hafi ekki verið fyrir hendi tækni sem hefði getað komið í veg fyrir smit enda hafi skimunartækni ekki verið komin í notkun á spítölum á þeim tíma. A.m.k. sé bótakrafa stefnanda ekki rökstudd með tilliti til þess og marki kröfugerð stefnanda aðeins það að ætlað athafnarleysi starfsmanna stefnda árið 1993 hafi orðið henni til tjóns. Þannig sé á því byggt af stefnanda að henni hafi ekki verið kynnt niðurstaða á árinu 1993, sem sýnt hafi að hún hafi verið sýkt af lifrarbólgu. Hafi það leitt til þess að hún hafi ekki fengið rétta meðhöndlun við sjúkdómi sínum og heldur ekki rétta meðferð við fylgikvillum hans eins og það sé orðað. Byggi stefnandi á því að ef hún hafi verið greind fyrr, þ.e. árið 1993 eða henni tilkynnt um smitið, hefði mátt koma í veg fyrir heilsutjón hennar af þess völdum eða a.m.k. stóran hluta þess, eins og það sé orðað í stefnu. Hvorki í stefnu né framlögðum gögnum sé fært fram nokkuð það sem stutt geti málsástæður stefnanda þess efnis.
Af hálfu stefnda sé málatilbúnaði stefnanda og kröfum á honum reistum eindregið mótmælt. Stefndi byggi á því að stefnandi hafi sannanlega verið í þeim hópi einstaklinga sem haft hafi verið samband við á árinu 1993 og leitt hafi til þess að hún hafi gefið blóðsýni sem hafi reynst jákvætt gagnvart lifrarbólgu C. Ljóst sé eftir þekkingu og tækni á árinu 1990 að ekki hafi verið unnt að koma í veg fyrir smitið sem stafað hafi af rangri upplýsingagjöf blóðgjafa. Starfsmenn stefnda hafi því ekki getað séð að stefnandi hafi verið sýkt vegna blóðgjafar eða veitt henni meðferð þótt það hafi komið í ljós. Engin leið hafi verið til að skima fyrir lifrarbólgu C á þessum tíma, sem auk þess hafi ekki verið þekkt. Stefnanda hafi verið lífsnauðsynlegt að fá það blóðvatn sem henni hafi verið gefið. Það hafi því ekki verið vegna saknæmrar eða ólögmætrar háttsemi sem stefnandi hafi smitast. Ekki sé um það deilt í málinu og hafi að auki verið dæmt um slíkt sakarefni, sbr. dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá 24. nóvember 2003 í máli nr. E-3140/2002.
Á þessum tíma hafi engin meðferð verið til við lifrarbólgu C, lyfjameðferð eða önnur, sem skilað hafi getað ásættanlegum árangri. Strax og til hafi orðið lyf sem gefið hafi vonir um árangursríka meðferð hafi verð haft samband við stefnanda og muni hún hafa verið önnur af tveimur sjúklingum sem fyrst hafi fengið slíka meðferð. Ekki sé rétt sem haldið sé fram í stefnu að þeim sem greinst hafi á árinu 1993 hafi verið boðin sérstök meðferð, enda hafi hún ekki verið tiltæk á þeim tíma. Enginn óeðlilegur dráttur hafi orðið á meðferð við sýkingunni. Í umsögn Sigurðar B. Þorsteinssonar smitsjúkdómalæknis, sem hafi meðhöndlað stefnanda, komi fram að haft hafi verið samband við stefnanda, eins og önnur gögn beri með sér. Hafi þar komið til að á árunum 1998 til 1999 hafi rannsóknir bent til að hluti sjúklinga með lifrarbólgusmit C væri hugsanlega unnt að lækna.
Stefnandi hafi sundurgreint málsástæður sínar um ætluð mistök í þrennt. Í fyrsta lagi hafi stefnanda aldrei verið gerð grein fyrir hugsanlegu lifrarbólgusmiti eða að gerð yrði sérstök blóðrannsókn af þeim sökum. Þessi málsástæða sé óljós og illskiljanlegt við hvað sé átt. Hvergi sé gerð nánari grein fyrir þessu eða útskýrt við hvaða tímamark, atburð, athafnir eða athafnarleysi sé miðað. Sé málsástæðum stefnanda að þessu leyti mótmælt sem órökstuddum en að öðru leyti vísað til þeirra málsástæðna sem stefndi byggi á. Rannsóknir sem stefnandi hafi gengist undir fyrir 1993 hafi ekki gefið til kynna lifrarbólgusmit eða grun um það, auk þess sem úrræði hafi engin verið á þeim tíma frekar en þegar smitið hafi greinst. Þá byggi stefnandi á því í öðru lagi að henni hafi ekki verið kynntar þær niðurstöður sem nú liggi fyrir. Stefndi mótmæli þessari málsástæðu einnig með vísan til þess sem rakið hafi verið. Það eitt og sér geti á engan hátt leitt sjálfstætt til bótaskyldu stefnda enda væri engu tjóni fyrir að fara af þeim sökum. Í þriðja lagi sé á því byggt að af hálfu starfsmanna stefnda hafi ekki verið brugðist við með viðeigandi hætti þegar lifrarbólgusmit hafi komið í ljós árið 1993 þannig að stefnandi fengi rétta meðferð. Stefnandi hafi engin læknisfræðileg gögn lagt fram sem styðji þær fullyrðingar í stefnu að fyrir árið 1999 hafi verið til meðferð við sjúkdóminum eða að meðhöndla hafi mátt stefnanda vegna lifrarbólgu eða fylgikvilla þessa sjúkdóms sem hún hafi smitast af.
Stefndi byggi á því að engri saknæmri eða ólögmætri háttsemi sé til að dreifa í málinu af hálfu starfsmanna stefnda. Þá séu skilyrði skaðabótareglna um orsakatengsl og sennilega afleiðingu ekki uppfyllt. Eins og fram komi í gögnum málsins hafi stefnandi verið ein af þeim fyrstu sem fengið hafi meðferð sem þá hafi aðeins verið tiltæk í skamman tíma. Meðferð stefnanda af hálfu Landspítala hafi verið í samræmi við bestu þekkingu og aðferðir á hverjum tíma. Á árinu 1993 hafi einfaldlega engin meðferð verið til við lifrarbólgu.
Stefndi byggi á því að þótt lagt yrði til grundvallar að stefnandi hafi ekki vitað um smitið á árinu 1993 hefði það engu breytt þar sem ekki hafi verið unnt að koma í veg fyrir heilsutjón stefnanda af þess völdum fyrr. Séu því ekki uppfyllt meginskilyrði fébótareglna um orsakatengsl og sennilega afleiðingu. Engu breyti hér staðhæfingar stefnanda um að sjúkdómurinn hafi verið langt genginn enda smitið orðið og ljóst að ekki hafi verið til staðar þekking eða meðferð sem gefið hafi vonir um lækningu eða bata fyrr en um það leyti sem stefnandi hafi gengist undir hana á árinu 1999. Stefnandi hafi verið undirbúin sérstaklega undir meðferðina, sem hafi verið hætt þar sem hún hafi ekki skilað árangri. Meðferðin hafi verið erfið, en stefnandi samþykkt að gangast undir hana og hafi verið brýnt fyrir henni að láta vita ef hún fyndi til þunglyndis. Séu málsástæður og fullyrðingar sem að þessu lúti í stefnu á tíðum mótsagnakenndar og illskiljanlegar, einkum þegar stefnandi fullyrði að meðferðin hafi aukið á vanlíðan hennar.
Stefnandi byggi á því að hún hafi ekki fengið meðferð við fylgikvillum sjúkdómsins, en óljóst sé til hvers sé vísað. Þessu sé mótmælt af hálfu stefnda. Stefnandi hafi fengið mjög góða læknisþjónustu í veikindum sínum öllum sem veitt hafi verið af mörgum hæfum sérfræðingum. Vandamál stefnanda hafi verið margs konar og tengsl við lifrarbólgu ekki alltaf fullljós. Megi fullyrða að einkenni eins og stoðkerfisvandamál og þunglyndi hafi fremur stafað af öðrum sjúkdómum eða tilkomin án sérstakra tengsla við lifrarbólgu, eins og gögn lækna í málinu sýni. Verði að vísa til málsgagna um það og umsagnar Sigurðar B. Þorsteinssonar, sem fyrir liggi. Hvað sem því líði hafi stefnandi fengið alla þá læknisþjónustu sem tiltæk hafi verið vegna vandamála sinna.
Eins og fyrr segi byggi stefnandi kröfur sínar á því að hafi hún verið greind fyrr hafi mátt koma í veg fyrir heilsutjón hennar. Jafnframt því að árétta fyrri málsástæður stefnda sem að þessu lúti, sé á því byggt að af hálfu stefnanda hafi engin læknisfræðileg rök eða gögn verið færð fram um þessa staðhæfingu. Í stefnu sé ekki reynt að renna stoðum undir þá staðhæfingu að ,,með réttri sjúkdómsgreiningu og viðeigandi meðferð vegna lifrarbólgu, strax árið 1993 hefði verið hægt að koma í veg fyrir þá löngu og ströngu sjúkdómsgreiningu sem hún hefur þurf að ganga”. Stefnandi byggi á því að sú töf sem hafi orðið á viðeigandi meðferð við lifrarbólgusmitinu hafi valdið henni andlegu og líkamlegu tjóni sem hægt hefði verið að koma í veg fyrir með réttum viðbrögðum. Enginn rökstuðningur eða sönnun liggi fyrir til að styðja þessar fullyrðingar og ekki reynt að útskýra hvað við sé átt með ,,réttri sjúkdómsgreiningu”, ,,viðeigandi meðferð” eða ,,réttum viðbrögðum”. Engin stoð sé fyrir því í málinu að stefnandi hafi fengið ranga sjúkdómsgreiningu. Eins og stefndi byggi á sé því mótmælt að nokkur töf hafi orðið á viðeigandi meðferð, réttum viðbrögðum eða tiltækri meðferð vegna sjúkdómsins. Hafi engin meðferðarúrræði komið til sögunnar fyrr en á árinu 1999 og hafi stefnandi verið ein af þeim fyrstu sem þá hafi sérstaklega verið kölluð til meðferðar. Telji stefndi því ósannað og rangt að framvinda sjúkdóms hennar hefði orðið á annan veg ef meðferð hefði verið önnur. Stefndi byggi einnig á í þessu sambandi að stefnandi hafi verið þjáð af mörgum öðrum sjúkdómum og því ósannað að andleg heilsufarsvandamál geti verið að rekja til sjúkdómsins án þess að hún vissi um hann, en engar rannsóknir styðji að þunglyndi stafi af lifrarbólgu þegar þannig standi á.
Um málsástæður stefndu að þessu leyti liggi fyrir dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 24. nóvember 2003 í málinu nr. E-3140/2002 en hann hafi, auk héraðsdómara, skipað tveir sérfróðir meðdómendur. Hafi verið tekin afstaða til þess meðal annars að læknismeðferð við sams konar smiti og sjúkdómi, lifrarbólgu C, hafi ekki verið tiltæk á árinu 1993 eða að upplýsingar um mótefni í blóði (stefnanda þess máls) hafi nýst honum eða dregið úr þeim einkennum sem hann hafi haft vegna sýkingarinnar. Hafi dómurinn talið að þótt honum hafi ekki verið skýrt frá niðurstöðu rannsóknarinnar á árinu 1993, sem umdeilt hafi verið í málinu og stefndi bar hallan af, hafi það hvorki leitt til tjóns eða miska fyrir hann. Hafi því ekki verið talin fyrir hendi skilyrði bótaskyldu. Í málinu hafi einnig verið lagt til grundvallar að ekki hafi verið unnt að koma í veg fyrir smitið á árinu 1990 enda ekki tæk þekking eða tækni til þess á þeim tíma. Um þessi sérfræðilegu atriði og einkum það fyrrnefnda, að ókleift hafi verið að koma í veg fyrir heilsutjón af samsvarandi völdum árið 1993, allt að einu, hafi dómurinn sönnunargildi samkvæmt 4. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991, sem stefnandi þessa máls hafi ekki hrakið. Stefndi ítreki þó að stefnandi í þessu máli hafi vitað um niðurstöðu rannsóknarinnar og tilefni hennar á árinu 1993 og sé það sjálfstætt úrlausnarefni í málinu ótruflað af réttaráhrifum hins tilvitnaða dóms.
Þótt miskabótakrafa stefnanda sé að mati stefnda ekki skýrlega rökstudd sé henni efnislega mótmælt með vísan til sömu röksemda og fyrr. Telji stefndi í engu uppfyllt skilyrði 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sem gilt hafi fyrir gildistöku skaðabótalaga nr. 50/1993, né ákvæði 26. gr. laga nr. 50/1993, en á þessum heimildum sé byggt. Fram komi í stefnu að stefnandi hafi verið til meðferðar hjá geðlækni vegna alvarlegra og andlegra kvilla sem fylgt hafi lifrarbólgusmitinu, þrátt fyrir að ekki hafi verið vitað um það fyrr en á árinu 1999. Stefndi leyfi sér að efast um að geðrænir erfiðleikar hafi skapast á þessum tíma vegna lifrarbólgusmitsins, þ.e. fyrir árið 1999, ef stefnandi hafi ekki vitað af því fyrr en eftir þann tíma. Hvað sem því líði megi fremur ætla að andleg áþján hafi orðið meiri við það að frétta af smitinu þegar á árinu 1993, en hún byggi hins vegar á því að saknæm mistök hafi verið að það var ekki gert. Ef sannist að stefnandi hafi í engu vitað um lifrarbólgusmitið fyrr en árið 1999 megi með réttu halda því fram að meira áfall hafi verið að vita um smitið fyrr þar sem engin lækning eða úrræði hafi verið fyrir hendi. Illskárra hafi þá verið að vita fyrst um smitið og sjúkdóminn þegar vonir um meðferð hafi komið fram. Eigi það við um alla þá þætti sem stefnandi nefni og óraunhæft að byggja miskabótakröfu á hugleiðingum stefnanda um það hvað hefði getað komið fyrir gifta konu á barneignaaldri. Þá liggi fyrir að stefnanda hafi verið gerð grein fyrir líkum á því að smit gæti borist til maka og að þær væru í raun sáralitlar. Rökstuðningur fyrir miskabótakröfu sé, hvað sem öðru líði, mótsagnakenndur og ekki lagaskilyrði fyrir þeirri kröfu. Stefnandi byggi ekki kröfur sínar á því að smitið sjálft hafi leitt til bótaskyldu, en hún hafi sérstaklega tekið fram í fyrra máli sínu gegn stefnda að stefndi hafi ekki, miðað við þekkingu og tækni þess tíma, getað komið í veg fyrir smitið. Rökstuðningur fyrir miskabótakröfum sé því óraunhæfur og sé honum mótmælt.
Stefndi byggi á því að krafa stefnanda sé fallin niður fyrir fyrningu þar sem einsýnt sé að stefnandi hafi vitað af hverju hún hafi verið kölluð til rannsóknar á árinu 1993, en hún byggi á því að tjóni hennar hafi verið valdið á því ári. Telji stefndi einnig ljóst að hún hafi vitað um rannsóknina, tilefni hennar og niðurstöður. Eigi því ekki við tímamark 1. mgr. 5. gr. laga nr. 14/1905 án þann hátt sem stefnandi byggi á. Þá sé því mótmælt að bréf heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis til ríkislögmanns megi skoða sem loforð um að bera ekki fyrir sig fyrningu í þessu máli. Einnig sé því mótmælt að stefndi hafi viðurkennt bótaskyldu með greiðslu á grundvelli sérstakrar fjárlagaheimildar, en greiðsla sú hafi verið sérstaks eðlis án viðurkenningar á bótaskyldu samkvæmt almennum reglum. Hafi verið um að ræða sérstaka heimild upp að hámarki og fallið frá fyrningu aðeins vegna þeirrar greiðslu sem fram hafi farið. Málsókn stefnanda nú byggi auk þess á öðrum atvikum og málsástæðum. Sé því á því byggt að kröfur stefnanda séu niður fallnar fyrir fyrningu þar sem meira en tíu ár séu liðin frá þeim tíma er stefnandi telji hinn bótaskylda atburð hafa orðið uns málið hafi verið höfðað skv. 1. og 4. gr. laga nr. 14/1905.
Stefndi mótmæli framlögðu örorkumati sem of háu og jafnframt á þeim grundvelli að stefnandi hafi verið þjökuð af öðrum sjúkdómum sem valdið hafi henni heilsutjóni. Ekki liggi fyrir gögn til ákvörðunar um það hver væru skilin þar á milli. Þá sé örorkutjónsútreikningi mótmælt sem grundvelli að ákvörðun um bótaskyldu í málinu. Engin bótakrafa eða rökstuðningur liggi fyrir í samræmi við ákvæði skaðabótalaga þótt stefnandi virðist byggja á að tjónsatburður hafi komið fram eftir gildistöku þeirra.
Stefndi byggi einnig á því að þrátt fyrir framsetningu stefnanda á kröfum sínum telji stefndi nauðsynlegt til öryggis að draga fram í meginatriðum málsástæður sem varða myndun lækkun á kröfum stefnanda. Komi þar fram að ef á bótaskyldu yrði fallist yrði það að frádregnum bótum sem hún eigi rétt á frá almannatryggingum sem hún hafi þegar fengið og muni fá og einnig þeim bótum sem hún hafi fengið greiddar á grundvelli sérstakrar heimildar í fjárlögum að fjárhæð 5.526.623 krónur.
Um málskostnað vísar stefndi til XXI. kafla laga nr. 91/1991.
Niðurstaða:
Stefnandi var til meðferðar á Landspítala háskólasjúkrahúsi, þá Ríkisspítalar, í septembermánuði 1990, vegna nýrnasjúkdóms er hún átti þá við að stríða. Fékk hún þá endurteknar blóðgjafir vegna sjúkdómsins, sem voru henni lífsnauðsynlegar. Smitaðist stefnandi við þessar blóðgjafir af lifrarbólgu C úr sýktri blóðeiningu er hún fékk.
Á haustmánuðum 1993 vann Sigurður B. Þorsteinsson smitsjúkdómalæknir, ásamt nemum í læknisfræði, að rannsókn á Landspítala sem fólst í því að skimaðar voru afturvirkt blóðgjafir hjá Blóðbankanum. Kom þá í ljós að 9 blóðeiningar reyndust hafa lifrarbólgu C mótefni. Í kjölfarið var sannreynt að alls 63 blóðeiningar af sýktu blóði hefðu verið í umferð. Hefur stefndi miðað við að tekist hafi að finna 24 einstaklinga sem sannanlega hafi fengið sýkta blóðeiningu. Af þeim hafi 21 reynst sýktir af lifrarbólgu C.
Fram er komið í máli þessu, sem einnig var slegið föstu í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 24. nóvember 2003 í málinu nr. E-3140/2002, að eftir að tekið var að skima fyrir lifrarbólgu C hafi árangur af meðferð við sjúkdóminum verið lélegur. Það hafi ekki verið fyrr en á árunum 1998 til 1999 að niðurstöður af samsettri meðferð með lyfjunum alfa interferon og ribavirín hafi gefið til kynna að a.m.k. hluta af sjúklingum sem smitaðir væru af lifrarbólgu C væri unnt að lækna með því að gefa þeim umrædd lyf. Þessi atriði komu fram hér fyrir dóminum hjá Sigurði B. Þorsteinssyni, auk þess sem hann hefur gert grein fyrir þessu í bréfi til aðstoðarlækningaforstjóra Landspítala háskólasjúkrahúss 28. september 2005. Þá kom einnig fram hjá Sigurði hér fyrir dómi að í seinni tíð væri árangur orðinn enn betri með því að lyfjameðferð væri nú reynd á fyrri stigum sjúkdómsins en áður. Stefndi hefur haldið fram, og miðar þar við staðhæfingar Sigurðar sem hann staðfesti hér fyrir dómi, að stefnandi hafi verið einn af fyrstu einstaklingunum er hafi fengið hina samsettu lyfjameðferð hér á landi. Stefnandi hefur miðað við að það hafi verið á fyrri hluta árs 1999. Fær það samrýmst málstað stefnda. Hefur stefndi fullyrt að stefnanda hafi upp frá því verið veitt öll sú læknis- og lyfjameðferð er völ hafi verið á. Hefur stefnandi ekki gert tilraun til að hrekja þá fullyrðingu stefnda. Hefur stefnandi því ekki hnekkt þeirri fullyrðingu stefnda, sem lögð verður til grundvallar niðurstöðu, að stefndi hafi leitað allra leiða til að sinna sjúkdómi stefnanda sem best, eftir að tæk læknismeðferð kom til sögunnar. Þegar þessi atriði eru virt er það niðurstaða dómsins að stefndi hafi ekki bakað sér skaðabótaskyldu vegna þess atburðar er stefnandi fékk sýkta blóðeiningu á árinu 1990, eða vegna eftirfarandi læknismeðferðar á sjúkdómi stefnanda, sem leiði til fjárhagslegs tjóns fyrir stefnanda.
Hér fyrir dóminum hefur stefnandi einkum byggt mál sitt á því að stefnanda hafi ekki verið gerð grein fyrir niðurstöðum um sýkingu fyrr en í kjölfar rannsóknar á sýnum úr lifur er tekin hafi verið 31. mars 1999. Stefnandi hafi því enga vitneskju haft um smit sitt eftir að niðurstöður lágu fyrir á árinu 1993. Allt frá árinu 1992 hafi andleg líðan stefnanda verið mjög slæm, sem megi einkum rekja til þess að ekki hafi fundist nein skýring á veikindum stefnanda. Stefndi hafi bakað sér bótaskyldu með því að gera stefnanda ekki grein fyrir niðurstöðum í kjölfar þess að þær lágu fyrir og eigi stefnandi rétt á miskabótum á þessum grundvelli. Stefndi byggir á því að stefnanda hafi verið tilkynnt um niðurstöðu um smit þegar á árinu 1993. Þó svo það hafi ekki verið baki það stefnda ekki bótaskyldu. Þá byggir stefndi á því að málsástæður stefnanda á þessum grundvelli komi ekki nægjanlega fram í stefnu.
Í málinu hafa verið lögð fram yfirgripsmikil læknisfræðileg gögn er varða stefnanda. Er sjúkraskrá stefnanda þar á meðal. Fram er komið að Magnús Böðvarsson læknir á Heilsugæslustöðinni í Mjódd hafi verið með stefnanda til meðferðar vegna nýrnasjúkdóms hennar. Hvergi er á árunum 1993 til 1999 fært í sjúkraskrá stefnanda að hún hafi verið greind með lifrarbólgu C, eða að tekið hafi verið úr henni sýni til að rannsaka slíkt smit. Þá er ekki færð í sjúkraskrá nein athugasemd er gefur til kynna að grunur hafi leikið á um að hún væri smituð af lifrarbólgu C. Sigurður B. Þorsteinsson gerði grein fyrir því hér fyrir dóminum að ekki væri tryggt að stefnanda hafi verið tilkynnt um niðurstöður rannsóknarinnar á árinu 1993. Hafi engin ákveðin regla verið um hvernig standa skyldi að slíku. Þegar til þessara atriða er litið verður sönnunarbyrði fyrir því hvort stefnanda hafi verið tilkynnt um smit á árinu 1993 lögð á stefnda og hefur honum ekki tekist sú sönnun. Verður því við það miðað að stefnanda hafi ekki fyrr en vorið 1999 verið gerð grein fyrir að hún hafi verið smituð af lifrarbólgu C. Þá er það mat dómsins að stefnandi hafi í stefnu nægjanlega gert grein fyrir þeim málstað sínum að krafist sé miskabóta úr hendi stefnda á þeim grundvelli að hún hafi beðið miska af því að hafa ekki verið látin vita um sjúkdóm sinn fyrr en á árinu 1999, sem leiði til bótaskyldu stefnda.
Þegar litið er til þess hvort stefnandi eigi rétt á miskabótum vegna ófjárhagslegs tjóns sem hún hafi orðið fyrir á þeim grundvelli að hafa ekki vitað um sjúkdóm sem hún sannanlega gekk með, verður í niðurstöðu að líta til athafna starfsmanna stefnda á þeim tíma er atburðir áttu sér stað. Á þeim tíma höfðu lög um réttindi sjúklinga, nr. 74/1997, ekki öðlast gildi, en með þeim lögum er sjúklingum tryggð tiltekin réttindi í réttarstöðu gagnvart heilbrigðisþjónustu. Í 5. gr. laganna er m.a. kveðið á um rétt sjúklinga til upplýsinga um heilsufar sitt.
Stefnanda hefur án nokkurs vafa skipt töluverðu máli þegar á árinu 1993 að vita af lifrarbólgusmiti sínu, en sjúkdómssögu stefnanda virðist a.m.k. að hluta til mega rekja til lifrarbólgusmitsins. Þannig greindist stefnandi með ýmis stoðkerfisvandamál, sem miðað við framburð Sigurðar B. Þorsteinssonar má sennilega að einhverju leyti rekja til smitsjúkdómsins. Þá hefur Pétur Hauksson geðlæknir gert grein fyrir því í læknisvottorði á dskj. nr. 10 að farið hafi að bera á þunglyndi hjá stefnanda þegar farið hafi að líða á árið 1992. Hafi hún á næstu árum átt erfitt með að sætta sig við minnkandi færni og starfsorku og hafi virst sem skortur á skýringu ylli henni andlegri vanlíðan. Hafi hún því fengið geðdeyfðarlyf á tímabilum, með takmörkuðum árangri. Er í vottorðinu rakin líðan stefnanda þessi árin og næstu. Í vottorðinu kemur fram að stefnandi hafi átt erfitt með ýmis létt störf og hafi hún hætt þeim þegar lifrarbólga hafi greinst 1999. Hafi meðferð við lifrarbólgunni í nokkra mánuði enn aukið á þreytu og þeirri meðferð verið hætt er hún hafi reynst gagnslaus. Hún hafi ekki aukið þrek sitt og þegar vottorðið sé ritað 28. nóvember 2000 hafi lítil breyting orðið á heilsu hennar. Þunglyndi sæki enn á stefnanda og hún orðið að taka geðdeyfðarlyf að staðaldri.
Til þess er að líta að árin 1993 til 1999 var ekki til staðar árangursrík aðferð við að lækna lifrarbólgusmit af C stofni. Á þeim árum var vitund lækna og annarra í heilbrigðisþjónustu einnig nokkuð frábrugðin því sem nú er. Var þannig t.a.m. talið að lifrarbólga gæti smitast eftir leiðum, sem nú er almennt talið að beri ekki smit. Í því ljósi má halda því fram að andleg líðan stefnanda kynni að hafa orðið verri ef henni hefði verið gerð grein fyrir smitinu á árinu 1993, þegar engin raunveruleg lækning var til.
Stefnandi hefur ekki gert tilraun til að sanna miskatjón sitt þar sem dómkröfur hennar í málinu lúta að viðurkenningu á bótaskyldu. Má við það una. Það er afstaða dómsins að það hafi almennt verið viðurkennd regla á árinu 1993 að gera sjúklingum grein fyrir veikindum sínum. Var sú regla síðar leidd í lög. Stefnandi hafði þá greinst með sjúkdóm sem þá var talinn hættulegri en nú er álitið, þó svo enn sé talin ákveðin hætta á að lifrarbólga C geti smitast milli einstaklinga. Um það bar Sigurður B. Þorsteinsson hér fyrir dóminum. Þess þá heldur var mikilvægt að greina stefnanda frá sjúkdóminum. Er það því niðurstaða dómsins að starfsmönnum stefnda hafi borið að gera stefnanda grein fyrir sjúkdómi sínum á árinu 1993 og megi virða það stefnda til sakar að því marki sem það snertir miska stefnanda. Þegar litið er til þess sem fram kemur í læknisvottorði Péturs Haukssonar geðlæknis á dskj. nr. 10 má ljóst vera að þunglyndi stefnanda megi a.m.k. að einhverju leyti rekja til óvissu um skýringu á líðan. Þó svo þunglyndið hafi enn verið til staðar í lok árs 2000, liggur grundvöllur þess ótvírætt framar í tíma. Er einhver miski því til staðar hjá stefnanda vegna háttsemi stefnda. Svo sem stefnandi hagar kröfugerð sinni er ekki ástæða til að víkja frekar að því atriði í þessu máli.
Krafa stefnanda fyrnist á 10 árum samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 14/1905. Upphaf fyrningarfrests miðast almennt við tímamark þegar tjón verður, enda stofnast krafan þá, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 14/1905. Í þessu máli kom tjón stefnanda fram eftir að stefnanda var gefið hið sýkta blóð sem leiddi til langvarandi veikinda og einhverra stoðkerfisvandamála. Áður hefur verið slegið föstu að stefnanda var smitið fyrst ljóst í mars árið 1999 og hófst þá meðferð sjúkdómsins af hálfu heilbrigðisyfirvalda. Er rétt að miða fyrningarfrest við lok mars mánaðar 1999, svo sem stefnandi byggir á. Er krafa stefnanda því ekki fyrnd.
Í samræmi við niðurstöðu málsins greiði stefndi stefnanda 220.000 krónur í málskostnað. Gjafsóknarkostnaður stefnanda, sem bundinn er hámarki samkvæmt gjafsóknarleyfi, greiðist úr ríkissjóði eins og nánar greinir í dómsorði.
Af hálfu stefnanda flutti málið Dögg Pálsdóttir hæstaréttarlögmaður, en af hálfu stefnda Einar Karl Hallvarðsson hæstaréttarlögmaður.
Dóminn kveða upp Símon Sigvaldason héraðsdómari, sem dómsformaður og meðdómsmennirnir Guðmundur Pétursson og Guðrún Agnarsdóttir læknar.
D ó m s o r ð:
Viðurkennd er bótaskylda stefnda, íslenska ríkisins, vegna Landspítala háskólasjúkrahúss vegna þess tjóns sem stefnandi, Nanna V. Westerlund, varð fyrir vegna athafnaleysis starfsmanna Landspítala háskólasjúkrahúss eftir greiningu á lifrarbólgu C á árinu 1993, sem hún hafði smitast af við blóðgjöf á spítalanum árið 1990.
Stefndi greiði stefnanda 220.000 krónur í málskostnað. Málflutningsþóknun lögmanns stefnanda, að fjárhæð 200.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði sem gjafsóknarkostnaður.