Hæstiréttur íslands
Mál nr. 278/1999
Lykilorð
- Opinberir starfsmenn
- Dómari
- Laun
|
|
Fimmtudaginn 9. desember 1999. |
|
Nr. 278/1999. |
Þorsteinn Skúlason (Gunnar Sæmundsson hrl.) gegn íslenska ríkinu (Jón G. Tómasson hrl.) |
Opinberir starfsmenn. Dómarar. Laun.
Þ var skipaður héraðsdómari við embætti bæjarfógetans á Selfossi og sýslumannsins í Árnessýslu árið 1989. Vegna starfsloka Þ sem héraðsdómara og ráðningar hans til starfa við embætti lögreglustjóra staðfesti dómsmálaráðuneytið haustið 1991, að samkomulag hefði orðið um að föst laun Þ yrðu samkvæmt 149. flokki, 8. þrepi, en þau kjör voru þá að minnsta kosti jafngild þeim launum sem héraðsdómarar höfðu. Þ hélt því fram, að gerður hefði verið við hann munnlegur samningur um að laun hans skyldu til frambúðar jafngilda launum héraðsdómara. Talið var, að skipan og kjör dómara hlytu meðal annars að taka mið af kröfu um sjálfstæði dómstóla, en samkvæmt gögnum málsins væru þau störf sem Þ hefðu verið falin hjá lögreglustjóraembættinu ólík störfum héraðsdómara. Yrðu því að teljast líkur gegn því að samið hefði verið um það við áfrýjanda, að laun hans fyrir þau störf skyldu framvegis fylgja launum héraðsdómara. Gegn mótmælum Í og með stuðningi af framburði þeirra sem sömdu við Þ þótti hann ekki hafa sannað, að laun hans hefðu til frambúðar átt að jafngilda þessum launum. Var því staðfest niðurstaða héraðsdóms um að hafna kröfum Þ á hendur Í.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Hjörtur Torfason og Hrafn Bragason.
Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar með stefnu 13. júlí 1999. Hann krefst þess að stefndi greiði 3.377.737 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. júní 1994 til greiðsludags af þeim fjárhæðum sem nánar greinir í héraðsdómi. Þá krefst hann viðurkenningar á því að hann eigi frá 1. júní 1998 til starfsloka hjá íslenska ríkinu rétt á launum sem jafngildi á hverjum tíma launum héraðsdómara. Loks krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Þá gerir hann varakröfu um lækkun dómkröfunnar.
Áfrýjandi reisir mál sitt á því að hann hafi verið til þess fenginn að afsala sér héraðsdómaraembætti árið 1991. Hafi þá verið gerður við hann munnlegur samningur um að laun hans skyldu til frambúðar jafngilda launum héraðsdómara. Samningur þessi hafi verið gerður af þar til bærum aðilum og sé skuldbindandi fyrir stefnda. Jafnframt er á því byggt að samkvæmt grunnreglu 19. gr. laga nr. 38/1954, sem þá giltu um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, hafi verið óheimilt að skerða launakjör áfrýjanda við þessar aðstæður.
Af gögnum málsins verður ráðið að áfrýjandi hafi fallist á að skipta um starf í þjónustu ríkisins. Í bréfi dómsmálaráðuneytis 28. nóvember 1991, sem skrifað er vegna starfsloka hans sem héraðsdómara og ráðningar til nýs starfa, kemur fram að samkomulag hafi orðið milli ráðuneytisins, lögreglustjórans í Reykjavík og áfrýjanda um að föst laun hins síðastnefnda yrðu samkvæmt 149. flokki, 8. þrepi. Yfirvinna skyldi að jafnaði vera 65 klst. á mánuði og bifreiðaafnot skyldu miðast við 5000 km akstur á ári. Því er ekki mótmælt að þessi kjör voru að minnsta kosti jafngild þeim launum sem héraðsdómarar höfðu á þessum tíma. Í bréfinu er ekki á það minnst að við laun héraðsdómara sé miðað eða svo eigi að gera í framtíðinni.
Samkvæmt drögum af ráðningarsamningi, sem áfrýjandi ritaði undir 4. desember 1991, var hann ráðinn við lögreglustjóraembættið í Reykjavík með gagnkvæmum uppsagnarfresti frá 1. nóvember 1991 að telja. Héraðsdómarar eru hins vegar skipaðir til starfa sinna og um ákvörðun launa þeirra fer einnig á ólíkan hátt. Skipun þeirra og kjör hljóta meðal annars að taka mið af kröfu um sjálfstæði dómstólanna. Samkvæmt gögnum málsins eru þau störf sem áfrýjanda hafa verið falin hjá lögreglustjóraembættinu ólík störfum héraðsdómara. Það verða því að teljast líkur gegn því að samið hafi verið um það við áfrýjanda að laun hans fyrir þau störf skyldu framvegis fylgja launum héraðsdómara. Gegn mótmælum stefnda og með stuðningi af framburði þeirra sem sömdu við áfrýjanda þykir hann ekki hafa sannað að laun hans hafi til frambúðar átt að jafngilda þessum launum.
Samkvæmt framanskráðu verður héraðsdómur staðfestur um annað en málskostnað.
Rétt er að málskostnaður í héraði falli niður en áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.
Málskostnaður í héraði fellur niður.
Áfrýjandi, Þorsteinn Skúlason, greiði stefnda, íslenska ríkinu, 150.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. apríl 1999.
Mál þetta, sem dómtekið var 12. mars sl., er höfðað með stefnu áritaðri um birtingu 29. maí 1998 af Þorsteini Skúlasyni, Hjarðarhaga 26, Reykjavík gegn íslenska ríkinu til greiðslu vangreiddra launa að fjárhæð kr. 3.377.737 krónur auk dráttarvaxta og kostnaðar.
Dómkröfur
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 3.377.737 kr. með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, af 348.318 kr. frá 1. júní 1994 til 1. júlí s.á., af 408.490 kr. frá þeim degi til 1. ágúst s.á., af 468.662 kr. frá þeim degi til 1. september s.á., af 528.834 kr. frá þeim degi til 1. október s.á., af 589.006 kr. frá þeim degi til 1. nóvember s.á., af 649.078 kr. frá þeim degi til 1. desember s.á., af 637.374 kr. frá þeim degi til 1. janúar 1995, af 787.204 kr. frá þeim degi til 1. febrúar s.á., af 847.276 kr. frá þeim degi til 1. mars s.á., af 907.348 kr. frá þeim degi til 1. apríl s.á., af 967.420 kr. frá þeim degi til 1. maí s.á., af 1.027.492 kr. frá þeim degi til 1. júní s.á., af 1.079.564 kr. frá þeim degi til júlí s.á., af 1.139.636 kr. frá þeim degi til 1. ágúst s.á., af 1.199.708 frá þeim degi til 1. september s.á., af 1.284.147 kr. frá þeim degi til 1. október s.á., af 1.354.102 kr. frá þeim degi til 1. nóvember s.á., af 1.432.899 kr. frá þeim degi til 1. desember s.á., af 1.420.102 kr. frá þeim degi til. 1. janúar 1996, af 1.580.913 kr. frá þeim degi til 1. febrúar s.á., af 1.655.783 kr. frá þeim degi til 1. mars s.á., af 1.702.438 kr. frá þeim degi til 1. apríl s.á., af 1.771.650 kr. frá þeim degi til 1. maí s.á., af 1.840.862 kr. frá þeim degi til 1. júní s.á., af 1.902.074 kr. frá þeim degi til 1. júlí s.á., af 1.971.286 kr. frá þeim degi til 1. ágúst s.á., af 2.040.498 kr. frá þeim degi til 1. september s.á., af 2.109.710 kr. frá þeim degi til 1. október s.á., af 2.178.922 kr. frá þeim degi til 1. nóvember s.á., af 2.248.134 kr. frá þeim degi til 1. desember s.á., af 2.233.747 kr. frá þeim degi til 1. janúar 1997, af 2.394.558 kr. frá þeim degi til 1. febrúar s.á., af 2.463.770 kr. frá þeim degi til 1. mars s.á., af 2.532.982 kr. frá þeim degi til 1. apríl s.á., af 2.652.729 kr. frá þeim degi til 1. maí s.á., af 2.772.476 kr. frá þeim degi til 1. júní s.á, af 2.817.174 kr. frá þeim degi til 1. júlí s.á., af 2.885.860 kr. frá þeim degi til 1. ágúst s.á., af 2.995.661 kr. frá þeim degi til 2. september s.á., af 3.105.462 kr. frá þeim degi til 1. október s.á., af 3.174.148 kr. frá þeim degi til 1. nóvember s.á., af 3.283.949 kr. frá þeim degi til 1. desember s.á., af 3.265.381 kr. frá þeim degi til 1. janúar 1998, af 3.484.341 kr. frá þeim degi til 1. febrúar s.á., af 3.547.330 kr. frá þeim degi til 1. mars s.á., af 3.670.387 kr. frá þeim degi til 1. apríl s.á., af 3.752.329 kr. frá þeim degi til 1. maí s.á., af 3.884.186 kr. frá þeim degi til 19. júní s.á. og af 3.377.737 kr. frá þeim degi til greiðsludags. Þess er krafist að dráttarvextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti í fyrsta skipti 1. júní 1995. Þá er krafist viðurkenningar á því að stefnandi eigi frá 1. júní 1998 til starfsloka hjá íslenska ríkinu rétt á launum sem jafngildi á hverjum tíma launum héraðsdómara. Loks er krafist málskostnaðar að mati réttarins að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.
Dómkröfur stefnda eru þær að stefndi verði sýknaður af kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða málskostnað eftir mati réttarins. Til vara er gerð krafa um verulega lækkun stefnufjárhæðar.
Málavextir
Stefnandi varð cand. juris frá Háskóla Íslands 10. febrúar 1968 með 1. einkunn 204½ stigi. Hann nam norskt réttarfar í opinberum málum og sakfræði við Oslóarháskóla 1968-1969. Áður hafði hann stundað nám við lagadeild Glasgow University í Skotlandi á árinu 1967. Hann var fulltrúi hjá sýslumanninum í Árnessýslu frá 15. febrúar til 1. september 1968 og síðan fulltrúi hjá yfirborgarfógetanum í Reykjavík frá 11. september 1969 og var veitt skipun frá 28. febrúar 1973 til að vinna á eigin ábyrgð við embættið skv. lögum nr. 74/1972. Stefnandi var skipaður bæjarfógeti í Neskaupstað 30. janúar 1978 frá 1. febrúar s.á. Frá 1. febrúar 1988 var hann settur héraðsdómari við embætti bæjarfógetans á Selfossi og sýslumannsins í Árnessýslu og skipaður héraðsdómari þar 12. janúar 1989 frá l. febrúar s.á.
Skömmu áður en umsóknarfrestur um það starf rann út kveður stefnandi Þorstein Geirsson ráðuneytisstjóra hafa hringt í sig og spurt hvort hann vildi ekki héraðsdómaraembætti hjá bæjarfógetanum í Keflavík, Grindavík og Njarðvík og sýslumanninum í Gullbringusýslu sem auglýst hafði verið laust á sama tíma. Stefnandi kveðst hafa talið rétt að halda sig við það embætti sem hann hafði sótt um og hefði þetta ekki verið rætt frekar. Að morgni fyrsta vinnudags í febrúar 1988 segir hann sýslumanninn á Selfossi hafa hringt í sig austur á Neskaupstað og spurt hvort hann færi ekki að koma, þrátt fyrir að honum hefði mátt vera kunnugt um að ráðuneytið hafði heimilað að hann yrði fram í miðjan febrúar á Neskaupstað að búa embættið í hendur eftirmanni sínum.
Er stefnandi kom til starfa á Selfossi kveður hann 30 munnlega flutt mál hafa verið óafgreidd en þá hafði verið dómaralaust þar í þrjá mánuði. Haustið 1989, er stefnandi kom úr sumarleyfi, kveður hann þess hafa verið óskað af dómsmálaráðuneytinu að hann tæki sér veikindaleyfi en hann hafði þá um skeið verið slæmur í maga. Farið hafi verið fram á að hann tæki sér þriggja mánaða leyfi frá 15. september til 15. desember og átti hann að útvega læknisvottorð. Ekki kveðst stefnandi hafa beðið um þetta leyfi og í raun hafi engin þörf verið á því. Læknir sá sem hann leitaði til, Frosti Sigurjónsson, hefði ekki talið þörf á fríi og verið illa við að gefa út vottorð en hafi látið tilleiðast eftir símtal við dómsmálaráðuneytið. Þegar stefnandi skyldi hefja störf á ný þann 15. desember kveður hann aðstoðarmann ráðherra, Sigurð Jónsson, hafa talið óráðlegt að hann tæki aftur til starfa við embættið á Selfossi og hefði verið ákveðið að framlengja leyfið meðan annað starf væri fundið handa honum og hafi í því sambandi verið talað um saksóknarastöðu. Stefnandi kveðst hafa útvegað annað vottorð sem læknirinn gaf út eftir samráð við ráðuneytið. Þannig kveður hann veikindaleyfið hafa verið framlengt oftar en einu sinni, allt til 15. september 1990, er lög heimiluðu ekki frekari lengingu þess. Stefnandi kveðst þá hafa óskað eftir launalausu leyfi þar sem hann taldi að erfitt gæti reynst að starfa á Selfossi þar sem hans var greinilega ekki óskað.
Nálægt miðjum apríl 1991 hóf stefnandi störf hjá lögreglustjóraembættinu í Reykjavík þar sem hann hefur starfað síðan sem lögfræðingur. Hann hafði þá verið launalaus frá því í nóvember 1990 og kveðst hafa orðið að afla sér einhverra tekna. Starfið kveðst hann hafa fengið fyrir milligöngu Friðjóns Guðröðarsonar, sýslumanns á Hvolsvelli, en ekki að frumkvæði ráðuneytisins. Þann 15. ágúst 1991 kveðst hann svo hafa tilkynnt ráðuneytinu, að gefnu tilefni, að hann mundi hefja störf að nýju á Selfossi þegar launalausu leyfi hans lyki þann 15. september. Með bréfi dags. 27. ágúst óskaði ráðuneytið eftir að hann frestaði þeirri ráðstöfun. Í september 1991 fékk hann bréf frá ráðuneytinu dags. 9. þess mánaðar þar sem spurst var fyrir um það hvort hann óskaði að njóta forgangs við skipun dómara við héraðsdóm Suðurlands frá og með 1. júlí 1992 á grundvelli 2. mgr. 18. gr. laga nr. 92/1989 og tilkynnti hann ráðuneytinu með bréfi dags. 30. s.m. að hann óskaði þess. Þetta sama haust var svo gerður þríhliða samningur milli stefnanda, dómsmálaráðuneytisins og lögreglustjórans í Reykjavík. Efni samningsins kveður stefnandi hafa verið það að hann afsalaði sér héraðsdómarastarfi en tæki við starfi lögfræðings við embætti lögreglustjórans í Reykjavík sem hann gegndi þá þegar. Hann kveður það hafa verið forsendu af sinni hálfu við umrædda samningsgerð að hann lækkaði ekki í launum við þessa ráðstöfun. Á það kveður hann ráðuneytisstjóra dómsmálaráðuneytisins og aðstoðarmann ráðherra hafa fallist og hafi ráðuneytisstjórinn reiknað út launakjör sem jafngiltu á þeim tíma launum héraðsdómara. Stefnandi kveðst hafa viljað ganga frá því skriflega að laun hans yrðu jafnhá dómaralaunum til frambúðar en ráðuneytisstjórinn hafi talið það óþarft, laun hans mundu hækka sjálfkrafa í samræmi við dómaralaun og engar horfur væru á að dómaralaun myndu hækka meira en önnur laun. Sú hafi hins vegar orðið raunin og er mismunur var orðinn verulegur kveðst stefnandi ítrekað hafa leitað eftir leiðréttingu en án árangurs.
Málsástæður stefnanda og lagarök
Meginmálsástæður sínar kveður stefnandi þær að gerður hafi verið við hann samningur um laun sem jafngiltu launum héraðsdómara, af þar til bærum aðilum, og sá samningur sé skuldbindandi fyrir stefnda. Jafnframt er á því byggt að samkvæmt grunnreglu 19. gr. laga nr. 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins hafi verið óheimilt að skerða launakjör hans er honum var bolað úr starfi héraðsdómara án sakar.
Til grundvallar útreikningi kröfugerðar séu annars vegar lögð greidd laun stefnanda í starfi hans við lögreglustjóraembættið, þ.e. heildarlaun að frádregnum endurgreiddum símakostnaði og greiðslu fyrir notkun hans á eigin bifreið í þágu embættisins frá 1. júlí 1992, 2000 km akstur á ári, og hins vegar laun héraðsdómara eins og þau hafa verið á hverjum tíma samkvæmt upplýsingum fjármálaráðuneytisins. Lagt sé til grundvallar að launakrafa fyrnist ekki meðan launþegi er í starfi hjá launagreiðanda, sbr. 1. tölulið 3. gr, laga nr. 14/1905, en jafnframt á því byggt að óeðlilegt væri að íslenska ríkið bæri fyrir sig fyrningu á hluta kröfunnar þar sem dómsmálaráðuneytinu hafi verið fullkunnugt um hana löngu áður en fjögur ár voru liðin frá gjalddaga elsta hluta hennar. Vextir séu reiknaðir frá 1. júní 1994 vegna ákvæða 2. töluliðs 3. gr. tilvitnaðra laga.
Tilvísun til helstu lagaákvæða og réttarreglna:
Stefnandi vísar til meginreglna samningaréttarins um skuldbindingargildi samninga, 19. gr. og 20. gr. laga nr. 38/1954 og 3. gr. laga nr. 14/1905 hvað launakröfuna varðar. Krafa um dráttarvexti og vaxtavexti er byggð á III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, krafa um málskostnað á 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga. nr. 91/1991 um meðferð einkamála og krafan um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun á 3. gr. og 11. gr. sbr. 14. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.
Málsástæður stefnda og lagarök
Stefndi kveður málatilbúnað stefnanda ekki verða skilinn á annan veg en þann að dómsmálaráðuneytið hafi gert við hann samning um að stefnandi skyldi um ótilgreinda framtíð halda launum sem jafngiltu launum héraðsdómara, en úr starfi héraðsdómara hafi honum verið bolað án sakar. Ekki leggi stefnandi fram nein gögn þessum staðhæfingum sínum til stuðnings, hvorki tilvitnaðan "samning" eða önnur gögn, sem styðji túlkun hans á samningnum, né heldur neitt til sönnunar því að honum hafi verið "bolað" úr starfi héraðsdómara, enda er þessum staðhæfingum stefnanda mótmælt sem röngum og ósönnuðum.
Þá er því haldið fram í stefnu að dómsmálaráðuneytið hafi átt frumkvæði að því, að stefnandi hafi farið í veikindaleyfi í september 1989. Þessari staðhæfingu mótmælti ráðuneytið þegar í bréfi 8. nóvember 1990, sbr. dskj. nr. 5, en það hafi verið á grundvelli veikindavottorða, sem stefnandi hafi útvegað sjálfur, að honum hafi verið veitt áframhaldandi veikindaleyfi. Í niðurlagi bréfsins sé lagt fyrir stefnanda "að mæta til starfa tafarlaust". Að ósk stefnanda hafi honum síðan verið veitt launalaust leyfi, sbr. dskj. nr. 51 og 52.
Af hálfu dómsmálaráðuneytisins hafi enginn steinn verið lagður í götu stefnanda til að hann gæti hafið störf að nýju haustið 1990 eftir árs veikindaleyfi og starfsmenn sýslumannsembættisins á Selfossi hafi reiknað með því að hann hæfi störf að nýju eftir veikindaleyfið, sbr. dskj. nr. 49 og 50.
Án þess að draga í efa hæfi stefnanda eða kunnáttu hans á sviði lögfræðinnar virðist sem honum hafi þótt erfitt að gegna störfum dómara, þau hafi reynst honum streituvaldur. Virðist stefnandi hafa verið þeirrar skoðunar að fulltrúastaðan við lögreglustjóraembættið í Reykjavík, sem hann hefur gegnt frá apríl 1991, hafi hæft honum betur en dómarastarf. Í því efni vildi dómsmálaráðuneytið styðja við stefnanda og greiða götu hans og séu því ummæli í stefnu um að ráðuneytið hafi "bolað" stefnanda úr starfi héraðsdómara óverðskuldug og ósanngjörn. Eins og fram komi í bréfum á dskj. nr. 16 og 17 hafi stefnandi sjálfur óskað eftir lausn úr embætti héraðsdómara eftir að hann hafði gegnt fulltrúastarfinu við lögreglustjóraembættið í rúmt ár.
Samkomulagið, sem gert var við stefnanda um kaup og kjör í fulltrúastöðunni, hafi verið við það miðað, að stefnandi missti sem minnst í af launum frá sinni fyrri stöðu en samræmdist þó þeim kjörum sem aðrir löglærðir fulltrúar við lögreglustjóraembættið nutu. Því sé alfarið mótmælt af hálfu stefnda að samkomulaginu hafi fylgt loforð um að í framtíðinni myndu launakjör stefnanda fylgja dómaralaunum og hafi ósk um slíkt verið sett fram af hálfu stefnanda hafi henni beinlínis verið neitað. Þótt stefnanda kunni að hafa verið bent á að launakjör einstakra hópa ríkisstarfsmanna hafi almennt þróast með svipuðum hætti, hafi á engan hátt verið unnt að ábyrgjast að svo yrði um alla framtíð. Af hálfu stefnda sé einnig á það bent að þeir starfsmenn dómsmálaráðuneytisins sem fjallað hafi um launakjör stefnanda í nóvember 1991 hefðu ekki getað gert skuldbindandi samning eða samkomulag þess efnis sem stefnandi haldi nú fram.
Í bréfi stefnanda frá 29. mars 1995 á dskj. nr. 21 vísi hann til þess að launakjör hans hafi verið ákveðin með samkomulaginu frá 28. nóvember 1991 og óski eftir að þau verði "endurskoðuð". Í bréfinu sé ekki nefnt, að um vanefndir sé að ræða eða að stefnanda hafi verið lofað einhverju öðru en í samkomulaginu stendur. Felist í þessu viðurkenning af hálfu stefnanda sem sé í ósamræmi við fullyrðingar hans nú.
Dómkröfur stefnanda feli í raun í sér að hann eigi í starfi fulltrúa við embætti lögreglustjóra kröfu um greiðslu launa sem Kjaradómur ákveði héraðsdómurum hverju sinni. Meðal annars með hliðsjón af því að um sé að ræða mjög ólík störf að umfangi og ábyrgð sem eðlilega njóti ólíkra launakjara og annarra réttinda verði að telja slíka kröfugerð fjarri lagi.
Sýknukrafa stefnda sé byggð á þeim málsástæðum sem hér hafi verið raktar.
Um fjárhæð stefnukröfunnar.
Til vara krefst stefndi verulegrar lækkunar á stefnukröfunni og bendir í því sambandi á að launakröfur og vextir fyrnist á 4 árum, sbr. 2. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905. Af þeirri ástæðu sé öllum launa- og vaxtakröfum fyrir tímabilið nóvember 1991 til maí 1994 mótmælt sem fyrndum.
Samkvæmt dskj. nr. 54 og 55 sé mismunur á launakjörum stefnanda og héraðsdómara fyrir tímabilið 1. nóvember 1991 til 31. maí 1998 2.526.913 krónur, en stefnukrafan nemi 3.617.761 krónu. Af hálfu stefnda sé bent á þetta ósamræmi og því jafnframt mótmælt að til grundvallar á útreikningi kröfugerðar sé greiðsla fyrir notkun eigin bifreiðar dregin frá enda sé ljóst að af hálfu stefnanda hafi verið litið á þá greiðslu sem hluta launakjara.
Niðurstaða
Af hálfu stefnanda er á því byggt að haustið 1991, eftir að hann hóf störf sem fulltrúi lögreglustjóra, hafi verið gerður við hann samningur þess efnis að laun hans á hverjum tíma skyldu vera jafnhá dómaralaunum og skyldi sá samningur gilda til starfsloka stefnanda. Með hliðsjón af því að honum hafi verið bolað úr starfi án sakar, sem jafna megi til flutnings í starfi, hafi það og verið rétt og skylt, samkvæmt 4. mgr. 20. gr. stjórnarskrár, að gera slíkan samning við hann.
Enginn skriflegur samningur þessa efnis liggur fyrir en hins vegar liggur frammi í málinu ráðningarsamningur við stefnanda dags. 4. desember 1991 þar sem kveðið er á um að starf hans hjá Lögreglustjóranum í Reykjavík hefjist 1. nóvember 1991 og að laun hans skuli vera samkvæmt launaflokki 149-8. Ekki er þess getið að laun stefnanda skuli vera eins og laun héraðsdómara á hverjum tíma.
Með bréfi dags. 15. ágúst 1991 til dómsmálaráðuneytisins tilkynnti stefnandi að hann myndi hefja störf að nýju sem héraðsdómari á Selfossi er launalausu leyfi hans lyki 1. september 1991. Í bréfi ráðuneytisins dagsettu 27. ágúst var þess óskað að stefnandi frestaði þeirri ákvörðun þar til ráðrúm hefði gefist til þess að ræða betur málefni embættisins. Óskaði ráðuneytið eftir því að eiga fund með stefnanda fyrir lok september 1991. Jafnframt féllst ráðuneytið á að launalaust leyfi stefnanda framlengdist til 1. janúar 1992. Með bréfi til dómsmálaráðuneytisins dagsettu 29. ágúst 1991 féllst stefnandi á að fresta því um sinn að hefja starf að nýju sem héraðsdómari á Selfossi enda eigi hann fund með ráðuneytinu fyrir lok september.
Fyrir liggur að fundur þessi var haldinn og auk stefnanda sátu fundinn Þorsteinn Geirsson ráðneytisstjóri og Ari Edwald þáverandi aðstoðarmaður ráðherra. Gáfu þeir báðir skýrslu fyrir dómi.
Þorsteinn Geirsson bar fyrir dómi að á þessum fundi með stefnanda hefði náðst samkomulag um að stefnanda yrði, í starfi sínu hjá lögreglustjóra, tryggð laun sem væru mjög í námunda við laun héraðsdómara eins og þau voru þá, þó þannig að þau trufluðu ekki starfsvettvang hans hjá lögreglustjóraembættinu, þar sem margir lögfræðingar vinna, og röskuðu ekki jafnvægi á vinnustaðnum.
Stefnandi hafi síðar óskað endurskoðunar á hinum gamla launasamningi en því hafi verið hafnað og það rifjað upp að þessi samningur væri í samræmi við tilkynningu ráðuneytisins til lögreglustjóraembættisins og að samningurinn var ekki þess efnis að stefnandi ætti á hverjum tíma að hafa kjör eins og héraðsdómari.
Í nefndri tilkynningu, sem dagsett er 28. nóvember 1991 segir eftirfarandi: “Vegna starfsloka Þorsteins Skúlasonar, sem héraðsdómara við embætti bæjarfógetans á Selfossi og sýslumannsins í Árnessýslu og ráðningar hans til starfa við embætti lögreglustjórans í Reykjavík, staðfestir ráðuneytið hér með að samkomulag hefur orðið milli ráðuneytisins og lögreglustjórans í Reykjavík og Þorsteins Skúlasonar um eftirfarandi:
Föst laun verði samkvæmt launaflokki 149,8. þr.
Yfirvinna verði að jafnaði 65 klst. á mánuði.
Bifreiðafnot 5000 km á ári.
Ofangreint taki gildi 1. nóvember 1991.”
Er tilkynningin undirrituð af Þorsteini Geirssyni f.h. ráðherra.
Ari Edwald, þáverandi aðstoðarmaður dómsmálaráðherra, gaf einnig skýrslu fyrir dómi. Var framburður hans á sömu lund og framburður Þorsteins Geirssonar. Bar hann að reynt hefði verið að færa heildarlaun stefnanda sem næst dómaralaunum og skilningurinn hefði verið sá að miða yrði við ákveðinn launaflokk. Hins vegar hefði engin ábyrgð verið tekin á því hvernig launaþróun yrði milli starfsstétta.
Þegar virt eru gögn málsins svo og framburður Þorsteins Geirssonar og Ara Edwald þykir ekkert það fram komið í málinu sem styður fullyrðingar stefnanda um að gerður hafi verið við hann bindandi samningur þess efnis að honum yrðu tryggð til frambúðar laun sem á hverjum tíma væru jafnhá launum héraðsdómara.
Með bréfi dagsettu 14. september 1989 óskaði stefnandi eftir fjögurra mánaða leyfi frá störfum með vísan til læknisvottorðs er bréfinu fylgdi. Var veikindaleyfi hans síðar framlengt, eins og áður er fram komið. Í svarbréfi ráðuneytisins til stefnanda, dagsettu 8. nóvember 1990, vegna bréfs hans, sem dagsett var 31. október 1990, kemur fram að það hafi verið á grundvelli veikindavottorðs, sem stefnandi lagði sjálfur fram, sem að honum var veitt áframhaldandi veikindaleyfi síðla árs 1989 en ekki vegna þess að ráðuneytið teldi óráðlegt að hann tæki við dómarastarfi sínu aftur er heilsa leyfði. Gegn andmælum stefnda telst ósannað að stefnandi hafi farið í umrætt veikindaleyfi að ósk eða frumkvæði dómsmálaráðuneytisins Telja verður einnig ósannað, sbr. framburð stefnanda fyrir dómi, að hann hafi farið í veikindaleyfi gegn vilja sínum.
Fram er komið að þegar stefnandi starfaði sem héraðsdómari á Selfossi komu upp samskiptaerfiðleikar milli hans og sýslumanns þar. Þorsteinn Geirsson ráðuneytisstjóri bar fyrir dómi að fljótlega eftir að stefnandi hóf störf sem dómari á Selfossi hafi komið í ljós að starfið hafi reynst stefnanda erfitt og verið honum streituvaldur. Hafi honum verið ljóst af mörgum samtölum við stefnanda að starfið hentaði honum illa. Kvað Þorsteinn afskipti sín og dómsmálaráðuneytisins af málefnum stefnanda alla tíð hafa haft það að markmiði að stefnandi hefði með höndum stöðu á vegum ráðuneytisins sem honum hæfði. Hefði það ekki bara verið tengt þeim starfsskiptum stefnanda úr dómarastarfi í starf lögfræðings hjá lögreglustjóranum í Reykjavík heldur einnig starfsskiptum úr embætti bæjarfógeta í Neskaupsstað í embætti dómara á Selfossi, en samskiptavandamál hefðu einnig komið upp er stefnandi starfaði sem bæjarfógeti í Neskaupsstað. Þegar stefnandi hafi síðan óskað að taka til starfa á Selfossi hafi samist svo um að milli stefnanda, dómsmálaráðuneytisins og lögreglustjóra að hann héldi áfram starfi sínu hjá lögreglustjóranum í Reykjavík.
Sigurður Jónsson, fyrrverandi aðstoðarmaður ráðherra, bar fyrir dómi að samskiptaerfiðleikar hafi verið milli stefnanda og sýslumanns á Selfossi og hafi þessir erfiðleikar skapað vandamál í kerfinu. Hafi því ekki verið talið æskilegt að stefnandi starfaði þar sem héraðsdómari á þessum tíma. Honum hafi virst sem stefnandi kærði sig ekki um að fara aftur austur og jafnframt hafi sýslumaður ekki óskað eftir því að stefnandi kæmi aftur til starfa. Hann hafi litið svo á að gagnkvæmur vilji hafi verið til þess að leysa málið með samkomulagi.
Með bréfi til forseta Íslands 7. maí 1992 baðst stefnandi lausnar frá embætti héraðsdómara á Selfossi. Þegar litið er til þess svo og annarra skriflegra gagna máls þessa svo og vitnisburða fyrir dómi þykir ekkert það fram komið er styðji fullyrðingar stefnanda þess efnis að honum hafi verið bolað úr starfi eða að beitt hafi verið þrýstingi til þess að koma honum úr starfi. Þykir ekki sýnt fram á annað en að þær breytingar sem urðu á störfum stefnanda hafi verið með hans samþykki og að eigin ósk hans. Verður aðstæðum stefnanda því ekki jafnað til aðstæðna er 4. mgr. 20. gr. stjórnarskrárinnar tekur til.
Ber samkvæmt framansögðu að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í máli þessu.
Eftir þessari niðurstöðu ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað sem ákveðst 150.000 krónur.
Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan
D Ó M S O R Ð
Stefndi, íslenska ríkið, skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Þorsteins Skúlasonar.
Stefnandi greiði stefnda 150.000 krónur í málskostnað.