Hæstiréttur íslands
Mál nr. 412/2001
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Mánudaginn 29. október 2001. |
|
Nr. 412/2001. |
Ákæruvaldið(Sigríður Friðjónsdóttir saksóknari) gegn X (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. C liður 1. mgr. 103. og 106. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur með vísan til 106. gr. sömu laga.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. október 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. október 2001, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 18. janúar 2002. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 1. mars 2002.
Fallist verður á að skilyrði séu fyrir hendi til að dæma varnaraðila til að sæta áfram gæsluvarðhaldi samkvæmt c. lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 106. gr. sömu laga. Að því gættu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdómara verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest, en sóknaraðili hefur ekki kært hann fyrir sitt leyti.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. október 2001
Ríkissaksóknari hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að ákærða, X, verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans í Hæstarétti, en þó ekki lengur en til föstudagsins 1. mars 2002 kl. 16:00.
Ákærði var hinn 24. september sl. dæmdur til að sæta fangelsi í tvö ár vegna tveggja ránsbrota og tveggja ránstilrauna. Ákærði hefur nú óskað áfrýjunar dómsins. Fallast ber á það með saksóknara að hætta sé á að ákærði haldi áfram brotum gangi hann laus, sbr. einnig dóm Hæstaréttar 28. september sl. Verður því ákveðið skv. c-lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 að gæsluvarðhald ákærða skuli framlengt þar til endanlegur dómur gengur í máli hans. Varðhaldinu verður þó markaður hámarkstími til 18. janúar 2002.
Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Ákærði, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans í Hæstarétti Íslands, en þó eigi lengur en til föstudagsins 18. janúar 2002 kl. 16:00.