Hæstiréttur íslands

Mál nr. 121/2005


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vanreifun
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Mánudaginn 11

 

Mánudaginn 11. apríl 2005.

Nr. 121/2005.

Jón Árnason

(Steingrímur Þormóðsson hrl.)

gegn

Vátryggingafélagi Íslands hf.

(Sigurður R. Arnalds hrl.)

 

Kærumál. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur.

Talið var að þótt mál J á hendur V virtist höfðað til greiðslu skaðabóta vegna slyss er J varð fyrir væri málatilbúnaður hans í engu samræmi við það. Ósamræmi væri í kröfugerð J og fengi hún enga stoð í gögnum málsins.  Væri þetta andstætt meginreglum laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, um skýran og glöggan málatilbúnað og bæri því samkvæmt d.- og e.- liðum 1. mgr. 80. gr. laganna að vísa málinu frá dómi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Guðrún Erlendsdóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir.

 Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. mars 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. mars 2005, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og lagt fyrir héraðsdómara aðallega að taka málið í heild til efnislegrar meðferðar, en að því frágengnu varakröfu sóknaraðila í héraði. Krefst hann þá málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar. Verði ekki á þetta fallist krefst hann þess að málskostnaður samkvæmt hinum kærða úrskurði verði felldur niður eða lækkaður.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Jón Árnason, greiði varnaraðila, Vátryggingafélagi Íslands hf., 100.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. mars 2005.

         Mál þetta var höfðað 30. júní 2004 og tekið til úrskurðar 7. febrúar sl.

         Stefnandi er Jón Árnason, Holtsbúð 95, Garðabæ.

         Stefndi er Vátryggingafélag Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík.

         Dómkröfur

         Stefnandi gerir þær dómkröfur aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 20.000.000 króna ásamt 2% ársvöxtum frá slysadegi, 30. janúar 1994 til 17. september 2003, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

         Til vara gerir stefnandi þá dómkröfu að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 9.235.037 krónur með sama vaxtafæti og greinir í aðalkröfu.

         Þá er gerð krafa um málskostnað að skaðlausu, þar sem hliðsjón verði höfð af því, að stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur og þeim verulega kostnaði sem stefnandi hefur orðið fyrir vegna málsins og verður fyrir.

         Aðalkrafa stefnda er sú að málinu verði vísað frá dómi og stefnda verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati dómsins.  Til vara að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honum dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati dómsins.  Til þrautavara að stefnukröfur verði lækkaðar verulega og málskostnaður látin niður falla.

       Hinn 7. febrúar sl. fór fram munnlegur málflutningur um frávísunarkröfu stefnda og er einungis sá þáttur málsins hér til úrlausnar.  Stefndi gerir þær kröfur að málinu verði vísað frá dómi og stefnda verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati dómsins.   Stefnandi gerir þær kröfur að frávísunarkröfu stefnda verði hafnað og að málið verði tekið til efnismeðferðar.

         Málavextir

         Stefnandi lýsir málavöxtum svo að stefnandi, sem var bifreiðarstjóri bifreiðarinnar XZ-383, MMC Galant, hafi ekið út af veginum skammt fyrir neðan bæinn Litla-Fljót í Biskupstungum, þann 9. júlí 1994.  Alvarlegt umferðarslys hafi orðið, eins og gefi að líta í lögregluskýrslu.  Þar segi að bifreiðin hafi farið út af veginum og svifið um það bil 22 metra og lent þar á framendanum.  Síðan hafi bifreiðin virst fljúga 12 metra í viðbót og lent aftur á framendanum og stöðvast eftir 5 metra flug í viðbót.  Stefnandi og farþegi hafi komist út úr bifreiðinni sem síðan varð fljótlega alelda.

         Daginn eftir slysið leitaði stefnandi til heilsugæslustöðvar í Biskupstungum.  Samkvæmt læknisvottorði Gylfa Haraldssonar, læknis, frá 12. ágúst 1994, var stefnandi skoðaður og var hann mjög stirður í hálsi og aumur yfir hálshryggtindum, sérstaklega 3. og 4.  Engin neorologisk einkenni.  Skrapsár voru vinstra megin á höfði og 2 stuttir skeifulaga skurðir á vinstri kinn sem voru saumaðir í staðdeyfingu.  Kvartaði stefnandi um verki í hægra hné og var bólginn að innanverðu en liðurinn var stabíll og ekki grunur um beináverka.  Ekki áverkar á brjósti né kviðarholi en marblettir eftir öryggisbelti.  Þar sem ekki var hægt að útiloka hálsáverka var hann sendur í sjúkrabifreið  á Sjúkrahús Suðurlands.  Röntgenrannsóknir sýndu enga beináverka en Jón dvaldist á Sjúkrahúsinu í 2 daga en fór síðan aftur upp í Haukadal.

         Við skoðun 10. júlí, kom í ljós að brotnað hafði úr 2 tönnum, þ.e.a.s. vinstri framtönn í efri góm og jaxl í neðri góm vinstra megin.

         Við eftirlit 12. ágúst 1994 var stefnandi ennþá frekar stirður í hálsi og aumur yfir ofangreindum hryggtindum.  Hafði hann náð sér á hægra hné.  Sár í andliti voru vel gróin.  Hann hafði ekki látið laga þær 2 tennur sem brotnaði úr og var pantaður tími fyrir hann hjá Þorsteini Pálssyni tannlækni 18. ágúst s.á. til viðgerða á þessu.  Stefnandi kvartaði um að hann þreyttist fljótt eftir slysið.  Sérstaklega í fótleggjum.  Hann var alveg frá vinnu fram í byrjun ágúst 1994 en vann eftir það hálfa vinnu, einkum við hin léttari störf.

         Segir í lok vottorðsins að ljóst sé að stefnandi eigi enn nokkuð í land að ná sér.

         Í læknisvottorði tannlæknis kemur fram að Jón hafi fengið högg á kjálka, höfuð.

         Stefnandi kveðst hafa verið nokkuð lengi að ná sér af þeim áverkum sem hann hlaut í slysinu og hafi þeir háð honum við vinnu alla tíð.  Fyrst eftir slysið hafi hann verið í léttri vinnu.  T.d. unnið sem sundlaugarvörður.  Í annarri vinnu hafi hann ætíð þurft að hlífa sér við erfiði og við að lyfta þungu.  Stefnandi kveðst hafa unnið lengi á lyftara í Stykkishólmi í fiskvinnsluhúsi og hafi þar ekki þurft að taka mikið á.  Árið 1998 hafi hann farið að vinna sem matsveinn á Hótel Sögu og orðið að hætta því.  Árið 2000 hafi hann hafið húsasmíðanám og starfi við það hjá Þ.G. verktökum.  Kveður stefnandi að áverkarnir hái honum mikið við þau störf, sérstaklega í uppsláttarvinnu og hafi hann hugleitt að komast í léttari vinnu hjá fyrirtækinu en ekki lagt í að biðja um það enn,  auk þess sem það hafi tekjulækkun í för með sér.

         Stefnandi kveðst lengi vel hafa vonað að hann myndi ná sér af áverkunum, þar sem hann hafi verið ungur og hraustur er hann hlaut þá.  Svo hafi ekki orðið og hafi afleiðingar áverkanna farið versnandi hin síðustu ár eða frá árinu 1999.  Stefnandi kveðst aldrei hafa verið upplýstur um það af hinu stefnda félagi að hann ætti hugsanlega rétt á bótum fyrir það að áverkarnir væru varanlegir og hafi ekki áfengið vitneskju um það fyrr en um það leyti sem hann leitaði til lögmanns.  Stefnandi kveðst hafa verið í erfiðri stöðu eftir slysið og leitt það hjá sér þar sem hann hafi eyðilagt bifreið sem hann átti ekki, en það hafi verið mikið tjón fyrir eiganda bifreiðarinnar.  Hafi það ef til vill átt þátt í að hann kynnti sér ekki réttarstöðu sína og hafi ekki verið í beinum tengslum við hið stefnda félag.

         Í júní 2003 kveðst stefnandi hafa tilkynnt hinu stefnda félagi að hann hygðist kanna hvort hann ætti bótarétt á félagið vegna varanlegra áverka.  Hafi félagið greitt öll læknisvottorð þeirra lækna sem stefnandi leitaði til.  Þá hafi félagið mælst til að fram færi tveggja lækna mat á áverkunum.  Það mat hafi litið dagsins ljós 17. febrúar 2004.

         Í matsgerð læknanna Atla Þórs Ólasonar og Ragnars Jónssonar segir í samantekt og áliti:

         “Fyrir slysið 9.7.1994 var Jón Árnason heilsuhraustur en hlaut við slysið tognun á háls og hægra hné eins og staðfest er í vottorðum meðferðarlækna, hjá heilsugæslu í Laugarási og Stykkishólmi og á Sjúkrahúsi Selfoss.

         Eftir slysið hefur Jón vaxandi óþægindi niður eftir baki. Ekki hafa komið fram merki um skemmd á bein- eða taugavef.  Síðar greindist hlutarifa á liðþófa í hægra hné sem var fjarlægt með liðspeglun.

         Við mat á varanlegum miska er miðað við tognunaráverka í hálsi og maráverka í hægra hné.  Bakóþægindi eru fyrst skráð hjá lækni á árinu 1997.  Varanlegur miski og hefðbundin, læknisfræðileg örorka eru metin 10%.

         Við mat á varanlegri örorku er litið til þess að Jón var ómenntaður er hann lenti í slysinu í júní 1994.  Hann hefur síðan unnið við kjötvinnslu, á lyftara, sem matreiðslunemi og húsasmíðanemi og við öll þau störf haft óþægindi í hálsi, hné og baki sem dregið hafa úr vinnugetu hans að einhverju leyti.  Gert er ráð fyrir almennri skerðingu til að afla sér vinnutekna vegna háls og hnés er nemur 5% varanlegri örorku.

         Við mat á tímabundnum bótaþáttum er vísað í kaflann Nám og starf.

         Sérstaklega var óskað eftir að matsmenn tækju afstöðu til þess hvenær tímabært hafi verið að meta afleiðingar slyssins 9.7.1994. Við slysið varð Jón fyrir tognunaráverka á háls og hægra hné.  Var til meðferðar og rannsókna á Sjúkrahúsi Suðurlands og hjá heimilislækni fram til ágústmánaðar 1994.  Að auki var hann til meðferðar hjá tannlækni.  Ekki liggja fyrir heimildir um frekari meðferð á heilbrigðisstofnun.  Samkvæmt þessu telja matsmenn að hægt hefði verið að meta heilsufarslegar afleiðingar slyssins um það bil einu ári eftir það.  Eftir þann tíma komu ekki upp nein þau heilsufarslegu atriði sem tengjast slysinu og leitt hefðu til þess að fresta hefði þurft örorkumati.

         Niðurstaða:

         Við umferðarslysið þann 9.7.1994 varð Jón Arnason fyrir eftirfarandi skaða með hliðsjón af skaðabótalögum nr. 50/1993:

1.      Tímabundið atvinnutjón skv. 2. grein:

         9.7.1994-1.8.1994        100%

         2.8.1994-1.9.1994         50%

2.         Þjáningabætur skv. 3. grein:

a)         Rúmliggjandi:  Ekkert

b)     Batnandi, án þess að vera rúmliggjandi: 9.7.1994 - 1.9.1994.

 

3.         Stöðugleikatímapunktur: 1.9.1994.

4.      Varanlegur miski skv. 4. grein: 10%

5.      Varanleg örorka skv. 5. grein: 5%

6.      Hefðbundin, varanleg læknisfræðileg örorka: 10%

7.      Tímabært var að meta afleiðingar slyssins 9.7.1994 einu ári eftir slysið."

         Eftir að matsgerð lá fyrir kveður stefnandi stefnda hafa tilkynnt sér að félagið teldi sig ekki bótaskylt, þar sem stefnandi hafi svo seint hafist handa um að gæta réttar síns, en afleiðingar slyssins hafi verið komnar fram strax árið 1994.

         Stefnandi kveðst ekki geta unað afstöðu félagsins og sé knúinn til að höfða mál þetta og byggir kröfur sínar á neðangreindum málsástæðum.

         Stefnandi kveðst byggja á að það séu einnig atvik þessa máls, eða komi þeim ágreiningi sem uppi er við, hvernig iðgjaldaálagningu tryggingafélaga sé fyrir komið hér á landi, þegar um skylduvátryggingu sé að ræða svo sem varðandi bifreiðar. Miklar umræður hafi orðið um þessi mál í þjóðfélaginu.  Sé um það vísað til ræðu Ögmundar Jónassonar á Alþingi Íslendinga þann 4. nóvember 2003, og til ræðu Jóhönnu Sigurðardóttur sama dag. Einnig sé vísað til fyrirspurnar Jóhönnu Sigurðardóttur á Alþingi og til svara fjármálaráðherra.

Málsástæður stefnanda og lagarök

         Stefnandi byggir bótakröfu sína á hendur stefnda á því að sú bifreið sem hann ók hafi verið ábyrgðartryggð hjá hinu stefnda félagi.  Eigandi bifreiðarinnar hafi verið Sigríður Vilhjálmsdóttir, Geysi, Biskupstungum, sem hafi ábyrgðartryggingu fyrir bifreiðina hjá hinu stefnda félagi, eins og fram komi í lögregluskýrslu.  Hefði hið stefnda félag gengist við bótaskyldu, með því að greiða allan lækniskostnað og matskostnað, en tekið síðan þá afstöðu til málsins, að gengnu tveggja lækna mati, sem fram fór á vegum stefnda, að neita frekari bótaskyldu.  Byggir stefnandi kröfur sínar á því að hið stefnda félag hafi viðurkennt bótaskyldu félagsins með greiðslu alls útlagðs kostnaðar þessa máls, án alls fyrirvara.  Þar geti félagið ekki á þessari stundu bakkað út úr þegar viðurkenndri bótaskyldu og bótaábyrgð.

         Aðalkröfu sína byggi stefnandi á því að þann 9. júlí 1994 hafi hið stefnda félag fært í bótasjóð sinn, vegna slyssins, a.m.k. 20.000.000 króna ekki síðar en í árslok 1994.  Eins og bókhaldi hins stefnda félags sé hagað, sé hér um að ræða ákveðinn sjóð, sem að auki hafi verið færður félaginu til gjalda á grundvelli 7. töluliðar 31. greinar skattalaga í árslok 1994.  Hafi þessi fjárhæð, 20.000.000 króna, komið til frádráttar tekjum félagsins það ár, gjaldárið 1995.  Miðað við a.m.k. 35% skatthlutfall félagsins gjaldárið 1995, hafi frádrátturinn vegna slyss stefnanda numið 7.000.000 króna gjaldárið 1995, en sé sú fjárhæð færð fram samkvæmt lánskjaravísitölu frá 31. desember 1995 til dagsins í dag, nemi fjárhæðin 7.000.000 x 4618/3442 = 9.391.632 krónum, sem sé hluti af stefnufjárhæð varakröfu stefnanda. 

         Stefnandi byggi einnig á að ofangreint fjármagn sé þar að auki fært sem vátryggingarskuld hjá hinu stefnda félagi.  Það hafi því ekki verið skattlagt sem eign, enda þó svo sé í raun, þar sem bótasjóðir íslenskra tryggingafélaga undanfarin ár hafi meira og minna verið ósnertir og vaxið með gríðarmiklum hraða og séu í dag bitbein og keppikefli þeirra fjármálaspekúlanta, sem harðast berjist á íslenskum fjármálamarkaði enda sé um að ræða gífurleg auðævi. 

         Byggi stefnandi einnig á að tryggingafélögin hafi árið 1994, miðað iðgjaldaþörf sína við fjölda slysa í umferðinni tiltekið tímabil og áætlaðar bótagreiðslur í því samhengi.  Síðan sé með öllum ráðum reynt að greiða sem minnst úr viðkomandi bótasjóði.  Þannig sé í raun ekkert samræmi milli iðgjaldanna og raunverulegra bótagreiðslna.  Alla vega hafi tryggingafélögin ekki ljáð máls á að  Fjármáleftirlitið fengi að kanna þessi mál, þannig að allar upplýsingar yrðu uppi á yfirborðinu í þessu efni á þeim tíma sem mál þetta snerti.

         Stefnandi byggi á að samkvæmt grunnrökum vátryggingaréttarins eigi hann rétt á, að hið stefnda félag greiði honum þá fjárhæð sem félagið færði í bótasjóð í árslok 1994 sem aldrei geti hafa verið lægri en stefnufjárhæð aðalkröfu.  Það sé í samræmi við grundvallarreglu vátryggingaréttarins á þessa leið:  “Vátrygging er það, að einn aðili, vátryggingartakinn, fæ gegn gjaldi, iðgjaldinu, loforð um að annar aðili, vátryggjandinn, greiði vátryggingartakanum sjálfum eða þriðja manni bætur, ef tiltekin áhætta verður virk enda taki vátryggjandinn að sér fleiri áhættur og jafni þeim niður eftir lögmálum tölfræðinnar."  Byggi stefnandi á að vátryggingaréttur byggi á ákveðnu hagsmunasamfélagi þannig að iðgjald af hverri vátryggingu sé fullt endurgjald fyrir þá áhættu sem vátryggingafélagið taki á sig.  Um sé að ræða hagsmunasamfélag vátryggingartaka og viðkomandi tryggingafélags, en ekki hags­munasamfélag fjárfesta á íslenskum fjármálamarkaði.  Stefnandi byggi einnig á, að ákveðin skyldutrygging gildi varðandi bifreiðaeigendur, sem séu lögþvingaðir til ákveðinnar vátryggingar með lögum.  Þrátt fyrir það hafi opinberir eftirlitsaðilar aldrei verið upplýstir um það af tryggingafélögum á Íslandi, hvernig iðgjaldaákvarðanir séu grundvallaðar varðandi bifreiðatryggingar það tímabil sem mál þetta varðar.

         Stefnandi byggi varakröfu sína, 10.842.832 krónur, á þeim málsástæðum sem hér að ofan hafa verið raktar.  Viðbótarröksemdir stefnanda fyrir varakröfu sinni séu að hið stefnda félag hafi þegar grætt varastefnufjárhæðina vegna umferðarslyss stefnanda, þann 9. júlí 1994.  Þeirri fjárhæð verði hið stefnda félag að skila stefnanda, að öðrum kosti hafi hið stefnda félag auðgast með ólögmætum hætti á umferðarslysi stefnanda, sem sé ekki í samræmi við meginreglur vátryggingaréttarins eða grundvallarreglu 7. tl. 31. greinar skattalaga.  Stefnandi byggi varakröfu sína á að þær fjárhæðir sem félagið færði í bótasjóð vegna málsins standi þar áfram, enda þótt nær 10 ár séu liðin frá slysinu.  Byggi stefnandi á að ákvæði ofangreinds 7. tl. 31. greinar laga um tekju- og eignaskatt hafi heimilað ofangreint skatthagræði gegn því að viðkomandi tjónþola yrðu greiddar bætur samkvæmt ofangreindum gagnkvæmisgrundvelli vátryggingaréttarins.  Hafi hið stefnda félag ekki upplýst á hverju iðgjaldaákvörðun þess, varðandi bifreiðatryggingar, var byggð árið 1994 og grundvölluð.  Byggi stefnandi varakröfu sína einnig á að hér sé um að ræða "gambl" (fjárhættuspil), sem brjóti í bága við 183. gr. hegningarlaga., láti hið stefnda félag ofangreinda fjárhæð ekki af hendi rakna til stefnanda.  Þessa staðhæfingu stefnanda geti hið stefnda félag afsannað með því að leggja fram upplýsingar um iðgjaldaákvörðun félagsins 1994 og upplýsingar um hvernig ákvörðunin var grundvölluð.  Sömuleiðis hvað félagið greiddi mikið í bótasjóð vegna umferðarslyss stefnanda og hvenær sú fjárhæð sem greidd hafi verið í bótasjóð félagsins hafi verið greidd til baka.

         Stefnandi byggi varakröfu sína enn fremur á 2. grein, 3. grein, 4. grein, 5. grein, 6. grein og 7. grein skaðabótalaga með neðangreindum hætti og sé þá miðað við niðurstöðu tveggja lækna matsins:

Þjáningabætur:

Batnandi með fótaferð 980 x 90 dagar     88.200 kr.

Miskabætur 5.455.000x10%         545.500 kr.

Bætur fyrir tímabundna örorku  100.000 kr.

Varanleg/fjárhagsleg örorka 1.780.000 x 7,5 x 5%   667.500 kr.

Annað fjártjón          50.000 kr.

Samtals: 1.451.200 kr.

1.      Bætur fyrir þjáningar séu grundvallaðar á matsgerð Atla Þórs Ólasonar og Ragnars Jónssonar og 3. grein skaðabótalaga.

2.      Bætur fyrir miska séu grundvallaðar á 4. grein skaðabótalaga.

3.      Bætur fyrir varanlega örorku séu miðaðar við lágmarkslaun.

4.      Tímabundin örorka sé reiknuð sem hlutfall af lágmarkslaunum.

5.      Annað fjártjón sé sá kostnaður sem stefnandi hafi haft af slysinu og ekki séu beinar kostnaðarnótur fyrir.  Beri þar meðal annars að telja ferðir hans til lækna og sjúkraþjálfara og lyfjakaup.

         Samtals sé varakrafa stefnanda því 1.451.200+ 9.391.632= 10.842.832 krónur.

         Stefnandi byggi á að krafa hans geti ekki verið fyrnd eða hafa orðið tómlæti að bráð.

         Þá byggi stefnandi á að hið stefnda félag verði að sýna fram á að félagið hafi lokað bótasjóði sínum vegna slyssins.  Hafi það ekki verið gert sé stefnanda enn frjálst að krefja félagið um ofangreindar skaðabætur.  Stefnandi byggi og á að hann hafi ekki verið upplýstur um það af félaginu eða öðrum, við slysið eða eftir það, að hann ætti rétt á bótum samkvæmt skaðabótalögum.  Stefnandi byggi á að hið stefnda félag hafi átt að upplýsa stefnanda um að hann ætti bótarétt, sérstaklega eftir að félagið vissi um læknisvottorð Gylfa Haraldssonar læknis. Félaginu hafi því ekki getað dulist að stefnandi hafi orðið fyrir líkamlegum áverkum.  Gögn þessa máls sýni að félagið hafi ekki á nokkurn hátt kannað þessi atriði, en öll læknisfræðigögn, svo sem frá Gylfa, séu fyrst fengin af lögmanni stefnanda.

         Þegar stefnanda hafi versnað af áverkunum um haustið 2002 hafi vinnufélagi hans upplýst hann um að ef þessir erfiðleikar stöfuðu af áverkum sem hann hefði hlotið í umferðarslysi, ætti hann hugsanlega rétt á bótum.  Það hafi verið þá fyrst sem stefnandi hafi farið að kanna rétt sinn í þessum efnum.  Hann hafi því ekki sýnt af sér tómlæti. Fyrstu árin eftir slysið hafi hann trúað því að áverkarnir hyrfu og tímar hafi komið þar sem hann hafi ekki orðið mikið var við áverkana, enda hafi hann þá ekki unnið mikið eða erfið störf.  Þegar hann hafi farið að vinna tiltölulega erfiða vinnu, hafi áverkarnir sagt til sín.  Það hafi ekki verið fyrr en þá sem stefnandi hafi farið að gera sér grein fyrir að hann hafi hlotið alvarlega áverka í umferðarslysinu í júlí 1994.  Það hafi ekki verið fyrr en þá sem hann hafi náð að kynna sér hvaða kröfur hann gæti hugsanlega gert vegna slyssins 9. júlí 1994 og í raun ekki endanlega fyrr en árið 2003 og nú í byrjun ársins 2004 með ofangreindu mati þeirra Atla Þórs Ólasonar og Ragnars Jónssonar.

         Stefnandi byggi á að 99. grein umferðarlaga verði að túlka á þann veg að fjárkröfur samkvæmt ákvæðum XIII. kafla umferðarlaga fyrnist í fyrsta lagi á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs er kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og hafi fyrst átt þess kost að leita fullnustu hennar.  Það hafi kröfuhafi ekki fyrr en búið sé að sannreyna tjónið með læknisfræðilegu mati.  Hið stefnda félag hafi sönnunar­byrði um hvenær stefnandi hafi fyrst fengið vitneskju um kröfu sína og að stefnandi hafi sannanlega ekki átt þess kost að leita fullnustu kröfunnar fyrr en árið 2004 í fyrsta lagi. Í þessu sambandi skuli það tekið fram að hið stefnda félag hafi ekki lagt fram nokkurt skjal eða bréf um að félagið hafi tilkynnt stefnanda um bótaskyldu félagsins.  Stefnandi byggi á að krafa hans sé skaðabótakrafa sem fyrnist á 10 árum frá því að skaðabótakrafan hafi stofnast, sem hafi verið þann 9. júlí 1994.

         Stefnandi byggi einnig á 11. grein skaðabótalaga.  Hafi einhvern tíma verið samið um að bætur stefnanda vegna slyssins yrðu engar þá hafi áverkarnir sannanlega tekið ófyrirsjáanlegum breytingum frá þeirri stöðu mála og heilsa hans versnað verulega vegna áverkanna.

         Varðandi lagarök vísar stefnandi til bótakafla umferðarlaga.  Þá vísar stefnandi til 7. töluliðar 30. greinar laga um tekjuskatt og eignaskatt.  Til grunnreglna vátryggingaréttarins um grundvöll vátrygginga, sem og til 3. mgr. 2. greinar laga nr. 60/1994, II. kafli laganna.  Einnig vísar stefnandi til reglna skaðabótaréttarins um ólögmæta auðgun og til reglna skaðabótaréttarins um fullar bætur.  Þá er einnig vísað til skaðabótalaga nr. 50/1993 með síðari breytingum, einkum til 2. gr., 3. gr., 4. gr., 5. gr., 6. gr., 7. gr. og 10. gr.  Stefnandi vísar að síðustu til fyrningarlaga, grunnraka 7. greinar fyrningarlaga.

         Stefnandi vísar einnig til eftirfarandi sönnunarreglna: 67. greinar og 68. greinar einkamálalaga.  Þá er einnig vísað til þess að sá sem auðveldara á með að afla sönnunargagna geri það.

         Varðandi dómsmeðferð og efni þessa máls bendir stefnandi á, að æskilegt sé að dómari málsins hafi sér til fulltingis sérfróða menn um eðli vátrygginga,

         Málsástæður og lagarök stefnda vegna frávísunarkröfu

         Af hálfu stefnda er á það bent að mál þetta sé höfðað til heimtu bóta vegna afleiðinga umferðarslyss.  Um bótaskyldu, fjárhæð bóta og greiðsluskyldu stefndu fari því eftir umferðarlögum og almennum skaðabótareglum.  Fjárhæð bóta, komi til greiðslu þeirra, ráðist síðan að sjálfsögðu af ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993.

         Í aðalkröfu geri stefnandi kröfu um að stefndu greiði sér 20.000.000 króna. Rökstuðningur fyrir þessari stefnufjárhæð sé enginn, utan þess að fullyrt sé að hið stefnda félag hafi fært í bótasjóð sinn, vegna slyssins, a.m.k. 20.000.000 króna ekki síðar en í árslok 1994.  Geti slíkar fullyrðingar, sem séu úr lausu lofti gripnar, vart talist fullnægjandi rökstuðningur.  Þá sé rökstuðningur kröfunnar að öðru leyti ákaflega ruglingslegur og eigi ekkert skylt við reglur almenns skaðabótaréttar.  Verði kröfugerð stefnanda því að teljast bæði vanreifuð og í andstöðu við grunnreglur einkamálaréttarfars um skýran og glöggan málatilbúnað og beri því þegar af þeirri ástæðu að vísa aðalkröfu stefnanda frá dómi.

         Tekið skuli fram að fjárhæð þessi sé að sjálfsögðu fjarstæðukennd.  Stefndi hafi áætlað í upphafi 1.500.000 krónur í bótagreiðslur vegna slyss stefnanda.  Á árinu 1999 hafi svo áætlun vegna slyssins verið færð út í viðskiptabókun félagsins, þar sem gert hafi verið ráð fyrir því að ekki yrði um frekari bótagreiðslur vegna slyssins að ræða.  Eftir að félaginu barst bréf lögmanns stefnanda á árinu 2003 hafi málið verið endurvakið og  2.000.000 króna færðar á því ári í bótasjóð vegna þess.

         Af rökstuðningi aðalkröfu megi helst ráða að hún byggist á því að með vísan til skilgreiningar fræðimanna á hugtakinu vátrygging, eigi stefnandi rétt til ákveðinnar hlutdeildar í lögbundinni vátryggingaskuld vátryggingafélags.  Segi þannig í stefnu að "stefnandi byggi einnig á því að ofangreint fjármagn sé þar að auki fært sem vátryggingaskuld hjá hinu stefnda félagi og hafi því ekki verið skattlagt sem eign, enda þó svo sé í raun, þar sem bótasjóðir íslenskra tryggingafélaga undanfarin ár hafi meira og minna verið ósnertir og vaxið með gríðarmiklum hraða og séu í dag bitbein og keppikefli þeirra fjármálaspekúlanta, sem harðast berjist á íslenskum fjármálamarkaði enda sé um að ræða gífurleg auðæfi".  Vandséð sé hvaða tengsl rökstuðningur sem þessi geti átt við skaðabótakröfu stefnanda samkvæmt umferðarlögum, en ljóst sé að ekki sé fyrir hendi neinn lagalegur grundvöllur fyrir greiðslum úr bótasjóði/vátryggingaskuld vátryggingafélags með þeim hætti sem stefnandi geri kröfu um í aðalkröfu.  Beri því einnig að vísa aðalkröfu frá þar sem ekki sé um lögvarða hagsmuni stefnanda að ræða.

         Vegna ósmekklegra aðdróttana í stefnu sé þó rétt að taka fram að samkvæmt 34. gr. laga nr. 60/1994 um vátryggingastarfsemi skuli vátryggingarskuld metin þannig að hún samsvari óuppgerðum heildarskuldbindingum vátryggingafélags vegna gerðra vátryggingasamninga.  Samkvæmt 54. gr. sömu laga leggi Fjármáleftirlitið árlega mat á vátryggingarskuld vátryggingafélaga.  Aðdróttunum um að stefndi, VÍS, hafi á einhvern hátt brotið í bága við 34. gr. laga nr. 60/1994 sé því alfarið vísað á bug.

         Kröfu um frávísun varakröfu stefnanda, byggi stefndi á sömu rökum og fram hafi verið færð fyrir frávísun aðalkröfu stefnanda, enda byggi varakrafan að mestu á sömu málsástæðum og aðalkrafa.  Krafan sé því ódómhæf þar sem hún sé vanreifuð og varði auk þess ekki lögvarða hagsmuni stefnanda.

         Í dómkröfum stefnanda komi fram að stefnandi geri til vara þá dómkröfu að stefnda verði dæmt (sic) til að greiða honum 9.235.037 krónur.  Í málsástæðum sé varakrafa aftur á móti sögð vera 10.842.832 krónur og sé sú fjárhæð rökstudd.  Skorti því verulega á innra samræmi í kröfugerð stefnanda og sé varakrafan þar að leiðandi ódómhæf.

         Varakröfu sína byggi stefnandi þannig upp að hafi hið stefnda félag, VÍS, lagt hinar ímynduðu 20 milljónir í bótasjóð, hafi félagið með því komið sér undan greiðslu tekjuskatts sem nemi fjárhæð varakröfu.  Þeirri fjárhæð verði félagið að skila stefnanda, að öðrum kosti hafi hið stefnda félag hagnast með ólögmætum hætti á umferðarslysi stefnanda.  Rökstuðningur sem þessi sé að sjálfsögðu fráleitur og geti ekki verið grundvöllur efnisdóms.  Eins og áður hafi komið fram séu tölur þær er stefnandi setji fram algjörlega úr lausu lofti gripnar.  Rétt sé þó að benda stefnanda á, að í þeim tilvikum er vátryggingafélag kann að hafa ofáætlað vátryggingaskuld vegna tjóns, hátti því aftur á móti svo að sú fjárhæð sé færð til tekna er uppgjör vátryggingar fari fram og komi þar með til skattlagningar.  Komi þetta skýrt fram á svari fjármálaráðherra er stefnandi hafi lagt fram.  Augljóst sé að stefnandi geti aldrei átt lögvarða hagsmuni til heimtu skatttekna er ríkissjóði beri og því ekki annað mögulegt en að vísa varakröfu hans frá dómi.

         Til viðbótar þessu meinta skatthagræði, leggi stefnandi svo við varakröfu sína útreikning á því sem hann telur vera raunverulegt tjón sitt.  Sýnir þetta svart á hvítu hversu fráleitur þessi málatilbúnaður stefnanda sé.  Þar með sé krafan orðin mun hærri en dómkrafa varakröfu og því ekki undan því vikist að vísa málinu frá í heild.

         Í rökstuðningi fyrir varakröfu saki stefnandi stefnda um brot á ákvæðum almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  Segi þannig í stefnu að stefnandi byggi varakröfu sína einnig á að hér sé um að ræða "gambl" (fjárhættuspil), sem brjóti í bága við 183. gr. hegningalaga, láti hið stefnda félag ofangreinda fjárhæð ekki af hendi rakna til stefnanda.  Verði að telja að hér sé um vítaverð ummæli að ræða, sem ekki séu lögmanni stefnanda sæmandi.  Er þess krafist að lögmanni stefnanda verði ákveðin sekt vegna þessa með vísan til 135. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

         Niðurstaða

         Stefnandi höfðar mál þetta til greiðslu skaðabóta vegna líkamstjóns er hann telur sig hafa orðið fyrir er bifreið sem hann ók fór út af vegi í Biskupstungum og valt.

         Um bótaskyldu og greiðsluskyldu stefnda, í því tilviki sem hér um ræðir, fer eftir umferðarlögum og almennum skaðabótareglum.  Fjárhæð bóta, sé um skaðabótaskylt tilvik að ræða, ræðst af skaðabótalögum nr. 50/1993.

         Aðalkrafa stefnanda nemur 20.000.000 króna.  Rökstyður stefnandi fjárhæð kröfu sinnar með því að allavega þessa fjárhæð hafi stefndi fært í bótasjóð sinn vegna umrædds slyss.  Virðist fjárhæð þessi úr lausu lofti gripin þar sem engin gögn liggja fyrir í málinu til stuðnings henni og stefnandi færir engin rök fyrir því hvernig fjárhæðin er fundin.

         Stefnandi virðist byggja bótaskyldu stefnda einvörðungu á þeirri málsástæðu að stefndi hafi greitt matskostnað og lækniskostnað stefnanda.  Með því hafi stefndi viðurkennt bótaskyldu sína.  Annan rökstuðning fyrir bótaskyldu stefnda er ekki að finna í sóknargögnum.  Þá er engin grein gerð fyrir meintu tjóni stefnanda eða það sundurliðað í rökstuðningi með aðalkröfu.  Umfjöllun stefnanda um bókhald stefnda, bótasjóð og skattafrádrátt er ruglingsleg og verður ekki séð að hún geti tengst bótarétti stefnanda vegna umferðarslyss.

         Fullyrðing stefnanda og umfjöllun um að samkvæmt grunnrökum vátryggingaréttarins eigi hann rétt á að stefndi greiði stefnanda þá fjárhæð sem félagið færði í bótasjóð í árslok 1994 þykir ekki eiga hér heima þar sem ráða verður af málatilbúnaði stefnanda að málið sé höfðað til greiðslu skaðabóta en snúist ekki um túlkun vátryggingasamninga.

         Varakrafa stefnanda nemur 10.842.832 krónum.  Engan rökstuðning er að finna í sóknargögnum til stuðnings þessari fjárhæð.  Samkvæmt rökstuðningi með varakröfu gerir stefnandi kröfu um greiðslu þjáningabóta, miskabóta, bóta vegna tímabundinnar örorku, varanlegrar örorku og annars fjártjóns.  Samkvæmt sundurliðun stefnanda nemur þessi hluti varakröfunnar 1.451.200 krónum en engan rökstuðning er að finna í stefnu fyrir einstökum liðum eða útlistun á þeim.  Annars virðist varakrafa hans byggjast á sama rökstuðningi og í aðalkröfu auk þeirrar málsástæðu að stefndi hafi með færslu bótanna í bótasjóð hlotið skattahagræði sem nemi umræddri fjárhæð og hafi stefndi því í raun grætt þá fjárhæð sem nemur varakröfu á slysi stefnanda og eigi því að endurgreiða honum fjárhæðina.

         Enda þótt mál þetta virðist höfðað til greiðslu skaðabóta vegna slyss er stefnandi varð fyrir er málatilbúnaður hans í engu samræmi við það.  Ósamræmi er í kröfugerð stefnanda og fær hún enga stoð í gögnum málsins.  Brýtur þessi málatilbúnaður stefnanda í bága við meginreglur einkamálalaga nr. 91/1991 um skýran og glöggan málatilbúnað.  Ber því, með vísan til d- og e- liðar 80. gr. laga nr. 91/1991, að vísa máli þessu frá dómi.

         Af hálfu stefnda er þess krafist að lögmanni stefnanda verði ákveðin sekt samkvæmt 135. gr. laga nr. 91/1991 vegna ummæla sinna í stefnu þar sem hann segir varakröfu sína m.a. byggða á því að af hálfu stefnda sé um gambl eða fjárhættuspil að ræða sem brjóti í bága við 183. gr. hegningalaga láti stefndi ekki umrædda fjárhæð af hendi rakna til stefnanda.

         Samkvæmt e-lið 1. mgr. 135. gr. laga nr. 91/1991 má ákveða sekt á hendur aðila fyrir ósæmileg skrifleg eða munnleg ummæli sem hann hefur upp fyrir dómi um dómara, gagnaðila umboðsmann gagnaðila eða aðra menn. 

         Telja verður framangreind ummæli lögmanns stefnanda ámælisverð en ekki þykja efni til þess að beita hann réttarfarssekt.

         Samkvæmt þessari niðurstöðu ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað sem ákveðst 150.000 krónur.

         Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

         Máli þessu er vísað frá dómi.

         Stefnandi, Jón Árnason, greiði stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf., 150.000 krónur í málskostnað.

         Kröfu um að lögmanni stefnanda verði ákveðin sekt samkvæmt 135. gr. laga nr. 91/1991 er hafnað.