Hæstiréttur íslands
Mál nr. 164/2001
Lykilorð
- Sjómaður
- Ráðningarsamningur
- Kjarasamningur
- Uppsögn
|
|
Fimmtudaginn 4. október 2001. |
|
Nr. 164/2001. |
Gestur Hansson(Einar Gautur Steingrímsson hrl.) gegn Jökli ehf. (Árni Pálsson hrl.) |
Sjómenn. Ráðningarsamningur. Kjarasamningur. Uppsögn.
G starfaði sem yfirvélstjóri á fiskiskipi í eigu J ehf. Eftir að skipið kom til hafnar óskaði J ehf. eftir því að G sinnti viðhaldsstörfum í skipinu, en skipið var skömmu síðar selt S hf. G taldi sér óskylt að vinna í skipinu og óskaði eftir því að fá að láta af störfum. J ehf. féllst á beiðni G þegar ljóst var orðið að ekki yrði um frekari rekstur á skipinu að ræða og að annar vélstjóri myndi sinna viðhaldsstörfum um borð. Í máli sem G höfðaði á hendur J ehf. krafðist hann sex vikna kaups frá þeim degi er skipið var afhent S hf., sbr. 2. og 3. mgr. 22. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Hæstiréttur sýknaði J ehf. af kröfu G með vísan til þess að G hefði neitað að vinna, þótt honum hefði verið það skylt samkvæmt ákvæðum í kjarasamningi, og óskað eftir að hætta störfum. Hann hefði því sjálfur slitið ráðningarsamningi sínum og firrt sig rétt til launa á nefndu sex vikna tímabili.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 9. maí 2001. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 674.314 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 7. september 2000 til greiðsludags. Hann krefst einnig málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að kröfur áfrýjanda verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.
I.
Áfrýjandi starfaði sem yfirvélstjóri á fiskiskipi stefnda, Arnarnúpi ÞH 272, sem gert var út frá Raufarhöfn. Meðal málsskjala er ráðningarsamningur aðila 15. júlí 1998, þar sem fram kemur að um ráðningarkjör áfrýjanda fari samkvæmt kjarasamningum Vélstjórafélags Íslands og Landssambands íslenskra útvegsmanna. Hann skuli þó fá sérstök laun í formi tryggingar, sem greiðist í hlutfalli við fjölda vinnudaga um borð í skipinu að lágmarki 350.000 krónur á mánuði. Ágreiningslaust er að sú fjárhæð hafi verið hækkuð í 400.000 krónur á árinu 1999.
Arnarnúpur kom til Raufarhafnar að lokinni loðnuvertíð 23. mars 2000. Var skipinu þá lagt og ekki ráðgert að halda því aftur til veiða fyrr en á síldarvertíð þá um vorið eða sumarið. Við lok loðnuvertíðar hafði stefndi hafið tilraunir til að selja skipið. Þeim lauk að því ráðið verður um mánaðamót mars og apríl 2000 með því að það var selt SR-mjöli hf. Var skipið afhent kaupandanum í byrjun maí sama árs. Lýsti áfrýjandi yfir skriflega 14. apríl að hann óskaði ekki eftir áframhaldandi ráðningu á Arnarnúpi eftir eigendaskiptin.
Í málinu leitar áfrýjandi eftir greiðslu skaðabóta vegna ráðningarslitanna. Vísar hann um rétt sinn til 2. og 3. mgr. 22. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, sem fjalli um rétt sjómanna til að rifta skiprúmssamningi við sölu skips innanlands. Hinn eiginlegi riftunardagur hljóti að miðast við afhendingu skipsins í byrjun maí 2000 og samkvæmt lagagreininni séu bæturnar fast ákveðnar miðað við sex vikna kaup frá þeim degi. Kröfufjárhæð miðist við aflareynslu skipsins síðustu mánuðina fyrir eigendaskiptin.
II.
Við skýrslutöku fyrir dómi kom fram hjá áfrýjanda að eftir að Arnarnúpur kom til hafnar 23. mars 2000 hafi hann ekki unnið við skipið meðan það var bundið við bryggju. Orðrómur hafi verið uppi um að skipið yrði selt og hann því viljað hætta störfum hjá stefnda strax. Af hálfu hins síðastnefnda hafi hins vegar ekki verið fallist á þá málaleitan. Kvaðst áfrýjandi jafnframt hafa þá verið beðinn um að sinna viðhaldsstörfum um borð, sem hann hafi neitað, enda ekki talið sér það skylt. Í skýrslu hans kom fram að á milli veiðitímabila á Arnarnúpi hafi hann iðulega ráðið sig í einstakar veiðiferðir á skip annarra útgerðarmanna með samþykki stefnda. Framkvæmdastjóri stefnda, Margrét Vilhelmsdóttir, bar að áfrýjandi hafi á ný komið á sinn fund í byrjun apríl 2000 þegar sala á skipinu var afráðin. Hafi hún þá fallist á ósk hans að mega hætta strax, enda ljóst orðið að ekki yrði um frekari rekstur stefnda á skipinu að ræða og að annar vélstjóri myndi sinna þeim viðhaldsstörfum um borð, sem þyrfti uns skipið yrði afhent nýjum eiganda. Sótti áfrýjandi án tafar eigur sínar um borð. Er fram komið að hann var lögskráður á fiskiskip frá Siglufirði 13. apríl 2000.
III.
Í kjarasamningi þeim, sem tók til starfa áfrýjanda hjá stefnda og áður er getið, er ákvæði í grein 1.31 um vinnu vélstjóra milli veiðitímabila. Skal vélstjóra tryggð dagvinna, enda óski hann eftir því að vinna, og með sama hætti getur útgerðarmaður óskað eftir að vélstjóri vinni. Samkvæmt 3. mgr. 22. gr. sjómannalaga ber skipverja að vinna venjuleg skipsstörf á sex vikna uppsagnarfresti eða þar til skip er afhent nýjum eiganda sé það innan þess tímabils. Áfrýjandi neitaði að vinna, þótt honum væri það skylt, og í kjölfar þess óskaði hann að hætta störfum fyrir stefnda, svo sem áður hefur verið rakið. Hefur hann þannig sjálfur slitið ráðningarsamningi sínum og firrt sig rétti til launa á nefndu sex vikna tímabili. Verður héraðsdómur að því virtu staðfestur.
Aðilar skulu hvor bera sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 16. febrúar 2001.
Mál þetta, sem dómtekið var þann 19. janúar s.l., hefur Gestur Hansson, kt. 030858-3799, Hverfisgötu 18, Siglufirði, höfðað hér fyrir dómi gegn Jökli ehf., kt. 521297-2639, Aðalbraut 4-6, Raufarhöfn, með stefnu þingfestri þann 7. september 2000.
Stefnandi gerir þær dómkröfur, að stefnda verði dæmt til að greiða honum fjárhæð kr. 674.314,- auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987 af þeirri fjárhæð frá 7. september 2000 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu að teknu tilliti til virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.
Stefnda gerir þær dómkröfur aðallega, að það verði sýknað af öllum kröfum stefnanda og að honum verði gert að greiða stefnda málskostnað samkvæmt framlögðum reikningi. Til vara er þess krafist, að stefnukrafan verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.
Af hálfu stefnanda hefur málsatvikum verið lýst svo, að stefnandi hafi ráðist til starfa sem yfirvélstjóri á nótaskipið Arnarnúp ÞH-272, skipaskrárnúmer 1556, þann 15. júlí 1998, en skipið hafi þá verið gert út af Jökli hf. Við stefnanda hafi verið gerður sérsamningur um ráðningarkjör (skiprúmssamningur) sem hljóðað hafi á um kr. 350.000,- kauptryggingu á mánuði og aðrar þær greiðslur, sem greini í kjarasamningi milli Vélstjórafélags Íslands og Landsambands íslenskra útvegsmanna.
Arnarnúpur ÞH-272, skipaskrárnúmer 1556 hafi verið seldur til Samherja hf. í nóvember 1998 og hafi stefnandi verið lögskráður úr skiprúmi þann 4. nóvember 1998. Stefnandi hafi undirritað annan skiprúmssamning við Jökul hf. þann 27. október og þá til vélstjórastarfa á Sunnuberg NS-199, skipaskrárnúmer 1002, sem Jökull hf. hafði þá nýverið keypt, en stefnandi hafi verið lögskráður á skipið þann 12. nóvember 1998. Sá skiprúmssamningur hafi að öllu leyti verið samhljóða hinum fyrri skiprúmssamningi.
Sunnuberg NS hafi verið selt Útgerðarfélagi Akureyringa hf. um vorið 1999 og hafi nafni skipsins verið breytt í Arnarnúp ÞH-272. Áfram hafi gilt nefndur skiprúmssamningur.
Um sumarið 1999 hafi þáverandi yfirvélstjóri á Arnarnúp ÞH hætt störfum og hafi stefnanda þá verið boðið að taka stöðu hans. Við stöðuhækkunina hafi kauptrygging stefnanda hækkað í kr. 400.000,-.
Samkvæmt yfirlýsingu, sem fyrir liggi í málinu, hafi Útgerðarfélag Akureyringa hf. og Jökull hf., kt. 631068-0149, runnið saman þann 1. september 1999. Um útgerð Arnarnúps ÞH hafi hins vegar verið stofnað nýtt félag, stefnda, en stefnandi hafi verið ráðinn hjá stefnda. Stefnandi hafi endanlega verið lögskráður úr skiprúmi þann 25. mars 2000 er hefbundið veiðihlé hófst.
Stefnandi hafi fengið bréf frá Útgerðarfélagi Akureyringa hf. dags. 7. apríl 2000, en í bréfinu segi m.a.: „Fyrirhugað er að Arnarnúpur ÞH-272 verði seldur til SR-mjöl. Skipið verður afhent nýjum eigendum 1. maí næstkomandi. Nýir eigendur hafa samþykkt að bjóða þér áframhaldandi starf sem vélstjóri á skipinu. Það er ósk Útgerðarfélags Akureyringa að fá staðfest hið fyrsta hvort þú þiggir þetta boð. Þessvegna biðjum við þig vinsamlegast að útfylla viðlagt svarbréf og senda okkur fyrir 14. apríl.“
Stefnandi hafi svarað bréfi Útgerðarfélagsins með bréfi þann 14. apríl 2000 og hafi hann í bréfinu lýst því yfir, að hann vildi ekki fylgja skipinu til hinna nýju eigenda. Á þessu tímamarki hafi stefnandi verið vélstjóri á rækjuskipi í eigu Þormóðs ramma-Sæbergs hf. með vitund og samþykki stefnda eins og honum hafi verið heimilt skv. 2. og 3. mgr. gr. 1.31 í framlögðum kjarasamningi, en þar segi: „Vélstjóra/vélaverði skal tryggð dagvinna milli veiðitímabila enda sé hann ráðinn til áframhaldandi starfs á skipinu og viðkomandi vélstjóri/vélavörður óski vinnunnar. Útgerðarmaður á sömuleiðis rétt á að óska eftir því að vélstjóri/vélavörður vinni.“
Stefnandi hafi ekki óskað eftir vinnu við skipið milli veiðitímabila og hafi stefnda ekki óskað eftir því að stefnandi ynni. Stefnandi hafi sparað stefnda útgjöld vegna þess enda hefði stefnda að öðrum kosti þurft að greiða honum laun samkvæmt skiprúmssamningnum í veiðihléinu. Riftun samningsins hafi síðan átt sér stað þann 3. maí 2000 enda hafi skipið þá verið afhent nýjum eigendum.
Lögmaður stefnanda hafi ritað stefnda bréf dags. 31. júlí 2000 þar sem kröfur stefnanda hafi verið reifaðar. Með bréfi lögmanns stefnda dags. 16. ágúst 2000 hafi kröfum stefnanda verið hafnað og hafi stefnanda því verið nauðsyn að höfða mál þetta.
Stefnda kveðst um málavexti vísa til reifunar stefnanda á þeim en kveður rétt að ótvírætt komi fram, að stefnandi hafi sagt upp starfi sínu hjá stefnda 14. apríl 2000. Þá sé einnig upplýst, sbr. bréf framkvæmdastjóra stefnda til stefnanda dags. 4. maí 2000, að aðilar málsins hafi samið svo um að stefnandi þyrfti ekki að vinna hjá stefnda á uppsagnarfresti.
Stefnandi kveðst byggja kröfur sínar á 2. og 3. mgr. 22. gr. sjómannalaga nr. 35, 1985 en þar segi: „Sé skip selt öðrum innlendum útgerðarmanni er skipverja heimilt að krefjast lausnar úr skiprúmi en segja verður þá skipverji skiprúmi sínu lausu þegar eftir að hann fær vitneskju um þetta. - Eigi skipverji rétt á lausn úr skiprúmi af þessum sökum á hann rétt til kaups í sex vikur nema uppsagnarfrestur sé skemmri tími. Innan þess tíma ber skipverja að vinna venjuleg skipsstörf uns skipið er afhent hinum nýja eiganda. Ákvæði þessarar málsgreinar eiga því aðeins við að skipið sé afhent hinum nýja eiganda áður en ráðningu hefði lokið fyrir uppsögn.“
Framanrakið ákvæði fjalli um rétt sjómanna til að rifta ráðningu við útgerðarmann við sölu skips. Sjómanni beri að tilkynna eins fljótt og unnt sé hvort hann vilji nýta sér þessa heimild. Ákveði hann að hætta störfum beri honum að vinna fram að afhendingardegi skipsins, sé þess óskað, sem teljist vera hinn eiginlegi riftunardagur. Bæturnar séu fastákveðnar, miðað sé við sex vikna kaup nema uppsagnarfrestur sé skemmri tími. Hefði stefnanda verið sagt upp þremur mánuðum fyrir afhendingardag skipsins hefði réttur hans til bóta, miðað við sex vikna kaup, fallið niður samkvæmt orðum ákvæðisins. Ákvæði 22. gr. sjómannalaga byggi þannig fyrir, að útgerðarmanni sé unnt að stytta lögbundinn uppsagnarfrest yfirmanna á skipi, sbr. 2. mgr. 9. gr. sjómannalaga, úr þremur mánuðum í sex vikur, hyggist hann selja skip sitt.
Hvað launaviðmið varði kveður stefnandi, að miða verði við hvað staða viðkomandi skipverja hafi gefið af sér tekjulega fyrir ráðningarslit, en ekki hvað staðan hafi gefið af sér eftir ráðningarslitin.
Stefnandi kveður að í 25. gr. sjómannalaga sé notast við orðalagið „á hann rétt á kaupi“ en ekki orðalagið „á hann rétt á bótum“, sem verði þó að telja eðlilegra. Ákvæði 25. gr. feli í sér riftunarreglu og riftun leiði af sér skaðabótarétt en ekki launarétt. Bæturnar beri því að ákvarða miðað við stöðu mála á riftunardegi, þ.e. aflareynslu undanfarinna mánaða en ekki aflareynslu á komandi mánuðum. Væri síðargreinda leiðin farin myndi það leiða til þess að útgerðarmaðurinn gæti lagt skipi sínu og greitt skipverjum tímakaup eða kauptryggingu í þrjá mánuði eða til þess tíma að hann væri laus undan skaðabótaskyldu sinni gagnvart hinum brottrekna skipverja.
Kveður stefnandi engu breyta um niðurstöðu málsins hvort hann hafi hafið vinnu annars staðar eftir ráðningarslitin eða ekki. Stefnandi þurfi ekki að sæta frádrætti frá skaðabótunum vegna tekna hans annars staðar frá eftir riftun ráðningar, sbr. H. 1993:946.
Við útreikning bóta kveðst stefnandi nota til viðmiðunar skiprúmssamning stefnanda við stefnda, sem lagður hafi verið fram í málinu.
Kveður stefnandi upphafstíma dráttarvaxta miðast við þingfestingardag, 7. september 2000, sbr. 3. mgr. 9. gr. vaxtalaga nr. 25, 1987.
Stefnandi kveðst aðallega byggja kröfur sínar á 5., 6., 9., 22. og 25. gr. sjómannalaga nr. 35, 1985. Þá byggi stefnandi á kjarasamningi milli Landsambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands. Einnig byggi stefnandi á dómum Hæstaréttar Íslands, H. 1988:518, H. 1989:599, H. 1990:1246 og H. 1993:946. Þá byggi stefnandi á skiprúmssamningi milli stefnanda og stefnda dags. 27. október 1998.
Um dráttarvexti vísist til III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987, um málskostnað til 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91, 1991 og um virðisaukaskatt til laga um virðisaukaskatt nr. 50, 1988.
Stefnda kveðst byggja sýknukröfur sínar á því, að stefnda hafi gert um það munnlegan samning við stefnanda að hann fengi að hætta strax þegar ljóst hafi verið að Arnarnúpur ÞH yrði seldur. Þetta komi fram í bréfi framkvæmdastjóra stefnda dags. 4. maí 2000, sem liggi fyrir í málinu. Á þessum tíma hafi staða stefnanda verið sú, að honum hafi staðið til boða að ráði sig á togara sem gerður hafi verið út frá Siglufirði og hafi hann því óskað eftir lausn undan vinnuskyldu sinni gagnvart stefnda. Fallist hafi verið á þetta af hálfu stefnda svo sem bréf framkvæmdastjórans beri með sér. Í framhaldi af því hafi stefnandi ráðið sig á umræddan togara. Stefnandi hafi ekki gert athugasemd við stefnda í tilefni af því að honum hafi ekki verið greidd laun í maí eins og hann hefði átt rétt á ef hann hefði ekki óskað eftir að fá að hætta strax. Það hafi ekki verið fyrr en með bréfi lögmanns stefnanda dags. 31. júlí s.l. að stefnandi hafi gert kröfur á hendur stefnda og þá um skaðabætur vegna ólögmætrar riftunar á skiprúmssamningi.
Telur stefnda samkvæmt framansögðu, að því beri ekki að greiða stefnanda laun eftir að hann hafi að eigin ósk verið leystur undan vinnuskyldu sinni. Samkvæmt gildandi kjarasamningi grein 1.31, 2. og 3. mgr., þá skuli greiða dagvinnu á milli veiðitímabila enda sé um áframhaldandi ráðningu að ræða. Það hafi verið gert eins og framlagður launaseðill á dskj. nr. 20 beri með sér. Af 3. mgr. gr. 1.31 verði ráðið, að stefnda hafi getað óskað eftir að stefnandi ynni við Arnarnúp ÞH þar til hann yrði seldur, en það hafi ekki verið gert þar sem stefnandi hafi eindregið óskað eftir að vera leystur undan vinnuskyldu sinni. Stefnda telji því að sýkna eigi það af kröfum stefnanda í málinu.
Ef ekki verði fallist á sýknukröfu stefnda á framangreindum forsendum þá kveðst stefnda til vara gera kröfu um að kröfur stefnanda verði lækkaðar. Varakrafan sé byggð á neðangreindum málsástæðum.
Stefnda kveður ágreiningslaust, að stefnandi hafi ekki þáð boð um að halda starfi sínu áfram hjá nýjum eiganda. Stefnda líti eðlilega svo á, að stefnandi hafi því þann 14. apríl sagt starfi sínu lausu með sex vikna uppsagnarfresti, sbr. 3. mgr. 22. gr. sjómannalaga nr. 35, 1985. Í stefnu sé hins vegar miðað við að uppsagnarfresturinn hafi ekki byrjað að líða fyrr en skipið hafi verið afhent þann þann 3. maí 2000 sem sé rangt því afhendingardagur skipsins hafi verið 5.maí 2000. Kveður stefnda þennan skilning stefnanda enga stoð eiga í sjómannalögum. Almennar reglan sé ótvíræð, að uppsögn öðlist gildi þegar hún sé komin til viðtakanda. Ef ætlunin hefði verið, að það giltu einhverjar aðrar reglur í tilvikum sem þessu, þá hefðu þurft að vera um það skýr ákvæði í lögunum. Svo sé ekki. Þvert á móti verði ekki betur séð en í 3. mgr. 22. gr. sjómannalaga sé þessi skilningur stefnda staðfestur.
Kveður stefnda skaðabótakröfu stefnanda virðast vera byggða á, að um ólögmæta riftun hafi verið að ræða af hálfu stefnda. Þessum skilningi kveðst stefnda mótmæla því stefnda hafi ekki rift ráðningarsamningnum heldur hafi það verið stefnandi sem sagt hafi upp þann 14. apríl s.l. Það sé almennt talið skilyrði skaðabóta, að um sé að ræða sök hjá þeim, sem skaðabótakröfu sé beint gegn. Í þessu máli verði ekki séð, að salan á skipinu hafi getað bakað stefnda skaðabótaskyldu, því ekkert hafi verið ólögmætt við hana. Stefnandi hafi hins vegar nýtt sér rétt sinn samkvæmt 2. og 3. mgr. 22. gr. sjómannalaga og sagt upp, en það geti varla leitt til skaðabótaskyldu. Rétt sé að benda á að í 3. mgr. 22. gr. sjómannalaga segi, að skipverji eigi rétt til kaups í sex vikur. Ekki sé talað um skaðabætur og hljóti verða að skýra orð ákvæðisins samkvæmt orðanna hljóðan í samræmi við almennar reglur. Stefnandi eigi því einungis rétt á kauptryggingu eigi hann yfir höfuð kröfu á hendur stefnda.
Stefnda kveður svo virðast sem stefnandi byggi kröfu sína um skaðabætur á 1. mgr. 25. gr. sjómannalaga. Mjög langsótt sé að líta svo á, að sú regla eigi við í því tilviki er hér um ræði. Hér sé um að ræða reglur sem taki á tilvikum, sem séu á engan hátt sambærileg. Annars vegar sé um að ræða regluna í 2. mgr. 22. gr., en hún sé í 3. kafla laganna, sem fjalli um rétt skipverja til að krefjast lausnar úr skiprúmi. Hins vegar sé það 25. gr., en hún sé í 4. kafla laganna, sem fjalli um þau tilvik er manni sé vikið úr skiprúmi. Í framkvæmd hafi 25. gr. verið beitt þegar um ólögmæta riftun sé að ræða en ekki verði séð að henni hafi verið beitt þegar skipverji segi starfi sínu lausu vegna sölu á skipi.
Fjárkröfu stefnanda kveður stefnda vera byggða á skiprúmssamningi dags. 27. október 1998. Kveðst stefnda í ljósi þessa mótmæla kröfum stefnanda sérstaklega því samkvæmt samningnum sýnist ótvírætt að einungis eigi að greiða samkvæmt honum ef unnið sé um borð í skipinu. Samningurinn hafi alla tíð verið framkvæmdur þannig, að stefnandi hafi fengið greidda tryggingu er hann hafi ekki verið í vinnu við skipið.
Skýrslur fyrir dómi gáfu, auk stefnanda, Svafar Ólafur Gestsson vélstjóri og Margrét Vilhjálmsdóttir framkvæmdastjóri stefnda.
Ákvæði 2. mgr. 22. gr. sjómannalaga nr. 35, 1985 kveður á um rétt skipverja til að krefjast lausnar úr skiprúmi sé skip selt öðrum innlendum útgerðarmanni, en skipverji verður að segja skiprúmi sínu lausu þegar er hann fær vitneskju um þetta. Í 3. mgr. 22. gr. laganna segir síðan, að eigi skipverji rétt á lausn úr skiprúmi af þessum sökum eigi hann rétt til kaups í sex vikur nema uppsagnarfrestur sé skemmri tími. Innan þess tíma beri skipverja hins vegar að vinna venjuleg skipsstörf uns skipið er afhent hinum nýja eiganda.
Í máli þessu hagar svo til, að stefnandi fékk bréf frá Útgerðarfélags Akureyringa hf. dags. 7. apríl 2000 þar sem honum var skýrt frá fyrirhugaðri sölu Arnarnúps ÞH til SR-mjöls. Ekki er í málinu ágreiningur um að bréf þetta hafi Útgerðarfélagið sent í umboði stefnda og hinna nýju eigenda. Var stefnanda í bréfinu boðin áframhaldandi staða vélstjóra á skipinu hjá hinum nýju eigendum og frá honum óskað svars um hvort hann þæði boðið. Stefnandi svaraði bréfi Útgerðarfélagsins með bréfi þann 14. apríl 2000 og kvaðst ekki óska eftir áframhaldandi ráðningu á skipið hjá SR-mjöli.
Reglur 2. og 3. mgr. 22. gr. sjómannalaga nr. 35, 1985 komu fyrst inn í íslensk sjómannalög með umræddum lögum. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til laganna sagði um ákvæði 2. mgr., að um væri að ræða nýmæli, sem ekki þarfnaðist skýringar. Um 3. mgr. sagði hins vegar, að ákvæðið væri nýmæli sem fæli í sér sérstaka reglu um greiðslu launa á uppsagnartíma, þó ekki lengur en 6 vikur og byggði reglan á gagnkvæmum sanngirnissjónarmiðum.
Er stefnandi sendi svarbréf sitt til Útgerðarfélags Akureyringa hf. þann 14. apríl 2000 hafði sala Arnarnúps ÞH ekki átt sér stað. Stefnda hafði hins vegar ákveðið að selja skipið til SR-mjöls og var afstaða stefnanda sem fram kom í bréfinu, byggð á þeim áformum stefnda, sem síðar urðu að veruleika. Þykir að þessu athuguðu og að teknu tilliti til framanraktra ummæla í athugasemdum í greinargerð við 3. mgr. 22. gr. sjómannalaga, rétt að beita ákvæðum 2. og 3. mgr. 22. gr. laganna í málinu og slá því föstu, að stefnandi hafi, með svarbréfi sínu til Útgerðarfélagsins, sagt skiprúmi sínu lausu með sex vikna uppsagnarfresti.
Í sjómannalögum nr. 35, 1985 eða framlögðum kjarasamningi, sem í gildi var milli aðila er stefnandi sagði starfi sínu lausu, eru engin ákvæði um hvenær uppsagnarfrestur skipverja taki að líða í kjölfar uppsagnar. Verður því um upphafstíma uppsagnarfrests að miða við almennar reglur samningaréttar um ákvaðir. Uppsagnarfrestur stefnanda tók því að líða er áðurnefnt svarbréf stefnanda til Útgerðarfélags Akureyringa hf. kom til vitundar félagsins, en aðila greinir ekki á um að það hafi verið 14. apríl 2000.
Stefnandi byggir í máli þessu á 2. og 3. mgr. 22. gr. sjómannalaga nr. 35, 1985. Eftir að stefnandi sagði skiprúmi sínu lausu bar honum, sbr. skýr fyrirmæli í 3. mgr. 22. gr. sjómannalaga, að vinna venjuleg skipsstörf uns skipið væri afhent hinum nýja eiganda. Stefnandi bar sjálfur fyrir dómi, að hann hafi neitað að vinna viðhaldsvinnu við Arnarnúp ÞH eftir lok loðnuvertíðar, þar sem honum hafi ekki borið skylda til að vinna á milli veiðitímabila. Kom fram hjá stefnanda að honum hafi á þessum tímapunkti verið kunnugt um að stefnda hefði áform um að selja skipið. Þar sem stefnandi innti ekki vinnu af hendi við skipið á umræddu tímabili, þó svo eftir því væri leitað og í andstöðu við skýr fyrirmæli 3. mgr. 22. gr. sjómannalaga, fyrirgerði hann rétti sínum til launa á áðurnefndum sex vikna uppsagnarfresti.
Ákvæði 25. gr. sjómannalaga nr. 35, 1985 á samkvæmt orðum sínum við í þeim tilvikum þegar skipverja er vikið úr skiprúmi áður en ráðningartími hans er liðinn og án þess að heimild sé til þess í 23. eða 24. gr. laganna. Eins og rakið hefur verið að framan neytti stefnandi þess réttar, sem honum er tryggður í 2. mgr. 22. gr. sjómannalaga, og lýsti því yfir að hann ætlaði ekki að fylgja Arnarnúpi ÞH yfir til hins nýja eiganda. Stefnanda var því ekki vikið úr starfi heldur sagði hann sjálfur starfi sínu lausu. Ákvæði 25. gr. sjómannalaganna á því ekki við í málinu.
Með vísan til alls þess sem rakið hefur verið þykir verða að sýkna stefnda alfarið af kröfum stefnanda í málinu.
Rétt þykir að málskostnaður falli niður.
Dóm þennan kveður upp Freyr Ófeigsson, dómstjóri.
D Ó M S O R Ð :
Stefnda, Jökull ehf., skal vera sýkn af öllum kröfum stefnanda, Gests Hanssonar, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.