Hæstiréttur íslands
Mál nr. 116/2011
Lykilorð
- Samkeppni
- Stjórnsýsla
- Rannsóknarregla
- Stjórnvaldsúrskurður
- Ógilding
- Frávísun frá héraðsdómi
|
|
Fimmtudaginn 1. desember 2011. |
|
Nr. 116/2011.
|
Vélar og verkfæri ehf. (Heimir Örn Herbertsson hrl.) gegn Samkeppniseftirlitinu og íslenska ríkinu (Brynjar Níelsson hrl.) |
Samkeppni. Stjórnsýsla. Rannsóknarregla. Stjórnvaldsúrskurður. Ógilding. Frávísun frá héraðsdómi að hluta.
Í kjölfar ábendingar um að V ehf. hefði misnotað markaðsráðandi stöðu sína á markaði fyrir sölu og þjónustu lásakerfa hóf S athugun á því. Með ákvörðun S var V ehf. talinn hafa brotið gegn 11. gr. samkeppnislaga. nr. 44/2005 og gert að greiða 15.000.000 króna stjórnvaldssekt. Áfrýjunarnefnd samkeppnismála staðfesti niðurstöðu S um brot V ehf. gegn 11. gr. fyrrnefndra laga en lækkaði álagða stjórnvaldssekt í 10.000.000 krónur. V ehf. höfðaði mál gegn S og Í og krafðist ógildingar á úrskurði áfrýjunarnefndarinnar og niðurfellingar stjórnvaldssektarinnar. Í málinu snerist ágreiningur aðila fyrst og fremst um hvernig skilgreina ætti þann markað sem V ehf. starfaði á og hvort staða hans á markaði væri réttilega skilgreind í úrskurði nefndarinnar. Niðurstaða S hafði verið sú að V ehf. starfaði á markaði fyrir sölu á efni til framleiðslu höfuðlyklakerfa en V ehf. taldi sig starfa á markaði fyrir sölu á efnum til framleiðslu aðgangskerfa. Áfrýjunarnefnd samkeppnismála staðfesti eins og áður sagði niðurstöðu S en í úrskurði sínum tók hún fram að hún teldi þá skilgreiningu S, að sala á efni til framleiðslu höfuðlyklakerfis tilheyrði sérstökum markaði, of þrönga. Í dómi Hæstaréttar sagði m.a. að hefði það verið álit áfrýjunarnefndarinnar að rétt skilgreindur markaður væri annar en sá sem S hafði komist að niðurstöðu um, hefði nefndinni borið að rökstyðja það með tilvísun til markaðslegra staðreynda og jafnframt hver væri staða V ehf. á þeim markaði. Hefði nefndin talið gögn skorta um hinn rétt skilgreinda markað hefði henni borið að kalla eftir slíku en gögn málsins bæru ekki með sér að svo hefði verið gert. Hæstiréttur taldi því áfrýjunarnefnd samkeppnismála hvorki hafa gætt að þeirra skyldu sinni við meðferð málsins að upplýsa málið nægjanlega í skilningi 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 né hafi nefndin rökstutt niðurstöðu sína með þeim hætti sem áskilið væri í 4. tl. 31. gr., sbr. 22. gr. sömu laga. Væri úrskurðurinn haldinn slíkum annmörkum að fella bæri hann úr gildi. Að þessari dómsniðurstöðu fenginni væri það undir V ehf. komið hvort hann yndi við ákvörðun S eða hvort hann óskaði innan lögmælts frests að bera ákvörðun S á nýjan leik undir nefndina. Réttur V ehf. til endurgreiðslu stjórnvaldssektarinnar réðist einnig af því hvort hann yndi ákvörðun S eða bæri þá ákvörðun á nýjan leik undir áfrýjunarnefnd samkeppnismála eða eftir atvikum dómstóla og hver yrðu úrslit máls yrðu þar. Var þessum þætti kröfugerðar V ehf. vísað frá héraðsdómi með vísan til 1. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. febrúar 2011. Hann krefst þess aðallega að úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála 6. júlí 2009 í máli nr. 9/2009 verði felldur úr gildi, en til vara að úrskurðinum verði breytt á þann veg að sekt áfrýjanda að fjárhæð 10.000.000 krónur verði felld niður eða lækkuð. Þá krefst áfrýjandi þess að stefnda íslenska ríkinu verði gert að endurgreiða honum 10.000.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 15.000.000 krónum frá 8. maí 2009 til greiðsludags, allt að frádregnum 5.000.000 krónum sem stefndi endurgreiddi honum 10. júlí 2009, en til vara sömu vaxta af 5.000.000 krónum á sama tímabili. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar úr hendi stefndu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndu krefjast staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Í hinum áfrýjaða dómi er gerð grein fyrir starfsemi þeirri sem áfrýjandi hefur með höndum, tildrögum þess að stefndi Samkeppniseftirlitið hóf rannsókn á því hvort áfrýjandi hefði gerst sekur um misnotkun á markaðsráðandi stöðu á markaði fyrir sölu og þjónustu lásakerfa og meðferð þess stjórnsýslumáls og niðurstöðu. Mál þetta höfðar áfrýjandi á hendur stefndu til ógildingar á fyrrgreindum úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála og til að felld verði niður stjórnvaldssekt sú sem honum var gert að greiða með þeim úrskurði. Í málinu snýst ágreiningur aðila fyrst og fremst um það hvernig skilgreina eigi þann markað sem áfrýjandi starfar á og hvort staða hans á markaði sé réttilega skilgreind í úrskurði áfrýjunarnefndar. Reisir áfrýjandi kröfur sínar í málinu á því að staða hans á markaði hafi verið ranglega metin, hann hafi ekki verið í markaðsráðandi stöðu og því geti ekki verið um að ræða misnotkun á markaðsráðandi stöðu af hans hálfu. Telur áfrýjandi sig starfa á markaði fyrir sölu á efnum til framleiðslu aðgangskerfa, en niðurstaða Samkeppniseftirlitsins var sú að hann starfaði á markaði fyrir sölu á efni til framleiðslu höfuðlyklakerfa.
Samkvæmt 11. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 er misnotkun eins eða fleiri fyrirtækja á markaðsráðandi stöðu bönnuð. Samkeppniseftirlitið tók ákvörðun í máli áfrýjanda 8. apríl 2009 með ítarlegum rökstuðningi. Þar segir að til rannsóknar sé hegðun áfrýjanda vegna sölu á efnum til að framleiða höfuðlyklakerfi. Slík kerfi samanstandi af mismunandi lásum og lyklum fyrir tiltekna fasteign, þar sem þó sé til staðar einn höfuðlykill sem gengur að öllum lásunum. Auk efna til að framleiða höfuðlyklakerfi selji áfrýjandi tilbúin höfuðlyklakerfi beint til notenda. Uppbygging markaðarins sé með þeim hætti að áfrýjandi flytji inn efni til að framleiða höfuðlyklakerfi, meðal annars frá sænska fyrirtækinu ASSA Abloy. Áfrýjandi geri síðan samninga við þjónustuaðila hér á landi um leyfi þeim til handa til að framleiða, selja og þjónusta höfuðlyklakerfi, og kaupi þjónustuaðilarnir efni til að framleiða slík kerfi frá áfrýjanda. Þeir selji síðan tilbúin höfuðlyklakerfi til notenda, en áfrýjandi selji einnig slík tilbúin kerfi beint til notenda. Í ljósi þessa taldi Samkeppniseftirlitið, að fyrst þyrfti að taka afstöðu til þess hvort höfuðlyklakerfi tilheyri sérstökum markaði og síðan hvort sala á efni til að framleiða kerfi sé sérstakur markaður.
Í umræddri ákvörðun skilgreindi Samkeppniseftirlitið aðgangskerfi sem hvers konar búnað sem veiti aðgang að fasteignum og sé tilgangur þeirra fyrst og fremst að tryggja öryggi fasteigna. Til séu margar tegundir og útfærslur aðgangskerfa, til dæmis venjulegir stakir lyklar og lásar, höfuðlyklakerfi og rafræn aðgangskerfi. Aftur á móti séu eiginleikar og verð þessara mismunandi tegunda aðgangskerfa það ólík að þau tilheyri hvert sínum markaði eins og rökstutt var í úrskurði Samkeppniseftirlitsins. Með vísan til þeirra röksemda dró eftirlitið þá ályktun að ekki væri staðganga milli annars vegar höfuðlyklakerfa og hins vegar rafrænna aðgangskerfa og stakra lykla og lása. Því væri markaður fyrir höfuðlyklakerfi sérstakur markaður í skilningi samkeppnislaga. Þá var það og mat Samkeppniseftirlitsins að ekki væri staðganga á milli efna til að framleiða annars vegar höfuðlyklakerfi og hins vegar rafræn aðgangskerfi. Niðurstaða eftirlitsins var sú, að uppbygging markaðar fyrir höfuðlyklakerfi á Íslandi væri með þeim hætti að skilgreina bæri markað í málinu sem sölu á efni til framleiðslu á slíku kerfi. Á það var jafnframt bent að markaður fyrir sölu á tilbúnum höfuðlyklakerfum og þjónustu við kaupendur slíkra kerfa væri markaður í nánum tengslum við hinn skilgreinda markað málsins, enda hefði yfirburðastaða áfrýjanda á þeim markaði mikil og veruleg áhrif á markað fyrir tilbúin höfuðlyklakerfi. Hinn landfræðilega markað skilgreindi Samkeppniseftirlitið sem Ísland.
Að fenginni þessari niðurstöðu vísaði Samkeppniseftirlitið til 4. töluliðar 1. mgr. 4. gr. samkeppnislaga, en þar kemur fram að fyrirtæki telst vera markaðsráðandi þegar það hefur þann efnahagslega styrkleika að geta hindrað virka samkeppni á þeim markaði sem máli skiptir og geta að verulegu leyti starfað án þess að taka tillit til keppinauta, viðskiptavina og neytenda. Í framhaldinu voru ítarlega rakin þau sjónarmið sem Samkeppniseftirlitið taldi að leggja bæri til grundvallar við mat á markaðsráðandi stöðu, en í því sambandi skipti mestu markaðshlutdeild og það skipulag sem ríkti á markaðnum. Samkeppniseftirlitið dró síðan þá ályktun að áfrýjandi væri eina starfandi fyrirtækið á hinum skilgreinda markaði og hefði þar einokunaraðstöðu. Allir endurseljendur höfuðlyklakerfa á Íslandi væru háðir áfrýjanda um innflutning og sölu efnis til framleiðslu höfuðlyklakerfa og áfrýjandi byggi yfir miklum efnahagslegum styrkleika á hinum skilgreinda markaði. Þá væri starfsemi áfrýjanda á markaði fyrir sölu og þjónustu á tilbúnum höfuðlyklakerfum til þess fallin að styrkja stöðu hans á hinum skilgreinda markaði málsins, aðgangshindranir væru fyrir hendi á þeim markaði og ekki væri um kaupendastyrk að ræða. Efnahagslegur styrkleiki áfrýjanda væri slíkur að hann gæti hindrað virka samkeppni á markaði fyrir sölu á efni til framleiðslu á höfuðlyklakerfum og gæti að öllu leyti starfað án þess að taka tillit til viðskiptavina sinna og neytenda. Af þessu leiddi að áfrýjandi væri í markaðsráðandi stöðu á skilgreindum markaði málsins í skilningi 4. töluliðar 1. mgr. 4. gr. samkeppnislaga.
Þessu næst tók Samkeppniseftirlitið til athugunar hvort áfrýjandi hefði misnotað markaðsráðandi stöðu sína með gerð tiltekinna samninga við viðskiptavini sína. Taldi eftirlitið að svo hefði verið og var brotunum nánar lýst í ákvörðuninni. Ljóst væri að umræddir samningar væru til þess fallnir að takmarka verulega samkeppni og viðhalda eða styrkja yfirburðastöðu áfrýjanda á hinum skilgreinda markaði. Því hefði hann brotið gegn 11. gr. samkeppnislaga með samningunum, enda yrði ekki fallist á þau sjónarmið sem áfrýjandi vísaði til um lögmæti þeirra. Í ákvörðunarorðum Samkeppniseftirlitsins sagði síðan, að áfrýjandi hefði brotið gegn 11. gr. samkeppnislaga með þeim aðgerðum sínum sem nánar væri lýst í ákvörðuninni. Með vísan til rökstuðnings í henni og með heimild í 37. gr. samkeppnislaga skyldi áfrýjandi greiða stjórnvaldssekt að fjárhæð 15.000.000 krónur vegna brotanna og hún greiðast í ríkissjóð eigi síðar en einum mánuði eftir dagsetningu ákvörðunarinnar. Væri sektin eigi greidd innan þess tíma skyldi greiða dráttarvexti af fjárhæðinni, sbr. 2. mgr. 37. gr. samkeppnislaga.
II
Áfrýjandi skaut ákvörðun Samkeppniseftirlitsins til áfrýjunarnefndar samkeppnismála með bréfi 6. maí 2009. Þar var þess aðallega krafist að hin kærða ákvörðun yrði felld úr gildi, en til vara að álögð stjórnvaldssekt yrði felld niður eða lækkuð verulega. Byggði áfrýjandi að mestu á sömu málsástæðum og lagarökum og fram komu af hans hálfu við meðferð málsins hjá Samkeppniseftirlitinu og lutu að skilgreiningu markaðar málsins, stöðu áfrýjanda á markaði og meinta misnotkun hans á markaðsráðandi stöðu. Hélt áfrýjandi því fram fyrir nefndinni, að ákvörðun Samkeppniseftirlitsins byggði á misskilningi á þeim markaði sem áfrýjandi starfaði á og því hver væru einkenni og eiginleikar höfuðlyklakerfis.
Í niðurstöðukafla fyrrgreinds úrskurðar áfrýjunarnefndar er því fyrst lýst í hverju starfsemi áfrýjanda felist, að Samkeppniseftirlitið hafi skilgreint vöru- og þjónustumarkað málsins þannig að efni til höfuðlyklagerðar tilheyri sérstökum markaði, og að ekki sé staðganga á milli þess markaðar og annarra tegunda aðgangskerfa, til dæmis rafrænum. Þá er til þess vitnað að Samkeppniseftirlitið segi áfrýjanda vera eina aðilann sem flytji inn efni til framleiðslu á höfuðlyklakerfum, hann hafi einokunaraðstöðu á þeim markaði, hann hafi efnahagslegan styrkleika til að hindra virka samkeppni á þeim markaði, og hann geti að öllu leyti starfað án þess að taka tillit til viðskiptavina sinna og neytenda og sé því í markaðsráðandi stöðu.
Í framhaldi af framangreindum inngangsorðum segir áfrýjunarnefndin í úrskurði sínum, að hún fallist á að landfræðilegur markaður málsins sé Ísland, að höfuðlyklakerfi tilheyri sérstökum markaði og að ekki sé staðganga milli þess markaðar og annarra aðgangskerfa í þeim mæli að það geti haft áhrif á markaðsskilgreininguna. Hins vegar tekur áfrýjunarnefndin fram að hún telji þá skilgreiningu Samkeppniseftirlitsins, að sala á efni til framleiðslu höfuðlyklakerfa tilheyri sérstökum markaði, sé of þröng. Frekari skilgreining og umfjöllun um hver sé rétt skilgreindur markaður málsins kemur hins vegar ekki fram í úrskurði áfrýjunarnefndar, og í framhaldinu er án frekari skýringa ýmist talað um „markað“ eða „hinn skilgreinda markað“ málsins. Þá er að endingu tekið til skoðunar í úrskurðinum, hvort áfrýjandi sé í markaðsráðandi stöðu og komist að þeirri niðurstöðu að svo sé samkvæmt því sem áður hafi verið rakið og að öðru leyti með vísan til þess sem fram komi í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins.
Í úrskurðarorðum áfrýjunarnefndar er staðfest ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 14/2009 um að áfrýjandi hafi brotið gegn 11. gr. samkeppnislaga og honum gert að greiða 10.000.000 krónur í stjórnvaldssekt innan mánaðar frá dagsetningu úrskurðarins.
III
Ákvæði 11. gr. gildandi samkeppnislaga eru samhljóða ákvæðum 11. gr. eldri laga nr. 8/1993, en sambærileg ákvæði voru tekin upp í þau lög með 4. gr. laga nr. 107/2000 um breytingu á samkeppnislögum nr. 8/1993. Í athugasemdum við 4. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 107/2000 segir að þegar staða fyrirtækis á markaði sé metin hafi markaðshlutdeild þess verið talin mikilvæg vísbending um hvort um markaðsyfirráð sé að ræða. Nauðsynlegt sé þó einnig að líta til annarra þátta, eins og gerð viðkomandi markaðar og aðgangs að honum, yfirráða yfir hráefnum, tækniþekkingu og hversu lengi markaðsyfirráð hafi varað. Þá segir að til þess að unnt sé að staðreyna stöðu fyrirtækis á markaði sé nauðsynlegt að afmarka þann markað sem um sé að ræða og skilgreina viðkomandi vöru- eða þjónustumarkað annars vegar og landfræðilegan markað hins vegar. Við skilgreiningu á vöru- eða þjónustumarkaði ráði innbyrðis staðganga vöru eða þjónustu því hvort þær teljast til sama vöru- eða þjónustumarkaðar. Til þess að meta staðgöngu verði meðal annars að hafa hliðsjón af eiginleikum vöru eða þjónustu, verði hennar og til hvaða nota hún sé ætluð.
Að framan er rakið hvernig Samkeppniseftirlitið annars vegar og áfrýjunarnefnd samkeppnismála hins vegar skilgreindu vöru- og þjónustumarkað máls þess sem hér er til umfjöllunar. Samkeppniseftirlitið skilgreindi markaðinn sem sölu á efni til höfuðlyklagerðar. Var það gert í ítarlega rökstuddu máli með samanburði á hinum ýmsu tegundum aðgangskerfa á markaði með tilliti til verðs og eiginleika og athugunar á því hvort staðganga væri á milli þessara vöru- og þjónustutegunda. Sú skilgreining markaðarins var síðan forsenda þeirrar ályktunar að áfrýjandi hefði markaðsráðandi stöðu á hinum skilgreinda markaði. Var jafnframt talið að áfrýjandi hefði misbeitt þeirri stöðu sinni og þar með brotið gegn ákvæðum 11. gr. samkeppnislaga þannig að viðurlögðum varðaði.
Ef það var álit áfrýjunarnefndar samkeppnismála að rétt skilgreindur markaður málsins væri annar en sá, sem Samkeppniseftirlitið hafði samkvæmt framansögðu komist að niðurstöðu um, bar áfrýjunarnefnd að rökstyðja það með tilvísun til markaðslegra staðreynda og þá jafnframt hver væri staða áfrýjanda á þeim markaði þannig að ekki léki vafi á. Hafi áfrýjunarnefnd talið gögn skorta um hinn rétt skilgreinda markað og stöðu áfrýjanda á honum bar henni að kalla eftir þeim, en ekki verður séð að svo hafi verið gert. Þegar framangreint er haft í huga verður talið að áfrýjunarnefnd samkeppnismála hafi hvorki gætt þeirrar skyldu sinnar við meðferð máls áfrýjanda að upplýsa málið nægjanlega í skilningi 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, né hafi áfrýjunarnefnd rökstutt niðurstöðu sína með þeim hætti sem áskilið er í 4. tölulið 31. gr., sbr. 22. gr. laganna. Er úrskurður áfrýjunarnefndar samkvæmt þessu haldinn svo verulegum annmörkum að fella ber hann úr gildi. Er þá sérstaklega litið til þess að viðurlög vegna brota á þeim ákvæðum samkeppnislaga sem hér eru til umfjöllunar geta verið mjög íþyngjandi fyrir þann sem þeim er beittur.
Að þessari dómsniðurstöðu fenginni er undir áfrýjanda komið hvort hann unir fyrrgreindri ákvörðun Samkeppniseftirlitsins, eða hvort hann óskar innan lögmælts frests að bera ákvörðun eftirlitsins á nýjan leik undir áfrýjunarnefnd samkeppnismála. Réttur áfrýjanda til endurgreiðslu þeirrar stjórnvaldssektar, sem honum var gert að greiða með úrskurði áfrýjunarnefndar vegna ætlaðra brota á 11. gr. samkeppnislaga, ræðst einnig af því hvort hann að gengnum dómi þessum unir ákvörðun Samkeppniseftirlitsins eða ber hana á nýjan leik undir áfrýjunarnefnd og eftir atvikum dómstóla, og hver verða úrslit máls þar. Ber því með vísan til 1. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að vísa þessum þætti kröfugerðar áfrýjanda frá héraðsdómi.
Samkvæmt þessum málsúrslitum ber að dæma stefndu til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Felldur er úr gildi úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála nr. 9/2009 frá 6. júlí 2009 í málinu Vélar og verkfæri ehf. gegn Samkeppniseftirlitinu.
Vísað er frá héraðsdómi kröfu áfrýjanda á hendur stefnda íslenska ríkinu um endurgreiðslu á 10.000.000 krónum.
Stefndu, Samkeppniseftirlitið og íslenska ríkið, greiði áfrýjanda 1.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. desember 2010.
Mál þetta, sem dómtekið var 10. nóvember síðastliðinn, var höfðað 5. janúar 2010 af Vélum og verkfærum ehf., Skútuvogi 1c, Reykjavík, gegn Samkeppniseftirlitinu, Borgartúni 26, Reykjavík, og íslenska ríkinu, Arnarhvoli við Lindargötu, Reykjavík.
Krafa stefnanda á hendur stefnda, Samkeppniseftirlitinu, er aðallega sú að úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála í málinu nr. 9/2009 verði felldur úr gildi. Til vara er þess krafist að úrskurðinum verði breytt á þann veg að sekt, að fjárhæð 10.000.000 króna, sem stefnanda var gert að greiða, verði felld niður eða stórlega lækkuð. Á hendur stefnda, íslenska ríkinu, eru af hálfu stefnanda gerðar eftirgreindar kröfur: Aðallega að stefnda verði gert að endurgreiða stefnanda 10.000.000 króna ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 8. maí 2009 til greiðsludags, auk þess sem stefnda verði gert að greiða stefnanda dráttarvexti af 5.000.000 króna samkvæmt sömu lagaákvæðum frá 8. maí 2009 til endurgreiðsludags, 10. júlí sama ár. Til vara er þess krafist að stefndi endurgreiði stefnanda mismuninn á 10.000.000 króna og endanlegri lægri fjárhæð stjórnvaldssektarinnar, sem dómurinn ákveði að stefnanda beri að greiða, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 8. maí 2009 til greiðsludags, auk þess sem stefnda verði gert að greiða stefnanda dráttarvexti af 5.000.000 krónum samkvæmt sömu lagaákvæðum frá 8. maí 2009 til endurgreiðsludags, 10. júlí s.á. Þess er krafist að báðum stefndu verði gert að greiða stefnanda málskostnað in solidum (óskipt ábyrgð) að skaðlausu.
Af hálfu stefndu er krafist sýknu af kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefndu málskostnað að mati dómsins.
Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna
Stefnandi rekur heildverslun og dreifir og selur meðal annars læsingar, handföng og almennar járnvörur fyrir glugga og hurðir, aðgangskerfi, sjálfvirkan opnunarbúnað fyrir hurðir og glugga, handverkfæri og rafmagnsverkfæri. Af hálfu stefnanda er vísað til þess að með aðgangskerfum sé átt við einfalda lykla og lása, höfuðlyklakerfi og rafræn aðgangskerfi. Stefnandi hafi umboð fyrir nokkur vel þekkt vörumerki, m.a. Abloy, Assa, Yale, Ruko, Trio Ving, Union, Ikon, Mul-t-lock, Iloq, Simon Voss o.fl.
Með bréfi stefnda, Samkeppniseftirlitsins, til stefnanda 18. janúar 2008 var tilkynnt að borist hefði ábending um að stefnandi hefði hugsanlega misnotað markaðsráðandi stöðu sína á markaði fyrir sölu og þjónustu lásakerfa. Stefnda, Samkeppniseftirlitið, hefði ákveðið að hefja sérstaka athugun á háttsemi stefnanda en einkakaupaákvæði í samningum fyrirtækisins við endurseljendur og þjónustuaðila kynni að varða við 11. gr. samkeppnislaga. Óskað var eftir gögnum og stefnanda gefinn kostur á að koma að athugasemdum vegna rannsóknarinnar. Af hálfu stefnanda var því hafnað að brotið hefði verið gegn framangreindu lagaákvæði með bréfi til stefnda 24. janúar sama ár.
Í andmælaskjali stefnanda til stefnda 13. júní s.á. kemur fram að stefnandi hefði misnotað markaðsráðandi stöðu sína og með því brotið gegn 11. gr. samkeppnislaga. Stefnandi mótmælti því með bréfum til stefnda 22. og 24. júlí s.á.
Stefnanda var með ákvörðun stefnda, Samkeppniseftirlitsins, 8. apríl 2009 nr. 14/2009 gert að greiða stjórnvaldssekt að fjárhæð 15.000.000 króna vegna brota á 11. gr. samkeppnislaga. Stefnandi greiddi fjárhæðina til ríkissjóðs 8. maí s.á.
Stefnandi kærði ákvörðunina 6. maí s.á. til áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Krafist var að hin kærða ákvörðun yrði felld úr gildi en til vara að álögð stjórnvaldssekt yrði felld niður. Til þrautavara var þess krafist að sektin yrði lækkuð verulega. Af hálfu stefnda, Samkeppniseftirlitsins, var þess krafist að hin kærða ákvörðun yrði staðfest.
Áfrýjunarnefnd samkeppnismála kvað upp úrskurð 6. júlí s.á. í máli nr. 9/2009 þar sem ákvörðun stefnda, um að stefnandi hefði brotið gegn 11. gr. samkeppnislaga, var staðfest, en álögð stjórnvaldssekt skyldi lækkuð úr 15.000.000 króna í 10.000.000 króna. Stefnda, íslenska ríkið, endurgreiddi stefnanda 5.000.000 króna 10. júlí s.á.
Stefnandi telur úrskurð áfrýjunarnefndar samkeppnismála rangan og hefur hann höfðað málið aðallega til ógildingar á honum og til endurgreiðslu á sektinni. Í málinu er deilt um það hvernig eigi að skilgreina markaðinn og hvort staða stefnanda á honum hafi af hálfu áfrýjunarnefndarinnar verið réttilega skilgreind. Af hálfu stefnanda er því haldið fram að staða stefnanda á markaðnum hefði verið ranglega metin en hann hefði ekki verið í markaðsráðandi stöðu. Því geti ekki verið um misnotkun að ræða af hans hálfu samkvæmt tilvitnaðri lagagrein.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir kröfuna um að úrskurðurinn verði felldur úr gildi á eftirgreindum málsástæðum:
1. Ógildingarannmarkar á úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála
Stefnandi telur að úrskurðarorð áfrýjunarnefndarinnar standist ekki þær forsendur sem hún taki mið af hvað varði hinn skilgreinda markað. Óljóst sé hvort áfrýjunarnefndin álíti hinn skilgreinda markað vera sölu á höfuðlyklakerfum til þjónustuaðila (heildsala) eða til neytenda (smásala). Þar sem skýr skilgreining markaðar sé grundvallarforsenda þess að staðreyna megi hvort brot hafi verið framið gegn 11. gr. samkeppnislaga beri þegar af þeirri ástæðu að fella úrskurðinn úr gildi.
Áfrýjunarnefnd samkeppnismála hafi í meginatriðum verið ósammála ákvörðun stefnda, Samkeppniseftirlitsins, varðandi skilgreiningu vöru- og þjónustumarkaðar, en í þeirri ákvörðun hafi hinn skilgreindi markaður verið talinn sala á efni til framleiðslu höfuðlyklakerfa. Stefnandi sé ósammála því að höfuðlyklakerfi tilheyri sérstökum markaði. Stefnandi starfi á markaði fyrir aðgangskerfi. Markaður máls þessa sé sala á höfuðlyklakerfum til neytenda (smásala), en af gögnum málsins sé ljóst að stefnandi sé ekki í markaðsráðandi stöðu á þeim markaði. Ákvæði 11. gr. samkeppnislaga eigi því ekki við um stefnanda. Þá liggi ekkert fyrir um stöðu stefnanda á markaði fyrir sölu höfuðlyklakerfa til þjónustuaðila (heildsala). Þegar af þeim sökum sé ekki unnt að staðhæfa að stefnandi hafi brotið gegn lagagreininni.
Umfjöllun í úrskurðinum um skilgreiningu markaðar þess sem mál þetta varði sé afar takmörkuð og óskýr. Með hliðsjón af meginreglum stjórnsýsluréttarins um að ákvarðanir stjórnvalda skulu vera gagnsæjar, skýrar og rökstuddar, sbr. m.a. 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þá verði að telja að verulega skorti á rökstuðning og skýrleika varðandi skilgreiningu áfrýjunarnefndarinnar á þeim markaði sem málið varði. Slíkt verði að telja verulegan ágalla, sem leiði til þess að fella beri úrskurðinn úr gildi, enda sé vel ígrunduð og rétt skilgreining markaðar grundvallarforsenda þess að unnt sé að ákvarða stöðu aðila á markaði og staðreyna meint brot gegn lagagreininni. Þegar af þessum sökum beri að fella úrskurð áfrýjunarnefndar samkeppnismála úr gildi.
2. Skilgreining markaðar
Fallist dómurinn ekki á fyrrgreinda málsástæðu stefnanda sé því haldið fram að hinn skilgreindi markaður málsins sé markaður fyrir sölu á aðgangskerfum sem megi jafnframt skipta í smásölu- og heildsölumarkað.
Stefnandi hafni því að til séu undirmarkaðir aðgangskerfa, þ.e. markaður fyrir staka lykla og lása, markaður fyrir höfuðlyklakerfi og markaður fyrir rafræn aðgangskerfi. Tvímælalaust sé um staðgöngu að ræða á milli stakra lykla og lása, höfuðlyklakerfis og rafræns aðgangskerfis, enda uppfylli þau sömu þarfir, verð sé áþekkt og mýmörg dæmi megi finna þar sem viðskiptavinir hafi fært sig á milli þessara kerfa. Svo virtist sem samkeppnisyfirvöld byggðu niðurstöður sínar varðandi skilgreiningu markaðarins á því að eiginleikar einstakra vara séu ólíkir og því geti ekki verið um staðgöngu að ræða. Ólíkir vörueiginleikar nægi þó ekki til að útiloka staðgengni í eftirspurn, þar sem hún sé að miklu leyti undir því komin hvernig neytendur meti ólíka eiginleika. Ólíkir eiginleikar einir og sér, án frekari skoðunar annarra þátta, geti aldrei leitt til þeirrar niðurstöðu að ekki sé um staðgöngu að ræða.
Afar vafasamt sé að draga þær ályktanir, að ef eiginleikar vörutegunda, t.d. með hliðsjón af tækni, eru ólíkir, þá skuli þær ekki tilheyra sama markaði. Hér sé um of mikla einföldun að ræða. Tilvist og styrkur samkeppnislegs aðhalds eigi fremur að gefa vísbendingar um hvernig hinn skilgreindi markaður sé, en ekki tækni- eða skipulagsleg einkenni sem slík. Vörur, sem beri ólíka tæknilega eiginleika, geti þannig veitt hver annarri staðgöngu, allt eins og vörur, sem hafi sömu tæknilegu eiginleika, geti þótt of ólíkar til að um staðgöngu sé að ræða. Frá sjónarhóli neytandans sé enginn munur á einstökum aðgangskerfum markmið neytandans sé í öllum tilvikum að vernda eignir sínar með því að læsa húsnæði sínu. Í grundvallaratriðum sé verðið áþekkt fyrir mismunandi aðgangskerfi og neytandinn þurfi í öllum tilvikum að bera lykla, kort eða annan áþekkan búnað til að fá aðgang að hinu læsta húsnæði. Af þessu leiði að staðganga sé fyrir hendi á milli stakra lykla og lása, höfuðlyklakerfa og rafrænna aðgangskerfa.
Eftirspurn eftir aðgangskerfum sé til komin vegna þess að neytendum sé nauðsynlegt að læsa húsnæði sínu, hvort sem um sé að ræða íbúðar- eða atvinnuhúsnæði. Þarfir neytenda séu að þessu leyti áþekkar, þótt valið standi á milli nokkurra kerfa. Við rannsókn og skilgreiningu á vörumarkaði megi m.a. beita svokölluðu SSNIP prófi (e. Small but Significant and Non-transitory Increase in Price). Þá byrji rannsóknaraðili á að skoða þær vörur sem líklegastar séu, með hliðsjón af verði, til að vera staðgönguvörur og víkki svo út skoðun sína allt þar til lítil en umtalsverð og varanleg verðhækkun sé hagkvæm. Ef þessu prófi væri beitt kæmi í ljós að þegar verð höfuðlyklakerfa er hækkað um 5-10% myndu viðskiptavinir að öllum líkindum snúa sér til annarra aðila á markaðnum, þ.e. til þeirra sem bjóði upp á staka lykla og lása annars vegar eða rafræn aðgangskerfi hins vegar.
Stefnandi telji ekki mikinn mun á kostnaði aðgangskerfa og sé hann raunar áþekkur í grundvallaratriðum. Bæta megi við og breyta algengum uppsetningum og fá þannig mun dýrari vöru. Slíkt eigi væntanlega við um flestar vörur. Þegar bifreið er keypt með stöðluðum búnaði þurfi að greiða hærra verð vilji kaupandinn fá aukin þægindi eða meiri kraft. Það þýði ekki að um sitthvorn markaðinn sé að ræða. Það sama eigi við varðandi aðgangskerfi.
Þegar komi að skilgreiningu á hinum landfræðilega markaði beri að skilgreina hann sem Evrópu. Stefnandi standi í harðri samkeppni við erlenda aðila, aðallega innan Evrópu. Alcan/ISAL og Flugstöð Leifs Eiríkssonar kaupi sambærilega þjónustu af erlendum aðilum, þ.e. aðilum frá Sviss og Þýskalandi, í stað þess að eiga í við-skiptum við aðila hér á landi. Landfræðilegur markaður í máli þessu ætti því að vera Evrópa.
Að þessu virtu sé ljóst að markaðurinn, sem mál þetta varði, hafi verið skilgreindur ranglega í úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Þegar af þeim sökum beri að fella hann úr gildi.
3. Staða stefnanda á hinum skilgreinda markaði
Í ljósi þess að markaðurinn hafi verið ranglega skilgreindur sé ljóst að allar ályktanir, sem dregnar eru, meðal annars af stöðu stefnanda á hinum skilgreinda markaði og meintri misnotkun hans á markaðsráðandi stöðu, séu rangar.
Óljóst sé hvern áfrýjunarnefnd samkeppnismála telji hinn skilgreinda markað málsins vera. Í umfjöllun 2. kafla úrskurðarins sé talið að ekki sé til staðar markaður fyrir sölu á efni til framleiðslu höfuðlyklakerfis, heldur virtist áfrýjunarnefndin fremur telja hinn skilgreinda markað vera sölu á höfuðlyklakerfum. Síðari umfjöllun í 3. kafla úrskurðarins virtist hins vegar, þvert gegn markaðsskilgreiningu þeirri sem sett sé fram í 2. kafla, taka mið af því að til staðar sé sérstakur markaður fyrir sölu á efni til framleiðslu höfuðlyklakerfa. Í ljósi markaðs-skilgreiningar áfrýjunarnefndarinnar verði umfjöllun um stöðu stefnanda með öllu óskiljanleg.
Fari hins vegar svo að dómurinn telji að til staðar sé sérstakur undirmarkaður í sölu á aðgangskerfum, þ.e. markaður fyrir sölu á höfuðlyklakerfum, þá telji stefnandi að gögn málsins sýni glögglega að stefnandi sé ekki í markaðsráðandi stöðu á þeim markaði. Á markaði fyrir sölu á höfuðlyklakerfum hafi stefnandi ekki efnahags-legan styrk til að haga sér án tillits til keppinauta, viðskiptavina eða neytenda.
Í úrskurði sínum bendi áfrýjunarnefndin á að við mat á stöðu stefnanda á markaðnum beri að huga að markaðshlutdeild og því skipulagi sem ríki á markaðnum. Þessu sé stefnandi sammála. Hins vegar virtist áfrýjunarnefndin horfa fram hjá þessum viðmiðum, þar sem stefnandi sé ekki í markaðsráðandi stöðu á hinum skilgreinda markaði ef farið er eftir viðurkenndum viðmiðum samkeppnisréttarins.
Í ákvörðun stefnda, Samkeppniseftirlitsins, sé markaðshlutdeild stefnanda á markaði fyrir sölu á tilbúnum höfuðlyklakerfum og þjónustu (viðhaldi og rekstri) um 15-20%, en bæði Láshúsið og Húsasmiðjan séu þar töluvert stærri. Takmörkuðuð markaðshlutdeild gefi ekki vísbendingar um að stefnandi sé í markaðsráðandi stöðu og keppinautar stefnanda séu rótgrónir og sterkir á markaðnum.
Þrátt fyrir hina lágu markaðshlutdeild stefnanda telji áfrýjunarnefndin að ekki verði fram hjá því litið að stefnandi sé eini aðilinn sem hafi flutt inn efni til framleiðslu á höfuðlyklakerfum frá árinu 2002. Þetta sé undarlegt með tilliti til þess að áfrýjunarnefndin telji ekki unnt að skilgreina sölu á efni til framleiðslu höfuðlyklakerfa sem sérstakan markað. Ef taka eigi mið af sölu á höfuðlyklakerfum, sem áfrýjunarnefndin telji vera hinn skilgreinda markað málsins, þá sé enginn háður stefnanda um höfuðlyklakerfi, hvorki á smásölu- né heildsölumarkaði. Fjöldi annarra aðila flytji inn höfuðlyklakerfi í samkeppni við þau höfuðlyklakerfi sem stefnandi selji, auk þess sem neytendur hafi úr fjölda höfuðlyklakerfa að velja á smásölumarkaði. Viðmiðin um markaðshlutdeild og aðgengi að höfuðlyklakerfi gefi sökum þessa engar vísbendingar um að stefnandi hafi ráðandi stöðu á markaðnum. Þá telji áfrýjunarnefndin enn fremur að engar sérstakar aðgangshindranir séu til staðar sem takmarki möguleika annarra aðila til að koma inn á markaðinn. Svo virtist því sem meginþunginn í niðurstöðu áfrýjunarnefndar varðandi markaðsráðandi stöðu stefnanda hvíli á því að efnahagslegur styrkleiki stefnanda sé töluverður. Þó sé ekki skýrt nánar við hvað sé átt. Þegar efnahagslegur styrkur sé metinn hljóti hins vegar að þurfa að hafa ákveðin viðmið til hliðsjónar. Engin skjalleg gögn bendi þó til þess að stefnandi hafi meiri efnahagslegan styrk en keppinautar hans. Slíkt verði raunar dregið í efa þegar horft sé til stærðar og umsvifa keppinauta á borð við Húsasmiðjuna og Láshúsið.
Því sé mótmælt að efnahagslegur styrkur stefnanda hafi einhver áhrif á stöðu hans á hinum skilgreinda markaði. Slíkur styrkur byggist smám saman upp hjá þeim sem hafi starfað lengi, en starfsemi stefnanda megi rekja allt aftur til ársins 1919. Stefnanda hafi smám saman tekist að byggja upp nokkuð stöðugt tekjuflæði. Tekjur stefnanda stafi hins vegar að óverulegu leyti frá veltu á þeim markaði sem hér sé til umfjöllunar. Hin meinta staða stefnanda á þeim markaði hafi því lítil sem engin áhrif haft á efnahagslegan styrk hans. Efnahagslegur styrkur sé aldrei nægilegur til að álykta að honum verði beitt til að hindra samkeppni. Til að sýna fram á slíkt þurfi aðstæður á markaðnum að vera þannig að hlutaðeigandi fyrirtæki hafi meiri hag af því en aðrir á markaðnum að beita efnahagslegum styrk sínum til að hindra samkeppni, þ.e. hafi meiri hag af því að nýta fjármuni sína til að beita þvingunum í stað þess að nýta þá til annarra þátta, t.d. fjárfestinga eða markaðssetningar. Samkeppnisyfirvöldum hafi ekki tekist að sýna fram á þetta og verði þau að bera hallann af slíkum sönnunarskorti.
Af framangreindu sé ljóst að því fari fjarri að stefnandi sé í markaðsráðandi stöðu á hinum skilgreinda markaði. Beri dóminum því að verða við kröfu stefnanda um að fella úr gildi úrskurð áfrýjunarnefndar samkeppnismála.
4. Meint brot gegn 11. gr. samkeppnislaga
Fari svo að dómurinn fallist á afstöðu áfrýjunarnefndar samkeppnismála um hinn skilgreinda markað og stöðu stefnanda á honum þá haldi stefnandi því fram að hann hafi eftir sem áður ekki misnotað hina meintu markaðsráðandi stöðu.
Ástæður þess að ákvæðið hafi verið í samningnum hafi eingöngu verið viðskiptalegs eðlis. Því hafi verið ætlað að stuðla að öryggi og verndun viðskiptaupplýsinga og vörumerkis. Samningar stefnanda hafi auk þess verið sérleyfissamningar sem eðlilegt sé að hafi ákvæði um einkarétt. Þessu til skýringa bendi stefnandi á að prófílar í höfuðlyklakerfum (gerð sylindra og lykla) hafi mismunandi hátt öryggisstig. Lykilefni og sylindrar fyrir þá prófíla sem hafi hæsta öryggisstig séu læst inni í öryggis- og peningaskápum stefnanda og hafi framkvæmdastjórinn einn aðgang að þeim. Þetta sýni vel hversu viðkvæmar upplýsingar sé um að ræða. Þjónustuaðilar fái aðgang að prófílum og nýsmíði höfuðlyklakerfa. Enn fremur hafi þeir haft aðgang í gegnum þjónustusíðu á veraldarvefnum að öllum kerfum sem stefnandi hafi selt frá upphafi hér á landi er varði lyklasmíði. Þjónustuaðila sé heimilt að gefa upp skerðingarnúmer símleiðis ef viðskiptavinur er ekki með lykil. Svo mikill og góður aðgangur sé ekki algildur.
Áfrýjunarnefnd samkeppnismála hafi hafnað þessum sjónarmiðum stefnanda með vísan til þess að öryggi sé ekki ábótavant þrátt fyrir að meint einkakaupaákvæði hafi nú verið fjarlægð úr samningum sem stefnandi hafi gert við endursöluaðila. Þessar túlkanir séu algerlega úr lausu lofti gripnar. Í leyfissamningi felist að honum sé ætlað að vernda með skýrari hætti öryggi upplýsinga og orðspor vörumerkis. Án þess gæti stefnandi selt þjónustuaðilum vöruna gegn greiðslu og án frekari skilmála. Varan sem hér um ræði sé hins vegar þess eðlis að hún gangi ekki kaupum og sölum, eins og aðrar vörur, þar sem hún varði öryggi heimila fólks og mikilvægt að allir sem komi að uppsetningu, sölu og þjónustu kerfisins njóti trausts viðskiptavina og neytenda.
Áfrýjunarnefnd samkeppnismála telji það vísbendingu um ólögmæti samningsákvæðanna að stefnandi hafi breytt þeim í samningum sem hann hafi nýlega gert við sömu aðila. Slíkt sé fráleitt, en stefnandi hafi tekið það sérstaklega fram, m.a. við meðferð málsins hjá stefnda, að í breytingunni fælist á engan hátt viðurkenning á því að um ólögmæt samningsákvæði væri að ræða. Ástæða þess að stefnandi hafi fellt ákvæðin brott hafi verið sú að ekki hafi verið hægt að búa við það óvissuástand sem skapaðist þegar rannsókn stefnda Samkeppniseftirlitsins hófst. Því hafi stefnandi ákveðið að fella ákvæðin brott í samningum sem gerðir voru á meðan meðferð málsins stóð. Að auki hafi stefnandi gripið til þess ráðs, til að takmarka mögulegt tjón, að loka aðgangi að þjónustusíðu á veraldarvefnum um leið og nýir samningar voru gerðir þar sem ekki hafi verið að finna umþrætt ákvæði. Þannig hafi verið reynt eftir fremsta megni að stefna öryggi kerfanna ekki í hættu. Af þessu megi ráða að ef þetta sé takmörkun á samkeppni þá sé hún lögmæt og eigi sér málefnalegar og eðlilegar skýringar.
Stefnandi selji tilbúin höfuðlyklakerfi til endursölu til fjölda fyrirtækja. Engir leyfissamningar eða ákvæði, er takmarki kaup þessara aðila á öðrum höfuðlyklakerfum, væru hins vegar til staðar, enda þurfi í þeim tilvikum ekki að vernda mikilvæg og viðkvæm gögn og upplýsingar. Takmarkanir á endursölu annarra höfuðlyklakerfa eigi einvörðungu við um þá sem setji saman höfuðlyklakerfin og auglýsi sig sem slíka.
Samningar, sem mál þetta varði, væru auðsjáanlega sérleyfissamningar. Með þeim sé þjónustuaðila veitt heimild til að framleiða það höfuðlyklakerfi sem efnið sé ætlað í. Stefnandi gæti sjálfur séð um alla framleiðslu ef hann kysi svo. Hann hafi hins vegar ákveðið að heppilegra væri að fleiri aðilar kæmu að framleiðslunni og varan væri þar með aðgengilegri. Framleiðslu sé því í raun úthýst (e. outsourced) að miklu leyti til þessara þjónustuaðila. Í úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála sé talið að ekki hafi komið fram fullnægjandi rök fyrir því að um sérleyfissamninga hafi verið að ræða. Þessu hafni stefnandi.
Þegar framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hafi haft mál, er varði sérleyfissamninga, til umfjöllunar hafi hún almennt talið að sérleyfisgjafa sé heimilt að leggja skuldbindingar á sérleyfistaka, sem nauðsynlegar séu til að vernda viðskiptaupplýsingar (e. know-how) sérleyfisgjafa, þær sem séu nauðsynlegar til að viðhalda sérkennum og orðspori vörumerkisins, s.s. bann við framsali, skuldbindingu um verndun vörumerkisins, skuldbindingu um að nota viðskiptalíkan og fylgja reglum um framsetningu vörumerkisins, skuldbindingar varðandi auglýsingar og markaðssetningu, leggja bann við að nýta vörumerki eftir að sérleyfissamningur fellur úr gildi og bann við að stunda annars konar starfsemi (svo fremi sem starfsemin kunni að skaða vörumerki og orðspor sérleyfisgjafa) og skuldbindingar um staðsetningu á starfsemi. Markmið skuldbindinga, sem sérleyfistaki taki á sig vegna sérleyfissamnings, sé að mestu leyti að vernda vörumerkið og orðspor sérleyfisgjafa.
Þar sem efni til framleiðslu á höfuðlyklakerfum njóti oft á tíðum einkaleyfisverndar sé enn mikilvægara að fyllsta öryggis sé gætt og vörumerkið þannig verndað. Með því að banna þjónustuaðila, sem fái úthýst því verkefni að framleiða höfuðlyklakerfi, að flytja inn samhliða og selja vöru samkeppnisaðila stefnanda, sé stefnandi aðeins að vernda vörumerkið og orðspor þess. Væri einn og sami aðili að framleiða fleiri en eitt höfuðlyklakerfi kynnu þessar upplýsingar að flæða á milli. Vegna þessa feli bannið ekki í sér misnotkun á markaðsráðandi stöðu, enda sjónarmið stefnanda byggð á málefnalegum og lögmætum forsendum.
Stefnandi láti sérleyfishafa í té þekkingu með því að veita honum fræðslu, þjálfun og kennslu er varði hina keyptu vöru og framleiðslu höfuðlyklakerfanna. Sérleyfishafinn fái enn fremur leyfi til að auglýsa sig sem ASSA þjónustuaðila. Það gjald sem aðilar greiði fyrir það sé innifalið í verði á efni til framleiðslu höfuðlyklakerfanna. Allt þetta sýni glögglega að um sérleyfi sé að ræða. Þegar af þessum sökum sé sú staðhæfing áfrýjunarnefndar samkeppnismála, að samningar stefnanda séu ekki sérleyfissamningar, röng.
Þótt samningarnir hafi ákvæði, sem hafi tilhneigingu til að stuðla að einkakaupum á vörum, leiði það ekki sjálfkrafa til þess að samningarnir hafi hamlandi áhrif á samkeppni. Við rannsókn á því verði samkeppnisyfirvöld að meta aðstæður hverju sinni í lagalegu og hagfræðilegu samhengi. Skýrlega megi sjá að ákvæði í samningum stefnanda um einkakaup hafi hvorki né geti haft hamlandi áhrif á samkeppni. Afstöðu stefnanda megi skýra þannig:
- Stefnandi eigi í verulegri og harðri samkeppni við reynslumikla samkeppnisaðila.
- Velta og hagnaður samkeppnisaðila sé líklega mun meiri en stefnanda.
- Framlegð stefnanda hafi ekki hækkað heldur lækkað.
- Með aukinni tækni og þróun hafi stefnandi tapað markaðshlutdeild og samkeppnisaðilum fari sífellt fjölgandi.
Allt þetta sýni vel hversu hörð samkeppnin sé á markaðnum.
Þjónustuaðilar stefnanda séu þróaðir og mjög öflugir og hafi þar af leiðandi mikinn kaupendastyrk. Þeir geti hæglega beitt þessum styrk í samningaviðræðum við stefnanda. Þeir væru jafnframt í góðri aðstöðu til að gæta stöðu sinnar vel og koma í veg fyrir hugsanlega misnotkun af hálfu stefnanda. Þessir aðilar myndu aldrei líða neins konar ofríki af hendi stefnanda, væri yfirleitt um slíkt að ræða.
Í ljósi þessa hafi samningsákvæðin, sem áfrýjunarnefnd samkeppnismála telji fela í sér misnotkun á markaðsráðandi stöðu, ekki skaðleg áhrif á markaðnum, hvorki með hliðsjón af hagsmunum neytenda né hagsmunum samkeppnisaðila.
5. Varakrafa stefnanda
Verði ekki fallist á að ógilda beri hina kærðu ákvörðun sé þess krafist til vara að álögð stjórnvaldssekt verði felld niður eða lækkuð verulega. Stefnandi telji að hvernig sem á mál þetta verði litið sé ekki tilefni til að ákvarða fyrirtækinu stjórnvaldssekt. Fari hins vegar svo ólíklega að dómurinn telji rétt að leggja á sektir sé þess krafist að sektarfjárhæðin verði lækkuð. Fjárhæð sektarinnar standist engin rök og stríði m.a. gegn meginreglum samkeppnisréttarins varðandi ákvörðun sekta, auk meðalhófs- og jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins.
Ákvörðun sektarinnar sé studd tilvísun til veltu stefnanda, varnaðaráhrifa, sem sektum sé ætlað að hafa, stærðar markaðarins og þeirra hagsmuna sem við markaðinn eru tengdir. Áfrýjunarnefndin vísi að öðru leyti til forsendna sektarákvörðunar stefnda en stefnandi mótmæli þessum forsendum.
Stefnandi telji fráleitt að ákvæði í samningum hans hafi falið í sér verulega aðgangshindrun inn á markaðinn. Hið meinta brot hafi hvorki verið alvarlegt né umfangsmikið. Þá hafi stefnandi enn fremur verið grandlaus um að í samningsákvæðunum gæti falist misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Stefnandi hafi aldrei áður gerst brotlegur gegn ákvæðum samkeppnislaga.
Samkvæmt leiðbeinandi reglum EB (Guidelines on the method of setting fines imposed pursuant to Article 23(2)(a) of Regulation No. 1/2003 (2006/C 210/02), 29. tl.) sé heimilt að lækka fjárhæð sekta undir vissum kringumstæðum. Heimilt sé að beita mildari sektum ef fyrirtæki hætti að brjóta af sér jafnskjótt og rannsókn máls hefst, auk þess sem til greina geti komið að beita mildari sektum ef brot er framið vegna vanrækslu. Líta beri sérstaklega til þessara þátta þegar fjárhæð sektar er ákvörðuð, enda hafi hin meintu einkakaupaákvæði verið tekin út í nýjum samningum, auk þess sem stefnanda hafi ekki verið ljóst að ákvæði í samningum hans brytu í bága við 11. gr. samkeppnislaga.
Allar forsendur standi því til þess að sektin verði felld niður eða lækkuð verulega.
6. Krafa stefnanda á hendur stefnda, íslenska ríkinu
Stefnandi hafi greitt 15.000.000 króna í ríkissjóð 8. maí 2009 í samræmi við ákvörðun stefnda í málinu. Það hafi hann gert með fyrirvara um réttmæti ákvörðunarinnar. Hann hafi um leið áskilið sér rétt til að reikna dráttarvexti ef um ofgreiðslu væri að ræða.
Með úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála nr. 9/2009 hafi sektin verið lækkuð úr 15.000.000 króna í 10.000.000 króna. Stefnda, íslenska ríkið, hafi endurgreitt stefnanda 5.000.000 króna 10. júlí 2009 án nokkurra dráttarvaxta. Stefnandi krefjist í málinu dráttarvaxta af þeirri fjárhæð frá 8. maí 2009 þar til hún var endurgreidd.
Komist héraðsdómur að þeirri niðurstöðu að ógilda beri úrskurðinn í heild, eða ef sektin verði lækkuð, skapist endurgreiðsluskylda af hendi stefnda, íslenska ríkisins. Engu að síður sé nauðsynlegt að fá dóm fyrir endurgreiðslunni á hendur stefnda, íslenska ríkinu, til að tryggja að það endurgreiði sektina í heild eða að hluta með dráttarvöxtum frá þeim degi er stefnandi greiddi sektina, þ.e. 8. maí 2009. Þar sem stefnda, íslenska ríkið, hafi ekki greitt stefnanda dráttarvexti af 5.000.000 króna, sem hafi þegar verið endurgreiddar, sé rétt að dæma stefnanda dráttarvexti, annars vegar af 10.000.000 króna, eða lægri fjárhæð ef dómurinn telji rétt að lækka sekt, og hins vegar af þeim 5.000.000 króna sem stefnda, íslenska ríkið, hafi þegar endurgreitt stefnanda.
Málsástæður og lagarök stefndu
Af hálfu stefndu er vísað til þess að stefnandi sé eini aðilinn sem hafi flutt inn efni til að framleiða höfuðlyklakerfi frá árinu 2002. Framleiðendur séu því háðir stefnanda um alla efnisöflun. Samhliða því að selja efni til framleiðenda hafi stefnandi selt höfuðlyklakerfi sem hann framleiði sjálfur. Stefnandi sé þess vegna í þeirri sérstöku stöðu að selja höfuðlyklakerfi í samkeppni við þá aðila sem væru háðir honum um efnisöflun. Stefnandi hafi meðal annars selt efni til að framleiða höfuðlyklakerfi frá ASSA í Svíþjóð. Helstu framleiðendur höfuðlyklakerfa hér á landi auk stefnanda séu Láshúsið ehf., Húsasmiðjan hf., K. Þorsteinsson & Co. ehf. og Neyðarþjónustan ehf.
Í ársbyrjun 2008 hafi stefnda borist ábendingar um að stefnandi beitti stöðu sinni til að takmarka samkeppni á markaði fyrir höfuðlyklakerfi. Af þessu tilefni hafi stefndi hafið athugun á því hvort aðgerðir stefnanda brytu í bága við 11. gr. samkeppnislaga þar sem lagt er bann við misnotkun fyrirtækis á markaðsráðandi stöðu. Athugun stefnda hafi beinst að ákvæðum í samningum stefnanda við framleiðendur höfuðlyklakerfa, en þar sé lagt bann við því að þeir selji eða veiti þjónustu vegna annarra höfuðlyklakerfa en ASSA. Athugunin hafi einnig beinst að ætluðum þvingunum stefnanda við að framfylgja slíkum ákvæðum. Stefndi hafi aflað upplýsinga, meðal annars frá stefnanda og öðrum framleiðendum höfuðlyklakerfa hér á landi. Í kjölfarið hafi stefndi samið sérstakt andmælaskjal sem stefnanda hafi verið boðið að gera athuga-semdir við. Í athugasemdum stefnanda sé því mótmælt að aðgerðir hans hefðu brotið í bága við 11. gr. samkeppnislaga.
Í ákvörðun stefnda 8. apríl 2009 sé rökstutt að stefnandi væri í markaðsráðandi stöðu á hinum skilgreinda markaði og að hann hefði með því að gera samninga, þar sem framleiðendum höfuðlyklakerfa var bannað að selja kerfi frá öðrum en ASSA, brotið gegn 11. gr. samkeppnislaga. Með vísan til þessa hafi stefnanda verið gert að greiða sekt að fjárhæð 15.000.000 króna.
Með kæru 6. maí 2009 hafi stefnandi skotið ákvörðuninni til áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Stefnandi hafi greitt 8. sama mánaðar 15.000.000 króna til stefnda, íslenska ríkisins.
Í úrskurði nefndarinnar 6. júlí sama ár hafi verið talið að skilgreining stefnda, um að sala á efni til að framleiða höfuðlyklakerfi tilheyrði sérstökum markaði, væri of þröng. Nefndin hafi hins vegar tekið fram að hún féllist á rökstuðning með ákvörðun stefnda, um að höfuðlyklakerfi tilheyrðu sérstökum markaði og að ekki væri staðganga á milli þess markaðar og annarra aðgangskerfa í þeim mæli að áhrif gæti haft á skilgreiningu markaðarins. Samkvæmt því hafi nefndin ekki talið tilefni til að greina á milli þess hvort um væri að ræða sölu á efni til að framleiða höfuðlyklakerfi eða sölu á tilbúnum kerfum, heldur væri um einn og sama markaðinn að ræða. Við mat á stöðu stefnanda hafi nefndin talið að hafa bæri í huga að stefnandi væri eini aðilinn sem hefði flutt inn efni til að framleiða höfuðlyklakerfi frá árinu 2002. Allir aðrir seljendur höfuðlyklakerfa væru því háðir stefnanda um efnisöflun og þar með kerfið sjálft. Þá hafi nefndin talið að efnahagslegur styrkleiki stefnanda og lítil velta á hinum skilgreinda markaði leiddi til þess að ekki væru miklir hagsmundir fyrir nýja aðila að ná fótfestu á markaðnum. Af þessum sökum og með vísan til röksemda í ákvörðun stefnda hafi nefndin fallist á að stefnandi væri í markaðsráðandi stöðu. Nefndin hafi talið að ákvæði í samningum stefnanda við framleiðendur höfuðlyklakerfa, þar sem lagt var bann við því að þeir seldu eða veittu þjónustu vegna höfuðlyklakerfa frá öðrum en ASSA, fælu í sér misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Með vísan til þessa hafi nefndin staðfest ákvörðun stefnda um að stefnandi hefði brotið gegn 11. gr. samkeppnislaga. Aftur á móti hafi nefndin talið að sekt vegna brotanna skyldi vera 10.000.000 króna. Stefnda, íslenska ríkið, hafi endurgreitt stefnanda 5.000.000 króna 10. júlí 2009 í samræmi við niðurstöðu áfrýjunarnefndar samkeppnismála.
Sýknukrafa stefndu sé reist á því að ákvörðun stefnda, Samkeppniseftirlitsins, frá 8. apríl 2009 og úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála, 6. júlí s.á., séu í samræmi við 11. gr. samkeppnislaga. Krafan sé jafnframt reist á því að ákvörðun stefnda, Samkeppniseftirlitsins, og úrskurður nefndarinnar séu í samræmi við stjórnsýslulög nr. 37/1993 og meginreglur stjórnsýsluréttar. Vegna þessa beri að sýkna stefndu af kröfum stefnanda.
Krafa stefnanda, um að úrskurðurinn verði felldur úr gildi, sé í fyrsta lagi reist á því að óljóst sé hvort nefndin telji markað þann sem stefnandi starfi á vera sölu á höfuðlyklakerfum til neytenda eða þjónustuaðila. Ef nefndin telji að markaðurinn sé sala á höfuðlyklakerfum til neytenda sé ljóst að stefnandi sé ekki í markaðsráðandi stöðu en telji nefndin að markaðurinn sé sala á höfuðlyklakerfum til þjónustuaðila liggi ekkert fyrir um stöðu stefnanda á þeim markaði. Af þessum sökum sé ekki unnt að staðhæfa að stefnandi hefði brotið gegn 11. gr. samkeppnislaga. Stefndu mótmæli þessari málsástæðu stefnanda. Úrskurður nefndarinnar sé skýr um að sala á höfuðlyklakerfum sé sjálfstæður markaður og enginn greinarmunur sé gerður á því hvort um sé að ræða sölu á höfuðlyklakerfum (sala til neytenda) eða efni til að framleiða slík kerfi (sala til þjónustuaðila). Í úrskurði nefndarinnar sé sérstaklega tekið fram að nefndin telji skilgreiningu stefnda um að sala á efni til að framleiða höfuðlyklakerfi tilheyri sérstökum markaði of þrönga. Af úrskurði nefndarinnar leiði því að sala á slíku efni tilheyri markaði fyrir sölu á höfuðlyklakerfum. Með því hafi nefndin ekki talið ástæðu til að greina á milli þess hvort um væri að ræða sölu á höfuðlyklakerfum (til neytenda) eða efni til að framleiða slík kerfi (til þjónustuaðila). Stefndu mótmæli því að óljóst sé á hvaða markaði nefndin telji stefnanda starfa.
Krafa stefnanda um að úrskurðurinn verði felldur úr gildi sé í öðru lagi reist á því að markaður málsins sé þar ekki rétt skilgreindur. Stefnandi byggi á því að markaður málsins sé sala á aðgangskerfum, en staðganga sé á milli höfuðlyklakerfa, rafrænna aðgangskerfa og stakra lykla og lása. Máli sínu til stuðnings vísi stefnandi til þess að þessar vörur fullnægi sömu þörfum, verð fyrir þær séu áþekk og mörg dæmi séu um að neytendur skipti á milli. Stefnandi haldi því fram að ólíkir eiginleikar komi ekki einir og sér í veg fyrir að staðganga sé á milli þessara vara. Tilvist og styrkur samkeppnislegs aðhalds gefi vísbendingar um hver sé markaður málsins fremur en tækni- eða skipulagsleg einkenni. Stefnandi telji að 5-10% hækkun á verði höfuðlyklakerfa myndi að öllum líkindum leiða til þess að neytendur myndu snúa sér til þeirra sem selji rafræn aðgangskerfi eða staka lykla og lása. Jafnframt byggi stefnandi á því að landfræðilegur markaður málsins sé Evrópa en ekki Ísland.
Stefndu mótmæla þessari málsástæðu stefnanda. Í ákvörðun stefnda, Samkeppniseftirlitsins, sé ítarlega rökstutt að höfuðlyklakerfi, rafræn aðgangskerfi og stakir lyklar og lásar tilheyri ekki sama markaðnum. Á þennan rökstuðning sé fallist í úrskurði áfrýjunarnefndarinnar. Staðgengdarvara og staðgengdarþjónusta sé samkvæmt 5. tl. 1. mgr. 4. gr. samkeppnislaga vara eða þjónusta sem að fullu eða verulegu leyti geti komið í stað annarrar. Mat á því hvort um sé að ræða staðgengdarvöru og staðgengdarþjónustu ráðist fyrst og fremst af eiginleikum, mögulegri notkun og verði vörunnar eða þjónustunnar sem um ræði.
Höfuðlyklakerfi annars vegar og rafræn aðgangskerfi og stakir lyklar og lásar hins vegar hafi ekki sömu eiginleika, enda þótt það sé sameiginlegt einkenni þessara vara að þær séu notaðar til að læsa rýmum og veita aðgang að þeim. Höfuðlyklakerfi samanstandi af mismunandi lásum og lyklum en einn höfuðlykill gangi að öllum lásum kerfisins. Með höfuðlyklakerfi sé þannig hægt að veita takmarkaðan og mismunandi aðgang að rýmum, enda þótt einn höfuðlykill gangi að öllum rýmum eignarinnar. Almennt megi segja að rafræn aðgangskerfi feli í sér sömu eiginleika og höfuðlyklakerfi. Sveigjanleiki slíkra kerfa sé hins vegar meiri en höfuðlyklakerfa. Þetta lýsi sér meðal annars í því að auðvelt sé að bæta við lyklum, loka fyrir aðgang, t.d. þegar lykill glatast eða starfsmaður lætur af störfum, eða breyta aðgangi lykla sem eru í notkun. Einnig sé öryggi slíkra kerfa meira en höfuðlyklakerfa. Með rafrænum aðgangskerfum sé oft hægt að hafa eftirlit og rekja hvort einstaklingar hafi verið eða séu í ákveðnum rýmum á tilteknum tíma. Í mörgum tilvikum sé jafnframt hægt að tengja slík kerfi við önnur kerfi, svo sem starfsmanna-, myndavéla-, innbrotsviðvörunar- og brunavarnakerfi. Enda þótt stakir lyklar og lásar geti tryggt öryggi fasteignar hafi þeir ekki sama sveigjanleika og höfuðlyklakerfi, en með þeim sé ekki unnt að veita takmarkaðan og mismunandi aðgang að rýmum með hverjum lykli fyrir sig og einum höfuðlykli fyrir alla lása kerfisins. Stakir lyklar og lásar fullnægi heldur ekki þeirri þörf að með einum lykli eða korti fáist aðgangur að mörgum rýmum eða lásum. Stefndu mótmæli því að unnt sé að álykta að um staðgönguvörur sé að ræða vegna þess að einhverjir hafi skipt úr höfuðlyklakerfi yfir í rafræn aðgangskerfi. Þetta sýni fremur að viðkomandi telji sig hafa þörf fyrir aðra og fjölbreyttari eiginleika í því kerfi sem þeir skipti yfir í en í því kerfi sem þeir skipti úr.
Stefndu byggi jafnframt á því að mikill munur á verði komi í veg fyrir að staðganga sé milli höfuðlyklakerfa, rafrænna aðgangskerfa og stakra lykla og lása. Athugun stefnda á þessu hafi leitt í ljós að verð fyrir rafræn aðgangskerfi sé að jafnaði tvö- eða þrefalt hærra en verð fyrir höfuðlyklakerfi. Þessi munur sé skýr vísbending um að höfuðlyklakerfi og rafræn aðgangskerfi séu ekki staðgönguvörur. Stefnandi hafi ekki lagt fram nein gögn til stuðnings því að verð þessara vara sé áþekkt. Stakir lyklar og lásar geti ekki fullnægt þeirri þörf að með einum lykli eða korti fáist aðgangur að mörgum rýmum eða lásum. Samanburður á verði stakra lykla og lása annars vegar og höfuðlyklakerfis hins vegar hafi því almennt takmarkaða þýðingu. Með vísan til þessa sé þeirri staðhæfingu mótmælt að 5-10% hækkun á verði höfuðlyklakerfa hefði í för með sér að neytendur myndu frekar kaupa rafræn aðgangskerfi eða staka lykla og lása. Ákvörðun stefnda Samkeppniseftirlitsins og úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála séu í samræmi við úrlausnir erlendra samkeppnisyfirvalda.
Stefndu byggi á því að landfræðilegur markaður málsins sé Ísland. Engar vísbendingar hafi komið fram um annað undir rekstri málsins og sé öllum staðhæfingum stefnanda í gagnstæða veru mótmælt.
Krafa stefnanda um að úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála verði felldur úr gildi sé í þriðja lagi reist á því að stefnandi sé ekki í markaðsráðandi stöðu á markaði fyrir sölu á höfuðlyklakerfum. Stefnandi haldi því fram að hlutdeild hans á markaði fyrir sölu á „tilbúnum höfuðlyklakerfum og þjónustu“ sé 15-20%, en hlutdeild Láshússins ehf. og Húsasmiðjunnar hf. sé töluvert hærri. Stefnandi telji einnig undarlegt að litið hafi verið til þess að hann sé eini aðilinn sem hafi flutt inn efni til að framleiða höfuðlyklakerfi frá árinu 2002. Sé markaður málsins sala á höfuðlyklakerfum sé enginn háður stefnanda um slík kerfi. Fjöldi aðila flytji inn höfuðlyklakerfi í samkeppni við stefnanda auk þess sem neytendur hafi úr fjölda slíkra kerfa að velja á smásölumarkaði. Stefnandi vísi einnig til þess að efnahagslegur styrkleiki hans sé ekki meiri en samkeppnisaðila hans. Samkeppnisyfirvöldum hafi ekki tekist að sýna fram á að stefnandi hafi meiri hag af því en aðrir að beita styrk sínum til að hindra samkeppni.
Stefndu byggi á því að markaður málsins sé sala á höfuðlyklakerfum en til hans teljist einnig þjónusta og viðhald á slíkum kerfum. Af úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála leiði að til þessa markaðar teljist sala á efni til að framleiða höfuðlyklakerfi. Við mat á stöðu stefnanda sé þess vegna óhjákvæmilegt að líta til þess að stefnandi sé eini aðilinn sem hafi flutt inn efni til að framleiða höfuðlyklakerfi frá árinu 2002. Aðrir framleiðendur höfuðlyklakerfa séu því háðir stefnanda um efnisöflun og þar með talið kerfið sjálft. Staðhæfingum stefnanda um að fjöldi aðila flytji inn höfuðlyklakerfi í samkeppni við hann sé mótmælt sem röngum, enda væru þær ekki í samræmi við athugun stefnda. Ljóst sé að stefnandi hafi tögl og hagldir á markaði fyrir sölu höfuðlyklakerfa. Að teknu tilliti til þeirra tekna sem stefnandi hafi af sölu á efni til framleiðenda höfuðlyklakerfa sé markaðshlutdeild hans 35-40%. Stefndu mótmæli því staðhæfingum stefnanda um að markaðshlutdeild hans sé 15-20%, enda byggi þær á veltu stefnanda af sölu á „tilbúnum höfuðlyklakerfum og þjónustu“, en ekki veltu á þeim markaði sem nefndin telji að stefnandi starfi á.
Þá sé byggt á því að efnahagslegur styrkleiki stefnanda hafi þýðingu í málinu. Eigið fé stefnanda sé umtalsvert og til staðar hvati fyrir hann að beita stöðu sinni til að draga úr samkeppni. Þetta hafi meðal annars lýst sér í því að stefnandi hafi hótað því að hætta viðskiptum við framleiðendur höfuðlyklakerfa sem vilji auka samkeppni á markaðnum, sbr. umfjöllun í ákvörðun stefnda, Samkeppniseftirlitsins.
Stefndu byggi einnig á því að verulegar aðgangshindranir séu á markaði fyrir höfuðlyklakerfi hér á landi. Afleiðingarnar séu þær að frá árinu 2002 hefði enginn reynt að hasla sér völl á markaðnum, enda hafi stefnandi ítrekað haldið því fram að erfitt sé að komast inn á hann og að innflutningur á efni til að framleiða höfuðlyklakerfi sé ekki auðsóttur. Ástæður þessa megi öðru fremur rekja til sterkrar stöðu stefnanda og samninga hans við framleiðendur höfuðlyklakerfa með ákvæðum sem takmarki samkeppni. Þá verði ekki horft fram hjá því að stefnandi njóti þess að vörumerkið ASSA sé mjög útbreitt hér á landi.
Krafa stefnanda um að úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála verði felldur úr gildi sé í fjórða lagi reist á því að umrædd ákvæði í samningum stefnanda við framleiðendur höfuðlyklakerfa stríði ekki gegn 11. gr. samkeppnislaga. Ákvæðunum sé ætlað að stuðla að öryggi og verndun viðskiptaupplýsinga og vörumerkis og þeirra sé ekki þörf í þeim tilvikum sem stefnandi selji tilbúin höfuðlyklakerfi til endursölu. Breytingar á ákvæðunum hafi komið til vegna athugunar stefnda. Í því felist ekki viðurkenning á að ákvæðin hafi ekki samræmst samkeppnislögum. Stefnandi haldi því jafnframt fram að samningarnir séu svonefndir sér-leyfissamningar sem eðlilegt sé að hafi að geyma ákvæði um einkarétt. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins telji sérleyfisgjafa heimilt að leggja nánar tilteknar skuldbindingar á sérleyfishafa. Hætta sé á að viðkvæmar upplýsingar myndu „flæða á milli“ ef einn og sami aðili framleiði fleiri en eitt höfuðlyklakerfi. Að lokum haldi stefnandi því fram að ákvæðin, sem um ræði, hamli ekki samkeppni, meðal annars þar sem stefnandi eigi í harðri samkeppni, velta og hagnaður samkeppnisaðila sé að líkindum mun meiri en stefnanda, framlegð stefnanda hafi lækkað og stefnandi hafi tapað markaðshlutdeild samhliða fjölgun samkeppnisaðila. Þá hafi viðskiptavinir stefnanda mikinn kaupendastyrk og muni aldrei líða neins konar ofríki.
Samningsákvæði þau sem hér um ræði banni leyfishafa (framleiðanda höfuðlyklakerfis) að selja eða veita þjónustu vegna höfuðlyklakerfis frá öðrum en ASSA í Svíþjóð. Ákvæði þessi hafi fyrst og fremst það hlutverk að vernda stefnanda fyrir samkeppni á markaði fyrir höfuðlyklakerfi og styrkja með því markaðsráðandi stöðu hans. Ákvæðin feli í sér svonefnd einkakaup en markaðsráðandi fyrirtæki sé óheimilt að gera slíka samninga, sbr. dóma Hæstaréttar Íslands 19. febrúar 2004 í máli nr. 323/2003, Skífan hf. gegn samkeppnisráði, og 2. október 2008 í máli nr. 640/2007, Flugþjónustan Keflavíkurflugvelli ehf. gegn Samkeppniseftirlitinu.
Stefndu mótmæli því að einkakaupaákvæðunum hafi verið ætlað að tryggja öryggi og vernda viðskiptaupplýsingar og vörumerki. Í þessum ákvæðum sé ekki vikið að öryggi eða aðferðum til að tryggja það eða koma í veg fyrir misnotkun á upplýsingum. Á hinn bóginn sé þar fjallað um gæslu kerfisútreikninga. Þetta styðji að einkakaupa-ákvæðunum hafi verið ætlað að vernda stefnanda fyrir samkeppni. Í þessu sambandi skipti máli að stefnandi hafi upplýst að í nýjum samningum hans við framleiðendur höfuðlyklakerfa sé ekki að finna hliðstæð ákvæði.
Stefndu mótmæli því að stefnanda sé heimilt að semja um einkakaup við viðskiptamenn sína á þeim grundvelli að um sérleyfissamninga sé að ræða. Stefnandi sé í markaðsráðandi stöðu og því eigi undanþága sú sem hann vísi til um sérleyfissamninga ekki við um hann. Þá mótmæli stefndu því að um sérleyfissamninga sé að ræða, enda fjalli þeir ekki um þá viðskiptahugmynd sem hið ætlaða sérleyfi byggist á, notkun á vörumerkjum eða greiðslur til stefnanda vegna hins ætlaða sérleyfis.
Ekkert hald sé í því fyrir stefnanda að vísa til þess að framlegð hans hafi lækkað, enda sé brot á 11. gr. samkeppnislaga ekki háð því að brotið leiði til fjárhagslegs ábata þess sem misnoti ráðandi stöðu sína á markaði. Hvað lægri markaðshlutdeild snerti verði að líta til þess að stefnandi hafi upplýst að hann gæti sjálfur annast alla framleiðslu á höfuðlyklakerfum ef hann kysi svo. Á hinn bóginn hafi hann talið að varan yrði aðgengilegri ef fleiri aðilar kæmu að framleiðslu hennar. Stefndu mótmæli staðhæfingum um að viðskiptavinir stefnanda hafi mikinn kaupendastyrk sem röngum. Sú háttsemi stefnanda sem varð tilefni athugunar stefnda sýni, svo ekki verði um villst, að framleiðendur höfuðlyklakerfa væru háðir stefnanda um alla efnisöflun. Ekkert hafi komið fram um að þeir hefðu þann styrk sem stefnandi haldi fram.
Varakrafa stefnanda um að sektin verði lækkuð sé reist á því að fjárhæð hennar standist engin rök og stríði gegn „meginreglum samkeppnisréttarins varðandi ákvörðun sekta, auk meðalhófs- og jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins“. Stefnandi mótmæli því að samningsákvæðin hafi falið í sér verulega aðgangshindrun og að um alvarlegt og umfangsmikið brot hafi verið að ræða. Þá bendi stefnandi á að í nýjum samningum hafi ákvæðin verið felld brott og að hann hafi verið grandlaus um að þau stríddu gegn samkeppnislögum.
Stefndu mótmæli þessum málsástæðum stefnanda. Staðhæfingar um að fjárhæð sektarinnar standist engin rök og stríði gegn meginreglum samkeppnisréttar og stjórnsýsluréttar hafi ekki verið skýrðar og því ómögulegt að fjalla sérstaklega um þær en þeim sé mótmælt sem röngum. Samningsákvæði þau sem mál þetta sé sprottið af hafi falið í sér verulega samkeppnishindrun, enda hafi stefnandi beitt þeim fyrir sig til að koma í veg fyrir að samkeppnisaðili hans hæfi innflutning á efni til að framleiða höfuðlyklakerfi frá öðrum en ASSA. Brotin séu því sérstaklega alvarleg fyrir þær sakir að stefnandi hafi fylgt því eftir að ákvæði samninga hans við framleiðendur höfuðlyklakerfa væru virt. Engu skipti þótt stefnandi hafi fellt ákvæðin brott í nýjum samningum, brotin standi eftir sem áður. Þá sé ljóst að grandsemi stefnanda hafi heldur ekki áhrif á fjárhæð sektarinnar. Auk þess sé því mótmælt að stefnandi hafi ekki gert sér grein fyrir því að samningsákvæðin stríddu gegn samkeppnislögum.
Krafa stefnanda á hendur stefnda, íslenska ríkinu, sé miðuð við að sekt hans verði felld niður eða lækkuð og að greiddir verði dráttarvextir, hvort tveggja af þeirri fjárhæð og fjárhæðinni sem stefndi endurgreiddi 10. júlí 2009. Stefndu mótmæli því að heimild sé í lögum til að dæma dráttarvexti á þær fjárhæðir sem um ræði, enda vísi stefnandi ekki til slíkrar heimildar.
Krafa stefndu um sýknu af kröfum stefnanda styðjist við ákvæði samkeppnislaga, ákvæði stjórnsýslulaga og meginreglur stjórnsýsluréttar. Krafa stefndu um málskostnað sé reist á ákvæðum XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Niðurstaða
Í úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála, sem krafist er að felldur verði úr gildi, er fallist á þau rök sem fram koma í ákvörðun stefnda, Samkeppniseftirlitsins, að höfuðlyklakerfi tilheyri sérstökum markaði og að ekki sé staðganga á milli þess markaðar og annarra aðgangskerfa í þeim mæli að það geti haft áhrif á markaðsskilgreininguna. Skilgreiningu stefnda, Samkeppniseftirlitsins, þess efnis að sala á efni til framleiðslu höfuðlyklakerfis tilheyri sérstökum markaði, telur áfrýjunarnefndin hins vegar of þrönga. Í úrskurðinum er fallist á að landfræðilegi markaðurinn sé Ísland með þeim rökum sem fram komi í hinni kærðu ákvörðun.
Í ákvörðun stefnda, Samkeppniseftirlitsins, er markaðurinn skilgreindur með skýrum og skilmerkilegum hætti. Þar er því lýst að hagfræðileg rök leiði til þess að líta verði á viðkomandi markað frá tveimur sjónarhornum, þ.e. annars vegar vöru- eða þjónustumarkaðinn og hins vegar landfræðilega markaðinn. Með viðkomandi vörumarkaði sé átt við markað fyrir allar vörur og þjónustu sem neytendur líti á sem staðgöngu-vörur eða staðgönguþjónustu vegna eiginleika sinna, verðs og áformaðrar notkunar. Vísað er enn fremur til þess að viðtekin venja í samkeppnisrétti sé að skilgreina markaðinn út frá eftirspurnarhlið hans. Þá er því lýst í ákvörðuninni að uppbygging markaðarins sé með þeim hætti að stefnandi flytji inn efni til að framleiða höfuðlyklakerfi, meðal annars frá Assa. Stefnandi geri samninga við þjónustuaðila hér á landi um leyfi þeim til handa til að framleiða, selja og þjónusta höfuðlyklakerfi og þjónustuaðilarnir kaupi efni til að framleiða höfuðlyklakerfi frá stefnanda. Þá er í ákvörðun stefnda rökstutt að höfuðlyklakerfi tilheyri sérstökum markaði. Þar er ekki fallist á að staðganga sé á milli höfuðlyklakerfis annars vegar og rafrænna aðgangskerfa og stakra lykla og lása hins vegar. Það er byggt á því að eiginleikar og verð þessara mismunandi tegunda aðgangskerfa séu það ólík að þau tilheyri ekki sama markaði.
Með úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála er að öllu leyfi fallist á þau rök sem stefnda, Samkeppniseftirlitið, færir fyrir því að höfuðlyklakerfi tilheyri sérstökum markaði og jafnframt að ekki sé staðganga á milli þess markaðar og annarra aðgangskerfa í þeim mæli að það geti haft áhrif á markaðsskilgreininguna. Þótt áfrýjunarnefndin telji þá skilgreiningu of þrönga, að sala á efni til framleiðslu höfuðlyklakerfis tilheyri sérstökum markaði, eru allar aðrar forsendur í ákvörðun stefnda varðandi skilgreiningu á markaðnum staðfestar með hinum umdeilda úrskurði. Áfrýjunarnefndin hefur því með úrskurðinum staðfest í meginatriðum niðurstöðu í ákvörðun stefnda um það hvernig skilgreina skuli markaðinn. Samkvæmt því er ekki fallist á þær röksemdir stefnanda að áfrýjunarnefndin hafi í meginatriðum verið ósammála ákvörðun stefnda, Samkeppniseftirlitsins, varðandi skilgreiningu á vöru- og þjónustumarkaðnum. Samkvæmt úrskurðinum er markaðurinn skilgreindur sem sala á höfuðlyklakerfum, hvort heldur heildsala eða smásala.
Að þessu virtu verður að hafna þeim málsástæðum stefnanda að óljóst sé hvernig markaðurinn er skilgreindur af hálfu áfrýjunarnefndarinnar eða að skilgreining markaðarins sé takmörkuð eða óskýr í úrskurðinum. Rökstuðningurinn sem áfrýjunarnefndin telur að eigi við um skilgreiningu markaðarins kemur fram í úrskurði nefndarinnar og í ákvörðun stefnda, Samkeppniseftirlitsins. Samkvæmt því og með vísan til þess sem þegar hefur verið rakið verður að hafna því að áfrýjunarnefndin hafi ekki skilgreint markaðinn með nægilega skýrum hætti eða að rökstuðning skorti fyrir því hvernig markaðurinn er skilgreindur í hinum umdeilda úrskurði. Dómurinn fellst því ekki á að annmarkar séu að þessu leyti á úrskurðinum, eins og haldið er fram af hálfu stefnanda, sem leiða ættu af þeim sökum til ógildingar hans. Þeirri málsástæðu stefnanda er því hafnað.
Dómurinn telur að markaðurinn sé rétt skilgreindur í hinum umdeilda úrskurði. Aðgangskerfin sem um ræðir eru ólík og hafa ekki sömu eiginleika, eins og lýst er í ákvörðun stefnda og úrskurðinum. Þótt aðgangskerfi gegni að einhverju leyti sambærilegu hlutverki, eins og stefnandi lýsir, virka þau á ólíkan hátt og möguleikar við notkun þeirra eru ekki þeir sömu, eins og fram kemur í ákvörðun stefnda þar sem því er lýst að ekki sé um sömu notkunarmöguleika að ræða og enn fremur á hvern hátt þeir eru ólíkir. Samkvæmt þeirri lýsingu tilheyra höfuðlyklakerfi sérstökum markaði, enda sé ekki staðganga á milli höfuðlyklakerfis annars vegar og rafrænna aðgangskerfa og stakra lykla og lása hins vegar. Þetta byggist á því að þó að þessi ólíku aðgangskerfi geti að einhverju leyti komið hvert í annars stað gera þau það ekki að fullu eða verulegu leyti vegna ólíkra notkunarmöguleika og verðmunar en fram kemur í gögnum málsins að töluverður verðmunur er á þessum aðgangskerfum. Verður því að líta svo á að ekki sé fullnægt skilyrðum um staðgöngu samkvæmt 5. tl. 1. mgr. 4. gr. samkeppnislaga þannig að áhrif hafi á markaðsskilgreininguna, eins og áfrýjunarnefnd samkeppnismála hefur réttilega komist að niðurstöðu um í hinum umdeilda úrskurði.
Röksemdir stefnda fyrir því að landfræðilegi markaðurinn sé Ísland koma fram í ákvörðun stefnda, Samkeppniseftirlitsins, og er fallist á þær í úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Þar er vísað til þess að stefndi telji að markaðssetning erlendra fyrirtækja, sem selji tilbúin höfuðlyklakerfi, séu óveruleg hér á landi. Þá sé það skilyrði varðandi hinn landfræðilega markað að viðskiptin séu í báðar áttir. Íslensk fyrirtæki, sem selji tilbúin höfuðlyklakerfi, starfi ekki á erlendum mörkuðum og séu slík viðskipti því nær engin. Dómurinn telur að leggja verði þessar forsendur til grundvallar við úrlausn málsins og að landfræðilegi markaðurinn sé með vísan til þeirra réttilega skilgreindur í hinum umdeilda úrskurði.
Samkvæmt öllu framangreindu verður ekki fallist á þá málsástæðu stefnanda að markaðurinn hafi verið ranglega skilgreindur í úrskurðinum.
Í hinum umdeilda úrskurði eru tilgreind þau atriði sem tekið er mið af við skilgreiningu á stöðu stefnanda á markaðnum og færð eru rök fyrir því að stefnandi hafi markaðsráðandi stöðu á þeim markaði sem þar er skilgreindur. Samkvæmt 4. tl. 1. mgr. 4. gr. samkeppnislaga hefur fyrirtæki markaðsráðandi stöðu þegar það hefur þann efnahagslega styrkleika að geta hindrað virka samkeppni á þeim markaði sem máli skiptir og getur að verulegu leyti starfað án þess að taka tillit til keppinauta, viðskiptavina og neytenda.
Í úrskurðinum er byggt á því að stefnandi sé eini aðilinn sem hafi flutt inn efni til framleiðslu á höfuðlyklakerfum frá árinu 2002. Allir aðrir seljendur á markaðnum séu háðir stefnanda um efnisöflun og þar með talið kerfið sjálft. Vísbendingar liggi fyrir um að hægt sé að komast inn á markaðinn án verulegra vandkvæða en hins vegar hafi stefnandi töluverðan efnahagslegan styrkleika og hinn skilgreindi markaður velti einungis tiltölulega lágum fjárhæðum á ári og því séu ekki miklir hagsmunir fólgnir í því fyrir nýja aðila að koma inn á hann.
Röksemdir stefnanda fyrir því að staða hans á markaði hafi ekki verið rétt skilgreind eru aðallega þær að markaðshlutdeild stefnanda sé minni en annarra á sama markaði og engin gögn bendi til þess að stefnandi hafi meiri efnahagslegan styrk en keppinautar hans. Í málsvörn stefndu er vísað til þess að fyrir liggi að eigið fé stefnanda sé umtalsvert og að markaðshlutdeild stefnanda á þeim markaði sem um ræði sé 35-40% en ekki 15-20%, eins og stefnandi haldi fram.
Dómurinn telur að önnur atriði en markaðshlutdeild hafi jafnframt áhrif á mat og skilgreiningu á stöðu stefnanda á markaðnum, eins og rakið er í úrskurðinum. Þar er tiltekið hver þau eru og hvernig þau skipti máli við mat á því hvort stefnandi hafi þann efnahagslega styrkleika að geta hindrað virka samkeppni og geti starfað að verulegu leyti á þeim markaði án þess að taka tillit til keppinauta, viðskiptavina og neytenda, eins og fram kemur í framangreindu lagaákvæði. Fram kemur í úrskurðinum að huga beri að markaðshlutdeild við mat á stöðu stefnanda á markaðnum og því skipulagi sem þar ríkir. Þar er enn fremur lýst ástæðum fyrir því að ekki væru miklir hagsmunir fólgnir í því fyrir nýja aðila að koma inn á þennan markað. Við þessar aðstæður er staða stefnanda á þessum markaði metinn sterkari en ella. Við mat á efnahagslegum styrkleika stefnanda hefur enn fremur verið litið til upplýsinga, sem fram koma í gögnum málsins, þar á meðal ársreikningi og rekstrarreikningi stefnanda, sem talin eru í gagnalista stefnda, Samkeppniseftirlitsins, 13. júní 2008. Meðal þeirra er bréf stefnanda 31. mars 2008 ásamt fylgiskjölum. Í bréfi stefnanda eru talin meðal fylgiskjala ársreikningur stefnanda árið 2006 og rekstrarreikningur fyrir árin 2002 til 2005. Í ákvörðun stefnda, Samkeppniseftirlitsins, er við mat á efnahagslegum styrkleika stefnanda litið til heildartekna stefnanda árin 2006 og 2007, heildareigna sömu ár og eigin fjár. Hér verður því að hafna þeirri staðhæfingu stefnanda að engin gögn hafi legið fyrir í málinu til þess að unnt væri að meta efnahagslegan styrkleika stefnanda þegar staða hans á markaðnum var skilgreind.
Með ákvörðun stefnda, Samkeppniseftirlitsins, og í úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála var tekin afstaða til þess hvort stefnandi hefði þann efnahagslega styrkleika að geta hindrað virka samkeppni á þeim markaði sem máli skiptir. Þar var og talið að svo væri og færð viðeigandi rök fyrir því. Hvort stefnandi hafði hag af því að beita efnahagslegum styrkleika eða meiri hag en aðrir að hindra samkeppni skiptir ekki máli við úrlausn á þessu álitaefni heldur hvort aðstæður voru þannig að stefnandi hafi haft þann efnahagslega styrkleika að geta hindrað virka samkeppni á þeim markaði, eins og segir í lagagreininni. Það var metið af hálfu áfrýjunarnefndarinnar og færð rök fyrir því. Fallist er á að sú niðurstaða hafi að öllu leyti verið rétt. Máls-ástæðum stefnanda, þess efnis að efnahagslegur styrkur hans hafi ekki áhrif á stöðu hans á hinum skilgreinda markaði, er með vísan til alls þessa hafnað.
Samkvæmt öllu framangreindu verður ekki fallist á þá málsástæðu stefnanda að staða hans á markaðnum hafi ekki verið réttilega skilgreind í úrskurði áfrýjunarnefndarinnar.
Stefnandi heldur því fram að áfrýjunarnefndin hafi ranglega komist að þeirri niðurstöðu að stefnandi hafi misnotað hina meintu markaðsráðandi stöðu með umræddum samningsákvæðum þar sem lagt er bann við því að leyfishafi selji efni til að framleiða höfuðlyklakerfi frá öðrum framleiðendum en ASSA. Stefnandi heldur því fram að um sérleyfissamning hafi verið að ræða og ákvæðin eingöngu sett til verndar vörumerkinu og upplýsingum sem trúnaður hafi átt að ríkja um. Samningsákvæðin hefðu heldur ekki haft hamlandi áhrif á samkeppni og ekki skaðleg áhrif á markaðinn, hvorki með hliðsjón af hagsmunum neytenda né samkeppnisaðila.
Þegar litið er til þess sem fyrir liggur í málinu um markaðsráðandi stöðu stefnanda á markaðnum verður að telja að umrædd samningsákvæði séu ótvírætt til þess fallin að styrkja stöðu stefnanda þar enn frekar og raska þar með samkeppni. Ekki er fallist á að stefnanda sé þessi háttsemi heimil með vísan til þess að um trúnaðarupplýsingar sé að ræða eða sérleyfissamninga, enda hafa af hálfu stefnanda ekki verið færð fram haldbær rök fyrir því. Verður samkvæmt framangreindu að telja að með umræddum samningsákvæðum hafi stefnandi brotið gegn 11. gr. samkeppnislaga. Verður þar með ekki fallist á kröfu stefnanda um að fella úrskurðinn úr gildi vegna þess að með honum hafi ranglega verið komist að þeirri niðurstöðu að stefnandi hefði með samningsákvæðunum brotið gegn lagagreininni.
Þar sem ekki hefur verið fallist á neina af framangreindum málsástæðum stefnanda ber að sýkna stefnda, Samkeppniseftirlitið, af aðalkröfu stefnanda um að úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála í máli nr. 9/2009 verði fellur úr gildi.
Varakrafa stefnanda um að sektin verði felld niður eða lækkuð er studd þeim rökum að ekki hafi verið tilefni til að ákveða stefnanda stjórnvaldssekt en verði ekki á það fallist er því haldið fram af hálfu stefnanda að sektarfjárhæðin sé allt of há og standist engin rök. Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. samkeppnislaga geta sektir fyrir brot á lögunum numið allt að 10% af heildarveltu síðasta reikningsárs hjá fyrirtæki eða samtökum fyrirtækja sem eiga aðild að broti. Við ákvörðun sekta skal hafa hliðsjón af eðli og umfangi brota, hve lengi brot hafa staðið og hvort um ítrekað brot er að ræða. Í úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála kemur fram að sektarákvörðun stefnda, Samkeppniseftirlitsins, sé studd með tilvísun í veltu stefnanda og varnaðaráhrif sem sektum sé ætlað að hafa. Áfrýjunarnefndin telji einnig rétt að horfa til stærðar viðkomandi markaðar og þeirra hagsmuna sem við hann eru tengdir. Vísað er í úrskurðinum til þessa og að öðru leyti til forsendna sektarákvörðunar stefnda, Samkeppniseftirlitsins, við ákvörðun sektarinnar að fjárhæð 10.000.000 króna. Brotunum er lýst í ákvörðun stefnda, Samkeppniseftirlitsins, og litið til þess að þau séu í eðli sínu alvarleg. Þar er því enn fremur lýst að einokunarstaða stefnanda og einkakaupaákvæðin í þremur samningum, sem þar eru tilgreindir, hafi myndað verulega aðgangshindrun inn á markað fyrir sölu á efnum til framleiðslu höfuð-lyklakerfa. Með vísan til alls þessa þykir sektarákvörðun hæfilega ákveðin samkvæmt meginreglum samkeppnisréttar og stjórnsýsluréttar í úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Ber því að hafna varakröfu stefnanda á hendur stefnda, Samkeppniseftirlitinu, og er það sýknað af henni.
Þar sem niðurstaðan hefur orðið sú að sýkna beri stefnda, Samkeppniseftirlitið, af öllum kröfum stefnanda í málinu leiðir það til þess að sýkna ber einnig stefnda, íslenska ríkið, af aðalkröfu stefnanda á hendur því um endurgreiðslu að fjárhæð 10.000.000 króna og af varakröfunni um endurgreiðslu á lægri fjárhæð í samræmi við úrlausn dómsins. Krafa stefnanda um að stefnda, íslenska ríkinu, verði gert að greiða stefnanda dráttarvexti af 5.000.000 króna, sem var hluti af greiðslu stefnanda 8. maí 2009 og stefnda endurgreiddi stefnanda 10. júlí s.á., er af hans hálfu studd þeim rökum að hann eigi rétt á þeirri kröfu. Stefnandi greiddi umrædda stjórnvaldssekt, eins og hún var ákveðin af hálfu stefnda, Samkeppniseftirlitinu, þegar sú ákvörðun lá fyrir. Sektin var lækkuð um 5.000.000 króna með úrskurði áfrýjunarnefndar Samkeppnismála 6. júlí s.á. og var sú fjárhæð endurgreidda stefnanda 10. júlí s.á., eins og þegar hefur komið fram. Verður ekki séð að stefnandi eigi samkvæmt lögum rétt á dráttarvöxtum af framangreindri fjárhæð úr hendi stefnda, íslenska ríkinu, á umræddu tímabili. Ber því að sýkna stefnda, íslenska ríkið, af þeirri kröfu stefnanda.
Rétt þykir að stefnandi greiði stefnda Samkeppniseftirlitinu 300.000 krónur og stefnda, íslenska ríkinu, 100.000 krónur í málskostnað.
Málið dæmir Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.
D ó m s o r ð:
Stefndu, Samkeppniseftirlitið og íslenska ríkið, eru sýknuð af kröfum stefnanda, Véla og verkfæra ehf., í málinu.
Stefnandi greiði stefnda, Samkeppniseftirlitinu, 300.000 krónur og stefnda, íslenska ríkinu, 100.000 krónur í málskostnað.