Hæstiréttur íslands
Mál nr. 59/2001
Lykilorð
- Málskostnaðartrygging
- Frávísun frá Hæstarétti
|
|
Föstudaginn 18. maí 2001. |
|
Nr. 59/2001. |
Sjávardýr ehf. (Jón Egilsson hdl.) gegn Kolbrúnu Elsu Jónasdóttur (Kristinn Bjarnason hrl.) |
Málskostnaðartrygging. Frávísun máls frá Hæstarétti.
Að beiðni K var S gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Þar sem S varð ekki við því var málinu vísað sjálfkrafa frá Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 14. febrúar 2001.
Stefnda krafðist þess með bréfi 14. mars 2001 með vísan til b. liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að áfrýjanda yrði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Fallist var á þá kröfu með ákvörðun réttarins 27. apríl 2001. Var fjárhæð málskostnaðartryggingar ákveðin 400.000 krónur og áfrýjanda veittur tveggja vikna frestur til að afhenda skilríki fyrir henni. Slík skilríki hafa ekki verið afhent í samræmi við ákvörðun réttarins.
Af þeim ástæðum, sem að framan greinir, og með skírskotun til 3. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 166. gr. sömu laga, svo sem henni var breytt með 20. gr. laga nr. 38/1994, verður málinu vísað sjálfkrafa frá Hæstarétti.
Krafa hefur ekki verið gerð um málskostnað fyrir Hæstarétti og dæmist hann því ekki.
D ó m s o r ð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.