Hæstiréttur íslands

Mál nr. 524/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Samaðild
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi


Mánudaginn 15

 

Mánudaginn 15. október 2007.

Nr. 524/2007.

Rósa Guðrún Bergþórsdóttir og

Stefán Pálsson

(Gísli Guðni Hall hrl.)

gegn

Sigurði Frey Magnússyni og

(Karl Axelsson hrl.)

Kópavogsbæ

(Þórður Clausen Þórðarson hrl.)

 

Kærumál. Samaðild. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.

Í málinu var þess meðal annars krafist að felldur yrði úr gildi úrskurður úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála 18. maí 2007. Héraðsdómur vísaði máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum frá dómi án kröfu þar sem sóknaraðilum hefði borið á grundvelli 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, að stefna einnig P í málinu, þar sem óumdeild væri að hún og varnaraðilinn SM væru bæði rétthafar lóðarinnar nr. 40 við Fróðaþing í Kópavogi. Í dómi Hæstaréttar sagði að varnaraðilinn SM hefði verið gagnaðili sóknaraðila að því máli sem rekið var fyrir úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála og lauk með úrskurði hennar 18. maí 2007. Aðild SM að þessu dómsmáli stafaði af þessu einu, en ekki því að hann væri annar tveggja eiganda fasteignarinnar Fróðaþings 40 í Kópavogi. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 5. október 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 2. október 2007, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að úrskurður héraðsdómara verði felldur úr gildi og lagt fyrir hann að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefjast þau kærumálskostnaðar óskipt úr hendi varnaraðila.

Varnaraðilinn Sigurður Freyr Magnússon kærði úrskurð héraðsdómara fyrir sitt leyti 8. október 2007. Hann krefst þess að úrskurðurinn verði staðfestur um annað en málskostnað, sem sér verði dæmdur ásamt kærumálskostnaði.

Varnaraðilinn Kópavogsbær hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Mál þetta sætir flýtimeðferð samkvæmt ákvæðum XIX. kafla laga nr. 91/1991.

Samkvæmt gögnum málsins á það rætur að rekja til þess að varnaraðilinn Kópavogsbær samþykkti 11. júlí 2005 deiliskipulag fyrir nýtt hverfi í Vatnsendalandi og fengu sóknaraðilar úthlutað þar lóð að Fróðaþingi 20 til að reisa einbýlishús. Við hönnun hússins mun hafa verið vikið frá ráðagerðum á svokallaðri skilmálateikningu og mæliblöðum, sem fylgdu skipulagsskilmálum fyrir hverfið, um staðsetningu bílastæða og aðkomuleið að bifreiðageymslu á lóð sóknaraðila, en í skilmálunum var hönnuðum heimilað að gera tillögu um aðra staðsetningu. Uppdrættir af húsinu, sem fólu þetta í sér, voru lagðir fyrir á fundi skipulagsnefndar varnaraðilans Kópavogsbæjar 6. júní 2006 og var þar samþykkt að líta á þá sem útfærslu á deiliskipulagi og kynna þá sem slíka fyrir þeim, sem fengið höfðu úthlutað tilteknum lóðum við Fróðaþing. Nefndinni bárust athugasemdir af þessu tilefni frá varnaraðilanum Sigurði, en öðrum ekki. Á fundi hennar 7. nóvember 2006 var samþykkt tillaga um breytta útfærslu deiliskipulags fyrir lóð sóknaraðila, sem bæjarstjórn samþykkti 12. desember sama ár. Þá samþykkti byggingarnefnd bæjarins 11. desember 2006 umsókn sóknaraðila um byggingarleyfi á grundvelli fyrirliggjandi uppdrátta og veitti bæjarstjórn samþykki sitt fyrir því 9. janúar 2007. Í framhaldi af þessu munu hafa byrjað framkvæmdir við smíði húss sóknaraðila.

Varnaraðilinn Sigurður kærði framangreindar ákvarðanir varnaraðilans Kópavogsbæjar til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála 19. febrúar 2007 og krafðist þess að þær yrðu felldar úr gildi, auk þess sem mælt yrði fyrir um stöðvun framkvæmda á lóð sóknaraðila. Í úrskurði nefndarinnar, sem kveðinn var upp 8. mars 2007, var fallist á síðastgreinda kröfu varnaraðilans Sigurðar, en kröfu hans um ógildingu ákvörðunar um breytingu á deiliskipulagi var vísað frá með þeim rökum að auglýsing um hana hafi ekki verið birt og hún því aldrei tekið gildi. Að fenginni þessari niðurstöðu afturkallaði varnaraðilinn Kópavogsbær 22. mars 2007 byggingarleyfi sóknaraðila og fékk birta auglýsingu um breytingu á deiliskipulagi vegna lóðar þeirra. Þá sóttu sóknaraðilar að nýju um byggingarleyfi og var það veitt 10. apríl 2007. Varnaraðilinn Sigurður kærði 17. sama mánaðar til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála ákvörðun um útgáfu þess leyfis, svo og breytingu deiliskipulagsins. Með úrskurði 18. maí 2007 felldi nefndin úr gildi þessa breytingu og jafnframt byggingarleyfi sóknaraðila, sem reist var á henni.

Sóknaraðilar höfðuðu mál þetta á hendur varnaraðilum og var það þingfest 5. júlí 2007. Þau krefjast þess að úrskurður úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála frá 18. maí 2007 verði felldur úr gildi. Jafnframt krefjast þau þess aðallega að felld verði úr gildi ákvörðun varnaraðilans Kópavogsbæjar 22. mars 2007 um afturköllun byggingarleyfis þeirra frá 9. janúar sama ár og staðfest að það sé enn í gildi, en til vara að staðfest verði að byggingarleyfi frá 10. apríl 2007 sé í gildi.

Varnaraðilinn Sigurður var gagnaðili sóknaraðila að því máli, sem rekið var fyrir úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála og lauk með fyrrnefndum úrskurði hennar 18. maí 2007. Aðild hans að þessu dómsmáli stafar af þessu einu, en ekki því að hann sé annar tveggja eigenda fasteignarinnar Fróðaþings 40 í Kópavogi, þótt hann hafi á þeim grunni látið fyrirhugaðar framkvæmdir sóknaraðila á lóð þeirra til sín taka með kærum til úrskurðarnefndarinnar. Var því ekkert tilefni vegna ákvæða 18. gr. laga nr. 91/1991 til að sóknaraðilar beindu dómkröfum sínum jafnframt að Perlu Björk Egilsdóttur, sem samkvæmt gögnum málsins er sameigandi varnaraðilans Sigurðar að nefndri fasteign. Vegna þessa verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Rétt er að aðilarnir beri hvert sinn kostnað af kærumáli þessu.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

                         Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 2. október 2007.

Mál þetta var höfðað 3. júlí 2007 og þingfest 5. sama mánaðar og tekið til úrskurðar um formhlið 28. september s.l.  Málið er rekið sem flýtimeðferðarmál.

Stefnendur eru Rósa G. Bergþórsdóttir kt. 130671-5949 og Stefán Pálsson kt. 170168-3649, bæði til heimilis að Björtusölum 2, Kópavogi.

Stefndu eru Sigurður Freyr Magnússon, kt. 041272-5899, Hörgshlíð 6,  Reykjavík og Kópavogsbær, kt. 700169-3759, Fannborg 2, Kópavogi, til að þola ógildingu á niðurstöðu Úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála.

Dómkröfur stefnenda eru:

1.  Að felldur verði úr gildi úrskurður, dags. 18. maí 2007, sem kveðinn var upp af Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála í málinu nr. 31/2007.

2. Aðallega að felld verði úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogs, dags. 22. mars 2007 um afturköllun leyfis til byggingar einbýlishúss á lóðinni nr. 20 við Fróðaþing í Kópavogi. Jafnframt að staðfest verði að ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar, dags. 11. desember 2006, sem staðfest var af bæjarstjórn Kópavogs þann 9. janúar 2007, um að veita leyfi til byggingar einbýlishúss á lóðinni nr. 20 við Fróðaþing í Kópavogi, sé í gildi.

Til vara að staðfest verði að ákvörðun um að veita leyfi til byggingar einbýlishúss á lóðinni nr. 20 við Fróðaþing í Kópavogi, sem staðfest var af bæjarstjórn Kópavogs þann 10. apríl 2007, sé í gildi.

Þá er gerð krafa um að stefndu verði in solidum dæmdir til greiðslu málskostnaðar þannig að rekstur málsins fyrir dómi sé stefnendum að skaðlausu, einnig að teknu tilliti til skyldu stefnenda til að greiða 24,5% virðisaukaskatt af lögmannsþóknun.

Stefndi Sigurður Freyr krefst sýknu af öllum kröfum stefnenda og málskostnaðar.

Stefndi Kópavogsbær tekur undir 1. kröfulið stefnenda um að felldur verði úr gildi úrskurðurinn frá 18. maí 2007 en að 2. kröfulið verði hafnað. Varðandi varakröfu stefnenda lítur hann svo á að hún sé hluti af 1. kröfulið stefnenda

Áður en málefnið var tekið til úrskurðar hafði dómari kynnt málflytjendum þá ráðagerð að líkur væru á að málinu yrði vísað frá dómi án kröfu og gefið þeim kost á að tjá sig í því sambandi. Kom fram að óumdeilt er að rétthafi til lóðarinnar nr. 40 við Fróðaþing í Kópavogi er auk stefnda Sigurðar Freys Magnússonar, Perla B. Egilsdóttir sem ekki er stefnt í málinu.

Telur dómari að þrátt fyrir það að stefndi Sigurður Freyr hafi einn staðið að kæru þeirri sem leiddi til þess að Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála kvað upp úrskurð þann sem tekist er á um í málinu, verði að líta svo á að hinn lóðarhafinn Perla B. Egilsdóttir hafi beina og lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins og því sé aðild hennar óhjákvæmileg enda ljóst að efnisúrlausn í málinu getur haft áhrif á nýtingarmöguleika sameiginlegrar lóðar hennar og stefnda.

Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála eiga þeir, sem eiga óskipt réttindi eðpa bera óskipta skyldu, að sækja mál og svara til sakar í sameiningu, ef höfð er uppi krafa um hagsmuni einhvers þeirra.

Í málinu hefur stefndi uppi varnir sem varðar jafnt hagsmuni hins lóðarhafans, án þess að henni sé veittur kostur á að svara til sakar með honum í málinu og verður því með vísan til téðrar lagagreinar að vísa málinu frá dómi, en rétt þykir að málskostnaður falli niður.

Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Málinu er vísað frá dómi.

Málskostnaður fellur niður.

 

                                                                                                                                         

.