Hæstiréttur íslands

Mál nr. 45/2006


Lykilorð

  • Manndráp
  • Tilraun
  • Skaðabætur
  • Sératkvæði


Fimmtudaginn 8

 

Fimmtudaginn 8. júní 2006.

Nr. 45/2006.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari)

gegn

Guðbjarti J. Sigurðssyni

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

 

Manndráp. Tilraun. Skaðabætur. Sératkvæði.

G var ákærður fyrir tilraun til manndráps, en til vara sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa lagt til A með eggvopni þar sem sá síðarnefndi sat við opinn glugga í ökumannssæti leigubifreiðar og beið greiðslu á ökugjaldi frá G. Hlaut A 18 cm langan skurð vinstra megin á hálsi við atlöguna. Talið var sannað að G hefði gerst sekur um þá háttsemi sem í ákæru greindi og var brot hans talið varða við 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Var G dæmdur til að sæta fangelsi í fimm ár og til að greiða A skaðabætur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason, Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 12. janúar 2006 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd og honum gert að greiða A 2.640.371 krónu með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.

Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess að kröfu A verði hafnað eða vísað frá dómi eða hún lækkuð.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun verjanda ákærða og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Guðbjartur J. Sigurðsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 659.850 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 560.250 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Halldórs H. Backman hæstaréttarlögmanns, 99.600 krónur.


Sératkvæði

Jóns Steinars Gunnlaugssonar

Samkvæmt 45. og 46. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála hvílir á ákæruvaldinu skylda til að færa fram í málinu sönnun, sem ekki verði véfengd með skynsamlegum rökum, fyrir því að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök. Ég fellst ekki á að þessi sönnunarskylda hafi verið uppfyllt í máli þessu. Fyrir því eru eftirgreindar ástæður:

Engin vitni sáu hver lagði til A umrætt sinn. A og B töldu báðir á vettvangi að það hefði verið ákærði. Sú ályktun virðist hafa verið byggð á því, að ákærði hafði rétt áður stigið út úr aftursæti bifreiðarinnar bílstjóramegin og til stóð að hann greiddi ökugjaldið. Hinir farþegarnir tveir, C og D, höfðu nokkru fyrr farið út úr bifreiðinni hægra megin og töldu A og B að þeir hefðu haldið að húsi þeim megin götunnar, þó að þeir hafi ekki fylgst með ferðum þeirra þangað. Ályktun þeirra, sem byggðist á þessum forsendum, hefur ekki sérstakt sönnunargildi í málinu. Myndbending A hjá lögreglu hefur heldur enga þýðingu, enda hafði hún ekki það markmið að benda á þann sem verkið vann, þar sem A hafði sem fyrr greinir ekki séð hver þar átti í hlut. Gat hún ekki haft annað markmið en að benda á ákærða sem enginn ágreiningur er um að verið hafði farþegi í bifreiðinni.

Eggvopnið sem notað var við verknaðinn hefur ekki fundist. Engin vitneskja liggur fyrir um að ákærði hafi haft eggvopn í fórum sínum umrætt sinn. Á hinn bóginn skráði lögreglan í skýrslu um handtöku annars hinna farþeganna, að hann hefði haft vasahníf á sér þegar hann var handtekinn. Sá hnífur hefur horfið. Sérstök rannsókn fór fram á því hjá lögreglunni í febrúar 2005 hvað orðið hefði um hníf þennan. Það eina sem þá kom í ljós var að varðstjóri í fangageymslu þessa nótt mundi eftir rauðum vasahníf í fórum þessa manns. Að mínu áliti dregur það beinlínis úr vægi sönnunarfærslu ákæruvalds gegn ákærða að lögreglan skuli hafa glatað þessum hníf úr fórum sínum.

Svo sem lýst er í hinum áfrýjaða dómi gaf E, íbúi í húsinu að [...], vitnaskýrslu í málinu um það sem fyrir augu hans bar, þegar hann leit út um glugga íbúðar sinnar eftir að hafa vaknað við háreysti á götunni fyrir utan. Af framburði hans er ljóst að verknaðurinn hafði verið framinn stuttu áður en hann leit út. Hann sá tvo menn á förum brott af vettvangi. Annar, sem ætla má að hafi verið ákærði, var á hlaupum norður eftir [...] og hvarf fyrir horn á vélsmiðju sem þarna stóð. Hinn hljóp eða gekk hratt á bak við húsið handan götunnar. Af uppdrætti af vettvangi má draga þá ályktun, að þessir tveir menn hafi verið í svipaðri fjarlægð frá vettvangi brotsins, þegar vitnið sá þá. Af vitnisburði E má ráða með vissu, að annar mannanna tveggja sem farið höfðu út úr bifreiðinni á undan ákærða var ekki kominn inn í húsið handan götunnar þegar verknaðurinn var framinn. Gæti hann því allt eins á því augnabliki hafa staðið við bifreiðina ásamt ákærða, þó að ekkert verði fullyrt um það nú. Samkvæmt þessu fær sú ályktun héraðsdóms, sem höfð er til rökstuðnings fyrir sakfellingu ákærða, engan veginn staðist að þessir tveir menn hafi báðir horfið að hinu yfirgefna húsi eða inn í það áður en atlagan að A átti sér stað. Þegar sú ályktun er dregin er ekki minnst á þennan framburð vitnisins E.

Ekkert blóð úr A fannst á höndum eða fötum ákærða eftir að hann var handtekinn. Engin vissa er samt fyrir því að blóð hefði komið á þann sem lagði til A með hnífnum, þó að svo hefði getað orðið. Það er síðan greinilegur annmarki á rannsókn lögreglunnar, að ekki skuli hafa farið fram leit að blóði á fötum og höndum hinna farþeganna úr bifreiðinni.

Fleiri annmarkar eru á lögreglurannsókninni sem fram fór í kjölfar þess að A var veittur áverkinn. Verður ekki annað ráðið en lögreglumenn hafi strax talið ákærða sekan um verknaðinn og þess vegna ekki rannsakað aðra kosti sem skyldi. Þannig fór engin sérstök rannsókn fram í húsinu norðan [...], sem talið er að tveir farþeganna hafi farið inn í. Þar fór aðeins fram leit að eggvopni strax í kjölfar þess að lögregla var kvödd á staðinn. Upplýst er að D hafi verið með bakpoka á sér þegar hann var handtekinn. Engin rannsókn virðist hafa átt sér stað á innihaldi bakpokans. Annmarkar á rannsókn lögreglunnar eru að mínum dómi til þess fallnir að draga úr styrk sönnunarfærslu ákæruvalds á hendur ákærða.

Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið er engan veginn útilokað, að annar farþeganna tveggja sem stigu út úr bifreiðinni á undan ákærða hafi verið staddur utan við bifreiðina bílstjóramegin þegar lagt var til A. Er að mínum dómi ekki einu sinni unnt við mat á gögnum málsins að telja það sérlega ólíklegt að svo kunni að hafa verið og alls ekki verður það talið hafið yfir skynsamlegan vafa. Sá hinn sami kann þá allt eins og ákærði að hafa veitt A áverkann sem um ræðir í málinu. Við svo búið tel ég sakargiftir á hendur ákærða ósannaðar og beri því að sýkna hann af kröfu ákæruvalds og vísa skaðabótakröfu A frá dómi.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. desember 2005.

Mál þetta sem dómtekið var 29. nóvember sl. er höfðað samkvæmt ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 30. nóvember 2004 á hendur Guðbjarti J. Sigurðssyni, kennitala [...], Flúðaseli 14, Reykjavík, fyrir tilraun til manndráps, en til vara fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa, aðfaranótt þriðjudagsins 27. júlí 2004, við [...], Reykjavík, fyrirvaralaust lagt til A, með óþekktu eggvopni, þar sem A sat við opinn glugga í ökumannssæti leigubifreiðar sinnar og beið greiðslu á ökugjaldi frá ákærða sem stóð fyrir utan bifreiðina.  Hlaut A 18 sentimetra langan skurð vinstra megin á hálsi.

Þetta er aðallega talið varða við 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en til vara við 2. mgr. 218. gr. sömu laga, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Af hálfu A, kennitala [...], er gerð sú krafa að ákærði verði dæmdur til að greiða honum skaðabætur að fjárhæð 2.640.371 króna auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 27. júlí til 11. september 2004 en síðan dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga.

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 23. febrúar 2004 var ákærði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins. Jafnframt var skaðabótakröfu A vísað frá dómi og ákveðið að allur sakarkostnaður skyldi greiddur úr ríkissjóði. Skaut ríkissaksóknari málinu til Hæstaréttar sem komst að þeirri niðurstöðu í dómi þann 6. október 2005 að hinn áfrýjaði dómur skyldi ómerktur og málinu vísað heim í hérað til aðalmeðferðar og dómsálagningar á ný.

Verjandi ákærða krefst aðallega sýknu og að bótakröfu verði vísað frá dómi. Til vara er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa og að bótakrafa verði lækkuð verulega og þá að meint brot ákærða verði talið varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.  Verði refsing dæmd verði hún skilorðsbundin að öllu leyti eða að hluta og gæsluvarðhaldsvist ákærða komi þá til frádráttar refsivist. Þess er loks krafist að allur sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði, þar með talin réttargæslu- og málsvarnarlaun að mati dómsins.

Málavextir.

Málavextir eru þeir að kl. 01.36, þriðjudaginn 27. júlí sl., var lögreglan send að [...] hér í borg eftir að A leigubílstjóri hringdi og kvaðst hafa verið skorinn á háls.  Er í frumskýrslu lögreglu lýst aðkomu á vettvangi. Þar segir að lögreglan hafi hitt fyrir B, sem staðið hafi við leigubifreiðina [...]þar sem hún var kyrrstæð á akbrautinni framan við [...]. A hafi hins vegar komið gangandi út úr anddyri þess húss og hafi hann haldið um háls sér vinstra megin. Í skýrslunni er lýst skurði á hálsi A og ráðstöfunum lögreglu og sjúkraliðs, en A var skömmu síðar fluttur á slysadeild. Segir í skýrslunni að A hafi allan tímann verið með fulla meðvitund. Á leið á slysadeild hafi hann greint svo frá málavöxtum að hann hafi verið sendur á bíl sínum að Hlöllabátum við Ingólfstorg fyrr um kvöldið. Þar hafi hann tekið upp í bifreiðina fjóra menn. Hafi hann þekkt tvo mannanna, þá B og C. Hina tvo mennina hafi hann ekki þekkt, en annar þeirra hafi verið Spánverji en hinn Íslendingur. Lýsti A akstri sínum með mennina, fyrst að [...] við [...], og þaðan, að ósk mannanna, vestast á [...]. Er þangað kom hafi allir mennirnir farið út úr bílnum nema B, sem hafi setið í farþegasæti við hlið A. Hafi A séð C og Spánverjann fara inn í hús hægra megin við götuna, en fjórði maðurinn hafi staðið fyrir utan bílinn vinstra megin. B hafi kallað á þann mann og sagt að hann ætti að greiða ökugjaldið og A kvaðst hafa rennt rúðunni alveg niður í þessu skyni.  Hafi hann séð manninn fyrir utan bílinn fara með hendur í vasa og talið að hann væri að sækja peninga. Kvaðst hann hafa litið af manninum en þá hafi hann skyndilega fundið hita leggja niður háls sér og niður á brjóstkassa. Jafnframt hafi hann séð að undrunarsvipur kom á B. Þessu næst kvaðst A hafa lagt höndina á háls sér og er hann sá að sér blæddi hafi hann rokið út úr bílnum og hraðað sér að stigagangi hússins nr. [...] við [...], þar sem hann hafi hringt á lögreglu og einnig ýtt á dyrabjöllur í anddyri hússins. A kvað lögregluna hafa komið stuttu síðar og lýsti hann því er hann fann mátt sinn minnka og hafi hann lagst á götuna þar sem lögreglan hlúði að honum. A kvað manninn sem skar hann hafa til að byrja með staðið kyrran við bílinn, en síðan hafi hann hlaupið í norðurátt að [...]. Kvaðst A viss um að sá Íslendinganna í bílnum, sem hann þekkti ekki, hafi skorið sig og lýsti hann manninum þannig að hann væri um fimmtugt, feitlaginn með yfirskegg og hárið dökkt, en farið að þynnast á hvirfli. Hann hafi verið klæddur dökkum buxum og ljósri skyrtu, hugsanlega með mynstri, en ekki hafi hann verið í yfirhöfn. 

Þá er í skýrslunni greint frá frásögn B af atburðum.  Kvaðst hann hafa verið í leigubílnum ásamt þremur öðrum mönnum, þeim C, spánskum manni og manni sem kallaður væri Bjartur. Hafi félagar hans í bílnum allir verið farnir út en hann einn setið eftir. Hafi hann þá ekki vitað fyrr en búið var að skera leigubílstjórann á háls. Sá sem það hefði gert væri fyrrgreindur Bjartur, um fjörutíu ára gamall, dökkhærður, klæddur bláum fötum. Hafi Bjartur hlaupið á brott í áttina að [...]. 

B, C og D voru allir handteknir á eða við vettvang. Var C handtekinn í yfirgefnu húsi gegnt [...]. Fram kemur í skýrslu lögreglu að hann hafi verið mjög ölvaður og ekki hægt að ræða við hann um málið. D hafi stuttu síðar komið gangandi eftir [...], ofurölvi og óviðræðuhæfur. 

Í skýrslunni er síðan lýst aðgerðum lögreglu til að hafa uppi á ákærða, Guðbjarti.  Var hann handtekinn í Austurstræti kl. 01.59 um nóttina, en í skýrslunni segir að útlit og klæðnaður hans hafi komið heim og saman við lýsingu, sem gefin hafi verið á árásarmanni. 

Leit lögreglu að árásarvopni bar ekki árangur, en leitað var í nálægum götum, í ruslatunnum og á opnum svæðum og í yfirgefnum húsum. 

Ákærði mundi lítið frá atburðum umrædda nótt, er teknar voru skýrslur af honum hjá lögreglunni. 

Fyrir liggur í gögnum málsins að A fékk samband við neyðarlínuna kl. 1.35, en B um hálfri annarri mínútu síðar. Samkvæmt endurritum af hljóðritun þessara símtala skýrði A svo frá í upphafi samtalsins að hann hafi verið skorinn á háls af „einhverjum rónum“. Síðar segist hann vita hver árásarmaðurinn sé. Í leigubílnum hafi verið fjórir farþegar og að einn þeirra, B, væri fyrir utan innganginn og væri að tala í síma. A lýsti því sem gerðist svo: ,,Og svo átti náttúrulega að borga bílinn og þeir stóðu fyrir utan og ég var búinn að skrúfa niður rúðuna og hann bara dró upp hníf og stakk inn í hálsinn á mér svona einhvern veginn“. Fram kom hjá A að C og annar maður hafi verið farnir inn í gamalt hús þarna á staðnum en tveir hafi verið eftir, annar þeirra hafi verið B en hinn manninn kvað A hafa verið með skalla og yfirskegg. Stuttu síðar kom lögreglan á vettvang.

Í samtali sínu við starfsmann neyðarlínunnar greindi B svo frá að vinur hans hafi skorið leigubílstjóra. Eftir það var B gefið samband við lögregluna. Þar greinir hann frá því að leigubílstjórinn væri alblóðugur og að þeir væru staddir vestast á [...]. Aðspurður hver hafi veitt bílstjóranum áverkann svaraði B að Bjartur hafi gert það og kvaðst B hafa þekkt Bjart í nokkur ár. Aðspurður um útlit Bjarts lýsti B honum svo að hann væri dökkhærður með yfirvaraskegg, um 178 sm á hæð, þrekinn. Á meðan B greindi frá þessu kom lögreglan á vettvang og kemur fram að B ræðir þá við lögreglumann sem kemur á vettvang meðan sími hans er enn opinn. Heyrist B þá segja: ,,Hann labbaði þangað, hann labbaði þangað.“ Lögreglumaðurinn sem kominn var á vettvang spurði þá hver hefði labbað þangað. B svaraði þá: ,,Þessi sem skar hann.“ Þá spyr lögreglumaðurinn hver það sé og B svarar: ,,Hann heitir Bjartur.“  Eftir þetta rofnar símtalið.

Hlynur Þorsteinsson, sérfræðingur á slysa- og bráðamóttöku Landspítala í Fossvogi, ritaði læknisvottorð A.  Vottorðið er dags. 11. ágúst 2004 og þar segir meðal annars svo:   

,,Þessi maður kemur á slysa- og bráðadeild LSH í Fossvogi þ. 27.07.2004 og er skráður inn kl. 01:55.  Sjúklingur kemur með sjúkrabíl og í lögreglufylgd.  Hann hafi verið við vinnu sína sem leigubílstjóri og hafði verið að aka 4 mönnum vestur í bæ en einn þeirra sem hafði farið út úr bílnum teygði sig inn um gluggann á bílhurð hans og brá hnífi á hálsinn á honum.  Sjúklingur fór út úr bílnum og komst í hús þar í grennd og hringdi á Neyðarlínu.  Við komu á slysadeild er hann með umbúðir á hálsinum.

Við skoðun þá er hann með langan skurð sem er aðallega vinstra megin á hálsinum en fer þó aðeins fram fyrir barka og eru 3 cm af skurðinum hægra megin við miðlínu ef miðað er við að miðlína sé beint framan á hálsinum miðjum.  Alls er því skurðurinn um 18 cm langur.  Þegar þessi skurður endar niður að eyra, tekur við 2-3 cm löng rispa og liggur hún eins og 1 ½ cm neðan við skurðinn.  Þegar skoðað er ofan í sárið, þá er í sjálfu sér ekki mikil blæðing úr því þegar skoðun fer fram.  Skurðurinn virðist vera svolítið skáskorinn niður á við.  Þannig að skurðurinn gengur inn og niður og er dýpstur fremst á hálsinum.  Dýpt á skurðinum ef að mælt er beint inn frá húð og niður er á bilinu 1-2 cm sem sé mælt niður eftir skurðfarinu og í skurðáttina þá er dýptin alveg niður í 4-5 cm.  Þegar skoðað er ofan í sárið má sjá móta fyrir barka framanvert og í miðlínu.  Örlítið sést móta fyrir munnvatnskirtli og sömuleiðis sést móta fyrir vöðva sem liggur hliðlægt skáhallt í hálsinum og heitir sternocleidomasteoid vöðvi.  Það er ekki að sjá að sárið hafi lent í neinum af þessum líffærum og hann er ekki með hósta eða erfiðleika við öndun það skal tekið fram að það sást ekki í skjaldkirtil.  Sjúklingur er með meðvitund og eðlilegan litarhátt og blóðþýstingur er eðlilegur.  Hann hreyfir sig í sjálfu sér eðlilega líka.  Teknar voru myndir af þessu og hafður mælikvarði við.

Það eru teknar blóðprufur til að athuga með blóðmagn og skjaldkirtilspróf sömuleiðis og steinefni og annað og þetta var allt saman eðlilegt.  Sett var upp nál og hann fékk vökva í æð.

Meðferð:  Sárið er deyft og síðan er byrjað að sauma, fyrst ofan í djúpið eða þ.e.a.s undir húðinni og er saumað í þremur lögum undir húð og alls sett 28 spor með 4/0 Vicryl þræði en það er efni sem að leysist upp með tímanum.  Síðan er húðin yfir þessu saumuð með 26 sporum og 4/0 Ethilon en það er þráður sem þarf að fjarlægja ca viku eftir að saumað er.  Síðan voru settar umbúðir og léttur þrýstingu á.  Sjúklingur var hafður í hálegu þ.e.a.s. hátt undir baki og höfði og átti að vera hafður þannig um nótt.  Hann fékk síðan 2 gr. af Ekvacillini eða sýklalyf í æð til að varna sýkingu því að ekki þótti nú öruggt að hnífur hefði verið hreinn þegar þetta atvik varð.  Hann var síðan hafður á gæsludeild til morguns.

Útskrifast síðan að morgni.

Þann 30.07.2004 hitti ég sjúkling og við skoðun þá leit skurðurinn ágætlega út.

Hann var svolítið stirður og hafði lítið þorað að hreyfa sig en hann fær leiðbeiningar

um það hvernig hann getur byrjað að mjaka sér aðeins til til þess að eiga ekki í óþarfa basli með vöðvana síðar meir.  Það er skrifað upp á verkjalyf Parkodin forte 30 stk.  Þannig að hann getur tekið 1-2 tbl. í senn á móti Ibufeni sem hann segist eiga til.      Síðan er skrifað upp á sýklalyf 500 mg 20 stk. taka 1 hylki x 4.

Það má nú alveg reikna með að þessi maður verði ca 3 vikur frá vinnu eða þangað til að þetta ætti að vera bærilega gróið undir húðinni.

Hann átti síðan endurkomutíma og kom á endurkomu þ. 03.08.2004 og voru saumar teknir úr sári og leit það vel út.  Þá kemur það einnig fram að honum leið betur eftir að hann fékk verkjalyf og var nú farinn að geta sofið en það hafði hann átt erfitt með við komu.  þ. 30.07.2004.

Eftir komuna þ. 03.08.2004 var hann útskrifaður og endurkoma þá eftir þörfum.“

Tómas Zoëga geðlæknir vann geðrannsókn á ákærða.  Í geðrannsókninni er meðal annars svofelldur kafli:

,,V. Samantekt.

Guðbjartur liggur undir grun um að hafa, hinn 27. júlí sl., veitt leigubílstjóra alvarlegan og hættulegan skurðáverka á háls. Frekari lýsingar eru í rannsóknum lögreglu.

Guðbjartur man lítið eftir atburðum kvöldsins og aðfaranætur 27. júlí sl. og frásögn óljós.  Minningarnar eru samhengislausar og persónur án andlits.  Guðbjartur hefur fengið slík gleymskuköst í tengslum við áfengisneyslu allt frá unglingsárum.  Þrátt fyrir endurteknar spurningar man hann ekki eftir því að hafa verið með hníf umrætt kvöld og nótt.  Í sögu hans kemur hins vegar fram að hann hafi stundum hótað með hnífi, þegar hann hefur verið undir áhrifum áfengis.

Hann lýsir hins vegar miklum kvíða og tortryggni umrætt kvöld og vitni bera að hegðun hans hafi verið sérkennileg.  Mjög ólíklegt er að sýklalyfjanotkun Guðbjarts hafið stuðlað að minnisleysi hans umrætt kvöld.

Miklar hegðunarbreytingar verða á Guðbjarti samfara áfengisneyslu.  Hann verður orðljótur, árásargjarn og stundum ógnandi.  Oftast man hann ekkert lítið eftir því hvað gerist, þegar hann er drukkinn.  Guðbjartur gerir sér skýra grein fyrir því að hann á við  að stríða alvarlegan áfengisvanda.

Hann talar um innbyrgða reiði og heift sem hann rekur til reynslu á barnsárum.  Reiðin kemur síðan iðulega upp á yfirborðið þegar hann drekkur.

Engin merki eru geðrofssjúkdóm og engin saga er um lyfjamisnotkun.

Í viðtölum við undirritaðan er Guðbjartur fullur iðrunar. Hann segist reyndar ekki trúa því að hann sé sekur.  Í viðtölum kemur hann eðlilega fyrir og talar um að áfengið hafi verið sitt böl alla ævi.“

Framburður ákærða og vitna fyrir dómi.

Ákærði neitar sök. Hann skýrði frá því að umrætt kvöld, frá um kl. 20, hafi hann setið við drykkju á veitingastaðnum [...]. Þar hafi hann hitt þá B og C og hafi þeir drukkið þar saman. Hann kvaðst muna mjög illa hvað gerðist síðar um kvöldið vegna áfengisdrykkju sinnar og hann myndi ekki eftir að hafa farið með þeim B og C í leigubíl síðar um kvöldið. Ákærði skýrði hins vegar frá því að smám saman hefði skýrst í sínum huga minningarbrot um að hann hafi mætt leigubílstjóranum þá um nóttina. Lýsti ákærði minningu þessari þannig að hann hafi verið staddur við fjölbýlishús og haldið að hann væri kominn heim til sín og þyrfti að fara þar inn til að ná í peninga fyrir leigubíl eins og oft hefði komið fyrir. Hafi hann snúið við í anddyrinu þegar hann hafi uppgötvað að hann væri ekki heima hjá sér. Hafi hann verið kominn út á bílastæði þegar hann hafi séð bílstjórann koma gangandi á móti sér yfir gangstétt og hafi bílstjórinn þá sagt: „Þeir skáru mig.“ Ákærði hafi þá hváð og bílstjórinn þá sagt: „Einhver skar mig.“ Hafi bílstjórinn haldið með annarri hendinni um hálsinn og verið að reyna að ná í síma í vasa sinn. Sagðist ákærði hafa orðið mjög hræddur vegna þessa þar eð þeirri hugsun hefði skotið upp í huga sér „hvort ætti að drepa hann líka“. Hafi það verið ástæða þess að hann hljóp og flýði í burtu. Kvaðst ákærði ekkert vita hvert hann hljóp eða hvað hann gerði næst og myndi hann ekkert eftir sér fyrr en niðri á lögreglustöð. Aðspurður kvaðst ákærði vera rétthentur og þokkalega hærður og um klæðnað sinn í umrætt sinn sagðist ákærði hafa verið klæddur í svarta peysu, köflótta skyrtu, bláar gallabuxur og í hvítum sokkum. Ákærði kvaðst ekki vera vanur að bera eggvopn á sér.

Vitnið A kvaðst hafa verið sendur að Hlöllabátum í Hafnarstræti umrædda nótt. Inn í bílinn hafi komið fjórir menn. Hann hafi þekkt tvo þeirra, þá B og C, en hina tvo hafi hann aldrei séð fyrr. Hafi B sest fram í hjá sér en hinir hafi sest inn aftur í. Hafi C setið við dyrnar hægra megin, maður sem hann telji að hafi verið Spánverji hafi sest fyrir miðju, og síðan hafi ákærði sest fyrir aftan sig. Fyrst hafi hann ekið með mennina að [...] við [...] og hafi B farið þar inn. Ákærði, sem hafi virst vera mjög æstur, hafi einnig farið út úr bílnum. Kvaðst A hafa heyrt einhver læti og skynjað að mennirnir væru ekki velkomnir þarna á staðnum. B hafi þá komið út aftur og þeir þá sest aftur inn og beðið um að ekið yrði vestast á [...]. Þegar þangað var komið, alveg niður undir [...], hafi hann allt í einu verið beðinn um að stöðva og hafi hann því stöðvað nánast á miðri götunni. Hafi C og Spánverjinn þá farið úr bílnum hægra megin og gengið upp að húsi sem þar hafi verið. Hann hafi þó ekkert fylgst frekar með ferðum þeirra. Eftir hafi setið þeir B og ákærði og hafi þeir þrasað sín í milli um það hvor þeirra ætti að greiða fyrir aksturinn. Hafi B sagt sem svo við ákærða: „Þú ætlaðir að borga bílinn.“ Þeir hafi síðan ákveðið að ákærði myndi greiða ökugjaldið. Stuttu síðar hafi ákærði svo stigið út úr bílnum og lokað hurðinni á eftir sér. Kvaðst A þá hafa skilið það sem svo að ákærði ætlaði að borga með því að rétta sér greiðsluna inn um gluggann eins og algengt sé. Hafi hann því á sama andartaki skrúfað niður rúðuna í bílstjórahurðinni til að taka á móti greiðslunni. Nánast samtímis hafi hann litið til hægri, á B, og þá allt í einu fundið eitthvað heitt leka niður hálsinn á sér. Er hann athugaði hvers kyns var hafi hann rekið fingur inn í hálsinn og orðið alblóðugur. Hafi hann þá sagt: “Ég var skorinn, ég var skorinn.“ Kvaðst A þá hafa reynt að klemma hálsinn saman með því að halla sér til vinstri, en jafnframt hafi hann séð ákærða tilsýndar þar sem hann var að hlaupa fram með bifreiðinni, vinstra megin. Kvaðst hann viss um að ákærði hefði veitt sér áverkann þar sem ákærði hafi einn verið við bifreiðina, bílstjóramegin, og þá alveg við bílstjórahurðina. Hann hafi ekki orðið var við neinn annan þeim megin og geti engum öðrum þar verið til að dreifa, enda hafi þetta gerst í beinu framhaldi þess að ákærði fór út úr bílnum. Kvaðst A einnig sjá fyrir sér einhverja handahreyfingu eins og viðkomandi hafi verið að draga höndina að sér í þeim tilgangi að skera.

A lýsti atburðarásinni í framhaldi þannig að hann hafi strax tekið af sér öryggisbeltið og nánast samhliða gripið í farsíma og hringt í neyðarlínuna. Jafnframt hafi hann flýtt sér út úr bílnum og hraðað sér eins og hann gat inn í stigagang hússins nr. [...] við [...] og reynt að gera þar vart við sig með því að ýta á dyrabjöllur. Kvaðst ákærði ekki hafa orðið var við ákærða eftir að hann kom út úr bílnum. B hafi hins vegar komið út úr bílnum á eftir sér. Hafi hann talað í farsíma en jafnframt gengið rólega í áttina til sín að stigahúsinu.

Sækjandi spurði A sérstaklega um þann mun sem væri á frásögn hans nú og framburði sem hann gaf í lögregluskýrslu er tekin var á Landspítalanum miðvikudaginn 28. júlí 2004. Í lögregluskýrslunni sé frásögn hans á þá leið að eftir að hann var skorinn hafi hann horft framan í ákærða, sem staðið hafi kyrr og sagt við hann „hvern djöfulann ertu að gera“ og síðan hafi ákærði hlaupið í áttina að endurvinnslustöð [...] á [...].  Svaraði A á þá lund að þetta væri allt rétt sem þarna kæmi fram en þennan mun mætti skýra þannig að hann hefði með aðstoð sálfræðinga og geðlækna lagt sig allan fram við að reyna að gleyma þessum atburði. Hann myndi þetta nú þannig að hann hafi ekki horft framan í ákærða strax eftir að hafa verið skorinn, né hafi hann séð ákærða með hníf eða annað eggvopn í hendi. Hins vegar hafi ákærði verið „kominn í hurðarhúninn, einhvern veginn“ þegar A steig út úr bílnum.

Aðspurður um lýsingu á ákærða sagðist A vísa til þeirrar lýsingar sem hann gaf í lögregluskýrslu 29. júlí 2004 þar um.

A lýsti afleiðingum þessa atburðar á líf sitt, sem hann kvað vera miklar.

Vitnið B kvaðst hafa verið staddur á [...] þetta kvöld og verið að drekka þar með C, ákærða og einhverjum Spánverja sem heiti D.  Hafi þeir farið saman í leigubíl og kvaðst B hafa sest við hliðina á bílstjóranum en hinir hafi sest aftur í. Hann kvaðst þó ekki muna hvar þeir sátu hver fyrir sig. Gat B því ekki lýst því hvar ákærði sat. Hafi fyrst verið ekið að [...] við [...] en síðan hafi þeir beðið leigubílstjórann um að aka vestast á [...]. Þegar þangað var komið hafi komið upp smá vandamál við að gera upp ökugjaldið. C og D, hafi farið út úr bílnum að yfirgefnu húsi sem þarna var, þangað sem för þeirra allra var heitið. Hafi alla vega D ætlað að gista þar. Hafi verið um það rætt fyrirfram að ákærði myndi borga bílinn en hinir myndu borga fyrir áfengið. Sagði B að þeir C hafi verið búnir að redda því. Ákærði, sem hafi verið verulega drukkinn hafi eitthvað verið að röfla út af þessu og þeir hafi síðan eitthvað verið að röfla um þetta sín í milli. Einnig hafi ákærði verið með „einhvern kjaft“ í garð leigubílstjórans. Loks hafi sér verið farið að leiðast þófið. Þegar hann hafi síðan séð að ákærði fór einnig út úr bílnum hafi honum fundist eins og hann væri skilinn einn eftir með að borga bílinn og fundist það ósanngjarnt miðað við það sem talað hefði verið um. Kvaðst hann þá hafa stungið hendinni í vasann í því skyni að kanna hvort hann ætti ekki næga peninga fyrir bílnum. Þá hafi bílstjórinn allt í einu hrópað upp: „Æ, ég hef verið skorinn á háls.“ Hafi bílstjórinn við þetta farið í „panic“ opnað dyrnar og farið út og inn í anddyri fjölbýlishúss sem sé þarna beint á móti. B sagði að sín fyrstu viðbrögð hafi verið þau að grípa farsíma sinn og hringja í neyðarlínuna og því hafi hann kannski ekki fylgst eins vel með því sem gerðist í kring í framhaldi. Kvaðst hann svo hafa farið út úr bílnum og staðið á gangstéttinni, milli fjölbýlishússins og bílsins, og beðið þar eftir að lögreglan kæmi á vettvang. Hafi lögreglumenn handtekið sig þar þegar þeir komu þangað skömmu síðar.

B var spurður nánar út í símtal hans við neyðarlínuna þar sem hann hafi sagt að vinur sinn sem héti Bjartur hafi skorið leigubílstjórann og að hann hefði gengið út „[...]“ í áttina að [...]. Sagðist B þá ekki geta fullyrt að ákærði hafi verið sá sem skar bílstjórann því hann hafi ekki beinlínis séð það. Sagðist B örugglega hafa sagt þetta í símann vegna þess að þeir ákærði hafi setið eftir inni í bílnum og verið að röfla um uppgjörið á bílnum og því hafi ákærði farið aðeins seinna út úr honum en hinir tveir. Hafi honum því kannski fundist á þessum tíma að það hafi verið ákærði sem skar bílstjórann. Aðspurður um ástand sitt á þessum tíma kvaðst B hafa verið „sæmilega fullur og uppdópaður“ og ástand hans þegar hann gaf lögregluskýrsluna hafi ekki verið gott. B kvaðst ekki hafa orðið var við neitt eggvopn eða hníf í fórum þeirra sem voru í leigubílnum umrætt sinn.

B las yfir skýrslu sína sem tekin var af honum morguninn eftir árásina og staðfesti hana sem rétta að því þó undanteknu að hann minntist þess ekki að hafa séð ákærða fyrir utan bifreiðina eftir að bílstjórinn var skorinn. Sagðist ákærði hafa verið illa fyrir kallaður þegar skýrslan var tekin af honum.

Vitnið C kvaðst hafa verið dauðadrukkinn þetta kvöld og myndi hann því lítið eftir atburðum. Kvaðst hann muna eftir að hafa farið með B, ákærða og einhverjum Spánverja í leigubíl vestur á [...]. Hafi þeir ætlað að drekka saman í yfirgefnu húsi sem þar var. Kvaðst C oft hafa komið þangað áður. Taldi C að um það hefði verið rætt að þar sem hann hefði útvegað húsið þá þyrfti hann ekki að greiða fyrir leigubílinn. Hafi hann því ekkert verið að hugsa um það og farið út úr bílnum og inn í umrætt hús. Hafi hann komist inn í húsið með því að opna þar glugga. Hann hafi síðan tekið lásinn af að innanverðu. Eftir það hafi hann bara sofnað og gæti því lítið sagt um hvað varð um félaga sína. Kvaðst hann næst vita af sér þegar lögreglan handtók hann um nóttina.

C var sérstaklega spurður hvort hann minntist þess að Spánverjinn hefði fylgt honum inn í húsið. Svaraði hann því að hann myndi það ekki sérstaklega. Hann kvaðst heldur ekki muna hvort hann hefði séð Spánverjann inni í húsinu eða hvort þeir hefðu eitthvað rætt þar saman. C kvaðst heldur ekki kannast við að hafa verið með neinn hníf á sér eins og fram kom í handtökuskýrslu. Hann gengi aldrei með hníf.

C las yfir skýrslu sem hann gaf hjá lögreglu og staðfesti hana sem rétta. Sagði hann jafnframt að vafalaust hafi hann munað betur eftir atvikum á þeim tíma.

Vitnið E, íbúi á efstu hæð fjölbýlishússins nr. [...] við [...], kvaðst hafa orðið var við einhvern hávaða norðan megin við húsið. Hafi hann litið út um glugga á íbúðinni, sem snúi í norður, og hafi hann þá séð leigubíl á götunni fyrir neðan og hafi dyr á honum verið opnar. Einnig hafi hann séð í bakið á manni sem hafi verið á hlaupum í norðurátt að [...] og hafi sá maður horfið fyrir horn á vélsmiðju sem þarna hafi staðið. Á svipuðum tíma kvaðst hann hafa séð hreyfingu fyrir utan yfirgefið hús, sem hafi áður staðið þarna beint á móti en sé nú horfið. Hafi sér virst sem maður hlypi eða gengi hratt þar á bak við húsið, hægra megin frá sér séð. Því næst kvaðst E hafa heyrt í mönnum einhvers staðar fyrir neðan sig, en þeir hafi til að byrja með verið í hvarfi við framhlið hússins að [...], frá honum séð. Hann hafi þó eitthvað heyrt þarna talað um B. Stuttu síðar hafi hann svo séð ofan á mann, sem hafi virst vera í leðurjakka, og gæti það vel hafa verið B. Hróp og köll, þar sem meðal annars heyrðist kallað „hvað ertu búinn að gera, hvað ertu búinn að gera“, gætu vel hafa komið frá honum. Einhvern tímann meðan á þessu stóð hafi dyrabjöllu íbúðarinnar verið hringt. Kvaðst hann ekki hafa svarað til að byrja með þar eð hann hafi ekki vitað hvað væri að gerast, en lögreglan hafi komið stuttu síðar og hafi hann þá sagt henni frá mannaferðum við húsið á móti.

Er las yfir skýrslu sem hann gaf hjá lögreglu 29. júlí 2004. Staðfesti hann að þar væri rétt eftir sér haft á þeim tíma.

Vitnið Bylgja Hrönn Baldursdóttir lögreglumaður lýsti því að hún hefði, ásamt Grétari Helga Geirssyni lögreglumanni, verið stödd uppi í Breiðholti þegar hún heyrði í fjarskiptatækjum lögreglubifreiðarinnar að lýst væri eftir manni sem kallaður væri Bjartur. Hafi honum verið lýst sem þrekvöxnum með yfirvaraskegg. Hafi þau verið beðin um að fara niður í bæ til að svipast um eftir honum. Á gatnamótum Póst­hússtrætis og Austurstrætis hafi þau komið auga á mann sem svaraði til fyrr­greindrar lýsingar. Kvaðst hún hafa stöðvað bifreiðina og hafi maðurinn þá komið gangandi að bifreiðinni og þegar hann hafi verið spurður að nafni hafi hann sagst heita Bjartur. Hafi maðurinn, sem virst hafi í annarlegu ástandi, þá verið handtekinn og færður á lögreglustöðina. Þegar maðurinn hafi spurt þau um ástæðu handtökunnar hafi þau eingöngu svarað að það væri vegna atviks sem þeim hafi verið tilkynnt um, enda hafi þau lögreglumennirnir lítið vitað um það sjálf hvers eðlis það var. Bylgja Hrönn greindi frá því að á leiðinni hafi ákærði bent á samstarfsmann hennar, Grétar, og sagt: „Þið tveir verðið skornir á háls,“ og stuttu síðar hafi ákærði sagt að hann sjálfur yrði skorinn á háls. Sérstaklega aðspurð hvort verið gæti að ákærði hefði fengið þá skýringu á handtökunni að maður hefði verið skorinn á háls sagði hún að það hefði örugglega ekki verið nefnt.

Vitnið Grétar Helgi Geirsson lögreglumaður lýsti aðdraganda handtöku ákærða efnislega á sama veg og vitnið Bylgja Baldursdóttir. Maðurinn hafi sagst heita Guðbjartur en væri kallaður Bjartur og að hann hefði verið með B, C og Spánverja. Við handtökuna hafi honum verið sagt að hann væri handtekinn vegna máls sem væri í rannsókn. Stuttu eftir handtökuna hafi ákærði sagt að þau ættu eftir að sjá hann skorinn á háls og síðan hafi hann bætt við: „Þið tveir glæpamennirnir, þið eigið eftir að verða skornir á háls líka“.

Vitnið Hlynur Þorsteinsson, sérfræðingur á slysa- og bráðamóttöku Land­spítala-háskólasjúkrahúss staðfesti og skýrði vottorð sitt fyrir dómi. Lýsti hann áverka þeim sem A hlaut þannig að í grunninn hafi verið um að ræða langan og djúpan skurð. Hafi hann aðallega verið vinstra megin en náð aðeins fram fyrir miðlínu hálsinn, framan á barkanum, og hafi verið skáskorinn niður. Hafi dýpt hans verið um 4-5 cm þar sem hann var dýpstur en hafi síðan grynnkað eftir því sem aftar dró á hálsins og endað í smá rispu. Lega og dýpt skurðarins gæti bent til þess að sá sem áverkanum olli hafi staðið hærra en A og skorið á háls frá miðju að framan og upp á við í áttina að eyranu. Kom fram hjá lækninum að þegar um væri að ræða hnífsbragð af þessari dýpt þá hljóti hending ein að ráða hvernig það komi á háls og allir áverkar á háls væru mögulega hættulegir. Þar væru bæði stórar æðar, barkinn sé skammt frá yfirborði hálsins og einnig geti taugar orðið þar fyrir skemmdum. Taldi hann að mjög litlu hafi munað að ekki hlaust af lífshættulegur áverki og hending ein ráðið að svo varð ekki. Aðspurður hvort líklegt megi telja að blóð hafi komið á eggvopnið og jafnvel árásarmanninn taldi hann að ekki væri sjálfgefið að blóð hafi slest á árásarmanninn. Hins vegar taldi hann ekki ólíklegt að eitthvað af blóði hafi komið á eggvopnið þó það þurfi ekki að hafa verið mikið.

Niðurstaða.

Ákærði hefur frá upphafi neitað sök en jafnframt borið við minnisleysi. Þegar skýrsla var tekin af honum fyrir dómi nú skýrði hann frá minningarbrotum sem smám saman hefðu verið að framkallast í huga hans og hann hefur ekki áður lýst. Kom þar meðal annars fram að hann hafi verið staddur við fjölbýlishús. Hafi hann haldið að hann væri kominn heim til sín og þyrfti að fara þar inn til að ná í peninga fyrir leigubifreið. Hafi hann snúið við í anddyrinu þegar hann uppgötvaði að svo var ekki. Hafi hann verið kominn út á bílastæði þegar hann hafi séð bílstjórann koma gangandi á móti sér yfir gangstétt og hafi bílstjórinn þá sagt: „Þeir skáru mig.“ Ákærði hafi þá hváð og bílstjórinn þá sagt: „Einhver skar mig.“ Kvaðst ákærði hafa orðið mjög hræddur vegna þessa þar eð þeirri hugsun hefði skotið upp í huga sér „hvort ætti að drepa hann líka“. Hafi það verið ástæða þess að hann hljóp og flýði í burtu.

Eggvopn það sem beitt hefur verið við verknaðinn hefur ekki fundist og framburður vitna hefur ekki varpað neinu ljósi á hvort ákærði eða einhver annar farþega leigubifreiðarinnar hafi haft slíkt vopn undir höndum umrædda nótt. Við rannsókn málsins gerði lögregla ítarlega athugun á fatnaði ákærða en fann þar ekkert blóð úr A leigubílstjóra.

Fyrir dómi hefur A skýrt svo frá að hann hafi tekið fjóra farþega upp í leigubifreið sína við Ingólfstorg í Reykjavík um kl. 1.15 aðfaranótt þriðjudagsins 27. júlí 2004. Um var að ræða ákærða ásamt þeim B, C og E.. Þekkti A þá B og C en hvorki ákærða né D. Er A hafi stöðvað leigubifreiðina á móts við húsið nr. [...] við [...], að ósk farþega, hafi C og D farið út úr bifreiðinni og gengið að húsi handan götunnar, það er að segja hægra megin við leigubifreiðina, en B, sem setið hafi við hlið A í bifreiðinni, og ákærði hafi átt einhver orðaskipti um hver ætti að greiða ökugjaldið. Hafi B sagt sem svo við ákærða: „Þú ætlaðir að borga bílinn,“ en þeir hafi þá ákveðið að ákærði myndi greiða ökugjaldið. Stuttu síðar hafi ákærði svo stigið út úr bifreiðinni og kvaðst A hafa heyrt afturdyrnar lokast. Hafi hann skilið það sem svo að ákærði ætlaði að borga með því að rétta honum greiðsluna inn um gluggann eins og algengt sé. Hafi A því á sama andartaki rennt niður rúðunni í bílstjórahurðinni til að taka á móti greiðslunni. Nánast samtímis hafi hann litið til hægri, á B, og þá allt í einu fundið eitthvað heitt leka niður hálsinn á sér. Er hann athugaði hvers kyns var hafi hann rekið fingur inn í hálsinn og orðið alblóðugur. Hafi hann þá hrópað upp: “Ég var skorinn, ég var skorinn.“ Kvaðst B þá hafa séð ákærða tilsýndar þar sem hann var að hlaupa í burtu fram með bifreiðinni, vinstra megin. Kvaðst hann viss um að ákærði hefði veitt sér áverkann þar sem ákærði hafi einn verið við bifreiðina, bílstjóramegin, og þá alveg við bílstjórahurðina. Hann hafi ekki orðið var við neinn annan þeim megin og geti engum öðrum þar verið til að dreifa, enda hafi þetta gerst í beinu framhaldi þess að ákærði fór út úr bifreiðinni. Kvaðst B einnig sjá fyrir sér einhverja handahreyfingu eins og viðkomandi hafi verið að draga höndina að sér í þeim tilgangi að skera. Hann hafi þó ekki séð hníf eða annað eggvopn í höndum ákærða.

Í lögregluskýrslu sem tekin var af A daginn eftir árásina er haft eftir honum að eftir að bifreiðin hafi numið staðar við [...] hafi B horft á manninn, sem sat í sætinu fyrir aftan bílstjórasætið, og sagt við hann: „Þú ætlaðir að borga bílinn.“ Maðurinn hafi þá sagt já og farið út úr bifreiðinni og lokað á eftir sér, en A á sama tíma rennt niður bílrúðunni. Hafi maðurinn síðan farið með höndina ofan í buxnavasann eins og hann væri að sækja peninga eða veski. A sagðist því næst hafa horft á manninn og síðan á B.

Er A var spurður út í þann mun sem væri á framburði hans nú miðað við þennan framburð hans hjá lögreglu stuttu eftir atburðinn sagði A skýringuna þá að allt frá því að árásin átti sér stað, í júlí 2004, hafi hann, með aðstoð geðlækna og sálfræðinga, lagt sig allan fram við að gleyma þessum atburði. Kvaðst hann nú muna þetta þannig að hann hafi ekki horft framan í ákærða eftir að hafa verið skorinn.

B lýsti atburðum um nóttina þannig að hann hafi farið með C, ákærða og Spánverjanum D í leigubifreið vestast á [...]. Kvaðst B hafa setið frammi í en hann mundi ekki hvar félagar hans sátu. Þegar á staðinn var komið hafi C og D farið fyrstir út úr bifreiðinni og virst stefna á yfirgefið hús þar hægra megin, þangað sem ferð þeirra var heitið. Fyrirfram hefði verið um það rætt að ákærði myndi borga fyrir farið en hinir myndu borga fyrir áfengið. Ákærði, sem hafi verið verulega drukkinn, hafi eitthvað verið að röfla út af þessu og þeir hafi síðan eitthvað verið að röfla um þetta sín í milli. Einnig hafi ákærði verið með „einhvern kjaft“ í garð leigubílstjórans. Loks hafi sér verið farið að leiðast þófið. Þegar ákærði hafi einnig farið út úr bifreiðinni hafi honum fundist eins og hann væri skilinn einn eftir með að borga og fundist það ósanngjarnt miðað við það sem talað hefði verið um. Hafi hann því stungið hendinni í vasann í því skyni að kanna hvort hann ætti ekki næga peninga fyrir ökugjaldinu og þá hafi bílstjórinn allt í einu hrópað upp: „Æ, ég hef verið skorinn á háls.“ Sagði B að sér hefði brugðið mjög við þetta, enda hafi ekkert bent til þess að neitt af þessu tagi myndi gerast. Hann hafi ekki orðið var við að félagar hans hefðu hníf undir höndum og hann hefði aldrei orðið var við að ákærði beitti ofbeldi. Aðspurður kvaðst B telja að hann hafi séð ákærða fyrir utan bifreiðina fyrst eftir að ákærði fór út úr henni en ekki eftir að atlagan að bílstjóranum átti sér stað.

Í lögregluskýrslu sem tekin var af B daginn eftir árásina er haft eftir honum að ákærði hafi verið með einhverjar svívirðingar í garð leigubílstjórans eftir að ákærði hafði stigið út úr bifreiðinni. Andartaki eftir að bílstjórinn hafði verið skorinn hafi ákærði staðið fyrir utan bifreiðina en síðan gengið niður [...] í áttina að [...] og greikkað sporið. Síðar í lögregluskýrslunni var svo haft eftir B að algjörlega væri ljóst í sínum huga að ákærði hefði skorið leigubílstjórann. Svo sem áður greinir hringdi umræddur B í neyðarlínuna kl. 01.36 um nóttina og tilkynnti um atburðinn. Í upphafi ræðir B við starfsmann neyðarlínunnar og segir: „Það er leigubílstjóri hjá, hérna, og vinur minn, hann skar hann.“ Í framhaldi af því er gefið samband við lögreglu og segist B þá hafa verið að koma með leigubifreið og segir síðan: „Og svo var félagi sem var, hérna, með, og hann skar leigubílstjórann.“  B er þá spurður hver það sé sem hafi skorið bílstjórann og svarar hann þá svo: „Hann heitir ... Bjartur.“ Í sama mund kom lögregla á vettvang og er sími B þá opinn. Heyrist B segja: „Hann labbaði þangað, hann labbaði þangað.“ Spyr þá lögreglumaðurinn, sem kominn var á vettvang, hver hafi „labbað þangað.“ Því svarar B svo: „Þessi sem skar hann.“ Lögreglumaðurinn spyr þá hver það sé og svarar B: „Hann heitir Bjartur.“ Upplýst er í málinu að ákærði er kallaður Bjartur.

E bar fyrir dómi að hann hafi vaknað umrædda nótt við einhvern hávaða fyrir utan heimili sitt að [...] þar sem hann býr á efstu hæð. Hafi hann litið út um glugga á íbúðinni, sem snúi í norður, og hafi hann þá séð leigubifreið á götunni fyrir neðan með opnar dyr. Einnig hafi hann séð í bakið á manni sem hafi verið á hlaupum í norðurátt að [...] og hafi sá maður horfið fyrir horn á vélsmiðju sem þarna hafi staðið. Á svipuðum tíma kvaðst hann hafa séð hreyfingu fyrir utan yfirgefið hús, andspænis [...]. Hafi sér virst sem maður hlypi eða gengi hratt þar á bak við húsið, hægra megin frá sér séð. Aðra hafi hann ekki séð í sömu andrá en hins vegar hafi hann heyrt mannamál, hróp og köll. Meðal annars hafi verið kallað „hvað ertu búinn að gera, hvað ertu búinn að gera“, og stuttu síðar hafi hann séð ofan á mann í leðurjakka og gæti það vel hafa verið B.

Samkvæmt fyrirliggjandi endurritum af hljóðritun símtala hringdi A í neyðarlínuna kl. 01.36 umrædda nótt og tilkynnti að hann hefði verið skorinn á háls við starf sitt sem leigubílstjóri á móts við húsið nr. [...] við [...]. Var brugðist skjótt við af hálfu lögreglu og fjórar lögreglubifreiðar sendar þegar í stað á vettvang. Kom lögreglan á vettvang kl. 1.39 og handtók þá þegar B. Um hálfri klukkustund síðar var C handtekinn þar sem komið var að honum sofandi í áðurnefndu yfirgefnu húsi. Loks var D handtekinn á vettvangi um fimm mínútum síðar þegar hann kom gangandi þar að. Voru bæði C og D sagðir mjög ölvaðir og óviðræðuhæfir. Ákærði var hins vegar handtekinn eftir lýsingu A þar sem hann var á gangi í Austurstræti kl. 1.59. Stóðu lögreglumennirnir Bylgja Hrönn Baldursdóttir og Grétar Helgi Geirsson að handtöku ákærða í greint sinn. Skýrði Bylgja Hrönn svo frá fyrir dómi að ákærði hafi á leiðinni á lögreglustöðina bent á Grétar Helga og sagt: „Þið tveir verðið skornir á háls,“ og stuttu síðar hafi ákærði sagt að hann sjálfur yrði skorinn á háls. Hafi þessi ummæli hans verið algjörlega að tilefnislausu og án þess að lögreglumennirnir hefðu áður greint ákærða frá árásinni á leigubílstjórann, enda hafi þau haft mjög takmarkaðar upplýsingar um hana. Skýrði Grétar Helgi frá þessu atviki þannig að ákærði hafi sagt að þau ættu eftir að sjá hann skorinn á háls og síðan hafi hann bætt við: „Þið tveir glæpamennirnir, þið eigið eftir að verða skornir á háls líka.“

Eins og rakið hefur verið sáu hvorki A né B hver veitti A þann áverka sem hér um ræðir. Þegar framburður þeirra fyrir dómi og hjá lögreglu er virtur heildstætt þykir mega leggja til grundvallar að ákærði hafi setið fyrir aftan A í leigubifreiðinni. Eftir að C og D hafi yfirgefið leigubifreiðina hafi komið upp ágreiningur milli ákærða og B um hvor þeirra skyldi greiða ökugjaldið fyrir ferðina. Hafi ákærði þá stigið út úr bifreiðinni og A í sömu andrá rennt niður rúðunni í bílstjórahurðinni. Aðeins andartaki síðar hafi atlagan að A átt sér stað. Samkvæmt þessu verður hér ekki fallist á þann framburð ákærða fyrir dómi að hann hafi á leið sinni frá anddyri fjölbýlishúss mætt A kallandi „þeir skáru mig“, enda skilgreindi ákærði þennan framburð sinn nánast sem minningarbrot og virtist ekki sannfærður um að um raunverulega upplifun hans hafi verið að ræða. Fær þessi framburður hans heldur engan stuðning í fyrri framburði hans fyrir lögreglu né í geðheilbrigðisskýrslu þar sem meðal annars er vitnað í frásögn ákærða af því sem hann man frá umræddu kvöldi.  Samkvæmt þessu er það niðurstaða dómsins að sannað sé að ákærði hafi á sama tíma sem áverkinn var veittur staðið við hlið leigubifreiðarinnar, bílstjóramegin.

Af framburði þeirra A og B fyrir dómi má ráða að bæði D og C hafi farið út úr bifreiðinni strax eftir að hún staðnæmdist og að yfirgefnu húsi sem þá stóð andspænis [...]. Frásögn C af atburðum var einnig á þann veg að hann hafi strax farið út úr bifreiðinni og inn í umrætt hús og sofnað nánast um leið og þangað var komið en hann minntist þess þó ekki að D hafi komi þangað með sér. D er farinn af landi brott og tókst ekki að hafa uppi á honum fyrir aðalmeðferð málsins svo unnt yrði að kveðja hann fyrir dóminn. Í skýrslu sem hann gaf hjá lögreglu þann 27. júlí 2004 og fyrir dómi síðar þann dag á grundvelli b-liðar 1. mgr. 74. gr. a laga nr. 19/1991 skýrði hann frá því að hann og C hefðu farið fyrstir út úr bifreiðinni og farið inn í yfirgefna húsið. Enda þótt ljóst sé að bæði C og D hafi verið verulega ölvaðir í umrætt sinn og því nokkur hætta á ónákvæmni í framburði þeirra um atvik kvöldsins þykir þó verða að líta svo á, þegar framburður þeirra A, B, C og D er skoðaður í heild, að þeir C og D hafi báðir horfið að hinu yfirgefna húsi eða inn í það áður en atlagan að A átti sér stað. Samkvæmt þessu liggur ekkert fyrir um það í málinu að nokkur annar en ákærði hafi staðið við eða nálægt glugga leigubílstjórans þegar atlagan var gerð.

Fyrstu frásagnir þeirra A og B, bæði er þeir lýstu atburðinum í símtölum sínum við neyðarlínuna af vettvangi og fyrir lögreglu stuttu síðar, gefa skýrlega til kynna að enginn efi hefur þá verið í þeirra huga um að það hafi verið ákærði sem skorið hafi A á háls. Enda þótt A hafi fyrir dómi ekki getað beinlínis fullyrt að hann hafi horft framan í ákærða strax eftir atlöguna þá var lýsing hans þó mjög afdráttarlaus um að hann hafi séð ákærða hreyfa sig til hliðar við bílinn í áttina að [...] og að engum öðrum geti þar hafa verið til að dreifa.  

Með myndsakbendingu hjá lögreglu fletti A 43 myndum úr myndasafni lögreglunnar og vísaði hann þá á mynd af ákærða sem hann kvað vera manninn sem veitt hafi sér umræddan áverka.

Með framburði þeirra A og B Kristjánssonar, og með hliðsjón af öðru því sem hér hefur verið rakið, er það niðurstaða dómsins að ákærði hafi í greint sinn lagt fyrirvaralaust til A með óþekktu eggvopni þar sem A sat við opinn gluggann í ökumannssæti leigubifreiðar sinnar og beið greiðslu á ökugjaldi. Telur dómurinn að engum öðrum sé þar til að dreifa en ákærða og að hafið sé yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem í ákæru greinir.

Af læknisvottorði og framburði Hlyns Þorsteinssonar, sérfræðings á slysa- og bráðamóttöku Landspítala-háskólasjúkrahúss, verður ráðið að áverki sá sem A var veittur í umrætt sinn hafi verið veittur með beittu eggvopni en um hafi verið að ræða 18 sm langan skurð og tiltölulega beinan á hálsi A. Hafi sáralitlu mátt muna að áverkinn yrði lífshættulegur miðað við þau líffæri. Er það mat dómsins að ákærða geti ekki hafa dulist að atlagan var stórhættuleg og að bani gæti hæglega hlotist af henni. Þykir háttsemi ákærða því varða við 211. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 20. gr. sömu laga.

Sakhæfi.

Svo sem áður greinir gerði Tómas Zoëga geðlæknir rannsókn á geðheilbrigði ákærða að beiðni lögreglustjórans í Reykjavík. Samkvæmt niðurstöðu rannsóknar hans frá 10. september 2004 verða miklar hegðunarbreytingar á ákærða samfara áfengisneyslu og verður hann þá orðljótur, árásargjarn og stundum ógnandi. Að mati læknisins bar ákærði engin merki um geðrofssjúkdóm og þá hefur hann enga sögu um lyfjamisnotkun. Ákærði kom eðlilega fyrir í viðtölum og talaði um að áfengið hefði verið sitt böl alla ævi. Er það mat læknisins að ákærði hafi umrætt kvöld og nótt ekki verið haldinn geðveiki, andlegum vanþroska eða hrörnun sem komið hafi í veg fyrir að hann gæti stjórnað gerðum sínum. Hins vegar sé ljóst að hann hafi verið með rænuskerðingu vegna mikillar áfengisneyslu og sé minnisleysi alvarlegur fylgikvilli áfengisneyslunnar. Sé slíkur fylgikvilli vel þekktur og ekki ástæða til að draga frásögn ákærða um minnisleysi í efa. Er það álit geðlæknisins að engar læknisfræðilegar ástæður mæli gegn því að refsing geti borið árangur. Þá er það sömuleiðis mat hans að ákærði sé sakhæfur í skilningi 15. gr. almennra hegningarlaga.

Fallist er á það mat geðlæknisins að ákærði sé sakhæfur samkvæmt 15. gr. almennra hegningarlaga og að refsing geti borið árangur samkvæmt 16. gr. sömu laga.

Ákvörðun refsingar.

Ákærði hefur samkvæmt sakavottorði ekki sætt neinum refsingum sem hér geta skipt máli. Árás ákærða var lífshættuleg og án nokkurs tilefnis og hefur samkvæmt gögnum málsins valdið árásarþola verulegu tjóni, sérstaklega á sál, en einnig líkama. Ekki er neitt vitað hvað ákærða gekk til með verknaði sínum en ljóst er að hann átti ekkert sökótt við árásarþola. Ráða má af rannsókn á geðheilbrigði ákærða að miklar hegðunarbreytingar verða á honum samfara áfengisneyslu. Verður því að telja verulegar líkur á að orsakir árásarinnar megi rekja til þeirra breytinga sem verða á skapgerð og atferli ákærða þegar hann neytir áfengis. Þegar allt framangreint er virt og með vísan til 1. og 2. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga er refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 5 ár. Til frádráttar refsingu kemur, með fullri dagatölu, óslitið gæsluvarðhald ákærða frá 27. júlí 2004 til 23. febrúar 2005, sbr. 76. gr. almennra hegningarlaga.

Bótakrafa og sakarkostnaður.

Af hálfu A er gerð krafa um bætur úr hendi ákærða að fjárhæð 2.640.371 króna samkvæmt XX. kafla laga nr. 19/1991 auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 27. júlí 2004 til 11. september 2004 en síðan dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga. Einnig er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða þóknun réttargæslumanns. Kröfu sína sundurliðar bótakrefjandi með eftirfarandi hætti:

1.     Miskabætur skv. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993kr.  2.500.000

2.     Þjáningabætur skv. 3. gr. skaðabótalagakr.       14.700

3.     Útlagður læknis- og lyfjakostnaðurkr.     125.671

Samtals krafakr.  2.640.371

Ákærði hefur mótmælt kröfunni.

Ákærði hefur orðið uppvís að ólögmætri og alvarlegri meingerð gagnvart A sem hefur samkvæmt gögnum málsins haft veruleg áhrif á líf hans. Er ekki séð fyrir endann á afleiðingum verknaðarins á þessari stundu en með réttri meðferð standa vonir þó til að úr áhrifunum dragi eftir því sem lengra líður frá atburðinum. Samkvæmt því eru miskabætur hæfilega ákveðnar 1.500.000 krónur. Jafnframt er fallist á að ákærði greiði læknis- og lyfjakostnað sem lagður hefur verið út af hálfu brotaþola. Loks er krafa um þjáningabætur tekin til greina eins og hún er fram sett. Ber því að dæma ákærða til að greiða samtals 1.640.371 krónu ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 27. júlí 2004 til 8. janúar 2005 og dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Útlagður kostnaður vegna máls þessa er nú samtals 1.969.488 krónur. Samkvæmt yfirliti þar um er þar meðal annars um að ræða kostnað að fjárhæð 510.023 krónur vegna rannsóknar á blóð- og þvagsýnum þeirra sem voru farþegar í leigu­bifreiðinni með ákærða umrædda nótt. Inni í framangreindri fjárhæð eru jafnframt  málsvarnarlaun og réttargæsluþóknun samtals að fjárhæð 933.750 krónur vegna fyrri meðferðar máls þessa fyrir héraðsdómi sem lyktaði með sýknudómi uppkveðnum 23. febrúar 2005 eins og fyrr var rakið. Þykir rétt að ákærði greiði 850.000 krónur af hinum útlagða kostnaði. Að þessu virtu verður ákærða því gert að greiða samtals 1.320.000 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 400.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og 70.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti í réttargæsluþóknun til Guðbjarna Eggertssonar héraðsdómslögmanns.

Af hálfu ákæruvaldsins var málið flutt af Kolbrúnu Sævarsdóttur, saksóknara.

Héraðsdómararnir Ásgeir Magnússon, sem dóms­formaður, Friðgeir Björnsson og Hervör Þorvaldsdóttir kváðu upp dóminn.

D ó m s o r ð

Ákærði, Guðbjartur J. Sigurðsson, sæti fangelsi í 5 ár. Til frádráttar komi gæslu­varðhaldsvist hans frá 27. júlí 2004 til 23. febrúar 2005.

Ákærði greiði A 1.640.371 krónu ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 27. júlí 2004 til 8. janúar 2005 og dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði 1.320.000 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 400.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og 70.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti í réttargæsluþóknun til Guðbjarna Eggertssonar héraðsdómslögmanns.