Hæstiréttur íslands
Mál nr. 548/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Föstudaginn 10. október 2008. |
|
Nr. 548/2008. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu(Jón H. B. Snorrason saksóknari) gegn X(Helgi Jóhannesson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. október 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. október 2008, þar sem fallist var á kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 20. nóvember 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að honum verði gert að sæta farbanni í stað gæsluvarðhalds.
Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. október 2008.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að dómurinn úrskurði að X, kt. [...], [...], Reykjavík, verði áfram gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 20. nóvember 2008, kl. 16:00.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi til rannsóknar stórfellt fíkniefnabrot, innflutning á fíkniefnum frá Hollandi gegnum Danmörku til Íslands. Þann 10. júní sl. hafi hollenski ríkisborgarinn Y verið handtekinn við komu til Íslands, Seyðisfjarðar, með Norrænu. Í húsbíl Y hafi fundist tæp 200 kg af ætluðum fíkniefnum, mest hass. Y hafi játað að hafa tekið að sér að flytja fíkniefnin til landsins.
Við rannsókn málsins hafi héraðsdómur úrskurðað um heimild lögreglu til að fá afhent gögn varðandi síma þá sem Y hafi verið með og símanúmer þeim tengdum. Við skoðun þeirra gagna hafi komið fram ítrekuð samskipti við aðila sem Y segi vera Íslending kallaðan ,,Kimma“, sem hann hafi átt að afhenda efnin hér á landi. Kveðist Y hafa hitt „Kimma“ bæði í Amsterdam og hér á Íslandi á árinu 2007. Y segist hafa komið í sama tilgangi árið 2007, þ.e. að flytja fíkniefni fyrir “Kimma” til landsins.
Allar upplýsingar sem fram hafi komið við rannsókn lögreglu bendi til að “Kimmi” sé kærði. Við skýrslutökur hjá lögreglu hafi kærði alfarið neitað sök og kannist ekki við að þekkja Y.
Upplýsingarnar frá símafyrirtækjum, sem veittar voru skv. dómsúrskurði, sýni að sími kærða hafi færst austur á land á nákvæmlega sömu tímum og Y hafi komið til landsins árið 2007 og fylgi síminn í raun staðsetningum á landinu, sem Y segist hafa verið með ,,Kimma” á.
Við fyrstu yfirheyrslur hafi kærði alfarið neitað að þekkja Y og að hafa hitt hann hér á landi. Þegar framangreindar símaupplýsingar hafi verið bornar undir kærða þá hafi hann sagst bara ferðast mikið um landið en ekki getað skýrt ferðir sínar nánar. Við yfirheyrslu hjá lögreglu 16. júlí sl. hafi kærði svo breytt framangreindum framburði sínum og kvaðst hafa hitt Spánverja að nafni ,,Rabido” 5. júlí 2007 á Seyðisfirði. Hafi Spánverjinn verið á rauðum húsbíl og hafi kærði hitt hann vegna samkomulags sem hann hefði gert við spænska ferðaskrifstofu um að fylgja hópi spænskra ferðamanna um Ísland, en þessi Spánverji hafi komið einn til landsins. Lögregla hafi reynt að fá staðfestingu á þessum framburði kærða en umrædd ferðaskrifstofa finnist hvergi á Spáni. Við skoðun á tölvu kærða hafi fundist skrá undir heitinu “contacts” og hafi þar verið að finna nafnið Rabit og undir því sé skráð hollenskt farsímanúmer Y. Greind færsla hafi verið færð í tölvuna þann 20. maí 2007, daginn eftir að kærði komi til Íslands úr ferð frá Hollandi. Við skoðun á dagatali í farsíma kærða hafi verið skráðar áminningar 8. og 9. júní sl. “Eric /Rabit”, sem bendi til þess að áminning sé um komu Y til landsins, en hann hafi verið handtekinn þann 10. júní sl. Í dagatali farsíma kærða hafi einnig fundist áminning 17. Janúar, áminning er “Rabit”, en 17. janúar sé afmælisdagur Y.
Sambærileg skoðun hafi farið fram á símanúmerinu [...] sem Y hafi við yfirheyrslur sagt vera símanúmer ,,Kimma” og sú skoðun sýni fram á að símarnir [...] (sem sé skráður á X) og [...] hafi í fjölmörg skipti verið staðsettir á sama stað á landinu. Þá beri símarnir áþekka kveðju í talhólfi og hljómi röddin í talhólfunum eins.
Gögn lögreglu sýni fram á ítrekuð samskipti [...] við Y á árinu 2008 og hafi Y sagt þessi símtöl snúast um að “Kimmi” hafi verið að boða komu sína til Amsterdam og þá að boða til fundar. Þessi símtöl hafi iðulega farið fram 1-2 dögum áður en gögn lögreglu sýni að kærði hafi ferðast til Amsterdam. Í minnisbók í eigu Y sem haldlögð hafi verið í þágu rannsóknarinnar séu hvoru tveggja símanúmerin [...] og [...] undir nafninu “Kimi”.
Í myndsakbendingu hjá lögreglu sem staðfest hafi verið fyrir dómi, hafi Y bent á kærða sem “Kimma”, skipuleggjanda innflutnings bæði árið 2007 og 2008 og eiganda þeirra fíkniefna sem flutt voru til landsins. Kveðist Y hafa hitt “Kimma” oftar en einu sinni, bæði í Amsterdam þar sem lagt hafi verið á ráðin um innflutninginn og þegar Y hafi komið til Íslands árið 2007.
Gögn frá símafyrirtækjum beri einnig með sér samskipti milli símanúmersins [...] og númera frá þýsku pari sem hafi komið til landsins í haustbyrjun 2007 á húsbíl með ferjunni Norrænu. Grunur sé um að þýska parið hafi komið til Íslands í sama tilgangi og Y, þ.e. til að flytja inn fíkniefni til landsins að beiðni kærða. Við yfirheyrslur hjá lögreglu hafi kærði viðurkennt að hafa hitt umrætt par hér á landi sumarið 2007 í þeim tilgangi að sýna þeim landið. Rannsóknaraðgerðir séu hafnar í Þýskalandi á grundvelli réttarbeiðni sem þangað hafi verið send. Þar hafi komið fram að karlmaðurinn sem kom til landsins og móðir hans hafi tjáð sig við lögreglu um að hafa verið í símasambandi við kærða, en skv. símagögnum sjáist engin samskipti þeirra á milli, aðeins samskipti við farsímanúmerið [...], sem eins og áður greinir er númer “Kimma”. Húsleit var gerð hjá greindum aðilum og fannst þar lítið magn af kannabisefnum
Gögn frá símafyrirtækjum beri einnig með sér samskipti kærða við spænskt símanúmer, en þann 23. ágúst 2007, sama dag og Y hafi farið frá Íslandi eftir ætlaðan fyrri innflutning fíkniefna sem Y greini frá, hafi verið sama spænska símanúmerið í samskiptum við síma kærða [...] kl. 13.32, stutt samtal, og við síma Y kl. 13:34, en því símtali hafi ekki verið svarað. Að lokum hafi verið hringt úr sama spænska númeri í númer ,,Kimma” [...]. Beðið sé upplýsinga frá Spáni varðandi greint símanúmer. Í símabókum kærða og Y sé að finna fleiri en eitt símanúmer á konu kallaða Z. Eftir fyrirspurnir lögreglu hafi nú komið í ljós um hvaða konu sé að ræða og verði send réttarbeiðni til erlendra lögregluyfirvalda varðandi skýrslutöku af henni.
Auk framangreinds hafi verið að finna hollenskt farsímanúmer undir nafninu “Kimmi” í síma Y. Sama símanúmer sé undir nafninu “MU MU NI” í síma kærða, en hann kveði að um sé að ræða dreng af arabískum uppruna sem hann hafi ekki getað gert frekari grein fyrir. Við hringingu í greint númer komi eins svörun og á talhólfi [...] og talið að um kærða sé að ræða. Þá veki það athygli að öryggisnúmer inn í talhólf símans sé sama og pin númer inn á gsm síma kærða og sama númer sé öryggisnúmer inn í talhólf símans [...]. Sé grunur um að greint hollenskt farsímanúmer hafi verið notað af kærða er hann var staddur erlendis í samskiptum við ætlaða samstarfsaðila. Réttarbeiðni hafi verið send hollenskum lögregluyfirvöldum varðandi það að afla upplýsinga um framangreint símanúmer auk upplýsinga um símanúmer Y, svo unnt sé að kanna með hvort tengingar séu þar á milli. Beðið sé svars frá Hollandi
Skoðun á fjármálum kærða sýni mikinn neikvæðan lífeyri árin 2007 og það sem af sé ári 2008. Neikvæður lífeyrir sé það fjármagn eða óútskýrðar tekjur sem ekki sé hægt að rekja til launa eða lögmætrar atvinnustarfsemi. Þá hafi lögregla upplýsingar um innistæður kærða í banka í Luxembourg, þar sem aflétt hafi verið bankaleynd og sé von á gögnum hvað það varði innan skamms. Af skoðun á bráðabirgðagögnum endurskoðenda sem fengnir hafi verið af lögreglu til að yfirfara fjármál kærða megi sjá að skýringar sem kærði hafi gefið varðandi hagnað af rekstri tiltekinna fyrirtækja standist illa.
Y hafi nú breytt framburði sínum hjá lögreglu, en hann hafi óskað eftir því nokkrum dögum eftir að kærði hafi verið laus úr einangrun og gæslulvarðhaldið að öðru leyti án takmarkana skv. 1. mgr. 108. gr. laga um meðferð opinberra mála. Hafi Y og kærði þá báðir verið vistaðir á Litla-Hrauni og hafi því átt möguleika á að eiga samskipti þar, auk þess sem Y hafi borið um að hann og kærði hafi rætt saman. Litlar skýringar hafi fylgt breyttum framburði Y og sé hann metinn mjög ótrúverðugur í ljósi annarra gagna málsins og þess framburðar sem Y hafði áður haldið sig við og staðfest fyrir dómi.
Framburður kærða hjá lögreglu hafi verið metinn mjög ótrúverðugur, þá með hliðsjón af gögnum sem aflað hafi verið við rannsóknina, framburði meðkærða Y og framburði vitna. Eigi það hvoru tveggja við um ætlaðan fíkniefnainnflutning sem slíkan og skýringar á fjármálum.
Kærði hafi sætt gæsluvarðhaldi vegna málsins frá 2. júlí sl. á grundvelli a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19,1991 um meðferð opinberra mála og frá 5. september sl. á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 483/2008.
Með vísan til alls framangreinds og hjálagðra gagna telur lögreglustjóri að fram sé kominn sterkur rökstuddur grunur um aðild kærða að stórfelldum fíkniefnabrotum. Ætluð aðild kærða sé talin felast í skipulagningu og fjármögnun fíkniefnainnflutningsins og dreifingu og sölu fíkniefnanna hér á landi.
Í málinu hafi verið haldlagt mjög mikið magn af fíkniefnum, sem nær öruggt þyki að hafi átt að fara í sölu og dreifingu til ótiltekins fjölda manna hér á landi. Með tilliti til hagsmuna almennings þyki þannig nauðsynlegt að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi á meðan mál hans sé til meðferðar en telja verði að ef sakborningur, sem orðið hafi uppvís að jafn alvarlegu broti og kærði gangi laus áður en máli ljúki með dómi þá valdi það hneykslun í samfélaginu og særi réttarvitund almennings. Staða kærða í málinu þyki sambærileg stöðu sakborninga í sambærilegum málum, sem dæmd hafa verið í Hæstarétti, þar sem sakborningum hafi verið gert að sæta gæsluvarðhaldi fram að uppkvaðningu dóms þegar legið hafi fyrir rökstuddur grunur um beina aðild að innflutningi að miklu magni fíkniefna í ágóðaskyni. Í engu framangreindra mála hafi þó verið um eins mikið magn fíkniefna að ræða og í þessu máli. Þá hafi Hæstiréttur fallist á með dómi í máli nr. 483/2008 að uppfyllt séu skilyrði 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála varðandi gæsluvarðhald kærða í þessu máli.
Til rannsóknar séu ætluð brot gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, ásamt síðari breytingum, sem varðað geta allt að 12 ára fangelsi. Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Kærði hefur mótmælt kröfunni og telur að farbann muni nægja til að tryggja nærveru sína.
Hér að framan hefur verið rakin greinargerð lögreglustjóra sem er samantekt á því sem fram hefur komið við rannsókn málsins og hafa þau gögn verið lögð fyrir dóminn. Þá hafa og verið lögð ný gögn fyrir dóminn sem verjandi kærða hefur ekki fengið aðgang að. Öll þessi gögn renna sterkum stoðum undir þær röksemdir lögreglu að kærði hafi framið brot gegn nefndri grein almennra hegningarlaga. Kærði er þannig undir grun um að hafa framið brot sem getur varðað allt að 12 ára fangelsi og er eðli og umfang þess slíkt að fallast ber á að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Með vísun til þessa fellst dómurinn á að fullnægt sé skilyrðum 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 og verður því orðið við kröfunni eins og hún er fram sett.
Arngrímur Ísberg kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 20. nóvember 2008, kl. 16:00.